
Sennilega verður því ekki mótmælt að Guðjón Samúelsson arkitekt teiknaði fleiri góð hús en nokkur annar arkitekt á síðustu öld.
En í því sambandi má maður ekki gleyma því að enginn annar arkitekt fékk jafn mörg tækifæri og hann, enda vann Guðjón lengst af í pólitísku skjóli Jónasar frá Hriflu. Verk Guðjóns eru fjarri því að vera öll góð. Í mínum huga bera þrjú af. Það eru Þjóðleikhúsið, Laugarneskirkja og Sundhöllin í Reykjavík sem hér er til umfjöllunnar.
Það hefur löngum verið ljóst að það hefur vantað útisundlaug í miðborgina. Þetta hefur borgaryfirvöldum verið ljóst og ákváðu því nýlega að hana skildi reisa og tengja Sundhöll Guðjóns við Barónsstíg.
Ákveðið var að efna til samkeppni um „Viðbyggingu við Sundhöllina“ og var samkeppnin auglýst í Júni 2013. Niðurstaðan lá fyrir í byrjun þessa mánaðar. Alls bárust 23 tillögur en tvær þóttu ekki dómtækar af ástæðum sem ekki hafa verið skýrðar.
Tillagan sem var best að mati dómnendar var eftir arkitektana hjá VA arkitektum. Hún er falleg og vel fram sett og eru höfundarnir vel að sigrinum komnir. Ég ætla ekki að fjalla frekar um vinningstillöguna hér enda lýsa hjálagðar teikningar og tölvumyndir verkinu betur en mörg orð. Allir sjá að hún er hlaðin góðum kostum.
Þó verð ég að segja að á tillögunni eru tveir stórir gallar að mínu mati. En gallana má að mestu rekja til forsagnar sem samin var af dómnefnd.
Í forsögninni var ætlast til að gerður yrði nýr inngangur í Sundhöllina þannig að aðalinngangur yrði um viðbygginguna.
Þetta eru að mínu mati mistök.
Þegar Sundhallarbyggingin er lesin, rýnd og kostirnir greindir þá blasir við hvað inngangurinn hefur sterka stöðu í hönnun Guðjóns og hvaða hlutverki hann gegnir fyrir utan að vera bara inngangur.
Inngangurinn er fyrir miðjum sundlaugarsalnum og þegar gengið er inn í anddyrið blasir við er glerjuð hurð sem sýnir manni inn í afskaplega fallega hlutfallaðann laugarsalinn. Við enda salarins eru 5 gluggar, oddatala, þannig að einn gluggi er í miðjunni.
Upplifun gestsins er af sama toga og þegar gengið er í Guðshús. Þar er stefnan tekin að altarinu. Í Sundhöllinni sér gesturinn sundlaugarsalinn og veit hvert hann stefnir, En hann leggur likkju á leið sína um búningsklefana. Hann veit hvert hann er að fara.
Þetta er eitt af megineinkennum Sundhallarinnar. En svona á þetta ekki að vera lengur samkvæmt forsögn dómnefndar. Það á ekki bara að fletja þessa upplifun út heldur að láta hana hverfa og ganga inn um viðbygginguna. Aðalbyggingin er að þessu tilliti lögð til hliðar.
Þegar um er að ræða sögulega glæsibyggingu sem Sundhöllin er, þá er sjálfsagt að ganga inn um aðalinngang höfuðbyggingarinnar, ekki um hliðarhús. Þetta er hin almenna regla þegar byggt er við virðulegar og framúrskarandi sögulegar byggingar sem eru tímamótaverk byggingarlistarsögunnar. Að flytja aðalinnganginn yfir í viðbyggingna verður til þess að móðurbyggingin, sem fólki er annt um, verður í öðru sæti þegar horft er til starfseminnar og upplifun gestanna.
Auðvitað átti í forsogn að krefjast þess að gengið yrði inn um gamla innganginn þannig að gestir upplifi í örstuttri andrá gamla sundhallarsal höfuðbyggingarinnar áður en haldið er til hægri að útilauginni og afgreiðslu í viðbggingunni.
Hitt atriðið sem skiptar skoðanir eru um er að laugarnar tvær í vinningstillögunni eru á sitt hvorri hæðinni. Það liggja vissulega veigamikil rök fyrir að færa útilaugina heila hæð niður og koma þar búningsklefar kvenna gamla hússins og fyrirferð í landinu til álita. En ég sem funktionalist tel þau vega léttar en hin starfrænu rök.
Samnýting lauganna tveggja, úti og inni, er mjög mikilvæg og auðvelt er að hugsa sér sviðsmyndir þar sem ljóst verður að það er bagalegt að hafa laugakerin tvö á tveim plönum. Það heftir starfssemina á margan hátt og er nánast óásættanlegt.
Þetta síðarnefnda verður ekki lagfært í vinningstillögunni enda byggir hún bókstaflega á þeirri meginhugmynd. Hinsvegar vona ég að hægt verði að endurskoða innganginn og gefa gestum tilfinningu fyrir staðnum með því að bjóða þá velkomna um gamla aðalinnganginn.
Það vakti sérstaka athygli mína að tvær tillögur voru ekki teknar til dóms og fengu ekki umsögn. Það var ekki einusinni að finna í gögnum dómnefndar rökstuðning fyrir höfnuninni. Höfunda er ekki getið og tillögurnar koma ekki fram í veglegu dómnefndaráliti. En hinsvegar eru þær til sýnis með öðrum tillögum. Mér skilst að þær hafi ekki verið teknar til dóms vegna þess að þær fóru út fyrir byggingareit, ekki lóðarmörk.
Það er óvenjulegt að veita tillögugerð af þessu tagi ekki umsögn og leyna því hverjir höfundar eru.
Hinsvegar er ekki eðlilegt að veita slíkum tillögum verðlaunasæti undir venjulegum kringumstæðum. En hér voru ekki venjulegar kringumstæður. Það var upplýst í keppnisgögnum að til stóð að endurskoða deiliskipulag svæðisins. þar með var gefið undir fótinn að von væri um meira frelsi á svæðinu en gildandi deiliskipulag segir til um og nýttu tillöguhöfundarnir tveir þetta op í keppnislýsingunni með aldeilis ágætum árangri.
Ég birti hér strax að neðan mynd af annarri tillögunni sem ekki var tekin til dóms. Höfundarnir, arkitektarnir hjá teiknistofunni Arkitektúr.is, sáu að byggingareitur var of þröngur en lóðin nægjanlega stór til þess að hægt væri að laða fram starfræna lausn sem styrkir einkenni Sundhallarinnar og gaf tækifæri til betri starfrænni lausnar. Það gerðu þeir með því að byggja austan við Sundhöllina og tengja laugarkerin og pottanna saman um háu gluggana til austurs eins og glöggt má sjá á myndinni að neðan. Allt innan lóðarmarka.
Þetta var áræðið framtak höfundanna sem sýndi að með rýmri kröfum og víðari tækifærum í endurskoðuðu deiliskipulagi var tækifæri til þess að laða fram betri lausn en núverandi deiliskipulag gaf tkifæri til. Deiliskipulag sem dómnefnd sagði að ætti að endurskoða. Frumkvæði af þessum toga ætti að lofa, ekki setja í skammarkrókinn. Sérstaklega þegar þessari gagnrýni á forsögn fylgdi lausnamiðuð hugmynd með afar fallegri samkeppnistillögu.
Næsta mynd hér að neðan sýnir tillögu Arkitektúr.is sem ekki var tekin til dóms. Síðan koma nokkrar myndir af vinningstillögunni og loks neðst hugleiðing um samkeppnir arkitekta almennt.

Hér sést hvernig Sundhöll Guðjóns Samúelssonar nýtur sérkenna sinna frá sundlaugarsvæðin og tengs við innisundlaugna og búningsklefa eru áberandi fyrir sundlaugargesti. Tillagan var ekki tekin til dóms líklega vegna þess að hún fór útfyrir byggingarreit í deiliskipulagi sem lýst hefur verið yfir að eigi að endurskoða og breyta.
Að neðan koma svo myndir af verðlaunatillögunni sem er eins og áður er getið vel leyst, í samræmi við keppnislýsingu og höfundum til sóma.

Þess mynd sýnir aðkomu viðbyggingarinnat frá Barónsstíg

Isometri neðri æðar

Ísometri inngangshæðar

Ísometría sem synir viðbygginguna frá suðaustri.
Aðkoma þar sem sést niður að útilaugarsvæðinu.
Hér má lesa innra fyrirkomlag viðbyggingar
Ný og fyrirhuguð útilaug í miðbæ Reykjavíkur. Skemtileg o áberandi námd við meistaraverk Guðjóns Samúelssonar sem sést til hægri. En hætt er við að mikill fjöldi gesta kynnit aldrei höfuðbygginunni vegna umdeidrar staðsetningu aðlinngangs.
Af gefnu tilefni langar mig að segja nokkur orð um samkeppnir arkitekta almennt.
Samkeppnir arkitekta er meira mál en nokkurn sem ekki þekkir til grunar. Það er margreynt og vitað að baki hverrar tillögu liggja 600 – 800 klukkustunda vinna. 600 klukkustundir eru fjórir mannmánuðir. Þennan tíma taka arkitektarnir af frítíma sínum. Gæðastunda með fjölskyldu og vinum. Ef umreikna á þá vinnu sem liggur að baki tillögunum 23 í Sundhallarsamkeppninni krónur og aura þá er þarna upphæð sem nemur milli 70 og 180 milljónum króna, breytilegt eftir forsendum.
Þess vegna er siðferðilega rétt að bera virðingu fyrir hverri einustu tillögu 0g meðhöndla hana af tillitssemi og virðingu.
Því er ekki þannig farið.
Það trúir því auðvitað ekki nokkur maður en það er lenska hér að dómnefnd tali niður til tillagnanna og stundum beinlínis niðurlægir hún höfunda. Þetta er svo algengt að manni liggur við að halda að þetta sé af ásetningi gert.
Til þess að skýra algengan hroka dómnefna gagnvart keppendum tek ég hér dæmi af umsögn um adeilis ágæta tillöguí Sundhallarsamkeppninni sem unnin var af tveim af okkar flinkustu arkitektum og margverðlaunuðum. Tillagan var að mínu mati vel yfir meðallagi að gæðum. Ég hefði ekki verið í vandræðum með að finna kosti hennar og draga þá fram í texta þannig að keppendurnir fengu á tilfinninguna að dómararnir hefðu skilið tillögugerðina og þær góðu hugmyndir sem þar koma fram.
Dómnefndin í samkeppni um viðbyggingu við Sundhöllina völdu hinsvegar að draga fram eins marga galla og mögulega var hægt að koma fyrir í textanum sem er svona:
„Hlutföll viðbyggingar taka mið af Sundhöllinni en útlit er ekki sannfærandi. Sundlaugarsvæði og útigarður eru aðþrengd og tenging milli veitingasölu og útisvæðis engin. Lendingarlaug við vatnsrennibraut er ekki í góðum tengslum við laugarsvæðið. Ferilmál eru almennt ekki góð og aðgengi fatlaðra á neðri hæð áb´´otavant. Form grunnmyndar vinnur ekki með notagildinu en staðsetning útiklefa er góð.“
Þetta voru sem sagt launin fyri 600-800 vinnustundir og fjarveru frá fjölskyldu, börnum og vinum. Þegar dómnefnd stóð upp frá þeirri veislu sem höfundar buðu uppá voru þetta þakkirnar.
Ég þekki arkitekta sem ekki fóru með dómnefndarálit heim til sín til þess að særa ekki maka sinn og börn þegar þau læsu dómnefnraálitið. Þetta var vegna fangelsisins á Hólmheiði þar sem túlka mátti texta dómnefndar sem refsingu til handa keppenda fyrir þáttökuna. Kannski í samræmi við verkefnið, sem var fangelsi. En ég endurtek, þessi hroki er frekar regla en undantekning
Dómnefnd þiggur laun fyrir sína vinnu og tekur enga áhættu. Keppendur taka engin laun og bera alla áhættuna. Þrátt fyrir þetta er í tillögu til breytinga á samkeppnisreglum AÍ sem er fysis á aðalfundi félagsins í komandi viku lagt til að eftirfarandi setningu verði bætt við 3. grein samkeppnisreglna AÍ: „Með afhendingu á tillögu í samkeppni, telst þátttakandi samþykkja dómnefnd og keppnisgögn, og að hann muni virða niðurstöðu dómnefndar.” Þetta er skilyrðislaust ákvæði. Fyrri hlutinn er ásættanlegur en sá síðari (feitletraði) er það ekki. Þar er verið að segja að með því að senda inn tillögu í samkeppni muni keppandi athugasemdarlaust taka við hverju sem er og dómnefnd lætur frá sér fara um hugverk hans og sköpun. Þetta er gróteskt hugarfar og ákvæði sem hlýtur að verða fellt út á aðalfundinum því auðvitað eiga menn ekki að afsala sér rétt til þess að verja verk sitt!
Þarna er verið að styrkja stöðu dómnefnda og draga úr rétti keppenda til að andmæla. Keppenda sem leggja allt undir.
Ætti ekki fekar að auka réttindi keppenda, vernda rétt þeirra athugasemda við dóminn og skerpa á ábyrgð díomnefnda þannig að þær þurfi að gera grein fyrir dómsorðinu. Jafnvel búa til ákvæði í reglunum um að fulltrúar keppenda fái tækifæri til andmæla. Jafnvel að setja inn ákvæði um að verðlaunaðar tillögur og keppnislýsing verði samlesin af hlutlausum aðilum að loknum dómi.
Það er rétt að taka það fram að pistlahöfundur var ekki þáttakandi í Sundhallarsamkeppninni en hefur tekið þátt í tug keppna og unnið til verðlauna og viðurkeninga í á fjórða tug arkitektasamkeppna. Þetta er því skrifað hér af reynslu.