Sunnudagur 1.12.2013 - 02:08 - 12 ummæli

Ósýnilegt hótel á Þingvöllum?

 

 

Þingvellir_2006lettmjoglett

Er ekki ráð að byggja “ósýnilegt” hótel og veitingahús á Þingvöllum?

Eins og flestir vita eru Þingvellir á heimsminjaskrá UNESCO. Það eru líka Píramítarnir í Egyptalandi og Stonehenge á Bretlandseyjum.

Allt mikil veraldarundur.

Krónborgarkastali í Helsingör á Sjálandi er einnig á heimsminjaskrá UNESCO.  Þar í næstu grösum var áveðið fyrir nokkrum árum að byggja sjóminjasafn.

Ein megin krafan sem gerð var,  sem kom að mér skilst frá UNESCO, var að sjóminjasafnið yrði ekki sjáanlegt þegar horft var til kastalans eða frá honum. Safnið átti að vera “invisible”!

Efnt var til samkeppni meðal arkitekta þar sem hinn ungi dani Bjarke Ingels bar sigur úr bítum. Safnbygging hans er eins og óskað var eftir, ósýnileg.

Lengi hefur staðið til að byggja hótel og þjónustuhús í tengslum við þjóðgarðinn að Þingvöllum.  Áformin hafa verið rædd síðan löngu áður en Valhöll brann fyrir nokkrum árum. Það eru 42 ár síðan sameppni var haldin um framtíð Þingvalla og þar með staðsetningu hótels.

Mikið væri það ánægjulegt ef UNESCO gerði svipaðar kröfur og í Danmörku og krefðust þess að nýtt hótel á Þingvöllum  yrði ósýnilegt þeim sem fara um svæðið til þess að njóta þess sem það hefur upp á að bjóða.

Fyrir nokkru var frá því sagt í Morgunblaðinu að Þingvallanefnd væri að velta fyrir sér staðsetningu byggingar sem koma á í stað göml Valhallar. Í blaðinu kom fram að þjóðgarðsvörður hafi snúið sér til verkfræðistofu til þess að meta hvar best væri að byggja.  Já “verkfræðistofu” var falið að finna hentugan stað fyrir hótel og veitingahús á Þingvöllum.  Þetta er  furðulegt þegar það er vitað að hér á landi er fjöldi landslagsarkitektastofa, arkitektastofa og fleiri sem búa yfir sérfræðiþekkingu um staðsetningu bygginga í landslaginu.

Ef ég skildi fréttina rétt þá nálguðust verkfræðingarnir lausnina með verklagi verkfræðinnar og á hennar forsendum í stað þess að nálgast lausnina á forsendum náttúrunnar, sögunnar og staðarins og ekki síður (listrænna) tilfinninga (kannski mikilvægasta forsendan). Verkfræðileg nálgun er auðvitað  kolvitlaust í þessu tilfelli. Mátti jafnvel skilja á Morgunblaðinu að niðurstaða verkfræðinganna hafi verið að byggja ætti í grennd við Hakið og vógu frárennslismál þar þungt(!).

Við Krónborgarkastala var farin önnur leið. Þar sneru menn sér til fagmanna, arkitekta og landslagsarkitekta og báðu þá um að koma með tillögu um nánast ósýnilegt hús samkvæmt ósk UNESCO ef ég skil rétt.

Haldin var samkeppni sem arkitektinn Bjarke Ingels vann. Bjarke brá á það ráð að nýta sér þurrkví fyrir skip sem þarna var og koma safninu fyrir neðanjarðar í tengslum við kvínna. Markmiðið var, eins og það var orðað, að byggja “ósýnilegt” safn á þessum stað.

Það má segja að það hafi tekist.

Að neðan eru nokkrar ljósmyndir af byggingu arkitektsins ásamt slóð að stuttu myndbandi þar sem Bjarke Ingels útskýrir vinningstillögu sína í samkeppninni. Það er alltaf gaman að hlusta á Bjarka, hann hefur afskaplega sterka sýn á verk sín og mikinn sannfæringarkraft. Í ljósi niðurstöðu í nýafstaðinni samkeppni um Sundhöll Reykjavíkur er fróðlegt að kynna sér niðurstöðuna hér, en Bjarke braut keppnislýsinguna sem gaf honum tækifæri til þess að hugsa út fyrir rammann og laða fram betri lausn en dómnefnd sá fyrir.

Kröfur um ósýnilegt hús og þessi nálgun leiðir hugan að því hvort ekki sé ráð að fara svipaða leið á Þingvöllum. Fá sérfræðinga til þess að velja byggunum stað og bjóða svo hugmyndaríkum arkitektum til þess að hanna hús sem er nánast ósýnilegt.

Neðst koma  nokkrar myndir af nýlegum hugmyndum arkitekta um hvernig þeir sjá fyrir sér byggingu í Þjóðgarðinum.

Hér er slóð að frekara efni um sjóminjasafnið:

http://www.wired.com/design/2013/11/this-museum-is-invisible-until-you-look-down/#slideid-299491

Og ér er stutt skemmtilegt myndband þar sem Bjarke Ingels segir frá húsi sínu og samkeppninni.

http://arkitekturtv.dac.dk/video/422439/sfartsmuseum-i-helsingr 

big2-sof-image-by-luca-santiago-mora-05_original

CRW_2767_RT8_Helsingor

Hér að neðan koma nokkrar myndir  af hugmynd arkitekta um byggingu í þjóðgarðinum á Þingvöllum. Þessar myndir eru settar hér inn til þess að skýra þessar tvær nálganir sem vissulega ganga í sitt hvora áttina. Önnu er svo hógvær að maður gæti haldið að höfundurinn sé fullur lotningar og jafnvel haldinn svo mikilli minnimáttarkennd að hann skammist sín fyrir verk sitt og svo hinn sem er fullur sjálfstrausts og telur sig valda öllu sem fyrir hann er lagt.

Ég skrifaði um þessa tillögu fyrir þrem árum. Þar spunnust förugar umræður og sitt sýndist hverjum. Slóðin er þessi:

http://blog.dv.is/arkitektur/2010/10/12/thingvellir-stadarvitund/

 

 

 

 

 

 

Á afstöðumyndinni sést Þingvallabærinn efst til hægri og kirkjan. Síðan brúin yfir Öxará og flötin sem gamla Hótel Valhöll stóð og loks nýbyggingin sem þverar Almannagjá.

 

„Byggingin leggst þvert á landslagið, inn í bakkann og spannar yfir Almannagjá. Með þessu þversniði verður úr árekstur náttúru og kúltúrs, þar sem elementin vega hvort annað upp“ segja höfundarnir um þetta snið. Sem sagt þá telja þeir að byggingin styrki og lyfti sjálfri Almannagjá upp í æðra veldi!.

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 24.11.2013 - 10:26 - 18 ummæli

Sundhöllin – Útilaug í miðborgina

 

 

1452155_566596303414312_1111039933_n

 

Sennilega verður því ekki mótmælt að Guðjón Samúelsson arkitekt teiknaði fleiri góð hús en nokkur annar arkitekt á síðustu öld.

En í því sambandi má maður ekki gleyma því að enginn annar arkitekt fékk  jafn mörg tækifæri og hann, enda vann Guðjón lengst af í pólitísku skjóli Jónasar frá Hriflu. Verk Guðjóns eru fjarri því að vera öll góð. Í mínum huga bera þrjú af. Það eru Þjóðleikhúsið, Laugarneskirkja og Sundhöllin í Reykjavík sem hér er til umfjöllunnar.

Það hefur löngum verið ljóst að það hefur vantað útisundlaug í miðborgina. Þetta hefur borgaryfirvöldum verið ljóst og ákváðu því nýlega að hana skildi reisa og tengja  Sundhöll Guðjóns við Barónsstíg.

Ákveðið var að efna til samkeppni um „Viðbyggingu við Sundhöllina“ og var samkeppnin auglýst í Júni 2013. Niðurstaðan lá fyrir í byrjun þessa mánaðar. Alls bárust 23 tillögur en tvær þóttu ekki dómtækar af ástæðum sem ekki hafa verið skýrðar.

Tillagan sem var best að mati dómnendar var eftir arkitektana hjá VA arkitektum. Hún er falleg og vel fram sett og eru höfundarnir vel að sigrinum komnir. Ég ætla ekki að fjalla frekar um vinningstillöguna hér enda lýsa hjálagðar teikningar og tölvumyndir verkinu betur en mörg orð. Allir sjá að hún er hlaðin góðum kostum.

Þó verð ég að segja að á tillögunni eru tveir stórir gallar að mínu mati. En gallana má að mestu rekja til forsagnar sem samin var af dómnefnd.

Í forsögninni var ætlast til að gerður yrði nýr inngangur í Sundhöllina þannig að aðalinngangur yrði um viðbygginguna.

Þetta eru að mínu mati mistök.

Þegar Sundhallarbyggingin er lesin, rýnd og kostirnir greindir þá blasir við hvað inngangurinn hefur sterka stöðu í hönnun Guðjóns og hvaða hlutverki hann gegnir fyrir utan að vera bara inngangur.

Inngangurinn er fyrir miðjum sundlaugarsalnum og þegar gengið er inn í anddyrið blasir við er glerjuð hurð sem sýnir manni inn í afskaplega fallega hlutfallaðann laugarsalinn.  Við enda salarins eru 5 gluggar, oddatala, þannig að einn gluggi er í miðjunni.

Upplifun gestsins er af sama toga og þegar gengið er í Guðshús. Þar er stefnan tekin að altarinu. Í Sundhöllinni sér gesturinn sundlaugarsalinn og veit hvert hann stefnir, En hann leggur likkju á leið sína um búningsklefana. Hann veit hvert hann er að fara.

Þetta er eitt af megineinkennum Sundhallarinnar. En svona á þetta ekki að vera lengur samkvæmt forsögn dómnefndar. Það á ekki bara að fletja þessa upplifun út heldur að láta hana hverfa og ganga inn um viðbygginguna. Aðalbyggingin er að þessu tilliti lögð til hliðar.

Þegar um er að ræða sögulega glæsibyggingu sem Sundhöllin er, þá er sjálfsagt að ganga inn um aðalinngang höfuðbyggingarinnar, ekki um hliðarhús. Þetta er hin almenna regla þegar byggt er við virðulegar og framúrskarandi sögulegar byggingar sem eru tímamótaverk byggingarlistarsögunnar.  Að flytja aðalinnganginn yfir í viðbyggingna verður til þess að móðurbyggingin, sem fólki er annt um, verður í öðru sæti þegar horft er til starfseminnar  og upplifun gestanna.

Auðvitað átti í forsogn að krefjast þess að gengið yrði inn um gamla innganginn þannig að gestir upplifi í örstuttri andrá gamla sundhallarsal höfuðbyggingarinnar áður en haldið er til hægri að útilauginni og afgreiðslu í viðbggingunni.

Hitt atriðið sem skiptar skoðanir eru um er að laugarnar tvær í vinningstillögunni eru á sitt hvorri hæðinni. Það liggja vissulega veigamikil rök fyrir að færa útilaugina heila hæð niður og koma þar búningsklefar kvenna gamla hússins og fyrirferð í landinu til álita. En ég sem funktionalist tel þau vega léttar en hin starfrænu rök.

Samnýting lauganna tveggja, úti og inni, er mjög mikilvæg og auðvelt er að hugsa sér sviðsmyndir þar sem ljóst verður að það er bagalegt að hafa laugakerin tvö á tveim plönum. Það heftir starfssemina á margan hátt og er nánast óásættanlegt.

Þetta síðarnefnda verður ekki lagfært í vinningstillögunni enda  byggir hún bókstaflega á þeirri meginhugmynd. Hinsvegar vona ég að hægt verði að endurskoða innganginn og gefa gestum tilfinningu fyrir staðnum með því að bjóða þá velkomna um gamla aðalinnganginn.

Það vakti sérstaka athygli mína að tvær tillögur voru ekki teknar til dóms og fengu ekki umsögn. Það var ekki einusinni að finna í gögnum dómnefndar rökstuðning fyrir höfnuninni. Höfunda er ekki getið og tillögurnar koma ekki fram í veglegu dómnefndaráliti. En hinsvegar eru þær til sýnis með öðrum tillögum. Mér skilst að þær hafi ekki verið teknar til dóms vegna þess að þær fóru út fyrir byggingareit, ekki lóðarmörk.

Það er óvenjulegt að veita tillögugerð af þessu tagi ekki umsögn og leyna því hverjir höfundar eru.

Hinsvegar er ekki eðlilegt að veita slíkum tillögum verðlaunasæti undir venjulegum kringumstæðum. En hér voru ekki venjulegar kringumstæður. Það var upplýst í keppnisgögnum að til stóð að endurskoða deiliskipulag svæðisins. þar með var gefið undir fótinn að von væri um meira frelsi á svæðinu en gildandi deiliskipulag segir til um og nýttu tillöguhöfundarnir tveir þetta op í keppnislýsingunni með aldeilis ágætum árangri.

Ég birti hér strax að neðan mynd af annarri tillögunni sem ekki var tekin til dóms. Höfundarnir, arkitektarnir hjá teiknistofunni Arkitektúr.is, sáu að byggingareitur var of þröngur en lóðin nægjanlega stór til þess að hægt væri að laða fram starfræna lausn sem styrkir einkenni Sundhallarinnar og gaf tækifæri til betri starfrænni lausnar. Það gerðu þeir með því að byggja austan við Sundhöllina og tengja laugarkerin og pottanna saman um háu gluggana til austurs eins og glöggt má sjá á myndinni að neðan. Allt innan lóðarmarka.

Þetta var áræðið framtak höfundanna sem sýndi að með rýmri kröfum og víðari tækifærum í endurskoðuðu deiliskipulagi var tækifæri til þess að laða fram betri lausn en núverandi deiliskipulag gaf tkifæri til.  Deiliskipulag  sem dómnefnd sagði að ætti að endurskoða. Frumkvæði af þessum toga ætti að lofa, ekki setja í skammarkrókinn. Sérstaklega þegar þessari gagnrýni á forsögn fylgdi lausnamiðuð hugmynd  með afar fallegri samkeppnistillögu.

Næsta mynd hér að neðan sýnir tillögu Arkitektúr.is sem ekki var tekin til dóms. Síðan koma nokkrar myndir af vinningstillögunni og loks neðst hugleiðing um samkeppnir arkitekta almennt.

 

SHR_lykilmynd_PRINT a4letttt

Hér sést hvernig Sundhöll Guðjóns Samúelssonar nýtur sérkenna sinna frá sundlaugarsvæðin og tengs við innisundlaugna og búningsklefa eru áberandi fyrir sundlaugargesti. Tillagan var ekki tekin til dóms líklega vegna þess að hún fór útfyrir byggingarreit í deiliskipulagi sem lýst hefur verið yfir að eigi að endurskoða og breyta.

Að neðan koma svo myndir af verðlaunatillögunni sem er eins og áður er getið vel leyst, í samræmi við keppnislýsingu  og höfundum til sóma.

 

1456655_566621530078456_583245473_n

Þess mynd sýnir aðkomu viðbyggingarinnat frá Barónsstíg

1451943_566596370080972_189599260_n

 

Isometri neðri æðar

Ísometri inngangshæðar

1463928_566596493414293_1621041274_n

Ísometría sem synir viðbygginguna frá suðaustri.

1426278_566596333414309_1728780204_nAðkoma þar sem sést niður að útilaugarsvæðinu.

 

Hér má lesa innra fyrirkomlag viðbyggingar

1452078_566596533414289_169125380_n Ný og fyrirhuguð útilaug í miðbæ Reykjavíkur. Skemtileg o áberandi námd við meistaraverk Guðjóns Samúelssonar sem sést til hægri. En hætt er við að mikill fjöldi gesta kynnit aldrei höfuðbygginunni vegna umdeidrar staðsetningu aðlinngangs.

 

Af gefnu tilefni langar mig að segja nokkur orð um samkeppnir arkitekta almennt.

Samkeppnir arkitekta er meira mál en nokkurn sem ekki þekkir til grunar. Það er margreynt og vitað að baki hverrar tillögu liggja  600  – 800 klukkustunda vinna. 600 klukkustundir eru fjórir mannmánuðir.  Þennan tíma taka arkitektarnir af frítíma sínum. Gæðastunda með fjölskyldu og vinum.  Ef umreikna á þá  vinnu sem liggur að baki tillögunum 23 í Sundhallarsamkeppninni krónur og aura þá er þarna  upphæð sem nemur milli 70 og 180 milljónum króna, breytilegt eftir forsendum.

Þess vegna er siðferðilega rétt að bera virðingu fyrir hverri einustu tillögu 0g meðhöndla hana af tillitssemi og virðingu.

Því er ekki þannig farið.

Það trúir því auðvitað ekki nokkur maður en það er lenska hér að dómnefnd tali niður til tillagnanna og stundum beinlínis niðurlægir hún höfunda. Þetta er svo algengt að manni liggur við að halda að þetta sé af ásetningi gert.

Til þess að skýra algengan hroka dómnefna gagnvart keppendum  tek ég hér dæmi af umsögn um adeilis ágæta tillöguí Sundhallarsamkeppninni sem unnin var af tveim af okkar flinkustu arkitektum og margverðlaunuðum. Tillagan var að mínu mati vel yfir meðallagi að gæðum. Ég hefði ekki verið í vandræðum með að finna kosti hennar og draga þá fram í texta þannig að keppendurnir fengu á tilfinninguna að dómararnir hefðu skilið tillögugerðina og þær góðu hugmyndir sem þar koma fram.

Dómnefndin í samkeppni um viðbyggingu við Sundhöllina völdu hinsvegar að draga fram eins marga galla og mögulega var hægt að koma fyrir í textanum sem er svona:

 „Hlutföll viðbyggingar taka mið af Sundhöllinni en útlit er ekki sannfærandi. Sundlaugarsvæði og útigarður eru aðþrengd og tenging milli veitingasölu og útisvæðis engin. Lendingarlaug við vatnsrennibraut er ekki í góðum tengslum við laugarsvæðið. Ferilmál eru almennt ekki góð og aðgengi fatlaðra á neðri hæð áb´´otavant. Form grunnmyndar vinnur ekki með notagildinu en staðsetning útiklefa er góð.“

Þetta voru sem sagt launin fyri 600-800 vinnustundir og fjarveru frá fjölskyldu, börnum og vinum. Þegar dómnefnd stóð upp frá þeirri veislu sem höfundar buðu uppá voru þetta þakkirnar.

Ég þekki arkitekta sem ekki fóru með dómnefndarálit heim til sín til þess að særa ekki maka sinn og börn þegar þau læsu dómnefnraálitið. Þetta var vegna fangelsisins á Hólmheiði þar sem túlka mátti texta dómnefndar sem refsingu til handa keppenda fyrir þáttökuna. Kannski í samræmi við verkefnið, sem var fangelsi. En ég endurtek, þessi hroki  er frekar regla en undantekning

Dómnefnd þiggur laun fyrir sína vinnu og tekur enga áhættu. Keppendur taka engin laun og bera alla áhættuna. Þrátt fyrir þetta er í tillögu til breytinga á samkeppnisreglum AÍ sem er fysis á aðalfundi félagsins í komandi viku lagt til að eftirfarandi setningu verði bætt við 3. grein samkeppnisreglna  AÍ: Með afhendingu á tillögu í samkeppni, telst þátttakandi samþykkja dómnefnd og keppnisgögn, og að hann muni virða niðurstöðu dómnefndar.”  Þetta er skilyrðislaust ákvæði. Fyrri hlutinn er ásættanlegur en sá síðari (feitletraði) er það ekki. Þar er verið að segja að með því að senda inn tillögu í samkeppni muni keppandi athugasemdarlaust taka við hverju sem er og dómnefnd lætur frá sér fara um hugverk hans og sköpun. Þetta er gróteskt hugarfar og ákvæði sem hlýtur að verða fellt út á aðalfundinum því auðvitað eiga menn ekki að afsala sér rétt til þess að verja verk sitt!

Þarna  er verið að styrkja stöðu dómnefnda og draga úr rétti keppenda til að andmæla. Keppenda sem leggja allt undir.

Ætti ekki fekar að auka réttindi keppenda, vernda rétt þeirra athugasemda við dóminn og skerpa á ábyrgð díomnefnda þannig að þær þurfi að gera grein fyrir dómsorðinu. Jafnvel búa til ákvæði í reglunum um að fulltrúar keppenda fái tækifæri til andmæla. Jafnvel að setja inn ákvæði um að verðlaunaðar tillögur og keppnislýsing verði samlesin af hlutlausum aðilum að loknum dómi.

Það er rétt að taka það fram að pistlahöfundur var ekki þáttakandi í Sundhallarsamkeppninni en hefur tekið þátt í tug keppna og unnið til verðlauna og viðurkeninga í á fjórða tug arkitektasamkeppna. Þetta er því skrifað hér af reynslu.

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 17.11.2013 - 13:18 - 6 ummæli

High Line Park í New York

1450048_10153520134565122_211434672_n


Ég skrapp til New York í vikunni og kom til baka í morgun.  M.a. af því tilefni birti ég hluta úr grein sem ég skrifaði fyrir nokkru í fylgirit Viðskiptablaðsins sem heitir „EFTIR VINNU“. Stórskemmtilegt rit sem fylgir einu albesta blaði sem gefið er út á Íslandi í dag.

Greinin fjallar um High Line Park sem er afrakstur vinnu aðgerðasinna og grasrótarsamtaka í borginni. Þetta er dæmi sem sýnir og sannar að fólk sem sækir borgara- og íbúafundi er ekkert „skrýtið“ eins og Logi Bergman vildi kalla þetta áhugasama og félagslega þenkjandi fólk í Sunnudagsmogni hjá Gísla Marteini áðan. Þvert á móti, því er öfugt farið.

Mér leiðist fólk sem lætur borgar- og skipulagsmá afskiptalaust. Ég fagna grasrótarhreyfingum og segi „Get organized“

Hér er greinin:

Þegar flutningahöfnin var lögð niður á vesturhluta Manhattan í New York fyrir áratugum losnaði mikið af húsnæði þar sem áður voru vöruskemmur eða annað slíkt sem notað var vegna hafnarstarfseminnar, bryggjur og fleira.

West Side var alltaf lítilsvirtur borgarhluti í NY, m.a.vegna þess að þar var iðnaður og hafnarstarfssemi. Þetta var einskonar „blue-collar neighborhood“. Hinu megin á eynni var og er lúxus á borð við Lexington Avenue, Fifth Avenue, Höfuðstöðvar Sameinuðu Þjóðanna, Guggenheim Museum og MOMA.

Hinar yfirgefnu hafnsæknu byggingarnar á West side voru notaðar um árabil af ungu fólki, oft listafólki, sem innréttaði sig í þessum húsum og bjuggu til íbúðir og vinnustofur sem gengu undir samheitinu “LOFTS”.  

Eitt af þeim mannvirkjum sem þarna voru var “ The High Line” sem var járnbraut sem lá  norður eftir Manhattan um 7-8 metra yfir götuhæð og þjónaði vöruflutningum frá og til hafnarsvæðisins.  The High line var tæplega 3 km á lengd.

Eftir að hætt var að nota lestarteinanna um 1980 komu fram kröfur um að þeir yrðu fjarlægðir. Það var kostnaðarsamt og ekki fannst fjármagn til þess að rífa þá niður.

Í framhaldinu komu aðgerðarsinnar sem sáu tækifæri til þess að gefa teinunum nýtt hlutverk. Þeir vildu nota teinana og skapa græna gönguleið eftir Manhattaneyju endilangri. Þeir kölluðu gönguleiðina “The Highline Park” enda lá hún hátt uppi. Eftir áralanga baráttu varð þetta að veruleika. Nú er þarna ein vinsælasta gönguleið á Manhattaneyju og tengist mörgum fyrirtækjum borarinnar. Hún er lofuð af öllum sem til þekkja og hefur stuðlað að mikilli uppbyggingu í Meadpacking hverfinu.

Í framhaldinu varð til stórkostleg viðskiptahugmynd.  Menn sáu þarna tækifæri til uppbyggingar í tengslum við óhindraða græna gönguleið í um átta metra hæð yfir gatnakefi Manhattan.

Eitt afsprengi Highline Park er hið lofaða Standard Hotel í Meatpacking hverfinu NY sem er eitt af framsæknum hótelum borgarinnar og var opnað fyrir 4 árum. Hótelið er byggt yfir Highline Park og hefur aðkomu þaðan.

Það má halda því fram að West Side í New Yok hafi verið e.k. þróunarsvæði NY sem hefur haft tæifæri til að þroskast og þróast um áratugasskeið. Um miðja síðustu öld var Loncoln Center byggt þarna í grend sem hluti af þrounaráætlun  (Urban Renewal) vesturhluta Manhattan.

Eins og áður segir er þetta hluti úr grein sem birtist í fylgiriti Viðskiptablaðsins „EFTIR VINNU“ fyrir nokkru.

 

Efst og neðst eru gamlar ljósmyndir af járnbrautinni fyrir breytingu og þar á milli myndir sem sýns stamminguna á góðum degi.

Hér er eldri færsla um sama efni:

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/09/07/high-line-park-i-new-york-miklabraut/

Hér er umfjöllun um framúrskarandi byggingu eftir danann Bjarke Ingels sem tengist Meatpacing hverfinu og High Line park:

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/02/08/big-i-newyork/

 

 

1385567_10153493603745122_515391786_n

1069995_10153136621680122_2060447907_n

536568_10151535514125122_348753005_n

 

181443_10152888412205122_1927870708_n

181105_10151829203975122_1483489095_n

521941_10152767414115122_962589774_n

38439_10150233806935122_3505377_nUngar stúlkur sóla sig í High Line Park

378614_10151041767485122_949330299_n

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 10.11.2013 - 12:22 - 22 ummæli

Deiliskipulag Landspítalans og Aðalskipulag Reykjavíkur

 

Í aðalskipulagi Reykjavíkur, AR2010-2030, koma fram athyglisverð markmið um húsahæðir.

Þar er sagt að húsahæðir skulu ákvarðast “af hnattrænni legu borgarinnar, nátúrulegri umgjörð hennar, sögulegu byggðamynstri, gatnaskipan og rýmismyndun og yfirbragði aðliggjandi byggðar”.   Þetta er skynsamleg stefna sem er  í samræmi vð opinbera stefnu í mannvirkjagerð frá 2007.

Einnig stendur í AR 2010-2030  að “á svæði innan Hringbrautar er ekki heilmilt að reisa hærri hús en 5 hæðir”.

Þetta eru tvö af mörgum góðum markmiðum sem fram koma í aðalskipulaginu.  Þess ber þó að geta að smá misræmis gætir  milli texta og uppdrátta í aðalskipulaginu hvað þetta varðar.

Þegar nýtt deiliskipulag fyrir Landspítalann, sem unnið var samhliða aðalskipulaginu, er skoðað sýnist manni að nýja deiliskipulagið  sé ekki í samræmi við markmið aðalskipulagsins i nokkrum veigamiklum atriðum.  Á því hlýtur að vera einhver skýring sem ekki blasir við lesendum þessa merka aðalskipulags og þarf nánari skýringu.

Nú þegar hlé er komið á áætlanir varðandi uppyggingu Landspítala hefur myndast svigrúm til þess að skoða þetta betur og samræma byggingaráformin og deiliskipulagið að meginmarkmiðum AR2010-2030.

Þá er ekki bara verið að hugsa til markmiða aðalskipulagsins um hæð húsa og aðlögun þeirra að yfirbragði nærliggjandi byggðar heldur ekki síður að þeim nýju tækifærum sem bjóðast með fyrirhuguðum þróunar- og samgönguás.  Þessi frábæri samgönguás opnar möguleika á nýrri og betri staðsetningu sjúkrahússins. En samgönguásinn á að stuðla að betri samgöngum og vistvænna umhverfi sem er megin þema aðalskipulagsins.

Sjálfsagt er að staðsetja umferðamiðstöð og fjölmennasta vinnustað landsins, nýjan Landspítala, við fyrirhugaðan samgönguás sem á eftir að binda Reykjavík saman í línulega borg, ef vel er á haldið.

En svo aftur sé vikið að markmiðum aðalsikipulagsins um aðlögun að byggð og húsahæðum innan Hringbrautar hefur því margoft verið haldið fram að deiliskipulag Landspítala falli illa að nærliggjandi byggð. Byggingarnar séu allt of stórar og fyrirferðamiklar á þessum stað. Ég deili þessum áhyggjum með fjöldamörgum og undra mig á því að þeir sem stóðu að smíði menningarstefnu í mannvirkjafgerð á sínum tíma, Arkitektafélagið, Listaháskólinn og fl. skuli ekki hafa gert formlega athugasemd við deiliskipulagið í samræmi við stefnuna. Þarna var og er tækifæri til þess að láta reyna á menningarstefnuna og sjá hvers hún er megnug og styrkja hana. Ef það er ekki gert er menningarstefnaf andvana fædd. Þessu tækifæri meiga aðstandendur hennar ekki láta  fram hjá sér  fara.

Ef deiliskipulagið er skoðað sést að hinn svokallaði meðferðarkjarni spítalans, sem stendur innan Hringbrautar, er mun hærri en hefðbundið 5 hæða hús. (venjulega 14-15 metrar á hæð)  Meðferðarkjarninn er 25,4 metrar á hæð eða sem nemur venjulegu 9 hæða húsi. Það er 80% hærra en viðmið aðalskipulagsins. Meðferðarkjarninn er nánast jafn hár og fjölbýlishúsið við Kleppsveg sem sýnt er á efstu myndinni í færslunni og í teikningu að neðan.  Og hann er líka þrisvar sinnum lengri en blokkin og um 17 sinnum fyrirferðameiri ef ég skil uppdrættina rétt!

Það þarf mikinn sannfæringarkraft til þess að fá mig til þess að fallast á að hús sem hefur sömu hæð og blokkin við Kleppsveg, margfalda dýpt hennar og þrefalda lengd falli að “rýmismyndun og aðliggjandi byggð” syðst í Skólavörðuholti eða geti talist 5. hæðir eins og markmið AR2010-2030 stefnir að. Svo ekki sé minnst á menningarstefnuna frá 2007. Það verður þó að segjast að allar stóru byggingarnar sem fyrirhugaðar eru á laqndspítalatorfunni drag eitthvað úr áhryfunum en það munu, ef að lókum lætur, líða margir áratugir það til þær rísa.

Mikið væri kröftum og peningum vel varið ef sá tími sem skapast hefur þar til framkvæmdir hefjast yrði notaður til þess að finna sjúkrahúsinu stað sem sátt er um og fellur að nýju aðalskipulagi borgarinnar í samræmi við meginmarkmið þess.

Ef ekki er skilningur á því að byggja þjóðarsjúkrahúsið í tengslum við samgönguásinn er full ástæða til þess að skoða nánar með faglegum hætti og í fullri alvöru deiliskipulagstillögu þeirra Magnúsar Skúlasonar arkitekts og Páls Torfa Önundarsonar yfirlæknis um aðra nálgun. Aðlaga deiliskipulagið fyrrgreindum markmiðum aðalskipulagsins um húsahæðir og aðliggjandi byggð. Tillofu Magnúsar og Páls Torfa má skoða á þessari slóð:

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/02/24/husnaedisvandi-landspitalans-onnur-nalgun/

Að neðan eru myndir úr Deiliskipulaginu og af blokkinni við Kleppsveg sem hér er tekin til viðmiðunar til þess að betur megi átta sig á umfangi  fyrirhugaðrar byggingar vil Gamla Landspítalann og átta sig á hversu tröllaukin byggingin er á þessum stað.

Hér er slóð sem fjallar um þróunar- og samgönguás AR2010-2030

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/06/05/nyr-throunar-og-samgonguas-i-adalskipulaginu/

Hér er færla um mennningarstefnu í mannvisrkjagerð frá 2007

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/09/29/menningarstefnan-og-landspitalinn/

 

 

Langsnið

Meðferðarkjarninn um 200 metra löng bygging eða ríflega þrisvar sinnum lengri en blokkin við Kleppsveg og jafn há. Meðferðarkjarninn verður samkvæmt skipulaginu 68.500 m2 og sennilega um 270 þúsund rúmmetrar. Blokkin við Kleppsveg sem er jafnhá meðferðarkjarnanum og 1/3 af lengd hans er um 5.600 m2 og aðeins (!) um 15.000 rúmmetrar. Meðferðarkjarninn er um 17 sinnum fyrirferðameiri en þetta stóra fjölbýlishús við Klppsveginn. (ath. hluti meðferðarkjarnans er neðanjarðar eins og sjá má á hjálögðu sniði)

Spurt er: Stenst meðferðarkjarninn menningarstefnuna frá 2007 og markmið AR2010-2030 um aðlögun að „sögulegu byggðamynstri, (gatnaskipan) og rýmismyndun og yfirbragði aðliggjandi byggðar” og húshæð?

Landspþversn

 

untitledkjhkjhiuy

Það virðist blasa við þegar myndin að ofan er skoðuð að deiliskipulag Landspítalans er úr öllum tengslum við „sögulegt byggðamynstur, (gatnaskipan) og rýmismyndun og yfirbragði aðliggjandi byggðar” eins og aðalskipulagið stefnir að. Það virðist líka vera úr öllum hlutföllum við stærð þjóðarinnar og gerð hennar og fjárhagslega getu. Er ekki skynsamlegt að sníða sér stakk eftir vexti og aðlaga skipulagsáætlanirnar veruleikanum, fjárhagslegum möguleikum og öllu umhverfinu?  Er ekki rétt að brjóta odd af oflæti sínu og endurskoða skipulagið í heild sinni, minnka húsin svo þau passi á lóðina eða sem æskilegra er að finna því annan stað. Hefja síðan byggingu sjúkrahússins strax á þeim forsendum. Gildandi deiliskipulag og áætlanir virðast vera á villigötum þjóðinni ofviða auk þess að ekki er almenn sátt um málið.

 

Kleppsvegur cropsnid

Sneiðing í blokkina við Kleppsveg.

photoaaaa

 

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 3.11.2013 - 12:15 - 17 ummæli

Viljum við svona arkitektúr, alstaðar? – Listasafnið í Zwolle

 

Museum de Fundatie by Bierman Henket architecten

Í kjölfar tölvuvæðingar arkitektatofanna hafa opnast möguleikar til þess að hanna og framleiða arkitektúr sem við þekktum ekki áður.  Tölvan er verkfæri sem opnar margfalt fleiri möguleika í byggingarlistinni en blýjanturinn, þríhyrningurinn og T-stikan gáfu arkitektunum áður svo maður tali nú ekki um rýmisgreindina eða skort á henni.

Þessir möuleikar tölvunnar hafa að vissu marki haft áhrif á byggingarlistina og  breytt henni.

Þessi breyting hefur ekki alltaf verið til góða.

Þetta er áberandi  þróun í austurlöndum. Það gengur oft svo langt að sjálfsmynd og táknmál bygginganna er flestum hulin. Ekki er hægt að lesa þessi hús eins og eldri byggingar vegna þess að þau endurspegla ekki það sem innifyrir er né tala nokkurt það formmál sem hinn almenni vegfarandi kann að lesa.  Þau eru líka nánast án sérkenna þeirra mennigarheima eða staða þar sem þau standa. Þau eru flest leiðinleg til lengdar  og tala ekki til vegfarandans á sama hátt og önnur hús.

Þetta er arkitektúr og formmál sem mikið er notað á stöðum á borð við Barain og Dubai. Vonandi láta arkitektarnir þessi svæði duga til þess að prófa forritin sín og hlaupi af sér hornin þar enda rísa þessar borgir upp úr eyðimörkinni þar sem ekki er að finna rætur byggingalistasögu í sama mæli og víðast í Evrópu og eldri borgum austurlanda.

Myndirnar sem fylgja þessari færslu eru af myndlistasafni í Zwolle Hollandi, sem teiknað var af  Eduard Louis de Coninck, í nýklassiskum stíl árið 1838 sem dómhús (fyrir 175 árum).

Síðar var húsinu breytt í myndlistarsafn og nýlega var byggt við húsið  eins og sjá má á myndunum. Viðbygingin sver sig í ætt byggingalistar sem stendur ekki á gömlum gildum byggingarlistarinnar heldur frekar hugmyndafræði höggmyndlistar þar sem tölvutæknin virðist hafa tekið völdin.

Það er illa komið fyrir myndlistinni þegar  svona „bóluarkitektúr“ þarf til þess að draga fólk að verkum eftir menn á borð við  Rembrandt, Saenredam, Turner, Monet, Rodin, Van Gogh, Mondrian, Van der Leck sem allir eiga verk í safninu.

Viðbyggingin, sem teiknuð er af Bierman Henket, vann til verðlauna í síðustu viku fyrir útlitið (!)  Dutch Design Awards  veitti  verðlaunin með eftirfarandi rökstuðningi: „the project generates a huge impact in the city“ and „has an incredible presence“

Ég veit ekki hvort þetta er góð eða slæm viðbygging þegar á heildina litið en finnst hugmyndin óaðlaðandi þó útfærslan sé mjög vel gerð og snyrtileg. En eitt er vist að ég vildi frekar vera vegfarandi þarna án þess að láta þessa blöðru trufla rólega, harmóniska og sögulega götumyndina.

Maður veltir fyrir sér hvort fólk vilji að  byggingarlistin þróist almennt í þessa átt og verði ólæsileg vegfarendum. Viljum við svona arkitektur í gamalgrónum hverfum hér í Evrópu? Viljum við þessa einkennalausu byggingalist allstaðar? Byggingarlist sem er án staðaranda þannig að borgirnar í heiminum öllum verði meira og minna allar eins í öllum sínum fjölbreytilegheitum þegar fram líða stundir? Viljum við hafna regionalismanum fyrir svonalagað?

Þá vaknar spurningin: Viljum við svona arkitektúr  yfirhöfuð?

Sjá þennan tengil um lestur húsa:

 

http://blog.dv.is/arkitektur/2010/10/29/thorbergur-thordarson/

 

 

Neðst i færslunni er vel gert myndband um Zwolle, sögu borgarinnar og gömlu bygginguna sem hér er fjallað um áður en ráðist var í að byggja þennan „rugbybolta“ ofan á hana. Ég mæli með myndbandinu. Sérstaklega fyrir þá sem eru ekki sammála um efasemdir mínar um þá lausn sem fyrir valinu varð.

Heimasíða arkitektanna er hér Bierman Henket architecten og listasafnsins hér: The Museum De Fundatie,

 

Museum de Fundatie by Bierman Henket architecten

Museum de Fundatie by Bierman Henket architecten

Museum de Fundatie by Bierman Henket architecten

 

Museum de Fundatie by Bierman Henket architecten

Museum de Fundatie by Bierman Henket architecten

Museum de Fundatie by Bierman Henket architecten

 

Museum de Fundatie by Bierman Henket architecten_cross section

 

Museum de Fundatie by Bierman Henket architecten

Museum de Fundatie by Bierman Henket architecten

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 27.10.2013 - 21:22 - 31 ummæli

Einkabíllinn – lýðheilsa og peningar


Eitt af því góða sem lagt er til í Aðalskipulagi Reykjavíkur AR2010-2030 er að nú er stefnt að því að draga úr notkun einkabíla í borginni. En eins og ástandið er nú er einkabíll forsenda fyrir því að hægt sé að búa þar.

Markmiðið er að draga úr umferð einkabíla til þess m.a. að gera borgina vistvænni og hagkvæmari, bæta lýðheilsu, spara ferðatíma og lengja gæðastundir borgarbúa.

Þetta er sú leið sem fjölmargar borgir hafa farið um allan heim með ótrúlega góðum árangri. Ég nefni Portland í Oregon í Bandaríkjunum sem ákvað fyrir alllöngu að stöðva útþennslu borgarinnar og stækka hana innávið.

Þeir mjókkuðu götur (kallað „skinny street program“) og bættu aðstöðu gangandi og hjólandi. Þetta hefur gengið afskaplega vel og ungt menntað fólk laðast nú að borginni. Og framsækin þekkingafyrirtæki fylgdu á eftir vegna þess að þau vilja vera þar sem vel menntað fólk er til staðar og líður vel og vill búa til framtíðar.

Ef umferðamál í borgum eru skoðuð þá sjá allir að það er í raun ekkert vit í öðru en að fara að dæmi Portland og fjölda annarra borga, og draga úr notkun einkabíla innan borgarmarkanna. Helsta verkfærið til þess að ná þessum markmiðum er borgarskipulagið.

Sem dæmi þá hefur Reykjavíkurborg á undanförnum áratugum, skipulagt matvöruverslanir út úr íbúðahverfunum inn á iðnaðar- og hafnarsvæði. Afleiðingin var fyrirsjáanleg;  meiri einkabílanotkun, minni almennigsflutningar, lélegri lýðheilsa og minnkandi félagsleg samskipti í grenndarsamfélaginu auk sóun á tíma og peningum borgarbúa og borgarsjóðs.  Þessi stefna borgarinnr var  í mínum huga furðuleg, enda vissu allir sem kynntu sér málið að þetta var röng stefna og ófagleg.

Borgaryfirvöld í Portland fóru þveröfuga leið og vildu minnka einkabílaumferð með öllum þeim kostum sem því fylgja. Aðferðin sem skipulagsyfirvöld í Portland notuðu var m.a. að skipuleggja  matvöruverslanir og dagvörubúðir  inn í íbúðahverfin og færa þjónustuna nær notendunum.

Enkabíllinn var fyrir 50-60 árum tákn um frelsi einstaklingsins, en er það ekki lengur. Nú er hann orðin að tákngervingur sóunnar á peningum og auðlindum auk þess að ógna heilsu fólks og velferð. Hann er orðinn myllusteinn um háls heimilisbókhaldsins.

Fyrir utan er einkabíllinn er ekki bara lókalt  vandamál heldur einnig glóbalt.

Margt af þessu kemur fram í skemmtilegum fyrirlestri Jeff Speck sem hér fylgir og vakin var athygli á af einum lesanda síðunnar, Guðjóni Erlendssyni arkitekt.

Þetta er stundarfjórðungslangur fyrirlestur á ensku sem allir sem áhuga hafa fyrir skipulagi ættu að hlýða á. Í raun ættu allir þeir sem hyggja á framboð til sveitarstjórna hér á landi að hlýða á þennan stutta og fróðlega fyrirlestur. Hann er gott veganesti inn í kosningabaráttuna fyrir alla, hvort sem þeir eru sammála því sem þar kemur fram eða ekki.

Efst er mynd af umferðaöngþveiti þar sem bílistarnir sóa tíma sínum og fjármunum á kostmað gæðastunda með fjölskyldunni. Betra borgarskipulag, sjálfbærir borgarhlutar og vistvænar almenningssamgöngur vega þungt til þess að ná þessum markmiðum.

Hér er eldri færsla um svipað efni:

http://blog.dv.is/arkitektur/2010/09/23/%E2%80%9Cbilar-eru-ljotir-margir-saman%E2%80%9D/

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 23.10.2013 - 08:13 - 8 ummæli

Bauhaus í Dessau – nú gistiaðstaða!

526009efe8e44e32e9000001_bed-breakfast-bauhaus_thomas_lewandovski-530x726

Gömlu byggingarnar í Dessau sem hýstu Bauhaus skólann á sínum tíma eru einhverjar þær merkilegustu sem byggðar voru á síðustu öld. Þær voru og eru enn, ein helsta fyrirmynd nútíma byggingalistar. Þess utan voru í húsunum og á skólanum unninn einhver mestu afrek í sögu hverslags hönnunar og lista á öldinni sem leið.

Nú hefur húsið  verið gert upp frá grunni og allt sett í sem upprunalegustu mynd.

Þessi bygging sem er með þrem álmum á nokkrum hæðum var byggð á árunum 1925-1926 eftir uppdráttum  Walters Grobius  arkitekts sem allir unnendur byggingalistar þekkja.

Nú í þessum mánuðu var hið svokallaða “Prellerhaus” auglýst sem gistiaðstaða. Þetta eru um 25 herbergi þar sem áður bjuggu helstu snillingar lista á síðustu öld. Menn á borð við Klee, Kandinsky, Grobius, Breuer og marga fleiri.

Það kemur á óvart hvað gistingin er ódýr en herbergin eru leigð á 35-60 evrur nóttin með morgunmat. Skýringin á þessu hagstæða verði er sennilega að hluta sú að þarna eru takmörkuð þægindi miðað við nútíma hótel.  T.a.m. eru baðherbergi  inni í herbergjum  heldur sameiginleg fyrir nokkur herbergi eins og tíðkaðist fyrir 88 árum þegar byggingin var tekin í notkun.

Stuðst var við gamlar ljósmyndir þegar húsið var endurnýjað og herbergin voru innréttuð. Húsgögnin eru mörg hönnuð af kennurum og nemendum skólans á gullaldarárum hans.

Slóðin að gistingunni er þessi:

http://www.bauhaus-dessau.de/accommodation-inside-the-studio-building.html

Þetta er töfrandi bygging, sögulega séð, og ekki síður vegna sjálfrar byggingalistarinnar. Meðfylgjandi ljósmyndir lýsa bygginginni betur en mörg orð.

Hér eru færslur um svipað efni:

http://blog.dv.is/arkitektur/2009/12/09/mies-van-der-rohe/

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/02/23/weissenhof-siedlung-1927/ 

Strax að neðan er ljósmynd af nokkrum þeim sem þarna störfuðu fyrir 90 árum.

meisteraufdembauhausdach_03

Þarna eru mennirnir í Bauhaus á þaki byggingarinnar í Dessau. Þessir menn mótuðu framtíðina og verk þeirra hafa stöðug áhrif á daglegt líf milljóna manna um allan heim. Frá vinstri: Josef Albers, Hinnerk Scheper, Georg Muche, László Moholy-Nagy, Herbert Bayer, Joost Schmidt, Walter Gropius, Marcel Breuer, Vassily Kandinsky, Paul Klee, Lyonel Feininger, Gunta Stölzl and Oskar Schlemmer. Takið eftir hvað þessir frmúrstefnulistamenn eru íhaldssamir í klæðburði….allir í jakkafötum og með hálstau ef eina konan, Gunta Stölzl, er undanskilin.

3019166-slide-11sbdprellerhausprellerhaus20100505yt6315„Prellerhaus“ þar sem nemar og starsfólk bjó. Þarna voru háir gluggar og allir höfðu svalir. Framúrskarandi hlutföll og áferð.

 1289303093-dsc6234-500x500

 1289303092-dsc6229-431x500

3019166-slide-08bhdprellerhaus20120131yt7896

3019166-slide-01sbdatelierzimmerneu20131007yt5913

3019166-slide-03sbdatelierzimmerneu20131007yt5919

3019166-slide-05sbdatelierzimmerneu20131007yt5931

Einu þægindin á þessu herbergi er handlaug með kaldavatnskrana. Á flestum herbergjum er aðgangur að heitu og köldu vatni.

3019166-slide-09sbdatelierzimmerneu20131002yt5867

 

 

3019166-slide-10sbdatelierzimmerneu20131004yt5881

3019166-slide-07bhdprellerhaus20090828bd2415

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 18.10.2013 - 11:11 - 8 ummæli

Af „VERÐLAUNAIÐNAÐI“ í ARKITEKTÚR

Arkitektaverðlaun

 

Eftirfarandi pistil ásamt myndefni barst síðunni frá Örnólfi Hall arkitekt. Hann er umsvifamikill fagmaður sem hefur verið virkur í umræðunni um byggingarlist um áratugaskeið. Hér fjallar hann um verðlaun fyrir byggingalist. 

 

 

LEAF-prísinn við Austurhöfn

— Eins og mörgum er kunnugt stendur skammstöfunin LEAF fyrir: „Life, Earth and Air Friendly design“  og það eru ýmis samtök sem veita verðlaun undir þessari yfirskrift.- Ein þessara samtaka (aðila) eru í West Hartford, CT í BNA, í London UK og líka í UAE. Veitt eru verðlaun fyrir „viðhaldsfríar“ byggingar, vistvænar byggingar o.s.frv. og verðlauna“flóran“ er stór og mikil.

— Frábærir ungir arkitektar í Evrópu með litlar og miðlungsstórar teiknistofur virðast alls enga möguleika eiga í prísa-gjöfinni, jafnvel þótt eftir þá liggi afburða góð verk. Þeir eigi hins vegar ekki gilda sjóði sem þarf til að koma sér á stallana, segja þeir.

> — Undirritaður hefur heyrt í kollegum sínum í þýskalandi og Sviss sem tala um óhreinan „money-business“ í kringum „Adwards“- verðlaunaúthlutanirnar og ábatasaman “verðlaunaiðnað” í því sambandi.

— Á netinu má finna fjölda prísgjafa (hátt í 100 að tölu) sem veita ýmsa arkitektúrprísa, „Architecture Awards“ fyrir flottastar, fegurstar, sérstæðastar og glæsilegastar allra heimsins bygginga o.s.frv.- Hver ósköpin öll skyldu vera til af nýbyggingum í Arabísku fustadæmunum og víðar í Austurlöndum og einnig í Vesturheimi með einhvern „Architecture/Awards“- heimsprísinn festan utan á sig !

— Margir arkitektar í Evrópu hafa haft um þetta stór orð og látið í ljósi áhyggjur. Þeir segja að fjölmiðlafulltrúar (áróðursmeistarar) stóru teiknistofanna séu duglegir við að afla þeim prísa úr þeirri miklu „flóru“ sem býðst.

— Ýmsir kollega minna, hér og erlendis, furða sig mikið á 1.sætinu í síðasta Mies-prísnum. Af hverju fékk verðlaunin ekki frábæra torglausnin í Ghent í Belgíu, á viðkvæmum stað, við miðaldaturnbyggingar(Torg og byggingar í anda Mies og dáð af UNESCO*)með langflest atkvæði frá evrópskum arkitektum og áhugafólki(70%). Af hverju fékk hins vegar verk með aðeins 10% atkvæða Mies-prísinn?

— Antonio Borghi formaður ACE (Sambands evrópskra arkitekta) hafði yfirumsjón með kosningunni, en Mies-verðlaunin eru sjálfsögðu í höndum annarra. Þess má til gamans geta að undirritaður hefur verið skraf/kollegi A. Borghi á netinu.

PS: UNESCO* er verndari miðaldabyggina.

 

Örnólfur Hall

Arkitekt.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 27.9.2013 - 12:10 - 29 ummæli

Háskólabíó – e.t.v. besta hús á Íslandi

 

 HBcrop

 

Háskólabíó sem var vígt á hálfrar aldar afmæli  Háskóla Íslands, árið 1961, var fyrst og fremst hugsað sem kvikmyndahús sem jafnfamt átti að nota til fyrirlestra og ráðstefnuhalds. Húsið var einnig notað til tónlistarflutnings  fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands og fl. En það var aukahlutverk hússins.

Það er (var?) í eigu Sáttmálasjóðs en árið 1941 var ákveðið að sjóðurinn skyldi eiga og reka kvikmyndahús Háskóla Íslands sem upphaflega var opnað í Tjarnarbíói 1942.

Ég hef lengi verið mikill aðdáandi þessarrar byggingar enda hefur hún þjónað hlutverki sínu sem kvikmyndahús framúrskarandi vel. Manni líður hvergi betur í bíó en þarna.

Allt gengur upp.

Flæði kvikmydahússgesta er eins eðlilgt og hugsast getur . Maður kemur úr anddyrinu þar sem er lágt til lofts og gengur inn í kvikmyndahússsalinn í honum miðjum.  Gestir flæða um salinn óþvingað til sætis þar sem allstaðar er góð sýn til kvikmyndatjaldsins. Svo þegar sýningunni er lokið er gengið beint út í kvöldkyrrðinn í götuhæð. Oft er gengið úr kvikmyndahúsum um niðurgrafnar kjallaratröppur framhjá öskutunnum eða öðru slíku. Manni líður oft eins og manni sé hent út með sorpinu.

Spenna í innirýminu milli andyrisins sem er með lágri lofthæð og kvikmyndasalarins fer ekki framhá neinum. Það er upplifun að færa sig úr anddyrinu í stóra sal Háskólabíós og öfugt.

Þegar horft er til byggingarinnar utanfrá er hún auðlesin og staðsetning hennar við Hagatorgið og glæsibygginganna þar er sannfærandi. Maður áttar sig strax á hvað er þarna á ferðinni og nemur hvað funktionalisminn er tær og skýr. Þarna eru formin og efnisval einfalt, stál, steypa og gler. Hvergi er að sjá prjál eða óþarfa glingur eða sýndarmennsku af nokkru tagi. Léttleikinn er ábrandi þrátt fyrir mikla steypu og gluggaleysi í meginbyggingunni. Framsækin smíði hússins og tækni blasir við; skriðmót og stálgrind.

Arkitektarnir hafa tekið fáar og stórar ákvarðanir þannig að allt er eðlilegt og auðlesið.

Það hefur nokkuð hallað á Háskólabíó í umræðunni undanfarna áratugi. Það er senniega að ósekju. Tónlistarmenn og tónlistarunnendur hafa talað illa um kvikmydahúsið vegna þess að það þótti ekki þjóna tonlistargyðjunni nægilega vel. Það er ósanngjarnt vegna þess að þetta er fyrst og fremst bíóhús, enda heitir það „Háskólabíó“

Háskólabíó er ef til vill besta hús á Íslandi, framúrskarandi arkitektúr á allan hátt sem hefur ekki fengið þá athygli og  lof sem það verðskuldar. Svo heiðarlegar byggingar sér maður ekki mikið lengur. Engin óþarfi ekkert skraut engin tíska eða stælar. Fullkomin heiðarleiki og fullkomin fegurð og funktion.

Nútímahús þessarrar gerðar bera oft merki þess að þau eru teiknuð í tölvu. Möguleikar tölvunnar hafa oft áhrif á byggingalistina og þau áhrif eru ekki alltaf til góðs.

Háskólabíósbyggingin er hönnuð af arkitektunum Gunnlaugi Halldórssyni og Guðmundi Kr. Kristinssyni og reist á árunum 1956-1961. Arkitektarnir voru báðir heiðursfélagar Arkitektafélags Íslands.

Er þá ekki komið nóg og rétt að segja amen á eftir efninu og þakka fyrir sig?

Hér eru einnig tenglar sem tengjast efninu:

http://blog.dv.is/arkitektur/2009/10/02/gunnlaugur-halldorsson-arkitekt/

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/03/18/felagsgardur-gunnlaugs-halldorssonar/

http://blog.dv.is/arkitektur/2010/02/26/form-follows-function/

 

HBint

2_3lett

1_113lett

h-biolett

1_114lett

 bilde

Flokkar: Óflokkað · Spaugilegt

Fimmtudagur 26.9.2013 - 08:10 - 16 ummæli

AR-2010-2030 –140 ha golfvellir innan þéttbýlismarka!

 

Ljósmyndin að ofan er fengin frá lögreglunni í Reykjavík og er tekin morgun einn á virkum degi á Miklubrautinni.

Af myndinni getur maður dregið margar álygtanir af borgarskipulagi Reykjavíkur.

Það má t.d. lesa af henni að borgin hljóti að vera dreifð. Og að þjónusta og atvinnutækifæri eru ekki í góðum tengslum við íbúðasvæðin. Af myndinni má álygta að að borgin sé afspyrnuvitlaust skipulögð vegna þess að ekki virðist vera mögulegt að þjóna henni með almenningsumferð. Þarna er hvergi strætó eða almenningsflutningakerfi að sjá. Það má álygta að þetta sé jafnvel ekki borg heldur samansafn af úthverfum og atvinnuhverfum og þjónustuhverfum sem eru ekki tengd saman á rökrænan og starfrænan hátt.

Maður getur velt fyrir sér hvort öll grundvallaratriði í borgarskipulagi hafi setið á hakanum?

Það má margt fleira lesa af þessari ljósmynd. Til dæmis væri hægt að draga þá álygtun að þarna búi fólk sem ekki er félagslega meðvitað. Það vill ekki umgangast aðra. Það vill búa í sérbýlum og ferðast í einkabílum. Fólkið vill búa prívat og ekki í mjög nánum tengslum við aðra í fjölbýlum og borgarhúsum. Maður gæti haldið að fólkið vilji helst eiga tvo eða þrjá bíla og aka langar leiðir til þess að kaupa sér mjólk út í kaffið. Maður veltir fyrir sér hvort þetta fólk vilji yfirleitt búa í borg.

Þetta eru eðlilegar ályktanir vegna þess að fólkið hefur valið sér borgarskipulag þetta, í gegnum fulltrúalýðrðið, sem kallar á þetta lífsmunstur.

Kannanir sýna að flestar álygtanirnar að ofan eru rangar. Fólkið vill búa í borg og vera í góðum tengslum hvort við annað. Það vill hafa þjónustuna við hendina. Það vill búa þannig að einkabíll sé ekki f0rsenda búsetunnar.

Hvernig stendur þá á því að það býr við þessar aðstæður og er hægt að lagfæra þetta?

Ef áhugi er fyrir því að breyta þessu blasa tvær lausnir við. Annarsvegar að færa þungamiðju íbúðasvæðanna vestar í borgina t.a.m. í Vatnsmýrina eða hitt, að færa atvinnutækifærin austar í borgina og tengja fyrirhuguðum þróunar og samgönguás samkvæmt AR 2010-2030.

Á morgun er vika liðin frá því að athugasemdarfrestur vegna Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 rann út. Það liggur fyrir að miklar athugasemdir hafa verið gerðar vegna Reykjavíkurflugvallar og nánast einsýnt að hann verður ekki lagður niður á þessum áratug. Sennilega ekki fyrr en í lok næsta, ef nokkuð.

Nýtt aðalskipulag gengur í stórum dráttum út á að stöðva útþennslu borgarinnar, minnka einkabílaumferð, auka notkun almenningsfaratækja, gangandi og hjólandi. Færa þjónustuna og atvinnutækifæri nær íbúðahverfunum, minnka og jafna umferðaálagið. Gera hverfin meira „sjálfbær“ hvað þjónustu og atvinnu áhrærir.

Söðva á útþennsluna og stækka borgina innávið. Þetta er skynsamleg stefna og kannski óhjákvæmileg. Til þess að ná markmiðinu hafa borgaryfirvöld dregið línu umhverfis borgina og sagt, við byggjum einungis innan þessarrar línu. Þetta hefði átt að vera búið að gera fyrir löngu.

Til þess að geta mætt íbúafjölgun um 30 þúsund á skipulagstímabilinu verður byggt á svokölluðum þróunarsvæðum innan núverandi byggðar. Stærsta og mesta fjölgunin á að eiga sér stað í Vatnsmýrinni þar sem nú er flugvöllur höfuðborgarsvæðisins. Lagt til að leggja niður flugsamgöngur við höfuðborgina og byggja á þeim 140 hekturum sem þá losna í Vatnsmýrinni.

Í mínum huga gengur þetta ekki og er óþarfi.  Ég sé ekki að sátt muni nást um þessa aðgerð. Íbúar landsins hafna henni og  fulltrúar eigenda landsins, stjórnvöld, vilja ekki leggja flugvöllinn niður að svo stöddu.

Það þarf að finna aðrar leiðir til þess að ná fram meginmarkmiðum aðalskipulagsins og minnka bifreiðaumferð. Maður spyr hvort ekki sé til nægjanlegt landrými þó Vatnsmýrin sé ekki talin með. Er svo mikil þörf fyrir landið undir flugvellinum að hann þurfi að víkja innan örfárra ára?

Megin þáttur til að ná markmiðum aðalskipulagsins AR2010-2030 er samgöngu- og þróunarás frá Vesturbugt að Keldum. Samfara honum þarf að leggja til hliðar hugmynd um samgöngumiðstöð (umferðamiðstöðin) við Hringbraut. Samgöngumiðstöð á að byggja í sterkum tengslum við samgönguásinn. T.d. við Elliðárósa þar sem koma fyritæki og stofnanir með miklum starfsmannafjölda svo sem landspítala og skrifstofur stórfyrirtækja í námd við þétta íbúðabyggð á þeim 70 hekturum þar sem nú er golfvöllur í Grafarholti.

Aðeins norðar er Korpúlfsstaðagolfvöllur sem er kjörið byggingaland sem tengist ágætlega byggðinni í Úlfarsárdal þar eru aðrir 70 hektarar byggingalands. Golfvellirnir tveir eru um 140 hektarar eða jafn stórt og landið undir Reykjavíkurflugvelli. Og svo má bæta við rúmlega 100 hekturum á Keldnasvæðinu og 220 hektara svæði á Geldinganesi. Alls er hér um að ræða hátt í 500 hektara góðs byggingalands sem er innan þeirra marka sem AR2010-2030 setur okkur.

Sjálfsagt er líka að ljúka við hafið verk í Úlfarsárdal, annað er ekki sanngjarnt gagnvart þeim sem þegar hafa fjárfest á þeim slóðum. Þar má sennilega þrefalda íbúafjöldann.

Ef borgarlandið er skoðað sést að gríðarlegt tækifæri liggur í hugmynd aðalskipulagsins um  þétta línulega borg sem er bundin saman með hinum bráðsnjalla þróunar og samgönguás. Það er sennilega hægt að fjölga íbúum innan borgarmarkanna um 40 þúsund án þess að gengið sé á Vatnsmýrina þannig að við getum hæglega beðið með að leggja Reykjavíkurflugvöll niður næstu áratugi eða þar til sátt er um það hjá borgarbúum og landsmönnum að hann verði lagður niður.

Er annars eitthvað vit í því að hafa golfvelli og flugvelli innan þéttbýlismarka byggðarinnar í borgarlandinu? Á golfvöllunum tveim má koma fyrir 5000-7000 nýjum íbúðum (35-50 íbúðum á hektara) á aldeilis frábæru byggingarlandi sem er nokkuð meira en rýmist í Vatnsmýrinni ef ég skil það rétt.

Efst er ljósmynd sem sýnir umferð á leið vestur í bæ að morgni. Tilefni er til þess að velta fyrir sér hvort ekki sé ástæða til þess að færa atvinnutækifæri á borð við Landspítala o.fl. austar í borgina og styrkja þannig hinn bráðsnjalla samgönguás.

Að neðan er mynd sem sýnir staðsetningu og stærð (sem fer stækkandi) golfvalla innan þéttbýlismarka borgarinnar.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn