Þriðjudagur 24.9.2013 - 11:51 - 21 ummæli

Vesturbugt – Norðurbakki – Århus

cam10000-002

Arkitektum tekst oft illa upp þegar þeir eru að hanna og skipuleggja nýbyggingar á hafnarsvæðum.

Við þekkjum dæmin af Norðurbakka í Hafnarfirði, dæmið á Akureyri og svo er einhver vandræðagangur í uppsiglinu við Vesturbugt í Reykjavík.

Margar erlendar borgir hafa líka átt í vandræðum með þetta. Ein þeirra r Kaupmannahöfn sem hefur tapað einkennum sínum á umliðnum árum og öll hafnarstarfsemi hefur horfið. Kaupmannahöfn er ekki höfn lengur heldur “waterfront”

Þetta hefur tekist ágætlega í Stokkhólmi, Bergen, Helsinki og víðar.  Höfnin í Cape Town er líka ágæt.

Þar sem mönnum tekst vel upp virðast þeir hafa það að markmiði að breyta engu um karakter og einkenni staðanna heldur byggja við í sama anda og í sömu hlutföllum og fyrir er. Halda í staðarandann og hluta starfseminnar. Það má ekki verða svo að það sem fólk er að sækja eftir sé látið víka fyrir hinu nýja.

Þetta er mjög mikilvægt.

Svo þarf að búa þannig um að trillukarlar og allskonar smástarfsemi og einyrjar fái þar sitt svigrúm áfram. Við Sluseholmen í Kaupmammahöfn ætluðu arkiektarnir og fjáraflamenn í byggingaiðnaði að bola slíkum bjórdrekkandi smábátaeigendum sem voru í skúrum sínum að sýsla með dótið sitt í burtu. Því var mómælt af nýjum ibúum og þeir fengu að vera enda eru þeir mikilvægur hluti af því mannlífi sem verið er  að sækjast eftir á svona stöðum.

Auðvitað eru allir að gera sitt besta í sínum daglegu störfum. Líka stjórnmálamen og ráðgjafar þeirra. Það er bara einusnni þannig að menn missa stundum sjónir af aðalatriðunum og missa stjórn á verkefninu og markmiðunum. Þetta kemur fyrir alla, en er óþarfi. Mér sýnist húsið sem myndin er af efst í færslunni bera þess merki að menn hafi ekki alveg áttað sig  á aðstæðum þar sem húsið er að rísa í Vesturbugtinni í Reykjavíkurhöfn.

Hjálagt eru nokkrar myndir af nýbyggingum við hafnbarsvæðið í Árósum í Danmörku. Arkitektarnir kall þetta „Isbjærget“ sem er mér óskiljanleg skýrskotun í eitthvað sem á ekki við í Århus havn. Þess ber þó að geta að þessar byggingar eru ekki mjög nálægt gamla bænum.

Sjá einnig:

http://blog.dv.is/arkitektur/2010/11/18/reykjavikurhofn/

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/09/14/rammaskipulag-hafnarinnar-bakgrunnur-og-hugmyndir/

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/09/13/nytt-rammaskipulag-reykjavikurhofn/

http://blog.dv.is/arkitektur/2010/11/26/framtid-reykjavikurhafnar/

http://blog.dv.is/arkitektur/2010/11/24/hofnin-i-kaupmannahofn/

 

1-isbjerget-apartment-building-in-aarhus-by-search-jds-louis-paillard-and-cebra-1000x665

 3-isbjerget-apartment-building-in-aarhus-by-search-jds-louis-paillard-and-cebra-1024x396

7-isbjerget-apartment-building-in-aarhus-by-search-jds-louis-paillard-and-cebra

 Ekki er að sjá að hönnuðurnir hafi stefnt að líflegu mannlífi milli húsanna með smá kriddi af hafnarstrfssemi. Innblásturinn í byggingalistinni er sagður koma  frá fljótandi ísjökum. Ég hefði haldi að nægan innblátur væri að finna þarna í nágrenninu og ekki þyrfti að sækja hann norður í íshaf!.

kbh3

 Á einstaka stað í Kaupmannahöfn hafa svona skúrbyggingar fengið að standa áfram og þykja mikil gersemi fyrir fjölskrúðugr mannlíf við höfnina

kbh1

Nýlegar bggingar við höfn Kaupmannahafnar. Halldór Gunnlaugsson prófessor og Jön Utzon voru búnir að þróa humynd að byggingalist sem féll vel að borginni og hafnarstarfsseminni. En einhverjir nýhyggjumenn í bygingariðnaði og stjórnmálum voru með aðrar hugmyndir.

ff69190902b71aaf46cc553c7ad35f7aa

 Norðurbakki í Hafnarfirði er umdeildur.  Ef vel er að gáð má sjá fíngerða smáhúsabyggð að baki nýbygginganna sem naut nærveru við sjóinn og höfnina.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 23.9.2013 - 07:41 - 2 ummæli

Vistvænn golfvöllur í DK

photonota

Ég skrifaði fyrir alllöngu pistil um eiturefnanotkun á golfvöllum og „vistvæna“ golfvelli í tengslum við hana.

Viðbrögðin voru mikil. Reyndar svo mikil að mér var brugðið. Mér fannst eins og golfurum þætti á sig ráðist og þeir brugðust til varnar. Ég fékk mikið af atugasemdum í síma og í tölvupósti. Viðbrögðin voru eins og ég gæti ímyndað mér þegar einhver vegur að trúfélagi.

Þeir sögðu að ég hafi skotið sjálfan mig í fótinn. En samt gerði ég ekki annað en að endurtaka það sem mér hafði verið sagt og ég hafði lesið.

En það er önnur saga.

Ég var auðvitað fullur efasemda um heimildir mínar og var á vissan hátt miður mín fyrir að hafa valdið því góða fólki sem stundar þessa ágætu íþrótt hugarangri. Sannleikurinn er ekki alltaf sætur og stundum er sannleikurinn ekki neinn sannleikur í hugum fólks. En umræðan er alltaf umræðunnar virði. Sérstaklega ef einhver ágrenningur er á ferðinni sem má lagfæra og ná sátt um.

Í framhaldinu gerði ég mér erindi og heimsótti vistvænan golfvöll í Danmörku. Þetta var í síðasta mánuði.  Ég fræddist af eigandunum um rekstur vallarins og þá hugmyndafræði sem að baki liggur og heyrði reynslusögur.

Þetta var vistvænn golfvöllur stutt frá norðurströnd Sjálands í fallegu landi þar sem áður hafði verið rekið vistvænt alinautabú (hereford holdanaut).  Landeigendum fannst kjörið að nota það áfram með vistvænum hættti og lögðu þennan vistvæna golfvöll.

Samtalið staðfesti allt sem kom fram í fyrri pistli mínum.

Hugmyndin um vistvænann golfvöll gengur út  á að nota ekki tilbúin áburð eða varnarefni gegn óæskilegum gróðri eða skordýrum. Menga ekki jörðina. Einungis er notast við lífrænan áburð (Terra Biosa) og óæskilegum gróðri haldið niðri með handafli. Markmiðið er að halda moldinni hreinni. Eða eins og  Yoko Ono orðaði það „to keep the dirt kleen“!

Að sögn eiganda golfvallarins gengur reksturinn vel en  það væri mikil vinna að halda allskonar óværu og illgresi frá án eiturefna. Illgresi og óæskilegar plöntur á flötunum þyrfti að fjarlæga handvirkt.  Á teigunum og brautunum er allnokkuð um fífla og annað þess háttar sem haldið væri niðri með tíðum slætti. Eitt nefndu eigendurnir sem olli sérstökum erfiðleikum en það er maðkur á flötunum . Samkvæmt ritúalinu má ekki nota eitur og því nánast ómögulegt að halda maðkinum niðri. Hinsvegar færi fuglalíf vaxandi þarna sem hjálpaði verulega. Sennilega þætti fuglunum óeitraður maðkur gómsætari.

Það er rétt að geta þess að golfvöllurinn er með sína egin vansveitu.

Spurt var hvort kylfingar sæktu völlinn sérstaklega vegna þess að hann væri vistvænn? Ekki var á þeim að heyra að vistvænn völlurinn drægi fólk sérstaklega að, hinsvegar þætti fólki það spennandi og sýndi velvilja og áhuga í garð hugmyndarinnar og rekstrarins.

Það væri gaman að að heyra ef vistvænn golfvöllur er til á Íslandi, helst þannig að glompurnar væru með svörtum sandi eða sandi sem fenginn er úr næsta umhverfi.

Hér er slóð að fyrri færslu:

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/11/28/golfvellir%e2%80%94fallegir-en-baneitradir/

og hér er heimasíða golfvallarins Möllekilde

http://www.mollekildegolf.dk/index.php

Vistvæni golfvölurinn sem ég heimsótti skartar, eins og flestir golfvellir, mikilli náttúrufegurð auk þess að húsakostur allur er einstaklega fallegur með dönsku yfirbragði eins og sést á hjálögðum ljósmyndum.

Hefur fólk annars áttað sig á því að Golfvellirnir tveir í Grafarholti og við Korpúlfsstaði eru alls 140 hektarar og fer stækkandi! Þetta er sama stærð og það land sem fer undir flugvöllinn í Vatnsmýrinni! 

Er eitthvað vit í því að hafa golfvelli og flugvelli innan þéttbýlismarka byggðarinnar í borgarlandinu?

photo11

Eigendur golfvallarins ásamt gesti. Ekkert þeirra spilar golf.

photo44

photo33

Einu erfiðleikarnir varðandi það að halda velllinum vistvænum er maðkur á flötunum. En fjörugt fuglalíf hjálpar.

golfbane

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 19.9.2013 - 11:07 - 4 ummæli

Skipulagsvald og skipulagsskylda

 

TERRA_090202_1255

Í tilefni umræðunnar undanfarið hefur Sigurður Thoroddsen  arkitekt sent síðunni tímabærann pistil um skipulagsvald og skipulagsskyldu.  Sigurður er einn af reyndustu skipulagsfræðingum landsins og hefur góða yfirsýn yfir sviðið. Ég þakka honum fyrir þetta málefnalega innlegg sem allir ættu að lesa sem véla um skipulagsmál eða hafa einhvern áhuga á efninu.

Gefum Sigurði orðið:

Á Blogginu hefur verið fjallað um hugtökin  skipulagsvald og skipulagsskyldu og tel ég  að nokkurs misskilnings gæta í umræðunni. 

Í sveitarstjórnarlögum,  skipulagslögum og lögum um mannvirki eru ákvæði um ýmis hlutverk s.s. réttindi og skyldur sveitarstjórna á sviði skipulags- og byggingamála.  Ennfremur er í lögum fjallað um skipulagsskyldu og tel  ég ónákvæmni  gæta hvernig hugtakið er skilgreint. 

Skipulagsvald

Sá  algengi misskilningur virðist  útbreiddur   að skipulagsvald sé eins og   eitthvert takmarkalaust vald  sem sveitarfélög hafi fengið til skipulagsgerðar.  Í skipulagslögum nr. 123/2010 er  hugtakið skipulagsvald hvergi að finna.

Í 3. gr. skipulagslaga þar sem fjallað er um stjórn og framkvæmd skipulagsmála kemur fram í 3. mgr. að sveitarstjórnir hafi tiltekið hlutverk svo sem lögin   kveða á um.  Þannig að réttara væri að fjalla  um þetta margumtalaða  vald sem hlutverk  sem sveitarfélög  hafa  til að annast gerð skipulagsáætlana,  að uppfylltum tilteknum  skilyrðum sem tíunduð eru í lögum. Ennfremur að ef þessi skilyrði laganna eru ekki uppfyllt getur ríkisvaldiðhafnað fram lögðum skipulagshugmyndum. 

Hafa skal  hugfast að það er ríkið  sem setur leikreglurnar en ekki sveitarstjórnir. Ríkið  getur  breytt þeim ef það metur svo.  Það er t.d. hvergi tekið fram í Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands frá 17. júní 1944  að sveitarfélagið Reykjavík hafi skipulagsvald innan sinna marka eins og komið hefur fram  í fjölmiðlum. .

Í umfjöllun minni hér á eftir  mun ég nota hugtakið skipulagshlutverk   í stað skipulagsvalds.   En samkvæmt skipulagslögum hefur   sveitarstjórn það hlutverk að annast  gerð skipulags innan marka sveitarfélags með þeim takmörkunum og skyldum sem kveðið er á um í lögum.

Skipulagsskylda

Ef við skiptum skipulagsstigunum í 3 áfanga eða svæðisskipulag, aðalskipulag og deiliskipulag,  að þá er það valkvætt fyrir sveitarstjórnir að taka þátt í gerð svæðisskipulags að undanskildu höfuðborgarsvæðinu en þar er skylt að svæðisskipulag sé ávallt í gildi sbr. 22. grein skipulagslaga.  Ennfremur eru  sveitarstjórnir  skyldugar  að vinna aðalskipulag fyrir sitt sveitarfélag. Deiliskipulag er hinsvegar skylt að vinna fyrir svæði þar sem sveitarstjórn metur að byggðaþróun  komi til greina.     Sveitarstjórn ákveður m.ö.o.   hvar og hvenær byggt er innan marka sveitarfélagsins en ekki  landeigendur. .

Sá misskilningur virðist nokkuð algengur  að   hugtakið skipulagsskylda þýði,  að sveitarstjórn sé skyldug  að fallast á að gert sé skipulag af landi í einkaeign ef landeigandi óskar þess.  Og það sama gildi um skipulagsbreytingu.  Þetta sé eðli skipulagsskyldunnar.

Þarna er verið að rugla saman eignarrétti á landi og réttindum   til að ákveða  notkun lands. Þetta tvennt er ólíkt en samt   furðu langlíf mýta.  Málið er að landeigendur verða að haga notkun á sínu landi í samræmi við mat sveitarstjórnar og hefur hún það hlutverk  að ákveða hvar og hvenær byggt er.  Það hlutverk hafa landeigendur ekki. Sveitarstjórn er ekki skaðabótaskyld gagnvart landeiganda ef hún metur það svo að ekki séu skilyrði til þess að heimila byggðaþróun á landi hans. 

Í  þessu sambandihafa ýmsir vakið athygli á  eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar og hugsanlegu fjárhagstjóni vegna meintra tapaðra tekna. Hér er um ímynduð verðmæti að ræða,   sem verða ekki raunveruleg fyrr enstjórnvöld hafa tekið ákvörðun um notkun lands, þó með þeim  fyrirvara  að sveitarstjórn getur gert skipulagsbreytingar þegar hún metur slíkt nauðsynlegt.

Þessi lagatúlkun á  einkum við í dreifbýli þegar  um er að ræða skipulag frístundabyggðar  og ýmsar  tengdar byggingar á landi í einkaeign.Einnig eru dæmi um slíkt innan þéttbýla og í jaðri þeirra, eða svokölluð búgarðabyggð.  Sumir landeigendur telja að eignarétturinn sé heilagur og ofar réttindum sveitarstjórnar til að gera skipulags.  Og  vekur það  furðu að  ýmsar sveitarstjórnir hafa  fallist á þessa túlkun.

Málið er að  að sveitarfélag hefur  skyldur lögum samkvæmt þegar einstakar byggingar eða byggðahverfi  eru heimiluð. .  Dæmi um slíkt eru: Gatnagerð,  lagnir fyrir heitt og kalt  vatn,  rafmagn, holræsi,  götulýsing, brunavarnir, sorphirða og snjómokstur.   Ennfremur fræðslumál, skólaakstur og fleira. Þannig að þegar einstaklingar og fyrirtæki fá heimild til að byggja,  fellur ýmis kostnaður á sveitarstjórn, þ.e.aðra  skattgreiðendur.   Af þessum sökum hefur löggjafinn ákvarðað að skipulagshlutverkið  skuli vera í höndum heildarinnar en  ekki einstakra landeigenda. 

Skipulag lands í einkaeign og eignarnám

Þegar um er að ræða  land í einkaeign, og  landeigandi óskar  að gert verði skipulag á hans landi, að þá er það  sveitarstjórnar að meta hvort og hvenær land hans sé  tekið til skipulags. Óski sveitarstjórn hinsvegar að taka land í einkaeign til skipulags hefur hún tvo  möguleika þ.e.  að semja við landeigendur um skipulag landsins eða að taka landið eignarnámi ef ekki næst  samkomulag. Eignarnám getur hinsvegar verið dýrkeypt fyrir sveitarstjórn , einkum  í þéttbýli þar sem um er að ræða þegar risin   mannvirki á viðkomandi landi,  sem auk landsins þarf að kaupa fullu verði. Dæmi um slíkt gæti  verið land undir Reykjavíkurflugvelli og tilheyrandi mannvirki.   Í 59. grein skipulagslaga nr. 123/2010 eru  ákvæði um eignarnám þar sem fram kemur að ráðherra geti heimilað sveitarstjórn að taka eignarnámi landsvæði ef nauðsyn ber til.

Ég hef  fjallað um skipulagshlutverk  sveitarfélaga, sem   telja  þau að þau hafi mikið  vald á þessu sviði, sem ekki  megiskerða, það sé nánast eins og  meitlað í berg, jafnvel  heilagt og fengið  frá Guði, og þar með einn af hornsteinum sveitarfélaga. En þetta  er tálsýn eins og ég hef reifað. 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 13.9.2013 - 22:52 - 8 ummæli

Úlfarsárdalur ef……..

 

Koglerne, Jyllinge, DK - Tegnestuen Vandkunsten

Að mínu mati er arkitektastofan Vandkunsten albesta arkitektastofa norðurlandanna þegar kemur að íbúðahúsahönnun og skipualagi á íbúðahverfum. Svo ég tali skýrt þá þekki ég enga betri á jarðarkringlunni þegar kemur að skipulagi og íbúðahúsahönnun.

Yfirburðir stofunnar eru algerir þegar kemur að félagslegum þáttum, samgöngum,  sjálfbærni og vistvænni hönnun. Þeir félagar sjá öll sín verki í stóru samhengi. Þeir horfa á skipulagið nánast utan úr geymnum og breyta svo sjónarhorninu þar til þeir horfa á hurðarhúninn.

Mig minnir að það hafi verið 1972 sem stofan var stofnuð í framhaldi af vinningstillögu þeirra í stórri samkeppni um þétta lága byggð í Danmörku. Tillagan sýndi hugmyndir um breytta og nýja Danmörku þar sem tekið var á öllum málum. Staðsetningu atvinnutækifæra og byggðar, vegakerfi og sjálbærum landshlutum. Tillagan var nokkuð pólitísk en því var sýnd mikil þolinmæði enda var e.k. menningarbylting í stúdentaumhverfinu í miklum blóma á þeim árum. En höfundar voru flestir nemendur og kennarar á Akademiunni. Einn var ágætur kunningi minn.

Vandkunsten sýndi Reykjavíkurborg mikinn heiður þegar stofan bauð fram krafta sína í forvali vegna samkeppni um skipulag í Úlfarsárdal. Boðinu var hafnað í forvalsnefndinni af óskiljanlegum og óútskýrðum ástæðum. Því hefur verið haldið fram að  forvalsnefndin hafi ekki haft burði til að líta út fyrir vina- og frændgarðinn og hafnað þessu góða boði þess vegna.

Þessir döpru tímar eru nú vonandi liðnir.

Vegna þess að byggðin í Úlfarsárdal er nú til umræðu og að samkvæmt AR 2010-2030 hefur verið ákveðið að stöðva uppbyggingu á svæðinu tel ég tilefni til þess að rifja þetta upp og birta nokkrar myndir af verkum Vandkunsten.

Engin veit hvaða hugmyndir Vandkunsten hefðu lagt fram í samkeppninni. Og enginn veit hvort þeir hefðu unnið til sigurs. En ég tel fyrir minn hlut að miklar líkur væru á að þarna væri nú blómlegt eftirsóknarverð íbúðabyggð ef borgin hefði borið gæfu til þess  að taka þessu góða boði.

Sennilega hefði verið brotið blað í húsahönnun og skipulagi hér á landi hefði Vandkunsten tekist vel upp í samkeppninni.

Þessi heimóttaskapur borgarinnar á sínum tíma er þyngri en tárum taki.

Hjálagðar ljósmyndir sýna vissulega byggingar frekar en skipuag en ef heimasíðan er skoðuð má sjá að skipulagshugmyndir Vandkunsten eru einstakar og staðarvitund mikil. Húsahönnun þeirra er einkar manneskjuleg og handverkið áþreifanlegt og skiljanlegt. Þarna fer saman hugur og hönd.

Neðsta myndin sýnir hluta vinningstillögu þeirra félaga frá 1972

Njótið myndanna og skoðið heimasíðu Vandkunsten.

Hér er slóð að heimasíðu Vandkunsten.

http://www.vandkunsten.com/dk/Projekter

 

 

2948320302_4f184d3e83_z

DSC_0593

3917186606_aef5347a3f_z

6336586450_2f2ebb2b15_z

3916404551_f7bf69c293_z

3678135417_697ce88478_z

1277166385-vandkunsten-bernadotte-school-05-528x353

 

6371960047_45e31f8b53_z

 

SBI_1971

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 11.9.2013 - 15:03 - 20 ummæli

“Hverfi brostinna vona”

 

ulfarsardalur-43

Mér er sagt að íbúarnir í Úlfarsárdal kalli sumir hverfið sitt “Hverfi brostinna vona”.

Þetta er á margan hátt skiljanlegt. Þegar íbúarnir sóttu um lóð eða keyptu húsnæði þarna  á sínum tíma  sáu þeir fyrir sér líflega byggð með þrem skólahverfum og margþættri nærþjónustu með öflugu miðhverfi. Þarna áttu að búa milli 15-20 þúsund manns í  borgarhluta í grennd við fjöll og náttúru. Þetta er nokkurnvegin af sömu stærðargráðu og Akureyri. Hefði getað orðið nánast sjálfbær og vistvænn borgarhluti. Þetta lofaði góðu.

Sökum efnahagskreppu hefur uppbyggingin þarna gengið miklu hægar en fólkið gerði ráð fyrir en það vonaði að betri tíð með blóm í haga væri í augsýn.

Í tillögu að aðalskipulagi sem nú er í kynningu er ekki gert ráð fyrir frekari uppbyggingu þarna. Þarna á ekki að byggja meira, þvert á fyrri ákvarðanir. Þetta er ein af stærri breytingum sem gerð er tillaga um í aðalskipulaginu 2010-2030.

Mönnum kann að finnast þessi breyting ósanngjörn gagnvart því fólki sem þarna hefur búið í von um að þær væntingar sem borgin og höfundar skipulagsins gáfu  því mundu rætast. Ég veit ekki hvernig á að efna gefin loforð öðruvísi en að ljúka höfnu verki. Klára dæmið.

Kannski er hægt að bæta fólkinu skaðann að hluta með því að tengja hverfið betur Grafarholtsbyggðinni eins og talað er um og bæta þannig þjónustustigið. En það er bara plástur.

Nú er athugasemdartíminn brátt að renna út. Þetta ásamt mörgum þáttum aðalskipulagstillögunnar hafa verið kaffærðir í umræðunni um Vatnsmýrina. En ég á von á að þeir ráðgjafar sem unnu Úlfarsárskipulagið geri formlegar athugasemdir við við þessa breytingu og verji sína faglegu ráðgjöf á þeim vetvangi. Annað er varla bjóðandi. Íbúar og aðrir hljóta að hafa rætt þetta og komist að einhverri niðurstöðu.

Ég hef sagt það áður varðandi umræðuna um aðalskipulagið að ég er undrandi yfir fálæti fagfélaga um aðalskipulagið. Arkitektafélagið, Félag skipulagsfræðinga, háskólarnir þegja allir þunnu hljóði og leiða þetta hjá sér. Hér er ég ekki að kalla eftir gagnrýni heldur umfjöllun því að ég fyrir minn hlut er sammála öllum meginþáttum aðalskipulagsins og bara nokkuð ánægður og óska eftir umræðu um það. Hnökrana þarf hinsvegar að ræða á faglegum og félagslegum nótum og leita lausna sem sátt næst um.

Efst er mynd af Úlfarsárdal sem sýnir afmökun þess svæðis sem fyrirhugað er að byggja.

Skolar_i_Ulfarsardal_doc_upplausn

 Ef smellt er á myndina að ofan stækkar hún. Þá sést hvernig borgarhlutinn Úlfarsárdalur var hugsaður með þrem skólahverfum og öflugu miðhverfi sem þjónar 15-20 þúsund manna byggð sem er svipuð að stærð og Akureyri (um 18.000).

Að neðan eru  er áhugaverð tafla þar sem teknar eru saman nokkrar lykiltölur um vöxt borgarinnar “innávið”. Þarna kemur fram hvað vel er unnið að því að gera borgina skilvirkari og hagkvæmari  í AR 2010-2030 en verið hefur með umtalsverðri þéttingu innan núverandi byggðarmarka. Tölurnar sýna fjölgun íbúða í eldri hverfum á skipulagstímabilinu samkvæmt AR ásamt aukningu atvinnuhúsnæðis og fjölgun íbúða.

SCAN1464_000lett

 

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 10.9.2013 - 08:16 - 9 ummæli

Ný byggð í Kaupmannahöfn

IMG_3993

Örestaden og Amager Fælled  á Amager við Kaupmannahöfn er ekki ósvipuð og Vatnsmýrin hér á höfuðborgarsvæðinu. Danir voru lengi að gæla við að byggja nýjan flugvöll á Saltholmen á Eyrarsundi og nýta núverandi flugvallastæði til borgarbggðar.  Við vorum að velta fyrir okkur Lönguskerjum og Bessastaðanesi fyrir flugvöll. Eftir að horfið var frá hugmyndinni um að leggja Kastrup niður og byggja nýjan flugvöll á Salthólma kom upp þrýsingur á að byggja  á auðum svæðum á Amager.

Eitt þessara svæða er Öresaden þar sem mikið hefur verið byggt undanfarinn áratug. Þarna eru mörg frábær hús sem ég hef kynnt mér ágætlega. Þrjú þeirra eru eftir danska arkitektinn Bjarke Ingels. Það eru MV húsið, Bjærget og það nýjasta „ottetallet“. Ég hef skrifað um öll þessi hús hér á vefnum og ætla nú að fjalla stuttlega um það síðasta í annað sinn.

Ég heimsótti „ottetallet“ fyrir mánuði í annað sinn. Fyrst þegar ég kom þarna var enginn fluttur inn og ekki hægt að leggja mat á starfsemina nema frá hreinni fræðilegri nálgun.

Nú þegar ég kom þarna var flutt inn í allar íbúðir og sumir höfðu búið þarna í hátt á annað ár.

Það er skemmst frá því að segja að þetta kom mér skemmtilega á óvart. Mikið líf var á samgönguleiðum hússins og þau verslunar og skrifstofuhúsnæði sem gert var ráð fyrir voru í fullum rekstri. Sama má segja um veitingastað í húsinu. Þetta er þvert á þá sögu sem ég hef endurtekið hér á vefnum sem segir að lítil fyritæki eigi erfitt uppdráttar á jarðhæð og annarri og þriðju hæðum í nýjum hverfum þar se skipulagshugmyndin er randbyggð. Ottetallet er að vissu marki randbyggð og þar eru lítil fyrirtæki í fullum rekstri að því er mér virtist. En mér til varnar þá sýndist mér götulífið alls ekki ná þeim gæðum sem allir þekkja í eldra randbyggðarskipulagi.

Hér fylgja nokkrar ljósmyndir af húsinu sem er í raun blönduð byggð þar sem menn geta gengið um skábrautir að útidyrum tveggja hæða raðhúsa á 5 hæð(!) og að íbúðum sínum. Þarna sjást verandir og svalir ásamt atvinnuhúsnæði á neðstu hæðum. Neðst er svo ein ljósmynd af nærliggjandi húsi þar sem arkitektinn hefur lagt höfuðáherslu á ytra birði hússins í stað starfræna hugmyndafræði eins og Bjarke Ingels gerði í Ottetallet.

Undanfarnar vikur hefur ottetallet og fleiri hús yngri arkitekta verið gagnrýnd vegna skorts á handverki. Atferlisfræðingar og fleiri sérfræðingar telja ástæðuna liggja í því að nú teikni arkitektar með tölvum sem gerir það að verkum að þeir hafa færst einu þrepi fjær handverkinu en áður. Umhugsunarvert.

Sjá einnig:

Nystárlegt fjölbýlishús-Blönduð byggð

IMG_3987

IMG_4007

IMG_3996

IMG_3986

IMG_3983

IMG_3982

IMG_4008

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 8.9.2013 - 20:16 - 6 ummæli

„Allskonar borg“

556761_362170700577799_1574751733_n

Ég leyfi mér að birta orðrétt inngang Páls Hjaltasonar arkitekts í kynningarriti um Aðalskipulag Reykjavíkur 2010 – 2030. Skipulagið var auglýst í byrjun síðasta mánaðar og athugasemdarfrestur  rennur út eftir tæpar tvær vikur.

Kynningarbæklinginn er hinn glæsilegasti og hann er hægt að nálgast  hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgarog á vef Reykjavíkurborar.:

adalskipulag.is

Gefum Páli Hjaltasyni arkitekt og formanni umhverfis- og skipulagsráðs orðið:

 

„Í aðalskipulagi Reykjavíkur er horft langt inn í framtíðina í skipulags- og umhverfismálum. Aðalskipulagið er mikilvægt stjórntæki því þar er sett fram stefnumótun sem er bindandi fyrir allar aðrar skipulagsákvarðanir eins og hverfaskipulag og deilskipulag.

Það stýrir ákvarðanatöku í borgarmálum allt frá stefnumótun til framkvæmda.

Vinna við endurskoðun á aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 er langt komin og nær endurskoðunin til ársins 2030.

Þegar ákvarðanir eru teknar  í skipulagi skal alltaf miðað við að ekki sé gengið á hagsmuni komandi kynslóða. Í aðalskipulaginu birtast markmið um að öll hverfi borgarinnar verði sjálfbær og mannvænni en nú og gæði hins manngerða umhverfis eru sett í öndvegi.

Í ljósi þess er mikilvægt að þétt, fjölbreytt byggð sé alltaf fyrsti valkostur.  Í Reykjavík á að vera skapandi atvinnulíf með þéttri byggð við Sundin. Í henni eru frábær útivistarsvæði sem geta orðið enn grænni og vistvænni og þar gegna samgöngur lykilhlutverki.

Umferðakerfi framtíðarinnar verður meira borgarmiðað en nú erþar sem hlæutur gangandi og hjólandi verður aukinn og almenningssamgöngurfá enn meira vægi.

Aðalskipulag getur við fyrstu sýn virst yfirgriðsmikið og fjarlægt en það er mikilvægt að borgarbúar þekki þær áherslur sem þar birtast því framtíðarsýnin sem þar er fram sett kemur öllum Reyklvíkingum við.

Reykjavík er allskonar borg fyrir allskonar fólk sem býr í allskonar hverfm. Viðfangsefni aðalskipulagsins er er fyrst og fremst að tryggja heilsu, öryggi og lífsgæði um ókomna tíð“.

.

.

Eins og fram hefur komið er þetta stórmekilega skipulag  í kynningarferli en því miður hefur það ekki verið mikið í umræðunni að Vatnsmýrinni undantekinni. Það er synd vegna þess að í skipulaginu er mörg atriði að finna sem mun hafa veruleg áhrif á þróun borgarinnar og lífskjör næstu áratugi. Afskiptaleysi borgaranna og sinnuleysi álitsgjafa og sérfræðinga er áberandi og kannski óskiljanlegt hjá jafn upplýstri þjóð og hér býr. Aðalsipulag Reykjavíkur er nefnilega það viðamikið að það varðar alla þjóðina.

Færslur um svipað efni:

Kynning á aðalskipulagi Reykjavíkur

Nýr „Þróunar- og samgönguás“ í aðalskipulaginu.

Nýtt aðalskipulag Reykjavíkur – AR 2010-2030

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 5.9.2013 - 10:52 - 19 ummæli

Þóknun til arkitekta

untitled22222

Gunnlaugur Halldórsson (1909-1986) heiðursfélagi Arkitektafélags Íslands lét hafa eftir sér að arkitekt geti séð sér og fjölskyldu sinni ágætlega farborða væri honum falið að teikna þrjú einbýilishús á ári.

Þetta var sagt á árunum fyrir seinni heimstyrjöldina og átti við langt fram eftir öldinni sem leið.

Nú er þessu öðruvísi farið. Það lifir enginn arkitekt góðu lífi af því að teikna 3 sómasamleg einbýlishús á ári, eins og kjörin eru nú.

Vinna fyrir arkitekta hefur aldrei verið minni.  Þeir aldrei verið fleiri og sennilega hefur þóknun til þeirra aldrei verið lægri og rekstrarkostnaður arkitektastofa aldrei verið meiri.

Ég þekki ekki laun arkitekta og þróun undanfarið en ég veit að þóknunin hefur lækkað. Það sé ég á þeim verðkönnunum (útboðum) sem gerðar hafa verið undanfarin misseri.

Í Fréttablaðinu í gær er vitnað í Hagstofuna og sagt að laun í landinu hafi hækkað um 74,6% síðan árið 2005. Sennilega var útseld vinna arkitekta að meðaltali um kr. 9.500 árið 2005 sem  ætti að vera í dag kr.16.587.- ef útseld vinna fylgdi tölum Hagstofunnar.

Ég hef orðið var við að „stór“ arkitektafyritæki bjóði undir kr. 10.000.- í dag!

Það virðist sem arkitektar hafi staðið í stað frá hruni hvað útselda tímavinnu varðar og lækkað nokkuð þegar samið er um heildaþóknun. Einkum og sérstaklega þegar hanna á fjölbýlishús. Á þeim markaði virðast vera mikil undirboð á ferð.

Ef þetta er borið saman við aðrar stéttir koma arkitektar afar illa út. Ástæðuna má sennilega m.a. rekja til þess að bygingaiðnaðurinn nánast stöðvaðist í hruninu og hefur varla vaknað til lífsins síðan.

Ef horft er t.d. til fasteignasala sem taka á bilinu 1,7-3,0% af söuverðinu (heimild frá félagi fasteignasala) fyrir að annast sölu íbúðar kemur í ljós að hann hefur margfalt meira uppúr að annast sölu hverrar íbúðar en arkitektinn fyrir að  hanna hana. Svo dæmi sé tekið þá er þóknun fasteignasalans fyrir að selja eina íbúð sem kostar 40 milljónir á bilinu kr. 680.000 til kr. 1.200.000 (1,7-3,0%) meðan arkitektinn tekur a bilinu frá kr. 300.000 og að mér er sagt jafnvel niðurfyrir  kr. 100.000(!) fyrir að teikna þessa sömu íbúð. Þóknun arkitektsins er samkvæmt þessu aðeins brot af þóknun fasteignasalans sem er ábyggilega verður launa sinna. Svona samlíkingar má finna víða í samfélaginu ef að er gáð.

Samkvæmt Viðskiptablaðinu í morgun hafa laun í landinu hækkað um að meðaltali 7% frá árinu 2010 að undanteknum launum fjálmálafyritækja sem hafa hækkað á sama tíma milli 23% og 35% eftir fyrirtækjum, sem leiðir hugan að þeirri veruleikafyrringu sem lengi hefur blóstrað þar á bæ.

Ljóst er að undirboð eru í gangi þar sem arkitektafyritækin ná inn tekjum með því að leggja minni vinnu í hugmyndir og þróun verkefnisins. Líklega notast þau við gagnabanka sinn og endurselja notaðar hugmyndir sem leiðir af sér stöðnun og að líkindum verri byggingalist. Arkitektarnir hafa ekki svigrúm til þess að hugsa sig um þegar svo lítil þóknun er í boði.

Auðvitað endurspeglar þetta ástandið sem er hjá arkitektum um þessar mundir.  Þetta lýsir einnig skort þeirra á faglegri ábyrgð og stéttvísi. Og það merkilega er að þessi undirboð eru ekki einungis hjá einyrkjum og hjá litlu stofunum heldur virðast arkitektafyritækin virk í þessum undirboðum.

Svo aftur sé vikið að fasteignasölum þá fylgir þeirra þóknun verðlagi enda er hún hlutfall af verði fasteigna sem fylgir verðbógunni eða verðbólunni eftir atvikum.

Arkitekar þurfa nú frekar en nokkru sinni áður á að halda félögum, á borð við gömlu mennina, Gunnlaug Halldórsson (1909-1986), Gísla Halldórsson (1914-2012), Hanner Kr. Davíðsson (1916-1995) og fl sem höfðu burði til þess að standa í lappirnar, standa með byggingalistinni, öllu samfélaginu til hagsbóta.

Ef arkitektar og þeir sem kaupa þjónustu þeirra vilja skila góðri byggingalist til komandi kynslóða þurfa þeir að innheimta  sanngjarnt verð fyrir hugmyndirnar, hugverkið og það sem að baki liggur. Öll sú vinna og allt það fé skilar sér ríkulega að lokum.

 

Færslur um skild efni:

“Arkitektafyrirtæki”

Eru of margir arkitektar á Íslandi?

125-163 arkitektar á bótum

1174940_594618050595361_1478766956_n

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 3.9.2013 - 07:59 - 23 ummæli

Fjöldaframleidd “örhús”

 dezeen_Casa-Transportable-APH80-by-Abaton_10

Ég rakst á þetta 27 fermetra “micro” hús á netinu. Það er fjöldaframleitt á Spáni og er hugsað þannig að auðvelt sé að flytja það með gámaflutningabíl og staðsetja nánast hvar sem er.

Húsið er 3×9 metrar og því er gefið einfalt form og efnisvalið gefur tilfinningu fyrir gegnheilu húsi sem er einskonar monolit á að horfa. Húsið skiptist í þrjú rými. baðherbergi, hjónaherbergi og stofu. Öll efni eru vistvæn og flest endurvinnanleg. Grunnmyndin er starfræn og útveggir opnast að umhverfinu sem gefur innirýminu meiri vídd.

Mikið væri skemmtilegt ef íslensk byggingareglugerð og íslenskt borgar- og bæjaskipulag gæfi svigrúm til nálgunar af þessu tagi. Það er vissulega þörf fyrir úrræði af þessari gerð víða um land.

Arkitektastofan Abaton á Spáni á heiðurinn af þessu ágæta húsi.

Sjá einnig:

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/07/04/micro-ibudir/

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/07/09/micro-einbylishus/

og

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/07/17/micro-hus-micro-lodir/

 

dezeen_Casa-Transportable-APH80-by-Abaton_3

dezeen_Casa-Transportable-APH80-by-Abaton_9

dezeen_Casa-Transportable-APH80-by-Abaton_13

dezeen_Casa-Transportable-APH80-by-Abaton_15

dezeen_Casa-Transportable-APH80-by-Abaton_4sq

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 31.8.2013 - 12:03 - 11 ummæli

„Flugvöllinn úr Vatnsmýrinni“

560495_499215676838208_1665264912_n

Sitt sýnist hverjum.

Andstæðingar flugvallarins í Vatnsmýrinni hafa haldið úti fésbókarsíðu til stuðnings við uppbyggingu borgarbyggðar í Vatnsmýri í samræmi við AR 2010-2030. Þeir vilja flugvöllinn burt.

Síðan heitir: „Flugvöllinn úr Vatnsmýrinni“.  Þar er margan fróðleiksmolann að finnna og mæli ég með að fólk skoði þau rök sem þar koma fram.

Vefslóðin er þessi:

https://www.facebook.com/#!/SamtokUmBetriByggdBb?fref=ts

Svo eru þeir sem vilja flugvöllinn áfram í Vatnsmýri  líka með sína fésbókarsíðu sem heitir: „Ég vil flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni“. Þar kemur einnig fram mikill fróðleikur sem vert er að kynns sér.

Slóðin þangað er þessi:

https://www.facebook.com/#!/flugvollinnafram?fref=ts

Að ofan er sýnd hugmynd um flugvöll á Bessastaðanesi sem einhver sendi síðunni. Og að neðan eru tvær myndir. Önnur sem sýnir byggð í Vatsmýri eins og Pétur Arnar Kristinsson arkitekt sér hana og hin sýnir Vatnsmýrina með engri byggð. Þar er hún að því er virðist frátekin sem friðland fugla og fólks.

 

1013265_10151623083542861_1619104537_n

1185592_183009541878516_274698486_n

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn