Föstudagur 30.8.2013 - 10:41 - 12 ummæli

Víkurgarður – Tillaga Grabensteiner

 

 

 KVOSIN-RENDER08lett

Fyrir nokkru birtist hér á vefnum fróðleg grein eftir Örnólf Hall arkitekt um Víkurkurkjugarð. 

Í athugasemdarkerfinu urðu nokkrar umræður í framhaldi af athugesemd Norbert Grabensteiner arkitekts í Vínarborg  sem tók þátt í samkeppni um svæðið í Kvosinni umhverfis Ingólfstorg  í fyrra.

Grabensteiner skrifaði athugasemd við færsluna þar sem hann reifaði hugmynd sína um víkurgarð.

Hún hljóðaði svona:


„Our concept in the competition for Kvosin was one of few trying to excavate the layer of historical ground. Create a quiet spot in future busy downtown, a place to chill, to relax, even to meditate. We suggested to bring up the floorplan of Reykjavik’s first church, have a standing stone on the former place of the Altar, have laying stones (cubes) where benches might have been. And in addition no big building between Landsimahus and Kirkjustraeti.
Bring up a spot making the city richer with a special quality based on the history in the interpretation of today to transform it in to the brain of the city and their people.
Like the article very much, thanks for that“.

Í annarri athugasemd skrifar „Eysteinn“

Eftir að hafa gert mér mynd í huganum af tillögu Grabensteiner þá er ég heillaður. Hin sögulega vídd (hugtak Hjörleifs Stefánssonar) skiptir mjög miklu máli. Ég gæti séð nöfn, fæðingardag og dánardag allra þeirra sem jarðsettir hafa verið í Víkurkirkjugarði greypta í steinbekki kirkjunnar eins og Grabensteiner lýsir þeim. Þetta eru kannski svona 4000-6000 nöfn(?) Bekkirnir munu upplifast sem nytjaskúlptúr til hvíldar og “a place to chill” ens og sagt er.

Í framhaldinu bárust síðuhaldara margar fyrirspurnir um tillöguna Grabensteiner þar sem óskað var eftir birtingu á tillögunni hér á vefnum.

Víkurgarður var lítill hluti af samkeppninni og vóg ekki þungt. Hinsvegar er varla gerð grein fyrir frágangi á Vikurtorgi eða Ingólfstorgi á nýsamþykktu deiliskipulagi, og þess er saknað.

Þessi tillaga Grabensteiner á því fullt erindi inn í umræðuna og er sennilega ein besta tillagan sem barst í samkeppninni um Víkurtorg. Og ef hún er skoðuð nánar þá vex hún við nánari kynmi.

Hugmynd Eysteins sýnir einn möguleika. Altarið og bekkirnir geta verið upplagðir fyrir minni fundi og listviðburði af öllu tagi, tónlistarflutnings og upplestrar. Þetta gæti verið góður staður fyrir „kallinn á kassanum“.

 Ég minni á að það bárust rúmlega 60 tillögur í samkeppnina.

Hér er hluti greinargerðar sem fylgdi samkeppnistillögu Grabensteineri sem þekkir vel til lífsin í götu og brgarrýmum mennngarborga:

„VÍKURGARÐUR (Gamli kirkjugarðurinn)

þar sem andinn mætir sálinni og lífsandinn tifar

Útlínur fornleifa verði gerðar sýnilegar, þannig að fólk skilji þær og þekki. Þannig verða þær eðlilegur hluti af umhverfinu og lífi fólks.

Rólegur og jafnvel andlegur garðurinn mun verða slakandi andstaða við hið hraða miðbæjarlíf. Útlínur og hlutar gömlu kirkjunnar verða gerðar sýnilegar og geta myndað bekki til að hvílast á eftir að hafa heimsótt t.d. markaðinn eða skoðað Landnámssýninguna Reykjavík 871 við Aðalstræti. Jafnvel haldið þar útibrúðkaup.

Útlínur kirkjunnar mætti mynda með steinarönd (blágrýti/grágrýti). Íslenskur lágur trjágróður, eins og var við upphaf byggðar, umlykur kirkjugrunninn og myndar tilfinningu um borgarskóg.

Núverandi bílastæði ofanjarðar verða fjarlægð en í stað þeirra gæti komið tveggja hæða bílakjallari með bílalyftu við austurenda garðsins. Í Víkurgarði verður AlþingisBOXI (Talhorni- speakers corner)) komið fyrir, í nokkurs konar skála (pavillon), þar sem íbúar geta mætt stjórnmálamönnum og skipst á skoðunum. Frá Talhorni má horfa yfir Austurvöll og umhverfi.“

Efst og að neðan eru  myndir  af tillögu Grabensteiner sem sýnir tilfinningu höfundar fyrir sögunni sem hann dró fram í teikningunni að neðan. Hann veitir bæjarstæði Ingólfs og Víkurkirkju sérstaka athygli. Svo er slóð að fyrri færslu um Víkurkikjugarð og kynningu á samþykktu deiliskipulagi á svæðinu.

Fyrst færsla eftir Örnólf Hall:

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/08/12/vikurkirkjugardur-og-landsimareitur/

Og færsla um samþykkt deiliskipulag:

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/02/21/framurskarandi-deiliskipulag-landsimareitur/

Model

 

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 28.8.2013 - 08:27 - 15 ummæli

Leiguíbúðir til framtíðar – Nýr kostur?

 dezeen_South-Chase-housing-by-Alison-Brooks-Architects_19

Eygló Harðardóttir raðherra húsnæðismála, skrifaði grein í Morgunblaðið í fyrradag  sem hún kallar “Sameinum krafta og tryggjum öllum öruggt húsnæði”.

Í greininni vekur hún máls á  að dusta rykið af hugmynd sem varð til í kjarasamningum árið 1965, þar sem samið var um að byggja 1250 félagslegar íbúðir fyrir láglaunafólk.   Þetta var e.k. þjóðarsátt þar sem ekki var einungis samið um laun heldur var húsnæðismálum blandað í samningana.

Meginmarkmiðið hugmyndar Eyglóar er nú að tryggja þeim sem það vilja, örugga búsetu í leiguhúsnæði til frambúðar í vönduðu húsnæði. Hún veltir fyrir sér að blanda þessu markmiði inn í kjarasamninga með einhverjum hætti svipað og um árið.

Hún leggur fram þá hugmynd að byggja vandaðar íbúðir til leigu fyrir þá sem þess óska og ekki vilja eða geta keypt íbúðahúsnæði. Þetta er í raun nýr kostur sem býður upp á leiguíbúðir fyrir alla sem þess óska til framtíðar ef ég skil rétt.

Í upphafi greinarinnar segir hún:

“Fjöldi þeirra sem vilja leigja íbúðahúsæði fremur en kaupa hefur tvöfaldast ásíðustu sex árum. Ungt fólk og tekjulágt á erfitt með fjármagna íbúðakaup, eldra fólk vill síður festa fé í fasteignum og margir forðast áhættuna sem fellst í því að kaupa og reka húsnæði. Þúsundir íbúða vantar á leigumarkaðinn til að anna eftirspurn.”

Þetta er sennilega rétt hjá ráðherranum og skynsamlegt að  leggja af stað í þá vegferð í samvinnu við verkalýðshreyfinguna, borg og ríki að hrinda slíkri áætlun í framkvæmd.

Íbúðirnar sem byggðar voru í kjölfar samninganna 1965 eru auðvitað börn síns tíma. Þá voru byggðar blokkir sem sumar hverjar  hafa að marga mati yfir sér takmarkaðan þokka.

Þar kemur  margt til.  Staðsetning þeirra var á jaðarsvæði í um 100 metra hæð, íbúðirnar voru í stórum einsleitum blokkum samkvæmt áratugagömlum hugmyndum og þær voru of stórar og of margar saman. Byggingalistin var ekki forgangsatriði. Allt var þetta gert með hagkvæmnissjónarmið í huga.

Nú þegar aftur er lagt af stað með svipuðum meginmarkmiðum þarf að gæta þess að láta ekki gæðin víkja fyrir hagkvæmnissjónarmiðum.

Í fyrsta lagi þarf að finna byggingalóðir sem eru á eftirsóttum stöðum í “góðum” hverfum þannig að félagsleg blanda sé tryggð. Í öðru lagi þurfa húsin að vera í háum gæðaflokki, gjarnan í svokallaðri lágri þéttri byggð. Svo er mikilvægt að þær séu af fjölbreyttum gerðum og stærðum allt frá „öribúðum” (mikróíbúðum) upp í 4-5 herbergja stórar og rúmgóðar lúxusíbúðir(!). Hluti íbúðanna á hverjum stað (5-10%) þyrftu að vera séreignaríbúðir og loks þarf að dreifa þeim um höfuðborgarsvæðið en umfram allt að hafa þær eins og áður er sagt alltaf á góðum lóðum og góðri staðsetningu. Byggingalistinni þarf að gera hátt undir höfði.

Þegar talað er um góðar lóðir þá er átt við að gott aðgengi sé að allri þjónustu; verslun, heilsugæslu, skólum, almenningssamgöngum, útivist o.m.fl. Dæmi um slíkar lóðir eru t.a.m. landið umhverfis veðurstofuna við Öskjhlíð sem er sennega nálægt  10 ha að stærð. Þar væri hægt að koma fyrir náægt 500 íbúðum (50 íbúðir á ha.) og svo svæðið umhverfis ríkiútvarpið sem sennilega verður ekki notað fyrir stofnunina. Þar et um 1.5 ha sem gæti rúmað um 70 íbúðir. Á höfuðbogarsvæðinu og á þéttbýliskjörnum um land allt má finna hentugar lóðir fyrir vandaðar leiguíbúðir.

Þetta er allavega spennandi og það verður gaman að fylgjast með framhaldinu.

 

Efst og neðst eru myndir af þéttri lágri byggð  í Bretlandi þar sem eru 54 stórar búðir á hektara. 

Sjá:

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/07/30/deiliskipulag-i-vatnsmyri-onnur-nalgun/

Hér er færsla sem skýrir að hluta landnotkun og lága þétta byggð:

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/11/19/hahysi-eda-laga-thett-byggd/

Myndirnar tvær hér strax að neðan eru af félagslegum íbúðum í Breiðholti.

 

fella-1-1

 Yfirlitsmynd meðan á framkvæmdum stóð í Breiðholi. Félagslegar íbúir á jaðarsvæði í um 100 metra hæð. Elliðavatn í baksýn.

Breidholt_109_250_72 001

Lokahönd lögð á verkið.

Að neðan eru myndir af verðlaunaðri breskri íbúðabyggð

dezeen_South-Chase-housing-by-Alison-Brooks-Architects_16

dezeen_South-Chase-housing-by-Alison-Brooks-Architects_1sq

 

Sá húsnæðisráðherra sem nú situr hefur mikinn áhuga á málaflokknum. Ég sló henni upp á netinu og fann eftirfarandi greinar sem allar eru áhugaverðar og sýna einlægan áhuga ráðherrans fyrir efninu. Sumar eru beinlínis „arkitektablogg“

Kíkið á þetta:

http://www.dv.is/blogg/eyglo-hardardottir/2013/8/13/leiguibudir-oskast/
http://www.dv.is/blogg/eyglo-hardardottir/2013/8/1/thjodarsatt-um-husnaedismal/
http://blog.dv.is/eyglohardar/2012/11/02/husnaedi-fyrir-okkur-oll

http://blog.dv.is/eyglohardar/2012/05/16/odyrari-namsmannaibudir/

http://blog.dv.is/eyglohardar/2012/05/18/leiguibudir-oskast/
http://blog.dv.is/eyglohardar/2012/10/30/haerra-verd-a-namsmannaibudum/
http://blog.dv.is/eyglohardar/2013/05/15/eigid-husnaedi-og-atvinnuleysi/

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 26.8.2013 - 08:44 - 21 ummæli

Umræðan um aðalskipulag Reykjavíkur

 

A_1_1_-mynd10-regionplan_(Custom)

 

Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 er mannanna verk sem gert er til áratuga.  Það kemur ekki frá Guði eins og margir virðast halda og fullkomlega eðlilegt að um það sé rætt og það gagnrýnt. 

Eins og önnur mannanna verk er það hlaðið eðlilegum mannlegum mistökum og þar er líka að finna ýmsa snilldartakta.

Aðalskipulag er mikilvægt plagg sem undirritað er af ráðherra og hefur því sem næst lagagildi.

Aðalskipulag er mikið hagsmunamál allra sem búa á því svæði sem það nær til og þeirra sem leið eiga þar um.

Því er þannig háttað að aðalskipulag veldur meiru um hag fólks en flestar þær ákvarðanir sem teknar eru af stjórnvöldum, hvort sem þær eru teknar á Alþingi eða í sveitarstjórnum. Flestar  deilur og umræður undanfarin ár um skipulagsmál hafa tengst minniháttar ákvörðunum t.d. í deiliskipulagi.

Stóru ákvarðanir eru næstum ekki ræddar.

Nú er nýtt aðalskipulag Reykjavíkur í kynningu, AR 2010-2030. Þetta er eitt það metnaðarfyllsta sem ég hef séð frá þeim bæ. Það á að breyta borginni á margvíslegan hátt. Flest til betri vegar.

Þrátt fyrir allt þetta er aðalskipulagið ekkert í umræðunni ef frá er tekið eitt mál, Vatnsmýrin. Ekki er mikið skrifað um aðalskipulagið í fjölmiðlum. Ég man bara eftir einni grein sem birtist í Morgunblaðinu s.l. laugardag eftir Gest Ólafsson arkitekt og skipulagsfræðing. Þá er það upp talið!

Hvers vegna logar samfélagið ekki í umræðu um þetta mikilvæga mál?

Er það vegna þess að það fjallar um fræðileg efni sem fólk lætur sérfræðingum eftir? Er það vegna þess að það varðar almannahagsmuni  en ekki einkahagsmuni með beinum hætti eins og oft í deiliskipulagi? Er það vegna þess að það er til langrar framtíðar og fólki finnst aðalskipulag ekki “interessant” þess vegna?  Treystir fólk stjórnmálamönnum og sérfæðingunum til þess að sjá um málið fyrir þeirra hönd? Lætur fólk allt yfir sig ganga án þess að kynna sér hvað er í boði og hverjar afleiðingarnar kunna að vera?

Heldur fólk (í ljósi reynslunnar) að skoðun þess skipti ekki máli?

Kannski er það svarið.

Og ef það er svarið þurfa borgaryfirvöld að taka sig á í þeim efnum og gefa fólki það á tilfinninguna að umræða og athugasemdir skipti máli.

Stofnað hefur verið til kennslu í skipulagsfræðum í sennilega fjórum æðri menntastofnunum hér á landi.: Háskóla Íslands, Listaháskólanum, Háskólanum í Reykjavík og Háskólanum á Hvanneyri.  Í þeim tveim síðastnefndu er þegar hafið  metnaðarfullt meistaranám í greininni.

Þrátt fyrir þetta er þáttaka fræðasamfélagsins í skipulagsumræðunni ósýnileg. Kannski treystir fræðasamfélagið sér ekki til að hefja umræðu um skipulagsmál og stefnir frekar að því að vera “spakt”.

Er fræðasamfélagið og skólarnir að bregðast?  Skortir þá frumkvæði og kjark?

Arkitektafélagið virðist ekki hafa burði til þess að vekja upp umræðu um þetta mikla hagsmunamál sem aðalskipulag er. Félagið hefur ekki einu sinni boðað til eins einasta félags- eða kynningarfundar um málið. Hvorki á vinnslustigi né nú eftir að skipulagið hefur verið auglýst. Það er eins og félagið vilji ekki ræða þessi mikilvægu mál. Sama á við um félag skipulagsfræðinga.

Og athugasemdarfrestur rennur út eftir rúmar 3 vikur. Eftir það teljast allir þeir sem ekki gera athugasemd samþykkir aðalskipulaginu.

Fjölmiðlarnir sinna þessu nánast ekki neitt ef frá eru taldar örfáar aðsendar greinar um Vatnsmýrina og ein sem birtiat í Morgunblaðinu í fyrradag eftir Gestur Ólafsson  arkitekt og skipulagsfræðing.

Mikið væri það góð hugmynd ef t.a.m. ríkissjónvarpið fjallaði um skipulg og  arkitektúr með reglulegu millibili. Þau gætu byrjað á Reykjavík þar sem aðalskipulagið er nú á dagskrá. Þetta væru svona 60 mínútna þættir  eftir 22 fréttir á virkum degi svona einu sinni í mánuði! Það mætti gera þetta að góðu og spennandi sjónvarpsefni með ýmsum aðferðum.

Mest er ég þó hissa á afskiptaleysi arkitekta almennt og þá einkum þeirra sem hafa haft skipulagsmál sem sitt sérsvið. Þeir eru sennilega áhugalausir um fag sitt og starfsvetvang. Fyrir þeim er þetta kannski bara „buisniss as usual“

Það er engin forsenda mikilvægari fyrir góðu skipulagi og arkitektúr en upplýstir og  kröfuharðir neytendur. Þeir verða ekki til nema þar sem opin og upplýsandi umræða á sér stað.

The bottom line is:  Skortur á faglegri umræðu um aðalskipulag Reykjavíkur er ærandi og við því verður að bregðast.

Hér er slóð að færslu sem heitir „Óskiljanlegt áhugaleysi fyrir arkitektúr“:

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/02/08/oskiljanlegt-ahugaleysi-fyrir-arkitektur/

og önnur þar sem sagt er frá kynningu á aðalskipulaginu fyrir nokkru:

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/06/27/kynning-a-adalskipulagi-reykjavikur-2/

og um svipað efni:

http://blog.dv.is/arkitektur/2010/09/13/kemur-adalskipulagid-fra-gudi/

Efst í færslunni er teikning sem sýnir höfuðborgarsvæðið allt. Bláa línan sýnir mörk þéttbýlis árið 2012. Rauðu fletirnir samþykkt byggðasvæði utan marka þéttbýlis og þau grænu helstu byggðasvæði innan marka. Ég vek athygli á Vatnsmýrinni. Þegar horft er á höfuðborgarsvæðið allt virðist hún ekki vera af þeirri stærðargráðu að hún sé örlagavaldur um framtíðaruppbyggingu höfuðborgarsvæðisins. Hinsvegar er það mín skoðun að ef flugvöllurin verður lagður niður mun það hafa veruleg áhrif á samkeppnisstöðu höfuðborgarsvæðisins í enn stærra samhengi.

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 22.8.2013 - 06:27 - 25 ummæli

8. Niðurstaða – Flug og skipulag

 

Hér kemur lokahluti yfirferðar Sigurðar Thoroddsen arkitekts um flugsamgöngur og skipulag. Ég þakka honum fyrir fróðlega og faglega umfjöllun um mál sem hefur verið á dagskrá í áratugi og aldrei meira en nú. Efninu var skipt í 8 hluta og mæli ég með að fólk lesi þá alla.

Icelandair-Boeing1

Niðurstaða

Eins og kunnugt er, þá er  eitt af grundavallarhlutverkum stjórnvalda að tryggja heilsu og öryggi borgaranna.

Samgöngur í lofti eru mikilvæg viðbót við samgöngur á landi, einkum þegar ferðast þarf með þægilegum og skjótum hætti lengri leiðir. Einnig  þegar koma þarf sjúklingum undir læknishendur með skömmum fyrirvara.  Reykjavíkurflugvöllur er miðstöð innanlandsflugsins og tengir höfuðborgina vel  við   aðra hluta landsins.  Í Reykjavík  er Alþingi, stjórnsýslustofnanir ríkisins  og  allar  helstu heilbrigðisstofnanir   þjóðarinnar  og ýmsar þjónustustofnanir og fyrirtæki  á tiltölulega afmörkuðu svæði,  í  aðeins nokkurra mínútna ökufjarlægð frá flugvellinum. Reykjavíkurflugvöllur  er því í raun málefni sem varðar alla þjóðina

Til að höfuðborgir geti ræktað  hlutverk sitt  með fullnægjandi hætti,  leggja flestar þjóðir áherslu á að þær   séu  í sem bestum  tengslum við landið allt,  og geti borgir af einhverjum ástæðum ekki  uppfyllt þessi  skilyrði, eru fjölmörg dæmi,  víðvegar um heim, að  miðstjórnarvaldið hafi hreinlega verið flutt til annarrar borgar, eða    ný höfuðborg   byggð. Maður veltir því fyrir sér,  hvort sveitarfélagið Reykjavík hafi áhuga og/eða pólitískan vilja  til að vera gestgjafi æðstu stjórnsýslu og stofnana lýðveldisins.

Í stjórnarskrá landsins, lögum eða   reglum, eru engin ákvæði um að þetta gestgjafahlutverk eigi að vera í   Reykjavík,  þannig að í raun getur  hvaða sveitarfélag sem er  tekið  hlutverkið  að sér.

Verði Reykjavíkurflugvöllur lagður niður,   mun nýr flugvöllur ekki byggður á Höfuðborgarsvæðinu, og afleiðingarnarverða  eftirfarandi:

Varaflugvöllum við Norður-Atlantshaf mun fækka um einn,  og mun þar með draga  úr flugöryggi hafsvæðinu. Vegna færri varaflugvalla munu flugvélar þurfa að taka meira eldsneyti, en það hefur í för með sér hærri rekstrarkostnað og hærri fargjöld.  

Miðstöð innanlandsflugs mun alfarið flytjast til Keflavíkur og fjöldi farþega í innanlandsflugi   dragast verulega saman,  vegna aukins ferðatíma og kostnaðar,  og  samgöngutengsl  Höfuðborgarsvæðisins  við landsbyggðina munu  skerðast

Fjöldi starfa sem tengist fluginuí Reykjavík og nágrenni   beint og óbeint eru um 1000, og munu flest  þeirra  flytjast til Suðurnesja, sem þýðir tekjutap fyrir Reykjavík og nágrannasveitarfélögin, en  er  jákvætt fyrir Suðurnesjamenn. Ennfremur munu ýmsar heilbrigðisstofnanir og  tilteknar  aðrar  þjónustustofnanir,  sem tengjast landsbyggðinni,  sjá sér hag í að   flytjast til Suðurnesja.

Nýr flugvöllur á Höfuðborgarsvæðinu er ekki raunhæfur möguleiki, og tel ég  engan  annan kost í stöðunni en að  miðstöð innanlandsflugs verði áfram þar.

Það er viðeigandi að birta mynd af flugvél í lok þessarrar yfirferðar Sigurðar Thoroddsen um flugsamgöngur og skipulag. Myndin efst í færslunni er af eini af þotum Icelandair.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 21.8.2013 - 07:47 - 6 ummæli

7. Landsskipulag

Hér birtist næst síðasti hluti umfjöllunar Sigurðar Thoroddsen um skipulagsmál og flugsamgöngur. Lokahlutinn kemur á morgun og heitir „Niðurstaða“

TERRA_090202_1255

Landsskipulag

Í  3. kafla  skipulagslaga nr. 123/2010 er fjallað um landsskipulag. Í  10.gr. laganna kemur fram að umhverfisráðherra skuli leggja fram á  Alþingi landsskipulagsstefnu til  þingsályktunar.  Í 2. mgr. kemur fram  að samþætta skuli ýmsar áætlanir opinberra aðila s.s. um samgöngur,  orkunýtingu og aðra málaflokka sem varða landnotkun. Í 4. mgr. eru  ákvæði á þann veg að telji sveitarstjórn að ekki beri að taka mið af samþykktri landsskipulagsstefnu  dugi að leggja fram rökstuðning fyrir því að ekki sé farið eftir áætluninni. Sveitarstjórnir þurfa m.ö.o. ekki að fara eftir landsskipulagsstefnu  frekar en þær vilja.

Í landsskipulagsstefnu  er fjallað  um áætlanir og framkvæmdir á vegum ríkisins og sem varða allt landið,  og þyrfti að gera  breytingar á  skipulagslögum á þann hátt að hugtakið landsskipulagsstefna verði fellt út og því breytt í landsskipulag, og að þingsályktun um landsskipulag verði bindandi fyrir sveitarstjórnir, eftir náið samráð við  þær, og að lokinni auglýsingu  og ítarlegu umsagnarferli. Hér er átt við að skipulag framkvæmda sem varða allt landið  og eru fjármagnaðar af ríkinu heyri undir landsskipulag,  s.s. flugvellir,virkjanir,   háspennulínur, stofnbrautir, hitaorkulagnir, fjarskiptakerfi,  hafnir,   náttúrverndarsvæði og jafnvel  umhverfi Alþingis.

Skipulagsvaldið er í höndum sveitarstjórna og hefur svo verið frá 1998 eða í 15 ár. Þar á undan,   frá  gildistöku fyrstu skipulagslaganna 1921 og til 1998 eða í 77 ár,  var þetta vald í höndum ríkisins,  í nánu samstarfi við sveitarstjórnirnar. 

Eins og staðan er nú,  er mögulegt fyrir 5 manna sveitarstjórn að taka ákvörðun um framkvæmd sem varðar landið allt og er  fjármögnuð af ríkinu.Þetta  er  algjör útúrsnúningur á lýðræðinu og nær í raun ekki nokkurri átt.

Efst er ljósmynd tekin 2. febrúar 2009 af Íslandi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 20.8.2013 - 08:27 - 7 ummæli

6. Bygging flugvallar á Hólmsheiði og flutningur innanlandsflugs til Keflavíkur til bráðabirgða

 

Hér kemur hluti umfjöllunar Sigurðar Thoroddsen sem fjallar um flugvöll á Hólmsheiði og flutning innanlandsflugsins til Keflavíkur.

bilde1

-Bygging flugvallar á Hólmsheiði og  flutningur innanlandsflugs til Keflavíkur til bráðabirgða

Gefum okkur að ákveðið verði að leggja Reykjavíkurflugvöll niður, fjarlægja þau  mannvirki sem þar eru,  og  afhenda flugvallarsvæðið öðrum til afnota  og að byggja nýjan  flugvöll á Hólmsheiði fyrir það fjármagn sem fengist fyrir sölu lóða í Vatnsmýrinni, að þá  má gera ráð fyrir  að lóðasölurog uppbygging í mýrinni taki mörg  ár.  Hinsvegar er  ljóst,  að um leið og byggingarframkvæmdir í mýrinni hefjast,  muni fljótlega þurfa að draga úr flugstarfseminni þar,  eða  að   leggja hann alfarið af og  flytja innanlandsflug til bráðabirgða til Keflavíkurflugvallar,   meðan ríkissjóður  væri að byggja nýjanflugvöll á Hólmsheiði. Þannig  myndi  myndast áralangt millibilsástand í framkvæmdum.

Bygging nýs flugvallar tekur  langan tíma,  hugsanlega 5-10 ár og kostar  stórfé, og   málið er að flugvelli  er ekki hægt að byggja og  taka í notkun í áföngum. Til að uppfylla alþjóðareglur og kröfur um öryggi þarf að klára flugbrautarkerfið  að öllu leyti,  áður en það er tekið í notkun. Ennfremur  að koma  fyrir aðflugsbúnaði,  reisa flugskýli ,  slökkvistöð, flugturn, eldsneytisafgreiðslu o. fl.

Á Hólmsheiði þarf að færa til   stofnlögn hitaveitu og setja háspennulínu, sem nú er um svæðið,   í jörð. Þess má einnig geta að íbúar í nágrenni Hólmsheiðar hafa þegar  látið í sér heyra,  þó hugmyndin sé aðeins á pappír,  og telja þeir  að truflun verði af starfseminni. Benda má á  að nýtt ríkisfangelsi  sem nú er í byggingu,  yrði  við enda einnar flugbrautarinnar, þannig að ekki boða þessar  hugmyndir  góðar undirtektir. 

Á meðan þetta millibilsástand varir, hugsanlega nokkur ár,  þyrfti að leggja  í töluverðan kostnað við að breyta flugstöð Flugstöð Leifs Eiríkssonar  til bráðbirgða,  þannig að millilanda- og innanlandsflug verði aðskilið.  Ennfremur þyrfti að opna flugbraut 07-25  með  ærnum tilkostnaði,  en hún er nauðsynleg fyrir flugvélar í innanlandsflugi   vegna lendinga  í hvassri suðvestan átt. 

-Flutningur innanlandsflugs til Keflavíkur 

Flugmálayfirvöld og miðstjórnarvaldið hafa margoft  lýst því yfir, að verði Reykjavíkurflugvöllur lagður af  muni  innanlandsflug óhjákvæmilega flytjast alfarið til Keflavíkurflugvallar, því það sé  ekki raunhæft að byggja nýjan flugvöll á Hólmsheiði,  vegna mikils kostnaðar,  auk þess sem að svæðið sé í 135 metra hæð yfir sjávarmáli og veðurskilyrði  þar verri en í Vatnsmýrinni,  sem er í aðeins 14 metra hæð. Verði innanlandsflug  endanlega flutt til Keflavikurflugvallar, mun þurfa að gera breytingar á  Flugstöð Leifs Eiríkssonar  og opna flugbraut 07-25 með ærnum tilkostnaði. En þessar framkvæmdir yrðu varanlegar og til framtíðar.

Að sögn flugmálayfirvalda mun  flutningur til Keflavíkur þýða mikinn  samdrátt í innanlandsflugi, en ýmsar stofnanir og þjónusta í Reykjavík munu hinsvegar sjá marga kosti við að flytja starfsemi sína til Suðurnesja.

Myndin efst í færslunni sýnir aðstæður við flugvöll á Hólmsheiði

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 19.8.2013 - 07:27 - 12 ummæli

5. Samkeppni um skipulag Vatnsmýrar og fl.

Hér birtist 5. hluti umfjöllunnar Sigurðar Thoroddsen arkitekts um flugsamgöngur og skipulag. Hér sem hann tæpir hann á mikilvægum atriðum sem ekki hafa verið í umræðunni áður svo ég viti. Það eru; reglur, eignarnám og skaðabætur.  Á næstu dögum mun seinni hluti umfjöllunarinnar birtast með eftirfarandi fyrirsögnum:

  • Bygging flugvallar á Hólmsheiði og  flutningur innanlandsflugs til Keflavíkur til bráðabirgða
  • Landsskipulag
  • Niðurstaða

bilde[3]

Samkeppni um skipulag Vatnsmýrar

Vorið  2007 var efnt til alþjóðlegrar samkeppni um skipulag Vatnsmýrar án flugvallarins og bárust 136 tillögur.  Í  febrúar 2008 voru úrslit birt,  og voru það skoskir arkitektar sem hlutu 1. verðlaun.  Ekki hefur verið unnið frekar að þróun tillögunnar, nema  ef vera skyldi að einhver skyldleiki virðist á ferðinni varðandi staðsetningu  hátæknissjúkrahúss, sem mér skilst að búið sé að salta..

En í öllu falli var  samkvæmt tillögunni lagt til að flugvöllurinn í Vatnsmýri víki án þess að niðurstaða hafi legið fyrir varðandi nýjan innanlandsflugvöll á Höfuðborgarsvæðinu.   Þetta vekur furðu,  því vandamálið var,  og er ekki að raða niður byggingum í Vatnsmýrinni heldur frekar framtíðarstaðsetning miðstöðvar innanlandsflugsins.  Halda  hefði átt samkeppni þar sem keppendur gátu valið hvort gert væri ráð fyrir flugvellinum eða ekki.

– Skipulagsreglur

Þann 7. ágúst 2009 staðfesti þáverandi samgönguráðherra skipulagsreglur fyrir Reykjavíkurflugvöll á grundvelli 59.-68.gr. laga um loftferðir nr.60/1998. En samkv.   reglunum eru ákvarðaðir   hindranafletir vegna aðflugs  og brottflugs að Reykjavíkurflugvelli,  auk þess sem áhrifasvæði flugbrauta eru skilgreind og    landnotkun á flugvallarsvæðinu. Sem dæmi má nefna að ekki er gert ráð fyrir að loka flugbraut 16/24. Ennfremur að samkvæmt  59. gr. laganna,  er heimilt að fjarlægjatrjágróður  við enda flugbrauta ef hann er hindrun vegna flugumferðarinnar.   Reglurnar voru auglýstar opinberlega og bárust athugasemdir m.a.  frá Reykjavíkurborg  dags.  6. apríl 2009. Samkvæmt þeim eru ekki gerðar  meiriháttar  efnislegar athugsemdir við reglurnar en minnt á hugmyndir um nýja flugstöð norðan Loftleiðahótelsins.

-Eignarnám  og skaðabætur.

Ekki liggur fyrir vilji eða samþykki   eigenda/notenda  Reykjavíkurflugvallar að leggja hann niður og flytja starfsemina annað, en eigendur mannvirkja á svæðinu eru  ríkið og  fjölmargir aðrir aðilar.   Breyti Reykjavíkurborg engu að síður skipulagi svæðisins á þann veg   að  núverandi starfsemi víki og að landið verði afhent öðrum til afnota,  þarf  að greiða fullar bætur til eigenda flugbrauta,  fasteigna og fjölmargra mannvirkja á svæðinu sbr. ákvæði 50. og 51.  gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og laga um framkvæmd eignarnáms  nr. 11/1973. Sjá einnig  1. mgr. 72. gr. laga nr. 33/1944 um Stjórnarskrá Lýðveldisins Ísland. .

Væntanlega yrði um  stærstu eignaupptöku og/eða  eignarnám hérlendis að ræða  og spurning hvort Reykjavíkurborg ráði við það. Málið er að Reykjavíkurborg byggir ekki nýjan flugvöll með  tilheyrandi mannvirkjum, það hlutverk hefur ríkisjóður og ýmsir einkaaðilar. Það  sem Borgin gerir,  er einungis að gefa kost á  lóð undir flugvöll með tilheyrandi lóðagjöldum, aðkomu að lóðinni og hugsanlega einhvern infrastrúktúrinnan svæðisins.

Myndin efst í færslunni er af hluta Aðalskipuilags Reykjavíkur 2010-2030 sem sýnir Vatnsmýrarskipulag byggt á verðlaunatillögu frá 2007

Hér er færsla sem fjallar um samkeppnina í Vatsnmýri 2007

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/01/13/vatnsmyrarsamkeppnin-upprifjun/

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 18.8.2013 - 00:58 - 3 ummæli

4. Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024

 Hér birtist fjórði hluti umfjöllunnar Sigurðar Thoroddsen um flugsamgöngur og skipulagsmál.  Á morgun verður fjallað um samkepni um skipulag í Vatnsmýrinni og fl.

adalskipulag_framhlid-3

Aðalskipulagi  Reykjavíkur 2001-2024

Í Aðalskipulagi  Reykjavíkur 2001-2024, sem staðfest var 20. desember 2002/10. janúar 2003 segir efnislega: Á árunum 2001-2016  er gert ráð fyrir að flugbraut (06-24)  sem stefnir til norðausturs-suðvesturs, verði lögð niður, en að það verði ekki gert fyrr en að tryggt verði að flugbraut með sömu stefnu verði opnuð á Keflavíkurflugvelli þ.e. flugbraut  07-25.   Eftir 2003 verði kennsluflug flutt á nýjan  flugvöll í nágrenni Höfuðborgarsvæðisins.  Á síðari hluta skipulagstímabilsins 2016-2024 er hinsvegar gert ráð fyrir að einungis austur-vestur braut (13-31) verði notuð,  og lengstu flugbrautinni,   norður-suður braut (01-19) hafi  verið lokað,  og landið tekið undir almenna byggð að undangenginniskipulagssamkeppni.

Í Svæðisskipulagi Höfuðborgarsvæðisins  2001- 2024 sem  staðfest var 20. desember 2002,   segir eftirfarandi um framtíð Reykjavíkurflugvallar: Gert er ráð fyrir að flugvellinum verði lokað árið 2016.  Ennfremur að samvinnunefndin hafi látið gera athugun á framtíðarstaðsetningu innanlandsflugvallar, en án  niðurstöðu.  Vitnað er í kosningu  meðal íbúa Reykjavíkur um framtíð miðstöðvar innanlandsflugsins sem haldin var 17. mars 2001,  og að niðurstaðan hafi verið  að flugvöllurinn verði lagður niður í síðasta lagi 2016.

Til skýringar skal þess getið að kjörsókn var einungis um 37% og voru 14.913 samþykkir  flutningi vallarins en 14.529 á móti. Munurinn var því aðeins 384 atkvæði auk þess sem að kosningin var ekki marktæk,  þar sem kosningaþátttakan var undir því viðmiði sem borgarstjórn setti til að kosningin væri bindandi, en það var að kjörsókn yrði 75% eða ef 50% atkvæðisbærra manna greiddi atkvæði á sama veg. 

Í svæðisskipulaginu eru engu að síður  tekin mið af atkvæðagreiðslunni og gert ráð fyrir að flugvallarstarfsemi á svæði Reykjavíkurflugvallar  víki í áföngum og að íbúðarbyggð og atvinnustarfsemi aukist að sama skapi. Gert er ráð fyrir að helmingur flugvallarsvæðisins verði fullbyggður 2024 en hinn hlutinn  eftir það.  Samkvæmt svæðisskipulaginu er m.ö.o. gert ráð fyrir að flugstarfsemin hverfi að öllu leyti af svæðinu.  

Í tillögu að Aðalskipulagi  Reykjavíkur 2010-2030 sem nú er í kynningu, segir efnislega  eftirfarandi:  Í Vatnsmýrinni felst einstakt tækifæri að gera Reykjavík að betri borg. Gert er ráð fyrir þéttingu núverandi byggðar og yrði Vatnsmýrin eitt aðal þéttingarsvæðið,  sem þýðir að  Reykjavíkurflugvöllur verður  lagður niður í áföngum,  þannig að  á árinu  2030 verði búið að byggja 3600 íbúðir í Vatnsmýri,   auk þjónustustarfsemi. En þetta er byggð sem á fyrst og fremst að tengjast  miðborginni. Ekki kemur fram endanlega hvar miðstöð innanlandsflugs eigi að vera,  nema ef vera skyldi á Hólmsheiði. Fram kemur einnig í greinargerð,  að starfsleyfi Reykjavíkurflugvallar renni út 6. maí 2016.

Myndin efst í færslunni sýnir Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 17.8.2013 - 08:02 - 2 ummæli

3. Reykjavíkurflugvöllur

 Sigurður Thoroddsen arkitekt  fjallar hér um Reykjavíkurflugvöll í umfjöllun sinni um flugsamgöngur og skipulag á Íslandi. Á morgun birtist svo grein um flugsamgöngur og Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024

sagarvk

Reykjavíkurflugvöllur

Reykjavíkurflugvöllur er miðstöð innanlandsflugs og var upphaflega byggður 1941-1942 af breska hernum og þá sem herflugvöllur.  Helstu  forsendur  hersins fyrir staðsetningu hans  voru að   aðdrættir frá Reykjavíkurhöfn þóttu hentugir, auk nálægðar við helstu skipaleiðir stórveldanna. Ári eftir  lok styrjaldarinnar, eða 1946 var hann afhentur íslenskum stjórnvöldum til eignar og afnota.   Frá þeim tíma gegndi flugvöllurinn því hlutverki að vera miðstöð millilanda-  og  innanlandsflugs eða til ársins  1962, að  millilandaflug hófst  um  Keflavíkurflugvöll,   og síðan hefur Reykjavíkurflugvöllur fyrst og fremst  verið  miðstöð innanlandsflugs og sjúkraflugs.

Flugvöllurinn er einnig mikilvægur  vegna eftirlits- og björgunarflugs  á vegum Landhelgisgæslunnar  og sem viðkomustaður flugvéla í ferjuflugi  yfir hafið. Þaðan  er ennfremur  stundað kennslu-  einkaflug  og  almenn flugstarfsemi. Á flugvellinum eru 2 flugbrautir  1567 metra (01-19)  og 1230 metra (13-31) langar,  auk þeirrar þriðju 960 sem er metrar (06-24),  en hún er lítið notuð nema við tilteknar veðurfarsaðstæður. 

Við flugvöllinn eru fjölmörg mannvirki og búnaður í tengslum við  flugstarfsemina   s.s. flugstöð, vöruflutningamiðstöð, flugskýli, flugturn,  slökkvistöð, aðstaða Landhelgisgæslu, flugafgreiðsla,  miðstöð flugumsjónar, eldsneytisafgreiðsla,  skrifstofur,  hótel og ýmis önnur aðstaða.  Á  árunum 2000-2002 voru tvær aðalflugbrautirnar endurbyggðar,  auk þess sem bætt var við sérstakri flugvélaakstursbraut austan norður-suður flugbrautar (01-19). Brautarmannvirki eru í góðu standi og þjóna sínu hlutverki vel.

Stjórn skipulags- og byggingarmála á flugvallarsvæðinu eru á hendi Reykjavíkurborgar án beinnar aðkomu flugvallaryfirvalda. . 

-Almennt um þróunina

Fljótlega eftir að flugumferð  tók að aukast  um Reykjavíkurflugvöll hófust umræður um að hann þyrfti að víkja fyrir þróun miðborgarinnar.  Auk nauðsynlegrar  byggðarþróunar voru tíunduð ýmis rök gegn staðsetningu flugvallarins s.s.  hávaði frá flugumferðinni,  slysahætta  og mengun. Þessi umræða hefur staðið  sleitulaust í marga áratugi en án niðurstöðu.

Gerðar hafa verið fjöldamargar athuganir og úttektir  á ýmsum stöðum á Höfuðborgarsvæðinu fyrir nýjan flugvöll,  en allar strandað á  pólitískum vilja og/eða fjárskorti.  Helstu staðir sem hafa verið  skoðaðireru:  Álftanes, Kapelluhraun, Löngusker og Hólmsheiði.

Á Alþingi hefur komið fram andstaða við að Reykjavíkurflugvöllur verðilagður niður og flugstarfseminni komið fyrir annarsstaðar,  auk þess sem sveitarstjórnir á vestur- norður- og austurlandi hafa lýst yfir andstöðu við fyrirhugaðan flutning.  

-Svæðis- og aðal- og deiliskipulagsáætlanir

Unnar hafa verið fjölmargar skipulagsáætlanir fyrir Reykjavík og nágrannasveitarfélög og þar sem  fjallað er  um  Reykjavíkurflugvöll  með ýmsum hætti. Þær helstu eru:

Deiliskipulagáætlun  Reykjavíkurflugvallar, er  frá 1986, og var hún endurskoðuð 1999.  Gerðar hafa verið  3 minniháttar breytingará skipulaginu, en  skipulagsáætlunin er   enn í gildi. Samkvæmt þessum áætlunum er gert ráð fyrir óbreyttu brautarkerfi. Helstu framkvæmdir á grundvelli skipulagsins eru að 2 aðalflugbrautirnar hafa verið endurbyggðar með nýju burðarlagi og   slitlagi. Ennfremur var  byggðný  flugvélaakstursbraut austan brautar 01-19.

Í Aðalskipulagi  Reykjavíkur 1996-2016,  sem staðfest var 19. ágúst 1997 segir efnislega:  Gert er ráð fyrir að  flugbraut (06-24) sem stefnir til suðvesturs, verði lögð niður og kennsluflug flutt á nýjan  flugvöll í nágrenni Höfuðborgarsvæðisins. Jafnframt verði ferjuflugi beint til Keflavíkurflugvallar, en innanlandsflug verði  áfram um sinn á Reykjavíkurflugvelli. 

 

Myndin efst í færslunni er af gamla flugturninum á Reykjavíkurflugvelli.

Sjá einnig

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/12/08/reykjavikurflugvollur-flokkusaga/

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 16.8.2013 - 07:57 - 1 ummæli

2. Keflavíkurflugvöllur

 

 Hér birtist annar hluti  umfjöllunar Sigurðar Thoroddsen arkitekts og skipulagfræðings um flugsamgöngur og skipulag:

seaboard-1

Keflavíkurflugvöllur er aðal millilandaflugvöllur landsins,   og var  hann upphaflega byggður 1942-1943  af  bandaríska hernum. Flugvöllurinn var byggður sem herflugvöllur, og   staðsettur miðað við það tiltekna hlutverk, sem var að taka þátt í hernaðinum á Norður-Atlantshafi. Ennfremur  þóttu landhættir góðir fyrir flugvöll á sléttri Miðnesheiðinni.

Í fyrstu   var Keflavíkurflugvöllur fyrst og fremst   notaður sem herflugvöllur,  eða þar  til 1. júní 1962 að   Loftleiðir hófu þar starfsemi og  1. júní 1967 bættist Flugfélag Íslands við. Frá og með 1973hefur  hið sameinaða félag  Flugleiðir annast millilandaflug frá Keflavíkurflugvelli.  Síðan þá hefur hann verið notaður sem aðal  millilandaflugvöllur þjóðarinnar,  auk þess sem ýmis  erlend flugfélög hafa þar  aðstöðu.

Á flugvellinum eru tvær  3050  metra langar flugbrautir,  vel búnar aðflugstækjum auk þeirrar þriðju sem ekki er  í notkun.  Á  suðursvæði flugvallarins var flugstöð varnarliðsins,  og þar hófst  borgaraleg flugstarfsemivið lok heimstyrjaldarinnar samhliða þeirri hernaðarlegu. Árið  1987 var  ný flugstöð fyrir borgaralega flugstarfsemi byggð og   tekin í notkun á norðursvæði flugvallarins, og var hún  að stórum hluta fjármögnuð af Bandaríkjamönnum.

Á flugvellinum eru auk flugstöðvarinnar fjöldamargar aðrar byggingar sem þjóna flugstarfseminni s.s. miðstöð vöruflutninga- viðhaldsaðstaða flugvéla, flugskýli, flugturn, slökkvistöð, eldsneytisafgreiðsla, aðstaða fyrir bílaleigur, hótel og önnur mannvirki.

Við brottför varnarliðsins árið 2006 var flugvöllurinn ásamt mannvirkjum og tilteknum búnaði afhentur íslenskum stjórnvöldum til eignar og/eða  afnota.

Stjórn skipulags- og byggingarmála á flugvallarsvæðinu heyrir undir innanríkisráðuneytið  með aðkomu sveitarfélaganna.

 

Myndin efst í færslunni sýnir gömlu flugstöðina á Keflavíkurflugvelli.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn