
Ég var rétt í þessu að koma af kynningarfundi hjá skipulags- og byggingasviði Reykjavíkurborgar. Þar voru samankomnir 24-30 sjálfstætt starfandi rágjafar í skipulagsmálum auk starfsmanna skipulagssviðs. Á kynningunni var farið yfir aðalskipulagstillöguna í öllum meginatriðum.
Fjögur atriði standa að mínu mati uppúr: a) stöðvun útþennslu borgarinnar b) nýr samgönguás eftir borginni endilangri (hin línulega borg) c) hverfaskipulagið. Allt frábær markmið. Í fjórða lagi var það auðvitað hugmyndin um að leggja niður flugsamgöngur við höfuðborgarsvæðið (!).
Eftir kynninguna jókst ánægja mín með skipulagið í megindráttum.
Ætli þetta sé ekki besta aðalskipulag borgarinnar frá árinu 1927. Og ekki bara það heldur er nálgunin ekki ósvipuð.
Í skipulaginu frá 1927 voru útmörk borgarinnar mörkuð með hringbraut sem leggja átti umhverfis borgina. Byggð var ekki fyrirhuguð utan þessarrar brautar og átti að stækka innan hennar. Þessi braut var lögð og hét síðar Snorrabraut til austurs og Hringbraut til suðurs. Í AR 2010-2030 er svipað uppi á teningnum. Það er að segja að lagt er til að borgin þenjist ekki út fyrir þau mörk sem mörkuð hafa verið undanfarna áratugi. Útþennslustefnunni er lokið. Stefnt er að því að borgin stækki innan þeirra marka á sama hátt og hugmyndin að skipulaginu 1927 gerði ráð fyrir.
Skipulagsmál höfuðborgarinnar hafa verið í miklum vandræðagangi undanfarin svona 25 ár og einkennst af „american quilt“ þar sem bútarnir eru saumaðir saman eftir þörfum líðandi stundar og án heildaryfirsýn. Menn virtust ekki alminlega vita hverslags teppi þeir væru að sauma.
En nú er lögð fram skýr stefna.
Hryggjarstykki nýja skipulagsins er hinn svokallaði þróunar- og samgönguás sem liggja á frá Örfyrisey alla leið að Keldum með öflugum almenningssamgöngum. Þarna eru lögð drög að línulegri miðborg. Þetta er mikið framfaraspor sem gefur fólki tækifæri á lífi án einkabíls. Þessi ás bindur borgina saman þannig að líkur geta orðið á að hún virki sem ein starfræn heild. Þessi hluti aðalskipulagsin er að mínu mati sá mikilvægasti í allri þeirri hugmyndavinnu sem þar er að finna. Spurningin er hvort ekki sé nægjanlegt að láta ásinn ganga að ósum Elliðaáa þar sem fyrirhuguð er mikil byggð sem gæti verið annar miðborgarpóll sem kallast á og tengist gömlu miðborginni með þéttum vistvænum samgöngum. Og svo auðvitað hvernig móta má aðgerðaráætlun til þess að koma þessari stórgóðu hugmynd á flug.
Nú ríður á að einbeita sér að því að byggja undirstöður undir þessa áætlun. Allar ákvarðanir sem teknar verða í skipulagmálum borgarinnar, stórar og smáar, þurfa að taka mið af þessum samgönguás. Þarna á að koma fyrir stórum vinnustöðum og þéttri íbúðabyggð. Ekkert má gera sem ekki beinlínis styrkir hugmyndina. Svo ég skjóti því hér inn þá sýnist mér hugmyndirnar um að nota umferðamiðstöðina við Hringbraut sem aðalstöð almenningssamgangna borgarinnar stangist á við fyrirhugaðan samgönguás með sínum öflugu almenningsflutningum. Aðalmiðstöð almenningssamgangna á að vera tengd þessum samgönguás t.d. við enda hans við ósa Elliðaáa. Borgin á að selja umferðamiðstöðina við Hringbraut sem fyrst, hæstbjóðanda.
Auk stöðvunar útþennslu borgarinnar og samgönguássins er hugmyndin um hverfaskipulagið meginþáttur aðalskipulagsins. Borginni hefur verið skipt í 10 svæði sem á að endurskipulaggja með tilliti til meginmarkmiða aðalskipulagsins. Þetta gefur tækifæri til að skapa starfrænar og sjálfbærar heildir í hverfunum og skapa hverfisvitund meðal íbúanna. Ef þetta tekst vel mun bifreiðaumferð minnka verulega til hagsbóta fyrir alla. Gangandi og hjólandi ferðamáti ásamt almenningssamgöngum mun aukast verulega eins og aðalskipulagið stefnir að.
Undanfarin ár hafa verið gerð deiliskipulög fyrir marga reiti í eldri hverfum borgarinnar. Að mínu mati var fagmennskan þar ekki til fyrirmyndar. Deiliskipulagðir voru einstakir reitir án þess að spyrja hvað reiturinn geti gert fyrir borgina eða hvað borgin gæti gert fyrir reitinn. Ég nefni reitina milli Hverfisgötu og Laugarvegs sem voru deiliskipulagðir án þess að vita hverskonar götur Hverfisgata og Laugavegur ættu að verða. Hlutverk gatnanna ætti að vera forsenda fyrir deiliskipulaginu. Safngötur, vistgötur göngugötur eða eins og nú er verið að tala um að gera Hverfisgötu að hluta af aðalsamgönguáss borgarinnar hafa áhrif á deiliskipulagsvinnuna og ætti að vera forsenda hennar. Þessi bútasaumshugsunarháttur er vonandi að baki ef ég skil grundvöll aðalskipulagsins 2010-2030 rétt.
Eitt er það í aðalskipulaginu er mér fyrirmunað að skilja og það er sú ákvörðun að leggja Reykjavíkurflugvöll niður. Reyndar var notað orðalagið „að flytja flugvöllinn“ en allir vita að maður flytur ekki nema hafa völ á öðru húsnæði.
Tillagan um að leggja Reykjavíkurflugvöll niður stenst bara ekki í mínum huga. Hugmyndin er að mínu mati vanþroskuð og þarf að ræða í mun stærra samhengi en gert hefur verið. Það þarf að skoða hana með allt höfuðborgarsvæðið í huga og landsbyggðina. Öðruvísi er ekki hægt að komast að skynsamlegri niðurstöðu. Svo þarf auðvitað að ríkja almenn sátt um flugvallarmálið eins og aðalskipulagið allt.
Það var vel að þessum kynningarfundi staðið hjá skipulags- og byggingasviði. Starfsmenn sviðsins voru vel að sér og áhugasamir, komu hvergi að tómum kofanum og voru meðvitaðir um þau vafaatriði og álitamál sem spurt var um.
Nú hafa aðalskipulagsdrögin verið send til umsagnar hjá Skipulagfstofnun og í framhaldinu verður auglýst eftir athugasemdum.
Vonandi á þetta eftir að ganga vel þannig að framhaldið verði ekki „buisniss as usual“ !!
Efst er mynd af skipulaginu frá 1927
Sjá einnig um AR 2010-2030:
http://blog.dv.is/arkitektur/2013/06/02/nytt-adalskipulag-reykjavikur-ar-2010-2030/
og
http://blog.dv.is/arkitektur/2013/06/05/nyr-throunar-og-samgonguas-i-adalskipulaginu/
og
http://blog.dv.is/arkitektur/2013/06/07/vatnsmyrin-og-adalskipulagid/
Vegna athugasemdar Halldórs Eiríkssonar arkitekts birti ég hér að neðan aftur umrædda mynd sem sýnir þróunar- og samgönguás aðalskipulagsins