Fimmtudagur 4.7.2013 - 12:04 - 19 ummæli

„Micro“ íbúðir

yo-home-transforming-london-apartment

Um það bil sem ný byggingareglugerð átti að taka gildi hér á landi samþykktu borgaryfirvöld í San Francisco heimild til þess að byggðar væru íbúðir sem eru allt niður í 20 fermetrar.

Þetta eru svokallaðar “micro apartments”  sem njóta vaxandi vinsælda í miðborgum margra borga á vesturlöndum

Ástæðan er sú að vaxandi hópur meðaltekjufólks óskar eftir því að búa í miðborgunum þar sem stutt er til vinnu og þjónustu og þar sem þau þurfa ekki að reka einkabíl. Þróunin undanfarin ár hefur verið sú að fólk með háar tekjur hefur verið að flytjast úr úthverfum inn í miðborgirnar meðan millitekjufólk og jafnvel fólk með lægri tekjur er að flytja í úthverfin.

Þessi þróun hefur gert það að verkum að húsaleiga í miðborgunum er svo há að millitelkjufólk hefur ekki lengur efni á að búa þar.

Markmið borgarinnar og borgarstjórans  í San Francisco var að mæta húsnæðisþörf fyrir einhleypa og stuðla að lækkun húsaleigu íbúða í miðborginni. Þetta vilja þeir gera með því að byggja mjög litlarog hagkvæmar íbúðir.  Michael Bloomberg í New York hefur einnig unnið að því að byggja micro íbúðir þar í borg eins og fram kemur á hjálögðum myndum og fréttamyndbandi.

Arkitektar hafa unnið að því að hanna micro íbúðir  mörg undanfarin ár þar sem íbúðunum er komið fyrir í gömlum byggingum af öllum gerðum og nýbyggingum á vannýttum lóðum og jafnvel á bifreiðastæðum.

Ekki veit ég hvort þetta sé góð eða slæm hugmynd en hún á ábyggilega vel við víða. Ég væri ekki hissa þó það væri hægt að koma 3-500 íbúðum af þessari gerð innan gömlu Hringbrautar í Reykjavík. En ný íslensk byggingareglugerð er svo skammsýn og þröngsýn að hún gefur ekki tækifæri fyrir þessa lausn í husnæðismálum fyrir einhleypa sýnist mér.

Hjálagt eru nokkrar ljósmyndir af micro íbúðum

Efst er mynd af micro íbúð fyrir efnameiri. Þar er dagstofunni sökkt um 70 cm niður í gólfið meðan svefnherbergið sígur úr loftinu.

Fyrstu fimm myndir og teikningar að neðan eru frá byggingu sem verið er að undirbúa í New York fyrir svona íbúðir. Þetta er unnið í kjölfar samkeppni sem borgarstjórinn Bloomberg átti frumkvæði að. Íbúðirnar þar eru ætlaðar tekjuminni einstaklingum. Þess má geta að í stórborginni er um helmingur íbúanna einhleypur.  Neðst er svo stutt fréttamynd sem segir frá niðurstöðu í samkeppni um micro íbúðir í NY.

Þetta er sagt stærsta nýja „trendið“ í miðborgum stúrborga hins vestræna heims. Ef „micro apartment“ er Gúglað kemur það strax í ljós.

nyc-micro-apartments

dance-studio-jpg_032050

floorplan-apt-4d-jpg_032050

 

Að neðan er þrívíð teikning af micro íbúð.

micro-apartments

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 27.6.2013 - 13:06 - 18 ummæli

Kynning á aðalskipulagi Reykjavíkur

005_04_04_800

 

Ég var rétt í þessu að koma af kynningarfundi hjá skipulags- og byggingasviði Reykjavíkurborgar. Þar voru samankomnir 24-30 sjálfstætt starfandi rágjafar í skipulagsmálum auk starfsmanna skipulagssviðs. Á kynningunni var farið yfir aðalskipulagstillöguna í öllum meginatriðum.

Fjögur atriði standa  að mínu mati uppúr:  a) stöðvun útþennslu borgarinnar b) nýr samgönguás eftir borginni endilangri (hin línulega borg) c) hverfaskipulagið. Allt frábær markmið. Í fjórða lagi var það auðvitað hugmyndin um að leggja niður flugsamgöngur við höfuðborgarsvæðið (!).

Eftir kynninguna  jókst ánægja mín með skipulagið í megindráttum.

Ætli þetta sé ekki  besta aðalskipulag borgarinnar frá árinu 1927. Og ekki bara það heldur er nálgunin ekki ósvipuð.

Í skipulaginu frá 1927 voru útmörk borgarinnar mörkuð með hringbraut sem leggja átti umhverfis borgina.  Byggð var ekki fyrirhuguð utan þessarrar brautar og átti að stækka innan hennar. Þessi braut var  lögð og hét síðar Snorrabraut til austurs og Hringbraut til suðurs.  Í AR 2010-2030 er svipað uppi á teningnum. Það er að segja að lagt er til að borgin þenjist ekki út fyrir þau mörk sem mörkuð hafa verið  undanfarna áratugi. Útþennslustefnunni er lokið. Stefnt er að því að borgin stækki innan þeirra marka á sama hátt og hugmyndin að skipulaginu 1927 gerði ráð fyrir.

Skipulagsmál höfuðborgarinnar hafa verið í miklum vandræðagangi undanfarin svona 25 ár og einkennst af  „american quilt“ þar sem bútarnir eru saumaðir saman eftir þörfum líðandi stundar og án heildaryfirsýn. Menn virtust ekki alminlega vita hverslags teppi þeir væru að sauma.

En nú er lögð fram skýr stefna.

Hryggjarstykki nýja skipulagsins er hinn svokallaði þróunar- og samgönguás sem liggja á frá Örfyrisey alla leið að Keldum með öflugum almenningssamgöngum. Þarna eru lögð drög að línulegri miðborg. Þetta er mikið framfaraspor sem gefur fólki tækifæri á lífi án einkabíls. Þessi ás bindur borgina saman þannig að líkur geta orðið á að hún virki sem ein starfræn heild. Þessi hluti aðalskipulagsin er að mínu mati  sá mikilvægasti í allri þeirri hugmyndavinnu sem þar er að finna. Spurningin er hvort ekki sé nægjanlegt að láta ásinn ganga að ósum Elliðaáa þar sem fyrirhuguð er mikil byggð sem gæti verið annar miðborgarpóll sem kallast á og tengist gömlu miðborginni með þéttum vistvænum samgöngum. Og svo auðvitað hvernig móta má aðgerðaráætlun til þess að koma þessari stórgóðu hugmynd á flug.

Nú ríður á að einbeita sér að því að byggja undirstöður undir þessa áætlun. Allar ákvarðanir sem teknar verða í skipulagmálum borgarinnar, stórar og smáar, þurfa að taka mið af þessum samgönguás. Þarna á að koma fyrir stórum vinnustöðum og þéttri íbúðabyggð. Ekkert má gera sem ekki beinlínis styrkir hugmyndina. Svo ég skjóti því hér inn þá sýnist mér hugmyndirnar um að nota umferðamiðstöðina við Hringbraut sem aðalstöð almenningssamgangna borgarinnar stangist á við fyrirhugaðan samgönguás með sínum öflugu almenningsflutningum.  Aðalmiðstöð  almenningssamgangna á að vera tengd þessum samgönguás t.d. við enda hans við ósa Elliðaáa. Borgin á að selja umferðamiðstöðina við Hringbraut sem fyrst, hæstbjóðanda.

Auk stöðvunar útþennslu borgarinnar og samgönguássins er hugmyndin um hverfaskipulagið meginþáttur aðalskipulagsins.  Borginni hefur verið skipt í 10 svæði sem á að endurskipulaggja með tilliti til meginmarkmiða aðalskipulagsins.  Þetta gefur tækifæri til að skapa starfrænar og sjálfbærar heildir í hverfunum og skapa hverfisvitund meðal íbúanna. Ef þetta tekst vel mun bifreiðaumferð minnka verulega til hagsbóta fyrir alla.  Gangandi og hjólandi ferðamáti ásamt almenningssamgöngum mun aukast verulega eins og aðalskipulagið stefnir að.

Undanfarin ár hafa verið gerð deiliskipulög fyrir marga reiti í eldri hverfum borgarinnar. Að mínu mati var fagmennskan þar ekki til fyrirmyndar. Deiliskipulagðir voru einstakir reitir án þess að spyrja hvað reiturinn geti gert fyrir borgina eða hvað borgin gæti gert fyrir reitinn. Ég nefni reitina milli Hverfisgötu og Laugarvegs sem voru deiliskipulagðir án þess að vita hverskonar götur Hverfisgata og Laugavegur ættu að verða. Hlutverk gatnanna ætti að vera forsenda fyrir deiliskipulaginu. Safngötur, vistgötur göngugötur eða eins og nú er verið að tala um að gera Hverfisgötu að hluta af aðalsamgönguáss borgarinnar hafa áhrif á deiliskipulagsvinnuna og ætti að vera forsenda hennar. Þessi bútasaumshugsunarháttur er vonandi að baki ef ég skil grundvöll aðalskipulagsins 2010-2030 rétt.

Eitt er það í aðalskipulaginu er mér fyrirmunað að skilja og það er sú ákvörðun að leggja Reykjavíkurflugvöll niður. Reyndar var notað orðalagið „að flytja flugvöllinn“ en allir vita að maður flytur ekki nema hafa völ á öðru húsnæði.

Tillagan um að leggja Reykjavíkurflugvöll niður stenst bara ekki í mínum huga. Hugmyndin er  að mínu mati vanþroskuð og þarf að ræða í mun stærra samhengi en gert hefur verið. Það þarf að skoða hana með allt höfuðborgarsvæðið í huga og landsbyggðina. Öðruvísi er ekki hægt að komast að skynsamlegri niðurstöðu. Svo þarf auðvitað að ríkja almenn sátt um flugvallarmálið eins og aðalskipulagið allt.

Það var vel að þessum kynningarfundi staðið hjá skipulags- og byggingasviði. Starfsmenn sviðsins voru vel að sér og áhugasamir, komu hvergi að tómum kofanum og voru meðvitaðir um þau vafaatriði og álitamál sem spurt var um.

Nú hafa aðalskipulagsdrögin verið send til umsagnar hjá Skipulagfstofnun og í framhaldinu verður auglýst eftir athugasemdum.

Vonandi á þetta eftir að ganga vel þannig að  framhaldið verði ekki „buisniss as usual“ !!

 

Efst er mynd af skipulaginu frá 1927

 

Sjá einnig um AR 2010-2030:

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/06/02/nytt-adalskipulag-reykjavikur-ar-2010-2030/

og

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/06/05/nyr-throunar-og-samgonguas-i-adalskipulaginu/

og

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/06/07/vatnsmyrin-og-adalskipulagid/

 

Vegna athugasemdar Halldórs Eiríkssonar arkitekts birti ég hér að neðan aftur umrædda mynd sem sýnir þróunar- og samgönguás aðalskipulagsinsÞróunarás

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 24.6.2013 - 10:24 - 19 ummæli

Borgarnes og Selfoss – Hjáleiðir?

 SCAN1431_001lett

Síðastliðin laugardag birtist í Morgunblaðinu grein eftir þá Ólaf Hjálmarsson verkfræðing og Ragnar Frank Kristjánsson lektor í umhverfisfræðum við háskólann á Hvanneyri.

Í greininni viðra höfundar áhyggjur sínar af nýjum hjáleiðum við Selfoss og Borgarnes og áhrifum þeirra á byggðina. Þeir efast um að þessar áætlanir skili þeim árangri sem stefnt er að og telja að vert sé að skoða þann möguleika til hlítar að bæta núverandi leið þjóðveganna í gegnum Selfoss og Borgarnes. Þeir telja það betri kost, bæði með tilliti til umferðaröryggis og umhverfissjónarmiða. Þeim líst ekki á nýjar hraðbrautir við bæjardyrnar.

Þeir nefna að framkvæmdirnar við muni kosta nálægt 5 miljarða króna.

Við Borgarnes virðast umhverfisspjöllin mun meiri en við Selfoss. Umhverfisspjöllin við Borgarnes eru í raun skelfileg sýnist mér.

Athygli mina vakti fullyrðing greinarhöfunda um að Reykjavíkurborg hafi opinberlega viðurkennt að lagning nýrrar hraðbrautar í Reykjavík (Hringbraut) um Vatnsmýri hafi verið mistök. Þetta er í raun stórfrétt í mínum huga því gagnrýnisröddum, sem voru miklar, var aldrei svarað faglega svo ég tæki eftir. Mér þótti þetta alltaf einkennnileg framkvæmd. Rúmlega kílómetars löng hraðbraut í miðri borginni með 60 km hámarkshraða og svo til að toppa framkvæmdina er komið fyrir stórri þjóðvegasjóppu á henni miðri. Maður spurði og spyr enn: Eiga þjóðvegasjoppur og hraðbrautir að vera til í borgarmiðjum?

Það var fjallað lítillega um þetta hér á vefnum fyrir nokkru þar sem einn lesandanna (sem er skipulagsfræðingur) benti á í athugasemdarkerfinu að það eina sem þurfi að gera á þessum stöðum er að sjá til þess að umferðin um þjóðveginn lúti lögmálum þéttbýlisins þegar ekið er í gegnum Borgarnes (Selfoss). Hann bendir á að skv. talningum Vegagerðarinnar fyrir árið 2012 er þjóðvegaumferðin í gegnum Borgarnes milli 7.500 og 8.000 bílar á sólarhring þegar hún er þyngst.  Hann setur talninguna í smhengi við borgargötu í Reykjavík, Álfheimana þar sem aka að jafnaði um 9000 bílar á dag!

Lesandinn, bendir á að umferðin um Borgarnes er það lítil að það má léttilega láta hana streyma (seitla) um bæinn um götuumhverfi sem styrkir bæjarbraginn og ýtir þannig  undir hægari akstur. Vissulega myndi það tefja ferðalanga á leið til Akureyrar, en sú töf væri mesta lagi 1-2 mínútur.  Hann segir einnig það sé löngu kominn tími til að láta af þessum stórmennsku vegaframkvæmdum.

Myndin efst í færslunni er fengin úr Morgunblaðinu. Hún sýnir fyrirhugaðar hjáleiðir við Borgarnes og Selfoss.

Hér er slóð að umræddri færslu:

 
Hrafnhildur Brynjólfsdóttir skrifaði athyglisverða meistararitgerð við HR þar sem hún fjallar um hjáleiðina við Selfoss. Kynna má sér hana á þessari slóð:
 
 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 19.6.2013 - 21:54 - 10 ummæli

Arkitektar kynþokkafyllstir allra stétta?

995829_558680437503437_666364640_n

Þær eru margar skoðanakannanirnar og mismerkilegar og sumar aðallega skemmtilegar. Fjallað er um eina þeirra í dag á Facebooksíðu danska arkitektafélagsins, Akademisk Arkitektforening.

Í könnuninni sem mun vera gerð á Englandi kemur fram að arkitektar (karlar) þykja kynþokkafyllstir allra starfsstétta. Þeir toppa lækna, kvikmyndaleikstjóra og jafnvel verðbréfasala í þessum efnum.

Fyrrverandi forseti breska arkitektafélagsins RIBA, David Rock, bendir á  að sjálfsmynd arkitektanna sjálfra virðist mun minni en það álit sem samfélagið hefur á stéttinni.  Ætli þessu sé öfugt farið hér á landi?

Hvað konur varðar þóttu þær í almannatengslum og fréttamennsku kynþokkafyllstar fyrir utan að sjálfsögðu konur í leikarastétt.

Ekki veit ég neitt um uppruna eða verklag könnunarinnar en bæti við nokkrum ljósmyndum af Le Courbusiere við iðju sína. Ég læt aðra um að dæma kynþokka meistarans en myndirnar eru skemmtilegar.

Efst er mynd sem fengin er af síðu Akademisk Arkitektforening.

1533_10152898287810603_1596077160_n

900x720_2049_23311

 picture-1

  Á efstu myndinni er Le Courbusiere  nakinn við trönurnar í húsi Eileen Gray’s Villa. Örið ógnvænlega sem sjá má á myndinni fékk hann á sundi fyrir utan Saint Tropez þegar hann varð fyrir skrúfu á mótorskipi árið 1938. Neðst er hann á svipuðum slóðum við lestur eða að teikna í skissubók. Jú. líf arkitektsins er ekki bara leikur…heldur líka oft dans á rósum.(!)

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 14.6.2013 - 11:51 - 13 ummæli

Móta byggingar menn?

Grænlenskur arkítektúrlet

bolig2

Efstu myndina í færsluna fékk ég senda frá einum lesanda síðunnar. Myndin var tekin í Nuuk um páska í vor.

Þegar ég sá myndina kom mér  í hug hin fleyga setning Winston Churchill.

„First we shape buildings, and then they shape us“.

Blokkirnar sem sjást á myndinni eru 10 talsins. Þær eru allar eins og í einni röð. Blokkirnar voru byggðar á sjöunda áratug síðustu aldar m.a. til þess að leysa af hólmi híbýli á borð við þau á gömlu myndinni sem kemur næst.

Maður heyrir mikið um félagsleg vandamál á Grænlandi með miklum alkahólisma, brotnum fjölskyldum og fl. Fyrir því kunna að vera margvíslegar ástæður eins og atvinnuleysi o.þ.h.  Þegar maður horfir á þessar blokkir læðist að manni sá grunur að kennisetning Churchill hafi eitthvað með þessi vandræði að gera.

Maður veltir fyrir sér hvort fólkinu hafi liðið betur í gamla húsinu sínu en blokkunum sem danir byggðu fyrir það. Konan og börnin á myndinni eru prúðbúin og glöð enda má sjá að maturinn er við hendina.

Þegar ég gekk í arkitektaskóla í Kaupmannahöfn var mikið rætt um húsnæðismál í Grænlandi og hvernig best væri að mæta þörfum grænlendinga hvað varðar húsnæðismál. Staðarandinn er annar en nokkurs staðar annars staðar sem menn þekktu til fyrir utan að samfélagið er öðruvísi uppbyggt en víðast hvar. Þess vegna voru þessar blokkir vonlausar og óskiljanlegar þeim sem kynnt höfðu sér málin og kúltúrinn í grænlensku samfélagi.

Það var mikið byggt af svona blokkum víða um heim á þessum árum og þær gáfust víða sæmilega þar sem fjölskyldumynstrið var nokkuð staðlað eins og t.a.m. í Danmörku.

Grænlenskar fjölskyldur hafa mun meiri breidd en danska staðalfjölskyldan sem var karl, kona og 1-2 (3) börn. Þær grænlensku samanstóðu af karli og konu og 1-10 börnum auk þess sem stórfjölskyldan bjó oft saman, afar, ömmur bræður og systur.  Bara þetta gerði það að verkum að félagslegar íbúðir samkvæmt danskri fyrirmynd átti ekki við.

Danskir arkitektar lögðu nokkuð á sig til þess að þróa íbúðaform sem hentaði Grænlandi og grænlendingum. Prófessor Viggo Möller-Jensen  lagði til að byggð yrðu lítið sérbýli í glaðlegum litum til þess að lífga uppá skammdegið. Honum varð nokkuð ágengt þótt baráttan hafi verið hörð við þá sem vildu nálgast lausnina með vinnulagi verkfræðinnar sem einkennist oft af stórum lausnum.

En hvað sem öllu þessu líður þá er það þekkt að  byggingar og skipulag mótar mennina, þeirra hegðun og velferð.

Arkitektaskólinn í Kaupmannahöfn lagði  áherlsu á að nemarnir ynnu með aðkallandi vandamál líðandi stundar í verkefnum sínum á þessum árum, sem er eitthvað sem íslenski arkitektaskólinn mætti gera meira af.  Húsnæðismál grænlendinga var þar engin undantekning. Ég man að eitt sinn var útskriftarnemum gert að vinna íbúðasvæði á Grænlandi sem burtfararverkefni. Sverrir Norðfjörð arkitekt var einn þeirra sem tók þátt í því.

Næsta mynd hér að neðan er af dæmigerðum íbúðahúsum á Grænlandi sem eru byggð í anda þeirrar slóðar sem Viggo Möller-Jensen varðaði.

Nemar og samstarfsmenn hans stofnuðu teiknistofuna Vandkunsten sem fjallað hefur verið um hér á þessum vef.  Árið 2010 settu þeir fram heildstæða tillögu að íbúðabyggð fyrir grænlendinga. Síðustu 4 myndirnar eru af þeirri tillögu.

Neðst kemur svo 5 mínútna langt myndband sem fjallar um Grænlandstillögu Vandkunsten.

Hér er fjallað um Vandkunsten:

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/09/21/vandkunsten-i-reykjavik/

Nuuk

Tasiilaq 1

ny_arktisk_byggeskik_13lett

Lettgrænland vandkunsten

 

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 12.6.2013 - 15:12 - 2 ummæli

Bjarke Ingels í slæmum málum

Það hefur gengið mikið á í dönskum fjölmiðlum undanfarið þar sem Bjarke Ingels er ásakaður um að hafa verið djarftækur þegar hann sækir innblástur vegna verka sinna.

Jyllanspósten gerði þetta að umfjöllunarefni nýverið sem hefur gert það að verkum að mikið var fjallað um efnið í blöðum og sjónvarpi í Danmörku í síðustu viku.

Bjarke Ingels er einungis 38 ára gamall og hefur afrekað ótrúlega mikið á ferli sínum. Hann er án efa fremstur arkitekta í Danmörku nú um stundir og í miklu uppáhaldi hjá dönum sem kalla hann jafnvel “Vor tids Utzon”

En nú er heldur betur komið kusk á hvítflibbann.

Það er ýmislegt tínt til  þó tilefnið hafi verið Arlanda Hótel sem sagt er að BIG hafi hnuplað frá Dupain Building í Ástralíu eftir ARM Architecture.

Einhvernvegin finnst mér menn óþarflega grimmir við BIG í umfjöllun fjölmiðla þó líkindi þessarra tveggja bygginga sé sláandi. Sennilega hefði þetta ekki gerst eg BIG hefði meiri hæfileika til þess að hanna inn í staðarandann.

Færslunni fylgja tvær myndir af umræddum húsum og dæmi nú hver fyrir sig.

Neðst er svo mynd af fyrstuverðlaunatillögu BIG um höfuðstöðvar Landsbanka Íslands. Sem betur fer varð ekkert út því.

Það hefur mikið verið skrifað um Bjarke Ingels á þessum vef. Fólk getur nálgast færslurnar með því að slá upp nafni hans hér til hliðar í reit sem heitir : Leitað að

Hér er slóð þar sem fjallað er um efnið í Politiken þar sem sagt er að BIG sé flinkari í almannatengslum en byggingarlist.

http://politiken.dk/kultur/arkitektur/ECE1987889/dansk-stjernearkitekt-beskyldes-for-plagiat/

Arlanda_Hotel__2007_757024c

 Arlanda Hotel eftir Bjarke Ingels – BIG

Dupain_Building__20_757022c

Dupain Building eftir ARM Architecture í Ástralíu

lkj

Verðlaunatillaga um höfuðstöðvar Landsbankans eftir BIG

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 10.6.2013 - 23:16 - 6 ummæli

LEGOLAND eftir BIG

421350_609222005779474_1165830376_n

Nú hefur danski stjörnuarkitektinn Bjarke Ingels lagt fram tillögu sína að sýningarhúsi fyrir LEGO í Billund í Danmörku.

Þetta er um 7500 fermetra hús sem á að opna árið 2016.

Þótt BIG skorti oft hæfileika til þess að fanga anda staðanna í byggingum sínum er hann meistari conceptsins og framlagningarinnar. Það kynnir og selur enginn tillögur sínar betur en Bjarke Ingels. Þess vegna þarf maður að hafa varann á.

Þetta verk  í Billund er þar engin undantekning og það er unun að horfa á myndbandið sem hann hefur látið gera um nálgun sína sem byggir á hinum heimsþekktu LEGO kubbum.

Maður á í reyndinni alltaf að varast stjörnuarkitekta vegna þess að þeir eru oftast frekir á umhverfið, byggja sín minnismerki og hverfa svo á braut. Þeir eru oft kallaðir „touch and go“ arkitektar af þessum sökum.

Efst er tölvumynd af húsinu. Hér að neðan er sennandi stutt myndband af húsinu og hugmyndafræðilegri nálgur arkitektsins. Og loks LEGO kall sem er klæddur einkennisbúningi arkitektsins, Bjarke Ingels.

Sjá einnig eftirfarandi færslur. Fyrst er það LEGO arkitektúr og svo tvær færslur um tvö af betri verkum BIG:

http://blog.dv.is/arkitektur/2010/11/05/1394/

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/02/08/big-i-newyork/

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/03/10/nystarlegt-fjolbylishus-blondud-byggd/

 

51aebd9db3fc4bbb7a0000fd_the-big-lego-house-reveal_2

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 7.6.2013 - 00:22 - 41 ummæli

Vatnsmýrin og aðalskipulagið

 

bilde

 

„Vatnsmýri – Nýr borgarhluti“ er fyrirferðamikill kafli í nýju aðalskipulagi. Þar er farið  yfir sögu svæðisins frá fjórða áratugnum til okkar daga og gerð grein fyrir þeim skipulagstækifærum sem á þessu svæði er að finna.

Ég fyrir minn hlut hef verið fylgjandi því að flugvöllurinn færi úr mýrinni  um leið og annar staður og betri er fundinn fyrir starfssemina. En sá staður hefur ekki fundist. 

Það liggur fyrir  viðskiptahugmynd frá borgarinnar hálfu um hvernig hugsanlegt væri að fjármagna byggingu flugvallar á nýjum stað. Hún gengur út á að það fé sem ríkið hugsanlega fengi fyrir landið  í Vatnsmýrinni verði notað til að byggja nýjan flugvöll í nágrenni borgarinnar. 

Ég hef ekki orðið var við áhuga ríkisins fyrir þessari hugmynd og velti fyrir mér hvort ástæða  sé til þess að halda að ríkið vilji verja milljörðum í að byggja flugvöll í grennd við þá sem úthýsa honum. Er ekki líklegra að ríkið vilji frekar nota féð til þess að greiða niður skuldir sínar eða nota það til þess að láta draum sinn frá góðærinu um nýjan Landspítala rætast?  Allavega hlýtur að vera mikilvægt að borg, ríki og landsbyggðin sé samstíga um málið þó svo að skipulagsvaldið liggi hjá borginni.

En skoðum stöðuna í samhengi við fyrirliggjandi drög að aðalskipulagi höfuðstaðarins AR 2010-2030..

Eitt af meginmarkmiðum aðalskipulagsins er að styrkja Reykjavík sem höfuðborg landsins og forystuafl í vaxandi alþjóðlegri samkeppni um fyritæki og störf. Með þetta markmið í huga mætti ætla að stuðningur við flugvöll í borginni væri eitt af mikilvægustu tækjunum til þess að ná þessu markmiði. Að leggja flugvöllin niður vinnur beinlinis gegn markmiðinu.

Annað veigamesta atriði í aðalskipulaginu er að binda sundurtætta borgina saman með samgöngu- og athafnaás sem liggja mun frá Örfyrisey alla leið austur í Grafarvog og Grafarholt. Stefnt er að þróun línulegrar miðborgar sem er frábært. Vatnsmýrarskipulagið gengur bókstaflega þvert á þetta. Ef áform um línulega miðborg á að ganga eftir þarf að beita öllum kröftum skipulagsyfirvalda til þess að beina öllum fjárfestingum inn á þennan ás og í grennd við hann. Uppbygging í Vatnsmýri á sama tíma mun hægja þá þessari línuborgarþróun. Jafnvel svo mikið að hvorutveggja, Vatnsmýrin og línuborgin munu líða fyrir og í versta falli verða að engu.

Þriðja atriðið sem á vissan hátt stangast á við hugmyndafræði aðalskipulagsins og varðar Vatnsmýrina eru leyfar af góðærishugsunarhættinum, þessu 2007 syndrómi, sem kemur fram í verðlaunatillögunni í samkeppni um Vatnsmýrina frá 2007 og lögð er til grundvallar uppbyggingar þar í aðalskipulaginu.  Ég nefni markmiðið um að  beina sjónum “að hinu smáa og fíngerða í umhverfinu” sem verðlaunatillagan fellur ekki að. Verðlaunatillagan er sérlega stórkallaleg, jafnvel tröllsleg í sínum strúktúr þegar horft er til borgarinnar allrar.

Tvö mál eru einkum áberandi hvað arfleifð 2007 syndromsins varðar. Í fyrsta lagi er það Landspítalinn sem átti að byggja fyrir landssímapeninginn. Því var haldið fram að lítil þjóð gæti ekki farið í slíka megafjárfestingu nema hún ætti fyrir henni. Þegar ákvörðunin var tekin átti þjóðin fyrir spítalanum. Peningarnir voru geymdir í einu besta fyritæki ríkisins, Símanum. Síminn var seldur m.a. til að fjármagna þessa miklu framkvæmd en peningarnir komu aldrei til framkvæmdarinnar. Hin arfleifðin er Vatnsmýrarskipulagið sem var og er í samræmi við þankagang þann sem ríkti í góðærinu. Það eru aðrir tímar núna og 2007 nálgunin er ekki kostur lengur. Þessi góðærisstaða er ekki uppi á borðum lengur og aðalskipulagið þarf að taka mið af henni.

Þó það kunni að vera hagkvæmt að byggja í Vatnsmýrinni þá er það óskynsamlegt af margvíslegum ástæðum sem ég ætla ekki að tíunda hér í stuttum pistil um þátt Vatnsmýrarinnar í aðalskipulaginu.

Hluti aðalskipulagsins sem fjallar um Vatnsmýrina er ekki mikilvæg forsenda þess og það er virkilegt áhyggjuefni ef flugvöllurinn ætlar að verða steinn í götu þeirrar annars frábæru þróunnar borgarinnar sem mörkuð er í aðalskipulaginu.

Auðvitað fer flugvöllurinn þegar hans tími er kominn en það verður vonandi ekki á þessu skipulagstímabili.

Sjá einnig:

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/01/13/vatnsmyrarsamkeppnin-upprifjun/

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/07/26/tharf-flugvoll-a-reykjavikursvaedid/

http://blog.dv.is/arkitektur/2010/03/16/vatnsmyrin-%e2%80%9cnull-lausn%e2%80%9d/

 

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 5.6.2013 - 00:16 - 12 ummæli

Nýr „Þróunar- og samgönguás“ í aðalskipulaginu.

Í gær var samþykkt í borgarstjórn með 13 atkvæðum að auglýsa nýtt aðalskipulag fyrir Reykjavík. Tveir borgarfulltrúar sátu hjá.

Það verður spennandi að heyra rökin fyrir hjásetunni og fylgjast með umræðunni á auglýsingartímanum. Þó mikill meirihluti borgarfulltrúa styðji tillöguna þá þurfa borgarbúar að halda vöku sinni og kynna sér tillöguna rækilega. Aðalskipulagið varðar alla borgarbúa og skiptir miklu um þeirra hag. Aðalskipulag er undirritað af ráðherra og hefur nánast lagagildi.

Fjölmargar nýjungar koma fram í skipulaginu

Að mínu mati er ein athyglisverðasta nýjungin í aðalskipulaginu „AR 2010-2030″   hinn svokallaði “þróunar- og samgönguás“ sem liggja mun eftir borginni endilangri frá Örfyrisey að Keldum.

Hugmyndin gengur út á að binda þessa losaralegu og sundurlausu miðborg saman með ás sem einkennist af borgargötu með þéttleika sem getur borið vistvæna almenningumferð  i háum gæðaflokki í blandi við einkabílaumferð. Áhersla er einnig lögð á góða aðstöðu gangandi og hjólandi vegfarenda á samgönguásnum.

Ef þetta gengur eftir verða Sæbraut og Miklabraut hluti af stoðkerfi borgarinnar líkt og sú aðveita og fráveita sem við þekkjum. Þróunarásinn verður gata þar sem fólk sækir þjónustu, nýtur göturýmanna og velur sér vinnustað og búsetu í grenndinni. Þarna meðfram ásnum opnast mikil tækifæri til verulegrar þéttingar byggðar. Bæði fyrir stærstu fyritæki og stofnanir borgarinnar og verulega fjölgun íbúða.

Þarna verður heildstæð breiðgata sem allir borgarbúar eiga erindi til og skapar línulega borg iðandi af mannlífi, menningu, íbúðum og góðri þjónustu af öllu tagi.

Þessi hugmynd um þróunar- og samgönguás er vissulega rós í hnappagat skipulags borgarinnar og AR 2010-2030.

Mikilvægt er í framhaldinu að engin skipulagsákvörðun verði tekin án þess að hún sé spegluð í þessum áformum. Til þess að þetta heppnist þarf að hvíla hugmyndir um aðrar borgargötur á þessu svæði fyrst um sinn og nota alla krafta til styrkingar hugmyndarinnar.

Efsta myndin er úr drögum AR 2010-2030 sem sýnir með grænum lit hvar þróunar- og samgönguásinn liggur. Á kortinu er afleggjari til suðurs sem vonandi á eftir að ganga áfram um Kársnes og Bessastaðanes alla leið til Hafnarfjarðar þar sem hann tengist leiðinni til Keflavíkurflugvallar. Eðlilegra væri að þessi lína lægi frá Borgartúni um Kringlumýrarbraut til miðbæjar Hafnarfjarðar. En það er ekki mál AR2010-2030 heldur höfuðborgarsvæðisins alls.

Nánar má lesa um aðalskipulagið ar 2010-2013, sem samþykkt var í borgarstjórn í gær á þessari slóð.:http://www.reykjavik.is/desktopdefault.aspx/tabid-3753/

 

Götnar á ásnum frá Örfyrisey austur að Keldum verða endurhannaðar eitthvað í stíl við myndina að ofan. Þarna er almenningsflutningum gert hátt undir höfði meðan einkabíllinn seitlar áfram á forsendum gangandi og hjólandi vegfarenda.  Samgönguásinn eða breiðgatan samanstendur af eftirfarandi götum: Mýrargötu, Tryggvagötu, Hverfisgötu, Laugarvegi, Suðurlandsbraut, Stórhöfða alla leið að Keldum.

Þarna er götunum loks gefið sérstakt hlutverk í borgarlandslaginu. Þótt ótrúlegt sé þá hafa á undanförnum árum verið deiliskipulagðir allir reitirnir milli Hverfisgötu og Laugarvegar án þess að götunum hafi verið gefið skipulagslegt hlutverk í borgarskipulaginu. Ég fyrir minn hlut skil ekki hvernig það var bara hægt! Það er fyrst nú á árinu 2013 sem t.a.m. umræðan er að fara af stað um hlutverk Hverfisgötunnar í skipulaginu. Menn vita ekki enn hvernig gata Laugarvegurinn á að vera, bílagata? göngugata? vistgata? sumargata?, PPS gata eða eitthvað annað!

Að neðan er ljósmynd af hluta Suðurlandsbrautar sem verður í framtíðinni breiðgata með hús beggja megin götunnar samkvæmt AR2010-2030. Vonandi verður ekkert af því.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 2.6.2013 - 23:17 - 16 ummæli

Nýtt aðalskipulag Reykjavíkur – AR 2010-2030

photo

 

Um helgina las ég drög að nýju aðalskipulagi Reykjavíkur AR 2010-2030 sem kynnt var s.l. fimmtudag. Þetta er mikið verk sem fyllir á fjórða hundrað síður ritaðs máls með skýringarmyndum og uppdráttum í tveim heftum í stóru broti.

Ég verð að segja að ég hef ekki áður séð jafn vandaða og skemmtilega greinargerð aðalskipulags og þessa. Hún fangaði mann ekki bara sem lestrarefni heldur fyillist maður bjartsýni fyrir hönd borgarinnar við lesturinn og gleðst yfir þvi að nú er snúið til betri vegar í skipulagmálum höfuðstaðarins. Mér hefur í raun þótt skipulagsmál borgarinnar hafa verið í óttalegum vandræðagangi. En nú birtir til eftir meira en tveggja áratuga göngu um dimman táradal sýnist mér.

Það sem helst ber að nefna er að nú á að stemma stigu við útþennslu borgarinnar. Skipulagsyfirvöld vilja fara varlega i gamla bænum og feta í fótspor Parísarborgar en þar var ákveðið fyrir 40 árum (1972) að banna háhýsi innan þeirra Hringbrautar (Periferiunnar). Og í aðalskipulaginu er að finna afar athylisverða áætlun um að skapa „þróunar – samgönguás“  sem bindur borgina saman í línulega borg. Þarna felast mörg tækifæri sem ekki öll mæta auganu við fyrstu sýn.

Ég ætla að drepa á fjórum áhersluatriðum í aðalskipulaginu:

  • BORGIN VIÐ SUNDIN

Borgin við sundin felur í sér stefnumótun um þéttingu byggðar í vesturhluta borgarinnar þar sem helstu uppbyggingasvæðin verða fram yfir 2030

  • SKAPANDI BORG

Reykjavík styrki hlutverk sitt sem höfuðborg landsins og forystuafl í vaxandi alþjóðlegri samkeppni um fyrirtæki, vinnuafl og ferðamenn.

  • GRÆNA BORGIN

Reykjavíkurborg vill styrkja sig sem græn borg. Þetta felur í sér stóraukna áherslu á þéttingu og blöndun byggðamynsturs, gott aðgengi að fjölbreyttum útivistar- og náttúrusvæðum. Og eflingu vistvænna ferðamáta.

  • BORG FYRIR FÓLK

Borg fyrir fólk er leiðarljós vinnu við endurskoðun aðalskipulagsins. Í stað áherslu á byggingarmagn og umferðarýmd, er sjónum beint að hinu smáa og fíngerða í borgarumhverfinu og að því sem raunverulega skapar umgjörð um líf fólks (svoldið Jan Gehl þarna).

Þetta er metnaðarfullt aðalskipulag sem tekur á löngu tímabærum úrlausnarefnum sem af einhverjum óskiljanlegum ástæðum hefur ekki verið gert áður. Auðvitað er svona umfangsmikið verk vafalaust hlaðið málamiðlunum og þar er að finna mörg álitaefni eðli málsins samkvæmt. En ég tel að þarna sé fjöldamarkt framfarasporið stigið sem ástæða er til að fagna.

Sumstaðar ganga aðgerðir að því er virðist þvert á markmiðin. T.a.m. fæ ég ekki séð hvernig það styrkir hlutverk Reykjavíkur sem höfuðborgar að leggja Reykjavíkurflugvöll niður!

Varðandi flugvallarmálið þá finnst mér umræðan vanþroskuð og hvergi nærri því  komin á það stig að hægt sé að taka ákvörðun um að leggja hann niður. Það kann að vera að það sé hagkvæmt í þröngu samhengi en ég sé ekki að það sé skynsamlegt. Fyrir utan að það gengur gegn markmiði aðalskipulagsins um að styrkja Reykjavík sem höfuðborg.

Aðalskipulagi las ég í nánast einum rikk eins og hina bestu spennusögu og það ættu sem flestir að gera. Gat varla lagt frá mér bækurnar sem ég mun skoða nánar á næstu dögum og vikum.

Drögin má nálgast hér: http://www.reykjavik.is/desktopdefault.aspx/tabid-2342/6201_view-6060/

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn