Laugardagur 1.6.2013 - 10:12 - 6 ummæli

Ímynduð verðmætaaukning – Niðurlag

 untitled

Framkvæmd skipulags VI

Hér kemur lokafærsla Sigurðar Thoroddsen í þessari röð og fjallar hún um ímyndaða verðmætaaukningu í skiplagi. Ég færi Sigurði kærar þakkir fyrir þessa áhugaverðu og fræðandi yfirferð um þau mikilvægu mál sem skipulagsmál eru.:

Sá misskilningur hefur  myndast   hérlendis,  að  þegar nýtt deiliskipulag er unnið fyrir  eldri hverfi,   og lagt  til aukið  byggingarmagn á einstökum lóðum, að þá hafi  lóðahafi  öðlast einhvers konar varanleg og  veðsetjanleg   viðbótar verðmæti á viðkomandi lóð, sem geti gengið  kaupum og sölum, án þess að fyrir liggi  samningur um hina auknu   lóðarnýtingu  milli sveitarstjórnar og lóðarhafa.   Og það sem verra er að sum  sveitarfélög hafa fallist  þessa túlkun með þeim afleiðingum að  málin  eru meira og minna komin í strand.  Í  skipulagslögum eru engin  ákvæði um að við skipulagningu skapist slík varanleg framseljanleg verðmæti.   

Þvert á móti eru í  51. grein laganna   ákvæði um bætur til lóðarhafa ef gildistaka deiliskipulags veldur því að verðmæti fasteignar rýrnar, en það er annað mál.  Deiliskipulagsáætlun er  tímabundið vilyrði eða heimild sveitarstjórnar  til handa lóðarhafa um aukið byggingarmagn sem viðkomandi getur   nýtt sér,  ef hann þess óskar, en um málið er   enginn formlegur samningurgerður milli sveitarstjórnar og lóðarhafa.  Svæðis-   aðal-   og deiliskipulagsáætlanir  eru  tímabundnar  áætlanir,   sem sveitarstjórnirgeta breytt hvenær sem þær  telja  þörf  á.  Og samkvæmt skipulagslögum er sveitarstjórn skylt,  á 4ra ára fresti,  að kanna hvort rétt sé að endurskoða  svæðis- eða  aðalskipulagsáætlun, en deiliskipulag skal vera í samræmi við aðalskipulag,  eins og kunnugt  er.

Efgefið er út byggingarleyfi fyrir viðbótar byggingarmagni  á  lóð, og  byggingaframkvæmdir ekki  hafnarinna  12 mánaða,  að þá fellur það úr gildi,  sbr. nánar í 14. grein laga um mannvirki. Hafi hinsvegar verið gefið út  byggingarleyfi og  byggingaframkvæmdir hafnar,gerður lóðarsamningur,  peningagreiðslur   inntar af hendi og  sem sveitarstjórn vill  breyta eða fella út, að  í slíkum tilfellum er kominn á formlegur samningur milli aðila,  sem ekki verður slitinn nema með samkomulagi beggja  aðila og/eða með greiðslu bóta.Ekki má rugla samanákvæðum í skipulagslögum og ákvæðum í lögum um mannvirki um slík mál.

Þegar um er að ræða endurgerð deiliskipulags í eldri hverfum, og gert ráð fyrir auknu  byggingarmagni á lóðum,tel ég nauðsynlegtað sveitarstjórnir ítreki ákvæði skipulagslaga um þetta efni,  með sérstakri yfirlýsingu,   á þann veg að sveitarstjórnir  geti, án greiðslu bóta, gert breytingar ádeiliskipulagi slíkra lóða, þegar hún telur þess þörf.  Slík yfirlýsing sveitarstjórnar þarf að vera árituð áskipulagsuppdrátt sem  afgreiddur er til Skipulagsstofnunar til skoðunar, og sem öðlast formlegt gildi þegar auglýsing hefur  birst  um samþykkt skipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda.

Niðurlag

Í þessari samantekt hef ég lagt áherslu að skipulagsáætlun er ekki bara  plagg eða skýrsla með  upplýsingum,  heldur tæki og forsögn að uppbyggingu landsins og  tel ég að of lítið hafi verið hugað að framfylgd  skipulagsáætlana,  einkum þegar endurgerð deiliskipulags í eldri hverfum á í hlut.

Spurning er  hvort ekki sé  rétt  að tengja skipulagsáætlanir betur við fjárhagsáætlanir ríkis og sveitarfélaga,  til að framkvæmd þeirra verði markvissari og  raunhæfari.  Stærsti  hluti þjóðarauðsins er bundinn í mannvirkjum,  en áhugi ríkisvaldsins  á skipulagsmálum er  takmarkaður,  nema þegar í óefni er komið.

Fyrir mörgum árum var ég á skipulagsráðstefnu í tiltekinni borg á Norðurlöndum. Eftirá var skoðunarferð um borgina og fannst mér mikið til koma,  hversu aðlaðandi borgin var, og byggðin vel  samræmd og spurði sessunaut minn, sem var starfsmaður hjá skipulagsdeildinni,  hvernig þetta væri mögulegt. Og þá kom  svarið:  „Borgin var að sjálfsögðu byggð í samræmi við áðurgert skipulag.“  Nema hvað hugsaði ég.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 31.5.2013 - 05:30 - 5 ummæli

Endurgerð deiliskipulags í eldri hverfum

 

 Picture1lett

 

Framkvæmd skipulags V

Hér kemur færsla Sigurðar Thoroddsen nr. 5 sem fjallar um endurgerð deiliskipulags í eldri hverfum.

 

Miðað við deiliskipulag nýrra svæða,  er endurgerð deiliskipulags í eldri hverfum miklu   flóknara mál. Inn í myndina eru komnir allskonar  hagsmunaaðilar,  svo sem lóðahafar, fasteignaeigendur og fleiri,  sem taka þarf  tillit til.  Mörg  dæmi eru um að eldri hverfi hafi verið endurskipulögð og ber þar Reykjavík hæst,  enda fjöldi eldri bygginga þar mestur. Önnur sveitarfélög hafa einnig  látið látið vinna  deiliskipulag í eldri hverfum, svo sem: Akureyri, Ísafjörður,  Stykkishólmur, Akranes, Hafnarfjörður, Keflavík,   Fáskrúðsfjörður og  Seyðisfjörður. 

Ástæður fyrir því að farið er út í endurgerð deiliskipulags eldri hverfa geta verið margar.  Um getur verið að ræða eldri   byggingar sem þarfnast viðhalds og fullnægja ekki lengur kröfum tímans, dæmi um það eru:  Ísafjörður, Stykkishólmur og Seyðisfjörður. Svo eru dæmi um að  skipulagsyfirvöld telji  rétt að breyta  skipulagi  viðkomandi svæðis,   s.s.  að rífa tiltekin eldri hús og  byggja ný og stærri  innan um,  og/eða allt þar á milli. Dæmi um það er Reykjavík, Hafnarfjörður og að sumu leyti Akureyri. Þegar um er að ræða blöndun nýrri og eldri byggðar, tel ég að öðrum bæjum ólöstuðum,  endurgerð  deiliskipulags Miðbæjar Hafnarfjarðar og framkvæmd  þess velheppnað.  Þar hefur tekist á smekklegan og yfirvegaðan  hátt að blanda saman nýjum og eldri byggingum, þannig að skapast hefur heildrænt og aðlaðandi yfirbragð. 

Þegar  deiliskipulag í eldri hverfum er unnið að nýju, eru útlínur endurbyggingarsvæðisins fyrst skilgreindar, svæðið kannað sérstaklega og lagt mat á hvernig haga skuli endurbyggingunni.  Önnur sérstaða er að gatnakerfi, lagnir og ýmsar þjónustustofnanir eru þegar  komnar, þannig að kostnaður sveitarfélagsins er óverulegur.   Oftast er lóðarhöfum  gefinn kostur á að bæta, breyta og/eða stækka  byggingar á viðkomandi lóðum , að undangenginni húsakönnun.  Svo eru  sumar byggingar sem  talið er rétt  að friða og engar breytingar heimilaðar.    Vandamálið er hinsvegar að lóðahafar og/eða  eigendur eru ólíkir eins og gengur. Sumir hafa fjármagn  og eru fullir áhuga að fara út í framkvæmdir,  en aðrir ekki. Þar af leiðandi er  misjafnt  hvernig til  tekst. Framkvæmd  og útfærsla tillagnanna verður í  mörgum tilfellum  samræmislaus og brotakennd og málin ekki kláruð.  Í Reykjavík, eru dæmi um slíkt s.s. við  Laugaveg, Grettisgötu, Lækjargötu, Borgartún, og svæði sunnan tónlistarhússins  Hörpu.  Oft  eru nýbyggingar verulega stærri en þær  sem fyrir eru,  og þá sem partur  af stórhuga eldra  deiliskipulagi sem einungis  var framkvæmt að hluta. 

Mér er ekki kunnugt um að sveitarstjórnir  hafi reynt að finna heilsteyptar og markvissar  leiðir að því marki að framkvæma endurskipulagningu  eldri hverfa. Kannski er Hafnarfjörður undantekning.  Málið er að hið byggða umhverfi,  hvort sem það er nýtt eða gamalt,  er ekki  einkamál einstakra lóðahafa,  sbr. skýr  ákvæði þar um í skipulagslögum. Hið byggða umhverfi er málefni sem varða heildina. Mér finnst koma til greina að ríki og sveitarfélög styrki uppbyggingu í eldri hverfum t.d. með tíma- og skilyrðisbundinni eftirgjöf skatta og ýmissa gjalda.  Að vísu hafa verið veittir einstaka styrkir frá hinu opinbera til endurbyggingar, en meira þarf ef duga skal.    

Víða erlendis  hafa yfirvöld gert sér grein fyrir þessum vanda, jafnvel í Bandaríkjunum,  landi hins frjálsa framtaks. Fyrir mörgum árum var ég á ferð í  Baltimore, en þá stóð þar yfir endurbygging elsta hluta borgarinnar. Á tilteknu svæði frá fyrri hluta 19. aldar voru raðhús   sem borgaryfirvöld töldu rétt að  vernda. Fólki stóð  til boða að kaupa raðhúsin, hvert um sig  fyrir einn dollar,  og  með í kaupunum fylgdi teikning sem kaupendur  skuldbundu sig  að fara eftir og framkvæmdalán á hagstæðum kjörum. Á Norðurlöndum víða hafa verið farnar svipaðar leiðir,  á þann veg að hið opinbera tekur þátt í uppbyggingu eldri hverfa með einum eða öðrum hætti.

Á  Íslandi eru farnar aðrar  leiðir. Unnið  er deiliskipulag i eldri hverfum og  víða er gert ráð  fyrir breytingum,  einkum  auknu byggingarmagni/viðbyggingum  eða niðurrifi húsa og nýbyggingum.   en  síðan er engin hvati til lóðarhafa að hefjast handa við endurbyggingu, breytingu eða stækkun húsa. Lóðarhöfum er í sjálfsvald sett hvort eða hvenær  þeir nýta sér þá möguleika sem hið nýja skipulag veitir.  Sumir framkvæma  og  aðrir ekki, þannig að smám saman verður  byggðin  samhengislaus.  Víða  erlendis hefur komið í ljós, eins og áður sagði, að endurskipulag eldri hverfa er  erfið  í framkvæmd án aðkomu hins opinbera.   Dæmi eru um niðurfellingu gjalda, eða að viðkomandi sveitarfélög hreinlega kaupi upp svæði eða byggingar,   endurbyggi síðan og leigi út eða selji fasteignirnar. 

 

 

Á morgun, laugardag kemur síðasti hlutinn frá Sigurði Thoroddsen arkitekt að þessu sinni. Þar fjallar hann um þá ímynduðu verðmætaaukningu sem skipulag kallar fram. Þar er um mjög áhugaverðar hugleiðingar að ræða sem ég mæli með að fólk kynni sér.

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 30.5.2013 - 00:06 - 7 ummæli

Deiliskipulag nýrra svæða

                    

 ulfarsardalur-43

 

Framkvæmd skipulags IV

Hér kemur færsla Sigurðar Thoroddsen nr. 4 sem fjallar um framkvæmd skipulags og deiliskipulag nýrra svæða.

 

En víkjum  að framkvæmd skipulags eins og hún hefur verið.  Þau  skipulagsstig sem eru  undanfari framkvæmda eru tvö,  eða:  Deiliskipulag nýrra svæða og endurgerð deiliskipulags í eldri  hverfum,  en á þessu tvennu er mikill munur.  Í fyrra tilfellinu er um óbyggð svæði að ræða sem tekin eru til uppbyggingar og lóðahafar koma ekki inn í myndina fyrr en við úthlutun lóða,   en í seinna tilfellinu eru lóða-  og ýmsir hagsmunaaðilar komnir til sögunnar  og  gerir það  framkvæmdina   miklu flóknari.  Hér á eftir mun ég fjalla um þann mikla mun sem er á þessu tvennu og einkum hvernig til hefur tekist í eldri hverfum.

Deiliskipulag nýrra svæða

Deiliskipulag   nýbyggingarsvæða  hefur nokkra sérstöðu miðað við endurgerð deiliskipulags í þegar byggðum hverfum. Yfirleitt er um að ræða óbyggt svæði sem viðkomandi sveitarfélag   vinnur  deiliskipulagsuppdrátt fyrir  ásamt skipulags- og byggingarskilmálum, öðru nafni áætlun um uppbyggingu,  og í framhaldi af því fer fram almennt athugasemdaferli og formleg afgreiðsla sveitarstjórnar. Sveitarfélagið annast gatna- og lagnagerð og síðan  er  lóðum úthlutað í kjölfar auglýsingar, og   þá fyrst koma einstakir lóðahafar inn í myndina. Lóðagjöld eru greidd og hönnun  húsa fer fram og gerðir eru  lóðasamningar. Almennt  má því segja að framkvæmd deiliskipulags á nýbyggingarsvæðum valdi ekki miklum deilum,  nema ef  gerðar eru breytingar á skilmálum vegna einstakra lóða, jafnvel  án  tillits til heildarinnar,  eða að byggingaframkvæmdir hverfisins hreinlega stöðvist vegna óviðráðanlegra ytri  orsaka,  en þá  geta  viðkomandi hverfi verið  ókláruð árum saman. Þess vegna er mikilvægt þegar  í upphafi  að gera  ráð fyrir hæfilega stórum  áföngum sem hægt er að ljúka   á eðlilegum tíma.  Nýleg dæmi um það eru ýmis hálfkláruð íbúðarhverfi á Höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum í kjölfar hrunsins.

En eins og áður sagði eru unnir skipulagsskilmálar fyrir lóðir og hlutverk þeirra  að samræma útlit og yfirbragð hverfisins. Sveitarstjórnum  er í sjálfsvald sett hversu strangir skilmálar  eru, þ.e. hvort talið er eftirsóknarvert að yfirbragð byggðar sé heilsteypt eða hvort stjórnamálamenn telji rétt að frelsi lóðarhafa sé mikið, og þá  á kostnað heildarinnar.  Dæmi um stranga skilmála í Reykjavík eru:  Melahverfi, Norðurmýri og  Fossvogshverfi en um opna skilmála  Grafarvogshverfin. 

 

Á morgun fjallar Sigurður um endurgerð skipulags í eldri hverfum.  Efst í færslunni er loftmynd frá Úlfarsárdal.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 29.5.2013 - 07:54 - 5 ummæli

Veðurfar og framkvæmd skipulags

 407099_10200503807912036_413300341_n

Framkvæmd skipulags III

Hér kemur færsla Sigurðar Thoroddsen  sem fjallar um veðurfar og framkvæmd skipulags

Ekki verður hjá því komist að minnast á veðurfarið þegar fjallað er um framkvæmd skipulags. Staðreyndin er sú að veðurfar er öðruvísi á Íslandi en í flestum löndum sem við berum okkur saman við. Hér er allra veðra  von,  sumrin  kaldari  og styttri. Sem dæmi má taka að í Reykjavík er meðalhiti allt árið 4° C en  í júlí 11°C. Samsvarandi tölur fyrir Kaupmannahöfn eru  8°C – 16°C og Barcelona 16°C – 23°C.  Meðalhiti  hér er semsagt verulega lægri en í framangreindum borgum,  svo ég tali nú ekki um hinn mikla vindhraða og  síbreytileika  hitastigs  milli frosts og þýðu,  jafnvel oft á dag.  Þess vegna  eru yfirbyggðar verslunarmiðstöðvar  vinsælar, en  þar er sama „veðurfar“  allt árið.  

En úr ýmsu  má þó bæta hérlendis,  og taka meira mið af veðurfari þann stutta tíma sem sumarið varir,  og tel ég að skipulagsaðilar hafi ekki leitt hugann nægjanlega að því.   Ég hef tekið eftir því að sumar  götur og  staðir í Reykjavík eru vinsælir,  og þar oft mikil mannmergð  í góðu veðri. En þessar  götur  hafa   austur-vestur stefnu  og 4-5 hæða byggingar norðan megin og göturýmið þar af leiðandi í skjóli fyrir norðanáttinni, en þá er yfirleitt sól í Reykjavík.  Sama gildir um ýmsa  staði og torg sem hafa skjól  norðan megin.  Dæmi um þetta  er   Laugavegur frá Snorrabraut að Bankastræti,  Austurstræti,  Austurvöllur norðan megin og fleira mætti telja. Svo ég tali nú ekki um lítil svæði á milli húsa s.s. garðinn aftan við Hressingarskálann og fleiri.  Það sem stendur  lífi á milli húsanna fyrir þrifum  er skortur á skjóli fyrir vindum.  Til að götulíf sé mikið þann stutta tíma sem sumarið varir, er ennfremur   mikilvægt að á jarðhæðum húsa sé lífleg starfsemi.  Tré og runnar skapa einnig skjól,  og má segja að algjör bylting hafi orðið trjárækt á síðustu áratugum. Dæmi um skjóllaus göturými  eru:  Lækjargata, Hverfisgata, Skúlagata, Lækjartorg og fleiri staðir

En víkjum aftur að  Laugavegi, að þá tel ég að Þorvaldur S.Þorvaldsson arkitekt og  fyrrverandi skipulagsstjóri í Reykjavík,  hafi gert   sér góða  grein fyrir þeim möguleikum sem gatan hefur upp á að bjóða, sérstaklega  í sól og norðanátt. Þorvaldur lét mjókka akstursbrautina,  breikka gangstéttir, gróðursetja tré, setja upp hindranir þannig  að bílum sé ekki lagt á gangstéttir  og „mublera“ göturýmið með ýmsum hætti. Nú hafa hinsvegar komið fram vanhugsaðar  tillögur um að  fjarlægja þar hindranir við gangstéttir og fella trén í stað þess að  snyrta þau og klippa.

 

Myndin efst í færslunni er tekin af Finnboga Helgasyni . Myndin sem er samsett sýnir hvernig veðurfar getur breyst í Reykjavík á stuttum tíma. Myndin er tekin á götu í Reykjavík með 7 klukkustunda millibili þann 24 apríl s.l.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 28.5.2013 - 06:37 - 2 ummæli

Eldri hugmyndir í skipulagi

005_04_04_800Eldri hugmyndir í skipulagi

 

Framkvæmd skipulags II

 Sigurðar Thoroddsen heldur áfram frá í gær og fjallar hér um eldri hugmyndir í skipulagi:

 

En víkjum stuttlega að fortíðinni.  Fyrsta heildarskipulag fyrir Reykjavík  er frá  1927 og nefnt „Skipulagsuppdráttur af  Reykjavík innan Hringbrautar „ og var á næstu  árum  í stórum dráttum farið eftir þessari áætlun,   en  þegar kom   fram til  ársins  1933   var farið að ræða   í  bæjarstjórninni að taka skipulagið  til endurskoðunar.  Í  janúar 1934  birtast athugsemdir  við skipulagið í Lesbók Morgunblaðsins eftir Sigurð Guðmundsson arkitekt, og mun það vera í  fyrsta sinn sem  athugasemdir við skipulag  heils  bæjarsamfélags  eru gerðar.  

Í  athugasemdum Sigurðar kemur fram   að hann fjalli eingöngu um Miðbæinn,  eða  gömlu  kaupstaðarlóðina frá 1786-1892,   vegna þess að hann  hafi orðið fyrir ýmsum skipulagslegum skakkaföllum,  og sé því í yfirvofandi hættu, eins og hann orðar það,  en að hægt sé að bjarga ýmsu,  ef fljótt er brugðist  við.  Með athugasemdunum fylgir áðurnefndur  skipulagsuppdráttur  frá 1927, og   inn á hann eru færðar   með „rauðum strikum“  nokkrar tillögur um breytingar. Helstu athugasemdir hans varða  breytingar á legu gatna í  skipulaginu frá 1927, breikkun þeirra og   framlengingu,  en minna um fyrirkomulag byggðarinnar.   Sem dæmi leggur  hann til að Austurstræti verði framlengt inn í Grjótaþorp,  uppundir Garðastræti og þar byggt Ráðhús. Ennfremur telur hann rétt að gera greinarmun á hlutverki gatna með hliðsjón af umferðarþunga, þ.e. skiptingu í umferðargötur  og   íbúðargötur. Hér er m.ö.o. kominn  fyrsti vísir að flokkun gatna. Ennfremur gerir hann athugasemd við að í nýjum hverfum sé ekki gerðar tillögur um afmörkun lóða.   

Kirkjustræti telur hann að þurfi að breikka milli Austurvallar og Aðalstrætis, bæði vegna umferðar og útlits,  og að framlengja Kirkjustræti beint yfir í Lækjargötu.  Ennfremur að Austurvöllur sé orðinn leiðinlegur sem lokað torg,  og verði sennilega ekki hjá því komist að breyta stórum hluta vallarins  í bílastæði. Sigurður leggur til að Lækjagata verði „hlykkjulaus“ til norðurs,  þannig að Esjan blasi við.

Hér hefur verið stiklað á stóru varðandi athugasemdir Sigurðar, en segja má að þær varði fyrst og fremst að rétta úr „hlykkjóttum“ götum til að mynda góðar sjónlínur og útsýni eftir þeim. Ekki er beinlínis fjallað  um þörf á bílastæðum nema ef vera skyldi á Austurvelli. Of langt yrði að telja upp allar athugasemdir sem hann  gerði, en þær voru margar og sumar athyglisverðar.  Hinsvegar  er mér ekki kunnugt um að   bæjarstjórnin hafi tekið  mið af þeim við uppbyggingu Miðbæjarins.  

Mánuði eftir að athugasemdir Sigurðar Guðmundssonar arkitekts  birtust  í Lesbókinni,    berst atvinnumálaráðuneytinu  bréf dagsett í febrúar  1934  frá Jóni Þorlákssyni verkfræðingi og  borgarstjóra,   þar sem hann gerir grein fyrir viðhorfi Reykjavíkur til skipulagsins frá 1927 og ástæðum þess að það var  ekki staðfest.  Helstu rök borgarstjórans gegn skipulaginu eru að sumu leyti þau sömu og Sigurður,  þ.e.  að götur séu of mjóar og muni ekki anna þeirri umferð sem þegar sé orðin  í bænum. Auk þess sem að götur standist ekki á.  Einnig að gert sé ráð fyrir breyttu  fyrirkomulagi byggðar  í eldri  hlutum   bæjarins,  sem séu  þegar  byggðir, og  að það  gangi ekki upp.  Ekki sé ástæða til að fara  út í endurbyggingu  eldri hverfa  í Reykjavík.

Í þessu sambandi má geta þess að nokkru  áður,  eða árið 1933,  hafði birst  greinarflokkur eftir Jón Þorláksson  í Morgunblaðinu um nokkur bæjarmál,  þ.m.t. endurskoðun skipulagsins frá 1927,  en þá voru bæjarstjórnarkosningar framundan. Í einni greinanna  ræðir hann sérstaklega um byggingu flugvallar fyrir Reykjavík og mælir með að hann verði gerður í Vatnsmýri,  vegna þess að þar sé  mikið dýpi niður á fast, þannig að  svæðið    henti vel fyrir flugvöll.  Hér er í fyrsta skipti lagt til,  að  í skipulagi Reykjavíkur verði gert  ráð fyrir flugvelli. Og eins og kunnugt er,  var það skipulagt  framkvæmt, en áður  höfðu  ýmsir  verið með  bollaleggingar um sama efni, og  tún í Vatnsmýri  öðru hverju nýtt sem lendingarstaður.  

 

 

Vegna þess að þarna er minnst á flugvöll  sem skipulagður var í Vatnsmýri um 1933 bendi ég á eftirfarandi slóð:

 http://blog.dv.is/arkitektur/2011/12/08/reykjavikurflugvollur-flokkusaga/

 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 27.5.2013 - 07:30 - 7 ummæli

Framkvæmd skipulags – skilamat.

Adalskipulag_framhlid111_stor 

Sigurður Thoroddsen arkitekt og fyrrverandi aðstoðarskipulagsstjóri ríkisins hefur sent síðunni stuttar áhugaverðar greinar um framkvæmd skipulags og fl.  Sigurður er sennilega reyndasti einstaklingur hér á landi hvað varðar skipulagsgerð og starfaði við málaflokkinn um áratugaskeið.

Greinar Sigurðar verða birtar hér á hverjum morgni næstu daga. Þetta er áhugavert efni sem er fullt af margskonar fróðleik sem ég hvet alla sem áhuga hafa fyrir þessum málum að kynna sér.  Greinarnar eru í raun ein samhangandi umfjöllun um framkvæmd skipulags.

Í þessum pistli veltir hann m.a. fyrir sér mati á skipulagsáætlunum eftir að framkvæmdum er lokið.

Gefum sigurði orðið::

Almennar umræður um framkvæmd skipulags hafa ekki verið miklar,  eða  hvort þær hugmyndir og áætlanir sem settar eru   fram í upphafi,  skili  sér í umhverfinu.  Eins og flestir vita er skipulagsferillinn langur og strangur  og  lýkur honum með  byggingu  mannvirkja og  annarri landnotkun.   Mörg vandamál þarf að yfirstíga áður en takmarkinu er náð,  og ekki öruggt að  markmiðin,  sem sett voru í upphafi,   skili  sér.    Á langri vegferð breytast  viðhorf,  og oft á tíðum  eru gerðar breytingar á einhverju skipulagsstiganna.  En  megintilgangur    með skipulagsgerðinni  er,  eins og áður sagði, að vera forsögn að notkun og meðferð lands s.s. byggingu mannvirkja. Ef það markmið næst ekki, verður  landnotkunaráætlunin einungis  rykfallið plagg, eða  í besta falli samansafn upplýsinga og draumsýna.   Benda má á  að  lögformleg skipulagsáætlun fellur ekki sjálfkrafa úr gildi,  nema það sé gert með formlegum hætti, að öðrum kosti gildir hún áfram.   

Staðreyndin er sú að þeir sem tjá sig um skipulagsmál,  vilja  fremur  fjalla  um  áætlanir   og draumsýnir,  en síður  um raunverulegar   niðurstöður og árangur starfsins.  Menn geta spurt  sig  hvort  skipulagslög og ýmsar reglur dugi sem tæki til undirbúnings að uppbyggingu   landsins.  Til  að hægt sé að svara því,  þarf að meta  árangurinn,  bæði það sem vel hefur verið  gert,  en  ekki síst  það sem miður hefur tekist. Meta þarf stöðuna og draga  ályktannir.    Mér er ekki kunnugt um að neinar   slíkar úttektir hafi farið fram.       

Skipulags- og byggingarmál hafa  sérstöðu  miðað við ýmsar aðrar áætlanir og framkvæmdir á vegum sveitarfélaga. Uppbyggingartími hvers skipulagsáfanga getur verið 10-20 ár,  en kjörtímabil sveitarstjórna  er  4 ár. Sveitarstjórnarfulltrúar koma og fara á  4ra ára fresti,  hver með sitt viðhorf og bakgrunn, þannig að  áhrif þeirra eru,  eðli málsins samkvæmt,  að mörgu leyti takmörkuð.  Hinsvegar hafa fagaðilar og starfsmenn sveitarfélaga  oft á tíðum mikil  áhrif, enda  ráðnir til langs  tíma,  og geta fylgt  málum eftir   mörg kjörtímabil.

Efst í færslunni er mynd af Aðalskipulagi Reykjavíkur.

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 24.5.2013 - 13:30 - 8 ummæli

Myndlist: Magnús Kjartansson.

 

4cut

Sýnd eru verk Magnúsar Kjartanssonar myndlistarmanns í Hverfisgalleri, Hverfisgötu 4,  um þessar mundir.

Magnús var vinur minn og foreldrar okkar miklir félaga frá unga aldri. Leiðir okkar Magnúsar lágu mikið saman í æsku og svo aftur þegar götur okkar krossuðust á Konunglegu Listaakademíunni í Kaupmannahöfn á árunum uppúr 1970.

Það er alltaf viðburður þegar myndir Magnúsar Kjartanssonar eru hafðar til sýnis. Í þetta sinn eru það myndir gerðar á árunum um 1980.

Magnús nam við Akademíuna hjá einum þekktasta myndlistarmanni dana, Richard Mortensen og var í miklu uppáhaldi hjá honum. Í lok náms hjá Mortensen öðlaðist Magnús meira öryggi og sjálfstæði og fór að feta sínar eigin leiðir. Þessu hélt hann áfram og var sífellt að kanna nýjar leiðir í myndlistinni. Kom manni sífellt á óvart með myndlist án málamiðlanna.

Ég vil leyfa mér að vitna í texta í sýningarskrá eftir Jón Proppe heimspeking, en þar stendur m.a:

“Um 1980 umbreytti Magnús aftur myndlist sinni. Hann bjó að gífurlegri þekkingu á miðlum og aðferðum og tók nú enn til við að brjóta allt upp. Hann beitti gamalli ljósmyndatækni, meðal annars bláprent og svokallaðri Van Dyke-tækni……  Með því að búa til filmur eftir ljósmyndum eða mála og teikna beint á filmu eða byggingaplast gat Magnús fært myndefnið á pappírinn og til dæmis raðað saman ýmiskonar myndum á eitt blað og jafnvel þrykkt mynd ofan í mynd”

Verkin á sýningunni  á Hverfisgalleri eru  mjög einkennandi fyrir þetta tímabil í list Magnúsar, persónuleg og gáskafull.

Ég mæli eindregið með að fólk líti við á sýningunni sem er upplifun.

Sýningin stendur til 22 júni 2013.

Myndirnar í færslunni voru teknar á síma minn í hádeginu í dag.

Sjá einnig umfjöllun um verk eiginkonu Magnúsar, Koggu.: http://blog.dv.is/arkitektur/2012/06/11/kogga-synir-keramik-i-kaupmannahofn/

1 cut

3cut

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 22.5.2013 - 12:51 - 4 ummæli

Skipulagsmál í stjórnarsáttmála

0e89377004-380x230_o

Það er fagnaðarefni að í sáttmála nýrrar ríkisstjórnar sé tekið á skipulagsmálum en þar stendur orðrétt:

“Ríkisstjórnin telur mikilvægt að fegra hið manngerða umhverfi, borgir og bæi. Sett verða lög um sérstök verndarsvæði í byggð í samræmi við það sem tíðkast víða í Evrópu og Norður-Ameríku. Markmiðið er að vernda sögulega byggð. Þannig verði framkvæmdir til þess fallnar að styrkja heildarmynd svæðis sem nýtur verndar til samræmis við upprunaleg einkenni þess og auka þannig á menningarlegan styrk þess og aðdráttarafl”.

Þetta er í fyrsta sinn svo ég viti að fjallað sé um skipulagsmál í stjórnarsáttmála ríkistjórnar. Það má því segja að þetta sé óvenjulegt og mun að öllu óbreyttu hafa töluverð áhrif á skipulagsmál í landinu.

Manni sýnist að, hugmyndin um lög um sérstök verndarsvæði í byggð muni styrkja núverandi Mannvirkjastefnu hins opinbera.  En það hefur ekki verið látið reyna á hana þau 6 ár sem liðin eru frá samþykkt hennar þó tilefni hafi verið til, svo um munar.

Sjá einnig:

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/05/21/skipulagsfraedingur-forsaetisradherra/#comments

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 21.5.2013 - 07:53 - 20 ummæli

Skipulagsfræðingur forsætisráðherra

Flestir sem hugsa eitthvað um skipulagsmál hljóta að fagna því að liklegt er að í vikunni setjist í stól forsætisráðherra landsins  maður sem stundað hefur nám í skipulagshagfræði og skipulagsfræðum.

Ef þetta gengur eftir þá má búast við auknum skilningi í efstu þrepum stjórnsýslunnar á arkitektúr- og skipulagi.

Af þessu tilefni birti ég hér slóð að viðtali sem Egill Helgason átti við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, um skipulagsmál fyrir nokkrum misserum.

Þarna kemur fram einlægur áhugi Sigmundar Davíðs á efninu þar sem hann varpar ljósi á hliðar skipulagsmála sem ekki hafa verið áberandi í skipulagsumræðunni hér á landi. Hann upplýsir í viðtalinu að hann sé kominn nokkuð áleiðis með gerð sjónvarpsþátta um þessi mál. En það hefur eitthvað dregist eftir að hann hellti sér í stjórnmálin.

Yfirleitt var vel tekið í hugmyndir  Sigmundar Davíðs sem vöktu verðskuldaða athygli. Einstaka kollegar mínir tóku þeim sjónarmiðum sem komu fram í viðtalinu afar illa upp, einkum þeir sem mest höfðu sinnt skipulagsmálum að því er virtist.

Þetta á enn fullt erindi til allra sem áhuga hafa á  umhverfi sínu og borgarskipulagi.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 16.5.2013 - 18:31 - 10 ummæli

Ný Hverfisgata – Laugarvegur

Hverfisgata-Frakkastigur-gatnamot-teikn-vef

 

Í sumar verður unnið að endurbótum á fyrsta áfanga Hverfisgötu. En Hverfisgatan hefur lengi verið í mikilli skipulagslegri óvissu. Hlutverk hennar hefur ekki verið skilgreind sýnist manni. Hún hefur hvorki verið alminnileg umferðagata, verslunargata eða borgargata (Boulevard).

Kannski er það að breytast nú þannig að hún verði bóulevard með þægilegu flæði bifreiða og hjólandi þar sem götutré verða áberandi og á jarðhæð húsa verði verslun og þjónusta. Svona götur eru algengar í borgum Evrópu. Ég nefni Boulevardana inna Periferique i París og t.a.m Vesterbrogade í CPH.

Framkvæmdirnar við Hverfisgötu eru löngu orðnar tímabærar og taka til yfirborðs götu og gangstétta, hitalögnum verður komið fyrir, gatnamót steinlögð og upphækkuð, götutré verða gróðursett, hjólareinar verða beggja vegna götu og margar fleiri bætur verða gerðar.

Það verður spennandi að fylgjast með þessu frábæra framtaki hjá borginni og sjá hvaða afleiðingar þetta hefur hvað varðar hlutverk Hverfisgötu í framtíðinni.

Manni finnst að borgarskipulagið megi ekki stoppa við yfirborð götunnar og trjágróðurinn,  heldur skilgreina hlutverk hennar til langrar framtíðar og hliðra til í þeirri þróun hvort heldur þetta verði borgargata (Boulevard) með verslunum eða umferðagata sem þjónar  Laugavegi og svæðunum í grenndinni.

Mér hefur alltaf fundist Hverfisgatan sitja hjá í allri umræðu um borgarlífið. Þegar reitirnir meðfram götunni voru skipulagðir á síðustu árum var ekki tekið á Hverfisgötunni sem heild frá Arnarhól að Hlemm og hlutverki hennar í stærra samhengi, heldur einungis í einhverjum bútum. Það var eiginlega hálf hallærislegt að taka ekki á framtíð götunar samfara þeirri vinnu. En það er annað mál og nú eru aðrir tímar og betri.

Ég vil leyfa mér að varpa fram hugleiðingu um að Hverfisgatan taki við sem verslunargata þar sem viskiptavinir vilja komast að verslunardyrum á bifreið sinni meðan Laugavegurinn sinnti hinum sem vilja njóta þess að ganga í friði frá veggný bifreiðanna.  Laugavegur sem „PPS gata“ (sjá slóð neðst). Þetta gæti verið sáttatillaga í langri deilu um bifreiðaumferð um Laugaveg.

Þannig væri hægt að mæta óskum verslunareigenda sem vilja hafa bílaumferð og öflugar almenningssamgöngur fyrir framan verslanir sínar og hinum sem vilja ekkert frekar en að losna við þá.

Ráðgjafar eru  frá Mannviti og Arkís

Sjá „Laugarvegur PPS gata“:

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/12/11/laugavegur-a-adventu-pps-gata/

Og um vistgötur:

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/03/30/shered-street-vistgata/

 

 

M-3_mid

 

M-1_mid

 

 

Hverfisgata_endurn-vefst

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn