Framkvæmd skipulags VI
Hér kemur lokafærsla Sigurðar Thoroddsen í þessari röð og fjallar hún um ímyndaða verðmætaaukningu í skiplagi. Ég færi Sigurði kærar þakkir fyrir þessa áhugaverðu og fræðandi yfirferð um þau mikilvægu mál sem skipulagsmál eru.:
Sá misskilningur hefur myndast hérlendis, að þegar nýtt deiliskipulag er unnið fyrir eldri hverfi, og lagt til aukið byggingarmagn á einstökum lóðum, að þá hafi lóðahafi öðlast einhvers konar varanleg og veðsetjanleg viðbótar verðmæti á viðkomandi lóð, sem geti gengið kaupum og sölum, án þess að fyrir liggi samningur um hina auknu lóðarnýtingu milli sveitarstjórnar og lóðarhafa. Og það sem verra er að sum sveitarfélög hafa fallist þessa túlkun með þeim afleiðingum að málin eru meira og minna komin í strand. Í skipulagslögum eru engin ákvæði um að við skipulagningu skapist slík varanleg framseljanleg verðmæti.
Þvert á móti eru í 51. grein laganna ákvæði um bætur til lóðarhafa ef gildistaka deiliskipulags veldur því að verðmæti fasteignar rýrnar, en það er annað mál. Deiliskipulagsáætlun er tímabundið vilyrði eða heimild sveitarstjórnar til handa lóðarhafa um aukið byggingarmagn sem viðkomandi getur nýtt sér, ef hann þess óskar, en um málið er enginn formlegur samningurgerður milli sveitarstjórnar og lóðarhafa. Svæðis- aðal- og deiliskipulagsáætlanir eru tímabundnar áætlanir, sem sveitarstjórnirgeta breytt hvenær sem þær telja þörf á. Og samkvæmt skipulagslögum er sveitarstjórn skylt, á 4ra ára fresti, að kanna hvort rétt sé að endurskoða svæðis- eða aðalskipulagsáætlun, en deiliskipulag skal vera í samræmi við aðalskipulag, eins og kunnugt er.
Efgefið er út byggingarleyfi fyrir viðbótar byggingarmagni á lóð, og byggingaframkvæmdir ekki hafnarinna 12 mánaða, að þá fellur það úr gildi, sbr. nánar í 14. grein laga um mannvirki. Hafi hinsvegar verið gefið út byggingarleyfi og byggingaframkvæmdir hafnar,gerður lóðarsamningur, peningagreiðslur inntar af hendi og sem sveitarstjórn vill breyta eða fella út, að í slíkum tilfellum er kominn á formlegur samningur milli aðila, sem ekki verður slitinn nema með samkomulagi beggja aðila og/eða með greiðslu bóta.Ekki má rugla samanákvæðum í skipulagslögum og ákvæðum í lögum um mannvirki um slík mál.
Þegar um er að ræða endurgerð deiliskipulags í eldri hverfum, og gert ráð fyrir auknu byggingarmagni á lóðum,tel ég nauðsynlegtað sveitarstjórnir ítreki ákvæði skipulagslaga um þetta efni, með sérstakri yfirlýsingu, á þann veg að sveitarstjórnir geti, án greiðslu bóta, gert breytingar ádeiliskipulagi slíkra lóða, þegar hún telur þess þörf. Slík yfirlýsing sveitarstjórnar þarf að vera árituð áskipulagsuppdrátt sem afgreiddur er til Skipulagsstofnunar til skoðunar, og sem öðlast formlegt gildi þegar auglýsing hefur birst um samþykkt skipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda.
Niðurlag
Í þessari samantekt hef ég lagt áherslu að skipulagsáætlun er ekki bara plagg eða skýrsla með upplýsingum, heldur tæki og forsögn að uppbyggingu landsins og tel ég að of lítið hafi verið hugað að framfylgd skipulagsáætlana, einkum þegar endurgerð deiliskipulags í eldri hverfum á í hlut.
Spurning er hvort ekki sé rétt að tengja skipulagsáætlanir betur við fjárhagsáætlanir ríkis og sveitarfélaga, til að framkvæmd þeirra verði markvissari og raunhæfari. Stærsti hluti þjóðarauðsins er bundinn í mannvirkjum, en áhugi ríkisvaldsins á skipulagsmálum er takmarkaður, nema þegar í óefni er komið.
Fyrir mörgum árum var ég á skipulagsráðstefnu í tiltekinni borg á Norðurlöndum. Eftirá var skoðunarferð um borgina og fannst mér mikið til koma, hversu aðlaðandi borgin var, og byggðin vel samræmd og spurði sessunaut minn, sem var starfsmaður hjá skipulagsdeildinni, hvernig þetta væri mögulegt. Og þá kom svarið: „Borgin var að sjálfsögðu byggð í samræmi við áðurgert skipulag.“ Nema hvað hugsaði ég.