Það leynast víða í deiliskipulagi leyfar af stórhuga hugmyndum sem vöknuðu í hinu svokallaða góðæri hér í Reykjavík. Þessar hugmyndir voru áberandi á hafnarsvæðinu og smituðust jafnvel inn í götureiti eldri hverfa Reykjavíkur.
Þessar hugmyndir stefna sumar í að verða vandamál og sumstaðar eru þær þegar orðnar að nánast óleysanlegu úrlausnarefni.
Eitt dæmi er hús sem nú hefur verið auglýst til sölu af miklum krafti, það er Mýrargata 23.
Mikilvægt er fyrir skipulagsyfirvöld að vinna með festu að því að lagfæra deiliskipulagshugmyndirnar þar sem þess er þörf áður en langt um líður og færa þær nær reykvískum veruleika og þeim staðaranda sem hér ríkir og fólk sækist eftir.
Efst færslunni og strax hér að neðan er mynd af húsi sem er komið í sölumeðferð og hannað er í anda liðins tíma. Ég ætla ekki að tjá mig um þessa byggingu sérstaklega en bendi á að það hefur þótt góður siður þegar hannað er inn í eldri byggð að aðlaga nýframkvæmdina að því sem fyrir er eins og frekast er unnt. Það er meira að segja fjallað um þetta í Menningarstefnu um Mannvirki sem ríki og borg stóðu að.
Það er líka annað sem skiptir máli þegar byggðar eru nýbyggingar í grónu miðborgarsamfélagi. Það er að haga hönnuninni þannig að götulíf sé sem líflegast. Það er ekki síst vegna götulífsins og nærþjónustu sem fólk sækir búsetu í borgarumhverfinu.
Algeng aðferð er að staðsetja miðbæjarstarfsemi og nærþjónustu á fyrstu tveim hæðum slíkra húsa. Það gæti verið verslanir, veitingastaðir og þjónusta á jarðhæð og hugsanlega skrifstofur og læknastofur á annarri hæð og svo íbúðir þar fyrir ofan. Meðvitað er stefnt að því að hliðra fyrir gangandi á svona stöðum og gönguleiðir gerðar aðlaðandi og spennandi með ýmsum aðgerðum. Þetta er ekki gert hér af ástæðum sem mér er ekki kunnugt.
Nánar má fræðast um framkvæmdina á þessari slóð: http://www.m26.is/
Rétt er að benda áhugasömum á að fimmtudaginn 16. mai verður haldinn kynningafundur á skipulagi í Vesturbugt Reykjavíkurhafnar. Fundurinn hefst klukkan 17 og verður í Víkinni. Nánar hér: http://www.reykjavik.is/desktopdefault.aspx/tabid-4878/8484_read-36002/
Hér að neðan er mynd af deiliskipulagi Austurhafnar. Þessar lóðir eru nú til sölu. Það blasir við þegar byggingareitirnir í deiliskipulaginu eru skoðaðir að þeir eru í allt öðrum stærðum og hlutföllum og byggingareitir nærliggjandi byggðar. Þetta þarf að endurskoða. Mikil hætta er á að svona deiliskipulag laði fram byggingar sem ekki verða í takti eða tón við það sem fyrir er í Kvosinni og nálægðum byggðum samanber verðlaunatillaga um höfuðstöðvar Landsbankans sem unnin var í aðdraganda hrunsins og mynd er af hér að neðan.
Að neðan er verðlaunatillagan um höfurstöðvar Landsbankans sem unnin var með hliðsjón af deiliskipulagi sem hönnuðurnir höfðu fyrir framan sig þegar tillagan var gerð. Þetta hús á ekki heima í miðborg Reykjavíkur að mínu mati.
Maður gæti hugsanlega fyrirgefið að svona hús yrði byggt inni við Kirkjusand eða annarsstaðar.
Skipulagsyfirvöld í borg borganna, París, úthýsti svona byggingum út úr borginni og gáfu svona stórhuga fólki tækifæri til þess að sprella við La Defence.
Sjá: http://blog.dv.is/arkitektur/2012/01/30/paris-la-defense/
Í lokin er hér mynd úr rammaskipulagi sem borgin lét vinna eftir hrun. Þetta er skipulag við Miðbakka Reykjavíkurhafnar. Þarna sér maður manneskjulegan reykvískan skala í byggingunum. Útveggir bera svip húsagerðar sem ríkt hefur í borginni um áratugaskeið með heilum veggflötum þar sem sett eru göt fyrir glugga í stað þess sem sjá má í fyrri dæmunum tveim.
Hér má fræðast betur um þetta ágæta skipulag: http://blog.dv.is/arkitektur/2012/09/13/nytt-rammaskipulag-reykjavikurhofn/