Miðvikudagur 15.5.2013 - 16:04 - 21 ummæli

Skipulagsáætlanir frá fyrir 2007

IMG_7812-innf

Það leynast víða í deiliskipulagi leyfar af stórhuga hugmyndum sem vöknuðu í hinu svokallaða góðæri hér í Reykjavík. Þessar hugmyndir voru áberandi á hafnarsvæðinu og smituðust jafnvel inn í götureiti eldri hverfa Reykjavíkur.

Þessar hugmyndir stefna sumar í að verða vandamál og sumstaðar eru þær þegar orðnar að nánast óleysanlegu úrlausnarefni.

Eitt dæmi er hús sem nú hefur verið auglýst til sölu af miklum krafti, það er Mýrargata 23.

Mikilvægt er fyrir skipulagsyfirvöld að vinna með festu að því að lagfæra deiliskipulagshugmyndirnar þar sem þess er þörf áður en langt um líður og færa þær nær reykvískum veruleika og þeim staðaranda sem hér ríkir og fólk sækist eftir. 

Efst  færslunni og strax hér að neðan er mynd af húsi sem er komið í sölumeðferð og hannað er í anda liðins tíma. Ég ætla ekki að tjá mig um þessa byggingu sérstaklega en bendi á að það hefur þótt góður siður þegar hannað er inn í eldri byggð að aðlaga nýframkvæmdina að því sem fyrir er eins og frekast er unnt. Það er meira að segja fjallað um þetta í Menningarstefnu um Mannvirki sem ríki og borg stóðu að.

Það er líka annað sem skiptir máli þegar byggðar eru nýbyggingar í grónu miðborgarsamfélagi. Það er að haga hönnuninni þannig að götulíf sé sem líflegast. Það er ekki síst vegna götulífsins og nærþjónustu sem fólk sækir búsetu í borgarumhverfinu.

Algeng aðferð er að staðsetja miðbæjarstarfsemi og nærþjónustu á fyrstu tveim hæðum slíkra húsa. Það gæti verið verslanir, veitingastaðir og þjónusta á jarðhæð og hugsanlega skrifstofur og læknastofur á annarri hæð og svo íbúðir þar fyrir ofan. Meðvitað er stefnt að því að hliðra fyrir gangandi á svona stöðum og gönguleiðir gerðar aðlaðandi og spennandi með ýmsum aðgerðum. Þetta er ekki gert hér af ástæðum sem mér er ekki kunnugt.

Nánar má fræðast um framkvæmdina á þessari slóð: http://www.m26.is/

Rétt er að benda áhugasömum á að fimmtudaginn 16. mai verður haldinn kynningafundur á skipulagi í Vesturbugt Reykjavíkurhafnar. Fundurinn hefst klukkan 17 og verður í Víkinni. Nánar hér: http://www.reykjavik.is/desktopdefault.aspx/tabid-4878/8484_read-36002/

cam10000-002

 Hér að neðan er mynd af deiliskipulagi Austurhafnar. Þessar lóðir eru nú til sölu. Það blasir við þegar byggingareitirnir í deiliskipulaginu eru skoðaðir að þeir eru í allt öðrum stærðum og hlutföllum og byggingareitir nærliggjandi byggðar. Þetta þarf að endurskoða. Mikil hætta er á að svona deiliskipulag laði fram byggingar sem ekki verða í takti eða tón við það sem fyrir er í Kvosinni og nálægðum byggðum samanber verðlaunatillaga um höfuðstöðvar Landsbankans sem unnin var í aðdraganda hrunsins og mynd er af hér að neðan.

673038crop

Að neðan er verðlaunatillagan um höfurstöðvar Landsbankans sem unnin var með hliðsjón af deiliskipulagi sem hönnuðurnir höfðu fyrir framan sig þegar tillagan var gerð. Þetta hús á ekki heima í miðborg Reykjavíkur að mínu mati.

Maður gæti hugsanlega fyrirgefið að svona hús yrði byggt inni við Kirkjusand eða annarsstaðar.

Skipulagsyfirvöld í borg borganna, París, úthýsti svona byggingum út úr borginni og gáfu svona stórhuga fólki tækifæri til þess að sprella við La Defence.

Sjá: http://blog.dv.is/arkitektur/2012/01/30/paris-la-defense/

untitled

 Í lokin er hér mynd úr rammaskipulagi sem borgin lét vinna eftir hrun.  Þetta er skipulag við Miðbakka Reykjavíkurhafnar. Þarna sér maður manneskjulegan reykvískan skala í byggingunum. Útveggir bera svip húsagerðar sem ríkt hefur í borginni um áratugaskeið með heilum veggflötum þar sem sett eru göt fyrir glugga í stað þess sem sjá má í fyrri dæmunum tveim.

Hér má fræðast betur um þetta ágæta skipulag: http://blog.dv.is/arkitektur/2012/09/13/nytt-rammaskipulag-reykjavikurhofn/

Geirsgata-FINAL09

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 11.5.2013 - 09:49 - 8 ummæli

Kommúnistinn Henning Larsen?

 

 

 SCAN1412_001

 

Mig langar að segja skondna sögu af Henning Larsen.

Þegar ég gekk á akademíunni voru deildirnar (bekkirnir(?)) tengdir prófessorunum sem voru allt hetjur í byggingalistinni. Þetta voru allt framsæknir einstaklingar í arkitektastétt sem áttu mikið erindi við samfélagið og auðvitað nemendurna. 

Þetta voru oftast hugsjónamenn sem ekki lágu á skoðunum sínum og létu í sér heyra þegar tilefni og ástæða gafst til. Þeir voru meðvitaðir um ábyrgð sína í umræðunni og samfélaginu. Nemendurnir voru heldur ekki passívir í umræðunni og mótmæltu öllu þegar það átti við.

Það var mikil virðing borin fyrir Det Kongelige Danske Akademi For De Skönne Kunster á þessum árum. Meðlimur konungsfjölskyldunnar var viðstaddur setningu skólans á haustin sem fór fram í Oddfellow Palæet við Bredgade. Spiluð var „klassisk“ nútímatónlist við setninguna.

Akademían heyrði undir menningarmálaráðuneytið (kulturministeriet) meðan aðrar æðri menntastofnanir landsins tilheyrðu menntamálaráðuneytinu (undervisningsministeriet). Þessi tengsl við menningarmálaráðuneytið gaf skólanum visst frelsi sem aðrar menntastofnanir höfðu ekki.

Til dæmis var látið átölulaust að í kynnigu um kennsluhætti deildar prófessors Henning Larsen var sagt að mikilvægt væri að nemendur lærðu fyrst að vera nánast marxistar áður en þeir snéru sér að því að verða arkitektar. “först röd, så specialist” Eða stílfært í samræmi við kennsluáætlunina “fyrst gerum við þig að komma og svo gerum við þig að arkitekt”

Þetta vakti nokkra athygli á sínum tíma og var eitthvað rætt í Folketinget.

Ég hitti Henning í örfá skipti þó svo að ég hafi oft hlustað á hann tala um byggingalist.

Einu sinni átti ég leið um sundið milli Peter Skramsgade (Heibergsgade)  og innigarðs Charlottenborg við Kongens Nytorv þar sem gipsafsteypan af Valþjófstaðahurðinni var við skúlptúrgarðinn.

Ég var þar með skólafélaga mínum og vinkonu, Kirsten Kjær arkitekt, en þau Hennig voru málkunnug.

Kirsten ávarpar Henning og segir eftir stutt spjall:

“Hvernig getur þú verið kommúnisti? Maður sem ert með lúxus íbúð í miðborginni og býrð í einbýlishúsi við Strandvejen” (eitt snobbaðasta íbúðasvæði Danmerkur) og svo bætir hún við; “ og svo ekur þú um á Jagúar model E…. Hvernig getur þú verið kommonisti þegar þú hagar þér svona?”

Henning staldraði aðeins við þegar hann heyrði spurningu nemans en svaraði svo:

“Mér finnst allir ættu að hafa það eins og ég”, og skellihló.

Síðan þetta gerðist hefur margt breyst og Henning marga fjöruna sopið. Stofa hans hefur breyst út hefðbundinni teiknistofu í fyritæki sem lítur á heiminn allan sem sitt markaðssvæði.  Teiknistofan sem rekin er í hans nafni hlýtur í næsta mánuði virðulegustu verðlaun sem veitt er í veröldinni fyrir byggingalist. Mies van der Rohe verðlaunin sem  veitt eru fyrir HÖRPU.

Efst er afrit af inngangi að skólastefnu deildar prófessors Henning Larsen þar sem stendur efst „först röð, så specialist“ og að neðan ljósmynd sem tekin var um það bil sem hönnunar- og hugmyndavinna vegna byggingar HÖRPU var að hefjast. Þar má þekkja fyrir miðju Henning Larsen og Tryggva Tryggvason einn arkitekt Hörpunnar en hann vann á teiknistofu Henning Larsen á námsárum sínum og í byrjun starfsferilsins.  Og svo neðst eru dæmi um verkefni deildarprófessors Henning Larsen veturinn1971-1972. þar sem Marxisminn er í aðalhlutverki.

Sjá einnig:

http://blog.dv.is/arkitektur/2009/11/30/thrautir-hennings-larsen/

 

 

 

Austurhofn _ Group

 

SCAN1411_001

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 7.5.2013 - 10:30 - 29 ummæli

„Sjoppuþorpið“ í Borgarnesi

 Loftmynd

 Borgarnes er eitthvað það fallegasta bæjarstæði sem til er og þegar ekið er inn í plássið verður maður fyrir skemmtilegri upplifun.

Fólk sem hefur hugmyndaflug sér tækifæri allstaðar til þess að skapa einstakan bæ sem hvergi í veröldinni á sér nokkurn líkan.  Það er fallegt að litast um inni í bænum á nesinu og horfa frá honum til sjávar og fjalla. Það er ekki síður fallegt að horfa til Borgarness þegar vegfarendur nálgast að sunnan eða að vestan. Þetta kemur vel fram á ljosmyndinni efst í færslunni.

Þrátt fyrir öll þau gæði sem þarna er að finna í skipulaginu, húsagerðum og bæjarstæði missa flestir af upplifuninni. Í hugum flestra er Borgarnes bara einhver stærsta vegasjoppa landsins.

Fólk hugsar til Borgarness sem áningarstaðar þar sem gert er nauðsynlegt stans. Fylllt er á bílinn, kastað vatni og gripin pylsa eða annað áður en, geyst er áfram eftir þjóðveginum eins fljót og frekast er unnt.

Það er synd vegna þess að Borgarnes hefur alla burði til þess að vera áhugaverður endastaður ferðalags um byggðir og óbyggðir landins og stoppa í nokkra klukkutíma eða daga.

Skipulagsleg ringulreið á sjoppusvæðinu þar sem ægir saman byggingum sem hafa risið uppúr malbiksflæminu að því er virðist nánast hugsunarlaust. Byggingarnar standa þarna án þess að tala saman og eru ekki í nokkurri snertingu við anda staðarins eða umhverfið.

Þessi uppbygging  hefði  ekki þurft að vera svona ef fólk hefði vandað sig í deiliskipulagi og allri umhverfishönnun. Þekktir eru áningastaðir erlendis af þessari stærðargráðu sem gott er að heimsækja.

Yst á nesinu er Brákarey  sem er um 4,5 hektari að stærð er ævintýraleg.   Hún er rúsínan í pylsuendanum og kóróna þessa staðar. Brákarey hefur vegna sögu sinnar í atvinnusögunni einstakann sjarma sem vert er að huga vel til að nýta þau tækifæri sem þar er að finna. Einbreið brúin gefur manni sérstaka tilfinningu þegar farið er út i þennan klett sem rís uppúr leirunum.

Lesandi síðunnar sendi nokkrar myndir af  því sem hann kallaði „Vegasjoppuþorpið Borgarnes“. Þar á meðal var myndin að neðan sem er af af líkani sem var gert í samræmi við deiliskipulagstillögu vegna Brákareyjar.

Hér er slóð að sérstaklega vönduðum vef sem fjallar um Borgarnes og Borgarbyggð:

http://www.gjafi.is/borgarbyggdungar/

Hér er slóð að færslu um umhverfi sem sprettur upp úr malbikinu eins og manneskjan sé ekki til:

http://blog.dv.is/arkitektur/2010/12/05/%e2%80%9cef-thu-att-tvo-peninga-%e2%80%9d/

IMG_3429

IMG_3434

 Í deiliskipulagstillögunni að neðan er gert ráð fyrir menningarstarfssemi og mikilli íbúðabyggð í Brákarey.

Skilningsleysi höfundanna á sögu staðarins og staðnum sjálfum og þeim tækifærum sem þar eru, var svo mikið að þeir lögðu til að allar gömlu byggingarnar vikju og í þeirra stað byggt sögulaust nýtt umhverfi. Ekki er hægt að lesa af tillögunni að innblástur sé fengin úr þessu einstaka umhverfi og þarf nokkuð til ef líta á framhjá því við skipulagsgerðina.

Sem betur fór kom hrunið og tafði framkvæmdirnar.

Ef ég skil rétt á þeim sem sendu síðunni myndirnar urðu tafir á framkvæmdum vegna þess að brúin út í Brákarey er einbreið og menn voru að leita leiða til að breikka hana. Sem betur fer tókst það ekki. Í mínum huga er einmitt tækifæri falið í einbreiðri brú. Tækifærið fellst í því að gera þarna bílfríjan bæjarhluta á 4,5 hektara…dásamlegt.

Berið líkanið saman við myndina efst í færslunni.

 untitled

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 3.5.2013 - 11:59 - 39 ummæli

Verkfræðingar – Arkitektar

 35029_10200876439098082_155425912_n

 

Þó mig gruni ástæðuna, þá hef ég aldrei skilið hvers vegna verkfræðingar eru sífellt að færa verksvið sitt inná sérsvið arkitekta. Þessar tvær stéttir vinna mikið saman en verkefnin og nálgunin eru gjörólík.

Arkitektar bera virðingu fyrir sérþekkingu verkfræðinga og eru almennt ánægðir með hvernig þeir vinna verk sín en þeim finnst hálf hallærislegt þegar þeir taka að sér arkitektavinnu.

Verkfræðingar viðast ekki skilja sérþekkingu arkitekta nægjanlega svo maður alhæfi smávegis og þetta skilningsleysi nær inn í háskólana. Sennilega væri þessu öðruvísi háttað ef t.a.m. arkitektanám á Íslandi hefði verið vistað við Háskóla Íslands eins og Arkitektafélagið ályktaði um á sínum tíma.

Að mínu mati er vinna verkfræðinga  auðveldari en arkitekta vegna þess að þeir byrja á vinnunni þegar arkitektarnir eru búnir að taka 80% ákvarðananna.

Verkfræðingarnir geta oftast reiknað sig til útkomu eða fylgt verkferlum sem leiða þá áfram til einhverrrar niðurstöðu.

 Það geta arkitektar ekki.

Þeir byrja bókstaflega á auðu blaði. Þeir verða að vinna sig að niðurstöðunni svipað og vísindamenn gera með tilgátum sínum sem þeir þurfa svo að sannreyna. Oftast, eins og hjá vísindamönnum,  þarf margar tilgátur áður en komið er á réttu brautina. Svona er þetta í hverju einasta arkitektaverkefni. Og arkitektaverkefni er nánast aldrei endurtekið.

Þeir þurfa alltaf að byrja upp á nýtt og á auðu blaði.  Öll hús og öll skipulög eru einstök.

Því er ég að velta þessu öllu  fyrir mér?

Jú, ástæðan er sú að kollegar mínir hafa átt við mig orð og fundið að því að ég réttlætti nýlega að landslagsarkitektar eru að færa sig inn á verksvið sem arkitektar sinntu áður. Þeir taka að sér skipulagsvinnu, bæði aðal- og deiliskipulög.

Svar mitt er að mér finnst það í lagi vegna þess að landslagsarkitektinn nálgast lausn sína með aðferðarfræði arkitektsins .

Þessu er öðruvísi farið með verkfræðinga þegar þeir taka að sér arkitektavinnu. Þeir nálgast verk sitt með öðrum hætti en arkitektar. Það er oft sagt að verkfræðingar viti mikið um lítið  meðan arkitektarnir viti lítið um mikið, og sjái heildarmyndina því betur en t.a.m. verkfræðingar.

Ég nefni nokkur dæmi um verkefni sem heyra til arkitekta en verkfræðingar hafa  tekið að sér.

Arkitektar eru menntaðir í því að gera þarfagreiningar fyrir byggingar. Þótt ótrúlegt sé þá, hika verkfræðingar ekki við að leiða slíka vinnu.

Arkitektar og landslagsarkitektar eru  lærðir í að vinna með mannvirki í landslaginu. Þrátt fyrir þetta hika verkfræðingar ekki við að staðsetja mannvirki í landinu án aðkomu sérfræðinga á borð við arkitekta og landslagsarkitekta. Sjáið bara veginn og mislægu gatnamótin við Gálgahraun.

Verkfræðingar hafa ítrekað tekið að sér að semja keppnislýsingar í arkitektasamkeppnum þó svo að þeir hafi aldrei nokkurntíman tekið þátt í slíkri keppni nema sem ráðgjafar á þröngum  sérsviðum.

Verkfræðingar eru nánast búnir að taka af arkitektum vinnuna við að hafa verkefnastjósn eða eftirlit með framkvæmdum sem hannaðar eru og hugsaðar af arkitektum.

Og í lokin vil ég nefna að verkfræðingar eru svo kotrosknir að þeir hika ekki við eð gera tilboð í skipulagsvinnu sem ætti alfarið að vera á höndum arkitekta og landslagsarkitekta.  Verkfræðingar eiga ekki að vera í skipulagi öðruvísi en ráðgafar á sérsviðum sínum þar sem þeir leggja t.d. fram tölulegar upplýsingar um flutningsgetu gatna og klóakleiðslna svo dæmi séu tekin.

Í nýlegu “örútboði” hjá Reykjavíkurborg um gerð hverfaskipulags buðu einar 7 öflugar verkfræðistofur þjónustu sína í þessa vinnu, sem er á sérsviði arkitekta og landslagsarkitekta.

Þurfa verkfræðingar ekki að halda aðeins aftur af sér hvað þetta varðar og skilgreina takmörk sín og verksvið betur? Þurfa verkkaupar ekki líka að hugsa sinn gang þegar þeir fela öðrum en arkitektum arkitektaverkefni?

Það gengur auðvitað ekki að sveitarfélög, opinberir aðilar og einkaaðilar feli verkfræðingum arkitektastörf og öfugt!

Hér er slóð að færslunni sem er tilefni þessarra skrifa.:

fhttp://blog.dv.is/arkitektur/2013/04/18/landslagsarkitektar/.

Myndirnar sem fylgja færslunni eru af fyrirhuguðum vegi í Gálgahrauni sem ber keim af verkfræðilegri nálgun exelskjalsins þar sem flutningsgeta og umferðahraði virðast vera megin forsendur hönnunarinnar. Allt annað víkur.

Gálgakrop

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 29.4.2013 - 11:45 - 32 ummæli

HARPA fékk Mies verðlaunin

 

 Harpaplaza-1-lowreslett

 

Mies van der Rohe verðlaunin eru þau virtustu í sem veitt er fyrir byggingalist í Evrópu. Þó svo að þau séu eingöngu veitt húsum sem byggð eru í álfunni eru þau almennt talin þau virtust í heiminum öllum og tvímælalaust þau eftirsóttustu.

Í morgun var tilkynnt að tónlistar og ráðstefnuhúsið HARPA hafi hlotið verðlaunin í ár.

Ástæða er til þess að óska öllum sem að byggingunni stóðu til hamingju með árangurinn. Það er mikill fengur af að hér á landi standi bygging sem hlotið hefur slíka upphefð.

Það er eftir þessu tekið um alla heimsbyggðina.

Hér er slóð að Facebook síðu stofnunar Mies van der Rohe.

https://www.facebook.com/#!/media/set/?set=a.360112664100542.1073741826.294138800697929&type=1

Sjá einnig:

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/04/04/hin-eftirsottu-mies-verdlaun-til-islands/

Ljósmyndin efst í færslunni er tekin af Binna ljósmyndara. Þess er rétt að geta að svæðið framan við HÖRPU sem teiknað er á landslagsteiknistofunni Landslag ehf. var veitt verðlaun fyrir að vera „Best nordic public space“ á síðasta ári.

kl.:16:05 var þessu bætt við færsluna:

Eftirfarandi kemur fram á síðu „DANSK ARKITEKTUR CENTER“  þar sem stendur að þetta sé í fyrsta sinn sem danskir arkitektar vinna til þessarra merku verðlauna. Það kom mér reyndar á óvart, en kíkjum á innganginn:

„And the Mies van der Rohe Award 2013 goes to…“ Harpa – Reykjavik Koncertsal og Konferencecenter, tegnet af Henning Larsen Architects i samarbejde med Batteriið Arkitekter og Studio Olafur Eliasson. Det dansk-islandske team har med Harpa skabt et identitetsgivende ikonbyggeri i tæt samspil med naturen og byen, og den indsats er nu blevet hædret med EU’s officielle pris for moderne arkitektur – Mies van der Rohe-prisen 2013. Det er første gang prisen gives til danske arkitekter“.

Slóðin að tengli DAC:

http://www.dac.dk/da/service-sider/nyheder/2013/april/danske-arkitekter-vinder-mies-van-der-rohe-award-2013/

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 28.4.2013 - 13:36 - 7 ummæli

Reykjavík – Nýleg framtíðarsýn

rek-xd

Það er alltaf gaman að skoða gamlar framtíðarhugmyndir í skipulagsmálum.

Myndin að ofan sýnir eina slíka sem málsmetandi menn í skipulagsumræðunni lögðu fram í byrjun árs 2006.

Þarna er gert ráð fyrir að þróun borgarskipulagsins og að framtíðarbyggingaland borgarinnar verði á landfyllingum við Örfyrisey/Akurey og í Geldinganesi, Engey og Viðey.

Ekki er gert ráð fyrir uppbyggingu í Vatnsmýri sem virðist vera frátekin fyrir votlendi og friðland fugla auk þess að verða e.k. “Central Park” borgarinnar.

Þetta er svodið flott teikning frá spennandi sjónarhól.

Sem betur fer varð þetta ekki ofaná frekar en hugmyndir frá 1963 sem kynntar vor hér á vefnum fyrir nokkru.

Nú stendur borgin fyrir örútboði á endurskipulagi 8 hverfa borgarinnar. Ég fyrir minn hlut er bjartsýnn á að þegar niðurstöður þeirrar vinnu lggur fyrir mun koma í ljós alveg ný mynd af skipulagi borgarinnar með nýjum tækifærum. Þar munu, ef vel tekst til, opnast raunhæfir möguleikar til þess að skapa betri byggð á grunni og í anda þess sem fyrir er. Þvert á teikninguna efst í myndinni og hugmyndir frá 1962 sem áður var getið.

 Hér er slóð að hugmyndum arkitekta frá árinu 1963.

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/01/17/reykjavik-1963-framtidarhugmyndir/

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 20.4.2013 - 13:15 - 5 ummæli

13 þúsund manns á Austurvelli?

 

 

Kowloon Wall City í Hong Kong var sennilega þéttasta byggð í veraldarsögunni. Borgarhlutinn var einnig kallaður „The dark City“

Þar bjuggu um 50 þúsund manns sem samsvarar um 19 þúsund á hektara. Þetta samsvarar því að um 13 þúsund manns ættu heimili sitt á Austurvelli sem er tæpir 7000 fermetrar. Eða svo annað dæmi sé tekið að það ættu 21 þúsund manns heima í Grjótaþorpinu

Það komu hvorki arkitektar né verkfræðingar að byggingunum svo ekki sé talað um skipulagsfræðinga eða aðra borgarfræðinga. Þetta var eitt dæmi um “architecture without architects”. Þrátt fyrir mikla fátækt bjó fólk við mikið öryggi þarna og var hamingjusamt að sögn þeirra sem þar bjuggu. Fólkið sem var það fátækasta í borginni lifði í sátt við eiturlyfjasala og melludólga.

Þegar byggðin var hvað þéttust bjuggu þarna um 50 þúsund manns á 2,7 heturum sem er svipuð lóðarstærð og BÚR lóðin í vesturbæ Reykjavíkur (Aflagrandi) þar býr nú sennilega einungis um 600 manns þó svo að það sé eitt af þéttari svæðum borgarinnar.

Ég kom þarna árið 1973 þegar í hverfinu bjó einungis um 10 þúsund manns. Okkur þótti hverfið einkennast af þvotti og þvottasnúrum sem voru allsráðandi á öllum útveggjum húsanna. Þeir sem komu um Kai Tak flugvöllinn tóku eftir þessari þéttu byggð sem blasti við.

Hverfið var rifið árið 1993, fyrir réttum 20 árum og gerður var borgargarður á borð við Klambratún okkar Reykvíkinga  í þess stað. Klambratún sem er um 12 ha sem gæti hýst 240 þúsund manns samkvæmt  hugmyndafræði Kowloon Wall City. Það slagar upp í alla íslensku þjóðina.

Þetta er svo ótrúlegur þéttleiki að því verður vart trúað. Heimildir mínar eru að mestu fengnar af eftirfarandi slóð South China Morning Post þar sem má lesa reynslusögur fyrrum óbúa þarna:

http://www.scmp.com/news/hong-kong/article/1191748/kowloon-walled-city-life-city-darkness

Kowloon Wall City er ótrúleg andstaða við eftirfarandi dæmi um Kína nútímans. Skoðið tengilinn:

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/03/19/staersta-draugaborg-i-heimi/

22.04.2013.

Lesandi síðunnar benti á eftirfarandi slóð í athugasemdarkerfinu. Þetta er myndband sem sýnir aðstæður skömmu áður en húsin(ið) voru rifin.

http://www.youtube.com/watch?v=Lby9P3ms11w

 

Ef smellt er á tengilinn að neðan opnast mjög skemmtileg teikning með upplýsingum um þetta merkilega hverfi þar sem var að finna alla þá þjónustu sem heyrir til 50 þúsund manna byggðar. Þarna voru skólar, iðnaður og „red light district“ með ópíumsölum, næturklúbbum og pútnahúsum o.þ.h.

Endilega kíkið á teikninguna.

https://www.scmp.com/sites/default/files/2013/03/16/scm_news_1.1.nws_backart1_1_0.jpg

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 18.4.2013 - 08:15 - 3 ummæli

Landslagsarkitektar

IMG_2079-2-e1319539035480-700x275

Íslenskir landslagsarkitektar eru sér á báti í hönnunargeiranum. Þeir  hafa að mér virðist náð meiri og traustari fótfestu á starfsvetvangi sínum en t.a.m. arkitektar eða innanhússarkitektar. Þeim hefur tekist að breikka starfssvið sitt umfram það sem gerst hefur t.a.m. hjá arkitektum sem hafa misst allnokkra spæni úr ask sínum undanfarna áratugi.

Ég hef unnið með landslagsarkitektum á Bretlandseyjum og í Danmörku og tel mig finna fyrir nokkrum yfirburðum þeirra íslensku hvað breidd starfsins varðar.

Fyrir áratugum voru þetta garðarkitektar sem gáfu ráðleggingar varðandi garðhönnun, hellulögn, plöntuval o.þ.h. Þeir innéttuðu einnig göturými og torg eins og kollegar þeirra erlendis.

Um og uppúr 1970 þróuðust garðhönnuðir hér á landi út í að sinna landmótun í meira mæli en áður. Þeir tóku sig til við að sinna svæðaskipulagi, aðalskipulagi og deiliskipulagi.  Mér sýnist þeir sinna skipulagsmálum  í mun meira mæli en erlendu kollegar þeirra í þeim löndum sem ég áður nefndi.  Til viðbótar hafa þeir einnig sinnt meiriháttar mannvirkjahönnun á borð við snjóflóðavarnir,sem voru leystar á aðdáunarverðan hátt. Þeir hafa komið að mótun vega- og brúarstæða og þar fram eftir götum. Í Danmörku starfa t.a.m. landslagsarkitektar aðallega sem ráðgjafar í skipulagsmálum meðan arkitektar leiða vinnuna.

Ef leyfilegt er að alhæfa pínulítið þá sýnist mér dönsku landslagsarkitektarnir á margan hátt vera flinkari en þeir íslensku þegar kemur að garðhönnun og innréttingu göturýma. En þegar kemur að stærri skipulagsverkefnum sýnist mér þeir íslensku mun umsvifameiri og er bara gott eitt um það að segja.

Það sem er einstakt við vinnu garðarkitekta er einkum það að þeir þurfa að hugsa í mörgum tímum í einu. Efniviður þeirra, tré og gróður, er síbreytilegur. Í fyrsta lagi þarf garðurinn og það umhverfi sem er í vinnslu að vera aðlaðandi daginn sem það er mótað og tekið í notkun. Umhverfið þarf líka að vera yndislegt eftir 10 ár og líka eftir 30 ár. Og ekki bara það  heldur vega árstíðirnar þungt þegar garðhönnun er á dagskrá bæði fagurfræðiulega og starfrænt.

Arkitektar og innanhússarkitektar falla oft í þá gryfju að stöðvast í þeim tíma sem byggingin eða innréttingin er hönnuð og byggð. Þeim hættir til að vilja fylgja tískunni og festast í henni. Byggingarnar eru nánast dagsettar og verða jafnvel hallærislegar þegar frá líður eins og fatatískan.

Af gefnu tilefni fór ég að velta fyrir mér sterkri stöðu íslenskra landslagsarkitekta í mótun umhverfis og aðkomu þeirra að skipulagsmálum hér á landi og hver sé ástæðan.

Það læðist að mér sá grunur að ástæðuna sé hægt að rekja til eins manns. Það er Reynir Vilhjálmsson landslagsarkitekt sem útskrifaðist frá Konunglegu Dönsku Akademíunni í Kaupmannahöfn árið 1961.  Hann kom til Íslands að loknu námi og störfum í Kaupmannahöfn fárið 1963 og setti á stofn sína teiknistofu. Þetta var fyrir réttum 50 árum. Haldið var upp á tímamótin með veglegri móttöku á Kjarvalsstöðum um síðustu helgi þar sem Reyni var  verðskuldað fagnað sérstaklega. (Þess ber að geta að Reynir hannaði einmitt Klambratún og umbreytti í borgargarð af bestu gerð)

Reynir hóf störf í miklu og nánu samstarfi við arkitektana á Teiknistofunni Höfða ( Höfði var rekin af arkitektunum Stefán Jónssyni, Guðrúnu Jónsdóttur og Knúti Jeppesen.) Teiknistofan Höfði  fékkst að mestu við skipulagsmál í litlum og stórum skala. Ég hygg að samstarf Reynis við það góða fólk hafi opnað honum, og landslagsarkitektum öllum, dyr frá garðarkitektúr til skipulagsmála sem hann  nýtti sér með frábærum árangri. Framlag hans og frumkvæði á þessum árum ásamt faglegu og lipru samstarf við arkitekta hefur að mér sýnist  greitt og breikkað götu landslagsarkitektastéttarinnar   í heild sinni.

Eftirfarandi slóð varpar að hluta ljósi á einn kiman á víðfemum starfsvetvangi landslagsarkitekta

http://blog.dv.is/arkitektur/2010/06/11/graenar-og-blaar-gonguleidir/

Myndirnar sem fylgja færslunni eru af heimasíðum  landslagsarkitektanna; Landark, Landslag, Landmótun og Landform. Efst er mynd af aðkomu í Þingvallakirkju.

Landslagsarkitektar eru húmoristar og skamstafa samtök sín F.Í.L.A. Hægt er að nálgast heimasíðu þeirra  á þessari slóð:

http://fila.is/

6

Skansinn í Vestmannaeyjum

hvg-adalsk

Aðalskipulag í Hveragerði

V-Hun-700x222

Svæðisskipulag í Hrútafirði

 

50b

Skólalóð á Selfossi

 

46

Göturými í Reykjavík-Aðalstræti.

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 12.4.2013 - 08:42 - 9 ummæli

Verðlaun fyrir lítil hús

 

Gorgious-Nevis-Pool-Pavilion-by-Robert-M_-Gurney-2

 

Það var gaman að frétta að samtök arkitekta í USA (The American Institute of Architects (AIA)) velja 10 bestu  „litlu“  byggingalistaverkin í Bandaríkjunum á hverju ári.

Eitt þeirra sem fékk viðurkenninguna í ár er litla húsið sem birtar eru myndir af  hér í þessari færslu.  Það er lítið baðhús tengt sundlaug í Lewes í Maryland í USA eftir Robert M. Gurney arkitekt. Ég ætla ekkert að skrifa um þetta litla hús en segja að það sver sig í anda byggingarlistar svæðisins og er laust við þá alþjóðahyggju nútíma arkitektúrs sem allt er að drepa.

Mikið væri gaman ef einhverjir aðilar tækju sig til og veittu 10 litlum byggingalistaverkum viðurkenningu fyrir ágæti sitt á hverju ári hér á landi.  Af nógu er að taka og framtakið yrði hvatning  til góðra verka fyrir unga arkitekta og skjólstæðinga þeirra.

Hér er slóð að góðu íslensku dæmi um lítið hús sem veitt var Menningarverðlaun DV á þessu ári. Pistillinn var skrifaður allnokkru áður en verðlaunin voru veitt.

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/08/09/kollgatan-i-lystigardinum/

Heimasíðu Gurney má finna hér;

http://www.robertgurneyarchitect.com/

 

Amazing-Nevis-Pool-and-Garden-Pavilion-by-Robert-M_-Gurney-5

beautiful-Garden-Pavilion-by-Robert-M_-Gurney-1

Skúlptúrinn sem sjá má framan við húsið minnir nokkuð á það sem fjallað var um á eftirfarandi slóð;

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/10/12/skemmtilegt-frumlegt-og-fallegt-framtak/

Beautiful-Pool-Garden-Pavilion-by-Robert-M_-Gurney-6

amazing-Pavilion-by-Robert-M_-Gurney-10

 

E148502-3

Eins og sjá má af grunnmyndinni er hér um að ræða byggingu sem sennilega er eitthvað um 30 fermetrar.

Sjá einnig:

http://www.bdcnetwork.com/aia-selects-recipients-its-2013-small-project-awards

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 10.4.2013 - 10:41 - 24 ummæli

Reykjavíkurflugvöllur-álit almennings

964641cropteiknuðleyy

 

Í síðust viku var kynnt niðurstaða í könnun sem Fréttablaðið og Stöð tvö stóðu fyrir um afstöðu landsmanna til staðsetningar flugvallarins í Vatnsmýrinni og framtíð hans þar.  Ég þekki ekki mikið til framkvæmdar könnunarinnar  en niðurstaðan var sú að 80-84% landsmanna, háð búsetu, vilja að flugvöllurinn verði kyrr í Vatnsmýrinni. Ég leyfi mér að birta texta um könnunina af visir.is  í heild sinni.

 

Yfir 80 prósent vilja að flugvöllurinn verði kyrr

„Þessi könnun og niðurstaða hennar hefur ekki vakið mikla athygli. Þess vegna leyfi ég mér að birta hér fréttina í heild sinnni eins og hún birtist á visir.is.

Yfir 80 prósent landsmanna vilja að Reykjavíkurflugvöllur verði kyrr í Vatnsmýrinni, samkvæmt niðurstöðum könnunar Stöðvar 2 og Fréttablaðsins. Ekki er munur á afstöðu eftir búsetu, en í kosningum um framtíð flugvallarins árið 2001 vildi meirihluti Reykvíkinga flugvöllinn burt.

Ef horft er á landið allt vilja 83% að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni, 3% vilja nýtt flugvallarstæði á Hólmsheiði, 11% kjósa að færa starfsemina til Keflavíkur og 3% vilja ekkert af ofantöldu.

Athygli vekur að ekki er munur á afstöðu höfuðborgarbúa og þeirra sem búa á landsbyggðinni. Vatnsmýrin fær stuðning 83% borgarbúa, Hólmsheiði fær 3,5%, Keflavík 10% og 3,5% velja annað. Hjá landsbyggðinni fær Vatnsmýrin 84%, Hólmsheiðin 1%, Keflavík 13% og 2% vilja aðra kosti.

Það er ljóst að kúvending hefur orðið á afstöðu fólks til þess hvar flugvöllurinn á að vera, en hverjar skyldu ástæðurnar vera?

„Skýringin er algjörlega að mínu mati sú að nú stendur svo illa fyrir okkur efnahagslega að við höfum ekki efni á að ráðast í neinar stórar framkvæmdir,“ segir Trausti Valsson, prófessor í skipulagsfræði.

Þetta eigi jafnt við um sjúkrahús, flugvöll og önnur stór verkefni. Fólk vilji bíða eftir að þjóðin rétti úr kútnum. Hann segir koma nokkuð á óvart að ekki sé munur á afstöðu eftir búsetu.

„En þar held ég að sé það sama, að ábyrgðartilfinningin gagnvart því að ráðast í einhverjar ófærur í fjárfestingum sé álíka rík á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi.“

Keflavík nýtur meiri vinsælda en Hólmsheiði. Ástæðurnar segir Trausti vera að innanlandsflug frá Keflavík myndi bæta aðgengi erlendra ferðamanna að landinu öllu og auðvelda Íslendingum á landsbyggðinni ferðalög utan og heim“.

 

Efst í færslunni er ljósmynd af flugvallarsvæðinu í Vatnsmýri. Athygli vekur hvað stutt er um Kársnes út á Bessastaðanes þar sem er að finna mikið byggingaland.  Þarna mun vera um 800 hektarar byggingalands sem með skynsamlegum tengingum væri í góðum tengslum við alla miðkjarna allra sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Með göng undirinnsiglingu í Hafnarfjarðarhöfn mætti stytta aksturstímann milli miðborgar Reykjavíkur til Keflavíkurflugvallar um 20 mínútur.

Hér má finna slóð að fréttinni á visir.is þar sem má nálgast fréttina á Stöð2:

http://visir.is/yfir-80-prosent-vilja-ad-flugvollurinn-verdi-kyrr/article/2013130409373

Hér er pistill um Bessastaðanes skrifaður til vanar þeirrar náttúru sem þar er að finna.:

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/08/21/bessastadanes%e2%80%93natturan-flugvollur/

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn