Fimmtudagur 16.2.2012 - 09:11 - 8 ummæli

Viðbrögð við umhverfinu

 

Vinir mínir frá Akademíunni  í Kaupmannahöfn, PLH arkitekter, hafa nýlega skilað uppdráttum af nýju íbúðahverfi á viðkvæmum stað í borginni, nálægt Kastellet.

Arkitektarnir hafa dregið fram sérkenni umhverfisins og skapað hús sem tala sama tungumál og umhverfið þó aldursmunurinn sé meiri en 100 ár. Tungumálið er rauður múrsteinn, stórir fletir, svört skífuþök, göt í veggjum fyrir glugga, ástrík smáatriði á borð við munstur í múrverki, asymetría o.fl.

Fyrir utan efnisvalið er stuðst við beinar línur og hornrétt form.  Þakkantar eru misháir allt eftir hæð nærliggjandi húsa.

Það þarf oft ekki mikið til þess að laða fram harmónískan staðaranda.

Húsin eru viðbrögð við umhverfinu. Það er umhverfið sem stjórnar niðurstöðunni.

Þetta er gott innlegg  inn í eilífa umræðu hér á landi um aðlögun og staðaranda. Þetta er dæmi um hve vitlaust það er að skipa fólki í tvo flokka hvað varðar uppbyggingu í eldri hverfum, annarsvegar „verndunarsinna“ og hinsvegar „uppbyggingarsinna“!  Það er frumstæður annaðhvort/eða hugsunarháttur. 

Þessi gildishlöðnu nöfn, verndunarsinni /uppbyggingarsinni, stía fólki í sundur, eru ósmekkleg og eiga ekki við eftir því sem ég get best séð. Það eru allir að gera sitt besta.

Með þessari flokkun er verið að búa til andstæður sem ég held að séu ekki til gagns og jafnvel ekki til nema ef vera kynni innanbrjóst örfárra einstaklinga. En auðvitað má búa til svona fylkingar með  illdeilum, öfgum og afleiðingum í samræmi við það.

PLH arkitekter skipa sér hvorki í flokk verndunarsinna né uppbyggingarsinna. Þeir eru bara arkitektar sem skilja hvað staðarandi er og vinna samkvæmt því.

Heimasíða höfundanna er: http://plh.dk/

Hér er önnur færsla þar sem plh arkitekter koma við sögu:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2010/03/21/reynslusaga-fra-kaupmannahofn/

 Færslunni fylgja nokkrar myndir sem fengnar eru af heimasíðu arkitektanna.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 13.2.2012 - 10:37 - 7 ummæli

Nýir Stúdentagarðar við Sæmundargötu

 

Nýlega voru tilkynnt úrslit í alútboði vegna stúdentagarða við Sæmundargötu við Háskóla Íslands í Reykjavík.

Alútboð er útboðsform þar sem teymi ráðgjafa og verktaka bjóða til sölu heildstæða lausn. Þ.e.a.s. undirbúning, hönnun og framkvæmd. Þetta er vinsælt útboðsform hjá sumum verkkaupum og á stundum við. Einkum þegar um er að ræða einföld hús eða starfssemi þar sem ekki eru margar óþekktar breytur sem auka á óvissuna.

Þau fimm teymi sem tóku þátt í útboðinu voru

  • IAV verktakar með VA arkitekta sem ráðgjafa
  • Ístak með Yrki arkitekta sem ráðgjafa
  • JÁ verk með Arkís sem ráðgjafa
  • SS verktaki með arkitektana Hornsteinar sem ráðghjafa.

Í alútboði eru verkin metin útfrá verði og gæðum. Þ.e.a.s. að bæði efnisleg og arkitektónisk gæði ásamt byggingarkostnaði er sett á vogarskálarnar og lausnin metin heildstætt.

Í þessu alútboði hlutu besta dóminn SS verktakar ásamt arkitektastofunni Hornsteinum. Fagdómarar voru þeir Páll Gunnlaugsson og Sigurður Hallgrímsson arkitektar.

Í dómnefndaráliti segir m.a. um vinningstillögun:

„Tillagan er sérlega vel unnin og uppfyllir óskir um fjölbreytilegt útlit.  Frávik frá stífum línum deiliskipulags í Klasa 3 (K3) er ögrandi og skemmtilegt „stílbrot“.  Íbúðir eru vel leystar, þó dómnefnd þyki gangar full langir.  Sameiginleg eldhús eru skemmtilega staðsett með góð tengsl við umhverfi. (….) Inngarðar eru vel leystir og tillagan hefur allar forsendur til að vera skemmtileg umgjörð fyrir stúdenta“.

Eftir að hafa skoðað tillögurnar sýnist mér dómnefnd hafi komist að skynsamlegri niðurstöðu. Húsin eru vel hönnuð og nemendaíbúðirnar glæsilegar.

Þó átti ég ekki auðvelt með að átta mig á meginatriðinu sem er spurningin hvernig allt þetta byggingarmagn fer á svæðinu. Ég skil hvorki hvernig dómurunum eða þáttakendum tókst að meta það vegna þess að engin snið eða uppdrættir sýndu tengsl húsanna við umhverfið. Snið í gegnum Suðurgötu, Aragötu, Oddagötu, Sæmundargötu og  alla leið niður á sléttlendið að IE, hefði hjálpað. Þetta skapar mikla óvissu sem gerir það að verkum að maður veit ekki hvort hér er um góða framkvæmd að ræða eða slæma.  Auðvitað liggur fyrir deiliskipulag sem húsin eru hönnuð inn í.  Maður verður að treysta því að deiliskipulagið sé í lagi.

En það er ekki alltaf hægt að treysta deiliskipulagi. Svipað var uppi á teningnum þegar stúdentagarðar við Lindargötu voru byggðir fyrir örfáum árum. Þar lá fyrir deiliskipuilag sem hönnuðir teiknuðu húsin inn í.  Maður sér nú að það deiliskipulag var gallað.

Ég vil bæta því við að  þetta er ein fjögurra samkeppna sem ég man eftir þar sem dómnefnd (útbjóðandi) breytir samkeppni í miðju ferli úr eins þreps samkeppni í tveggja þrepa. Þarna er mikill munur á. Það er auðvitað tóm vitleysa og rangt vinnulag.  Hinar samkeppnirnar voru um flugstöð Leifs Eiríksonar, Laugarnesskóla og skóla í Norðlingaholti. 

Svona verklag rýrir traust verkkaupa og þáttakenda á samkeppnisforminu og ber að fyrirbyggja enda ófaglegt. Þegar niðurstaða liggur fyrir í samkeppni þá eiga að hefjast viðræður milli verðlaunahafa og verkkaupa.  Ef samningar takast ekki á að ræða við þá sem eru í öðru sæti. Að bæta við nýju þrepi í samkeppninni miðri eru einkennileg vinnubrögð sem ekki er gert ráð fyrir í reglum og leiðbeiningum.

Efst er tölvumynd sem sýnir útlit húsanna þar sem horft er suður Oddagötu og neðst er tölvumynd af hjónaíbúð.

Á slóðinni að neðan má kynnast deiliskipulaginu og verða lesendur að nota ímyndunaraflið til þess að átta sig á því hvernig húsin falla að byggðinni.

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2010/05/12/visinda-og-studentagardar-vid-hi/

 

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 9.2.2012 - 08:41 - 5 ummæli

Poul Kjærholm

 

Poul Kjærholm (1929-1980) var sveitastrákur frá smábæ á Jótlandi, Öster Vrå, skammt frá Hjörring. 

Aðeins 15 ára fetaði hann inn á þann vettvang sem varð ævistarf hans. Hann lærði húsgagnasmíði  og hóf nám í Listiðnaðarskólanum eins og Börge Mogensen og Skarphéðinn Jóhannsson og m. fl á þessum árum. Í framhaldinu hóf hann nám á Konunglegu Listaakademíunni og lærði hjá Hans J Wagner og  professor Kåre Klint.

Hann vann einnig um tíma hjá Jörn Utzon og stúderaði alþjóðlega þekkta hönnuði á borð við Charles Eames, Mies van der Rohe, minimalistann Gerrit Rietveld o.fl.

Kjærholm var sérlega kröfuharður og agaður í öllum sínum störfum og gaf hvergi eftir. Hann sagðist einkum vinna með náttúruleg efni og það er rétt hjá honum. Hinsvegar er burstað stál áberandi í verkum hans. Hann var eitt sinn spurður út í það og svaraði því til að hann teldi stál náttúrulegt efni. Sennilega er það líka rétt hjá honum.

Kona hans, Hanne Kjærholm(1930-2009),  var einnig ættuð frá Hjörringsvæðinu eins og Poul, sem var á bóndaárinu. Ekki veit ég hvort þau felldu hugi saman í sveitinni en þau gengu saman sínar professional breiðgötur og urðu bæði prófessorar við Konunglegu dönsku listaakademíuna fyrir hinar fögru listir í Kaupmannahöfn. 

Hanne var kennari minn einn vetur á Akademíunni. Ég kynntist henni nokkuð og minnist þess að hún var skemmtileg og mikil kvennréttindakona. Hún varð fyrst kvenna professor í byggingalist á Akademíunni en Akademian var stofnuð 31. mars 1754 eða tæplega 240 árum áður en hún varð fyrsti kvenprofessorinn.

Hún teiknaði frægt hús þeirra hjóna í Rungsted árið 1962 o.m.fl.

Ég læt ekki margar ljósmyndir fylgja þessari færslu en visa á afar vandaðan bækling sem skoða má af þessari slóð: http://viewer.zmags.com/publication/0ee2abe9#/0ee2abe9/1

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 7.2.2012 - 08:50 - 4 ummæli

Börge Mogensen

Það eru ekki margir Danir sem ekki þekkja húsgögn Börge Mogensen. Þau eru áberandi á dönskum heimilum og í góðærinu hér á landi varð maður mikið var við  húsgögn hans í fjármálastofnunum.

Mogensen var menntaður húsgagnasmiður sem hélt áfram námi í Listiðnaðarskólanum  (Kunsthåndværkerskolen) og þaðan áfram á Konunglegu Listaakademíuna í Kaupmannahöfn. Hann leiddi hönnunarhluta FDB (de forenede danske brugsforeningar) sem þjónaði almenningi með ýmsar daglegar vörur og húsgögn.

Það sem einkennir hönnun Mogensen í mínum huga er virðing hans fyrir efninu sem oftast er timbur, leður og vaðmál. Það geislar svo af húsgögnunum efniskenndin, að manni finnst maður finna ilminn af leðrinu og timbrinu með því einu að horfa á ljósmyndir af verkum hans.

Börge Mogensen var kunningi Skarphéðins Jóhannssonar arkitekts og komu þeir félagar  að hönnun húsgagna í aðalbyggingu Búnaðarbanka Íslands  við Austurstræti á sínum tíma (1946-49) að  frumkvæði Gunnlaugs Halldórssonar arkitekts.

Þeir Mogensen og Skarphéðinn voru jafnaldara og samstíga. Báðir voru þeir fæddir árið 1914, báðir voru þeir húsgagnasmiðir, báðir gengu þeir í Listiðnaðarskólann og báðir stunduðu þeir nám við Listaakademíuna. Skarphéðinn lést 1970 og Mogensen tveim árum seinna árið 1972. 

Eins og áður sagði unni þeir að innréttingum fyrir Búnaðarbanka ‘islans þar sem Borge Mogensen hannaði nokkur laus skrifstofuhúsgögn. Þeirra á meðal voru skrifborð og skápar á skrifstofu bankastjóranna.

Ég kom að því að endurnýja þessi húsgögn fyrir allmörgum árum og voru þau í notkun  á skrifstofu bankastjóranna áður en Búnaðarbankinn var einkavæddur og nánast lagður niður og síðar settur á hausinn.  Þetta voru mjög vönduð húsgögn, vel smíðuð og vel hönnuð.

Ekki veit ég hvað þeir sem tóku við þessum gersemum gerðu þegar þeir tóku til við að innrétta skrifstofur sínar inn í Borgartúni undir heitinu Kaupthing.  Vonandi skipa þessi húsgögn verðugan sess í hinum endureista banka.

Best væri að finna þau í Hönnunarsafni Íslands  þar sem þeu eiga heima.

Börge Mogensen var fæddur 1914 og lést árið 1972.

Hjálagt eru myndir af nokkrum húsgagna Börge Mogensen sem fengnar eru á heimasíðu Epal.is. Neðst er ljósmynd af Mogensen sem lést aðeins 58 ára gamall. Efst er ljósmynd af spánska stólnum frá 1958

 

Sófi hannaður árið 1963

 Stóll 1942

Rimlasófi 1945

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 4.2.2012 - 21:06 - 8 ummæli

Arne Jacobsen.

 

Arne Jacobsen vann um tíma við múrverk áður en hann hóf nám í arkitektúr við konunglegu Dönsku listaakademíuna þaðan sem hann lauk prófi árið 1927. Helstu kennarar hans voru Kay Fisker og Kaj Gottlieb 

Hann vann silfurmedalíu á Art Deco sýningu í París árið 1925 meðan hann var enn við nám á akademíunni.  það varð sennilega örlagavaldir í lífi hans.  Á ferð sinni til  Parísar vegna verðlaunanna varð hann heillaður af le Courbusiere og í framhaldinu fór hann til Þýskalands og stúderaði Mies og Gropius. Þetta var 4 árum áður að Mies opinberaði Barcelonaskálann og Barselonastólinn sem er tvímælalaust mestu áhrifavaldar í byggingarlist og húsgagnahönnun tuttugustu aldar.

Hann varð fljótt þekktur fyrir byggingar sínar eins og Bella Vista norðan Kaupmannahafnar(1934) og síðar Rödovre Rådhus, Hotel Royal, Seðlabanka Danmerkur og fl.

Það var ekki fyrr en á síðari hluta æfinnar sem hann fór virkilega að láta bera á sér sem iðnhönnuður. Hann hannaði mikið af nytjahlutum og húsgögnum. Mörg húsgagna hans voru beinlínis hönnuð með ákveðna byggingu í huga. Hann hafði sterk höfundareinkenni þannig að oft var talað um “strik Jakobsens”

Hann reyndi að láta allt ganga upp í eina agaða heild. Þetta sést vel á Hotel Royal í miðborg Kaupmannahafnar þar sem hann hannaði allt frá klósettrulluhöldurum um hurðahúna, gólfteppa og húsgagna upp í sjálft húsið.  Einu herbergi er enn þann dag í dag haldið í upprunalegri mynd. Það er herbergi 606. ( sjá hjálagðann tengil)

Á teiknistofu Arne Jacobsem unnu um tíma arkitektarnir Dissing, Weitling, Knud Munk og Knud Holsceh sem haslaði sér völl sem „designer“.

Myndirnar með færslunni eru fengnar í gegnum heimasíðu Epal.is

Neðst er ljósmynd af Arne Jacobsen sem var fæddur 11.febrúar 1902 og lést árið 1971 aðeins 69 ára gamall. Í næstu viku eru 110 ár liðin frá fæðingu hans.

Sjá einnig:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2011/10/08/herbergi-606/#comments

og

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2009/12/09/mies-van-der-rohe/#comments

 

 

 

 

 

 

 Bellavista frá 1934

 Stelton stállína

 

Bensínstöð við Strandvejen frá fjórða áratugnum, norðan Kaupmannahafnar sem enn er í nortkun. Þetta er ekki nein vegasjoppa heldur bensínstöð eins og fólk vill hafa þær. Þarna er eldsneyti á bíla afgreitt fljótt og vel á einfaldann hátt og ekkert annað.

 

Hér situr fylgikonan Christine Keeler  ögrandi í stól sem er í aðalatriðum stóll nr. 7 eftir Arne Jacobsen. Ungfrú Keeler olli ríkisstjórn Harold McMillan miklum vandræðum vegna ástarævintýris með einum ráðherra ríkisstjórnar Englands. Mr. Profumo.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 2.2.2012 - 10:56 - 8 ummæli

Poul Henningsen – „PH“

Ég byrja á tilvitnun í PH sem gaman er að velta fyrir sér: „Vondur smekkur er ekki til,  það er bara til góður smekkur og hann er vondur“ .

Poul Henningsen var mjög virkur í menningarumræðunni í Danmörku alla sína tíð og það var eftir honum tekið þegar hann kvaddi sér hljóðs, sem var alloft.

Hann var mjög menningarpólitískur og gaf út tímaritið „Kritisk Revy“ á árunum 1926-28, skrifaði vinsælar Revíur fyrir leikhús, var blaðamaður og gaf út bækur á borð við „Gamansöm Alvara“ (Alvorlig Sjov) og svo sagði hann: Öll pólitísk list er vond – og öll góð list er pólitísk.

Varðandi hönnun hans eru lamparnir algerlega einstakir. Sagt var árið 1958 þegar  PH5 kom á markað að nú væri búið að teikna borðstofulampann í eitt skipti fyrir öll og ekki þurfi að hugsa um hann framar.  það sýndi sig líka að danska þjóðin tók lampanum opnum örmum. Hann var á viðráðanlegu verði, fallegur og funktional. Að grunni til var hann byggður á öðrum lampa sem PH hannaði árið 1926 og hét PH glaspendel. (sjá að neðan) Því er stundum haldið fram að PH5 lampinn hafi í raun verið teiknaður 1926 og síðan lagfærður, þróaður og honum breytt vegna þess að ljósaperan er öðruvísi nú en þá. 

Og enn er ljósaperan að breytast. Vonandi tekst að laga PH5 að nýju sparperunni.

PH5 lampinn var og er svo vinsæll að ég fyrir minn hlut hef ekki komið inn á danskt heimili þar sem ekki hangir að minnstakosti einn slíkur.

PH var staðararkitekt fyrir Tivoli í Kaupmannahöfn frá árinu 1941 og eru spor hans þar ennþá áberandi, áratugum síðar.

Poul Henningsen, sagði eitt sinn „Að vera frjálslyndur væri ekki réttindi heldur erfið skylda. Frjálslyndi fælist ekki í því að trúa á framfarir, heldur að efast um þær“.

Að neðan eru myndir af nokkrum lömpum PH í tímalínu og neðst kemur ljósmynd af PH sjálfum.

Efst er sjálfsmynd sem Poul Henningssen teiknaði.  Teikningin rennir stoðum undir þá kenningu að sá sem ekki getur teiknað fríhendis skortir rýmisgreind og skilur ekki hlutföll.  Hugsanleg afturför byggingarlistarinnar á kannski rætur sínar að rekja til tölvanna sem treyst er til að reikna út það sem augað sér. Ég sé iðulega teikningar sem sýna að arkitektarnir kunna of mikið á tölvur og of lítið í byggingarlist.

Poul Henningsen fæddist árið  1884 og lést 1967 þjáður af parkinsonsjúkdómnum

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 1.2.2012 - 09:19 - 6 ummæli

Danish Design – „Trendmakers“

Það vekur oft undrun hvað fámennur hópur manna getur áorkað miklu á stuttum tíma.

Hin rómaða danska hönnun er runnin undan rifjum örfárra manna sem voru uppi á svipuðum tíma og þekktust persónulega.

Það er ekki óalgengt að það myndist svona andrúmsloft í listum. Maður áttar sig oft ekki á hvernig á því stendur fyrr en að áratugum liðnum. Eitt dæmi um sprengingu í listum er Bauhaus sem breytti viðhorfum til nánast allra hluta á örfáum árum.

Upp úr stríðsárunum komu fram mjög sterkir hönnuðir í Danmörku sem mótuðu danska hönnun eins og við þekkjum hana í dag. 

Þeir mótuðu eiginlega smekk heillrar þjóðar og höfðu áhrif langt út fyrir landsteinana. 

Þeir studdu hvern annan í þeirri nálgun sem var þeim sameiginleg og blómstraði á árunum milli 1950 og 1960.  Sköpuðu „trend“  á aðeins 10 árum sem enn er í fullum blóma.  Enn þann dag í dag eru hönnuðir um allan heim að leita í smiðju þessara manna og „stæla“ þó meira en hálf öld sé liðin.

Þetta voru fúnktionalistar sem báru mikla virðingu fyrir starfi sínu, efninu og handverkinu.

Þeir sem voru mest áberandi  voru þessir:

Paul Henningsen 1894-1967

Arne Jacobsen 1902-1971

Börge Mogensen 1914-1972

Hans J. Wegner 1914-2007

Verner Panton 1926-1998

Paul Kjærholm 1929-1980

Það sem var sameiginlegt með þeim flestum er að þeir fóru leið að menntun sinni sem er ekki algeng nú á dögum. Flestir þeirra voru í upphafi iðnaðarmenn sem héldu áfram um listiðnaðarskóla alla leiðina í Konunglegu dönsku listaakademíuna. 

Í gegnum jarðbundna iðnmenntun sína lærðu þeir að bera virðingu fyrir efninu og meðhöndlun þess.  Í akademisku námi sínu lærðu þeir að umbreyta  hönnuninni á grunni djúpra gamalla hefða í nýjar áttir.  Eins og hjá vönduðu fólki var markmiðið ekki að gera eitthvað alveg nýtt  heldur að gera eitthvað sem var betra en það gamla eða að hugmyndirnar vísuðu til framfara.

Fræg er tilvitnunin í Paul Henningssen sem sagði eitthvað á þessa leið;  „Framtíðin kemur af sjálfu sér en framfarir gera það ekki“.

Þessar umbreytingar í hönnuninni áttu rætur sínar að rekja til Bauhaus. Sennilega er Stokkhólmssýningin árið 1933 stór áhrifavaldur. 

Ég mun gefa lauslega innsýn inn í starf þessara arkitekta í næstu pistlum . Þessir menn hafa skapað  hluti sem nú eru kallaðir  ”modern klassík” sem stefna í að verða eftirsótt antíkmunir framtíðarinnar.

Að neðan eru þrír stólar frá þessu tímabili. Cow Horn Chair frá 1952 eftir Hans J Wegner,  PK 22 frá 1955 eftir Paul Kjærholm,  og í lokin Svanurinn frá 1958 eftir Arne Jacobsen.

Wegner: Cow Horn Chair frá 1952

Paul Kjærholm: PK 22 frá 1955

Arne Jacobsen: Svanurinn frá 1958

Það voru nokkrir fleiri en að ofan eru nefndir sem höfðu mikil áhrif.  Ég nefni Finn Juhl, einnig Kaare Klint, Ole Wancher og Kai Kristensen.  Það var mikið að gerast í þessum málum á árunum milli 1950-60 í Danmörku. Ef ég hefði talið alla upp hefði listinn orðið of langur. Hér að ofan er stóll úr sófasetti sem Kai Kristensen teiknaði árið 1955

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 30.1.2012 - 08:59 - 11 ummæli

París – La Défense

La Defence er aðal viðskiptahverfi Parísarborgar. Hverfið stendur vestan við borgina og er á enda áss sem liggur allt frá Louvre safninu í hjarta borgarinnar um Tuileries garðana, Place de la Concorde, Champ-Elysees, Etoile og breiðgötuna Grande Armee 10 km leið sem endar í La Defence.

Það er einhver stór hugsun í skipulagi Parísarborgar sem maður er eiginlega stanslaust hissa á.

Þessi  þráðbeina götulína milli fortíðar og framtíðar, þrungin sögu, er einhver glæsilegasta gata sem um getur.  Ásinn byrjar í Louvre sem er aðeins snuið miðað við ásinn (um 6 gráður að mig minnir) og endar í Grand Arche sem er í um 10 km fjarlægð er snúið nákvæmlega jafn mikið og Louvre miðað við götuna. Þar sem gatan er hæst stendur Sigurbogi Napóleons eftir Chalgrin.

Grand Arch er teiknað af danska arkitekinum Otti von Spreckelsen (1929-1987) sem vann verkið í alþjóðlegsi samkeppni.  Mér hefur verið sagt að íslenski arkitektinn Guðrún Gústafsdóttir sem vann um tíma hjá Spreckelsen hafi komið að verkinu.  Arkitektinn lifði ekki að sjá verk sitt fullklárað árið 1989.

Ég hef oft velt því fyrir mér hvort La Defense hafi verið lausn skipulagsfræðinga til þess að losna við háhýsin úr miðborg Parísar!  Úthýsa þeim úr miðborginni og gefa þeim kjöraðstæður í jaðrinum í stað þess að láta atburðarrásina og tíðaranda liðandi stundar ráða ferðinni eins og oft vill gerast.

Uppúr 1970 var hætt að byggja háhýsi innan Periferíunnar í París, góðu heilli. Svipað var gert í London (Docklands) og víðar þó það hafi ekki gerst með frönskum elegans eins og hér.

Að neðan koma tvær myndir teknar af þaki Sigurbogans til austurs og vesturs. Neðst er svo myndband sem sýnir núverandi byggð í La Defense og væntanlæeg hús. Bandið er kynnt sem 9 mínútna langt en er aðeins um 5 mínútur í spilun.

Ef smellt er tvisvar á myndirnar stækka þær

Á slóðinni hér að neðan má lesa um Spreckelsen.

http://en.wikipedia.org/wiki/Johann_Otto_von_Spreckelsen

Horft til vesturs í átt að La Defence

Horft til austurs eftir frægustu breiðgötu veraldar. Louvre er fyrir enda götunnar

 Hér að neðan koma svo tvær myndir sem Árni Ólafsson hefur bent á. Önnur er teikning af sýn meistara Le Courbusiere frá árinu 1922 (fyrir réttum 90 árum) hin er nokkurra ára ljósmynd frá La Defense. Líkindin eru sláandi.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 27.1.2012 - 17:56 - 28 ummæli

Hótel í Öskjuhlíð

 

Nú er verið að vinna frumhönnun að hóteli í vestanverðri Öskjuhlíð.

Um er að ræða hótel sem er að mestu aðeins á tveim hæðum þó það hýsi milli 200 og 230 herbergi. Auk herbergjanna eru stoðrými á borð við fundarsali, veitingastaði og líkamsrækt í húsinu. Aðalinngangur er í fjögurra hæða hluta hússins sem nær niður á sama plan og Flugvallarvegur. Húsið er alls um 9400 m2.

Hótelið stendur við rætur Öskjuhlíðar í grennd við Keiluhöllina, slengir sig eftir hæðarlínunum og stendur á súlum sem ekki eru allaf nákvæmega lóðrétttar frekar en stofnar trjánna í skóginum í grenndinni.

Guðni Pálsson arkitekt hjá GP arkitektum hannar húsið.

Með því að tvísmella á myndirnar stækka þær.

Efsta myndin sýnir hvernig ásýndin er frá Hringbraut.

 

Horft til vesturs  ofan úr Öskjúhlíð. Keiluhöllin til vinstri.

 

Horft af bifreiðastæði Keiluhallarinnar.

Ég hef oft nefnt það áður að afstöðumynd er mikilvægasta myndin þegar húsateikningar eru skoðaðar. Næst í forgangsröðinni kemur sniðið og grunnmyndin. Minnstu máli skipta sennilega útlitin vegna þess að þau eru oftast huglæg og mikið tengd tíðarandanum.  Afstöðumyndin og sniðið eru hér í þessu húsi í Öskjuhlíð  meginatriði. Húsið slengist eftir hæðarlínunum og fjögurrra hæða byggingin með öllum stoðrýmunum sem tegir sig niður á inngangshæðina við Flugvallarveg og markar greinilega innganginn. Sniðið, þó það sé ekki birt hér, sýnir hluttföll hússins miðað við landslagið og hvernig byggingin snertir landslagið með áhugaverðum léttleika.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 25.1.2012 - 14:05 - 13 ummæli

Endurmótun borganna

Mikil umræða er víðs vegar um heiminn um endurskipulagningu borganna.

Markmiðið er að fækka bílum, bæta samgöngur, fjölga fólki,  gera borgirnar hreinni, heilsusamlegri, skemmtilegri, félagslega réttlátari og ekki síst fallegri. Þetta horfir til mikilla framfara þó litið sé áratugi til baka í tíma.

Danska arkitektastofan JJW Arkitekter  ætlar að efna til samtals við borgarana um framtíð Kaupmannahafnar og spyrja þá spurninga sem fólk er almennt ekki spurt um. Teknir eru helstu ógnvaldar og gerð tilraun til þess að snúa þeim á hvolf þannig að gallarnir verði kostir.

Á stofunni vinnur einn íslenskur arkitekt, Henný Hafsteinsdóttir. Gaman væri að fá hana til þess að kynna verkefnið næst þegar hún er á landinu. Við getum örugglega mikið af hennar reynslu lært.

Hjálagt er skemmtilegt kynningarmyndband sem stofan hefur gert og ég mæli sterklega með að fólk skoði. Þetta eru 5 skemmtilegar og fróðlegar mínútur sem allir ættu að skoða sem einhvern áhuga hafa á þessu máli. En það er  leiðinleg lyftutónlist sem fylgir. Óþarfi er að hafa hljóðið á. Textinn er á dönsku en myndefnið er alþjóðlegt og öllum skiljanlegt.

Það væri gaman ef íslenskir arkitektar tækju sig til og yrðu virkir aðgerðarsinnar í þróun skiplulags og byggingalistar. Láti af þýðlyndinu og leiðinlegheitunum sem allt er að drepa.

Heimasíða JJW Arkitekter er jjw.dk

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn