Vinir mínir frá Akademíunni í Kaupmannahöfn, PLH arkitekter, hafa nýlega skilað uppdráttum af nýju íbúðahverfi á viðkvæmum stað í borginni, nálægt Kastellet.
Arkitektarnir hafa dregið fram sérkenni umhverfisins og skapað hús sem tala sama tungumál og umhverfið þó aldursmunurinn sé meiri en 100 ár. Tungumálið er rauður múrsteinn, stórir fletir, svört skífuþök, göt í veggjum fyrir glugga, ástrík smáatriði á borð við munstur í múrverki, asymetría o.fl.
Fyrir utan efnisvalið er stuðst við beinar línur og hornrétt form. Þakkantar eru misháir allt eftir hæð nærliggjandi húsa.
Það þarf oft ekki mikið til þess að laða fram harmónískan staðaranda.
Húsin eru viðbrögð við umhverfinu. Það er umhverfið sem stjórnar niðurstöðunni.
Þetta er gott innlegg inn í eilífa umræðu hér á landi um aðlögun og staðaranda. Þetta er dæmi um hve vitlaust það er að skipa fólki í tvo flokka hvað varðar uppbyggingu í eldri hverfum, annarsvegar „verndunarsinna“ og hinsvegar „uppbyggingarsinna“! Það er frumstæður annaðhvort/eða hugsunarháttur.
Þessi gildishlöðnu nöfn, verndunarsinni /uppbyggingarsinni, stía fólki í sundur, eru ósmekkleg og eiga ekki við eftir því sem ég get best séð. Það eru allir að gera sitt besta.
Með þessari flokkun er verið að búa til andstæður sem ég held að séu ekki til gagns og jafnvel ekki til nema ef vera kynni innanbrjóst örfárra einstaklinga. En auðvitað má búa til svona fylkingar með illdeilum, öfgum og afleiðingum í samræmi við það.
PLH arkitekter skipa sér hvorki í flokk verndunarsinna né uppbyggingarsinna. Þeir eru bara arkitektar sem skilja hvað staðarandi er og vinna samkvæmt því.
Heimasíða höfundanna er: http://plh.dk/
Hér er önnur færsla þar sem plh arkitekter koma við sögu:
http://blog.eyjan.is/arkitektur/2010/03/21/reynslusaga-fra-kaupmannahofn/
Færslunni fylgja nokkrar myndir sem fengnar eru af heimasíðu arkitektanna.