Miðvikudagur 16.5.2018 - 14:12 - 8 ummæli

Kynning á deiliskipulagi – Fálæti og seinagangur.

 

Ég hef þrisvar sinnum gert athugasemd við auglýst deiliskipulag í kynningarferli hjá Reykjavíkurborg. Athugasemdirnar vörðuðu ekki einkahagsmuni mína heldur almannahagsmuni, staðaranda og ásýnd þeirrar Reykjavíkur sem við viljum mörg standa vörð um.

Í fyrsta sinn var það vegna deiliskipulags Landspítala Háskólasjúkrahúss við Hringbraut þar sem ég taldi að deiliskipulagið stæðist ekki stefnu hins opinbera í mannvirkjagerð frá árinu 2009. Þá gerði ég athugasemdir við vegna staðsetningarinnar og umferðamál. Svörin komu seint og voru að mínu mati ófullnægjandi. Það má geta þess að það komu að mér er sagt 817 athugasemdir við deiliskipulagið og ég hef ekki heyrt að neinu hafi verið þokað í framhaldinu.

Í annað sinn sem ég gerði athugasemd við deiliskipulag var þegar deiliskipulag við Austurhöfn var auglýst. Það sem nú er kallað Hafnartorg og er milli Tryggvagötu og Hörpu. Þar taldi ég vanta skilgreiningu í skilmála um húsagerð og staðaranda Kvosarinnar. Ég vísaði í ágæta greiningu Guðna Pálssonar og Dagnýjar Helgadóttur arkitekta um staðarandann í deiliskipulagi Kvosarinnar frá 1986 sem enn er í gildi. Ég benti einnig á að hvergi í deiliskipulagi Austurhafnar væri gert ráð fyrir samgönguás (nú Borgarlína) sem þarna á að fara um samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur AR2010-2030 en samgönguás aðalskipulagsins var sérstakt áhugamál mitt. Svar skipulagsvaldisns kom, en ekki var tekið á þessum atriðum sem varðaði Borgarlínuna og ásýnd húsanna. Nú eru þessi hús risin eða eru að rísa og sitt sýnist hverjum.

Í þriðja sinn gerði ég athugasemd við deiliskipulag á lóðinni Hringbraur 29 þar sem átti að byggja heilmikinn stúdentagarð sem skyggði á eina fallegust götumynd borgarinnar þar sem Gamli Garður og Þjóðminjasafnið kallast á með sérlega sjaldgæfum og fallegum þokka. Nú í dag, 16. maí 2018, réttum níu mánuðum eftir að umsagnarfresturinn rann út hefur mér enn ekki borist svar við athugasemdinni eða þakklæti fyrir áhugann og umhyggjuma vegna þróun borgarinnar.

Ég var ekki einn um að senda athugasemd vegna þessa deiliskipulags. Það gerðu líka einir sjö fyrrverandi formenn Arkitektafélags Íslands, einn fyrrverandi þingmaður og ráðherra, einn prófessor við Háskóla Íslands og einn starfsmaður HÍ til viðbótar auk mín. Minjastofnun hafði líka gert athugasemd við þetta.

Ekki veit ég hvort þessum aðilum hefur borist svar við athugasemdunum en ég hef ekkert heyrt. Það er óhætt að fullyrða að skipulagsyfirvöld sýna þessu áhugasama fólki sem er að huga að almannahagsmunum og leggja í það mikla vinnu, mikið fálæti.

Ég fyrir minn hlut lagði mikla vinnu í mínar athugasemdir í öllum þessum tilvikum. Þurfti að lesa greinagerðir og draga út úr þeim atriði sem mér fanst skipta máli.

Reynsla mín af öllu þessu segir mér að það fylgir engin hugur að baki þeirra lögformlegu kynninga sem skipulagsyfirvaldinu er skylt að sinna. Lærdómurinn er sá að það er tilgangslaust að leggja þessa vinnu á sig. Mér finnst eiginlega að skipulagsvaldið sé að gera grín að samfélagslega ábyrgum borgurum með þessu verklagi.

+++

Efst er mynd af nýlegri auglýsingu um deiliskipulag sem birtist í blöðum fyrir helgi. Í mínum huga er þetta verklag sýndarsamráð eins og dæmin sanna, sem að ofan er getið. Ég hefði viljað gera fleiri athugasemdir eins og vegna bygginga framan við útvarpshúsið við Bústaðaveg en hafði ekki orku í það einkum vegna þess að manni er varla svarað og alls ekki þakkað fyrir að veita skipulagsmálum athygli og umhyggju.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 12.5.2018 - 18:18 - 10 ummæli

4000 íbúðir í Örfirisey – Bíllaus byggð!

Í Fréttablaðinu í morgun var kynnt hugmynd um uppbyggingu í Örfirisey þar sem lagt er til að komið verði fyrir um 4000 íbúðum í skipulagi þar sem verður lítil eða engin bifreiðaumferð. Þetta hljómar róttækt, sem það kannski er, en þetta er nokkuð þekkt víða i nágrannalöndunum og hefur gefist vel. Þetta er vistvæn byggð sem er í fullkomnum samhljómi við þau góðu meginmarkmið sem fram koma í ágætu núgildandi aðalskipulagi Reykjavíkur.

Uppúr 1970 voru byggð mörg svona hverfi í Danmörku undir heitinu „lavt tæt boligbyggeri“ sem gekk út á að setja blokkaríbúðina niður á jörðina og í stað þess að ganga heim til sín um bifreiðastæði stigaganga og svalaganga, gengu íbúarnir nokkurn spotta á jörðu niðri að útidyrum sínum. Ásættanleg vegalengd var tailin allt að 250 metrar.

Undanfarin allmörg ár hafa víða í nágrannalöndum okkar verið byggð hverfi með svipuðu fyrirkomulagi. Þ.e.a.s. að ekki er ekið að útidyrum fjölbýlishúsanna og bílum lagt þar þó bifreiðaaðkoma með sleppistæðum sé nálægt inngöngunum.

Tillagan sem kynnt var í Fréttablaðinu í morgun er í fullkomnu samræmi við megininntak aðalskipulagsins AR2010-2030 þó ekki sé gert ráð fyrir íbúðabyggð á Grandanum á skipulagsuppdrættinum. Með því að koma þessum 4000 íbúðum nálægt helsta atvinnusvæði borgarinnar, miðbænum, eru líkur á því að bifreiðaumferð muni verða minni en ef þessar íbúðir sem vissulega er mikil þörf fyrir risu austar í bænum. Eins og margsinnis hefur verið bent á vantar íbúðir í miðborgina til þess að vega upp á móti öllum þeim atvinnurtækifærum sem þar er að finna og að sama skapi vantar atvinnutækifæri austar í borgina til þess að mæta öllum þeim íbúðatækifærum sem þar eru.

Í stuttri greinargerð með hugmyndinnium bíllausa byggð i Örfirisey er talað um fjölbreytt og spennandi búsetuform sem ekki hafa verið mikið reynd hér á landi. Einskonar búsetusamfélag (e.co-living) sem er skemmtilegt og lifandi. Hverfi þar sem fólk þekkist vegna þess að götur íbúanna krossast á eðlilegan og þvingunarlausan hátt í grenndarsamfélaginu. Þarna gætu t.a.m. verið mjög litlar íbúðir í bland með stærri íbúðum með ýmsum sameiginlegum rýmum svo sem þvottahúsi og þ.h.

Undanfarin ár hafa svona íbúðasamfélög verið byggð víða erlendis.

Þetta er hugmynd sem virkilega er ástæða til þess að skoða alvarlega. Þetta er raunhæft og mun styrkja vesturborgina og gefa líklega um 10.000 manns tækifæri til þess að setjast að í nágrenni miðborgarinnar og lifa borgarlífi í fallegu og góðu umhverfi ef vel tekst til. Það sem gerir hugmyndina sérlega áhugaverða er að hún skerðir á engan hátt hafnarstarfssemina í vesturhöfninni sem er ein stærsta útvegshöfn landsins.

Samfara þessu væri æskilegt að koma fyrir botngöng frá Sæbraut fyrir hafnarkjaftinn út í Örfirisey og þaðan út á Nes. Með þeirri tengingu gæti Kvosin frá Tjörninni að Höfninni nánast orðið bíllaus og umferðaálagið á Hringbraut yrði mun minna. Jafnvel svo að Hringbraut vestan Hofsvallagötu gæti orðið vistgata með seitlandi umferð í stað þeirrar gjár sem nú sker vesturborgina í tvennt.

Þessi hugmynd gæti verið það stutt frá okkur í tíma að hún er vissulega verðugt umræðuefni núna í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna sem standa fyrir dyrum. Þetta er hugsanlega hægt að framkvæma nánast vandræðalaust á komandi kjörtímabili. Maður gæti spurt hvort betra sé að stefna að þessari byggð í Örfirisey innan 4-6 ára eða byggð við Miklubraut í stokk eftir 10-20 ár?

Ég hef heimsótt svona hverfi víða. Þessi hugmynd um uppbyggingu í Örfirisey minnir nokkuð á Sluseholmen í Kaupmannahöfn. Þar eru líklega nokkur þúsund íbúðir við höfnina og milli húsanna eru kanalar svipað og við þekkjum frá Amsterdam og seitlandi umferð gangandi, hjólandi og akandi á götum og stígum. Lítið eða ekkert er um bílastæði í húsagötunum. Útivistarsvæðin eru inni í húsagörðunum og meðfram höfninni sem virtust mjög líflegir þegar ég átti leið þar um.

+++

Efst er yfirlitsmynd sem sýnir hugmyndina og stax að neðan skýringaruppdráttur. Að neðan koma nokkrar myndi frá Sluseholmen sem skýra sig sjálfar og gefa hugmynd um hvernig þessi nýja byggð á Grandanum gætu mætt auganu. Það ber að taka það fram að tillagan er frekar stutt unnin enda hefur skipulagssvið borgarinnar ekki komið að henni og hún er ekki unnin á kostnað skattgreiðenda eins og tillagan um Miklubraut í stokk, sem kynnt var fyrir nokkrum vikum og virðist strax við fyrstu sýn ekki standast nokkur fagleg viðmið og gengur að hluta gegn meginmarkiðum AR2010-2030 sem átti að breyta Reykjavík úr bílaborg í borg fyrir fólk.

 

Víða eru götur fyrir seitlandi bifreiðaumferð með síkjunum og brýr fyrr gangandi og hjólandi.

Innigarðarnir eru víða líflegir og mikið notaðir í íbúðasamfélaginu.

Gott aðgengi er að sjónum þar sem síkin eru. Gaman væri að fá tengingu úr þessu hverfi „sjóleiðina“ inn á sjálft hafnarsvæð Reykjavíkurhafnar.

 

Að neðan er smáhluti hverfisins sem sýnir gatnakerfið.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 9.5.2018 - 13:09 - 9 ummæli

Flugvöllurinn – Borgarlínan – Miklabraut í stokk.

Flugvöllurinn – Borgarlínan – Miklabraut í stokk.

Mér sýnist lítið unnin stór mál vera áberandi í skipulagsumræðunni í aðdraganda kosninga. Þetta eru mál sem varða alla, en eru vanreifuð og ekki nægjanlega undirbúin til þess að leggja þau í mat kjósenda. Það er að nógu öðru að taka sem stendur okkur nær og eru skýr, fyrirliggjandi og aðkallandi.

Maður veltir fyrir sér hvort þessi stóru mál séu sett á dagskrá vegna þess að stjórnmálamenn treysta sér ekki í umræðu um aðkallandi minni mál sem þarf að taka á á næsta kjörtímabili eins og leik- og grunnskólamál, fjármál, skipulagsmál, húsnæðismál og jafnvel samgöngumál sem banka stöðugt upp á óháð Borgarlínunni.

Ég nefni Flugvöllinn, Borgarlínuna og Miklubraut í stokk sem eru mál sem ekki verða leyst á næsta kjörtímabili.

 

Flugvöllurinn.

Fólk er sammála því að flugvöllurinn er umhverfislega og skipulagslega óþægilegur þar sem hann er í Vatnsmýrinni og flestir vilja að hann fari hygg ég.

En vandinn er sá að hann er nauðsynlegur og ef hann verður lagður af þarf samkvæmt sérfræðingum að ráðast í að leggja nýjan flugvöll í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Þar eru men að tala um fjárfestingu upp á eina 140-200  milljarða. (Samkv. Áfangaskýrslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar frá því 2017). Þessir fjármunir mundu duga fyrir Borgarlínunni  og Nýjum Landspítala, Sundabraut, Milkubraut í stokk, leysa húsnæðismál flestra þeirra sem eru í húsnæðishraki og sjálfsagt margt fleira.  

Spurningi er, hvaðan þessir peningar eiga að koma? Líklegast og eðlilegast er að þeir komi að einhverjum hluta og sennilega mestum frá þeim sem vilja byggja í Vatnsmýrinni. Þá mun kostnaður við lögn nýs flugvallar leggjast að hluta ofan á byggingakostnað í Vatnsmýrinni sem menn álíta að verði mikill vegna jarðvegsins í mýrinni. Þetta mun hafa áhrif til mikillar hækkunnar fasteigna á öllu svæðinu.

Að mínu mati getur flugvöllurinn í Vatnsmýrinni varla verið kosningamál fyrr en búið er að svara spurningunni um hvert eigi að flytja hann og hvaðan peningarnir til að byggja nýjan flugvöll eiga að koma.

Myndin að ofan er af verðlaunatillögu vegna byggðar í Vatnsmýri.

 

Borgarlínan.

Ég held að flestir sem kynnt hafa sér almannaflutninga sjái að hugmyndin um Borgarlínu er skynsamleg og hefði þurft að koma fram miklu fyrr.

Eftir því sem ég best veit kom hún fyrst formlega fram fyrir fjórum árum í AR2010-2030 þegar Reykjavík var breytt úr bílaborg í borg fyrir fólk. Í skipulaginu var lögð fram hugmynd um Borgarlínu sem ganga átti frá Vesturbugt austur að Ártúnshöfða. Það er svona 6-7 km leið sem væri líklega á færi borgarsjóðs að standa undir.

Borgarlínan í því umfangi sem kynnt hefur verið er vanreifuð og ekki tilbúin til þess að láta kjósa um. Þetta á alls ekki að vera kosningamál. Þessi hugmynd er þess eðlis að hana þarf að vinna af víðsýni og horfa til langrar framtíðar. Byrja á að taka frá svæði fyrir línuna og koma henni svo upp þegar þörf er fyrir hana og rektrargrundvöllur er tryggður.

Borgarlínan er í undirbúningi og á góðri siglingu en er á engan hátt tilbúinm til þess að gera hana að kosningamáli.

Ég nefni bara kostnaðinn og rekstrargrundvöllinn sem mér sýnist vera lítið unnið. Talað er um að kílómetirinn muni kosta rúmlega milljarð sem er ótrúlega lág upphæð ef miðað er við svipaðar framkvæmdir erlendis. Borgarskipulaginu þarf líka að breyta til þess að jafna farþegagrunnin í báðar eða allar áttir og treysta þannig farþegagrunninn.

Það er vissulega margs að gæta áður en Borgarlínan verður lögð í mat kjósenda í því umfangi sem nú er verið að kynna. Eins og staðan er nú er varla hægt að hafna henni eða styðja þó sjálfsagt sé að skoða málið og gera ráð fyrir henni þegar fram í sækir, styðja hana en útiloka ekki.

Myndin að ofan er af sérlega fallegri borgarlínu i Grenoble i Frakklandi.

Miklabraut í stokk.

Miklabraut í stokk er dæmigert upphlaup í hita baráttunnar í aðdraganda kosninga. Stokkurinn var tekinn út af aðalskipulagsuppdrættinum fyrir 4 árum þegar borginni var breytt úr bílaborg í borg fyrir fólk.  Nú er stokkurinn orðinn eitt helsta baráttumál í borgarstjórnarkosningunum. Málið virðist fullkomlega vanreifað og á engan hátt tilbúið til þess að kjósendur geti tekið upplýsta ákvörðun um málið.

Spurningar á borð við hvert eigi að beina umferðini í þau 6-8 ár sem á framkvæmdum stendur. Samkvæmt upplýsingum sem komu fram í morgunútvarpi RUV fyrir skömmu er áætlað að göngin verði 1.700 metrar að lengd og 20 metrar á breidd og það þurfi að grafa um 10 metra niður í jörðina vegna framkvæmdanna. Ef þetta er svona þarf líklega að fjarlægja 510.000 rúmmetra frá svæðinu og 170.000 rúmmetra til baka. Þetta eru nokkur tugir þúsund bílfarmar af stærstu gerð. 

Gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar verða í uppnámi í áraraðir. Gatnamót Snorrabrautar, Hringbrautar, Bústaðavegar og Miklubrautar verða í uppnámi ef marka má fyruirhugaðar áætlanir. Svo er það aðgengi að Landspítalanum sem verður “lífshættulegt” svo maður noti þekkt tungutak í þeirri umræðu.

Líklegt er að nauðsynlegt verði að setja Öskjuhlíðargöng og Holtsgöng aftur inn  aðalskipulagið og grafa þau áður en ráðist verður í þessa framkvæmd og gera borgina þannig aftur að bílaborg.

Í fryriliggjandi á ætlunum er gert ráð fyrir 66.000 fermetrum af verslun og þjónustu á jarðhæð borgargötunnar sem þarna á að vera. Er þörf fyrir svona mikið af þessari gerð húsnæðis til viðbótar því sem er í undirbúningi annarsstaðar? Ég nefni við Hafnartorg, Suðurlansbraut í Laugardal, Skeifu, Kringlu og víðar. Ég held ekki. Svo ber að hafa í huga að þörf fyrir svona húsnæði á hvern íbúa mun líklega fara hratt minnkandi á komandi árum. Fólk er þegar farið að kaupa í matinn í netverslunim svo maður nefni ekki ýmislegt annað.

Miklabraut er þriðja dæmið sem tekið er um framkvæmdir og áætlanir sem eru enn á því stigi að það er ekki hægt að ætlast til þess að kjósendur geti myndað sér skoðun á málinu og tekið afstöðu. Það má samt ekki skilja mig svo að ég  sé mótfallin því að gera Miklubraut að vistlegri borgargötu. Þvert á móti. Ég held hinsvegar að það þurfi að vinna málið meira áður en lengra er haldið og þetta gert að kosningamáli.

Myndin að ofan er af nýrri tillögu umMiklubraut í stokk.

+++

Af nógu öðru er að taka.

Það er af nægum öðrum aðkallandi álitamálum að taka og gera að kosningamáli. Ég nefni málefni leik- og grunnskóla, fjármál, skipulagsmál, húsnæðismál og jafnvel samgöngumál að hluta. Mál sem má og þarf að leysa á næsta kjörtímabili.

Svo eru það auðvitað öll gömlu kosningaloforðin frá síðustu kosningum sem af ýmsum ástæðum ekki tókst að efna á síðasta kjörtímabili.

Leyfum sérfræðingum að vinna sína vinnu við stóru málin og kjósendum að fylgjast með framvindunni þar til lendingu er náð. Ekki leggja réttinn hálf eldaðan eða hráan á borð kjósenda. Ekkert af þeim stórmálum sem að ofan eru nefnd er komið á það stig að t.a.m. ég geti tekið upplýsta ákvörðun um þau á grunvelli þeirra upplýsinga sem fyrir liggja.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 6.5.2018 - 18:04 - 11 ummæli

Niðurrif í Reykjavík – Þétting byggðar

„Ert þú ekki mikið fyrir nútíma arkitektúr?“ spurði einn áhrifamesti maður skipulagsmála Reykjavíkur fyrir helgi þegar ég lýsti áhyggjum mínum af gríðarlega miklu niðurrifi húsa í Reykjavík innan Hringbrautar.

Þessi spurning kom mér mjög á óvart og lauk samtalinu sem hafði verið ágætt þar sem við töluðum um Borgarlínuna og þéttingu byggðar þar sem við vorum mjög sammála í megindráttum. Honum fannst greinilega umhyggja mín fyrir sögunni og hinni sögulegu vídd væri merki um að ég væri andstæðingur nútíma byggingalistar.

Skrýtið.

Mér fannst líka að hann skildi ekki alveg það sem stendur í AR2010-2030 um nýbyggingar í eldri hverfum. Að minnstakosti ekki eins og ég skil það.

Ég svaraði því til að ég væri auðvitað ekki á móti nútímaarkitektur en ég vildi helst ekki að gamlar byggingar væru látnar vikja fyrir nýjum. Það ætti að þétta byggðina með nýjum húsum sem væru viðbyggingar við gömlu húsin eða væru byggð á auðum og vannýttum lóðum þannig að þau féllu að umhverfinu eins og skilgreint er í Aðalskipulaginu. Þetta verklag þekkir maður vel erlendisfrá.

Í aðalskipulaginu AR2010-2030 stendur nýjar byggingar skuli lagaðar að „einkennum byggðarinnar þannig að þær verði til bóta fyrir umhverfið og sagt að hér sé átt við einkenni grunnbyggðarmynsturs, hæð og hlutföll og eftir atvikum stíl.“ Þar er líka lögð sérstök áhersla á að virða einkenni Reykjavíkur innan Hringbrautar með lágreista byggð og að ekki sé „heimilt að reisa hærri byggingar en 5 hæðir.“ Austurhöfn og Skúlagötuskipulagið er samt utan þessarra marka. Þetta er ekki hægt að túlka sem svo að byggja eigi gamaldags hús í gömlu Reykjavík. Hús sem falla að umhverfi sínu geta vel verið mjög nútímaleg.

Manni finnst að mörg ákvæði í þessu ágæta aðalskipulagi hafi gleymst í öllum látunum. Stjórnmálamennirnir og ráðgjafar þeirra virðast vera að flýta sér svo mikið að þeir hafa tapað áttum eða gleymt sér.

+++

Það er almenn sátt meðal borgarbúa um þéttingu byggðar en menn deila um aðferðina og hraðann. Oft virðist bera á vissu hugsunarleysi í önnum dagsins.

Borgarbúar vita að þétting byggðar eykur lífsgæðin í borginni. Þéttleiki styður við blómlega þjónustukjarna, líflegri borgarhluta og almenningssamgöngur – því verslun og þjónusta þarfnast fólksfjölda.

En ég held að þeir hafi ekki skilið hugmyndina þannig að það ætti að rífa gömlu húsin og byggja ný, stærri og fyrirferðameiri í þeirra stað eins og raunin virðist vera.

Þeir vildu byggja á auðum og vannýttum reitum og milli þeirra húsa sem þegar standa og í samræmi við þau eins og kveðið er á um í AR2010-2030.

+++

Hjálagt eru myndir af 6 ágætum húsumog rústum þeirra sem hafa verið rifin innan Hringbrautar á síðustu 10 dögum eða svo. Það eru húsin Vitastígur 3. Skúlagata 28, Laugavegur 51, Laugavegur 95, Laugavegur 97 og Laugavegur 99. Sennilega hafa verið rifin hús undanfarin svona 2 ár sem telja má í tugum.  Líklegar hefur aldrei verið rifin eins mörg hús í Reykjavík en á síðustu tveim árum.

+++

Þetta niðurrif var að mestu óþarfi og endurspeglar virðingarleysi við aðalskipulagið, virðingaleysi við gengnar kynslóðir og virðingaleysi við komandi kynslóðir og er slæmur vitnisburður um hugarfar nútímans. Menn eru of mikið í framtíðinni og hugsa lítið um nútímann og fortíðina. Víðast eru áform um að í nýbyggingunum verði hótel. Allavega heyrist ekki neinn orðrómur um að á þessum stöðum muni verða íbúðir ætlaðar ungu fólki eða öðrum sem eru í húsnæðishraki.

+++

Efst er mynd af húsunum Vitastígur 3 og Skúlagata 28 sem nú hafa verið rifin. Þetta voru kannski ekki merkileg hús útaf fyrir sig en höfðu sterk tengsl við atvinnusöguna og þeim hefði átta að gefa framhaldslíf. Ég var í New York í vikunni sem leið og fór mikið um West Side þar sem mikið er um vöruskemmur og iðnaðarhúsnæði allskonar. Þar er mikið verið að byggja, einkum í Meatpacking District meðfram The High Line en lítið virðist vera rifið. Menn byggja ýmist umhverfis gömlu húsin eða ofan á þau. Þarna í New York virðast menn vera mjög hikandi við að rífa gömlu byggingarnar, heldur endurnýja þeir þau og gefa þeim nýtt hlutverk.

Laugavegur 99 á síðustu metrunum. Ekki veit ég hvað á að koma í staðinn. Teikningarnar af nýbyggingunni var ekki að finna á netinu þegar ég gáði að fyrr í dag en þarna mun vera gert ráð fyrir hóteli með rúmlega 90 herbergjum.

Laugavegur 95 og 97 eru rústir einar.

Hús Gunnars í Von að Laugavegi 55 var rifið í vikunni sem leið. Þar á að rísa hótelbygging sem er 5 hæðir að Laugavegi sem er hámark samkvæmt aðalskipulagi en húsið verður 6 hæðir að norðanverðu. Þarna mun 55 herbergja hótel opna á vormmánuðum 2019.

Vitastígur 3 er horfinn og það er langt komið með niðurrif Skúlagötu 28. Góðum húsum er þarna fórnað fyrir hvað?

 

 

 

Húsið sem kemur í stað húsanna Vitastígur 3 og Skúlagata 28 kemur til með að líta einhvern vegin svona út.  Áform eru um að í háhýsinu verði hótel.

Eins og öllum er ljóst brýtur þessi útfærsla aðalskipulag Reykjavíkur AR2010-2030 sem staðfest var 24. febrúar 2014,  fyrir aðeins 4 árum. Í fyrsta lagi eru húsin ekki lagaðar að einkennum byggðarinnar þannig að það verði til bóta fyrir umhverfið og í samræmi við einkenni grunnbyggðarmynsturs, hæð og hlutföll og eftir atvikum stíl eins og sagt er í AR2010-2030.  Í aðalskipulaginu  er líka lögð sérstök áhersla á að virða einkenni Reykjavíkur innan Hringbrautar með lágreistri byggð og að ekki sé heimilt að reisa hærri byggingar en 5 hæðir innan vissra marka. Þessi hús eru að mestu 7 hæðir og hæst einar 15-16 hæðir. Maður spyr sig af hverju menn lögðu á sig að breyta nýsamþykktu aðalskipulagi til þess að koma þessu fyrir. Sagt er að ástæðan hafi verið gamalt deiliskipulag sem heimiluðu mikið byggingamagn sem borgin treysti sér ekki til að breyta. Mín skoðun er sú að borgin átti skilyrðislaust að standa með AR2010-2030 og láta eigendur byggingaréttsins sækja málið fyrir dómstólum og ef það tapaðist opna á samninga um að bæta byggingaréttin með heimildum annarsstaðar á stað sem ekki braut aðalskipulagið. Mér dettur strax í hug lóðir við Kirkjusand. En borgin stóð ekki í lappirnar og gaf eftir með þessum árangri og því að AR2010-2030 missti trúverðugleika sinn.

 

 

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 3.5.2018 - 10:54 - 4 ummæli

Borgarhluti með mannlífi.

Borgarlandslagið og stóru atriðin í borgarskipulaginu á borð við Miklubraut í stokk, Borgarlínu, flugvöllurinn í Vatnsmýri, samgöngumál, staðsetning stofnanna og íbúðasvæða skipta miklu máli.

En dæmin sanna að litlu atriðin skipta oftast meira máli í daglegu lífi fólks. Á þetta hefur hinn heimsfrægi danski arkitekt Jan Gehl margsinnis bent á og skrifað áhrifamiklar bækur um efnið. Þetta eru bækur á borð við „Livet mellem husene“ og „Byer for mennesker“. Þetta kom líka fram á aðalskipulagi Reykjavíkur  AR2010-2030 þar sem áhersla var lögð á hverfaskipulag þar sem stefnt var að því að gera borgarhlutana sjálfbæra um alla þjónustu og atvinnutækifæri og hverfa frá „sóningu“ þar sem allt var aðskilið. Gera nærumhverfið skemmtilegra og manneskjulegra. Færa íbúana nær hvorum öðrum þannig að þeir þekki hvorn annan betur en bílana þeirra. Þessi markmið ásamt fleirum hafa setið á hakanum og ekki vakið verðskuldaða athygli. Verið í skugga stóru málanna sem fæst munu verða að veruleika í nákominni framtíð.

Hildur Björnsdóttir lögfræðingur og frambjóðandi til borgarstjósnar skrifaði fallega grein í Fráttablaðið fyrir stuttu þar sem hún fjallar um nærumhverfið. Hún skrifar þarna í takti við hugmyndir AR2010-2030 um sjálbær hverfi borgarinnar sem á margan hátt hefur ekki tekist að virkja.

Hildur leggur út frá Vesturbænum í hugleiðingu sinni og óskar eftir að það umhverfi sem hún lýsir verði raunveruleg í öllum hverfum borgarinnar. Dagur B. Eggertsson upplýsti á hverfisfundi í Neskirkju nýverið að hvergi í borginni færu fleiri ferða sinna fótgangandi en í Vesturbænum. Ástæðuna fyrir því er helst að finna í skipulaginu og staðsetningu þjónustunnar sem eykur mannlífið í borgarhlutanum og gerir hann öruggari og skemmtilegri.

Grein Hildar fer hér á eftir:

„Ilmurinn er lokkandi. Hann fyllir vitin og freistar. Dáleiðir íbúana í biðröðinni. Nýbakað brauð og dísætir snúðar. Skilvirk röðin er engum til ama. Þar mætist fólk og á samskipti. Einn gengur leiðar sinnar í eril kjörbúðar. Annar á stefnumót við kaffibolla. Þriðji sækir heimilis­prýði til blómasala. Börn með ísbráð í munnvikum þeysast um hverfið. Örugg og óhrædd. Fólk mætist. Fólk á samskipti.

Þetta er hverfið mitt. Vesturbærinn í Reykjavík. Sjálfbært hverfi með öfluga nærþjónustu. Þar skríður fólk úr híðinu. Hverfið verður hluti heimilisins. Fólk fórnar fermetrum fyrir líflegt nærsamfélag – enda smærri búsetukostir ráðandi í sjálfbærum hverfum. Þéttleiki styður við blómlega þjónustukjarna – því verslun og þjónusta þarfnast fólksfjölda.

Mörg hverfi Reykjavíkur eru einangruð. Byggðin dreifð og samgöngur erfiðar. Skipulag sem styður illa við verslun. Þjónusta illfær þeim fótgangandi. Hverfi sem skortir mannlíf.

Reykjavík þarf fleiri sjálfbær hverfi. Lifandi hverfi sem draga íbúa úr fylgsnum sínum. Eitt lítillátt kaffihús kemur einangruðum úr húsi. Það er mikilvægt – enda lífsnauðsyn mannlegra samskipta margsönnuð. Mikilvægi þess að draga úr einsemd og félagslegri einangrun. Þannig ætti forgrunnur alls skipulags – rauði þráður Reykjavíkur – að vera samskipti.

Borgarskipulag hefur áhrif á lífsgæði. Það er samofið lýðheilsu og fjölbreyttum félagslegum þáttum. Við þurfum hverfi sem styðja við samskipti ólíkra þjóðfélagshópa. Úr öllum þjóðfélagsþrepum. Ungra sem aldinna. Við þurfum hverfi þar sem fólk sækir verslun og þjónustu. Þar sem fólk mætist og þekkist. Hverfi sem ekki aðallega er gott að yfirgefa – heldur hverfi þar sem aðallega er gott að dvelja.

Ég vil Reykjavík sem býður frelsi og val. Höfuðborg í forystu um grænar og vistvænar lausnir. Fjölbreytta borg fyrir fjölbreytt fólk. Reykjavík sem mætir alls kyns þörfum. Sjálfbær hverfi með öflugri nærþjónustu. Borg sem dregur úr einsemd og félagslegri einangrun. Borgarskipulag sem stuðlar að samskiptum. Reykjavík sem bannar minna og leyfir meira – styður við framtakssemi og fagnar hugmyndaauðgi. Borg sem setur mannlíf í forgrunn. Reykjavík þar sem fólki líður vel“.

„Ilmurinn er lokkandi. Hann fyllir vitin og freistar. Dáleiðir íbúana í biðröðinni. Nýbakað brauð og dísætir snúðar. Skilvirk röðin er engum til ama. Þar mætist fólk og á samskipti“. Myndin er tekin í bakaríinu Brauð & Co við Hofsvallagötu.

„Einn á stefnumót við kaffibolla“ í kaffihúsi grenndarsamfélagsins. Þarna er alltaf fullt af fólki sem mælir sér mót eða hittist fyrir tilviljun. Þessi mynd var tekin í Kaffihúsi Vesturbæjar um klukkan 9 í morgun.

 

Veitingahúsið „Borðið“ við Ægissíðu nr. 123 er mikið aðdráttarafl og hefur aukið gæði borgarhlutans svo eftir er tekið.

„Annar gengur leiðar sinnar í eril hverfisverslunarinnar“ þar sem allt er til og hagkvæmara er að versla en í stórverslununum vegna þess að maður fer þangað gangandi. Svo kannast maður við flesta viðskiptavinina og hefur á tilfinningunni að afgreiðslufólkið þekki mann. Þegar verslað er í hverfisbúðinni er það um leið skemmtileg félagsleg athöfn.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 26.4.2018 - 10:07 - 10 ummæli

Reykjavik hringborgarskipulag –

Guðjón Erlendsson atkitekt sem starfar í London brást við síðasta pisli hér á blogginu sem fjallaði um borgarlandslagið í Reykjavík, bílaborgina og Borgarlínuna. En pistilinn skrifaði Trausti Valsson arkitekt og Dr. í slipulagsfræðum. Guðjón er vel að sér í efninu og hefur starfað í sínu fagi víða um lönd. Hann nam byggingarlist í Oxford og á hinum virta skóla AA í London þaðan sem hann útskrifaðist árið 1999. Hann hefur starfað víða um lönd, stundað kennslustörf bæði vestanhafs og austan ásamt því að vera virkur og skapandi í umræðunni.

Í athugasemd sinni við grein Trausta segir Guðjón m.a. að það sé vissulega hægt að gagnrýna Borgarlínuna en telur að gagnrýninni verði að fylgja einhver önnur lausn sem á þeim vanda sem hún á að leysa. Hann leggur hér fram hugmynd um Hringborg á höfuðborgarsvæðinu sem gæti breytt því í grundvallaratriðum í allt aðra og starfrænni borg án mikils tlkostnaðar miðað við þær hugmyndir sem nú eru uppi á borðum.Þetta er önnur framtíðarsýn en nú er unnið að og mynnir á Fingerplanhugmyndina í kaupmannahöfn, ó öðruvísi sé, en hún er meira en 70 ára gömul og heldur enn fullkomlega.

Guðjón segir, sem rétt er, að Reykjavíkurborg eigi við gömul skipulagsmisstök að glíma tengdum bifreiðastofnbrautum og Zoning (Aðskilnað atvinnutækifæra og búsetu t.a.m.) Reykjavík hafi verið skipulögð fyrir bíla en ekki fólk sem leiddi af sér eina útbreyddustu borg Evrópu með meðfylgjandi vanda innviðanna. Umferðahnútar og svifriksmengun eru af afleiðingar af þessu.

Hann er sammála um að breyta ætti öllum borgarhlutum í sjálfbæra byggð. Þar sýnist mér hann vera samstíga AR2010-2030. Grundvallar vandinn segir Guðjón felast í að höfuðborgarsvæðið skiptist í sjö sveitafélög sem eru í „samkeppni“ við hvert annað. Til að gera einhverjar raunverulegar breytingar, þarf í fyrsta lagi að sameina þessi sveitafélög og breyta höfuðborgarsvæðinu úr línulegri borg með Zoning í „Hringborg“. Maður finnur vissan skyldleika á þessari hugmynd og fingerplanen í Kaupmannahöfn sem er stóvirki hugmyndafræðilega séð.

Guðjón virðist fylgjandi Borgarlínunni en telur að mótspil hennar gæti verið að byggja ekki fleiri úthverfi, heldur mynda “hringborg” með tengingar yfir sundin til að snúa borginni yfir í náttúrulegt borgarskipulag. Helsta gagnrýnin á Borgarlínan segir Guðjón að hún gæti leitt til meiri útbreyðslu borgarinnar þar sem hún fylgir línuborgarstefnu gamla skipulagsins. Hringborg, eins og hann sér hana,  muni stemma stigu við þeirri þróun. Þetta er líklega rétt hjá Guðjóni.

Núverandi áætlanir um Borgarlínuna gengur út á að aðlaga hana borginni og helsta umferðamynstri eins og það er. Hér er hugmyndin að breyta megin eðli höfuðborgarsvæðisins með tilliti til umferðaskipulagsins eins og það gæti verið best.

Til þess að skýra þessar hugmyndir Guðjóns Þórs Erlendssonar arkitekt birtast hér nokkrar myndir sem hann hefur gefið leyfi fyrir.

+++

Ég mæli með að lesendur spili myndband Guðjóns og félaga efst í færslunni. Skoða má fleiri verk Guðjóns Þórs Erlendssonar á vefsíðu hans. www.thorarchitects.com

Myndin að ofan sýnir hvernig tengja má sveitarfélögin saman í eina starfræna heild með hringborginni.

Að ofan er ástandið eins og það er nú og áformað að verði áfram. Línuleg borg. Það er erfitt að koma upp hagkvæmum almenningssamgöngum á háu þjónustustigi í svona borg.

Hugmyndin er að loka hringnum og falla frá línuborginni og skapa hringborg eins og sýnt er á uppdrættinum að ofan. Þetta er allt annað og starfrænna umhverfi.

Hringborgin bætir tengingar innan svæðisins við miðborgina, atvinnusvæðin, ferðamannastaðina, menntastofnanir og sjúkrahúsin.

Hringleiðir almenningssamgangna telur Guðjón gefa möguleika á hraðari og tíðari þjónustu í báðar áttir. Þetta ásamt dreifingu atvinnu og þjónustu mun jafna umferðina hvort sem litið er til einkebílsins eða almenningsflutninga á borð við Borgarlínu.

Að ofan koma svo helstu hjólastígar.

Að ofan er kort sem sýnir aðalgötur, almenningssamgöngur, göngu og hjólastíga tvinnaða saman.

Að ofan er lögð fram hugmynd um megingöngustíga svæðisins sem þjóna eiga borgarbúum til útivistar.

Að ofan er mynd frá Guðjóni sem sýnir Borgarlínuna sem tekur mið af línulegu borgarskipulagi sem fer eftir núverandi aðalásum höfuðborgarsvæðisins eins og það hefur þróast undanfarna marga áratugi og er í samræmi við gildandi aðal- og svæðaskipulag. Guðjón opnar hér á umræðu nýja borgarmynd „Hringborgina“. Ef kort Guðjóns af aðalgatnakerfi höfuðborgarsvæðisins eins og það er í dag og eins og hugmyndin er að halda því  sét að það miðar við eitthvað hugmyndaleysi þar sem borgin hefur vaxið nánast stjórnlaust og án heildarsýnar. Borgarlínu áformin taka mið af þessu og verða því ekki gallalaus. Þarna eru sýnd göng undir Skæólavoörðuholt, Öskjuhlæíð og Kópavog endilangan. Til viðbótar er verið að vinna að því að setja Miklubraut í tæplega tveggjakílómetra stokk. Miklu af þessu mætti sleppa með Hringborgarskipulaginu um leið og grundvöllur yrði styrktur fyrir nýja borgarlínu og umferðarálag á gatnakerfinu mundi jafnast verulega.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 22.4.2018 - 18:48 - 6 ummæli

Borgarlína: leiðinleg línubyggð

Hér kemur grein eftir Trausta Valsson sem er doktor í skipulagsfræðum. Greinin  birtist í Morgunblaðinu 14. apríl 2018 og er endurbirt hér með leyfi höfundar. Yfirskriftin og ljósmyndirnar eru allar komnar frá Trausta og fylgdu Morgunblaðsgreininni að þeirri efstu undanskilinni en hún er sett inn af síðuhaldara.

++++++

Mikið hefur verið kvartað undan því að höfuðborgarsvæðið hafi ekki eignast miðbæ. Orsakirnar eru m.a. að svæðið skiptist í mörg sveitarfélög, sem reynt hafa að byggja upp sína „miðbæi“.

Reykjavík er svo óheppin að hinn gamli miðbær er mjög vestanlega á nesinu, þannig að hann gat einungis vaxið sem lína inn eftir Laugavegi, og síðan Suðurlandsbraut. Eftir að Hlemmi er náð minnir byggðin lítið á miðbæjarsvæði, er sundurslitin og lítt ánægjuleg.

Vegna þess að nýju hverfin í Reykjavík byggðust langt frá miðbænum, varð að byggja þar miðkjarna; Glæsibæ og Mjódd. Í þessum tilfellum tókst svo illa til að „mið“kjarnarnir voru staðsettir í útjaðri hverfanna.

Þjónusta hefur aukist í seinni tíð. Vegna þess hafa miðbæir víða styrkst. Í Reykjavík hefur þetta ekki verið nýtt til að skapa einn stóran, öflugan miðbæ. Í stað þess er þessari starfsemi dreift út um alla borg. Líklega hefði besta svæðið fyrir nýjan miðbæ verið við Elliðavog og á Ártúnshöfða, en við vogana er núna búið að skipuleggja íbúðarbyggð.

Dreyfing byggðar á sér gamla rót

Stór náttúrusvæði dreifa byggðinni og skilja að byggðareiningar. Dæmi: Úlfarsfell skilur Mosfellsbæ frá Reykjavík, og Garðahraun skilur Garðabæ og Hafnarfjörð að.

Einhverjir snillingar fundu það út fyrir þremur árum, að ekki mætti taka hraunasvæði undir vegi og byggð. Samt hefur Hafnarfjörður nær allur verið byggður á hraunum, og er fyrir bragðið svo sérstakur að hann mætti setja á heimsminjaskrá.

Önnur orsök skipulagsvandamálanna í dag, er erlend skipulagsstefna; „sóning“. Hún varð til í skítugum iðnborgum og íbúarnir voru á kafi í menguninni. Ráðið við vandanum var að skipta borgum í „sónur“, annars vegar fyrir iðnað og svo – fjarri þeim – íbúðarsónur. Þessi stefna var tekin upp hérna, og urðu þá til hin leiðinlegu svefnhverfi. Ein vondu áhrifunum af svona skipulagi eru svo líka að atvinnustaðir voru fáir, og þarf því að leggja dýrar stofnbrautir til atvinnusvæðanna, sem eru aðallega í vesturhluta Reykjavíkur.

Hin rétta aðferð í skipulagi – til lagfæra þennan vanda – er að auka fjölda atvinnutækifæra og þjónustu í svefnhverfunum. Við það minnkar umferðin á stofnbrautunum. Einmitt þetta hefur verið gert í hinum gömlu „svefnhverfum Reykjavíkur“, Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði. Niðurstaðan er sú að umferð, t.d. á Hafnarfjarðarvegi, hefur furðu lítið aukist, þrátt fyrir mjög aukinn íbúafjölda. Um leið hefur flest þjónusta færst nær íbúunum.

Í Reykjavík hefur hinsvegar umbótum á úthverfunum verið lítið sinnt. Þau eru enn, að mestu, sömu leiðinlegu svefnhverfin.

Reykjavík býr af ýmsum ástæðum yfir miklum fjölda stofnana, sem fluttar hafa verið til, innan borgarinnar í seinni tíð, … en hvert? Ekki í austur, sem komið hefði á meira jafnvægi atvinnu og íbúða í borgarmyndinni. Nei! Stórar stofnanir hafa verið fluttar til vesturs, þannig að nú verða enn fleirri að fara eftir Miklubrautinni til vinnu… og á enn eftir að versna.

Dæmi um stofnanir sem er verið að flytja til vesturs, eru Kennaraháskólinn frá Stakkahlíð til Háskólasvæðisins. Háskólinn í Reykjavík var fluttur frá Kringlu vestur fyrir Öskjuhlíðina og Tækniskólinn gamli, sem var á Ártúnshöfða, hefur líka verið fluttur þangað. Loks stendur til að flytja Fossvogsspítala á Landspítalasvæðið. Samtals tengjast þessum stofnunum um 30 þúsund störf, sem leiða til mikils umferðarálags. Önnur ástæða mikils umferðarálags er bygging mikils fjölda hótela í vesturhluta Reykjavíkur.

Ef pólitíkusar og skipulagsmenn hefðu stöðvað uppbyggingu atvinnustaða í vesturhluta Reykjavíkur – og beint uppbyggingunni til austurs – væru umferðarvandamálin á Miklubraut og Hringbraut lítil.

Ofálag á stofnbrautum – Hvað á að gera?

Nú vaknar spurningin: Hvað eigum við að gera? Settar hafa verið fram ýmsar tillögur, svo sem göng undir Öskjuhlíð og Kópavogsháls, sem mundu kosta miljarðatugi. Mönnum líst heldur illa á það. Núna er svo komin fram ný tilaga um 70 miljarða borgarlínu, sem þó er líklegt er að fólk vilji ekki nota í þeim mæli sem reksturinn krefst, nema með þvingunaraðgerðum.

Undirritaður telur að leggja eigi ofangreind áform á hilluna og hefja í staðinn, mikinn flutning stofnana og atvinnutækifæra til austursvæðanna. Kannski er réttast að búa til nýjan stjórnsýslu- og menningarmiðbæ í Elliðaárdal. Þar er mjög fagurt og stórt svæði, sem liggur meðfram Rafstöðinni, og á milli reiðvallarins og Breiðholts III.

Reykjavík gæti byrjað á þessum nýja miðbæ með að reisa þarna Ráðhús úthverfanna. Hún gæti líka t.d. flutt Listasafnið úr Hafnarhúsinu, sem er illa aðgengilegt vegna umferðarhnúta og skorts á bílastæðum.

Ríkið gæti hjálpað til við að byggja Dalbæ með að byggja yfir einhver ráðuneyti og stofnanir á svæðinu. Þarna mætti líka koma fyrir þjónustu og íbúðabyggð, þannig að þessi nýji miðbær fylltist lífi.

Við verðum að horfast í augu við það að við erum búin að missa af hinum gamla, fallega miðbæ, bæði vegna þess hve hann er langt í burtu frá fólkinu og umferðarlega aflokaður, og eins vegna ljóts módernisma, túrisma og ofþéttingar.

Hvað með línubyggð meðfram borgarlínu?

Lítum nú nánar á skipulagsafleiðingar borgarlínunnar. Hluti af tillögunum um hana fellst í því að meðfram línunum komi 400 m þéttbýlisbelti á hvora hönd. Á þessi belti á að koma nær öll byggðaaukning til ársins 2040 og mundu þá búa þar álíka fólksfjöldi og í Kópavogi og Garðabæ.

Þessi hugmynd um þétt byggðarsvæði upp við borgarlínurnar, hefur þann tilgang að stutt sé í hinn nýja strætó, en með að láta fólk búa upp við línurnar, aukast líkurnar á að fólk vilji nota hann.

Það er alþekkt að skipulagsmenn teikna alskonar þjónustu á uppdrætti sína, þjónustu sem oft kemur alls ekki, eins og var t.d. í Bryggjuhverfinu við Grafarvog. Sama núna: Skipuleggjendur borgarlínu gera ráð fyrir mikilli þjónustustarfsemi á hinum þéttu „þróunarsvæðum“… sem er alger veruleikafirring. Sagt er jafnvel, að þarna meðfram þessum 57 km borgarlínum eigi að myndast „þorpsstemning“!

Skoðum nú hvernig þetta gæti litið út við Hafnarfjarðarveg: Borgarlínan og biðstöðvar hennar væru í miðjunni. Að biðstöðvunum lægju göngustígar, þvert á umferðaræðarnar, sem tefði umferðina. Húsin stæðu nokkuð þétt upp að Hafnarfjarðarveginum, og ef gluggi er opnaður, bærist ryk og hávaði inn.

Fljótlega kæmi því að því að íbúarnir krefðust þess að dregið yrði úr umferðinni og umferðarhraðanum. Væri Hafnarfjarðarvegur því fljótlega úr sögunni sem ásættanleg umferðartenging á milli Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Reykjavíkur.

Svona línubyggð byði vissulega upp á nálægð við borgarlínuna en mundi, að áliti undirritaðs, verða dauð, ljót og leiðinleg. Þessi byggð mundi að auki stinga í stúf við byggðarmynstur sveitarfélaganna.

Stjórnmálamenn ættu frekar að gefa fólki kost á að búa þar sem fallegt er, t.d. við strendur, í austurenda Viðeyjar og við vötnin ofan við byggðina. Við eigum að láta annað móta byggðina en það eitt að stutt sé í borgarlínustrætó… sem kemur svo kannski aldrei.

 

Þéttbýlisbelti 400 metra þéttbýlisbelti á að koma til beggja handa við borgarlínurnar. Á þeim á nær öll framtíðarbyggð á höfuðborgarsvæðinu til 2040 að rísa, alls um 40 til 50 þúsund manna byggð, til að sjá borgarlínunni fyrir nægilegum fjölda farþega. Sumstaðar er þéttleikinn þegar nógu mikill, en sumstaðar munu byggingaraðilar vilja kaupa upp gamlar eignir og reisa þá þéttu byggð sem borgarlínuskipulagið mun gefa leyfi fyrir.

Hentugt íbúðasvæði Stórt óbyggt svæðið í Elliðaárdal, norðan Rafstöðvarinnar. Í vinstra horninu er Toppstöðin. Opinberar byggingar tækju sig vel út í hallanum. Nálægðin við útivistarsvæðið í dalnum er stórkostleg.

 

Skuggamyndun Með þéttingu byggðar í Reykjavík er að koma í ljós að hin þétta byggð hindrar aðgengi sólarljóss, skapar skugga og lokar fyrir útsýni. Myndin er frá Lindargötu í Skuggahverfinu í Reykjavík. Heitið Skuggahverfi er nú aftur að verða að réttnefni.

Morgunblaðið/Eggert

++++

Þetta er grein sem birtist í Morgunblaðinu 14. apríl 2018 og er endurbirt hér með leyfi höfundar sem  er prófessor emerítus í skipulagi við HÍ. Trausti lauk masterprófi (Dipl.Ing.) fráTechnische Universitat i Berlin 1973. Hann stundaði framhaldsnám í Berkley í Californíu og lauk þaðan doktorsprófi í skipulagsfræðum 1987. Eftir hann liggja fjölmargar bækur og greinar um efnið þar sem hann hefur lagt fram tilgátur í skipulagsmálum sem vakið hafa gríðarlega mikla athygli.

+++

Efst í færslunni ef ljósmynd sem sýnir fjölbreytileika bjartrar byggðarinnar í Reykjavík. Þessi mynd fylgdi ekki grein Trausta í Morgunblaðinu en það gerðu aðrar myndir sem fylgja þessari færslu.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 20.4.2018 - 10:20 - 6 ummæli

Nýtt sjúkrahús frá grunni?

 

Nýtt sjúkrahús frá grunni?

 „ Sá kostur að byggja nýtt sjúkrahús frá grunni hefur aldrei verið skoðaður og greindur af heilbrigðisyfirvöldum.

Stjórnendur Landspítalans sem og margir aðrir hafa í hartnær 10 ár haldið því fram að uppbygging spítalans við Hringbraut hafi alltaf haft vinningin í staðarvalsgreiningum. Þessu hefur verið haldið að þingmönnum, ráðherrum og í almenningi.

Staðreyndin er sú að þetta er ekki rétt.

Á þessum röngu fullyrðingum virðast stjórnmálamenn hafa byggt afstöðu sína.

Strax eftir aldamót, fyrir 18 árum, var sérfræðingum falið það afmarkaða verkefni, að meta við hvaða af þrem núverandi sjúkrahúsum væri heppilegast að byggja nýan Landspítala til mjög langrar framtíðar. Niðurstaða sérfræðinganna var ekki einróma eins og haldið hefur verið fram. Sumir vildu byggja við Hringbraut og aðrir við Fossvog. Á sama tíma komu sterk rök frá sérfræðingum um að heppilegast væri að byggja nýtt sjúkrahús frá grunni. Undir það tók meðal annarra Læknaráð Landspítalans sem  í greinargerð á árinu 2004 óskaði eftir því að staðarvalið yrði endurskoðað og taldi best að byggja nýtt sjúkrahús frá grunni. Hjúkrunarráð Landspítalans var á sömu skoðun og vildi einnig að nýtt sjúkrahús yrði byggt frá grunni. Erlendu ráðgjafarnir EMENTOR töldu árið 2001 að best væri að byggja við í Fossvogi ef ekki væri vilji til að byggja nýtt sjúkrahús frá grunni sem væri besti kosturinn.

Sá kostur kostur að byggja nýtt sjúkrahús frá grunni, hefur aldrei verið skoðaður og greindur af heilbrigðisyfirvöldum.

Á haustdögum 2009 komu fram vel rökstuddar óskir um að staðarvalsgreining yrði gerð þar sem uppbygging við Hringbraut og Fossvog yrði borin saman við byggingu nýs sjúkrahúss frá grunni. Því var hafnað á þeirri forsendu að það væri orðið of seint.

Þegar nýtt aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 var samþykkt árið 2013, jukust kröfurnar um endurmat á staðsetningu þjóðarsjúkrahússins. Þessar kröfur komu fram m.a. vegna þess að skipulagslegt umhverfi gjörbreyttist og aðgengi að spítalanum við Hringbraut fullnægði ekki lengur forsendum staðarvalsins. Grundvallarforsendur höfðu breyst.

En þeim óskum var hafnað með þeim rökum að engar umferðarlegar forsendur hafi breyst frá gamla aðalskipulaginu AR2001-2024. En ef kortin eru skoðuð þá blasir við að fjögur bifreiðagöng hafa verið felld úr skipulaginu innan borgarmarkanna sem öll stefndu í átt að spítalanum við Hringbraut. Það eru Holtsgöng, Öskjuhlíðargöng, göng undir Kópavog úr Mjódd auk Miklubrautar í stokk.  Alls um 6,4 km á lengd. Þar fyrir utan voru felld úr skipulagi 8 mislæg gatnamót og Reykjavíkurflugvöllur þurrkaður  út.

Þrátt fyrir þetta halda menn því fram að ekkert hafi breyst varðandi aðgengi að sjúkrahúsinu. Það stenst ekki.

Það er skylda stjórnvalda áður en lengra er haldið að axla ábyrgð og láta fara fram greiningu á hvort betra og hagkvæmara sé að halda uppbyggingu við Hringbraut áfram eða byggja nýjan spítala á nýjum stað. Öðruvísi næst ekki nauðsynleg sátt og sannfæring með þjóðinnni um þetta mikilvæga mál.

Ég er sannfærður um að nýr spítali á nýjum stað sé skynsamlegur kostur. Hann mun verða betri, ódýrari og öruggari en bútasaumurinn við Hringbraut. Hann mun losa sjúklinga undan miklum óþægindum á byggingatímanum og þeim tíma sem tekur að endurnýja gömlu húsin. Hann mun verða aðgengilegri fyrir sjúklinga og aðstandendur og verða eftirsóttari vinnustaður fyrir lækna og hjúkrunarfólk en gamli staðurinn við Hringbraut getur nokkurntíma orðið.

Ein tilgáta fyrir nýtt sjúkrahús frá grunni gæti verið svæðið við Keldur sem er ekki aðeins landfræðilega nálægt miðju höfuðborgarsvæðisins heldur liggja einnig allar helstu stofnbrautir þarna um og helstu umferðarleiðir almenningssamgangna. Tengingin til Suðurlands og Vesturlands og suður á Reykjanes er augljós. Þarna er líka hægt að koma fyrir kjöraðstæðum fyrir þyrluflug og ásættanlegri tengingu að flugvöllunum í Keflavík og í Hvassahrauni ef sú lausn verður ofaná.  Það getur ekki verið mönnum ofviða að greina þessa tilgátu og e.t.v. aðrar með faglegum hætti og bera saman við fyrirhugaðar áætlanir við Hringbraut.

(þessi grein birtist fyrst í Morgunblaðinu sumardaginn fyrsta 19.04.2018)

++++

Að neðan er mynd af fyrirhuguðu sjúkrahússkomplexi við Hringbraut sem engar eða litlar líkur eru á að nokkurntíma muni klárast. Þessi mynd birtist ekki með grein minni í blaðinu í gær.

+++

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 12.4.2018 - 18:08 - 4 ummæli

Hótel í Lækjargötu – aftur

Í morgun kynnti Egill Helgason á bloggi sínu nýsamþykktar teikningar af húsum í Lækjargötunni milli Skólabrúar og Vonarstrætis og minnir á að þarna hafði áður verið kynnt tillaga sem var afar illa tekið.

Nú hefur Björn Skaftason og starfsfólk hans hjá Atelier arkitektum gert nýjar tillögur af sömu húsaröð sem sýna vissan skilning á staðaranda kvosarinnar og haft skilgreininguna hans frá 1986 að leiðarljósi.

Í greiningu á staðaranda Kvosarinnar frá 1986 skrifuðu höfundarnir  Dagný Helgadóttir og Guðni Pálson að hús skyldu reituð niður þannig að sama áferð og útlit yrðu hvergi lengri en 10-15 metrar i götumyndinni. Hæðir yrðu stallaðar frá 2-3 hæðum upp í 6-7 hæðir með hallandi þökum og með kvistum.  Þessu fylgdu fallegar skýringamyndir og líkan af öllu svæðinu í mælikvarðanum 1:200. Þau lögðu áherslu á heildarmynd Kvosarinnar.  Þarna var staðfest í deiliskipulagi stefna um staðaranda kvosarinnar hvað varðar útlit og áferð húsanna í Kvosinni. Það var almenn sátt um þessa greiningu Dagnýjar og Guðna.

Þetta er að því er virðist gleymdur texti. Ef horft er á þau hús sem verið er að byggja við svokallað Hafnartorg er augljóst að höfundar bygginganna þar hafa virt greiningu þeirra Guðna og Dagnýar að vetthugi. Eða kannski ekki vitað af henni.  Líklegra er að  þeir hafi vitað af þessari vönduðu vinnu þeirra Dagnýjar og Guðna en ákveðið að fara ekki eftir henni og hanna byggingar sem eru algerlega lausar við öll tengsl við það sem fyrir er og þá miðborg og þann staðaranda sem allir dást að og vilja halda við.

Eins og oft hefur verið nefnt hér áður þá þarf ekki mikið til svo hús falli vel að umhverfi sínu. Í tilfelli Kvosarinnar eru það aðallega fjögur atriði sem öll voru tíundið í Kvosarskipulaginu frá 1986. Það er að húsahliðar séu ekki langar, kannski milli 10 og 15 metrar. Að áferð útveggja verið með mismunandi hætti á húshlutunum. Að húsahæðirnar stallist og loks að gluggar séu í háformati og virki sem göt í veggjunum og að arkitektar forðist gluggabönd, glugga í lágformati og heila gluggaveggi  (Curtain wall)

Flóknara er það ekki.

Framhjá öllum þessum atriðum var gengið við Hafnartorg og gleðin var svo mikil í Umhverfis- og skipðulagsráði að mér er sagt að þar hafi verið klappað þegar hugmyndirnar voru fyrst kynntar.

Í mínum huga ætti Lækjargatan og Kalkofnsvegur arkitekttóniskt séð að vera sama gatan. En svo er ekki. Hún skiptir algerlega um öll einkenni (karakter) þar sem Hafnarstræti/Tryggvagata mætir Kalkofnsvegi. Líklega munu margir telja það arkitektónisk og/eða skipðulagsleg mistök.

Helstu gallana varðandi ásýnd Hafnartorgs má rekja til deiliskipulagsins sem var afskaplega lítið unnið. Ég nefni bara gamla grjótgarðinn sem kom öllum á óvart en þeir sem báru ábyrgð á deiliskipulaginu áttu að vita af. Svo vantaði algerlega greiningu á útliti og áferð nýbygginganna. Ekkert var gert í deiliskipulaginu til þess að mæta fyrirhugaðri Borgarlínu, Hvorki leiðum hennar né stoppistöð sem verður væntanlega með þeim fjölförnustu í öllu kerfinu.

Í fljótu bragði lítur tillaga Ateliere arkitekta vel út og eru til mikilla bóta þó byggingarnar hefðu mátt vera einni hæð lægri eða jafnvel stallast meira og gott hefði batnað ef meira hefði verið um hallandi þök og kvisti eins og greiningin frá 1986 lagði áherslu á. Myndin efst í færslunni sýna þetta vel.

Hér í færslunni eru birtar nokkrar myndir af fyrirhuguðum byggingum sem samþykktar hafa verið í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur. Ég vek sérstaklega athygli á neðstu myndinni sem sýnir andrúm í bakgarði hótelsins sem þarna mun rísa.

 

 

 

 

 

 

 

Hér í blálokin kemur svo mynd af Lækjargötu fyrri tíma þar sem gamli Iðnaðarbankinn er. En hann var fimm hæða eins ig fyrirhuguð hótelbygging.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 6.4.2018 - 16:33 - 5 ummæli

Plötubúðir

Í allri alþjóðavæðingunn er nánast búið að taka frá ferðamanninum ánægjuna af að versla.

Verslanirnar og vörurnar sem eru í boði eru nánast þær sömu hvert sem farið er. Þannig var það líka með hljómplötuverslanirnar. Þær voru allar eins og seldu sömu tónlistina.

Þetta hefur breyst.

Plötubúðir, eins og við þekktum þær, hafa nánast horfið og þær sem eftir eru öðruvísi en þær sem fyrir voru. Þær eru orðnar svo fjölbreytilegar og skemmtilegar að þær eru orðnar umfjöllunarefni í ferðahandbókum. Þær draga að ferðamenn sem eru að leita að sérstöðunni.

Ég rakst á bók í Bókhlöðu Stúdenta áðan sem heitir „RECORD STORES“ og er eftir Bernd Jonkman.  Bókin fjallar um plötubúðir í 33 borgum víðsvegar um heim.  Þar er fjallað um nokkrar í Reykjavík.  Búðirnar bera allar með sér sín einkenni sem spretta úr umhverfinu. Þær eru öðruvísi í New York en París en hafa samt einhvern samnefnara, plöturnar og svoldið draslaralegt umhverfi.

Það er gaman að sérstöðunni og það er gaman koma í svona verslanir sem eru orðnar viss þáttur í ferðamannaþjónustunni hvarvetna.

Hótelkeðjur, verslanakeðjur, merkjabúðir og veitingahúsasakeðjur sem þekkja engin landamæri er ekki neitt sem maður fer langan veg til þess að sækja.

+++++

Hér að neðan koma svo nokkrar myndir úr bókinni sem sýna dæmi um íslenskar hljómplötuverslanir.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn