Mánudagur 23.1.2012 - 09:09 - 13 ummæli

Verndunarsinnar v.s. Uppbyggingarsinnar?

Allar götur síðan nokkrir aðgerðarsinnar tóku sig til, fyrir um 40 árum, og máluðu niðurnýdd hús í Bakarabrekkunni að utan, hefur verið stöðug og lífleg umræða um húsavernd og staðaranda Reykjavíkur. Í framhaldinu voru Torfusamtökin stofnuð.

Helstu gallarnir á umræðunni hafa verið hve þröngur hópur hefur tekið þátt í henni, dauf eyru þeirra sem á skipulagsvaldinu halda og sú tilhneiging  að skipa þáttakendum í tvær andstæðar fylkingar; Þeim sem eru fylgjandi húsverndum og þeim sem eru á móti henni. 

Nýlega sá ég að fylkingunum hafði verið gefið nöfn. Önnur var var kölluð fylking  “verndunarsinna” hin og fylking  “uppbyggingarsinna”.  Svo mátti skilja að þetta væru andstæðar fylkingar sem tækjust á.

En sem betur fer er þetta ekki svona.

Verndun og uppbygging eru ekki andstæður. Þvert á móti

Verndunarsinnar eru miklir uppyggingarsinnar eins og dæmin sanna og flestir uppbyggingarsinnar eru einnig verndunarsinnar í hjarta sínu.

Í umræðunni er  spurt hvort við viljum að miðborgin sé „safn eða lifandi miðbær“, eða hvort við viljum frekar „leiktjöld en raunveruleg hús“?  

Við þurfum að forðast svona  “annaðhvort eða” umræðu í þessu samhengi.

Þetta er ekki spurning um annaðhvort “verndun” eða “uppbyggingu”, heldur “bæði og” þar sem sagan og andi bæjarins gera hann lifandi með raunverulegu borgarlífi  í gömlum og nýjum byggingum sem allar sverja sig að staðarandanum.

Jafnvel hörðustu verndunarsinnar vilja ekki sjá nein leiktjöld og því síður að miðborgin sé einhverskonar safn.

Helsta ógnum við Reykjavík innan Hringbrautar eru þau deiliskipulög sem unnin voru og staðfest í hinu svokallaða góðæri. Þessi deiliskipulög eru að margra mati ein helsta ástæða grenjavæðingar borgarhlutans.

Efst í færslunni er mynd af nýju húsi sem fellt hefur verið inn í gamla götumynd með sögu og staðaranda.

Neðst er svo mynd af einni af breiðgötum Parísarborgar. Í París eru lang flest húsanna innan Periferíunnar meira en 100 ára gömul.  Mörg eru fleiri hugdruð ára.  Nánast öll hafa verið uppgerð með nútíma þægindum en hafa verið látin halda útliti sínu og einkennum að mestu. Þrátt fyrir það er ómögulegt að upplifa borgina sem lífvana safn eða leiktjaldaborg. París er einhhver líflegasta borg á jarðarkringlunni.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 17.1.2012 - 10:22 - 10 ummæli

Málþing um flug og flugvallamál

.

Mér hefur oft fundist að umræðan um Reykjavíkurflugvöll hafi einkennst af NIMBY sjónarmiðinu (“Not in my backyard”)  Það er að segja allir vilja hafa flugvöll en bara ekki á baklóðinni hjá sér.

Reykjavíkurborg, höfuðborg landsins, vill ekki hafa flugvöllinn í sínum bakgarði og er búin að úthýsa honum úr Vatnsmýrinni samkvæmt aðalskipulagi til ársins 2024.

Þetta hefur hún gert án þess að fyrir liggi hvernig höfuðborgin á að tengjast umheiminum í lofti.

Á fimmtudaginn 19. janúar n.k. verður haldið málþing um flugvelli og flugsamgöngur ásamt því að fjalla um tækifæri í skipulags- og atvinnumálum sem tengjast efninu. 

Ráðstefnan er haldin á vegum Háskólans í Reykjavík.

Mér sýnist þetta stefna í afar áhugavert málþing þar sem erlendir fyrirlesarar munu  fjalla um endurkomu miðborgarflugvalla (The Return of City Center Airports)  og framtíð flugvallanna í Stokkhólmi, Bromma og Arlanda og fl.  

Pétur K. Maack flugmálastjóri mun fjalla um flugsamgöngur á Íslandi og Þorgeir Pálsson prófessor um niðurstöður úttektar á Reykjavíkurflugvelli frá árinu 2007. Þórólfur Árnason stjórnarformaður ISAVIA og fyrrverandi borgarstjóri hefur þarna framsögu og Ásdís Hlökk Theodórsdóttir aðjúnkt ræðir Reykjavíkurflugvöll og skipulag höfuðborgarsvæðisins. Haraldur Sigþórsson lektor spyr í sínu erindi um hver sé framtíð innanlandsflugsins?

Í lokin verða svo pallborðsumræður  með þátttöku Jóns Gunnarssonar alþingismanns. Birnu Lárusdóttur frá Ísafirði,  Dags B. Eggertssonar borgarfulltrúa, Páls Hjaltasonar formanns skipulagsráðs Reykjavíkur, Ernu Hauksdóttur frá ferðaþjónustunni, Kjartans Þórs Eiríkssonar framkvæmdastjóra og Júlíusar Vífils Ingvarssonar borgarfulltrúa.

Þetta eru allt mjög góðir fyrirlesarar og áhöfn pallborðsins eru sterkir einstaklingar sem hafa þroskaða skoðun og stefnu varðandi málið.

Hinsvegar sér maður að þarna örlar á NIMBY einkennunum. Það eru á pallborðinu þrír borgarfulltrúar úr Reykjavík en enginn frá Hafnarfirði, Álftarnesi, Garðabæ, Kópavogi eða Mosfellsbæ.

Maður veltir því fyrir sé hver yrði niðurstaðan í flugvallarumræðunni ef öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu kæmu að jöfnu að umræðunni og hagsmunir heildarinnar væri markmiðið?

Þessi spennandi ráðstefna verður haldin á Icelandair Hótel Reykjavík Natura og hefst fimmtudaginn 19. janúar kl 13.00

Efst í færslunni er ljósmynd af flugvél sem er að lenda á „London City Airport“ og að neðan ljósmynd af „Reykjavik City Airport“

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 13.1.2012 - 23:20 - 28 ummæli

Vatnsmýrarsamkeppnin-Upprifjun

 

Um þessar mundir eru liðin fjögur ár síðan úrslit í tveggja þrepa samkeppni um framtíð Vatnsmýrarinnar voru kynnt.  Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá og tækifæri gefist til þess að velta þeim frjóu og vel unnu tillögum  sem viðurkenningu og verðlaun hlutu fyrir sér.

Þetta var metnaðarfull samkeppni frá hendi útjóðenda og þátttakendur lögðu sig fram í samræmi við það.  Það verður þó að segjast að útbjóðandi gerði þau mistök að leysa ekki  samgöngur höfuðborgarsvæðisins í lofti áður en samkeppnin var auglýst. Þegar samkeppnin var auglýst voru flugsamgöngumál höfuðborgarinnar óleyst og þau eru það enn, fjórum árum síðar.

Fyrstu verðlaun í samkeppninni hlutu skosku arkitektarnir Graeme Massie og félagar. Þeir eru hinir sömu og unnu skipulag fyrir miðbæ Akureyrar og aftur samkeppni um framtíð Reykjavíkurhafnar.

Ég veit ekki um stöðu vinningstillögunnar í borgarkerfinu enda skilst mér að hún hafi ekki fengið nokkurn status. Hvorki í aðalskipulagi, rammaskipulagi (hverfaskipulagi) né deiliskipulagi.  Samt heyrist manni að eitthvað sé verið að taka mið af henni við ýmsar skipulagsákvarðanir, t.a.m. Landspítalann. Það er í raun einkennilegt í ljósi þess að þrátt fyrir að fjögur ár séu liðin þá er enn ekki búið að finna lausn á samgöngum í lofti við höfuðborg Íslands sem sátt er um.

 Ég birti hér til upprifjunar þær tillögur sem fengu verðlaun og viðurkenningu í samkeppninni ásamt dómnefndaráliti. Þetta eru afar vel unnar tillögur og virkilegt augnakonfekt og til þess fallnar að skoða alvarlega þegar búið er áð leysa flugsamgöngur höfuðborgarinnar.

Ég ráðlegg lesendur að opna teikningarnar og gaumgæfa þá sýn sem höfundar setja fram um framtíð  Vatnsmýrarinnar og ekki má gleyma því að í arkitektasamkeppnum ber að deila við dómarann sýnist manni svo.

 

Vatnsmyrarinnar. 

1. Sæti

Graeme Massie, Stuart Dickson, Alan Keane, Tim Ingleby – Edinborg, UK

Umsögn dómnefndar
Kynningarveggspjöld og stuðningsgögn þessarar tillögu eru skýr og skiljanleg og bregðast á sannfærandi hátt við þeim kröfum sem settar eru fram í forsendulýsingu samkeppninnar. Áætlunin hefur burði til að verða útgangspunktur framtíðarþróunar í Vatnsmýri. Hljómskálagarðurinn er stækkaður til suðurs og ný tjörn umkringd fjölda nýrra bygginga gerð að miðpunkti Vatnsmýrarinnar. Göturnar Barónsstígur og Snorrabraut eru framlengdar, frá Þingholtum að Fossvogi og á ræmunni milli þeirra eru helstu íbúðasvæði, ásamt skrifstofuhúsnæði og þyrpingum opinberra bygginga og skólahúsnæðis. Skáhöll lína sker þessa ræmu og tengir hana beint við miðbæinn. Einnig er gert ráð fyrir íbúðasvæðum utan í Öskjuhlíð og norðan Skerjafjarðar og yfirráðasvæði Háskóla Íslands verður stækkað þannig að það nái að tjörninni nýju. Áætlunin er studd með nákvæmum tillögum um umhverfisstjórnun, möguleikum á lotuskiptingu og samþættingu langtímamarkmiða. Borgarmyndin, sérstaklega við ströndina og á eystra íbúðasvæðinu, er dregin grófum línum og umferðarvandi ekki að fullu leystur, en áætlunin virðist nógu burðamikil til þess að þola frekari útfærslu sem tæki til þessara og annarra verklegra atriða.

Hægt er að skoða tillöguna í fullri stærð á eftirfarandi slóð:http://www.vatnsmyri.is/swf/ex01.swf

 http://www.vatnsmyri.is/isexhib.asp

 

2. Sæti

Johanna Irander, Nuno Gonçalves Fontarra – Haag, Hollandi

Umsögn dómnefndar
Þetta innlegg er einstakt í ferskleika sínum og léttleika. Það leggur til skýra aðgreiningu á opinberum svæðum og einkasvæðum og notar mismunandi mynstur byggðareininga til að fá hana fram. Skoðun Vatnsmýrarinnar hefur ekki einskorðast við samspil hennar og borgarinnar heldur hefur hún verið gerð í samhengi við norðanverðan Reykjanesskagann, allt frá alþjóðaflugvellinum í Keflavík að Esjurótum. Það er þessi fimlega aðferð sem gerir tillöguna mikilvægt innlegg í umræðuna. Samt sem áður er hin ráðgerða móða, sem eykur á töframátt tillögunnar, talin óraunhæf. Ennfremur er grafísk útfærsla ófullnægjandi, upp á vantar að umhverfisáætlun sé sannfærandi og verkefnið styðst of mikið við texta stefnuyfirlýsingar.

Hægt er að skoða tillöguna í fullri stærð á eftirfarandi slóð:

http://www.vatnsmyri.is/isexhib.asp?e=2

 

3. Sæti

Jean-Pierre Pranlas-Descours, Christine Dalnoky, Ove Arup – París, Frakklandi

Umsögn dómnefndar
Þessi tillaga var mikið þróuð og bætt frá því að hún kom inn á fyrra þrepi samkeppninnar og styrkur hennar liggur í skýrri og sveigjanlegri eyjalausn. Eyjunum er ætlað að endurspegla kaflaskiptan vöxt höfuðborgarsvæðisins um leið og þær varðveita minninguna um flugvöllinn. Umhverfismeðvituð borgarbyggð, sem þjappað er saman í þéttar eyjar, gerir grænu belti mögulegt að teygja sig frá miðbænum alla leið í Fossvog og opnar útsýni til hafs úr hjarta Vatnsmýrarinnar. Hverfin eru tengd með umfangsmiklu leiðakerfi fyrir allar tegundir umferðar, þ.m.t. nýtt járnbrautakerfi. Auðvelt er að lotuskipta uppbyggingunni og mynstur byggðareininganna, ásamt stærð eyjanna, er hugsanlega hægt að stilla af ef bregðast þarf við breyttum aðstæðum. Kostnaðurinn við þetta frelsi kemur fram í því að byggingarhlutfall svæðisins í heild verður tiltölulega lágt, en það dregur ekki úr mikilvægi þessarar sýnar fyrir umræðuna um Vatnsmýrina.

Hægt er að skoða tillöguna í fullri stærð á eftirfarandi slóð:

http://www.vatnsmyri.is/swf/ex03.swf

 

Viðurkenning

Architects: NEKTON Design

Project Directors:
Gudjon Thor Erlendsson, AA dipl BA (hons) – Architect, Jeff Turko, AA dipl- Architect SBA
Project Urbanists:
Sibyl Trigg, Dip Arch, B.Arch – Urban Designer, Dagmar Sirch , MsC, Dip Arch, BsC (hons) – Urban Designer

Umsögn dómnefndar
Þetta er tillaga að borgarmynd sem er samþætt aðliggjandi svæðum, innviðum þeirra og landslagi. Með því að setja nákvæmar reglur um mynstur byggingareininga og formgerð bygginga á öllu svæðinu er búin til sterk og misfellulaus birtingarmynd uppbyggingar í Vatnsmýri. Þegar hins vegar horft er til tímaramma uppbyggingarinnar og þarfarinnar fyrir sveigjanleika og endurmat, er svona rígbundið kerfi talið þvingað og óþarflega flókið.

Hægt er að skoða tillöguna í fullri stærð á eftirfarandi slóð:

http://www.vatnsmyri.is/swf/ex04.swf

 

 Viðurkenning

Rose Bonner, Paul Fox, David Jameson – Dublin, Írlandi

Umsögn dómnefndar
Tillagan snýst fyrst og fremst um net íbúðabyggðar sem tengist aðliggjandi svæðum og gatnakerfi. Það kemur best fram þar sem Hringbraut er tekin inn í netið sem borgarstræti. Stærð og mynstur byggingareininga eru of einsleit og hefðu gott af meiri fjölbreytni og sveigjanleika ef koma ætti langtímaþróun með góðu móti inn í tillöguna. Skekking netsins virðist tilraun til að bæta úr einsleitninni, en hún virkar sérviskuleg og án rökrænnar undirbyggingar.

Hægt er að skoða tillöguna í fullri stærð á eftirfarandi slóð:

http://www.vatnsmyri.is/swf/ex04.swf

 

 

 

 Viðurkenning

Manuel Lodi, Architect, Danilo Cupioli, Architect, Paola Pilotto, Architect, Rizzo Silvia, Architect, Dino Bonadias, engineer, Marco Rasimelli, engineer, Salvatore Corliano, engineer, Stefano Galli, archtiect, Maurizio Scarciglia, architect.
Ráðgjafar: Dusan Persic, Elisa Ventura, Federico Ventura, Maria Mholin, Gabriele Pisani, Elungo Vulanem, Kuno Mayer, Dott. Arch. Stefano Galli, Dott. ssa Arch. Enrica Rasimelli, Dott. Arch. Mirko Lo Faro, Dott. Ing. Gianfranco Vanni, Dott. Ing. Luca Bragetta, Dott. Ing. Enrico Coluzzi, Dott. ssa Ing. Giuseppina Paoni, Dott. Ing. Valerio Mastroianni, Dott. Geol. Stefano Piazzoli, Dott. Ing. Luigi Spinozzi, Dott.ssa Ing. Maria Gabriela Sorci Dott. Ing. Marco Galazzo, Dott. Ing. Numa Tondini, Dott. Ing Luigi Iovine, Dott. Ing. Daniele Azzaroli, Dott. Ing. Leonardo Ciarapica, Dott. Ing.Pasquale Lospennato, Geom. Danilo Bellavita, Geom. Maurizio Cirimbilli, geometra, Geom. Carlo Rosi, Arch. Maurizio Scarciglia.
Genova, Italy

Umsögn dómnefndar
Meginforsenda þessarar tillögu er skipting Vatnsmýrarinnar í tiltölulega stóra parta, þar sem hver gegnir sérstöku hlutverki. Partarnir eru vel við vöxt og innan þeirra svigrúm til að koma til móts við breyttar kröfur og lotuskiptingu. Áætlunin hvetur til þess að breytt verði um stærð, mynstur og form bygginga eftir því sem tímanum vindur fram. Hún er ögrandi hugmynd að borgarbyggð, en undirstöðurnar, sem hún byggir á, sýna ekki með nægilega sannfærandi hætti hvernig stjórna á hinni ætluðu sérstöku uppbyggingu.

Hægt er að skoða tillöguna í fullri stærð á eftirfarandi slóð:

http://www.vatnsmyri.is/swf/ex06.swf

Viðurkenning

Belinda Kerry, Architect; Andrew Lee, Architect; Fiona Harrison, Landscape Architect, Blake Farmar Bowers, Landscape Architect. Melbourne, Ástralíu.

Umsögn dómnefndar
Þaulunnin tillaga þar sem sneitt er hjá formum flugbrautanna, en í staðinn fengnar rúmmyndir úr nágrannahverfum. Þetta leiðir til borgarmynsturs sem er notalegt og kunnuglegt í reykvísku samhengi. Hins vegar er samspilið við Vatnsmýrina sjálfa ekki jafnsannfærandi og þótt þéttleiki byggðar sé við hæfi er úthverfisblær á tillögunni. Áætlunin er innhverf, skortir útfærslumöguleika og býður upp á fá ný tækifæri í borginni.

Hægt er að skoða tillöguna í fullri stærð á eftirfarandi slóð:

http://www.vatnsmyri.is/isexhib.asp?e=7

 

Valin tillaga

Rolf Teloh, City Planner, Klaus Krauss, Architect, Thorsten Werner, Architect, Daniel Friedeberg, Architect, Cornelia Müller, Landscape Architect, Hinnerk Wehberg, Landscape Architect Christoph Link, Traffic Planner, Holger Wallbaum, Sustainable development consultant, Eberhard Jost, Sustainable development consultant, Sophie Lovell, English translation
Berlín, Þýskalandi

 

 Frá verðlaunaafhendingunni þar sem Dagur B. Eggertsson formaður dómnefndar flytur ávarp fyrir hönd dómnefndar sem stendur í baksýn.

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 10.1.2012 - 21:30 - 18 ummæli

Hegningarhúsið–Safn um Hrunið?

Nokkrir lesendur síðunnar hafa beðið um að opna umræðu um  Hegningarhúsið við Skólavörðustíg og framtíð þess.

Þær hugmyndir sem fram hafa komið um framtíðarnotkun hegningarhússins eru einkum  sýningarhald, veitingarekstur, og matarmarkaður.

Þetta eru vafalaust ágætar hugmyndir.

Hegningarhúsið eða “Tugthúsið” eins og það er stundum kallað er afar merkilegt hús. Það er einstakt, fallegt og gamalt og á sér langa sögu, enda friðað.  Friðunin tekur til ytra borðs ásamt álmunum til beggja hliða. Anddyri og stigi innandyra er einnig friðað.

Tugthúsið er hlaðið steinhús byggt í nýklassiskum stíl og stóðu danskir iðnaðarmenn fyrir verkinu sem lauk árið 1873.  Húsið er hlaðið úr lítið tilhöggnu grágrýti og hefur þess vegna aðra áferð en önnur steinhlaðin hús frá þessum tíma. (Stella Bankastræti, Alþingishúsið og fl.)

Sá sem hannaði húsið var Klentz  sem einnig teiknaði bókhlöðuna við MR, Íþöku . Klentz  fékk F.A. Bald til að hafa umsjón með byggingunni. Þessir tveir menn tengdust einnig byggingu Alþingishússins.

Í Hegningarhúsinu eru 16 fangaklefar þar sem 5 eru tveggja manna og 2 eru einangrunarklefar. Á efri hæð eru skrifstofur og salur sem áður hýsti bæjarþingsstofuna, Landsyfirrétt og síðar Hæstarétt þar til hann flutti í nýbyggingu við Lindargötu árið 1947.

Nú þegar nýtt hegningarhús er í undirbúningi á Holmsheiði þarf að finna húsinu verðugt hlutverk.  Mikilvægt er að í húsinu verði miðborgarstarfssemi sem glæðir götulíf en eykur ekki bifreiðaumferð að marki.

Mig langar að setja fram þá hugmynd að í húsinu verði komið fyrir sýningu sem fjallar um efnahagshrun heimsins í lok fyrsta áratugar þessarar aldar með sérstakri áherslu á Ísland.

Safninu eða sýningunni tengdist rannsóknarsetur og bókhlaða.  Miðað við stærð Hrunsins og áhrifa þess á sögu landsins má búast við að mikil eftirspurn verði eftir slíku safni.  Sýningin yrði margtyngd margmiðlunarsýning sem höfðaði til allra aldurshópa og erlendra gesta.

Það er mikilvægt að halda umræðunni um þessa merkilegu atburði vakandi og lifandi um ókomin ár, hvernig sem það er gert. Safnið mun þá minna okkur stöðugt á hve illa dramb, græðgi og kæruleysi fárra aðila getur farið með heila þjóð.

Núverandi skrifstofum  hússins yrði  breytt í rannsóknarsetur með góðu bókasafni. Bæjarþingsstofan yrði helguð dómsmálunum og klefarnir tileinkaðir aðalleikurum og gerendum Hrunsins, hvort heldur um er að ræða einstaklinga, fyrirtæki eða stofnanir.

Hegningarhúsið hefur haft þann tilgang alla tíð að verja réttvísina og siðgæði  í landinu ásamt því að betra menn og refsa þeim. Þetta hlutverk yrði áfram svipað ef þessi hugmynd hlyti brautargengi.

Að lokum má geta þess að samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur 1962 var gert ráð fyrir að Hegningarhúsið yrði rifið til þess að koma fyrir einni stórri aðkomuleið fyrir einkabíla inn í borgina.  Breikka átti Grettisgötuna og láta hana ná alla leið niður í Kvos. Þá var ætlunin að rífa stóran hluta húsanna við Grettisgöti og Hegningarhúsið eins of fyrr er getið. Ein bygging reis samkvæmt þessu skipulagi. Það er iðnaðarmannahúsið við Hallveigarstíg (þar sem nú er Bónusverslun). Það stendur nú þarna eins og álfur út úr hól.

Myndin að ofan er fengin af vef ljósmyndasafns Reykjavíkur og er frá árunum 1910-1920, af gatnamótum Bergstaðastrætis og Skólavörðustígs. Fyrir miðju er Hegningarhúsið, Skólavörðustígur 9 og timburhúsið til hægri er Skólavörðustígur 12, þvottahúsið Geysir, veitingahúsið Geysir og síðan Fjallkonan. Hlaðnir grjótgarðar meðfram götum.  Myndin efst í færslunni er tekin af Gunnari V Andréssyni ljósmyndara og er birt með hans leyfi.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 7.1.2012 - 12:47 - 19 ummæli

Reiðhjólaleiga í Reykjavík

Í desemberhefti fréttabréfsins Gangverk sem gefið er út af verkfræðistofunni Verkís er fjallað um almenningshjólaleigur.

Þar kemur fram að vinsældir slíkrar þjónustu fer hratt vaxandi víða um heim. Höfundur greinarinnar, Daði Hall, upplýsir að árið 2000 voru slík kerfi í fimm löndum  með um 4000 reiðhjólum. Í dag eru hjólin um 236.000 í 33 löndum. Í heiminum fjölgaði almenningshjólaleigum um 76% milli áranna 2008 og 2010.

Nútíma almenningshjólaleigur eru ekki hugsaðar fyrir frístundahjólreiðar heldur sem viðbót við almenningssamgöngukerfið. Oft fer greiðslan fram með notkun snjallkorta, farsíma eða með e.k. númerakerfi. Algengt er að notkunin sé gjaldfrjáls fyrsta hálftímann.

Meginkostir þessa ferðamáta eru þeir að sá sem hjólar kemst tiltölulega hratt yfir á vistvænan,  heilsusamlegan og hljóðlausan hátt án þess að buddan léttist að marki.

Daði segir í grein sinni að áhrifin af auknum hjólreiðum og bættum almenningssamgöngum séu einnig þau að borgin glæðist lífi og borgarbragurinn dafni undir berum himni. Þetta er alveg rétt hjá honum. Það er ekkert sem er jafn leiðinlegt í borgarlífinu og einkabíllinn.

Er ekki sjálfsagt er að koma upp hjólaleigum í Reykjavík? Almenningshjólaleigu í Reykjavík þyrfti að samþætta bættu almenningsflutningakerfi borgarinnar. Þá yrðu reiðhjólastöðvar við Hlemm, háskólana, Borgartún, Flugleiði, Hagatorg, Lækjartorg, Kringlu, Glæsibæ, stórum bílastæðahúsum á jöðrum miðbæjarins og e.t.v. fl. stöðum.

Eins og fram hefur komið í pistlum mínum undanfarið þá er augljóst að einkabíllinn er á  útleið sem aðalsamgöngutæki í borgum. Þetta hafa allir vitað sem sett hafa sig inn í málin undanfarna marga áratugi.  Hinsvegar hefur skipulagið oft verið tregt til þess að fylgja þessari þróun eftir.

Kannanir sýna viðhorfsbreytingu hjá almenningi gagnvart einkabílnum. Ferðavenjukannanir sem voru gerðar árið 2007 og aftur 2010 sýndu verulega hugarfarsbreytingu. T.a.m. vildu 37% Sundabraut árið 2007 en aðeins 8% árið 2010.  Heil 29% vildu bæta almenningssamgöngur árið 2010 en aðeins 6% árið 2007.  Fjórum sinnum fleiri vildu minnka einkabílaumferð árið 2010 en árið 2007 samkvæmt könnununum.

Efst í færslunni er ljósmynd af þrem bissníssmönnum í Parísarborg að fara á fund og virðast vera  að fá leiðbeiningu frá yngri manni.

Þeir velja  heilsusamlegt, hljóðlaust,  hraðvirkt, ódýrt og ómengandi farartæki sem er reiðhjól frá almenningsreiðhjólaleigu.

Í batnandi heimi er best að lifa.

Grein Daða Hall má finna í heild sinni á þessari slóð:

http://www.verkis.is/media/frettabref/Gangverk-Des-2011-web.pdf

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 4.1.2012 - 10:17 - 10 ummæli

Kennarabústaðir við Egilsgötu

Ég fékk myndina að ofan frá einum lesenda síðunnar. Hún er tekin á fjórða áratug síðustu aldar af kennarabústöðunum við Egilsgötu í Reykjavik. Myndina tók Vigfús Sigurgeirsson ljósmyndari en húsin teiknaði Þórir Baldvinsson arkitekt (1901-1986).

Þetta eru merkileg hús fyrir margra hluta sakir. Í fyrsta lagi er þarna á ferðinni skandinavískur funktionalismi af hreinræktaðri gerð eins og hann gerðist framsæknastur í Evrópu á þessum árum. Í öðru lagi eru húsin teiknuð af arkitekt sem nam vestanhafs, í Kaliforníu. Í þriðja legi er það mér og fleirum óskiljanlegt að þeim hafi verið breytt eins mikið og raun ber vitni.

Að lokum segja þessi hús okkur ýmislegt um stöðu barnaskólakennara í borginni á þessum árum. Þeir hafa haft það býsna gott bæði félagslega og kjaralega. Vinnustaður þeirra, Austurbæjarskólinn var einn sá best búni á Norðurlöndum á þessum árum, með íþróttahúsi, sundlaug og fyrirlestrarsal.

Árið 1930 var Austurbæjarbarnaskólinn eftir Sigurð Guðmundsson tekin í notkun. Egilsgata er þar skammt frá.  Samtök kennara réðust í að byggja þessi hús fyrir félaga sína. Þetta eru alls 8 glæsileg hús, stór og rúmgóð. Uppúr 1930 þekktist varla að tvær fyrirvinnur væru á hverju heimili og barnafjöldi var nokkuð meiri en nú gerist. Þegar horft er á þessi hús þá veltir maður fyrir sér stöðu kennara á þessum árum. Á þessum tíma virðast kjör barnaskólakennara hafa verið þannig að ein laun stóðu undir byggingu og reksturs þessara húsa.

Það væri gaman að fræðast nánar um byggingefélag kennara og stöðu stéttarinnar þá og nú í því samhengi. Kannski gefst tækifæri til þess síðar.

Vonandi rennur sá tími upp að menn finni fjármuni og sjái ástæðu til þess að færa þessi góðu hús í upprunalegt form. Þegar horft er á ljósmynd Vigfúsar finnur maður löngun til þess að sjá götuna eins og hún var.

Þórir Baldvinsson nam við San Francisco Polytechnic og University of California Extension School of Architecture á árunum 1923-1926. Hann teiknaði m.a. Alþyðuhúsið við Hverfisgötu (nú hótel 101 Reykjavík) Samvinnubústaðina við Ásvallagötu vestan Bræðraborgarstígs o.m.fl.

Litmyndirnar sem fylgja færslunni eru teknar af Guðmundi Ingólfssyni. Ljósmyn Vigfúsar er birt með leyfi Gunnars Vigfússonar sonar Vigfúsar sem einnig er ljósmyndari.

Mynd tekin frá svipðum stað og ljósmyndin efst í færslunni. Þarna má sjá að búið er að breyta flestum húsanna allmikið og stækka. Garðsvalir eru horfnar.

Uppdráttur Þóris Baldvinssonar dags. 8. júni 1933. Ef smelllt er á teikninguna þá verður hún stærri og skýrari. Athygli vekja garðsvalirnar og góð aðstaða í kjallara vegna heimilisrekstursins. Grunnmyndir og sneiðing er sérstaklega athyglisverð. Sjáið tengsl milli eldhúss inngangs og stofu/borðstofu og svo forstofuherbergi húsbóndans (kennarans).

Aðeins eitt hús er eftir óbreytt í húsaröðinni.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 31.12.2011 - 00:04 - 8 ummæli

Í tilefni áramóta

.

Vegna efnahagsástandsins hefur lítið verið að gerast í byggingarlistinni hér á landi undanfarin þrjú ár. Það má segja að það hafi átt sér stað alger stöðnun.

Þetta hefur verið hrikalegt fyrir þá sem hafa lífsviðurværi sitt af byggingariðnaðinum.

Ég er þess fullviss að eingin fagstétt á landinu hefur farið ver út úr hruninu en arkitektar sem hafa borið byrgðar sínar og áföll að mestu í hljóði.

Því hefur verið haldið fram að tíðarandinn sé versti óvinur byggingarlistarinnar. Um það má deila. En þegar horft er til þeirrar byggingalistar sem framin var í góðærinu þar sem oft var unnið meira af kappi en forsjá má skynja ákveða sjálfumgleði og belging þar sem studum skorti jarðsamband.

Þetta sést í einstökum byggingum og ekki síður í skipulagsáætlunum.

Breyting er að eiga sér stað. Maður skynjar meira líf og meiri bjartsýni á þessum áramótum en undanfarið. Síminn er byrjaður að hringja á teiknistofunum. Það er að birta til í byggingariðnaði.

Nú þurfum við að fara varlega, læra af ógöngunum. Gefa okkur meiri tíma til þess að hugsa okkur um, stíga varlega til jarðar.  Endurskoða úreltar skipulagsáætlanir með áherslum sem eru í takti við okkar samfélag og okkar menningu. Fara varfærnislega með fé og forgangsraða betur en gert var. Aðilar byggingariðnaðarins þurfa að vanda sig betur í skipulagi, hönnun og framkvæmd nú þegar tími gefst og birtir til.

Ég þakka samskiptin á liðnu ári og óska lesendum farsæls árs.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 28.12.2011 - 20:44 - 14 ummæli

Aðalskipulag Reykjavíkur –Stofnbrautir -Flugvöllur

Ég veit ekki hvort fólk almennt áttar sig á því að í öllum sveitarfélögum eru í gildi aðalskipulag sem hefur meiri áhrif á hag þess en flesta grunar. 

 Aðalskipulög hafa nánast stöðu lagasetningar og vega mjög þungt. T.a.m. er aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024 undirritað af borgarstjóranum í Reykjavík, skipulagsstjóra ríkisins og umhverfisráðherra ásamt vottum. 

Þannig er þetta í öllum sveitarfélögum.

Þó aðalskipulag sé í stöðugri endurskoðun þarf að fara varlega í allar breytingar.

Ég læt hér fylgja tvær myndir af gildandi aðalskipulagi Reykjavíkur.

Á annarri má lesa að gert er ráð fyrir undirgöngum fyrir stofnbraut undir Skólavörðuholtið og annarri undir Öskjuhlíð og áfram undir Digranesháls (Kópavog) og alla leið í Smáralindina. Miklabraut er lögð i stokk á móts við Klambratún. Þarna má einnig sjá að gert er ráð fyrir Sundabraut um Gufunes og Geldinganes alla leið í Gunnunes. Íbúar og fjárfestar vænta mikils af þessum áformum. Þessi framtíðarsýn aðalskipulagsins til ársins 2024 ætti að hafa veruleg áhrif á fasteignaverð eigna sem tengjast þessum svæðum o.fl.

Hin myndin sýnir landnotkun í Vatnsmýri eftir aðeins 4 ár.

Gert er ráð fyrir að flugvöllur í Vatnsmýri víki alfarið á tímabilinu til 2024 í tveim áföngum.  Sá fyrri eftir aðeins 4 ár. Það merkilega við þetta er að ekki er gert ráð fyrir í aðalskipulaginu að eitthvað komi í stað flugvallarins í Vatnsmýrinni.

Þetta er sérstaklega merkilegt fyrir þær sakir að í aðalskipulaginu er lögð áhersla á að Reykjavík sé höfuðborg allra landsmanna og miðstöð stjórnsýslu, viðskipta og samgangna. Hvernig er  hægt að vera miðstöð samgangna án flugvallar?

Stefnt er að því að byrja á því að leggja niður eina flugbraut af tveim eftir aðeins 4 ár.

Ég veit ekki hvort þetta er áhyggjuefni, en allavega er þetta umhugsunarefni.

 Og svo þegar horft er á teikninguna af göngum undir Skólavörðuholt og Öskjuhlíð alla leið í Smáralind fyrir utan metnaðarfulla Sundabraut, þá veltir maður því fyrir sér hvort þessi framtíðarsýn hafi verið forsenda staðsetningar Landsspítala við Hringbraut?  Og ef ég man rétt þá var staðsetning flugvallar í Vatnsmýri ein af forsendum fyrir staðsetningu sjúkrahússins.

En flugvöllurinn er á förum samkvæmt skipulaginu!

Því miður.

Það er fróðlegt og nauðsynlegt að rýna í nákvæmt  aðalskipulagskort af Reykjavík sem hægt að nálgast á þessari slóð :

http://www.reykjavik.is/Portaldata/1/Resources/skipbygg/vefur_2010/skjol/Adalskipulag_framhlid.pdf

Til vinstri er núverandi staða og til hægri er Vatsmýrin árið 2016 samkvæmt gildandi aðalskipulagi. Þangað til eru aðeins 4 ár.  Myndirnar eru fengnar úr Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 27.12.2011 - 11:56 - 9 ummæli

Bestu byggingar ársins

Það er löng hefð fyrir því í Danmörku að sveitarfélög færi framkvæmdaraðilum viðurkenningu fyrir framúrskarandi arkitektúr. Fundnar eru bestu byggingar liðins árs í hverju sveitarfélagi og þeim sem að stóðu veitt viðurkenning á alþjóðlegum degi byggingarlistarinnar 1. október ár hvert.

Tilgangurinn er ekki aðeins sá að heiðra arkitektinn og húsbyggjandann heldur einnig að hvetja alla til þess að vanda til verka þegar umhverfi er mótað til langrar framtíðar.

Sveitarfélögin velja hvert fyrir sig þau hús eða framkvæmdir sem viðurkenningu hljóta  í góðri samvinnu við danska arkitektafélagið.

Ég velti fyrir mér hver ástæðan kunni a vera fyrir því að sveitarfélög hér á landi hafi ekki tekið upp þennan góða sið dana!  Ég hef ekki trú á að þeim hafi ekki verið kunnugt um þessa hefð. Kannski er ástæðan landlægt áhugaleysi fyrir manngerðu umhverfi og hverfandi umfjöllun um þetta mikilvæga mál!

Þetta er jákvætt framtak hjá Dönum sem hvetur fólk til þess að vanda sig þegar mótun umhverfisins á í hlut. Hvort heldur um er að ræða nýbyggingar, enduryggingar, viðhald, skipulagsáætlanir, landslagsmótun, vegagerð, brúarsmíði eða önnur mannanna verk sem áhrif hafa á umhverfið.

Ef einhver áhrifamaður í sveitarstjórn les þetta þá tel ég fullvíst að Arkitektafélag Íslands mun vera viljugt til þess að aðstoða sveitarfélögin um framkvæmd viðurkenningarferils á svipaðan hátt og gerist í Danmörku.

Og hér er tengill að heimasíðu danska arkitektafélagsins þar sem fjallað eru um nokkrar viðurkenningar fyrir árið 2011 auk þess sem þar er að finna ýmsar upplýsingar um ferilinn.:

http://arkitektforeningen.dk/Arkitektforeningen/S%C3%A6t%20pris%20p%C3%A5%20din%20arkitektur%21/2011

Hjálagt eru nokkkrar myndir af verkum sem viðurkenningu hlutu í Danmörku á árinu sem er að líða. Efst er byggingin 8TALLET sem teiknuð er af BIG-Bjarke Ingels Group. Landslagsarkitektar voru KLAR og verkfræðistofan Moe & Brödsgaard sá um verkfræðihönnun.

Vejle: Vedelsgade 1 er dæmi um velheppnaða endurbyggingu þar sem full virðing er borin fyrir gamla húsinu um leið og það er endurbætt með nútíma þægindum.

Horsens. Einbýlishús eftir arkitektana Birch og Svenning

Skanderborg: Söluskáli eftir arkitektana Kurt Kamp og Thomas Graah

Holsterbro: Listasafn eftir gamla kennara minn Hanne Kjærholm og Sören Andersen.

Kaupmannahöfn: Bókasafn eftir arkitektana COPE og Transform. Verkfræðingar voru Wessberg.

Silkeborg: Einbýlishús eftir arkitektinn Lise Juel.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 19.12.2011 - 15:31 - 5 ummæli

Afstöðumynd-Dómkirkjan í Lundi

Kollegi minn vakti athygli á byggingu safnaðarheimilis í grennd við Dómkirkjuna í Lundi í Svíþjóð.

Þetta er hressileg bygging og á margan hátt spennandi. Það sem einkum vakti athygli mína er afstöðumyndin. Þarna er hún  sérstaklega góð hvort sem litið er til grunmyndar eða húsahæða.  Inngangurinn er gerður sýnilegur með því að draga húshliðina aðeins inn og setja yfir myndarlegt skyggni sem tekur mið af þakhalla og hæð nærliggjandi húsa.

Þannig er það oft að ef afstöðumyndin er ekki í lagi er ekkert í lagi. Og hinsvegar að ef afstöðumynd er í lagi þá er flest annað í lagi auk þess sem hún gefur arkitektinum meira svigrúm og frelsi til þess að láta gamminn geysa.

Afstöðumyndir fá allt of litla umfjöllun miðað við mikilvægi þeirra.

Sagt er að þegar arkitekt teiknar sýningarskála á heimssýningu sé meginverkefnið að skera sig úr fjöldanum. Hinsvegar, þegar arkitekt hannar inn í gamla góða borgarhluta þá sé meginverkefnið að hverfa inn í heildarmyndina þannig að áreitið sé sem minnst og að staðarandinn sé styrktur og fái notið sín.

Hér hefur arkitektunum tekist að fella húsið inn í staðarandann hvað afstöðu, húsahæðir og form götumyndanna snertir. En þegar kemur að efnisvali og formmáli næst kirkjunni lætur hann gamminn geysa og sjálfsmiðun listamannsins  tekur öll völd.

Skyggni yfir aðalinngangi er snilldarlega formað með sama þakhalla og nærliggjandi hús. Efnisvalið er hinsvegar fengið einhversstaðar annarsstaðar frá.  Sama á við um formmál byggingarinnar sem snýr að kirkjunni.

Þetta er athyglisvert og skemmtilegt en líka umhugsunarvert.

Byggingin er byggð samkvæmt verðlaunatillögu Carmen Izquierdo arkitektkontor í samkeppni um bygginguna.

Bent er á þessa slóð:

http://www.izquierdo.se/

Inngangurinn er dreginn nokkra metra inn frá aðalgöngulínu götunnar .(Kirkjugötunnar). Skyggnið er myndarlegt með sama þakhalla og nærliggjandi hús og því í samræmi við umhverfið.  Efnisval er aðflutt.

Sá hluti byggingarinnar sem veitir að gömlu dómkirkjunni er ekki í samræmi eða samhljómi við byggingarnar í grenndinni. Þá skiptir ekki máli hvort horft er á formmál eða efnisval.

Grunnmynd götuhæðar.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn