Miðvikudagur 14.12.2011 - 08:44 - 7 ummæli

Ocar Niemeyer 104 ára – The last Modernist?

Oscar Niemeyer, sem nefndur hefur verið síðasti modernistinn meðal arkitekta, lauk við eina af sínum byggingum s.l. vor. Þetta var ”Centro Niemeyer” í Avilés á Spáni.

Þetta  er kannski ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að hann verður 104 ára á morgun þann 15. desember.

Niemeyer útskrifaðist úr skóla hinna fögru lista „Ecola de Belas Artes“ í Brasilíu árið 1934, Þá 27 ára fgamall. Fyrsta stærra verkið teiknaði hann 11 árum seinna  þegar hann var 38 ára gamall. Það er í samræmi við það sem margir segja, að á eftir lokapróf í arkitektúr tekur við við ströng þjálfun á teiknistofum í ein 10 ár áður en arkitektinn getur talist fullburða. Og þá fyrst hefst hin raunverulega starfsævi.  Þetta er svipað og hjá læknum.

Niemeyer hefur starfað við list sína stanslaust síðan. Myndirnar að neðan eru af nýjasta verki hans  sem hann lauk við á hundraðasta og fjórða aldursári nú í vor.

Auk myndanna af Centro Niemeyer á Spáni  eru hjálögð fjögur myndbönd.

Fyrst kemur myndband í tveim hlutum sem tekið var í tilefni af 101 árs afmæli arkitektsins

Þriðja myndbandið sýnir Oskar Niemeyer að störfum. Þar eins og í afmælismyndbandinu kemur fram mikill áhugi hans fyrir konum. Kannski er það einmitt áhugi hans fyrir konum sem heldur að honum lífsviljanum og -gleðinni.  Hann gifti sig fyrir 6 árum, þá 98 ára gamall. Sennilega var það ekki fyrsta hjónaband hans.

Síðasta myndbandið heitir „Niemeyer: Politics“ og er innan við eina mínútu á lengd.

Fjallað er nánar um Niemeyer á þessari slóð:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2009/10/07/oscar-niemeyer-bratt-102-ara/

.

Skissa frá hendi Niemeyers á húshliðinni

Hér er mjög skemmtilegt myndband þar sem maður sér í síðari hlutanum Niemeyer teikna.  Hann tengir konulíkama við landslag og byggingar sínar. Það er ótrúlegt að horfa á manninn teikna þessar myndir. Þarna tæplega 100 ára gamall.

Hér í blálokin er örstutt samtal við gamla kommonistan þar sem hann segir að stjórnmál séu mikilvægari en arkitektúr m.m. Þetta viðtal var tekið í tilefni af því að hann varð 101 árs.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 8.12.2011 - 15:06 - 7 ummæli

Reykjavíkurflugvöllur – Flökkusaga

Ég hitti tvo kollega mína við þriðja mann í vikunni. Staðsetning flugvallarins í Vatnsmýrinni kom til umræðu ásamt skipulagsáætlunum þar.

Fljótlega var farið að tala um inngrip Breta í borgarskipulagið og hversu illa Reykjavíkurborg hefði farið út úr heimstyrjöldinni síðari þegar Bretar ákváðu staðsetningu Reykjavíkurflugvallar.

Ég leyfði mér að mótmæla þessu og sagði að flugvallastæðið hefði verið ákveðið af okkur íslendingum meira en tveim áratugum áður en Bretar tóku sig til við að leggja flugvöllinn. Tveir áratugir er langur tími þegar hugsað er til þess að flug á Íslandi er rétt rúmlega níu áratuga gamalt.

Þessu mótmæltu kollegar mínir kröftuglega og fengu sterkan stuðning frá þriðja manninum sem er verkfræðingur.

Þarna var um ofurefli að etja. Flökkusagan hafði djúpar rætur , vitnað var ummæli margra og engu var haggað.

En lítum nú á staðreyndirnar.

Vorið 1919 fékk Knud Ziemsen, þá bæjarstjóri, frænda sinn, flugmanninn Rolf Ziemsen, til þess að kanna aðstæður fyrir samgöngur í lofti á Íslandi. Hann taldi Vatnsmýrina besta kostinn fyrir flugvöll í Reykjavík. Í framhaldinu lagði bæjarstjórnin til 92.300 fermetra svæði, svonefnt Briemstún, undir flugvöll, Reykjavíkurflugvöll.

Það var sem sagt bæjarstjórn sem útvegaði landið sem þá var tæpir 10 hektarar.

Um haustið (1919) kom svo til landsins flugvél af gerðinni AVRO 504. Flugvélin flaug þónokkuð. Mest útsýnisferðir. Fyrsti flugmaðurinn var Cecil Faber. Árið eftir tók vesturíslenskur flugmaður við starfi Fabers, hann hét Frank Fredrickson.

Árið 1928 var nýtt flugfélag stofnað að fumkvæði Alexanders Jóhannessonar prófessors. Það starfaði á Reykjavíkurflugvelli til 1931 þegar heimskreppan og fleira urðu því að falli.

Næstu árin var flugvöllurinn notaður af útlendingum. Aðallega hollenskum veðurathugunarmönnum. Þá hafið verið byggt þarna flugskýli og fl. vegna starfseminnar.

Árið 1937 teiknaði Gústaf E. Pálson verkfræðingur flugvöll í Vatnsmýrinni en ekkert varð úr framkvæmdum fyrr en 1940 þegar Bretar tóku til við að leggja flugvöllinn eftir eigin skipulagi.

Svona eru nú staðreyndirnar í mjög stuttu máli.

Allar þessar lífseigu flökkusögur um að Bretar hafi ekki spurt kóng né prest og tekið Vatnsmýrina og lagt undir flugvöll að okkur forspurðum eru hæpnar. Einkum vegna þess að bæjarstjórn Reykjavíkur tók sjálf ákvörðunina 21 ári áður öllum til heilla.

En svo oft er hægt að endurtaka flökkusögur að þær enda sem einskonar sannleikur í hugum fólks.

Efst í færslunni er mynd af flugvél sömu gerðar og fyrst tók á loft á Reykjavíkurflugvelli árið 1919. Hún var af gerðinni AVRO 504

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 5.12.2011 - 11:49 - 5 ummæli

Manfreð Vilhjálmsson heiðursfélagi AÍ.

.

Á aðalfundi Arkitektafélags Íslands sem haldinn var þriðjudaginn 29. nóvember s.l. var Manfreð Vilhjálmsson arkitekt kjörinn heiðursfélagi AÍ.

Manfreð er sjöundi heiðursfélagi Arkitektafélagsins á 75 ára sögu þess. Þeir hinir eru Sigurður Guðmundsson, Gunnlaugur Halldórsson,  Hörður Ágústsson, Guðmundur Kr. Kristinsson, Gísli Halldórsson og Högna Sigurðardóttir.

Af því tilefni hef ég fengið heimild til þess að birta hér samantekt Péturs H. Ármannssonar um störf Mannfreðs.

Gefum Pétri orðið:

.
Manfreð Vilhjálmsson arkitekt er fæddur í Reykjavík árið 1928. Að loknu stúdentsprófi frá M.R. árið 1949 hélt hann til náms við Chalmers tækniháskólann í Gautaborg í Svíþjóð og útskrifaðist þaðan sem arkitekt árið 1954. Að námi loknu vann hann hjá arkitektunum Sven Brolid og Jan Wallinder í Gautaborg. Árið 1956 fluttist Manfreð heim til Íslands og starfaði á teiknistofu Skarphéðins Jóhannssonar arkitekts í þrjú ár, uns hann hóf rekstur eigin teiknistofu. Árið 1967 gerðist Þorvaldur S. Þorvaldsson arkitekt félagi hans um rekstur stofunnar og stóð samstarf þeirra til ársins 1984. Eftir það starfrækti Manfreð teiknistofu í eigin til ársins 1996, er hann stofnaði fyrirtækið Manfreð Vilhjálmsson – Arkitektar ehf. ásamt  Árna Þórólfssyni og Steinari Sigurðssyni arkitektum.

Í þau ríflega 45 ár sem Manfreð Vilhjálmsson hefur starfað sem arkitekt hér á landi hefur hann alla tíð sett markið hátt í listrænu og faglegu tilliti. Ásamt Guðmundi Kr. Kristinssyni arkitekt var hann brautryðjandi nýrra hugmynda í íslenskum arkitektúr á árunum um og eftir 1960, þar sem áhersla var lögð á léttleika í uppbyggingu húsa og opna rýmisskipan. Meðal fyrstu verkefna Manfreðs voru afgreiðslustöðvar Nestis h.f. við Elliðaár (1957, nú rifin) og í Fossvogi (1956, breytt) og Veganestis á Akureyri (1961, breytt). Val og meðhöndlun efnis var eitt helsta nýmælið í hönnun þessara bygginga: léttbyggð, svífandi skyggni með sýnilegri burðargrind úr stáli, plastplötur í þaki yfir afgreiðslusvæði og undir því gegnsæ skýli þar sem efniviðurinn var fengin úr bílasmíði: gler, stál og gluggalistar úr gúmmíi.

Á árunum 1959-61 vann Manfreð, ásamt Guðmundi Kr. Kristinssyni, uppdrætti af eigin íbúðarhúsum þeirra tveggja á Álftanesi, þar sem þeir innleiddu byltingarkenndar nýjungar á þeirra tíma mælikvarða í rýmisskipan, fagurfræði og tæknilegri uppbyggingu húsa. Í síðari verkum sínum hefur Manfreð unnið áfram með sömu hugmyndir og aðlagað þær íslenskum aðstæðum og byggingarhefð. Í einbýlishúsi við Mávanes 4 á Arnarnesi frá árinu 1964 er léttbyggðu, flötu þaki tyllt ofan á fínlega burðargrind úr tré innan við steyptan útvegg með rákuðu yfirborði. Hönnun hússins er að öllu leyti mjög nútímaleg en hugmyndin um uppbyggingu þess minnir um margt á byggingarlag gamalla torfhúsa þar sem þekjan hvílir á viðarstoðum innan við hlaðna veggi.

Í verkum sínum hefur Manfreð oft notað efni og liti til að laga byggingar sínar að umhverfinu. Má þar nefna heimavistarskóla að Stóru-Tjörnum í S. Þingeyjarsýslu (1969) Þjóðarbókhlöðu (1972-96) og kirkjugarðshús í Hafnarfirði (1976), allt verk unnin í samstarfi við Þorvald S. Þorvaldsson arkitekt. Annað sameiginlegt verkefni þeirra var Skálholtsskóli (1971). Formstef skólahússins er sótt í dómkirkjuna og saman mynda byggingarnar sterka heild í landslaginu. Hliðstæða nálgun má sjá í tengibyggingu við hús Ásmundar Sveinssonar við Sigtún (1990-91), þar sem markmiðið var að raska ekki þeirri sérstæðu ásýnd sem einkennir hús myndhöggvarans.

Áhersla á byggingarefnið og eiginleika þess til að leysa ólíkar notkunarþarfir á einfaldan og hagkvæman þátt er einkennandi fyrir byggingarlist Manfreðs Vilhjálmssonar. Hús Honda-umboðsins við Vatnagarða 24 (1980) og verslunarinnar Epal í Faxafeni 7 (1986) eru að stofni til einfaldar skemmur sem hafnar eru í æðra veldi með óvenjulegri gluggaskipan og listilegum útfærslum í frágangi utanhússklæðningar. Í þjónustuhúsi tjaldstæðisins í Laugardal (1987) sameinast í einu verki ýmsar hugmyndir sem Manfreð hafði þróað í fyrri verkum. Steyptur stoðveggur með torfhleðslu utanvert myndar eins konar tóft sem opnast til suðurs í átt að tjaldstæðinu. Innan í henni er burðargrind úr tré sem ber uppi þekju úr gegnsæju plasti. Á sumrin opnar húsið sig á móti sól og birtu og innra rými þess og dvalarsvæðið utan við renna saman í eitt. Gömlum byggingarefnum og nýjum er telft saman á óvenjulegan hátt: klömbruhleðslu og torfi andspænis harðviði, áli og plasti.

Manfreð Vilhjálmsson arkitekt hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir verk sín, svo sem Menningarverðlaun DV árin 1980 og 1988 og Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu árið 1996. Umfjöllun um verk hans hefur birst í fjölmörgum innlendum og erlendum fagritum. Árið 2009 Manfreð heiðursviðurkenningu menningarverðlauna DV fyrir framlag sitt til íslenskrar byggingarlistar. Sama ár kom út á vegum Hins íslenska bókamenntafélags bók tileinkuð verkum hans og starfsferli, Manfreð Vilhjálmsson arkitekt, sem Halldóra Arnardóttir listfræðingur og Pétur H. Ármannsson arkitekt ritstýrðu.

Hér að neðan eru ljósmyndir af nokkrum verka Manfreðs sem hann hefur unnið ýmist einn eða í félagi við aðra. Efst er ljósmynd af þjónustuhúsi við tjaldstæði í Laugardal, Reykjavík.

Þjóðarbókhlaðan

Listasafn Ásmundar Sveinssonar

Skálholt

Ljósmynd af Manfreð Vilhjálmssyni  arkitekt þegar hann tók við viðurkenningunni.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 2.12.2011 - 15:48 - 6 ummæli

Guðni Pálsson – Knud Holscher

Það er alltaf gaman að skoða verk arkitekta og velta fyrir sér höfundareinkennum og efnistökum.

Í þessari færslu eru birtar nokkrar ljósmyndir af nýlegum verkum GP arkitekta sem rekin er af Guðna Pálssyni arkitekt. Áður en GP arkitektar voru stofnaðir rak Guðni stofu með Dagnýju Helgadóttur arkitekt. Þau Dagný og Guðni unnu til nokkurra verðlauna í samkeppnum  og sinntu skipulagsstörfum. Helsta verk þeirra í skipulagsmálum er núgildandi deiliskipulag Kvosarinnar í Reykjavík.

Guðni Pálsson útskrifaðist frá Konunglegu Dönsku Listaakadeníunni í Kaupmannahöfn og var hans leiðbeinandi professor Knud Holscher sem margir þekkja sem fylgjast með arkitektúr og iðnhönnun.  Að námi loknu vann Guðni hjá Holcher í nokkur ár.

Það vita það kannski ekki margir en flestir starfandi íslenskir arkitektar hafa setið á hnjám margra færustu arkitekta heimsins í námi sínu.  Ég hygg að þessir menn hafi haft  meiri áhrif á íslenska byggingarlist en margan grunar í gegnum nemendur sína.

Hjálagt eru myndir af nokkrum verkum Guðna ásamt skemmtilegu myndbandi þar sem Hoslcher gengur um sumarhús sitt og segir frá þeim hugmyndum sem að baki liggja.

Flölbýlishús í Brygjuhverfi.

Fjölbýlishús í Garðabæ

Atvinnuhúsnæði í Sundahöfn

Hótel Plaza í miðborg Reykjavíkur

Götugögn. Bekkur.

Skrifstofubygging Nýherja í Borgartúni. Efsta myndin er einnig af skrifstofubyggingu i Borgartúni sem hönnuð er af GP arkitektum.

Skemmtilegt myndband með viðtali við Knud Holscher.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 30.11.2011 - 15:28 - 7 ummæli

Vatnsberinn og Bakarapóstur

Bakarapóstur (stundum nefndur Bernhöftspóstur) var síðasta opna vatnsbólið í Reykjavík.  Hann stóð neðarlega í Bankastræti sem þá hét Bakarabrekka. Brunnurinn var annar tveggja brunna sem Tönnes Daniel Berhöft bakari gróf  fyrir meira en 150 árum.

Þegar Bankastræti var endurgert fyrir nokkrum misserum komu vel varðveiddar leyfar af brunninum í ljós. Hann er þarna enn  falinn 20-30 cm undir gangstéttaryfirborðinu.

Í sumar var stytta Ásmundar Sveinssonar, Vatnsberinn (1937) fluttur  frá holti við Veðurstofuna  og komið fyrir á horni Lækjargötu og Bankastrætis þar sem henni var upphaflega ætlaður staður. 

Í upphafi var styttan hugsuð á þessum stað m.a. vegna nálægðar  við helstu vatnsból bæjarins Tomsensbrunn, Bakarapóst o fl.

Nú er styttan kominn á viðeigandi stað. Það er að minnstakosti álit þeirra sem þekkja sögu Reykjavíkur. En hvað um hina? Ferðamaður sem lítur styttuna augum á horni Bankastrætis og Lækjatrgötu veltir fyrir sér staðsetningunni.  Af hverju er stytta af manneskju að burðast við að bera tvær þungar vatnsfötur á þessum stað?

Ef  Bakarapósturinn yrði gerður sýnilegur og látinn standa uppúr gangstéttinni mundi sagan og styttan lifna við, öllum til ánægju og vegfarendum til umhugsunar.  Styttan og brunnurinn mundu kallast á og segja vegfarendum sína sögu, án orða.

Flutningi styttunnar í miðbæjinn er vart lokið fyrr en búið er að gera Bakarapóstinn sýnilegan vegfarendum á ný. Póstinn þarf að byggja upp á sínum stað og færa þannig meira í líf  sögu miðbæjarinns.

Til gamans má geta þess að Bernhöftsbakarí er enn í fullum rekstri og er langelsta fyritæki landsins. Bakaríðið var stofnað 1835 og tók Bernhöft við rekstrinum 1845. Það er nú til húsa  að Bergstaðastræti 13.

Að neðan koma gamlar myndir sem fengnar eru af vef ljósmyndasafns Reykjavíkur.

Neðst til vinstri sést brunnur sem búið er að byrgja rækilega með þaki. Spölkorn þar fyrir neðan stendur Vatnsberi Ásmundar Sveinssonar nú.

Börn við torfbæi í Þingholtum. Í baksýn er myllan við Bankastræti sem hét áður Bakarabrekka. Myndin er frá því um 1890.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 28.11.2011 - 15:03 - 20 ummæli

Golfvellir—fallegir en baneitraðir?

Golfvellir eru einhverjir fallegustu staðir sem maður kemur á. Þeir eru oftast í fallegu landslagi. Allt er svo snyrtilegt. Grasið svo iðagrænt og vel hirt. Engar aðskotaplöntur eða blómstrandi illgres sjáanlegt og skordýr sjaldséð.

En hvernig stendur á því að þetta er svona óaðfinnanlegt?

Mér er sagt að golfvellir séu einhverjir menguðustu staðir á jarðríki. Þarna séu notuð efni til þess að láta grasið verða grænna. Efni til þess að grasið vaxi og önnur efni til þess að það vaxi hægt. Notuð eru erfðabreyttar grastegundir og eitur lagt á fletina til þess að halda óvelkomnum plöntum niðri eða drepa þær.

Á netinu er nokkuð skrifað um þetta og því ekki bara haldið fram að efnanotkunin sé slæm fyrir náttúruna heldur er því einnig haldið fram að “……. chemicals used in turf maintenance cause golfers a variety of health problems, including reduced sex drive, reduced fertility, cancer and even fatal allergic reactions”.

Því er einnig haldið fram að efnanotkun á golfvöllum séu farin að ógna vatnsbólum.

Auðvitað á maður ekki að trúa öllu sem sagt er. Það má gera ráð fyrir að allt sé þetta orðum aukið. En ég staldraði við þegar ég las umfjöllun um „vistvæna“ golfvelli í bandaríkjunum. Einn af þeim fyrstu var  á Martas Vineyard og nú fer þeim ört fjölgand.

Einn af þeim fyrstu í Evrópu var opnaður í Danmörku fyrir nokkru.  Hann er við Möllekildegaard norðan Kaupmannahafnar. Golfvöllurinn er lagður á jörð þar sem áður var vistvænn landbúnaður. Þar er ekki notaður tilbúinn áburður eða nein framandi efni á brautirnar sem haldið er í góðu ástandi með Terra Biosa eða lífrænum áburði. Engin eitur eru leyfð.

Þetta er örugglega eitthvað sem þarf að huga að og hugsanlega að bregðast við.

Ég hef heimsótt nokkra golfvelli hér á landi og erlendis.

Eitt skil ég ekki og það er hvernig stendur á því að notaður er hvítur sandur í glompurnar allstaðar í veröldinni. Líka þar sem engann hvítann sand er að finna. Af hverju er notaður hvítur sandur hér á landi? Er það einhver órjúfanleg hefð eða bara hinn gamli þekkti heimóttaskapur, þröngsýni og smáborgaraháttur. Því er verið að bera hvítann sand inn á mitt land þar sem hann á sér engann stað í náttúrunni?

Til gamans kemur hér texti úr lagi eftir þá Bob Dylan, Georg Harrison og félagana úr Tavelling Wilburys þar sem fjallað er um efnið. Lagið kom út fyrir rúmum 20 árum.

While you’re strolling down the fairway
Showing no remorse
Glowing from the poisons
They’ve sprayed on your golf course
While you’re busy sinking birdies
And keeping your scorecard
The devils been busy in your back yard

 

Myndirnar með færslunni eru frá golfvellinum í Möllekildegaard í Danmörku.

Vistvænn Golfvöllur í Danmörku. Heimasíðan er:

http://www.mollekildegolf.dk

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 25.11.2011 - 15:39 - 11 ummæli

The Death of Modern Architecture?

.

Hinn frægi arkitekt Charles Jencks skrifaði í bók sinni The Language of Postmodern Architecture, eitthvað á þessa leið:

Sem betur fer, getum við tímasett andlát nútíma byggingalistar. Nútíma byggingalist dó þann 15, júlí 1972 kl 15:32 þegar háhýsin í Pruitt-Igoe í St Louis í Bandaríkjunum voru jöfnuð við jörðu.

Þetta voru 33 háhýsi sem tekin voru í notkun árið 1956

Nú hefur verið gerð heimildarmynd um Pruitt-Igoe og fylgir hér neðst stutt stikla úr myndinni  sem er alls 83 mínútna löng og verður frumsýnd í febrúar 2012.

Þegar flutt var í húsin var mikil ánægja með þau og menn voru að gera sitt besta. 16 árum seinna voru þau orðin að félagslegu stórvandamáli, svo stóru að menn fundu ekki aðra lausn en að jafna þau við jörðu.

Því hefur lengi verið haldið fram að vandræðin vegna Pruitt-Igoe stafi vegna hugmyndarinnar sem liggja að baki háhýsabyggð sem arkitektóniskrar lausnar. En nú er því haldið fram að orsökina í St. Louis sé að finna í fjárhagslegum og pólitískum lausnum ásamt þekkingarleysi á félagslegum vandræðum sem vakna þegar fjölda lágtekjufólks er safnað saman á einum stað.

Undanfarna fjóra áratugi hafa verið miklar umræður um háhýsi og sitt sýnist hverjum. En almennt er álitið að háhýsalausnin sé ofmetin. Hún eigi við þegar byggð eru hótel og sjúkrahús o.þ.h. en alls ekki þegar verið er að byggja íbúðahúsnæði fyrir fjölskyldur.

Það hefur sýnt sig að háhýsi slumvæðast með aldrinum nema í einstaka tilfellum þar sem byggt er í miðju stórborganna. Víða er verið að srengja tiltölulega nýjar byggingar vegna félagslegra vandamála sem oft koma upp í slíkum byggingum.

Nú eru skipulaggjendur farnir að tala um ”vertical slum” (lóðrétt slúm) og bera það saman við ”low rise slum” sem er að sögn mun skárra.

Hjálagt er ljósmynd af háhýsum sem spáð er slærar framtíðar og stiklan frá St. Louis sem sýna hús sem er verið að jafna við jörð.  Það er verið að jafna fjöldan af háhýsum við jörð víða um heim. Oft eru þetta byggingar sem eru innan við 20 ára gamlar.

Nýleg íbúðhús í Singapore sem spáð er ömurlegrar framtíðar sem lóðrétt slum.

Ljósmynd tekin 15. júlí 1972 kl. 15:32 í St. Louis.

Stikla úr heimildarmyndinni „The Prutt-Igoes: An Urban History“

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 23.11.2011 - 11:21 - 6 ummæli

Að sjá með heilanum

 

Þegar ég gekk í arkitektaskóla vorum við send út að “registrera” eins og það hét á dönsku.  Þetta var liður í því að kenna okkur að lesa umhverfið

Að registrera var að skoða eitthvað meðvitað og skrá það hjá sér.  Við vorum látin skoða staði og umhverfi. 

Síðan báru nemendur saman árangurinn. Það kom í ljós að það sáu ekki allir sömu hlutina og þeir sem sáu sömu hlutina sáu þá ekki eins.

Þetta var einskonar vettvangskönnun, en þetta var meira.

Okkur var gert að sjá með heilanum og setja allt í samhengi. Sögulegt og félagslegt samhengi.  Skipulagslegt og arkitektóniskt samhengi.

Þarna fóru líka fram teikniæfingar þar sem fólk þjálfaði huga og hönd um leið og þau skoðuðu það sem fyrir augu bar.  Húsin voru skoðuð, hæð þeirra, saga og gerð.

Og ekki bara það heldur var staðarandinn og mannlífið skoðað.  Það er að segja félagslegt-, umhverfislegt-, skipulagslegt og handverkslegt umhverfi.

Skoðað var hvernig fólk hagaði sér og hvernig það hreyfði sig. Hvernig samskiptin voru og á hverju þau byggðust.

Nemendurnir notuðu helst ekki myndavél.  Heldur gormabækur sem þau teiknuðu í og gerðu skriflega minnispunkta um hugrenningar sínar.

Margir nemendur miskildu þetta og lögðu áherslu á að skila fallegum teikningum. Aðrir gerðu teikningar sem fyrst og fremst innihéldu greinandi upplýsingar.

Myndavélin var ekki vel séð vegna þess að með henni láta nemendur linsunni eftir um að taka eftir og skrá það sem fyrir augu bar.  Linsan gerir heldur ekki greinarmun á aðalatriðum og aukaatriðum. Þess vegna áttu nemendurnir að teikna og skrifa athugasemdir.

Þeir teiknuðu falleg smáatriði í húsunum og stundum húsin sjálf. Það gerðist sjaldan að þeir skráðu rýmin og nánast aldrei lífið i umhverfinu.  Félafslegt líf eða efnahagslegt.

Þeir sáu ekki skóginn fyrir trjám.

Það kom strax í ljós að arkitektanemarnir höfðu ekki burði til þess aðskilja aðalatriðin frá aukaatriðunum. En það lagaðist með þjálfun.

Við erum sífellt að þjálfa okkur í að sjá heildarmyndina, forgangsraða og skilja það sem mestu veldur hvort umhverfið sé gott eða slæmt.

 Við tökum bútana og metum þá og setjum í samhengi.

Sennilega var þetta mikilvægasti þátturinn í arkitektanáminu.  Það er ekki öllum gefið að ná tökum á því að „registrera“ og lesa umhverfið, en það geta allir lært á forrit og að gera verkteikningar og verklýsingar.

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 19.11.2011 - 23:16 - 9 ummæli

Háhýsi eða lága þétta byggð?

.

Margir telja að til þess að ná nýtingarhlutfalli*) lóða upp þurfi að byggja í hæðina og að háhýsi skili meiri nýtingu á þá lóð sem er til ráðstöfunar.

Þetta er skiljanlegt en er ekki alltaf rétt.

Á myndinni efst í færslunni er sýnt hvernig einn hektari byggingalands er notaður á þrjá mismunandi vegu með sama nýtingarhlutfalli.  Efst er háhýsi með 75 einingum húsnæðis.  Næst eru einskonar raðhús þar sem jafnstórum 75 einingum er komið fyrir og neðst er  sama landrýmið þar sem lágri þéttri byggð með 75 jafnstórum einingum er komið fyrir á sama hektaranum. (Ef tvísmellt er á myndina verður hún stór og skýr)

Það er gríðarlegur munur á lausnunum.  Ekki bara hvað ásjón varðar heldur fara gæðin á flestan hátt  hrakandi eftir því sem byggðin er hærri.

Efsta lausnin er fyrir lata verktaka og arkitekta, svo vitnað  sé í arkitektinn Jan Gehl og sú neðsta kallar á mesta vinnu frá hendi arkitektanna.

“Háhýsi eru fyrir lata arkitekta og lata verktaka”

Guðrún Ingvarsdóttir skrifaði eftirfarandi í athugasemdarkerfi vegna síðustu færslu sem fjallaði um háhýsi og segir: ” En þegar rætt er um háhýsi í samhengi við skipulagsmál tel ég að sjónræni þátturinn sé aðeins brot af jöfnunni.  Ekki síður mikilvægur þáttur er þau áhrif sem turnbygginar á norðlægum breiddargráðum hafa á nærliggjandi umhverfi, vindafar og sól.  Ef við værum stödd í miðri afríku væru sviptivindar eflaust vel þegnir til kælinga.  Þegar maður á venjulegum íslenskum degi stígur út úr bíl við Smáratorgsturninn, gengur fram hjá Sólheimablokk eða töltir fram hjá Skuggaturnunum á maður oftar en ekki fótum fjör að launa….. byggð á hverjum stað verður að taka mið af nátturufari og veðráttu – því er það mín skoðun að fara verði varlega í byggingu háhýsa hérlendis…………”

Það má bæta því við athugasemd Guðrúnar að rannsóknir hafa sýnt að félagsleg vandamál fara vaxandi eftir því sem húsin eru hærri og  heilsufar fer hrakandi í réttu hlutfalli við hækkandi hús. Þetta er vegna þess að útivist og félagsleg samskipti fara minnkandi eftir því sem hærra er byggt.

Myndirnar tvær að neðan eru annars vegar úr svokölluðu Skuggahverfi í Reykjavík og hinsvegar af byggðinni á horni Túngötu og Aðalstrætis.  Mér er sagt að nýtingarhlutfallið sé svipað á báðum stöðum eða rétt rúmlega 2.0! Á annarri lóðinni eru húsin 3-4 hæðir en á hinni allt að 18 hæðir.

Þegar hugleiðing Guðrúnar, sem studd er fjölda rannsókna víða að er skoðuð veltir maður fyrir sér hvers vegna enn er verið að byggja háhýsi hér á landi?

*) Hvað er nýtingarhlutfall?

Nýtingarhlutfall er oftast ákveðið í deiliskipulagi.  Nýtingarhlutfall segir til um hvað margir fermetrar eru byggðir á lóðinni sem er til ráðstöfunnar.  Ef lóðin er  1000 fermetrar og byggt er hús sem er 500 fermetrar þá er nýtingarhlutfallið 0,5.  Ef byggðir eru 1000 fermetrar á sömu lóð þá er nýtingarhlutfallið 1.0 og ef byggðir eru 2000 fermetrar á 1000 fermetra lóð þá er nýtingarhlutfallið 2.0.  Algengt er að nýtingarhlutfall í sérbýlislóða í jaðarbyggðum sé um 0,4.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 17.11.2011 - 08:15 - 12 ummæli

Háhýsi-Ilmvatnsglös-Phallus


Arkitektinn Jan Gehl,  heldur því fram að háhýsi nútímans líkist meira ilmvatnsglösum en byggingum.  Enda eru háhýsi oftast skoðuð ofan frá eins og þegar horft er á snyrtiborð kvenna þar sem ilmatnglösin og snyrtivörurnar standa á borðinu.  Hann vill leggja meiri áherslu á arkitektúrinn í augnhæð og lífilð milli húsanna en formmál þeirra.

Í nýlegri könnun varðandi skipulagsslys virðast flestir vera á móti háhýsum. En samt eru þau byggð. Jan Gehl segir að háhýsi séu uppáhald latra arkitekta og latra verktaka.

Ágætur starfsmaður skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, kona, sagðist hafa tekið eftir að karlmenn í arkitektastétt, töluðu meira fyrir háhýsum en konur.  Hún velti fyrir sér hvort þetta væri einhverskonar phallussyndrom.  Ég held að þetta geti verið rétt hjá henni.  Þetta getur líka tengst áhuga karla fyrir því sem er stórt og öflugt.

Fræg er sagan sem Gísli Marteinn Baldursson vísaði til á fésbókarsíðu sinni  í gær þar sem verktaki (developer) James Rouse taldi að menn ættu að hugsa stórt í skipulagsmálum.  Hann vitnaði í Daniel Burnham og sagði:   „Make no little plans, for they have no magic to stir men’s blood,“ Þessu svaraði Jane Jacobs (1916-2006), þekktur aðgerðarsinni og  álitsgjafi í skipulagi, og sagði: „Funny, big plans never stirred women’s blood. Women have always been willing to consider little plans.“ Þetta var á ráðstefnu í Boston árið 1980 og vakti mikla athygli.

Ég fór á netið og „googlaði“  háhýsi, ilmvatnsglös og phallus.

Hér að neðan sést árangurinn.  Fyrst koma háhýsin, síðan ilmvatnsglös og loks phallus.

Það er auðséð að sterk tengsl eru á milli háhýsa, ilmvatnsglasa og phallusa.   Maður veltir fyrir sér hvort lögmálið í hönnun háhýsa sé skildara vöruhönnun en arkitektúr!  Athyglisvert er að um þessar mundir er tískuhönnuðurinn, Pierre Cardin, sem ber ábyrgð á nokkrum ilvatnsglösum að hanna háhýs i bæði í París og Feneyjum.

Myndin að neðan  er af háhýsi í grennd við Feneyjar sem  ilmvatsglasahönnuðurinn Pierre Cardin teiknaði og kallar „Palais Lumiere“.

Kannski væri nærtækara að kalla þetta hús „Phallus Lumiere“  eða „Parfume Lumiere“!!!

Háhýsi í Feneyjum teiknað af tískuhönnuði sem einig hefur reynslu af hönnun ilvatnsglasa

MAD í Kína


Chris bossa i Dubai

Foster i Cannes
Snöhetta fyrir araba

 

Dynamic Architecture i Dubai

Zaha Hadid í Moskvu

Jean Nouvel í Dubai

 

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn