Miðvikudagur 14.9.2011 - 15:47 - 21 ummæli

Landspítalinn þarf að hugsa út fyrir rammann

Eftir að hafa kynnt mér deiliskipulag Landspítalans nokkuð  þá sýnist mér málið líta svona út.

  • Flestir eru sammála um að það sé mikil hagræðing falin í því að starfsemi sjúkrahússins sé á einum stað og að það beri að stefna að því markmiði að sameina starfsemina. Mér sýnist þeir hafi mikið til síns máls.
  • Flestir eru sammála um að heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands verði samtvinnað sjúkrahúsinu og háskólamenn vilja hafa það í göngufæri frá aðalbyggingu Háskóla Íslands. Mér sýnist þeir hafi nokkuð til síns máls.

Það er aðeins eitt sem fólk hefur áhyggjur af.

  • Flestir sem láta heyra í sér og eru ekki hagsmunaaðilar telja staðsetninguna óheppilega og jafnvel ranga. Þetta byggingamagn samræmist ekki byggðinni í kring og þeir telja það of mikið fyrir lóðina. Skipulagið sé ekki í takti við  staðaranda Reykjavíkur og byggðamunstrið í Þingholtunum. Gatnakerfið þoli ekki aukið umferðaálag. Mér sýnist þeir hafi mikið til síns máls.

Það er sennilega ekki miklu hægt að breyta í þessum efnum úr því sem komið er. Verkefnið er að byggja Háskólasjúkrahús af þessari stærð á þessum stað.

Við verðum sennilega að sætta okkur við þessi ósköp.

Bæði staðsetninguna og byggingamagnið.

Vandamálið sem þá þarf að leysa er að mæta þeim sem eru óánægðir og lágmarka inngripið og gera byggingamagnið fyrirferðaminna í umhverfinu þannig að það samræmist byggðamynstrinu og staðaranda Reykjavíkur. Það þarf að stækka lóðina eða minnka húsin.

Eitt af því mikivægasta sem ég lærði í arkitektaskóla var að sjá út fyrir boxið, út fyrir rammann, út fyrir lóðina.

Okkur var kennt að setja allt í stórt samhengi. Ekki bara það sem fyrir augu bar heldur líka í menningarlegt- og félagslegt samhengi.

Landspítalinn þarf að brjóta odd af oflæti sínu og horfa út fyrir rammann, útfyrir lóðina  og byggja hluta starfseminnar utan núverandi lóðarmarka.

Það þarf að stækka Landspítalalóðina ef ekki er hægt að minnka húsin.

Lóðina er hægt að stækka með þeim hætti að byggja hluta bygginganna (c.a.30-40%) sunnan Hringbrautar, segjum allan þann hluta sem er sérmerktur heilbrigðisvísindasviði ásamt sjúkrahóteli og bílastæðahúsum.

Bílastæðahús sunnan Hringbrautar hefðu veruleg ahrif á andrúmið á núverandi spítalalóð og í Þingholtunum eins og þau leggja sig. Umferð í Þingholtum yrðu mun minni en nú er. Stæðin nýttust sjúkrahúsinu jafn sem þeim sem vinna í byggingum umhverfis aðalbyggingu HÍ.

Staðsetning bygginga heilbrigðisvisindasviðs sunnan Hringbrautar væru í mun geðþekkari námd við háskólann en annars. Byggingarnar gætu nýst í báðar áttir, frá vestri til austurs og frá austri til vesturs á þverfaglegan virkan hátt fyrir öll svið HÍ. Háskólahluti sjúkrahússins og bífreiðastæðahúsin gætu einnig nýst til suðurs, til HR. Líklegt er að HÍ og HR sameinist í tímans rás.

Ég geri ráð fyrir að þessi kostur hafi verið skoðaður. Fróðlegt væri að fá að heyra af þeim athugunum.

Hér er rissað inn á uppdrátt hvernig Háskóli Íslands, Landspítalinn og Háskólinn í Reykjavík tengjast. Með því að færa Heilbrigðisvísindasvið, sjúkrahótel og bílastæðahús suður fyrir Hringbraut skapast ný  og góð tækifæri um leið og verulega er létt á Þingholtunum og næsta umhverfi sjúkrahússins.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 13.9.2011 - 21:44 - 10 ummæli

Harpa í heimspressunni

Þrem vikum eftir að Richard Nixon forseti Bandaríkjanna hrökklaðist frá embætti var hann spurður hvernig hann héldi að hans yrði minnst í sögunni? Forsetinn fyrrverandi svaraði um hæl og sagði: ”Það fer eftir því hver skrifar söguna”.

Þetta kom upp í hugan þegar ég var að skoða umfjöllun um Hörpuna í erlendum fjölmiðlum. Maður áttar sig fljótlega á því að fjölmiðlaumræðunni og kynningunni er stjórnað af atvinnumönnum sem eru að þjónusta sinn viðskiptavin.  Stjörnurnar sem að verkinu komu eru með sitt PR fólk sem sér um að skrifa þeirra “sögu”.

Gott dæmi er teiknistofa Henning Larsen sem hefur gefið út veglegt og efnismikið netblað (sjá tengil að neðan) þar sem fjallað er ítarlega um húsið. Í blaðinu er viðtal við einn af stjórnendum Henning Larsen Architects, Peer Teglgaard Jeppesen og hönnunarstjórann (design manager) Ósbjörn Jacobsen. Þarna er einnig viðtal við Ólaf Elíasson myndlistarmann.

Í blaðinu er 31 arkitekt hönnunarteymisins nefndur með nafni. Aðeins tveir íslendingar eru nefndir í þessu stóra teymi. Það kemur á óvart vegna þess að Batteríið arkitektar áttu að mér skilst verulegan hlut að máli. Íslendingarnir sem komu að verkinu samkvæmt Henning Larsen eru þær Andrea Tryggvadóttir og Helga Vilmundardóttir sem hvorug starfar hjá Batteríinu.

Já, nú eru menn byrjaðir að skrifa söguna. Þeir velja það sem þeir skrifa. Segja hvergi ósatt en sleppa því sem þeim finnst hugsanlega komi illa út.

Endilega skoðið bæklinginn sem er fallegur og forvitnilegur. Viðtalið við Peer Teglgaard stjórnanda Hennig Larsen er beinlínis fyndið þegar hann talar um tengslin við borgina annarsvegar og sjóinn hinsvegar.

Slóðin að bæklingnum er þessi:

http://www.pagegangster.com/p/9cQKr/

Það má ekki gleyma því að PR fólk Hörpunnar, Ólafs Eliassonar, Artec Consultans, Henning Larsen og allra hinna fjölmörgu sem að verkinu komu eru um þessar mundir að mata fjölmiðla, hver með sinn sannleika og allir eru þeir aðalmennirnir.

Og ekki efast ég um að  allir lofa þeir  verkið.

Endilega skoðið bæklinginn.


Sjá einnig:

http://www.designboom.com/weblog/cat/9/view/10713/henning-larsen-architects-harpa-concert-hall-and-conference-centre.html

og

http://www.archdaily.com/153520/harpa-concert-hall-and-conference-centre-henning-larsen-architects/

og

http://www.dezeen.com/2011/08/25/harpa-concert-and-conference-centre-reykjavik-by-henning-larsen-architects/#more-150017

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 12.9.2011 - 15:12 - 5 ummæli

Nýr Landspítali við Barónsstíg og Eiríksgötu

 

Páll Torfi Önundarson yfirlæknir og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands sendi síðunni hjálagða grein. Hér fjallar hann um tvo staðsetningarvalkosti á lóð gamla Landsspítalans sem hann telur kunni að vera enn hagkvæmari og falla betur að byggðinni en sú staðsetning sem nú er til umræðu. 

Inngangur

Ný skipulagstillaga Landspítala hefur nú verið kynnt og sýnist sitt hverjum og ekki er laust við að sundurlyndisfjandinn leik lausum hala. Með þeim breyttu byggingaráformum, sem fyrir liggja mun afleit aðstaða sjúklinga og sérhæfðustu lækninga á Íslandi vonandi færast í nútímahorf og talið er að veruleg hagræðing náist vegna samlegðaráhrifa. Þótt ég styðji eindregið byggingu nýs spítala ætla ég þó í þessari grein að benda á annan staðsetningarvalkost á lóð gamla Landspítalans, sem ég tel að kunni að vera enn hagstæðari og falla betur að annarri byggð heldur en sú staðsetningartillaga, sem unnið er eftir á neðri lóð sjúkrahússins. 

 

Forsaga og staðsetningarákvörðun

Landspítali er endastöð sérhæfðustu lækninga á Íslandi og aðal-kennslusjúkrahús landsins. Þótt rekstur Landspítala hafi verið sameinaður árið 2000 og álag og umfang starfsins hafi aukist árlega, starfar sjúkrahúsið í gömlu, óhentugu, þröngu og bókstaflega sjúklingafjandsamlegu húsnæði, sem dreift er um Reykjavík. Það var ljóst frá upphafi, að ef sameining sjúkrahúsanna ætti að skila fullum árangri, faglega og rekstrarlega, þá yrði að koma sem mestri bráðastarfsemi, þ.e. flestöllum sérgreinum lækninga, sem fyrst í eitt hús. Það er ógerningur í núverandi húsnæði. 

 

Í grein í Morgunblaðinu 29. mars 2001 gerði ég að tillögu minni að strax yrði hafist handa við byggingu “bráðaþjónustuhúss án legudeilda, sem byggðar yrðu síðar” á efri hluta lóðar gamla Landspítalans.  Tillagan hlaut ekki undirtektir stjórnenda, sem notuðu næstu misserin til þess að vinna miklu stærri nýbyggingu fylgis og til þess að skoða framtíðarstaðsetningu sjúkrahússins á öllu Reykjavíkursvæðinu. Árið 2002 ákváðu stjórnvöld, að framtíðaruppbygging sameinaðs Landspítala yrði á lóðinni “við Hringbraut”, þ.e. milli Barónsstígs, Eiríksgötu og Hringbrautar.  Sú ákvörðun byggði m.a. á þeirri staðreynd, að á Hringbrautarlóð væri þá þegar miklu meira nýtanlegt byggingamagn (um 60.000 fermetrar, 67%) heldur en á lóðinni í Fossvogi (um 30.000 fermetrar, 33%).  Einnig var tekið tillit til staðsetningar kennsluspítalans í nálægð við Háskólann og flugvöllinn, nýr barnaspítali hafði verið reistur við Barónsstíg og uppbyggingarsjónarmið í miðborg Reykjavíkur vógu nokkuð.

 

Vorið 2006 var svo kynnt tillaga um að byggja upp frá grunni nýtt risastórt (um 135.000 fermetra) kennslusjúkrahús neðan gamla Landspítalans á stækkaðri “Hringbrautarlóð”, sem fól m.a. í sér flutning Hringbrautar í suður skv. nýju deiliskipulagi. Óskað var eftir athugasemdum við deiliskipulaginu.  Að áliti undirritaðs vék þetta deiliskipulag einni aðalforsendu ákvörðunar um staðsetningu Landspítala í miðbænum til hliðar því sú tillaga gerði ráð fyrir tiltölulega litlum notum af eldri byggingum á efri hluta lóðarinnar á Hringbraut. Gerði ég þá aftur tillögu um minni og að mínu mati hagsýnni stækkun spítalans með aðaláherslu á byggingu bráðaþjónustuhúss á efri (þ.e. núverandi) hluta lóðarinnar í fyrsta áfanga.  Kynnti ég hugmyndina á fundum og birti ég um hana grein í Morgunblaðinu 2. júní 2006). Þessi tillaga var lík gamalli tillögu White arkitekta um áratug fyrr.  Aftur hlaut tillagan engar undirtektir stjórnenda.  En eitthvað stóð stórbyggingin í æðstu ráðamönnum og í ljósi efnahagsaðstæðna haustið 2008 frestaði Alþingi svo nýbyggingunni við setningu fjárlaga.

 

Bráðaþjónustuhús við Hringbraut

Eftir að hafa metið stöðuna og kynnt sér fyrri tillögur, þ.á.m. tillögur undirritaðs, gerði Hulda Gunnlaugsdóttir þáverandi forstjóri Landspítala snemma árs 2009 í samvinnu við norska arkitekta formlega tillögu um byggingu bráðaþjónustuhúss, þ.e. um 66.000 fermetra nýbyggingu á neðri hluta Hringbrautarlóðar í stað þeirrar 135.000 fm byggingar sem áður var fyrirhuguð á sama stað.  Það er þessi tillaga, sem er í hönnun sem fyrsti áfangi hins nýja skipulags, sem kynnt hefur verið. Bráðaþjónustuhúsið við Hringbraut verður hjarta hins nýja sjúkrahúss, þ.e. bráðamóttaka, röntgendeildir, skurðstofur, gjörgæsludeildir og rannsóknastofur og einnig nýjar legudeildir. Ólíkt tillögu minni gerir “norska tillagan” ráð fyrir því, að bráðaþjónustuhúsið verði byggt á reit rétt sunnan við gamla spítalann en neðar í brekkunni. Tillagan leysir brýnasta vanda sjúkrahússins næstu árin og tryggir faglega sameiningu stórs hluta bráðastarfseminnar í eitt nútímalegt hús. En ásýnd spítalans og Reykjavíkur breytist mikið verði neðri hluti lóðarinnar valinn – og nýting gömlu húsanna verður e.t.v. ekki jafn góð eins og ef efri lóðin væri valin.

 

Er annar valkostur á Hringbrautarlóð?

Þótt ég styðji eindregið áform um byggingu bráðaþjónustuhúss sem allra fyrst leyfi ég mér í þessari grein að ítreka staðsetningarmöguleika bráðaþjónustuhússins á efri hluta lóðarinnar. Staðsetning á nýbyggingum efri hluta lóðarinnar myndi hugsanlega leysa mesta húsnæðisvandann miklu fyrr en norska tillagan. Á efri lóðinni má nefnilega byggja sjúkrahúsið upp í smærri áföngum sem komast strax í gagnið með áherslu á bráðastarfsemi í fyrsta áfanga, þ.e. annað hvort við Barónsstíg þar sem “Kringlan” er núna eða við Eiríksgötu í framhaldi af W-væng.  Með staðsetningu húsanna á efri lóðinni skapast strax styttri og betri innanhústengingar við núverandi húsnæði, t.d geðdeild og barnadeildir. M.ö.o. nýtast eldri byggingar miklu betur næstu árin, sem gæti verið skynsamlegt í brimróti skuldadaga Íslendinga.  Stækka mætti K-byggingu sem rannsóknastofubyggingu en stækkun er fullhönnuð og með byggingarleyfi. Eins fljótt og auðið er mætti svo byggja nýjar byggingar og tengibyggingar á efri hluta lóðarinnar (þar sem gamli Hjúkrunarskólinn stendur nú og í suðurátt) eða þar sem gamli blóðbankinn og líffærameinafræðin er nú. Staðsetning spítalans við Eiríksgötu hefði einnig mun minni áhrif á ásýnd spítalans í heild, Skólavörðuholtsins og Þingholtanna heldur en bygging neðan gamla spítalans en það hlýtur að skipta borgarbúa máli.

 

Lokaorð

Bygging þjóðarsjúkrahúss er verkefni, sem skilur eftir sig risaspor til framtíðar. Byggingin er nauðsynleg en deila má um staðsetninguna en þó ekki út í það óendanlega. Undirritaður styður nýbyggingu sjúkrahúss en ítrekar skoðun tillögu þess efnis að staðsetja mætti hjarta sjúkrahússins á efri lóð Landspítalans milli Barónstígs og Eiríksgötu en ekki neðar á lóðinni við Hringbraut eins og núverandi tillögur ganga út á.  Með því myndi gamla Hringbrautin og sjónlínur frá 1930 til gamla spítalans haldast lítt breyttar. Mikilvægt er þó að tillaga sem þessi leiði ekki til seinkunar byggingaráforma.  Því þurfa skipulagsyfirvöld Reykjavíkurborgar að taka af skarið hið fyrsta þannig að hagkvæmnis- og ásýndarsjónarmiðum sé mætt

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 11.9.2011 - 11:37 - 7 ummæli

LSH – Sjónarmið heilbrigðisvísindafólks

Magnús Karl Magnússon prófessor við læknadeild Háskóla Íslands hefur lagt til málanna í umræðu um uppbyggingu háskólasjúkrahússins við Hringbraut.

Hann sendi inn athugasemt við færslu sem heitir ”Landsspítalinn –Öskubuskueinkenni”

Þar fjallar hann um mikilvægi samþættingar á starfssemi Háskólasjúkrahússins og Háskóla Íslands ásamt því að svara áleitnum spurningum.

Gefum Magnúsi Karli orðið:

”Þakka góðan pistil, samlíkingin er ágæt en mér finnst þó dálítið skrítið að líkja hagsmunum sjúklinga við vondu stjúpsysturina! En látum það liggja milli hluta.

Það er rétt að það komi strax fram að ég er prófessor við Læknadeildina og rétt að lesa mín komment með það í huga.


Þú spyrð góðra og mikilvægra spurninga:
1. „Er aðalatriðið ekki að hann sé allur á einum stað?“
2. „Sama má segja um hagsmuni Háskólans. Ég hefði viljað heyra hvort það skipti höfuðmáli hvort heilbrigðisvísindasvið sé einhverri fjarlægð frá aðalbyggingu HÍ svo fremi það sé í nánum tengslum við sjálft sjúkrahúsið?“

Varðandi spurningu nr. 1. Allt á einum stað eða ekki? Það skiptir miklu máli að öll bráða- og leguþjónusta (bráðamóttökur og legudeildir) sé öll á einum stað. Þannig næst mikill sparnaður, ekki þarf tvær röntgen- eða rannsóknardeildir eins og nú þarf. Sama gildir um samvinnu ólíkra sviða/deilda. Flestir mikið veikir sjúklingar þurfa a þjónustu margra deilda og slík þjónusta verður þeim mun betri sem samvinna þessara deilda er nánari. Þannig verður þjónustan hagkvæmari og hún verður einnig betri fyrir sjúklingana. Með öðrum orðum, ódýrari og betri heilbrigðisþjónusta.

Varðandi spurningu 2; hagsmunir háskólans og nálægð heilbrigðisvísinda við önnur svið skólans. Það eru fjölmörg og sterk rök sem þarna liggja að baki líka. Þar er fyrst til að telja samvinna heilbrigðisvísinda við aðrar deildir. Þau er nú þegar mjög mikil á sviði vísinda- og rannsókna og þau munu mjög aukast á næstu árum. Sem dæmi þá eru mjög vaxandi samvinna verkfræði og lífvísinda á fjölmörgum sviðum rannsókna. Þar má nefna vefjaverkfræði, þróun nýrra tækja og síðan nýjar fræðigreinar, s.s. kerfislíffræði sem nú þegar er ein af sterkari rannsóknardeildum HÍ og er rekin í nánu samstarfi Verk og náttúruvísindasviðs og Heilbrigðisvísindasviðs. Í öðru lagi eru flestir sammála umþað að í uppbyggingu háskóla framtíðarinnar þá sé þverfræðileg nálgun mjög mikilvæg. Slík nálgun er nauðsynleg til að leysa ýmis af stóru vandamálunum framtíðararinnar, s.s. loftslagsbreytingar, félagsleg vandamál hraðra þjóðfélagsbreytinga o.s.frv. Í þriðja lagi, þá er HÍ þrátt fyrri allt mjög lítill háskóli. Hann mun þurfa að nærast á mikilli samvinnu deilda, m.a. með samnýtingu tækja. Þannig eru ýmsar deildir í HÍ í dag nú þegar í mikilli samvinnu við læknadeild s.s lífræðiskorin. Í fjórða lagi þá má benda á að Vatnsmýrin er hugsuð sem þekkingarþorp Reykjavíkur. Heilbrigðisvísindi eru án efa eitt sterkasta fræðasvið HÍ. Að flytja þá starfsemi úr Vatnsmýrinni væri í algerri andstöðu við skipulagsmarkmið um þekkingarþorp og þekkingruppbyggingu. Eitt af sterkustu rannsóknafyrirtækjum heims, Íslensk Erfðagreining er lykilaðili í þessu þekkingarþorpi. Nálægð við heilbrigðisvísindi HÍ og LSH eru augljóslega mikilvæg bæði fyrir tækinu og þessum stofnunum.

Ég skil áhyggjur af umferðarvandamálum en ég tel að þarna eigi allir aðilar leggjast á eitt um að breyta ferðavenjum okkar. Í athugasemd hér fyrir ofan segir Guðrún Bryndís:
„Hvort er verið að byggja utanum starfsemina eða aðlaga fólk að byggingunni?“
Ég held að við eigum að nota skipulagsákvarðanir til að aðlaga fólk að borgarsamfélagi („aðlaga fólk að byggingunni“!!) . Ég segi það kinnroðalaust og vona að borgaryfirvöld og áhugafólk um skipulagsmál séu sammála mér. Hingað til hafa skipulagshugmyndir haft veruleg áhrif á hegðun Reykvíkinga. Það er mjög gott samhengi milli fjölda bifreiða og stefnu borgaryfirvalda að dreifa byggðinni. Þessu þarf að snúa við. Ef að við erum aldrei tilbúin að taka þann slag að snúa við þeirri þróun þá mun ekkert breytast.

Það er stundum talað um ógurlegt byggingarmagn á þessum fermetrum sem þarna standa til boða. Mér sýnist þó að byggingarmagnið sé mun nær því sem við viljum sjá í borgarumhverfi. Það verður að líta á byggingarmagnið í samhengi við skipulagsáætlanir framtíðarinnar ekki nálægrar fortíðar (þar sem mantran var dreifð byggð). Samkv. tillögum borgarinnar um Vatnsmýrina (Massey tillagan) er reiknað með 3-5 hæða þéttri byggð rétt eins og sjúkrahúsbyggingarnar eru. Mér sýnast þessar byggingar falla vel inn þær hugmyndir“.

Í næstu færslu mun Páll Torfi Önundarson yfirlæknir og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands fjalla um tvo staðsetningarvalkosti á lóð gamla Landsspítalans sem hann telur kunni að vera enn hagkvæmari og falla betur að byggðinni en sú staðsetning sem nú er til umræðu.



Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 9.9.2011 - 11:59 - 10 ummæli

LSH – Stórkallalegt skipulag

Guðlaugur Gauti Jónsson arkitekt hefur kynnt sér deiliskipulag Landspítalans vel. Hann sendi eftirfarandi pistil í athugasemdarkerfi vefsíðunnar; ”Landspítalinn-Öskubuskueinkenni”

Athugasemdin á erindi í umræðuna og er birt hér með hans leyfi ásamt ljósmyndum sem eru frá honum fengnar.

„Mér finnst skipulagstillagan í öllum meginatriðum sýna fram á að þetta byggingarmagn kemst ekki fyrir á þessum stað. Ég veit ekki hvort menn gera sér grein fyrir að samkvæmt tillögunni verða byggingarnar sem fyrir eru almennt þær minnstu á lóðinni.

Nýbyggingarnar verða að mestu 5-6 hæða frá götu en húsið hans Guðjóns er t.d. 3½ hæð og byggingarnar fyrir aftan það jafnháar en rúma einni hæð meira vegna annars byggingarmáta. Læknagarður, sem er ekki lítið hús, verður einni hæð lægra en húsin í kring.

Samkvæmt tillögunni verður meðferðarkjarninn 4-6 hæðir frá Neðrigötu, 6 hæðir frá Sóleyjartorgi og 5 hæðir frá Efrigötu. Á Efri- og Neðrigötu verður skuggi langmestan hluta ársins vegna húsahæðanna og húsalengdanna, en meðferðakjarninn verður um 1½ fótboltavöllur (150-160 m) að lengd. Dæmi um hús af þessari stærð er Borgartún 8-16 þar sem skrifstofur borgarstofnanna eru til húsa. Það hús er 6 hæðir með inndreginni 7. hæð og um 110 m á lengd, 40-50 m styttra en meðferðarkjarninn.

Til dæmis um þau vandræði sem skapast vegna þessarar staðsetningar á LSH má kannske benda á að beint fyrir utan gluggana á legudeildunum og ofan á rannsóknahúsinu, sem væntanlega er fullt af hárnákvæmum tækjabúnaði, verður þyrlupallur. Það verður sýning í lagi þegar þyrlan skellir sér þar niður að næturlagi.

Ég hlustaði á mál þeirra félaga Hjálmars Sveinssonar og Gísla Marteins Baldurssonar sem báðir koma til með að hafa um framtíð þessa máls að segja. Í máli þeirra fannst mér koma fram veigamikil rök fyrir því að þessi staðsetning passi ekki fyrir þetta byggingarmagn og þessa starfsemi:

1. Þungamiðja búsetu liggur talsvert austar í borginni en þungamiðja atvinnutækifæra.
2. Of háar og of langar byggingar.
3. Byggingar falla illa að núverandi byggðamynstri.

Í skipulagi er oftast hægt að koma fyrir því byggingarmagni sem menn vilja á tilteknu landsvæði ef byggingarmagnið er eina eða langveigamesta forsendan sem skipuleggendur gefa sér. Ef menn vilja hinsvegar halda heiðri við gamalgróin vinnubrögð við að skapa fólki og fyrirtækjum gott og heilsusamlegt umhverfi þá þarf að taka tillit til margra annarra þátta en byggingarmagns. Það hefur að mínu mati ekki verið gert nægjanlega mikið í þessari tillögu.

Sumir tala um að þéttleiki byggðarinnar á lóðinni sé ekki meiri en víða gerist í borgum erlendis. Það kann að vera rétt en aðstæður erlendis eru ekki þær sömu og hérlendis. Hnattstaða er ráðandi um sól og skugga og oftast um veðurfar líka en hvorutveggja hefur afgerandi áhrif í skipulagi.

Það er vert að geta þess að tölvumyndirnar sem fylgja kynningunni sýna ekki ýtrustu mörk deiliskipulagstillögunnar. Sumt er líka villandi. Ég nefni t.d. að stærð Gamla hússins virðist óeðlilega mikil þegar horft er frá Sóleyjartorgi. Aðkoma fyrir bráðamóttöku er frá neðri hluta Sóleyjartorgs og samkvæmt tillögunni fer allur neðri hlutinn undir bílastæði og þarna má líklega reikna með talsverðri umferð.

Líkingin við Öskubusku sem Hilmar notar er glettilega góð og það má halda dálítið áfram með hana. Stjúpsysturnar limlestu sig til að komast í skóinn góða þannig að önnur sneið af sér stóru tánna en hin hælinn. Það voru svo dúfur sem bentu prinsinum og hans mönnum á að það væri blóð í skónum. Hvar eru dúfurnar núna?“

Í næstu færslu mun Magnús Karl Magnússon prófessor við HÍ  fjalla um mikilvægi samþættingar á starfssemi Háskólasjúkrahússins og Háskóla Íslands ásamt því að svara áleitnum spurningum.

Myndin efst er af Læknagarði við Hringbraut sem er einni hæð lægri en fyrirhugaðar byggingar sem tengjast garðinum. Hinar myndirnar tvær eru af húsinu við Borgartún sem fjallað er um í greininni. Ljósmyndirnar og fyrirsögnin koma frá Guðlaugi Gauta arkitekt.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 7.9.2011 - 22:41 - 7 ummæli

High Line Park í New York- Miklabraut?

Hugsum okkur að búið væri að þétta Reykjavíkurborg, gera hverfi hennar sjálfbærari en nú er og koma upp sæmilegum almenningssamgöngum þannig að hraðbraut eftir borginni endilangri væri orðin óþörf.

Þá opnast kannski tækifæri til þess að mjókka Hringbraut frá Ánanaustum eftir Miklubraut alla leiðina upp í Mosfellsbæ. Fella niður 2-4 akgreinar þannig að gatan yrði aðeins 2 akgreinar alla leiðina.

Landið sem fór undir 2-4 óþarfa akgreinarnar yrði síðan sameinað helgunarsvæðum hraðbrautarinnar. Í framhaldinu væri landsvæðið endurhannað  sem 15 km langur almenningsgarður með hjólastígum, göngubrautum, áningarstöðum og yndislegheitum. Garðurinn tengdist svo stærri útivistarsvæðum á leiðinni, Hljómskálagarði, Klambratúni o.s.frv.

Ekki ósvipað hefur gerst í New York undanfarið. Hluti Broadway er orðin göngugata og brautarstæði fyrir járnbraut frá upphafi síðustu aldar sem ekki er lengur þörf fyrir var breytt í svifandi “almenningsgarð” sem er tæplega 2,5 km langur.

Eftir að hætt var að nota lestarteinana um 1980 komu fram óskir um að fjarlægja þá.

Í framhaldinu  stofnuðu aðgerðarsinnar samtökin “Friends of the High Line” þar sem Joshua David og Robert Hammond, sem bjuggu í grendinni,  voru í fararbroddi. Teinarnir voru á súlum og svifu 7-8 metrum yfir gatnakerfinu.

Samtökin  vildu vernda járnbrautina og finna henni nýtt hlutverk, breyta teinunum í almenningsgarð.  Og það tókst með miklum ágætum.

Garðurinn hefur nú verið opnaður og vakið heimsathygli.

Hjálagt eru nokkrar ljósmyndir ásamt skemmtilegu myndbandi þar sem spjallað er við Robert Hammond o.fl.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 6.9.2011 - 12:06 - 19 ummæli

Landspítali – Öskubuskueinkenni

Á kynningarfundi um deiliskipulag Landspítalans sem haldinn var fyrir réttri viku tóku til máls þau Gunnar Svavarsson, formaður bygginganefndar, Björn Zöega forstjóri, Kristín Ingólfsdóttir háskólarektor og Helgi Már Halldórsson hönnunarstjóri.

Þeim mæltist öllum  vel  um skynsamlega hluti sem allir eru sammála um. Þ.e.a.s hagkvæmni stærðarinnar, mikilvægi þess að heilbrigðisvísindasvið HÍ sé allt á einum stað og samtvinnað Háskólanum o.s.frv.

Að loknu máli þeirra fór Helga Bragadóttir verkefnisstjóri deiliskipulags yfir skipulagsdrögin. Hún talaði mest um innra fyrirkomulag lóðarinnar, gróðurvernd og þ.h. en setti skipulagsdrögin ekki í samhengi við borgarskipulagið.

Þeir Borgarfulltrúar, Gisli Marteinn Baldursson og Hjálmar Sveinsson voru í stórskemmtilegu viðtali á RUV í morgun þar sem þeir fóru yfir málið og voru furðu sammála. Svo heyrði ég  velferðaráðherra í útvarpinu áðan sem sagði að hann væri ekki í vafa um hagræði framkvæmdarinnar.

Allir þessir aðilar sögðu að þetta væri skynsamleg framkvæmd og um það eru flestir sammála. Hinsvegar eru margir áhyggjufullir vegna staðsetningarinnar. Þeirra á meðal er ég.

Ég fór á fyrrnefnda kynningu í síðustu viku til þess að sjá hvort höfundum skipulagsins hefði tekist að aðlaga tillöguna betur byggðarmynstrinu frá því samkeppnistillagan var lögð fram fyrir rúmu ári? Hvort þeim hefði tekist að finna arkitektóniskan samhljóm með byggðinni í grenndinni? Hvort tekist hafi að milda inngripið?

Ég kom líka á kynninguna til þess að fá að vita hvort það skipti miklu máli  hvar spítalinn er staðsettur?  Er aðalatriðið ekki að hann sé allur á einum stað?  Sama má segja um hagsmuni Háskólans. Ég hefði viljað heyra hvort það skipti höfuðmáli hvort heilbrigðisvísindasvið sé einhverri fjarlægð frá aðalbyggingu HÍ svo fremi það sé í nánum tengslum við sjálft sjúkrahúsið?

Ég fékk ekki nein svör við þessum hugðarefnum mínum enda var þetta ekki rætt á kynningunni og engar fyrirspurnir leyfðar úr sal(!).

Hugsanlegt er að frummælendum hafi fundist staðsetningin afgreidd og ekki þurfi að ræða hana frekar og að það væri að bera í bakkafullan lækinn að byrja á því aftur. Það er auðvitað misskilningur og sjálfsagður hlutur að reifa málið þegar tilefni er til.

Það læðist að manni sá grunur  að ástæðan fyrir því að þetta var ekki nefnt sé sú að frummælendur séu ekki sáttir við niðurstöðuna eða treysti sér ekki til þess að verja staðarvalið opinberlega. Það skil ég vel. En auðvitað vísa þau þessum grun mínum á bug.

Niðurstaða staðarvalsins sýnist mér í anda Grímsævintýrisins um Öskubusku. Þar voru illa innrættar stjúpsystur að reyna að troða allt of stórum fótum sínum í pínulitla fallega skó Öskubusku í von um að verða gefnar prinsi einum. Það mistókst.

Erum við ekki í þeirri stöðu að minnka þurfi fótinn (spítalinn) svo hann passi í skóinn (lóðina). Eða finna annan skó annars staðar sem passar fætinum?

Mér sýnist að þrír aðilar komi að staðarvalinu. Það er sjálfur spítalinn, það er háskólinn og það er borgarsamfélagið. Ég horfi t.a.m. á þetta sem borgari sem vill búa í yndislegri harmóniskri borg þar sem fagurfræði og borgarstarfsemin haldast í hendur í mikilli harmóníu.

Því miður sýnist mér að þrælskipulagt háskóla- og spítalaumhverfið hafi notið aflsmunar gegn óskipulögðum borgurum sem flestir standa örvæntingafullir á hliðarlínunni.

Ég var hissa á að enginn fulltrúi borgarbúa var meðal frummælenda á kynningunni. T.a.m. fulltrúar íbúasamtaka einhverra hverfa borgarinnar.

.

.

.

.

Hér eru slóðir að nokkrum erindanna í kynningunni ásamt myndbandi:

Kynning Kristínar Ingólfsdóttur rektor HÍ:

http://www.nyrlandspitali.is/nyrlandspitali/upload/files/drog_deiliskipulag_august2011/haskoli_og_haskolasjukrahus__kristin_ingolfsdottir_.pdf

Helgi Már Halldórsson hönnunarstjóri SPITAL:

http://www.nyrlandspitali.is/nyrlandspitali/upload/files/drog_deiliskipulag_august2011/nlsh02-s08-000-31122011-heildarverkefni-txt.pdf

Helga Bragadóittir verkefnisstjóri deiliskipulags:

http://www.nyrlandspitali.is/nyrlandspitali/upload/files/drog_deiliskipulag_august2011/nlsh02-s08-000-30122011-deiliskipulagsdrog.pdf

Kynningarmyndband:

http://nyrlandspitali.is/nyrlandspitali/islenska/fjolmidlatorg/myndir_fyrir_fjolmidla/kynningarmyndband/

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 4.9.2011 - 14:21 - 21 ummæli

Landspítalinn – innlegg borgarfulltrúa

Borgarfulltrúarnir Dagur B. Eggertsson og Gisli Marteinn Baldursson hafa blandað sér í umræðuna um hugsanlegan umferðavanda vegna nýbyggingar Landspítalans. Þeir eru nokkuð sammála þó þeir séu á sitt hvorum væng stjórnmálanna. Þeir vilja báðir auka hlut almenningsflutninga í borginni og að fólk gangi meira og hjóli.

Því ber að fagna.

Gísli Marteinn tjáði sig í athugasemdarkerfi vefsíðunnar í síðustu færslu (liður 11 og 13) þar sem fram kemur sterk sýn hans á heildarmyndina og þróun vesturhluta borgarinnar næstu áratugina. Gísli Marteinn rökstyður skoðun sína ágætlega og telur að með þéttingu byggðar vestan Kringlumýrarbrautar muni umferðin minnka og grundvöllur almenningsflutninga styrkjast.

Þetta er að líkindum rétt mat hjá Gísla Marteini.

Dagur B. Eggertsson tjáir sig í Ríkisútvarpinu í dag og slær hugmyndir um mislæg gatnamót út af borðinu. Hann afgreiðir sérfræðingin Ólaf Guðmundsson, verkefnisstjóra EuroRap sem er samevrópskt vegaeftirlitskerfi, með að segja að hugmyndin sé “fráleit” og bætir við “að flestar borgir séu horfnar frá lausnum sem felast í slaufugatnamótum”.

Þarna finnst mér Dagur þurfi að ganga lengra og skýra málið betur. Þessi afgreiðsla nægir ekki.

Stjórnmálamenn þurfa að gæta sín þegar þeir taka þátt í umræðu um bygginga- og skipulagsmál.

Því er nefnilega þannig háttað að fólk almennt er vel upplýst og hefur vaxandi áhuga á umhverfi sínu. Það vill upplýsta umræðu en ekki órökstuddar staðhæfingar. Ég er ekki að segja að Dagur hafi ekki rök fyrir skoðun sinni. Ég segi bara að hann þurfi að upplýsa okkur um rökin.

Dagur  telur umferðasérfræðinginn, Ólaf Guðmundsson; hafa rangt fyrir sér og styður skoðun sína með því að benda á hvernig þetta er gert í “flestum borgum” án þess að nefna einstök dæmi.

Ég hef trú á því að í þeim borgum sem Dagur hefur í huga sé þéttleikinn mun meiri en hér í Reykjavík og að aukin notkun almenningsflutninga sé afleiðing góðrar almenningsþjónustu og góðu borgarskipulagi.

Ætli það sé ekki þannig að eftir að búið er að þétta borgina, byggja neðanjarðarlestarkerfi eða  þegar búið er að koma upp virku almenningsvagnakerfi þar sem vagnarnir koma með 5-7 mínútna millibili og ekki er lengra en 400 metrar út á stoppistöð að þá fyrst sé grunvöllur til þess að setja fram áætlanir sem byggja á almenningssamgöngum í stað einkabíla.

Þessar hugmyndir umferðavanda Landspítalans minna á danska stjórmálamanninn sem lagði til í svipaðri umræðu að það yrði alltaf meðvindur á reiðhjólastígunum til þess að létta hjólandi fólki að komast leiðar sinnar.

Það er rétt að hafa það í huga að Reykjavíkurborg er skipulögð eins og úthverfi. Í slíku skipulagi er kostnaðarsamt að reka virkt almenningsflutningakerfi í samkeppni við einkabílinn. Þess vegna er það meginhlutverk skipulagsyfirvalda nú að þétta byggðina.

Til þess að forðast misskilning þá endurtek ég þá skoðun mína sem marsinnis hefur komið fram í þessum pistlum að einkabíllinn er slæmur kostur til samgangna í borgum. Því fagna ég allri umræðu  og aðgerðum um betri almenningssamgöngur á kostnað einkabílsins.

Sjá umfjöllun RUV:

http://www.ruv.is/frett/mislaeg-gatnamot-fraleit-hugmynd

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 3.9.2011 - 00:10 - 18 ummæli

Landspítalinn – umferðamál


Fyrir hálfu öðru ári fóru fram  nokkrar umræður um staðsetningu Landspítala Háskólasjúkrahúss við Hringbraut.

Þáttakendur veltu mikið fyrir sér áhrifum bygginganna á umferðarmál í borginni og sérstaklega í grennd við spítalann.

Hópur málsmetandi manna hafði áhyggjur af þessu og taldi að gatnakerfið þyldi ekki  það álag sem nýbyggingarnar kölluðu á.

Forsvarsmenn uppbyggingar Landsspítalans töldu mér og fleirum trú um að þessar áhyggjur væru ástæðulausar og studdu þeir álit sitt  með nokkrum rökum.

Andstæðingar staðsetningarinnar bentu  á að 70% atvinnutækifæra borgarinnar væru vestan Kringlumýrarbrautar og að stefna þyrfti að því að ná jafnvægi í þessum málum. Þeir töldu líka að flutningsgeta gatnakerfisins væri þegar nánast að fullu nýtt.

Þeir töldu að skynsamlegra væri að byggja sjúkrahúsið austar í borginni til þess að minnka þennan mun og draga úr bifreiðaumferð og nýta núverandi gatnakerfi betur. Fjölga ætti atvinnutækifærum í austur hluta borgarinnar.

Nefndir voru ýmsir staðir fyrir spítalann, svo sem við Borgarspítala og bent var á landssvæði í góðum tengslum við stofnbrautarkerfi höfuðborgarsvæðisins við Elliðaárósa og Vífilsstaði.

Umræðan hjaðnaði enda var ekki ástæða til þess að draga álit sérfræðinga spítalans í efa.  Spítalinn taldi ástæðulaust að hafa áhyggjur af þessu og honum var treyst.

Álit spítalans og þeirra sérfræðinga sem hann réði til verksins til vó þyngra en álit  áhugamannahópa og sérfræðinga þeirra sem voru að skoða þetta í frítíma sínum að eigin frumkvæði.

Nú um þessar mundir er verið að kynna drög að deiliskipulagi vegna framkvæmdarinnar.

Stax á fyrsta degi kynningarinnar komu fram atriði sem ég minnist ekki að hafa heyrt áður.

Í fyrsta lagi að ein af forsendum lausnar umferðamála sé sú að Reykvíkingar fari frekar gangandi, á hjóli eða í strætó til vinnu sinnar en áður.

Þarna er ekki um minna að ræða en menningarbyltingu í samgöngumálum borgarinnar og hún á að vera afstaðin eftir 6 ár.  Nær væri að halda að slík bylting tæki mannsaldur  að því tilskyldu að þjónusta almenningflutningakerfis væri með öðrum hætti en nú er.

Í öðru lagi kemur fram að nauðsynlegt sé að ráðast í umfangsmiklar samgöngubætur á Miklubraut frá Grensásvegi og koma götunni í “frítt flæði” alveg niður í miðbæ með mislægum gatnamótum.

Þarna hallar nokkuð á hlut þeirra sem eru í forsvari spítalabyggingarinnar. Auðvitað áttu þau á sínum tíma að vekja sérstaka athygli á þessum vangaveltum til þess að gera umræðuna sanngjarnari og dýpri eða kannski frekar breiðari.

Þegar umræðan fer svona fram er hún ekki sannfærandi.  Svona lagað vekur upp tortryggni og vantraust. Upplýsigar eins og þessar hljóta að hafa legið fyrir þegar endanleg ákvörðun um staðsetningu spítalans var tekin.

Það er grundvallaratriði í allri umræðu að engu, sem máli skiptir, sé haldið til hliðar eins og hér virðist hafa verið gert.

Þeir sem á valdinu halda, í okkar umboði, mega ekki forðast eða hafna efasemdarröddum heldur taka þeim fagnandi vegna þess að þannig gefst tækifæri til þess að rökstyðja niðurstöðuna faglega í málefnalegri umræðu og ná  sáttum. Hitt er ekki heillavænlegt og grefur gröf milli spítalans og fólksins.

Greinargerð með skipulaginu má finna á þessari skóð:

http://www.nyrlandspitali.is/nyrlandspitali/upload/files/drog_deiliskipulag_august2011/nlsh03_deiliskipulag.pdf

Sjá einnig:

http://www.ruv.is/frett/bjartsynn-a-betri-samgongur

http://www.ruv.is/frett/mislaeg-gatnamot-naudsynleg


Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 1.9.2011 - 07:08 - 3 ummæli

Óðinstorg, Káratorg og Baldurstorg í Reykjavík

Rannsóknarhópurinn “Borghildur” hefur starfað í Reykjavík í tæp tvö ár.

Hópurinn einbeitir sér að öllu sem viðkemur mannlífi í Reykjavík og hefur birt á heimsíðu sinni afar áhugavert efni um mannlíf á götum, torgum og görðum í miðbæ Reykjavíkur.

Meðal efnis á síðu Borghildar er  stórskemmtilegt myndband um Óðinstorg, Baldurstorg og Káratorg sem má skoða hér að ofan.

Mikinn fróðleik um vinnu Borghildar má finna á stórgóðri  heimasíðu hópsins.

Efnið sem er bæði greinandi og lýsandi er mikilvægt innlegg í umræðuna um skipulagsmál og mannlíf í borginni.  Þar er m.a. fjallað um tilraunir til að breyta götulífinu og bæta.

Endilega kíkið á heimasíðuna:

http://borghildur.info/ibuatorg-i-bidstodu/

Í þessum harðsnúna klára hóp eru : Alba Solís / BA í arkitektúr, Arnar Freyr Guðmundsson / grafískur hönnuður, Auður Hreiðarsdóttir / BA í arkitektúr, Gunnhildur Melsteð / BA í arkitektúr, Helga Hrönn Þorsteinsdóttir / BA í arkitektúr, Herborg Árnadóttir / BA í arkitektúr og Þorbjörn G. Kolbrúnarson / tónsmiður

Það verður spennandi að fylgjast með þessu unga fólki í framtíðinni.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn