Fimmtudagur 28.4.2011 - 20:08 - 5 ummæli

Útskriftarsýning LHÍ-Arkitektúr


.

Nú stendur yfir árleg sýning í Listasafni Reykjavíkur á útskriftarverkum nema frá Listaháskóla Íslands.  Sýningin sem óhætt er að mæla með verður opin til 8. mai n.k.

Í ár setti skólinn nemum sínum í arkitektúr verkefnið “danshús”.

Þrjár lóðir voru í boði sem allar eru við Barónsstíg.  Þetta er lóð framan við Vörðuskóla Guðjóns Samúelssonar,  lóð  framan við Austurbæjarskóla eftir Sigurð Guðmundsson og loks lóð spennistöðvar Orkuveitu Reykjavíkur milli Sundhallar Reykjavíkur eftir Guðjón Samúelsson og Heilsuverndarstöðvar Einars Sveinssonar.  Spennustöðina teiknuðu arkitektarnir Guðmundur Kr. Kristinsson og Ferdinand Alfreðsson.

Þarna er að finna fimm af demöntum íslenskrar byggingalistar. Þessi hús eru mjög ólík og ekki auðvelt að bregðast við þeim með nýbyggingu.

Við fyrstu sýn sýndist mér höfundarnir hafi átt í vandræðum með að koma þessu mikla húsi fyrir á þessum viðkvæma stað í nábýli þeirra afbragðsverka sem fyrr eru nefnd. Um er að ræða 3500 fermetra hús sem er líklega nálægt 15000 rúmmetrar.

Manni finnst eins og höfundar þarfagreiningarinnar og rýmisáætlunar hafi ekki lesið umhverfið rétt og talið svæðið bera meira en það gerir. Þarfagreiningin virðist ósangjörn gagnvart bæði umhverfinu og nemunum vegns stærðarinnar.  Gaman hefði verið að sjá verk eftir þetta duglega unga fólk hannað inn í aðstæður sem henta verkinu eða verki sem hentar staðnum.

Á sýningunni er nokkur góð verk, vel unnin, fallega upp sett og  vel teiknuð. En ég tók eftir því að nærliggjandi byggingar voru hvergi teiknaðar inn á  útlit og snið með einni eða tveim undantekningum.  Slíkar teikningar eru nauðsynlegar  ef leggja á mat á bygginguna í umhverfinu. Ég átti erfitt með að átta mig á heildinni á þessum veika grunni þó líkön hafi hjálpað eitthvað. Þetta kom mér verulega á óvart. Í raun er mér óskiljanlegt hvernig stendur á þvi að næsta umhverfi er ekki teiknað inn á viðeigandi stöðum, sérstaklega þegar um skólaverkefni er að ræða. Þetta eru slæm skilaboð.

Eitt verkanna vakti sérstaka athygli mína fyrir ágæti sitt. Höfundur þess er Steinunn Eik Egilsdóttir. Hún greinir svæðið ágætlega og leggur til að húsið samanstandi af  hálf niðurgrafinni hæð sem tengir fjögur hús sem standa uppúr niðurgröfnu hæðinni. Þarna kom höfundur auga á aðferð sem dregur úr umfangi byggingarinnar og gefur kost á hógværu viðmóti við vönduð söguleg hús í næsta nágrenni. Höfundur mótar húsið þannig að það verður hluti af daglegu lífi fólks sem ekki er beinn þáttakandi í dansstarfi hússins en á leið hjá. Falleg afstöðumyndin sýnir að höfundur býður upp á menningarstofnun á opnu útivistarsvæði án yfirþyrmandi bifreiðastæða. Ljósmyndir af verki Steinunnar fylgir færslunni.

Leiðbeinendur nemanna voru Steinþór Kári Kárason og Ásmundur Hrafn Sturluson sem reka saman teiknistofuna Kurtogpi. Gestaleiðbeinandi var Deborah Saunt arkitekt fyrrum samstarfskona Steinþórs á teiknistofu Tony Fretton þar sem þau unnu saman að verkefni í Póllandi.

Ég mæli með sýningunni í Hafnarhúsinu. Það er fróðlegt að sjá hvernig  verkefni 14  útskriftarnema er leyst á 14 mismunandi vegu á sömu slóðum.

Efst er afstöðumynd sem sýnir svæðið og lóðirnar þrjár sem um var að velja

Viðbót af gefnu tilefni dags 9.mai.2011:

Ég þakka Steinþór Kára fyrir að gera athugasemd við færsluna (Sjá athugasemd að neðan) og bið hann afsökunnar ef rangt er farið með. Mér þykir vænt um að fá leiðréttingu af þessu tagi enda er það einlægur vilji minn að rétt sé farið með og ónákvæmi engin. Þessi skrif eru oftast unnin mjög hratt og þá er hætta á mistökum.

Þessi litla klausa í færslunni um innbyrðis tengsl kennara við skólann er komin frá einum af kollegum mínum sem fannst mikilvægt að þetta kæmi fram. Ég treysti heimildarmanni og lét undan enda taldi ég að þarna væri um staðreyndir að ræða sem bæði þyldu og þyrftu  umfjöllun. Ég fullvissaði mig um að rétt væri farið með og fann strax á vefsíðu Guardian að Deborah Saunt hafi unnið að Breska sendiráðinu í Varsjá á teiknistofu Tony Fretton. Nú hefur Steinþór Kári fullvissað mig um að Guardian fari með rangt mál og þakka ég honum ábendinguna og bið afsökunar á ónákvæmninni þó ég telji mig hafa nokkuð mér til málsbóta.

Þetta leiðinlega “comment” sem Steinþór Kári nefnir og var tilefni athugasemdar hans, strika ég út enda virkar það rætið og illa meint og er skrifað undir fullkominni nafnleynd. Svona komment vil ég síður hafa hér. Þetta er 4 kommentið sem ég strika út í sögu síðunnar, en þau eru komin hátt á þriðja þúsundið frá upphafi.

Um leið og ég þakka Steinþór aftur ábendinguna þykir mér rétt að birta hér tilvitnun í Guardian ásamt slóð að síðunni sem um ræðir svo fólk sjái að þetta er ekki tómur uppspuni heldur óvönduð blaðamennska Guardian. Feitletrun er mín. 

http://www.guardian.co.uk/culture/2004/dec/02/regeneration.architecture

Age: Deborah Saunt, 30s; David Hills, 30s
What they do: Australian-born Deborah Saunt graduated from Heriot-Watt University, Edinburgh and the University of Cambridge. She worked for Tony Fretton, architect of several refined art galleries as well as the up-and-coming British Embassy in Warsaw, before setting up in practice with David Hills. Hills, an Englishman, studied at Cambridge and worked previously for the successful Dutch architect Erick van Egeraat. Their current projects together include a £27m school campus in Guildford, Surrey, a primary school in Sheffield, an „early years centre“ in Dagenham and, in complete contrast to these educational designs, a new house in Kensington Palace Gardens.

Ég vil að lokum geta þess að ég hef boðið deildarforseta Arkitektúr og hönnunardeildar LHÍ aðgang að þessum vef sjái hann tilefni til þess að kynna skólann eða sjónarmið nema á þessum vettvangi. Ég bíð enn eftir viðbrögðum við þessu boði frá kennurum, stjórnendum og nemum arkitektúr og hönnunardeildar. Vefurinn er opinn fyrir málefnalega, gagnrýna og framsækna umræðu um efnið arkitektúr , skipulag og staðarprýði.

Líkan af danshúsi Steinunnar Eikar Egilsdóttur

Sneiðing sem sýnir hvernig hluti byggingarinnar er neðanjarðar.

Fríhendisteikning sem sýnir húsin fjögur sem standa uppúr neðanjarðar tengibyggingu. Efst er Sundhöll Reykjavíkur eftir Guðjón Samúelsson. Þegar nýbyggingin er skoðuð og borin saman við Sunhallarbygginguna sést hvað nýbyggingin er stór og mikil í umhverfinu jafnvel þó stór hluti hennar sé neðanjarðar.

Díagram sem sýnir meginhugmyndina sem gengur út á að brjóta ofvaxna bygginguna upp í fimm hluta þar sem einn er neðanjarðar.

Stigið er niður í bjartan garð þaðan sem gengið er inn í niðurgröfnu hæðina og þaðan í ýmsar vistarverur hússins um leið og dagsbirta flæðir inn í húsið,


Af líkaninu má skynja niðurbrot þessa stóra húss og sjá markaðar gönguleiðir um svæðið

Ljósmynd frá sýningunni í Listasafni Reykjavíkur í Hafnarhúsinu

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 26.4.2011 - 22:27 - 15 ummæli

Þjóðvegir í þéttbýli-Reynslusögur

Að ofan er myndband sem ég fékk sent frá einum lesanda síðunnar.

Myndbandið tengist skýrslu Betri borgarbrags um Miklubrautina sem fjallað var um hér á síðunni fyrr í mánuðinum.

Í myndbandinu eru sagðar reynslusögur af afkastamiklum umferðagötum sem felldar hafa verið niður eða hætt var við að byggja í nokkum borgum í Bandaríkjunum.

Þarna er því haldið fram af hinum færustu mönnum að þær borgir sem ekki hafa þjóðvegi innan sinna marka hafi minni umferðavandamál en hinar.  Greint er frá dæmum þar sem fasteignaverð hefur hækkað og smávöruverslun dafnað við að fella þjóðvegi og afkastamiklar umferðagötur út úr skipulagi borganna.

Því er einnig haldið fram að þegar stórar umferðaæðar eru lagðar niður bitnar það ekki á samgöngum borganna. Því er líka haldið fram að þó hætt sé við að byggja afkastamiklar umferðagötur inni í borgum fer allt betur en ráð var fyrir gert. (Dalbraut, Hlíðarfótur og Fossvogsbraut svo íslensk dæmi séu tekin).

Þetta er skemmtilegt og fróðlegt myndband sem tekur tæpar sex mínútur í spilun. Mögum mun koma margt sem fram kemur á óvart og vekja upp spurningar um stöðuna hér á höfuðborgarsvæðinu.

Hér er slóð að færslum um Miklubrautina og skýrslu Betri borgarbrags sem getið er í upphafi

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2011/04/08/miklabraut-thjodvegur-eda-borgargata/#comments

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2011/04/14/borgarbragur-a-miklubraut-%E2%80%93-bio/#comments

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 25.4.2011 - 18:34 - 5 ummæli

Sænsk sumar „hytta“


Sem andstaða við suðuramerísk sveitahúsið sem kynnt var hér fyrir viku kemur hér sænskt 64 fermetra hús í sveitinni. Þetta er í raun það sem kallað er “hytta” sem er athvarf fjölskyldunnar í sveitinni þar sem fólk ver frítíma sínum við allt aðrar aðstæður en heima í borginni.

Þarna er mjög náin samvera við arineld, bókalestur og matargerð. Húsið er teiknað af Dinell Johansson og var byggt á síðasta ári á Gotlandi í Svíþjóð. Þarna er skapað gott umhverfi fyrir kjarnafjölskylduna öfugt við hótel andrúm hússins frá því á mánudaginn var. Þetta hús er spartanskt meðan suðurameríska húsið frá því í síðustu viku (18.04.2011) er hlaðið lúxus.

Sænska húsið er hannað samkvæmt  dæmigerðri hugmyndafræði hyttunnar. Það er eins einfalt og hugsast getur og sem minnstum fjármunum varið til framkvæmdarinnar, Húsið er nánast eitt rými með tveim “boxum” sem þjóna sem svefnherbergi. Ofaná boxunum er svo auka svefnloft eða leiksvæði. Tiltölulega mikið er gert úr því svæði sem ætlast er til að það sé eldað og matast.

Öfugt við stóra suðurameríska húsið frá í gær þar sem landslagið einkenndist af láréttum línum er þetta byggt í skógi þar sem lóðréttar línur eru ráðandi. Það er sennilega  megin ástæðan fyrir formi hússins.

Það eru mörg skemmtileg smáatriði í húsinu. Ég nefni glerjunina sem er með þeim hætti að ramminn er ekki sjáanlegur innanfrá sem hefur í för með sér að það virðist ekki vera nein rúða í gluggunum. Efnistökin eru líka athyglisverð. þarna eru bara þrjú efni sem mæta auganu. Steinsteypa, ómeðhöndlað bárujárn og vatnsþolinn krossviður. Þessi efni eru ráðandi að utan og innan.

Ljósmyndirnar sem fylgja færslunni eru eftir Elisabeth Toll

Efnistökin eru athyglisverð. Þarna eru bara þrjú efni sem mæta auganu. Steinsteypa, ómeðhöndlað bárujárn og vatnsþolinn krossviður. Þessi efni eru ráðandi að utan og innan. Tveir vaskar andspænis hvor öðrum visa til ætlaðrar samvinnu við eldamennskuna.

Glerjunin er með þeim hætti að ramminn er ekki sjáanlegur innanfrá sem hefur í för með sér að það virðist ekki vera nein rúða í gluggunum.

Af því nú eru sumarhús á dagskrá læt ég fylgja tengla á nokkrar færslur um hús í sveitinni sem byggð eru til þess að veita skjól frá skarkala og amstri borganna.

Fyrst kemur hús frá suðurameríku sem er sérstaklega áhugavert hvað samband milli úti og innirýma varðar:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2011/04/18/sumarhus-i-landslaginu/

Hér er nýlegt hús frá vesturströnd bandaríkjanna sem hefur áhugaverða grunnmynd auk þess að taka gott tillit til kosta umhverfisins:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2011/01/13/ibudarhus-i-sveitinni/

Hér er tæplega hálfrar aldar gamalt danskt sumarhús sem er innan við 50 fermetra og hefur sömu grunnmyndarhugmynd og bandaríska húsið að ofan:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2011/01/17/45-ara-gamalt-sumarhus/

Að loku er hér dæmi um góðærishöll sumarlandsins frá Íslandi

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2010/10/18/holl-sumarlandsins/

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 20.4.2011 - 12:24 - 10 ummæli

Niðurnídd hús í miðborginni

Í Féttablaðinu í gærmorgunn var sagt frá því að hundruð húsa í miðborg Reykjavíkur væru niðurnídd. Þessar upplýsingar eru úr ítarlegri úttekt sem gerð var um ástand húsa í miðborginni árið 2008.

Í fréttatíma sjónvarpsins RÚV  var talað við formann borgarráðs vegna málsins sem taldi einu leiðina til úrbóta væri að grípa til dagsekta og refsa eigendum húsanna fyrir viðhaldsleysið. Hann taldi meginmálið að enginn ætti að geta komist upp með að láta hús eða önnur verðmæti standa undir skemmdum og öllum til ama. Þessi skoðun fellur að sjónarmiðum Magnúsar Sædal byggingafulltrúa í Fréttablaðinu í gærmorgun sem bætti við og sagði “að það sem þarf að gerast er að við Íslendingar förum að haga okkur eins og siðaðar þjóðir og halda mannvirkjum okkar við”

Þetta þótti mér einkennileg viðbrögð við ástandinu hjá þeim félögum. Nær hefði verið að spyrja hver væri ástæðan fyrir því að eigendur fasteigna í miðborginni halda fasteignum sínum ver við en eigendur húsa annarsstaðar í borginni?

Eða af hverju er sumum húsum í miðborginni haldið við en öðrum ekki ? Svo má líka spyrja af hverju húsunum t.d. hér við Tómasarhaga eða við Máshóla þar sem Magnús Sædal býr sé vel haldið við?  Eru öðruvísi íslendingar sem eiga húsin  utan miðborgarinnar? Og af hverju eru það sum hús á sumum reitum í miðborginni sem fá viðhald en önnur ekki?

Svarið ætti að vera öllum ljóst  sem að skipulagsmálum koma.  Svarið er að finna í skipulagi miðborgarinnar, sjálfu deiliskipulaginu.  Svarið er ekki fólgið í því að  “Íslendingar hagi sér ekki eins og siðaðar þjóðir” og  sekta þurfi þjóðina til hlýðni.  Frekar mætti segja að þetta sé spurning hvort skipulagsyfirvöld ætli að fara að haga sér eins og siðað fólk og taka sig á. Viðurkenna vandann og finna lausnina.

Í bókinni“101 TÆKIFÆRI” eftir Snorra Frey Hilmarsson  er spurningunni ágætlega svarað í kafla sem heitir “Grenjavæðing”.  Í kaflanum spyr  Snorri hvers vegna breytast ágætustu hús, sem gætu verið hin mesta bæjarprýði eitt af öðru í niðurnídd skör?

Hann telur að við gerð deiliskipulaga verði oft til aukinn byggingaréttur sem gengur kaupum og sölum. Bankar lána út á byggingaréttinn svipað og útá óveiddan fiskinn í sjónum.  Þetta endar svo með því að útilokað er að það borgi sig að kaupa húsin og gera þau upp vegna spáverðs sem skipulagið býr til. Þegar þannig stendur á borgar sig ekki að halda þeim við og þau sett í skammtímaleigu. Þannig  drabbast þau niður og verða nær ónýt.

Þeir sem lesa kaflann “Grenjavæðing” sjá að ástæðan fyrir niðurníðslunni liggur að mestu í deiliskipulaginu og ekki eingöngu í slugsi eigendanna eða þjóðarsálinni eins og matti skilja á formanni borgarráðs og byggingafulltrúanum.

Þetta verður ekki lagfært með dagsektum. Dagsektir verða til þess að eigendur húsanna sækja um heimild til þess að rífa þau, sennilega á grundvelli þess að þau séu hættuleg umhverfinu og mikill menningararfur fer forgörðum.

Það sem þarf að gera er að endurgera deiliskipulagið  með nýjum áherslum í samræmi við tíðarandann.

Sjá eftirfarandi:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2010/02/09/gildistimi-deiliskipulaga/

Í fréttablaðinu í gær og í dag hefur hús á Baldursgötunni verið notað sem dæmi um hús í niðurníðslu. Þegar deiliskipulagið á Baldursgötureit er skoðað þá kemur í ljós að þetta er í samræmi við skýringar Snorra Freys á orsökum grenjavæðingar og niðurníðslu.

Þarna sýnist mér deiliskipulagið heimila að byggingamagnið sé 2-3 faldað. Deiliskipulagið dæmir í raun gömlu húsin frá 1928 úr leik.  Það er slæmur bissniss að verja stórfé í viðhald húss sem á enga framtíð fyrir sér af skipulagslegum og viðskiptalegum ástæðum.

Þó ég nefni þetta hér þá er hef ég ekki forsendur til að meta hvort það sé rétt mat að húsin skuli víkja. Ég geri ráð fyrir að höfundar skipulagsins og þeir sem unnu því brautargengi í kerfinu hafi góð rök fyrir niðurstöðunni. En það breytir því ekki að ég tel skipulagið höfuðástæða slumvæðingarinnar þarna.

Teikningarnar að ofan sína fyrir og eftir deiliskipulagið á umræddri lóð þar sem nýbyggingar eru rauðar. Deiliskipulagið má nálgast á þessari slóð:

http://arcims.rvk.is/website/skipulagssja/upplysingar/DSK_PDF/20090126_R_1_186_3_Baldursgotureitur_1.pdf

Þegar rýnt er í skipulagið og reiturinn skoðaður sést að húsum er yfirleitt vel við haldið allstaðar á Baldursgötureit nema akkúrat á þeim stað sem skipulagið heimilar aukningu á byggingamagni á þeirri forsendu að húsin sem fyrir eru verði að víkja.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 19.4.2011 - 12:07 - 12 ummæli

Bensínstöðvarnar í borginni

 

Það er eflaust hægt að nota marga mælikvarða á hvort borgarskipulag sé gott eða slæmt.

Ein mælingin gæti verið  að mæla fjöldi íbúa á hverja bensínstöð.

Því færri bensínstöðvar því betri ættu samgöngur að vera. Styttri vegalengdir til þjónustu leiðir af sér styttri ökuferðir, minni akstur og færri einkabíla. Mikil nánd heimila við vinnustaði, þjónustu, skóla og útivist gefur fólki tækifæri til þess að sinna erindum án einkabíls. Góðar almenningssamgöngur hafa líka áhrif á fjölda bensínstöðva. Færri bílar kalla á færri bensínstöðvar.

Algengur fjöldi bensínstöðva í borgum Evrópu er um ein á hverja 25000 íbúa. Í Reykjavík eru þær 44 eða ein á hverja 2700 íbúa. Það er rúmlega níu sinnum fleiri bensínstöðvar á íbúa í Reykjavík en í borgum Evrópu. Því er haldið fram að hvergi í heiminum séu jafn margar bensínstöðvar á mann og í Reykjavíkurborg og Akureyri.

Bensínstöðvarnar hafa í áranna rás vaxið úr því að vera litlir skúrar sem seldu bensín og olíu í að vera allstórar verslanir sem selja fatnað, leikföng og mat sem koma rekstri bíla ekkert við.

Þetta kemur fram í tillögu sem Júlíus Vífill Ingvarsson borgarfulltrúi lagði fram í skipulagsráði Reykjavíkur í síðustu viku. Tillagan gengur út á að endurskoða staðsetningu og starfsemi bensínstöðva í Reykjavík. Lagt var til að skoða hvort fækka megi bensínstöðvum í borginni. Tillagan var góðu heilli samþykkt.

Mælikvarðinn sem nefndur var í upphafi um skipulagsgæði borga  er auðvitað settur fram í hálfkæringi sem vísbending um slæmar samgöngur. Sé mælikvarðinn tekinn alvarlega þá kemur Reykjavíkurborg afar illa út.

Og þá veltir maður fyrir sér hvernig standi á því að Reykvíkingar þurfi svona margar bensínstöðvar?

Ekki veit ég það, en ég tel fullvíst að þeir sem haldið hafa um skipulagsstýrið undanfarna áratugi hafi vitað af þessari þróun. Þeir hafa haft hagtölur við hendina og samanburð víðsvegar að og séð að þeir voru á rangri leið. Svo getur líka verið að þeir hafi álitið sig vera á réttri leið og að allir aðrir hafi verið á rangri leið.

Samþykkt tillögu Júlíusar Vífils um enduskoðun á bensínstöðvum er merki um greinilega vakningu hjá Reykjavíkurborg. Það eru góðar fréttir að fækka eigi bensínstöðvum í borginni.

Fyrsta stöðin sem ætti að leggja niður er bensínstöðin við Ægissíðu. Ég hef hvergi í víðri veröld séð bensínsölu og vegasjoppu í miðju einbýlishúsahverfi. Kannski eru þeir úti í hinum stóra heimi að gera tóma vitleysu þegar þeir staðsetja bensínstöðvar við stofnbrautir.

Efst í færslunni er ljósmynd af vegasjoppunni við Borgartún og hér að neðan er ekta bensínstöð í miðborg Lissabon sem selur bensín, olíu, tvist og fátt annað.

Sjá einnig:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2009/10/12/%E2%80%9Cvegasjoppa%E2%80%9D-i-borgartuni/

 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 18.4.2011 - 17:20 - 6 ummæli

Sumarhús í landslaginu

Það er alltaf gaman að sjá þegar arkitektar teikna hús með landinu. Láta landið ráða ferðinni og móta bygginguna, hvort sem horft er til byggingarinnar eða frá henni. Þetta glæsilega sveitahús í Suður Ameríku er einmitt þeirrar gerðar. Þegar sneiðingin og grunnmyndin er skoðuð með ljósmyndunum sést að láréttar línur í landslaginu og vatninu sem húsið stendur við hafa úrslita áhrif á byggingalistina. 

Litla tjörnin, potturinn, í pallinum undirstrikar enn frekar ráðandi láréttar línur umhverfisins.

Til viðbótar koma efnistökin; grjót úr landinu og timbur.  Til þess að undirstrika tengslin milli úti og inni er sama efni á gólffletinum  beggja megin við glerið sem spannar frá gólfi til lofts.

Útsýni er mikið úr samnotarýmunum meðan hægt er að hvíla sig á útsýninu í einkarýmum.

Útisvæði er stórt og þar er hægt að vera á opnu svæði. Síðan er hægt að færa sig til þannig að útivistin verður meira “prívat” í skjóli sem myndað er með þykkum steinveggjum.

Húsið er kallað “Punta House” og er teiknað  af Marcio Kogan hjá Studio mk27 í Uruguay. Framkvæmdum lauk snemma á þessu ári.

Til þess að undirstrika tengslin milli úti og inni er sama efni á gólffletinum inni og úti og glerið spannar frá gólfi til lofts.

Landið er látið ráða ferðinni og móta bygginguna hvort sem horft er til byggingarinnar eða frá henni. Láréttar línur eru ráðandi í landslaginu og í byggingunni.

Sneiðingin er eiföld með opið útivistarsvæði í aðra átt og tiltölulega lokað útivistarsvæði í hina.

Tengslin milli „bakgarðs“ og „forgarðs“eru sterk og upplifast í gegnum húsið og inni í því.

Heiti potturinn er hluti af arkitektúr hússina og tengir það náttúrulegu vatninu í grenndinni.

Ljórmyndirnar eru eftir Reinaldo Coser

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 17.4.2011 - 22:58 - 5 ummæli

Af hverju stjörnuarkitekta?

Jacques Herzog (fæddur 1950) er einn af eftirsóttustu arkitektum heimsins með öllu sem því tilheyrir. Sannkallaður stjörnuarkitekt. Fly-in fly-out arkitekt með heiminn undir. Teiknistofa  þessa svissneska arkitekts er ekki með heimasíðu en þrátt fyrir það hafnar hann fleiri verkefnum en hann tekur að sér.

Í nýlegu viðtali við Svenska Dagbladet (17. nóvember s.l.) segir hann að ástæðan fyrir vinsældum stjörnuarkitekta  sé  að þeir opni hurðir. Þegar stjarnan stígur á sviðið opnast möguleikar sem öðrum eru lokaðir. Þegar stjörnuarkitekt er ráðin til verka hætta stjórnmálamenn og borgarar að hugsa og samþykkja það sem er á borð borið. Þetta telur hann meginástæða fyrir vali störnuarkitekta.

Nærvera stjarnanna  lamar fólk.

Herzog segir í viðtalinu að hann hati persónulegan stíl og áréttar að allar byggingar eigi að taka mið af umhverfi sínu frekar en að bera sterk höfundareinkenni arkitektsins. Hvort húsið sé ferkantað eða sívalt á ekki að vera ákvörðun höfundarins eða vegna duttlunga hans, heldur á byggingin að vera viðbrög við umhverfinu.

Hjálagt er mynd af Herzog kinnfiskasognum og  nauðasköllóttum auk mynda og myndbands af nýjustu verkum hans. Tate Modern í London, ólympíulekvangnum í Peking og neðst er ljósmynd frá Stokkhólmi ásamt tölvumyhnd af byggingu sem stjörnuarkitektinn er að teikna í borginni.

Maður veltir fyrir sér hvort Herzog skilji hvað hann sjálfur segir þegar hann heldur því fram að bygging eigi ekki að hafa höfundareinkenni heldur vera viðbrögð við umhverfinu!

Ljósmynd frá Stokkhólmi sem gefur vísbendingu um anda staðarins.

Nýbygging Herzog sem að mati höfundar endurspeglar anda höfuðborgar Svíþjóðar.

http://channel.tate.org.uk/audio/80074748001

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 16.4.2011 - 12:32 - 10 ummæli

Landþörf samgangna og þétting byggðar

Árið 2004 gaf Skipulags- og byggingarsvið út drög að úttekt á landnotkun vegna gatnakerfisins í Reykjavík. Í skýrslunni er að finna ógnvænlegar  tölur um landnotkun gatnakerfisins. Þar kemur m.a. fram að landnotkun vegna samgöngumannvirkja í Reykjavík er um 48% af landrýminu, opin svæði eru 10% og byggð svæði 42% af landinu. Byggðin tekur minna land en göturnar.

Í skýrslunni má einnig lesa að bifreiðastæðin í borginni þekja milli 475  og 700 hektara lands sem er fimm sinnum meira en Reykjavíkurflugvöllur tekur í Vatnsmýrinni.

Í drögunum er tafla þar sem borið er saman flatarmál gatnakerfis við fjölda íbúða í völdum hverfum borgarinnar.  Þar kemur fram að þróunin hefur gengið í óheillavænlega átt undanfarna áratugi.  Hverfin verða með hverjum nýjum áfanga frekari á landrými þegar gatnakerfið er skoðað.

Til dæmis fara um 75 fermetrar lands í samgöngumannvirki á hverja íbúð í nýja Vesturbæ (sunnan Hringbrautar), 152 fermetrar á íbúð í Fossvogi, 257 fermetrar á íbúð í Grafarholti.  Í Staðarhverfi fara heilir 322 fermetrar undir samgöngumannvirki vegna hverrar íbúðar, sem er  meira en fjórum sinnum meira en í nýja Vesturbæ. Hver er ástæðan fyrir þessari þróun?

Allt frá því um 1980 hafa verið færð sterk rök fyrir þéttingu byggðar í Reykjavík. Helstu rökin voru hagsmunir almannasamgangna, bættrar þjónustu, sparnaður á landi auk þess að stuðla að hagkvæmara samgangnakerfi og borgarrekstri almennt . Þar var almenn sátt um þessi sjónarmið.  Þess vegna kemur það á óvart að land undir samgöngumannvirki hafa sífellt tekið meira landrýni með hverjum nýjum áfanga ef marka má skýrsluna.

Þessi þróun er sérkennileg vegna þess að það hefur alltaf legið fyrir að dreifð byggð er óhagkvæm í alla staði. Hvort sem horft er á stofnkostnað eða rekstrarkostnað.

Höfundar skipulags í austurhluta borgarinnar, verkkaupinn og ráðgjafar hans hafa alltaf verið meðvitaðir um alla ókosti dreifðrar byggðar. Það er líka skrítið að fólk sem skipuleggur borgarhverfi þar sem samgöngumannvirki taka sem nemur 322 fermetrum á íbúð sé á sama tíma að tala um að hrekja Reykjavíkurflugvöll úr borginni vegna þess að landið sér svo verðmætt!!

Eins og fyrr segir kom skýrslan út árið 2004 og er úttekt á því sem þegar hafði verið gert. Ég geri ráð fyrir að í kjölfarið hafi orðið nokkrar umræður hjá skipulagsyfirvöldunm með markvissri stefnubreytingu í framhaldinu.

Sýrsluna er hægt að lesa í heild sinni hér:

http://www.reykjavik.is/Portaldata/1/Resources/adalskipulag/skyrslur/Land_oerf_samgangna-NER-HS2004.pdf

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 14.4.2011 - 15:58 - 15 ummæli

Borgarbragur á Miklubraut – Bíó

Eins og áður hefur komið fram hefur áhugasamur hópur sérfræðinga verið að vinna að úttekt á Miklubrautinni í Reykjavík. Hópurinn nefnir sig: “Betri borgarbragur”  og kallar verkefnið:  “Miklabraut-þjóðvegur í Þéttbýli”

Afrakstur úttektarinnar kemur fram merkilegri skýrslu og þau hafa bætt um betur og gert myndband sem sýnir akstur vestur brautina.

Myndbandið fylgir færslunni.

Inn í myndbandið koma ýmsar tölulegar upplýsingar, hugmyndir  og athugasemdir.

Ég nefni hugmynd að uppbyggingu íbúðahverfis í Skeifunni sem Gísli Marteinn Baldursson borgarfulltrúi hefur lagt fram, breytingu götunnar í borgarstræti þar sem sýnd eru dæmi frá nágrannalöndum til skýringar og m.fl.

Miklabrautin er auðvitað leiðinda gata sem á rætur sínar að rekja til aðalskipulags sem gert var fyrir um 50 árum. Það er tímabært að endurskoða skipulag og tilgang brautarinnar

Smellið á myndbandið sem er mjög áhugavert og tekur tæpar 4 mínútur.

Fjallað var um skýrsluna á þessari slóð: http://blog.eyjan.is/arkitektur/2011/04/08/miklabraut-thjodvegur-eda-borgargata/

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 13.4.2011 - 08:06 - 12 ummæli

Arkitektúr í grunnskólunum

Þegar ég gekk í grunnskóla var ofuráhersla lögð á íslenskugreinar. Þeir sem ekki voru sæmilega læsir við átta ára aldur voru álitnir illa gefnir. Þeim var safnað saman í tossabekk.

Á eftir lestrinum í forgangsröðinni  kom kennsla í réttritun, setningafræði, málfræði og bókmenntum. Og svo var  grein í íslenskukennslunni sem hét “ritgerð”.  Þegar ritgerðin var dæmd breytti engu hvað neminn var að reyna að koma frá sér, eða hvort það var skiljanlegt sem hann var að reyna að segja. Ritgerðin var dæmd niður eftir stafsetningarvillum,  málfræði og málvillum.

Ekki má heldur gleyma bókmenntum þar sem rækilega var farið yfir allskonar bómenntaverk í lausu og bundnu máli.  Krakkarnir voru látnir læra Gunnarshólma utanað og skýra öll ljóð og allar bókmenntir eftir höfði kennarans, eða viðurkenndri túlkun.

Neminn fékk ekki að skýra áhrifin á hann sjálfan sem listunnanda. Listin var með því tekin úr bókmenntunum.

Svo var kennd stærðfræði sem þá var kölluð reikningur.  Þessar greinar, íslenskugreinarnar sex og reikningur voru aðalmálið.

Aðrar námsgreinar voru kallaðar “kjaftagreinar” og aðrar, sem var verra; “aukagreinar”

Kjaftagreinarnar voru landafræði, náttúrufræði, saga og kristnifræði. Þessar greinar las maður  rétt fyrir próf og reyndi svo að gleyma þeim sem fyrst.

Svo komu “aukagreinar” sem voru ekki mikils metnar.  Nánast allir fengu topp einkunn í aukagreinunum. Aukagreinarnar voru tónmennt, myndmennt, handmennt og leikfimi.  Maður skynjaði að þessar greinar skiptu ekki miklu  máli í menntuninni að mati skólastjórnenda.

Okkur var ekki kennt að tala eða tjá okkur um nokkurn hlut, ekki kennt að skoða umhverfið sem við lifðum í, ekki kennt að hafa skoðun á hlutunum og skýra málstað okkar og hugmyndir. Ekki kennt að skiptast á skoðunum.

Okkur var ekkert kennt um skipulagsmál eða arkitektúr.

Mér var aldrei sagt af hverju Melaskólinn væri byggður í boga eða af hverju skólaportin eru tvö, af hverju kennarastofan væri þar sem hún er og leikfimishúsið þar sem það er. Mér var heldur aldrei sagt frá hugmyndum að baki skipulagi Haganna.

Ég veit að kennsluhættir hafa mikið breyst til bóta á þeim langa tíma sem síðan er liðinn. Ég veit líka að lesblindir eru ekki álitnir heimskir og þeim safnað saman í tossabekk. Ég veit líka að börnum er kennt að tjá sig og hafa skoðanir.

En mig grunar að ekki fari mikil kennsla fram um arkitektúr og skipulag í grunnskólum þessi misserin.

Hinsvegar veit ég að fyrir 15-20 árum bauðst Arkitektafélag Íslands til þess að kynna arkitektúr og skipulag í grunnskólum endurgjaldslaust. Ekk veit ég til þess að það boð hafi verið þegið!

Myndin með færslunni er fengin af vef Ljósmyndasafns Reykjavíkur. Þar gefur að líta leikskólann Hagaborg,  Melaskóla sem var barnaskóli, Hagaskóla sem var gagnfræðaskóli og Neskirkju sem er að hluta menntastofnun. Fjær er svo æðsta menntastofnun landsins Háskóli Íslands.  Myndin er tekin 1962.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn