„Vertu memm á torginu við Hlemm“
Nú í vikunni voru kynntar niðurstöður í hugmyndaleit um framtíð Hlemms. Það voru þrjár tillögur sem kynntar voru og voru þær nokkuð mismunandi. Að mínu mati bar ein af fyrir hugmyndaauðgi og tilfinningu fyrir stapðnum og umhverfinu. Þetta var tillaga Dagnýjar Bjarnadóttur landslagsarkitekts sem rekur fyrirtækið DLD sem stendur fyrir Dagný Land Design. Takið eftir hvernig rýmismyndun er háttað og hvernig Borgarlínan er aðeins sett til hliðar og friðsælt torg myndað með Norðurpólnum og nýjum skálum.
Myndirnar sem hér fylgja skýra sig sjálfar og hér að neðan kemur kafli úr greinargerðinni sem er einstaklega lífleg og skemmtileg aflestrar. Það er greinilegt að verkefnið hefur fangað höfundinn og hann hefur skemmt sér komnunglega við tillögugerðina.
„Meginhugmynd tillögunnar er tvíþætt, í fyrsta lagi að skapa skjólgott og sólríkt torg fyrir fjölbreytt mannlíf og í öðru lagi að leysa umferðaflæði á einfaldan og skilvirkann hátt. Lögð er áhersla á almenningssamgöngur og þær gerðar að spennandi kosti með nútímaþægindum og tæknilausnum. Mjúkir ferðamátar eru í öndvegi, en jafnframt er aðgengi bíla og rúta leyst í nálægð við torgið. Megin gönguleiðir eru greiðar í gegnum svæðið og eru þær jafnframt dregnar fram með leiðandi yfirborðsmeðhöndlun -og rýmismótun. Byggingar eru staðsettar til rýmis og skjólmyndunar en einnig er hugað að innihaldi sem getur auðgað mannlíf á torginu. Landhalli er nýttur markvist til rýmismótunar með innbyggðum set -og dvalarsvæðum. Fjölbreytt matarmenning er burðarás í starfsemi bygginganna, en hugmyndin er að innihald þeirra bæti við og styðji þá nálgun sem Mathöllin byggir á, en hún verður eftir sem áður aðal segull torgsins. Tillagan leikur sér að margs konar skynjunum og upplifunum, ásamt sögulegum skírskotunum. Torgið býður gestum til sætis í gróðursælu umhverfi, sem heldur utan um margskonar félagslegar athafnir, má þar nefna árstíðabundna markaðsmöguleika og skemmtanahald af ýmsum toga. Með torginu er kominn segullinn sem vantaði á annan enda Laugavegar, endurnýjað hlið að miðbænum, einnig kærkomið fyrir stækkandi íbúðabyggð í nágrenninu.“
Eins og áður segir er greinargerðin með tillögunni DLD óvenjuleg og skemmtileg.
Hér er gripið niður í henni:
„Fortíð
Gluggi inn í gamla tíma sýnir hesta bera þungar byrðar til og frá miðbænum,
sveittir og þyrstir svala þeir þorstanum í vatnsþrónni við Hlemm. Í Norðurpólnum sækir einn hestahirðirinn ábreiðu fyrir hrossin sem bíða úti í nepjunni meðan hann fær sér veitingar og jafnvel blund. Upp og niður Laugaveg þramma þvottakonur með bala og þvottahlass á bakinu, á leið til eða frá þvottalaugunum í Laugardal. Rauðaráin liðast mýrarrauð í gegnum svæðið í átt til sjávar og hlemmurinn yfir hana getur varla talist brú. Hlemmur var eins konar hlið inn í bæinn og hefur án vafa verið staður þar sem fólk hittist og skrafaði saman á leið sinni til og frá bænum m.a í verslunar tilgangi. Staðurinn hefur verið samgönguæð frá örófi alda, í mismunandi myndum eftir tíð og tíma, frá gangandi -og ríðandi umferðar til einka- og leigubíla og strætisvagna. Nú er komið að því að uppfæra Hlemm aftur til nútímaþarfa, þar sem almenningssamgöngur og mjúkur ferðamáti fá forgang og mannlíf blómstrar í takt við nýja tíma“.
„Nútíð
Ég er á göngu um Hlemm á sólríkum sumardegi, það iðar allt af mannlífi og hljómsveit er að spila á torginu. Rafmagnsknúnir almenningsvagnar líða hljóðlaust um norðan við svæðið og fólk flæðir inn á torgið. Nánast allan hringinn á torginu situr fólk við byggingarnar og gæðir sér á veitingum og drykk. Margir eiga leið í gegnum torgið og nokkrir bregða sér í heitt fótabað að hvíla lúin bein, aðrir sitja með eigið nesti á setstöllum torgsins. Lítill krakki sullar berfættur í grunnri tjörninni á torginu. Ég ákveð að leggja hjólinu mínu og fara inn í Græna skála og skoða hvað er til af ferskmeti beint frá bónda ásamt öðrum spennandi matvörum. Þetta minnir mig á Torvehallerne í Kaupmannahöfn, mann langar að smakka allt, best að kaupa blóm handa mömmu með afmælisgjöfinni. Rekst á Margréti vinkonu mína sem er næstum aldrei á landinu, við ákveðum að fá okkur snarl saman í Mathöllinni. Ég tek eftir að kokkurinn sækir kryddjurtir út í lítið gróðurhús vestan við bygginguna. Við fáum okkur ís í eftirmat hjá Ísleifi heppna og setjumst út á torg. Eftir notalegt spjall í sólinni fylgi ég henni að nýju borgarlínubiðstöðinni sem er ótrúlega snjöll og nútímaleg. Hægt er að velja á milli tveggja mismunandi skýla eða að bíða undir þaki úti. Eftir að miðinn er stimplaður er hægt að fara inn í upphituð glerskýlin, þar sem hægt er að hlaða símann, nettengjast, kynna sér hvað er í gangi í menningarlífi borgarinnar, hlusta á nýútgefna íslenska tónlist, eða bara sitja og njóta í gróðurvæddu skýlinu. Lýsingin í skýlunum ræðst af árstíma og birtustigi úti, á veturna gefa þau frá sér notalega bjarma, minna á gróðurhús, þar sem notalegt verður að bíða af sér slagveðrin. Hér kveð ég kæra vinkonu mína og held til baka að hjólinu mínu, ég sé að það er líka hægt að leigja hjól og meira að segja deilibílar eru staðsettir við torgið meðfram Laugavegi. Gamla Hlemmklukkan á torginu er 17:30, þarf að drífa mig í afmælismatinn, reyna að vera ekki of sein í þetta skiptið. Mér verður hugsað til gamalla tíma þegar ég lít á styttuna af burðarjálkinum á torginu, þetta er greinilega meri því folaldið fylgir með. Fleira minnir á gamla tíma, guli refillinn á Laugaveginum til heiðurs þvottakonunum, og tjarnirnar sem minna á Rauðará og vatnsþróna, ég hugsa til þess hvað fólk stritaði áður fyrr, ég er fegin að lifa á okkar tímum verð ég að segja“.
+++
Aðrar tillögur í hugmyndaleitinni höfðu vissulega sína kosti en voru ekki eins tengdar sögunni og staðnum og tillaga DLD. T.a.m. er notað á einum stað nýtt nafn á Hlemm og það kallað „Hlemmur Square“! Þetta er kannski tímanna tákn. Í morgun hlustaði ég á fyrirlestra í Ráðhúsi Reykjavíkur um samgöngur þar sem talað var um „street food“, „Zipcar“, „carsheering“, „barrier effect“ og „WinWin stöðu“ eins og enginn væri morgundagurin fyrir íslenska tungu.
Svona hugmyndaleitir geta verið afskaplega upplýsandi og leysa oft vanda sem erfitt er leysa með öðrum hætti. Þessi aðferð er áréttuð í aðalskipulagi Reykjavíkur AR2010-2030 og allnokkuð notuð. Ég óttast hinsvegar að þetta sé illa borgað og er stundum hissa á að arkitektar skuli taka þetta að sér fyri jafnvel smánarlega upphæð. Mér bauðst ekki fyrir alls löngu að taka þátt í hugmyndaleyt um uppbyggingu Skeifusvæðisins fyrir svo litla upphæð að ég taldi upphæðina vera lítilsvirðing fyrir vinnu mína. Þarna átti mitt teymi að vinna mjög stórt skipulag í mjög flóknu umhverfi fyrir upphæð sem samsvaraði rétt rumlega viku vinnu. Við höfnuðum þáttöku af tærri stéttvísi. En kollegar okkar tveir létu undan og skiluðu hundruð tíma vinnu fyrir þessa þóknun.
Þetta Hlemms verkafni er einfaldara og minna en ég vona að höfundarnir hafi ekki látið misnota sig fengið sæmilega þóknun fyrir þeirra glæsilega framlag..
+++
Að neðan koma tvær myndir úr tillögunum tveim Fyrst frá Landslagi þar sem er komið fyrir söluskálum á Laugavegi milli Hlemms og Snorrabrautar og strax á eftir frá Mandaworks þar sem gamla veitingahúsinu Norðurpóllinn er pakkað inn í e.k. glerhýsi.