Föstudagur 25.2.2011 - 07:20 - 22 ummæli

Menningarverðlaun DV 2011-Byggingalist

Tilnefndar hafa verið fimm byggingar til Menningarverðlauna DV  árið 2011 og óska ég öllum þeim sem tilnefningu hlutu til hamingju. Þetta eru allt góðir arkitektar sem margsannað hafa ágæti sín. Gláma/Kím hlýtur tvær tilnefningar sem ég hygg að sé einsdæmi hvað Menningarverðlaun DV varðar.

Þó ég fylgist ágætlega með því sem er að gerast í byggingarlistinni hér á landi þá hafði ég ekki heyrt sérstaklega af þessum verkum að einu undanskildu. Ég  geri  ráð fyrir að þau séu öll afbragðsgóð eins og tilnefning  til verðlauna ætti að gefa til kynna. Hér að neðan koma umsagnir dómnefndar um verkin fimm orðrétt. Þegar niðurstaða liggur fyrir verður vonandi tækifæri til þess að setja hér á vefinn afstöðumynd, grunnmyndir og fl sem lýsir verkinu nánar.

Sundlaug á Hofsósi
Arkitektar: Basalt / VA arkitektar

Bygging við sundlaug hýsir búnings- og baðaðstöðu fyrir útilaug og potta. Staðsetning sundlaugarinnar er valin til að ná tengslunum við hafið, laugarkerið stefnir á Drangey. Kantur þess hluta kersins er lægri þannig að vatnið fellur fram af honum og sjónrænt rennur sundlaugarvatnið og sjórinn saman í eitt. Sundlaugin á Hofsósi er gjöf Lilju Pálmadóttur og Steinunnar Jónsdóttur til sveitarfélagsins.
Lögð er áhersla á mikilvægi náttúrulegrar dagsbirtu í byggingunni. Aðdragandi og ferðalag um húsið er skýrt, frá götu um innri rými sem leiðir til hámörkunar upplifunar í sundlauginni sjálfri með útsýni yfir hafflöt og Drangey. Auðmýkt gagnvart umhverfinu og landslagi fjarðar, fjalla og Drangeyjar einkenna verkið. Landslag og þak hússins skapar skemmtilegt útisvæði í bænum. Öll staðarmyndun er til fyrirmyndar og upphefur fallegt útsýni. Verkið er gott fordæmi fyrir íslenska baðmenningu.

Háskólinn á Akureyri
Arkitektar: Gláma Kím Arkitektar:
Háskólinn á Akureyri er byggður við og utan um eldri byggingar að Sólborg. Eldri byggingar og staðhættir að Sólborg gefa tóninn fyrir varfærnislega nálgun. Með nýbyggingunum er byggingareiningum raðað saman og þær tengdar í eina heild með glerjuðum tengigangi. Byggingar háskólans eru afrakstur opinnar arkitektasamkeppni sem haldin var 1995. Háskólinn hefur verið byggður í áföngum frá 1996. Nýjasti áfangi skólans, aðalinngangur og forsalur auk hátíðar- og fyrirlestrasala, var tekinn í notkun síðsumars 2010.
Hér er gott dæmi um verk þar sem breyta þarf notkun eldri bygginga og tvinna við nýja starfsemi. Einstaklega vel hefur tekist til við flæði milli eldri og nýrri byggingahluta og að skapa heildrænt yfirbragð með vandaða útfærslu á rýmum og efnisvali. Sérstaða verksins er hversu vel samþætt og útfært það er og það hvernig vönduðum vinnubrögðum er viðhaldið á löngum framkvæmdartíma.

Ásgarður fimleikahús í Garðabæ
Arkitektar: Arkitektur.is

Í Ásgarði er fjölbreytt aðstaða til íþróttaiðkana. Nýbygging samanstendur annars vegar af fimleikahúsi og hins vegar af inngangi sem tengir saman alla starfsemi íþróttamiðstöðvarinnar, svo sem sundlaug, handboltasal, þreksal o.fl. Húsið nýtist til fjölbreytts íþróttastarfs með aðgengi fyrir nemendur grunnskóla, leikskóla og eldri bæjarbúa.
Hér er vel leyst að tengja saman mismunandi stærðir eldri og nýrri byggingahluta. Vandmeðfarið er að laga íþróttamannvirki vel að umhverfinu vegna stærðar. Þessu er náð með því að grafa fimleikasal niður og liggur hann því lágreistur í umhverfinu. Minni aðkomubygging tekur á móti gestum og tengir saman fjölþætta starfsemi íþróttamiðstöðvar. Frá aðkomurými er góð yfirsýn yfir fimleikasal og hæðarmunur er nýttur fyrir áhorfendapalla.

Sumarhús í Borgarfirði
Arkitektar: Gláma Kím Arkitektar:

Sumarhúsið er staðsett á kjarri vöxnum útsýnisstað í Borgarfirði. Til austurs eru Eiríkisjökull og Strútur, og til suðurs Ok. Byggingar fanga útsýni og skapa skjólgóð útirými. Áhersla er lögð á tengsl við nánasta umhverfi með stórum gluggum og gegnsæi. Sumarhúsið er tvær byggingar sem tengdar eru saman með yfirbyggðri verönd.
Mótun útisvæða og tenging við umhverfi er forsenda fyrir vel heppnuðu sumarhúsi. Hér er það gert með þremur húshlutum sem skilgreina og aðgreina skýr útisvæði sem svara vel sólargangi og veita mismunandi skjól fyrir veðri og vindum. Áferð og efniskennd húsa er einföld og hæglát sem fer vel í nærliggjandi birkivöxnu landslagi. Hús liggja vel í landi og skapa skemmtilegt samspil við landslag nær og fjær.

Hjúkrunarheimili Suðurlandsbraut
Arkitektar: Yrki Arkitektar

Hjúkrunarheimilið í Mörkinni er afrakstur boðskeppni fyrir arkitekta um byggingu þjónustuíbúða og þjónustumiðstöðvar aldraðra og hjúkrunarheimilis. Hjúkrunarheimilið er á fjórum hæðum auk jarðhæðar sem er að hluta til niðurgrafin. Á efri hæðunum eru íbúðir, setustofur og fylgirými. Á neðstu hæðinni er aðalinngangurinn með móttöku, samkomusalur og salir og stofur undir kapellu, ásamt þjónusturými og skrifstofum.
Hjúkrunarheimilið er vandað og metnaðarfullt verkefni. Byggingin er staðsett innan stærra þjónustusvæðis sem, þegar lokið er, mun skapa samhangandi heild í umhverfinu. Mýkt í formi jarðhæðar tengist vel umhverfinu. Innanhúss er bjart og rúmgott og allur frágangur er til fyrirmyndar.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 23.2.2011 - 08:16 - 11 ummæli

Weissenhof Siedlung 1927

Í athugasemdarkerfinu í tengslum við síðustu færslu var minnt á Weissenhof  Siedlung í Þyskalandi sem var húsnæðissýning, haldin  árið 1927 í Stuttgart  að frumkvæði Deutscher Werkbund. Þarna var um að ræða alþjóðlega sýningu á íbúðahúsnæði þar sem sextán evrópskum arkitektum var boðin þáttaka.

Þýski arkitektinn Ludwig Mies van der Rohe bar ábyrgð á verkefninu fyrir hönd  borgarinnar og valdi hann sjálfur arkitektana sem tóku þátt. Mies bar einnig ábyrgð á fjármálunum, samræmdi tillögur arkitektanna ásamt því að undirbúa lóðirnar og sjá um framkvæmdir.

Alls var byggt tuttugu og eitt hús sem voru svipuð að formi til. Það sem sameinaði byggingarnar voru flöt þök eða þök með þakgörðum, gluggabönd og opnar grunnmyndir.  Það sem var þó mest áberandi var að öll húsin voru hvít að tveim undanskildum. Hús Bruno Taut  voru í björtum rauðum lit.  Þau voru líka minnst.

Þarna voru mikið notaðir forunnir byggingahlutar (einingar) enda tókst að fullklára framkvæmdirnar á aðeins fimm mánuðum.

Húsin voru hugsuð sem verkamannabústaðir framtíðarinnar, þó svo að kostnaður við byggingarnar og húsbúnað hafi farið langt umfram það sem nokkur verkamaður hafði efni á á þeim tíma. Sýningin var vel sótt þó hún hafi opnað einu ári á eftir áætlun. Af  21 byggingu standa aðeins 11 enn.

Þegar listi arkitektanna er skoðaður sést að þeir voru allir barnungir ef svo má segja.  Victor Bourgeois var 30 ára, Le Courbusier var 40 ára, Walter Gropius 44 ára, Mies van der Rohe var 43 ára, Josef Frank 42 ára, Hans Scharoun 34 ára o.s.frv. Hinir voru Ludwig Hilbersheimer, Hans Poelzig, Adolf Rading, Adolf Gustav Schenk og Martin Stam, allt ungir menn. Einn arkitektanna var hinn 37 ára gamli hollendingur Pieter Oud sem hafði nokkur áhrif hér á landi.

Le Courbusiere fékk tvær bestu lóðirnar. Þær  snéru að borginni og hann fékk líka mestu fjármunina.

Peter Behrens var lang elstur, 59 ára gamall. Behrens var nestor þarna enda höfðu þeir, Adolf  Meyer, Jean Kramer, Walter Gropius, Mies van der Rohe og Le Courbisier allir unnið hjá honumum tíma og þeir þrír síðastnefndu að mér skilst samtímis.  Meyer og Kramer voru ekki með í Weissenhof en gátu sér gott orð í sínu fagi á öldinni sem leið.

Tveim árum eftir sýninguna byggði Mies van der Rohe eitt áhrifamesta hús allra tíma, ”Barcelona pavillion” 1929.

Þegar ég sótti nám í arkitektúr á Akademíunni í Kaupmannahöfn voru öll  húsin í Weissenhof Siedlung rækilega skoðuð og Mogens Krustrup docent tengdi flest þessara húsa Danmörku og skýrði út áhrif þeirra á byggingalist samtímans. Það  er gaman að ryfja þetta aftur upp núna á tímum stefnuleysis og óreiðu í byggingarlistinni.

Hús eftir Hollenska arkitektinn Jacobus Johannes Pieter Oud.

Þetta hús er það sama og er fremst í færslunni er eftir Le Courbusiere. Nokkur húsanna voru með þakgarði meðal annarra þetta hús Le Courbusiere.

Þetta hús eftir Hans Scharoun minnir um margt á fyrstu verk Frank Gehrys 50 árum seinna. Scharoun varð mjög þekktur arkitekt í Þýskalandi síðar og teiknaði m.a.  Philharmoníuna í Berlin sem tónlistarunnendur þekkja.

Fjölbýlisús Mies van der Rohe með þakgörðum. Líklegt er að hann hafi verið að vinna að stórvirki síni í Barcelona um þær mundir sem þessari byggingu lauk.

Afstöðumynd


Hluti af sýningarskrá þar sem arkitektunum er hampað. Á okkar dögum eru (voru) það fjárfestarnir sem fá athyglina.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 21.2.2011 - 08:48 - 10 ummæli

Íslenskir arkitektar

Fyrir nokkrum misserum lét Egill Helgason þau orð falla í þætti sínum, Silfri Egils, á RÚV  að hann “treysti ekki íslenskum arkitektum”.  Það mátti skilja á honum að þetta ætti við arkitekta almennt þó orðin hafi fallið í tengslum við uppbyggingu í Vatnsmýri.  Þetta var að mínu mati tilefnislaus sleggjudómur hjá Agli, án nokkurs rökstuðnings.  Ég hef haldið því fram um áratugaskeið að íslenskir arkitektar séu jafnvel betri en kollegar þeirra víðast annarsstaðar,  þó engar séu stjörnurnar.  Þetta rökstyð ég með því að á Íslandi er styttra á milli góðra húsa en víða annarstaðar.  Ef settur er einn pinni á íslandskort allstaðar þar sem gott hús er að finna og samsvarandi í öðrum löndum þá hygg ég styttra verði á milli pinnana á íslandskortinu en annarsstaðar sem ég þekki til.   Í Bandaríkjunum víða er þetta sérlega slæmt.  Þetta gefur ekki vísindalega niðurstöðu en kannski einhverja vísbendingu. Ef við lítum hinsvegar til skipulagsmála og settur er pinni á kortið við hvert gott skipulag þá er sennilega lengra bil milli pinnanna hér á landi en víða í nágrannalöndunum.

Ég læt fylgja hér með teikningar og ljósmyndir af  góðu íslensku húsi  sem teiknað er af arkitektinum Pálmari Kristmundssyni árið 2004. Húsið er um 450 fermetrar að stærð fallegt, velskipulagt og  agað í allri sinni gerð.  Grunnmyndir eru einfaldar og starfrænar.  Þetta er vel hannað hús sem væntanlega fullnægir þörfum og óskum verkkaupans.

En framhjá því er ekki litið að Pálmar Kristmundsson er einn margra flinkra íslenskra arkitekta sem hægt er að treysta fyrir hverju sem er.  Egill Helgason, sem ég hef miklar mætur á,   og skoðanabræður hans ættu að líta betur í kringum sig áður en þeir tjá sig með þeim  hætti sem að ofan getur.

Varðandi grunnmyndirnar . Mér finnst alltaf slæmt þegar engin húsgögn eru teiknuð inn á grunnmyndir. Það er einhver amerisk hefð sem torveldar manni að skilja starfrænann tilgang hússinins, stærð þess og hlutföll.

Ljósmyndari er Åke Lindman

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 18.2.2011 - 08:22 - 5 ummæli

Snjóbræðslukerfið í Kvosinni

Fyrir réttum sextíu árum var fyrst lagt snjóbræðslukerfi í gangstétt hér á landi.  Það var í tröppur og stíg framan við Menntaskólann í Reykjavík árið 1951.

Fjórum árum síðar var lögn sett í tröppur Austurbæjarskólans.  Síðan hefur þetta orðið algengara og með tilkomu hitaþolinna plaströra jóks þetta verulega.

Nú er svo komið að mestur hluti Kvosarinnar er lagður snjóbræðslukerfi eins og sjá má á hjálögðum uppdrætti sem fenginn er úr nýjasta fréttabréfi verkfræðistofunnar Verkís  “Gangverk”.  Reykjavíkurborg getur verið stolt af þessu snjóbræðslukerfi sem er sennilega einstakt í öllum heiminum.

Í fréttabréfinu, sem barst með póstinum í gær,  fjalla verkfræðingarnir Andri Ægisson og Þorleikur Jóhannesson um snjóbræðlslu almennt.

Í greininni segir m.a.:

“Öll stóru snjóbræðslukerfin í miðborg Reykjavíkur nota bakrennsli frá Orkuveitu Reykjavíkur sem grunnafl. Þegar götur og gangstéttar voru endurnýjaðar í miðborginni ákvað Orkuveitan að leggja tvöfalt dreifikerfi til að safna bakvatni frá hitakerfum húsa fyrir snjóbræðslukerfin. Borgin hefur aðgang að bakvatninu þegar Orkuveitan þarf ekki á því að halda. Að nýta þannig bakvatn í snjóbræðslukerfi eykur orkunýtingu, því annars færi það ónýtt um skólplagnir til sjávar”   Og í lokin segja þeir félagar: “Fáir gera sér grein fyrir hve mikil áhrif snjóbræðslukerfin í miðborginni hafa á daglegt líf þeirra sem þar starfa og búa. Verslanir eru hreinar og snyrtilegar, saltnotkun í lágmarki, hálkuslys fátíð og svo mætti lengi telja”

Á myndinni sem fylgir færslunni er snjóbræðslukerfi sem þegar hefur verið lagt sýnt með rauðum lít.  Græni liturinn sýnir þau svæði sem á að leggja í ár í tengslum við Hörpu. Ég átta mig ekki á tengingunni milli svæðisins við Hörpu og miðborgarinnar.  Sú tenging virkar ekki sannfærandi.  Hefði ekki verið eðlilegra að láta upphitaða leiðina frá Hörpu í miðbæinn liggja austan við Kalkofnsveg undir Arnarhól að Lækjargötu/Bankastræti í stað þeirrar leiðar sem sýnd er á uppdættinum sem liggur meðfram gryfjunni (húsagrunni) vestanverðu við Kalkofnsveg að Miðbakka norðan Geirsgötu?  Hvað hafa tónleikagesti að gera á Miðbakka? Eða koma þeir kannski þaðan?

Fréttabréfið Gangverk má nálgast hér:

http://www.verkis.is/media/frettabref/2011-02-Gangverk—net.pdf

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 16.2.2011 - 00:08 - 4 ummæli

Útfararstofa-Socrates

Þrátt fyrir mikla efnahagsörðugleika eru ýmsir góðir hlutir að gerast í byggingalistinni á Spáni. Nýlega var byggð útfararstofa við Pinso í Alicante sem vakið hefur athygli. Eitt af markmiðum arkitektanna var að byggja ódýrt og fá mikið hús fyrir lítinn pening. (more for less) Þetta var göfugt mrkmið arkitektanna fyrir þjóð í kreppu.  Þessu markmiði náðu þeir með mikilli yfirlegu, einföldum og margreyndum lausnum.

Ef bera á saman við íslenskar byggingar sér maður strax að stór hluti útveggjanna er hert einfalt gler, þök virðast lítið einangruð og viðarlítil eins og útveggirnir. Hitalagnir, rafbúnaður og lýsing er í lágmarki. (það má skjóta því hér inn að kostnaður vegna rafbúnaðar getur nálgast kostnað við uppsteypu húsa hér á landi) Byggingin er samtals 495 m2 og kostaði 431 þúsund evrur. (um 70 milljónir ísl.króna) Miðað við gengið í dag er það um 137 þúsund krónur á hvern fermetra. Ég vek athygli á þessu hér vegna þess að fólk áttar sig oft ekki á því að um 80% af byggingakostnaði er oftast ráðinn af fyrstu ákvörðunum arkitekta í hönnunarferlinu.

Þetta er einföld bygging eins og áður er sagt í anda kennisetningarinnar “Less is More” Þrátt fyrir einfaldleikann eru þarna falleg og fjölbreytt rými sem skarta fjölbreytilegrar dagsbirtu.

Byggingin er rammi um hið óumflyjanlega sem bíður okkar allra, dauðans. Arkitektunum hefur tekist að ná utan um órætt andrúm þess sem koma skal en maður veit ekki hvað er. “Something is happening here but you don’t know what it is, do you, Mr. Jones?” Ljósmyndirnar ásamt grunnmynd/afstöðumynd lýsa verkinu betur en 1000 orð

Ég lík þessu með bjartsýnislegri tilvitnun í Socrates ( ca. 470 f.kr. til  ca 399 e.kr ) sem lét lífið fyrir skoðanir sínar og sagði um dauðann:

“………Því það að hræðast dauðann, herrar mínir, er einnig að þykjast vita það sem maður veit ekki.  Enginn veit hvort dauðinn er ekki í raun og veru hin mesta hamingja. sem manninum getur hlotnast. En menn óttast dauðann, eins og þeir væru vissir um að hann sé hið versta af öllu illu. Og er þetta ekki einmitt sú vítaverða fáfræði að þykjast vita það, sem maður veit ekki?

Húsið er teiknað af spænsku arkitektastofunni COR. Heimasíða þeirra er: http://www.cor.cc/

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 14.2.2011 - 18:49 - 10 ummæli

Grænland- BIG is getting bigger


Ég hef haldið því fram að Bjarke Ingels, aðaleigandi og stofnandi arkitektastofunnar BIG í Danmörku, skorti oft tilfinningu fyrir staðnum, staðarvitund. Þá álygtun dreg ég af verkum hans undanfarin ár. Nú virðist vera breyting á. Hann er farinn að lesa staðinn betur en áður. Það sést á tillögu hans að byggingu í New York sem kynnt var hér á síðunni fyrir nokkru og nú aftur í verðlaunatillögu hans um Grönlands Nationalgalleri for Kunst í Nuuk.

Haldin var lokuð samkeppni um húsið meðal fremstu arkitektastofa á norðurlöndum og í Grænlandi. Alls var 6 stofum boðin þátttaka, einni frá hverju landi, án nokkurs undanfara á borð við auglýsingu eða forvals.  Þetta voru stofur á borð við Snöhetta frá Noregi, Heikkinen-Komonen frá Finnlandi og Studio Granda frá Íslandi.  Arkitektar hér á landi og á hinum norðurlöndunum þótti þetta tíðindum sæta enda ekki í samræmi við það verklag sem krafist er í löndum Evrópusambandsins þar sem allt á að vera í gannsæju og opnu ferli.  Skýringin er sennilega sú að Grænland er ekki í samskonar sambandi við Evrópu og t.a.m. Ísland.

Samkeppnisgögn voru afhent 23. ágúst 2010 og skiladagur var 9. nóvember s.l.  Það kom öllum á óvart þann 8. Nóvember þegar  Íslenska stofan upplýsti að hún hyggðist ekki leggja sína tillögu til dóms.

Ég hef ekki séð tillögurnar 5 sem dæmdar voru en get sagt að verðlaunatillagan er afar spennandi og virðist frumleg og vel leyst. Hún tekur á aðstæðum þarna við sjávarborðið í Nuuk á sannfærandi hátt og bregst vel við umhverfinu og helstu einkennum þess.  Þó hef ég áhyggjur af innganginum sem er snilldarlega leystur að forminu til en hætta er á að þar verði sífellt ónæði ef hreyfir vind. Það er sennilega torvelt að mynda skjól við byggingu sem er hreinn hringur að formi til. En þetta er smámál.

Það er alltaf takmörkunum háð að lýsa skoðun sinni á verðlaunatillögu í samkeppni án þess að hafa séð aðrar tillögur og ætla ég því að láta teikningar og tölvumyndir nægja. Ég vil þó vekja athygli á að húsið er réttur hringur, sumir segja kleinuhringur, sem leggur sig á klappirnar þannig að hann tekur af þeim form. Formið er svo unnið nánar þannig að niðurstaðan virðist vera starfrænt hús sem jafnframt tryggir útsýni og skjól innan hringsins.  Brekkan sem húsið stendur í og tekur form sitt af er notuð innandyra til þess að skapa starfræn rými sem um leið virðast bjóða uppá spennandi upplifun. Þetta er ekki stórt hús, aðeins um 3000 m2.

Manni sýnist að hér sé framúrskarandi arkitektúr á ferðinni og verður spennandi að fá að skoða þetta hús og þá muni sem það hefur að geyma.

Hér eru áhugaverðir tenglar:

http://www.natgal.gl/?page_id=46

Dómnefndarálit:

http://www.natgal.gl/wp-content/uploads/natgal.pdf

Umfjöllun archdaly.com

http://www.archdaily.com/111251/big-wins-competition-to-design-greenlands-new-national-gallery/#more-111251

Útveggnum er lyft lítillega þannig að þar myndast tækifæri til þess að ganga inn í bygginguna án þess að rjúfe vegginn,kragann.

Þegar inn í bygginguna sem virkar lokuð utanfrá opnast manni óvænt útsýni til sjávar og fjalla.

Vetrarmynd

Ásýndin gefur fólki þá tilfinningu að húsið sé óreglulegt í grunnmynd. En það er það ekki. Þetta er hreinn hringur.

Að ofan er mynd sem sýnir innra fyrirkomulag í meginatriðum og að neðan skýringarmynd sem sýnir hvernig tekið er á útsýninu.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 13.2.2011 - 20:14 - 10 ummæli

Arkitektúr í Færeyjum

Í Ríkisútvarpinu í morgun var sendur út þáttur um Færeyska menningu í umsjá Þorgríms Gestssonar. Þetta var fyrsti þáttur af  fjórum um efnið og er fluttur á sunnudagsmorgnum.

Þegar fjallað er um menningu almennt er ekki hægt að sneiða hjá byggingarlistinni.   Það gerði Þorgrímur heldur ekki í sínum þætti.  Hann fjallaði um gömlu húsin sem kúra milli fjörunnar og klettabelta fjallana í Færeyjum.  Þarna var fjallað um elsta timburhús veraldar sem enn er notað sem íbúðahús.

Það sem einkennir byggðirnar í Færeyjum er að þar liggja hús bændanna þétt saman þannig að úr verða e.k. smáþorp sem kölluð eru “býlingar”. Á Íslandi er þessu öfugt farið og húsunum dreift eins og frekast er unnt.  Eitt þessara býlinga fjallaði Þorgrímur sérstaklega. Það var  Kirkjubær þar sem er að finna kirkju frá árinu 1250, vígð Ólafi Digra.

Þorgrímur flutti fallegan texta um húsin eftir skáldið Jörgen Frans Jakobsen (1900-1938) í þýðingu Aðalsteins Sigmundssonar. Textinn  er nokkurnvegin svona ef ég náði honum rétt:

“Þessar gömlu bændabyggðir áttu sér unaðslegan, lágreistan, nærri því auðmjúkan yndisleik. Litlu húsin voru að mestu leiti úr grjóti og torfi með timbur á framhliðinni. Þau földu sig í landslaginu eins vel og þau gátu. Þakið var meira að segja vaxið smára eins og túnið. Þau kúrðu þarna kyrrlát í mikilúðlegu umhverfi eins og vörn yfir heimilislífi  fólksins…………..”

Þetta er falleg lýsing sem vekur mann til umhugsunar um þá nálgun sem arkitektar nota á okkar dögum. Nútíma arkitektar tala um “viðbrögð” húsanna við umhverfinu eða að láta nýbygginguna “kallast á” við umhverfið.  Það tekst á stundum en oft eru þetta orðin tóm með vilja og góðum ásetningi en það vantar stundum nokkuð uppá þegar upp er staðið.

Ég læt hér fylgja nokkrar myndir af eldri húsum í Færeyjum ásamt tölvumyndum af nýjum skóla sem stjörnuarkitektinn Bjarke Ingels er að byggja skammt utan við Þórshöfn um þessar mundir. Það læðist að mér sá grunur að skáldinu Jörgen Frans Jakobsen hefði ekki líkað hönnun BIG í ljósi þeirrar myndar sem hann dregur upp í textanum sem vitnað er í.

Þáttur Þorgríms Gestssonar lofar góðu og mæli ég með honum. Slóðin er þessi:

http://dagskra.ruv.is/ras1/4574129/2011/02/13/

Umfjöllun um skola í Færeyjum eftir BIG má sjá hér:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2009/12/16/nystarleg-skolabygging/

Frímerki með teikningu  af  Færeyskum „býlingi“  eftir J.P.Gregoriussen arkitekt.

Skólabygging eftir BIG í útjaðri Þórshafnar.  Spurt er hvort þarna gæti „auðmjúkra yndislegheita“ eins og Jakobsen komst að orði?

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 10.2.2011 - 16:30 - 9 ummæli

Miðborg gangandi vegfarenda

Gangandi vegfarendur fá að njóta sín í miðborg Reykjavíkur í sumar ef áætlanir ganga eftir. Á fundi í umhverfis- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar þann 25. janúar s.l. var samþykkt að skoðað yrði hvort möguleiki væri á að gera Laugarveg frá Klapparstíg alla leið að Ingólfstorgi að ”sumargötu”. Sumargata er nýyrði sem ég hef ekki heyrt áður og er sennilega hugtak sem nota á við götur sem lokaðar eru bifreiðaumferð um sumartímann. Skólavörðustígur frá Bergstaðastræti að Laugarvegi fær svipaða meðferð ásamt Pósthússtræti. Á mótum Lækjargötu og Bankastrætis/Austurstrætis kemur nýtt götuform sem kallað er ”samrými” á teikningu. Samrými er sennilega það sem kallað er ”Shered street” á ensku og er gata þar sem bílum og gangandi er blandað saman.

Þessa tilraun á að gera í náinni samvinnu við verslunar-og þjónustuaðila og íbúa í nánasta nágrenni.  Tilraunin á að standa frá 15. maí til 1. september í sumar. Vonandi heppnast þessi tilraun þannig að framhald verði á því hér er mikið framfaramál í sigtinu. En til þess að svona gangi vel þarf að huga að samgöngumálum í stærra samhengi.

Hjálagt er slóði að frekari upplýsingum um tilraunina:

Fundargerð Umhverfis- og samgönguráðs:

http://www.reykjavik.is/desktopdefault.aspx/tabid-725

Af vef Reykjavíkurborgar:

http://www.rvk.is/desktopdefault.aspx/tabid-259/1198_read-24977/

Vistgata í Japan

Tillaga að húsagötu þar sem Shered Street hugmyndin liggur að baki útfærslunni

Fyrir dyrum stendur að gera Exhibition Road í London að „Samrými“ (Shered Street)

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 9.2.2011 - 15:20 - 3 ummæli

Bálfararstofa Gufuneskirkjugarði

Í Gufuneskirkjugarði hefur risið þjónustuhús sem er fyrsti áfangi í stærra verki sem hýsa á kirkju, kapellu og bænahús ásamt bálfararstofu og byggingu fyrir erfidrykkjur.

Verkefnið er hannað af  Arkibúllunni sem vann verkið í samkeppni árið 2005.

Þó aðeins sé búið að byggja lítinn hluta af heildinni  verður maður þess áskynja að þarna er eitthvað á ferðinni sem vert er að skoða nánar. Strax þegar afstöðumyndin er skoðuð sér maður að vel er að verki staðið.  Afstöðumynd bygginga skiptir meira máli en nokkurn grunar. Það er synd hversu lítið er fjallað um afstöðumyndir þegar talað er um arkitektúr. Á afstöðumyndinni sést hvernig bygging virkar í umhverfi sínu. Ef húsið hefur ekki samhljóm með umhverfinu er betra heima setið en af stað farið.

Eins og hér má sjá eru bifreiðastæði og aðkoma gesta sunnan við byggingarnar og  snúa frá kirkjugarðinum. Þau tæp 200 bifreiðastæði með tilheyrandi umferð hefðu án efa valdið truflun á þeirri ró sem þarf að skapa á slíkum stað.  Aðkoman og bifreiðastæði sunnan bygginganna er böðuð sól og í góðu skjóli fyrir norðanáttinni. Milli bílastæðanna og Hallsvegar er allhá hljóðmön sem hlífir aðkomunni fyrir óþægindum vegna bifreiðaumferðar á Hallsvegi.

Vestast á svæðinu þar sem landið rís hæst, aðeins afsíðis, er gert ráð fyrir sérstakri byggingu þar sem boðið er til erfidrykkju. Erfidrykkjuhúsið er með góðu útsýni til norðurs í átt að Esjunni.

Þegar horft er á þá byggingu sem þegar er risin fær maður á tilfinninguna að hún vísi til spennandi framtíðar þarna í jaðri Gufuneskirkjugarðs.  Efnisvalið og arkitektónisk nálgun gefur fyrirheit um spennandi byggingasamstæðu sem tilhlökkun er að sjá fullbúna í framtíðinni.

Það má kannski bæta því við að það undrar mig oft hvaða byggingar vekja athygli í umræðunni og hvaða  byggingar gera það  ekki.  Sumar eru alltaf að þvælast fyrir manni á sýningum og í prentmáli og á kynningum alls  konar. Aðrar, jafngóðar eða betri sér maður aldrei nokkurs  staðar.  Ég nefni til dæmis skólabyggingu í Borgarnesi sem er mikið hampað.  Í mínum augum er þar á ferðinni ágætis bygging sem ber samt ekki af öðrum byggingum eins og mætti halda miðað við þá athygli sem henni er veitt. Það er mikið til af góðum íslenskum arkitektúr sem er umfjöllunar virði. Af nógu öðru er að taka. Þjónustuhúsið í Gufuneskirkjugarði er eitt þeirra og er ég þar að hugsa um viðbrögð byggingarinnar við umhverfinu,  afstöðuna, arkitektóniska nálgun, efnisval og starfræna þætti í smáu og stóru og ekki síst anda staðarins.

Myndirnar sem fylgja færslunni eru fengnar af heimasíðu teiknistofunnar:

http://www.arkibullan.is/

Arkibúllan er arkitektastofa í eigu Hólmfríðar Ósmann Jónsdóttur og Hrefnu Bjargar Þorsteinsdóttur skólasystrum frá Arkitekthögskolen í Osló.

Afstöðumynd. Aðkoma er frá austri með bifreiðastæðum sunnan við byggingarnar. Friðhelgi kirkjugarðsins er ekki raskað þó þarna komi um 200 bílar þegar mest er.  Bílastæðið er einfalt og auðratað er um það auk þess sem byggingarnar veita því skjól fyrir norðanáttinni.  Aðkoman er á góðum degi sólbjört og skjólgóð. Sunnan bílastæðisins kemur mön sem hindrar sýn að og frá Hallsvegi og stoppar umferðagný. Vestast er bygging sem nýta á til erfidrykkju. Hún stendur hæst og er með útsýni til norðurs að Esjunni.



Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 8.2.2011 - 12:24 - 9 ummæli

BIG í NewYork

Íslandsvinurinn, Daninn, Bjarke Ingels er hér í essinu sínu. New York er góður vettvangur fyrir þennan frjóa og hæfileikaríka arkitekt. Hann skilur staðinn og anda stórborgarinnar. Honum tekst ekki eins vel upp á viðkvæmum stöðum eins og miðborgum Kaupmannahafnar eða Tallin. Skóli hans í Þórshöfn í Færeyjum lofar heldur ekki góðu. En hér í þessu íbúðahúsi í New York tekst honum vel upp. Hann tekur hefðbundið hús sem er einskonar randbyggð og togar það til þannig að úr verður nokkurskonar píramídi sem opnar sig að útsýni og sólarátt. Við þetta hámarkar hann gæði staðarins þannig að sem flestir njóti þeirra og fá bæði útsýn og dagsbirtu.

Þetta er fyrsta hús BIG í norður Ameríku.

Neðst er tengill að stuttu skemmtilegu myndbandi sem lýsir aðstæðum vel og afstöðu hússins til umhverfisins. Afstöðumyndir og viðbrögð húsa við umhverfinu er stórlega vanmetið og aldrei nægjanlega um það hugsað. Stundum sér maður umfjöllun um mannvirki þar sem engin grein er gerð fyrir næsta umhverf þess. Þetta hús er t.d. gott í NY en væri að líkindum slæmt í Reykjavík, svo dæmi sé tekið. Allt á sinn stað og sína stund.

Endilega skoðið myndbandið:

http://vimeo.com/19661303

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn