Mánudagur 7.2.2011 - 08:45 - 9 ummæli

Global Warming – Fljótandi borgir

Í ljósi þess að yfirborð sjávar muni hækka í kjölfar gróðurhúsaáhrifa er gert ráð fyrir miklum fólksflutningum, jafnvel þjóðflutningum þegar þéttbýl svæði fara undir vatn.

Reiknað er með flutningum sem eru meiri og svakalegri en nokkurn tíma hefur gerst í veraldarsögunni. Hundruð miljóna manna munu þurfa að flýja vatnsflóðið þegar ís heimskautanna og jöklar meginlandanna bráðna. Auðvitað vonar fólk að þessi spá gangi ekki eftir en meðan þetta er möguleiki eru skipuleggjendur að velta fyrir sér hvernig bregðast skuli við ef illa fer.

Einn þeirra er arkitektinn Vincent Callebaut sem gert hefur tillögu að algerlega sjálfbærum fljótandi borgum þar sem búa allt að  50 þúsund manns.  Hann kallar þetta „ecopolis“ samanber „metropolis“ og líkir forminu við vatnaliljuna Victoria

Callabaut segir þessa hugmynd vera fyrir “climate change refugees”

Þetta er mikið verkefni sem tekur á öllum umhverfisþáttum á róttækan hátt. Þetta á að vera sjálfbært hvað varðar orku og fæðuöflun. Þarna verður stundaður venjulegur landbúnaður með grænmetisrækt  auk þess að þarna verður umfangsmikil aquaculture eða grænmetisræktun neðansjáfar.

Vincent Callebut og hans teymi gerir ráð fyrir að þetta geti orðið að veruleika um árið 2100 ef það verður ekki þegar orðið of seint þá.

Eitt aðalvandamálið er að hugmyndin er svo dýr að fólk sem þarf sérstaklega á þessu að halda, svo sem íbúar í Bangladesh, mun aldrei hafa ráð á þessu athyglisverða úrræði. En hvað sem öllu líður þá fá hugmyndirnar fólk til þess að velta aðsteðjandi loftslagbreytingum fyrir sér og leita lausna.

Sneiðing.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 3.2.2011 - 09:40 - 5 ummæli

Broadway NY – göngugata

Árið 2009 gerði DOT (Department Of  Transportation) í New York tilraun með að gera Broadway að göngugötu.

Aðferðafræði DOT var skemmtilega óformleg.  Þeir notuðu málningu, blómaker og útihúsgögn til að breyta umferð og helga fótgangangandi mikið svæði á Broadway með litlum tilkostnaði og stunduðu svo rannsóknir á afleiðingum og áhrifum.

Það kom margt áhugavert í ljós  sem kemur vafalaust mörgum á óvart. Til dæmis hafa margir verslunareigendur haldið því fram að ef bílar eru fjarlægðir úr verslunargötum muni viðskiptin minnka. Á sama hátt hafa fasteignaeigendur talið í rökréttu framhaldi af minnkandi viðskiptum að húsaleigutekjur munu lækka. Í þessari tilraun kom þveröfugt á daginn.  Velta smávöruverslunnar jókst og húsaleiga hækkaði.  Fótgangandi vegfarendum líkaði tilraunin vel og óskuðu eftir að þessu yrði haldið áfram.  Mótbárur voru nokkrar og voru leigubílsjórar áberandi þar af augljósum ástæðum.

Fyrir tilraunina var 89% götunnar notað fyrir bíla meðan aðeins 11% var fyrir gangandi þó þeir væru 4,5 sinnum fleiri en þeir sem voru á bíl.

Þetta er áhugavert framhald af síðustu færslu sem fjallar um verkefni nema í skipulags og umhverfisfræðum á Hvanneyri. Í tengslum við þessa tegund verkefna hefur dúkkað upp nýtt hugtak “Streetscape” sem er skilt hugtökunum Landscape, Townscape og jafnvel Mindscape.

Allt stefnir í að tilraunin frá 2009 verði til frambúðar og Broadway gerð  að göngugötu á vissum stöðum (Times Square og Herald Square) og vistgötu annarsstaðar. Gangandi munu fá forgang í þessari miklu bílaborg!  „Miklu bílaborg“ segi ég, það er auðvitað rangnefni vegna þess að til dæmis Reykjavík er  meiri bílaborg en NY.

Þegar endanleg ákvörðun um Broadway sem göngugötu liggur fyrir verður komið fyrir borgartrjám og varanlegu götulandslagi á svæðinu sem breytir því í tæplega 4 kílometra langt útivistarsvæði frá Union Square til Central Park.

Hjálagt eru nokkrar myndir af tilrauninni á Broadway. Efst er útfærsla norsku arkitektanna  Snöhettan af umhverfinu við Times Square.

Þó það komi þessu máli ekki beint við en er því skilt langar mig að nefna að í nýlegri athugun á útgjöldum íbúa í Atlanta, Georgia í Bandaríkjunum kom í ljós að fólk notar 29% af tekjum sínum til húsnæðismála og 32% til daglegra ferðalaga og þar er einkabíllinn langstærsti útgjaðdaliðurinn.  Þetta segir að meðalíbúinn í Atlanta er 4 mánuði á ári að vinna fyrir ferðakostnaði sem að mestu má rekja til illa ígrundaðs borgarskipulags.  Fólk er að átta sig á því að bíllaus lífsstíll á bjarta framtíð fyrir sér. Fjallað er um þetta í myndbandi sem fylgir færslunni. Sjá tengil að neðan.

Bækling um tilraunina á Broadway má finna hér:

http://www.walk21.com/papers/RussoBroadway%20Re-Design%20for%20Walk%2021%2010-7-09%20-%20for%20web.p

Og áhugaverður tengill að myndbandi sem fjallar  um endurskipulag úthverfa m.t.t. einkabílsins hér:

http://www.ted.com/talks/ellen_dunham_jones_retrofitting_suburbia.html

Times Square

Fótgangandi og hjólandi fá meira svigrúm á Broadway en áður.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 2.2.2011 - 12:04 - 5 ummæli

Skólaverkefni-Austurstræti sem göngugata

Guðrún Birna Sigmarsdóttir og Jóhann Smári Pétursson BS nemar í umhverfisdeild Landbúnaðarháskóla Íslands skiluðu síðasta vor verkefni sem heitir “Austurstræti sem göngugata”.

Þau skoðuðu sögu götunnar frá myndun hennar til dagsins í dag og gerðu drög að þróunaráætlun.  Þau SVOT greindu svæðið Lækjartorg, Ingólfstorg, Austurvöll, Austurstræti og Pósthússtræti og rannsökuðu hvort Austurstræti gæti orðið góð göngugata.

Niðurstaðan var að þau telja að Austurstræti geti skapað sér mikla sérstöðu sem göngugata.  Gatan gæti orðið aðal “afþreyingargata” Reykjavíkur og miðpunktur menningar- og ferðamálastarfsemi borgarinnar.  Þau telja þó að Héraðsdómur og Arionbanki ættu ekki að vera þarna, víkja í hliðargötu og hverfa úr “afþreyingargötunni”.  Ég veit ekki af hverju þau nefna ekki Landsbankann í þessu samhengi sem gæti orðið öflugt menningarhús. Þá hefur verið nefnd annarsstaðar sú hugmynd að gera hús Héraðsdóms og Pósthúsreitinn allan að miðbæjarkringlu (verslunarmiðstöð)

Niðurstaða nemanna ásamt nýlegri samþykkt í borgarstjórn benda til þess að hafin sé þróun í þá átt að minnka varanlega umfang einkabifreiða í miðborginni. Ef þetta er stefnan þá þarf samfara henni að bæta þjónustu almenningssamgangna til muna.

Í tillögu nemanna er gerð ráðstöfun til þess að draga úr ókostum vegna veðurfars m.a. með að hægja á norðanstreng sem blæs oft hressilega suður Pósthússtræti og fleira í þeim dúr.

Það er sérstaklega ánægjulegt að með tilkomu kennslu á háskólastigi í arkitektúr, skipulagi og umhverfismálum hér á landi að nemar eru í auknu mæli að skoða  íslensk vandamál og leysa með staðbundnum lausnum.

Myndin efst sýnir það svæði sem þau Guðrún Birna og Jóhann Smári voru að skoða.   Svæðið tekur einnig til Austurvallar og Ingólfstorgs.

Austurstræti iðandi af lífi á góðum degi

Austurstræti á sólríku síðdegi með aspartrjám og fallegum laufum sem bærast léttilega í sumarandvaranum. Mynd tekin af svölum Arionbanka (áður Búnaðarbanka Íslands)

Tölvumynd. Horft vestur Austurstræti

Endurvakin markaður í tengslum við göngusvæðið. Hér er gömul mynd af grásleppusölu í miðbænum

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 31.1.2011 - 08:20 - 20 ummæli

Asparblús borgarstjórnar

Síðunni hefur borist eftirfarandi grein frá Einari E. Sæmundsen landslagsarkitekt FILA.  Einar var garðyrkjustjóri í Kópavogi og kom þar að „Borgartrjárækt“ sem hefur þróast sem sérgrein sem kölluð er „Urban forestri“. Borgartrjárækt hefur verið viðfangsefni Einars um alllangt skeið og  fjallar hann um hana hér í þessari stórgóðu  og tímabæru grein.

Gefum Einari orðið:


Sagt er að stærsti skógur Íslands sé í görðum íbúa á höfuðborgarsvæðinu. Þessi fallegu tré hafa veitt mörgum garðeigandanum ánægju í uppvexti. Ósagt er þá hve mikil áhrif skjólið af gróðrinum hefur haft á húshitunarkostnað eða hreinsunarhlutverk gróðurs fyrir andrúmsloftið.

Saga skipulagðrar trjáræktar hvort heldur er til yndis eða nytja á Íslandi er ekki nema rúmlega eitthundrað ára.  Það má því fullyrða að við séum en að læra hvernig tré og annar nýgræðingur hegðar sér við aðstæður eins og á Íslandi.  Það á við um aspir sem við höfum ræktað í tæp 70 ár á Íslandi en þær geta orðið allt að 200 ára gamlar í heimkynnum sínum. Þetta reynsluleysi og tilraunakennda notkun á trjágróðri segir okkur að við séum að læra. Hluti þess lærdóms er að ræktun í görðum er farin að verða ýmsum til ama. Helst beinist sá ami að Alaskaösp og Sitkagreni. Þeim tveimur trjátegundum sem best hafa fest rætur hér.

Um miðjan níunda áratuginn þá var ráðist í að endurmóta göturými og torg hjá Reykjavíkurborg.    Reynt var að gera yfirbragð svæða vistlegra, helluleggja yfirborðið, þrengt aðeins að bílunum, komið fyrir bekkjum og dvalarsvæðum og síða koma fyrir trjágróðri. Yfirbragð miðborgarinnar breyttist á skömmum tíma mjög til hins betra. Vegna reynsluleysis og sumpart vantrúar á hvaða gróður og jafnvel hvort gróður ætti erindi inn í opinbert rými þá ákváðu menn að velja Alaskaösp hún klikkar ekki. Vantrúarmenn á gildi aspar (ráðgjafar, verkfræðingar og stjórnmálamenn) fengju skjótt að sjá að það gat vel gengið að láta tré vaxa jafnvel í göturýminu.  Aspirnar voru hugsaðar sem einskonar undafarar fyrir aðrar tegundir sem bæði þurfti að rækta upp til þess að koma í staðin og ekki síður þurfti að finna réttu tegundir og kvæmi sem hentuðu.  Nýverið bregður svo við að Borgarstjórn Reykjavíkur blæs til útrýmingarherferðar á öspum í Miðborginni.

Eins og borgarstjóri gæti hafa sagt – þá varð ég dapur við að lesa samhjóma tillögu borgarstjórnar.  Ég hefð viljað sjá mun meiri jákvæðni og framsýni í tillöguflutningi fulltrúa.  Því eins og í pottinn var búið þá var öspin  hugsuð sem undanfari.  Tillagan hefði átt að hljóma að borgarstjórn hleypti af stað undirbúningi, jafnvel rannsóknarverkefni til þess að leiða fram æskilegar tegundir til þess að nota í borgarrými Reykjavíkur. Rannsaka hvernig þyrfti að standa að því að búa jarðveg og aðrar kringumstæður fyrir torggróður. Það tekur ekki meir en nokkrar sekúndur að fella tré en áratugi að rækta tré til þessara nota og láta þau ná nothæfum vexti.  Í nágrannalöndum okkar þá þurfa tré sem notuð eru í opinberu rými áratugi í forræktun og undirbúning til þess að hæfa í nýju umhverfi.

Tillaga borgarstjórnar hefði því átt að leggja áherslu á uppbyggilegar endurbætur á opinberu rými miðborgarinnar. Ekki gefa fyrst veiðileyfi eða útrýma, áður en það sem á að koma í staðinn er fundið.  Það mátti jafnvel lesa milli línanna í tillögunni óminn af þeim gengdarlausa og oft tækifærissinnaða áróðri sem hafður er uppi af hagsmunaaðilum sem hafa tekjur af því að fella tré á vorin fyrir vænann túskilding og þeirra sem eru að hræða líf úr fólki og bjóðast til að kíkja í ræsin í leit að rótum hjá fólki með sérbúnum myndavélum.

Tré eru lifandi verur og vaxa meðan mennirnir sofa – eins og spakur maður sagði – þau vaxa bæði ofanjarðar og neðan. Þau þurfa rými og eru mis vel fallinn til notkunar því þarf að velja rétt tré á rétta staði. Í upphafi skyldi endirinn skoða og með aukinni þekkingu getum við nýtt okkur kosti asparinnar og lágmarkað vandamál.

“If I had eight hours to chop down a tree, I’d spend six hours sharpening my ax” var haft eftir Abraham Lincoln.


Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 28.1.2011 - 11:44 - 6 ummæli

Bræðurnir Thor og Alfred Jensen

Skömmu eftir að forseti Bandaríkjanna Richard Nixon sagði af sér, var hann spurður í viðtali hvernig hann héldi að hans verði minnst í sögunni?  Nixon svaraði að bragði: ”Það fer eftir því hver skrifar söguna”.

Þegar ég hugsa um Alfred Jensen Raavad kom þetta mér í hug og spyr af hverju ég hafi aldrei heyrt um þennan merka mann?  Ég heyri í mínu umhverfi að menn þekkja lítið til hans.  Arkitektar hafa almennt ekki veitt honum sérstaka athygli þó þeir hafi vitað af honum sumir hverjir.

Því var haldið að mér að Fingerplanen, svo dæmi sé tekið, væri hugmynd  Steen Ejler Rassmussen og Peter Bredsdorff. Komið hefur í ljós að þeir áttu ekki hugmyndina, en þróuðu hana og fengu samþykkta.  Alfred Jensen kom fram með hana uppúr 1920 og sagði frá henni  í Borgmesterbogen árið 1929. Ég hef ekki fyrr en í þessari viku vitað af afskiptum hans að skipulags og byggingamálum hér á landi. Ég hef líka, fram á þennan dag, haldið að hugmyndir Guðjóns Samúelssonar um íslenskan byggingastíl væri frá honum sjálfum komnar, en svo er ekki.

Af hverju var nafn Alfred haldið til hlés í Danmörku og einnig hér á landi?

Einn lesenda bloggsins sendi mér eftirfarandi hugsanlega skýringu á því að nafni Alfreds Jensen Rådvad var ekki mikið hampað á stríðsárunum og strax í lok srtíðsins þegar Fingerplanen var samþykkt:

”Það eru margir spennandi þræðir þarna sem gaman væri rekja. Mér þætti ekki ósennilegt að Guðmundur Hannesson læknir hafi haft ágæt tengsl við Alfred. Danir eru enn í dag afskaplega viðkvæmir fyrir sinni fortíð hvað varðar Þriðja Ríkið. Um 1995 framlengdu þeir til dæmis leynd yfir opinberum skjölum frá stríðsárunum um einhverja áratugi. Alfred og Guðmundur voru báðir uppteknir af hugmyndum síns tíma um mannkynbótastefnu  og Alfred tengdist beint antisemitiskum félagsskap. Þrátt fyrir að Alfred sem lést árið 1933 geti ekki á nokkurn hátt tengst þeim glæpum sem voru síðar framdir í nafni þessara hugmynda þá virðist sem hann hafi lent utangarðs í sögunni vegna þessa”.

Steen Ejler Rasmussen og Bredsdorff var báðum vel kunnugt um tilvist og verk Alfreds Jenssen eins og sjá má á eftirtöldum tilvitnunum í bókina ”Steen Ejler Rasmussen” eftir Olaf Lund sem ég fékk sendar frá Ólafi Mathiesen.  Þar ber nafn Alfred á góma:

#1. bls 122-123

“I 1923 var optimismen pa Hirthals´ vegne intakt. Paa den store byplanutstilling dette aar i Göteborg, hvor SER forste gang modte sin kollega og gode ven, Werner Hegemann, blev der vist byplaner fra mange stater og byer i Europa og USA. Danmark var ogsaa repræsenteret bl.a. med Hirtshals-planen fra 1923, med boligkvarteret Gerthasminde i Odense tegnet af Anton Rosen, med planerne for Grundtvigskirken, med Alfreds Raavads plan for Köbenhavn havn foruden med en række historiske byplaner”.

#2. bls 130

“Men her i begyndelsen af 1900-tallet var byplanlægning ikke nogen anerkendt akademisk disciplin. Uden for Akademiet var der især to arkitekter, som dengang beskæftigede sig med byplanlægning. Den ene var Alfred Raavad (1848-1933), som tilbragte 25 af sine unge aar íi USA, og som skrev meget om byplanlægning, bl.a. Borgmesterbogen fra 1929, der er en haandbog i byplanlægning beregnet for politikere og intereressede borgere. Den anden var Charles I. Schou (1884-1973).”

#3. bls 145

“Forestillingen om bydannelsen som en halv-stjerne kunne være inspirert af byplanteoretikeren Alfred Raavad (1848-1933), som Peter Bredsdorff satte höjt, og som i 1920’erne havde foreslaet Nordsjælland opdelt i kileformede “herreder” med spidserne placeret i Köbenhavns centrum.“

Í síðustu tilvitnuninni er auðvitað verið að tala um upphaf Fingerplanen sem nú er álitið ein helsta menningargersemi dönsku þjóðarinnar.

Ég verð að endurtaka vonbrigði mín gagnvart fræðasamfélaginu hér á landi og í Danmörku með þöggun gagnvart þessum áhugasama og duglega manni.  Í Danmörku á ég við Fingerplanen og hér á landi um að augljós tenging verka Guðjóns Samúelssonar við Alfred er hvergi getið. Þeir sem fjallað hafa um Fingerplanen eða byggingamál hér á landi í upphafi síðustu aldar hafa annað tveggja ekki vitað um framlag Alfreds eða það sem verra er sneitt framhjá honum af einhverjum loddara- eða klaufaskaskap.

Verk Guðjóns á borð við fyrstu drög að Sundhöll Reykjavíkur 1923, Þingavallabæjarins, skólanna á Laugarvatni og Laugum, Kolviðarhól o. fl. eru greinilega unnin samkvæmt hugmyndum Alfreds en hugmyndafræðilega eignaðar Guðjóni. Sennilega er það rétt sem haldið hefur verið fram að Guðjón Samúelsson sé besti arkitekt Íslendinga á síðustu öld en jafnframt sá ofmetnasti. Talaður og skrifaður upp.

Dennis Davíð Jóhannesson vekur athygli á Korpúlfsöðum í sambandi við Alfred Jensen og vitnar í Leiðsögurit um islenka byggingalist þar sem segir: „Talið er að upphaflega hafi bróðir Thors, arkitektinn Alfred Raavad, átt hugmyndina um burstabæjarstíll Korpúlfsstaða en fyrstu teikningar af stórbýlinu eru hins vega eftir Guðmund H. Þorláksson húsameistara.“ Þetta er vafalaust rétt vegna þess að Thor eignaðist jörðina og hóf uppbyggingu á henni  skömmu eftir að Alfred lagði fram sínar hugmyndir í íslenska byggingu í bæklingnum ”Íslenzk Húsagerðarlist” árið 1918.

Að lokum má geta þess að þau systkin bræðranna Thor Jensen(1863-1947) og Alfred Jensen (1848-1933) voru 11 auk fjögurra hálfsystra. Faðir þeirra var byggingameistari sem féll frá þegar þeir voru ungir. Thor var sendur  á heimavist fyrir börn sem misst höfðu annað eða bæði foreldri sín. Um fermingaraldur var Thor sendur til Borðeyrar þar sem hann kynntist verðandi eiginkonu sinni Margréti Þorbjörgu Kristinsdóttur og átti hann með henni 11 börn (12 samkvæmt Wilkipedia)

Því má bæta við að Thor Jensen er langafi núverandi skipulagsstjóra ríkisins, Stefáns Thors. Kannski er skipulagsgáfan eins og margt annað geymt í genunum.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 27.1.2011 - 09:09 - 5 ummæli

Íslenzk Húsagerðarlist – Alfred Jensen Raavad


Í lítilli bók/hefti   „Íslenzk Húsagerðarlist – Islandsk Architektur“  eftir Alfred Jensen Raavad sem var gefin út  árið 1918 er höfundur að velta fyrir sér framtíð byggingalistar á íslandi.  Bókin er skrifuð bæði á íslensku og dönsku myndskreytt  með nokkrum teikningum.  Hann er greinilega meðvitaður um staðinn og menningararfinn.  Tillöguuppdrættirnir og textinn bera vott um mikla staðarvitund Alfreds.  Þetta er sérstaklega athyglisvert þegar skoðuð er gömul mynd af húsi sem hann bar mikla ábyrgð á þegar hann vann hjá Burnham & Root  í Chigaco.  Húsið, Great Northern Hotel var byggt á árunum 1890-1892 en rifið árið 1940.   Sjá mynd að ofan.

Alfred Jensen fjallar í bókinni um menningu og menntun arkitekta,  staðarvitund og íslenskan arkitektúr sem mætti finna sér rætur í „foríðarfræi“

Hér nokkrar setningar úr  ofangreindri bók með rithætti sem tíðkaðist þegar textinn var skrifaður fyrir tæpum 100 árum.:

“Framfarir í fjárhag Íslands hafa í för með sjer mörg ætlunarverk í öllu því, er að búnaði og byggingum lýtur;  en sjálfsagt skilyrði fyrir því , að þeim verði komið í lag á þann hátt að sæmilegt má heita, er að landið eignist byggingameistara með fullnaðarnámi í list sinni,  gáfaða innborna menn, sem þekkja sögu og framfarir landsins.  Að minsta kosti ættu að vera 3 eða 4 þesskonar menn í Reykjavík, svo að nokkur samkeppni gæti átt sér stað um þau verkefni, er til verða á hverjum tíma”.

Þarna er hann að tala um að fá innfædda til starfa.  Menn sem skilja landið og staðarandann.  Hann vill að þeir séu það margir að samkeppni myndist í byggingarlistinni.  Hann leggur áherslu á islenskan arkitektúr á  Íslandi.

Síðar talar hann um að hinn “ágæti listamannsskóli í Khöfn” sé opinn íslendingum  svo heldur hann áfram og skrifar;

“Menn halda ef til vill, að ekki sje til á Íslandi fortíðarfræ, er þjóðleg byggingarlist geti gróið upp af,  en svo er það þó.  Bæði í grunnmynd og hinu ytra sniði torfkirkjunnar og hins gamla ísl. bæjar eru fyrirmyndir, gotnesks uppruna og eðlis, sem bezt má nota við ætlunarverk og  byggingar í framtíðinni”.

Ekki er hægt að skilja Alfred öðruvísi þarna en að hann hafi komið auga á einkenni sem vert væri að skoða af lærðum „gáfuðum, innbornum mönnum“

Og svo síðar:

“Meðan ég dvaldi á Íslandi gerði jeg nokkurar teikningar til bráðabirgða, og gerði þar með tilraun til að sýna minn skilning á þessu þjóðarmáli, og jeg vildi óska þess , að yngri listamenn reyndu að nota þær eftir eigin áliti og samkvæmt því sem  fegurðartilfinning og reynslan mundi krefja”.

Þarna er hann m.a. að tala til Guðjóns Samúelssonar hygg ég og hann lætur ekki stöðvast hér við orðin tóm heldur gerir allnokkrar teikningar í samræmi við hugmyndir sínar.  Nokkrar teikningar Alfreds úr bókinni má sjá að neðan.  Þeir sem þekkja til verka Guðjóns Samúelssonar velkjast ekki í vafa um að hann hefur að minnsta kosti lesið þennan texta og skoðað uppdrætti Alfreds.  Líklegt er líka að þeir hafi mælt sér mót nokkru sinnum og rætt þessi mál.

 Svo segir hann:

“ Eins og eðlilegt er, finna menn þörf á að hafa bjartari og rúmbetri hús, til hvers þau eru ætluð. Og það halda menn að fáist með því að líkja eftir erlendum fyrirmyndum þó alveg vanti hina nauðsynlegu fræðslu til þess að geta smíðað þau af list og þekkingu.  Þeir hafa gilda ástæðu, þar sem allt það vantar sem þarf, og þar sem teikningar frá útlöndum, sem notaðar hafa verið, hafa verið ljelegar“.

Þarna neglir hann fasta þá skoðun sína að við eigum að láta okkar byggingalist spretta úr umhverfinu.  Hann biður í raun um „regionalisma“ eins og við köllum það í dag (hugtakið „regionalismi“ var ekki til fyrir 100 árum).  Sennilega er hann regionalisti numer tvö, næstur á eftir Vitruvíusi (lifði frá árinu um 80  til um 15 fyrir kristburð ). Þegar horft er á Great Northern Hotel sem er einkennandi bygging fyrir Chicago um 1900 og  teikningar og huleiðingar sem hér fylgja þá efast maður ekki um heilindi Alfreds Jensen Raadvad hvað þetta varðar.

Nú eru liðin ein öld frá þessum vangaveltum Alfreðs. Maður veltir þessu fyrir sér og spyr hvort við höfum komist nær svarinu á þessum hundrað árum?.  Höfum við komið auga á okkar „fortíðarfræ“?

Þetta er orðið langt og því geymi ég afgangin um þennan merkismann til næstu færslu.

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 26.1.2011 - 09:02 - 4 ummæli

Alfred Jensen Raavad

Í tengslum við færslu um ”Fingurskipulag” Kaupmannahafnar í síðustu viku vakti Jón Guðmundsson arkitekt athygli  á Alfred Jensen Raadvad.   Jón  upplýsti í athugasemdarkerfinu að Jensen sé álitinn fyrsti skipulagsfræðingur dana og einn helsti hugmyndafræðingurinn að baki fingurplansins.   Hann setti skipulagshugmyndina fram í bók sinni ”borgmesterbogen” sem hann hafði skrifað árið 1914 og endurskoðað og gefið út árið 1929.  Það er 18 aárum áður en skipulagið var samþykkt og að mestu eignað Steen Ejler Rasmussen og Peter Bredsdorff.   En eins og fram kom er fingurskipulagið álitið eitt af helstu menningarverðmætum dönsku þjóðarinnar.

Það skemmtilega við þetta er að Alfred Jensen (1848-1933) var stóribróði Thors Jensen (1863-1947) sem var mikill athafnamaður hér á landi í upphafi síðustu aldar.

Eftir að Jón vakti athygli á þessum stórmerkilega manni hefur mér borist ljósrit og aðrar upplýsingar frá fleiri kollegum m.a. frá Ólafi Mathiesen arkitekt o.fl.   Þarna opnast saga af afar merkilegum manni með nýjar hugmyndir í skipulagsmálum og byggingarlist.  Alfred Jensen skrifaði  merkilegar bækur og greinar í blöð um efnið og lagði mikið til í umræðu um bygginga- og skipulagsmál hér á landi.

Alfred Jensen Raavad haslaði sér völl í Chigaco í Bandaríkjunum á þeim tíma sem helstu nýungar í nútíma byggingalist voru að vakna.  Hann vann fyrir og með þeim bestu í faginu þar í borg.  Þeir sem hafa komið til Chigaco þekkja Lake Front og Lake Shore Drive, en borgarskipulagið þar byggir á skipulagi Jensen.  Hann hitti og átti viðtöl við Luis Sullivan (1856-1924) sem ég hef alltaf haft mikil dálæti á og tel upphafsmann nútíma byggingalistar.  Götur Alfreds og Frank LloydWright krossuðust og áttu þeir samleið á mörgum sviðum.

Alfred Jensen  komst í úrslit í samkeppni um skipulag höfuðborgar Ástralíu Canberra að mér er tjáð.

Alfred kom til Íslands og skrifaði um íslenskan arkitektúr og gerði svæðaskipulag af höfuðborgarsvæðinu.  Mér sýnist á Reykjavíkuruppdrættinum, sem hér fylgir, að Alfred hafi gert sér góða grein fyrir mikilvægi samgangna í borgum. Samgöngur er hryggjarstykkið í tillögu hans.

Jón Guðmundsson arkitekt segir í athugasemd sinni að þar hafi  hann ”m.a. lagt til að byggðin ætti að liggja í lægðunum í landslaginu, en hæðirnar og holtin skildu bera meginsamgönguæðarnar og gróðurbeltin.  Þá var hann að hugsa um lestir og sporvagna þar sem bíllinn var rétt að koma til sögunnar. Á Arnarhóli lagði hann til árið 1918 að yrði reistur útsýnisskáli”.

Það veldur manni alltaf vonbrigðum þegar þeir sem skrifa söguna vanda sig ekki. Mér hefur alltaf verið sagt og það stendur í þeim bókum sem ég var látinn lesa að frumkvöðlar Fingraskipulagsins hafi verið Steen Ejler og Bredsdorff árið 1947. En nú kemur í ljós að það var náinn ættingi Thorsaranna sem setti hugmyndina fyrstur fram í bók sinni “Borgmesteren” árið 1929.  Á þessu er hugsanlega  ein skýring sem ég kem að seinna

Ég mun fjalla nánar um Alfred Jensen Raadvad í næstu færslu.

Að ofan er ljósmynd af Alfred tekin 1916 og hér að neðan svæðaskipulag hans af Reykjavík og nágreinni.  Ljósgrái litiurinn er byggðin.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 23.1.2011 - 20:27 - 8 ummæli

Teiknað með hjartanu

Þegar skáldsaga er lesin þarf lesandinn að vera gagnvirkur ef hann ætlar að njóta lestursins að fullu. Það er að segja að hann þarf að leggja nokkuð til skáldsögunnar. Hann þarf að fylla upp í þær eyður sem rithöfundurinn skilur eftir. Lesandinn þarf að gera myndir í huganum af persónunum og umhverfinu sem sagan gerist í.  Hver lesandi skapar sínar myndir.  Þannig vinnur hver lesandi úr texta ritöfundarins.  Það má segja að rithöfundurinn og lesandinn vinni saman að verkinu.  Rithöfundurinn leggur út og lesandinn fullkomnr verkið í huga sér.  Hver á sinn hátt.  Rithöfundurinn lætur lesendanum eftir að fylla út í þá skissu sem hann færir honum. Rithöfundurinn skrifar með hjartanu í samstarfi við lesandann.

Þetta er svipað með uppdrætti arkitekta.  Sá sem les uppdrættina: afstöðumynd, grunnmyndir, sneiðingar og útlit myndar í huganum rými og mannlíf  viðkomandi byggingar.  Sá sem les teikninguna fyllir upp í þau göt sem ekki er gerð grein fyrir á uppdráttunum.  En til þess að lesandinn geti það þarf hann að vera læs,  læs á teikningar.

Fyrir þá sem ekki eru læsir á teikningar hjálpar að gera líkan eða þrívíðar teikningar.  Þríviðar teikningar ganga mis langt.  Sumar sýna aðalatriðin og leiða lesandan langleiðina, en lætur honum eftir að ljúka myndinni, rétt eins og rithöfundurinn sem skrifar skáldsögu.  Þarna er lesandinn gagnvirkur eins og þegar hann les skáldsögu.

Aðrar teikningar ljúka verkinu og eru þannig að það þarf sérfræðing til að sjá hvort þær sýni hugsun eða veruleika. Þarna eru á ferðinni tölvumyndir sem  eru nánast eins og ljósmyndir.  Þegar þannig er unnið er tekið frá lesandanum tækifærið til þess að ímynda sér það sem á vantar og fylla í skörðin.

Gallinn er sá að tölvumyndirnar sýna oftast fallegri mynd af verðandi veruleika en ljósmyndin.  Allavega hef ég aldrei séð byggingu sem er í fallegri á ljósmynd að framkvæmd lokinni en í “renderingu” akitektanna fyrir framkvæmd.

Tölvumyndir eru ofmetnar, og oft beinlínis blekkjandi.  Allir geta lært að gera þrívíðar tölvumyndir og þar þarf enga rýmisgreind til.  Rýmisgreindin vegna gerð þrívíðra tölvumynda er gerfigreind sem er að finna í forritum tölvanna.   Hinsvegar getur enginn gert þrívíða frí hendisteikningu án rýmisgreindar.  Sá sem ekki hefur til að bera rýmisgreind getur ekki orðið góður arkitekt.

Hjálagðar eru nokkrar fríhendisteikningar sem ég fann á netinu á heimasíðu arkitektastofunnar ARGOS.  Þetta eru teikningar þar sem lesandi teikninganna er leiddur hálfa leiðina, en láta honum eftir að fylla í það sem á vantar, rétt eins og höfundur skáldsögunnar.  Þetta eru einstaklega látlausar og fallegar fríhendisteikningar sem gera samt kröfu til lesandans.  Lesandinn þarf að vera gagnvirkur og bæta við þær með hugmyndaflugi sínu til þess að fullkomna myndina á svipaðan hátt og þegar hann les skáldsögu.  Hann þarf ekki að vera fluglæs á teikningar eins og sá sem kann að lesa byggingarnar út frá afstöðumynd, grunnmyndum, sneiðingum og útlitum.

Arkitektar þurfa að hvíla tölvurnar og teikna meira með hendinni og hjartanu eins og dæmin frá ARGOS sýna.

Efst er tillaga að hóteli við bryggjuna á Siglufirði, og endurbygging Sunnubrakkans sem þar stóð, með veitingastaða bryggju og bryggjusvæði. Tillagan var unnin fyrir heimamann


Pakkhúsin og Samkomuhúsið í Flatey séð frá sjónum.

Tillaga að Franska spítalanum á Fáskrúðsfirði með Læknishúsi, Kapellu og Sjúkraskýli að ógleymdu Líkhúsinu. Tillagan var fyrir skömmu samþykkt í byggingarnefnd Fjarðabyggðar.

Tillaga að Árbæjarsafni í Viðey, og má þekkja m.a. gömlu kaþólsku kirkjuna og fleiri hús af safninu.

Endurbyggingu Þórshamars á Seyðisfirði.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 21.1.2011 - 08:29 - 9 ummæli

“The New York Five”

“The New York Five” er nafnið á hóp arkitekta sem sýndu verk sín á MOMA í New York árið 1967.  Allir áttu arkitektarnir það sameiginlegt að aðhyllast modernismann og verk Le Courbusiere á árunum milli 1920 og 1940.

Skrifuð var bók um sýninguna árið 1972 og svo kom umfjöllun  eftir fimm arkitekta í Architectural Forum,  sem kölluð var “Five on Five.  Fimm arkitektar skrifa um fimm arkitekta.  Þetta vakti allt mikla athygli á þessum fimm einstaklingum sem urðu heimsfrægir.

New York Five samanstóð af arkitektunum Michael Graves,  Charles Gwathmey,  John Hejduc.  Peter Eisenman og Richard Meier.

Hejduk og Gwathmey eru báðir látnir en þeir þrír sem eftir lifa hafa skilað af sér mikilvægum verkum sem haft hafa áhrif á byggingalist um allan heim.

Mér hefur alltaf fundist Michael Graves hálf ruglaður, sérstaklega á seinni árum.  Eisenman stundaði svokallaðann Deconstructivisma meðan Meier aðhylltist „Courbusian“ arkitektúr.

Meier hefur vakið forvitni mina og áhuga.  Mér þykir hann áhugaverðastur fimmenninganna og hef ég skoðað allnokkur verka hans.

Meier skortir stundum staðarvitund eins og sjá má á byggingu hans framan við dómkirkjuna í Ulm í Þýskalandi.  Svo á öðrum stöðum virðist hann fullkomlega skilja aðstæður eins og í sumum einbýlishúsum og í Getty Center í Los Angeles. Meier hefur nýlokið við byggingu safn dadaistans  Hans Arp í Þýskalandi,  sem verður spennandi að sjá þegar tækifæri gefst.

Hjálagðar eru teikningar og myndir af nýlegu húsi í Florida eftir Meier.  Ég tel mig sjá þarna áhrif frá Le Courbusiere, Glen Murcutt og Mies van der  Rohe.  Í framsetningunn er ekki hægt að nema neinn stað eða staðareinkenni. Því miður. En þarna má skynja mikinn aga hvert sem litið er. Teikningarnar eru líka agaðar; Grunnmynd, sneiðing, útlit og isometria, blessunarlega lausar við alla ungæðingslega tölvubrellur.

Hvernig væri að bjóða einhverntíma út samkeppni þar sem framlagðar teikningar væru innan þessarra girðinga?  Afsöðumynd, grunnmynd, sneiðingar, útlit og kannski ein ísometria.  Það væri lærdómsríkt vegna þess að maður hefur stundum á tilfinningunni að arkitektasamkeppnir séu einkum samkeppnir um grafiska framsetningu.

Ísometría

Útlit til norðurs

Útlit til vesturs

Sneiðing

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 19.1.2011 - 16:11 - 14 ummæli

Skipulag Stórkaupmannahafnar

 

Þegar horft er á skipulag bæja sér maður oftast einhvern strúktúr eða munstur (pattern) á uppdrættinum. Maður áttar sig oftast fljótt á að munstrið er skipulagt og ekki tilviljunum háð. Allt er annað tveggja: í rökréttu samhengi við skipulagið eða með sögulegri eða pólitískri skýringu. Þetta er ekki alltaf auðséð og stundum óskýrt og krefst þekkingar á efninu. Stundum er skipulagið mjög skýrt og auðlæsilegt.

Þegar horft er á skipulag Reykjavíkur sýnist manni það vera ruglingslegt eins og teningum hafi verið kastað. Það lítur út eins og American quilt saumur. Það er eins og skipulagið sé tilviljunarkenndur bútasaumur. Og þegar höfuðborgarsvæðið allt er skoðað þá eykst ruglingurinn. Auðvitað eru skýringar á þessu, sennilega flestar pólitískar eða efnahagslegar. En skipulagslegar skýringar blasa ekki alltaf við. Skipulagið er oft torlesið.

Í Kaupmannahöft er þetta skýrt og rökrétt hvernig sem litið er á. Voldene og Söerne mynda hring út frá borginni sem opnast með borgarhliðunum; Vesterport, Nörreport, Österport o.s.frv. Svo komu þjóðvegirnir, Kögevejen, Roskildevejen (Gl. Kongevej)  og vegurinn norður  til Hilleröd o. s.frv.

Árið 1947  var búið til svokallað “Fingerplan” sem er skipulagshugmynd sem byggir á sögunni og samgöngukerfi þar sem allir eru vel tengdir borgarumhverfinu um leið og þeir eru í göngufæri við sveitina, landbúnaðarsvæði. Hugmyndin var að borgin ætti að byggjast upp meðfram þjóðvegunum inn til borgarinnar þar sem lestarkerfið gengi líka. Milli fingranna eru svo græn landbúnaðarsvæði öllum til gagns og yndisauka. Til að tengja fingurna koma svokallaðir hringvegir, Ring I, Ring II og Ring III auk þess að þar ganga almenningsvagnar á milli. Ein meginforsenda skipulagsins eru samgöngur með almenningsfarartækjum og aðgengi að náttúrunni. (sjá mynd efst í færslunni)Einkabíllinn er ekki forsenda fyrir búsetu þarna eins og í skipulagi Reykjavíkur. 

Allir íbúar eru í þéttu sambandi við náttúruna og landbúnaðinn um leið og þeir eru tengdir innbyrðis og við atvinnutækifærin, skólana, miðborgina og stjórnsýsluna. Skipulagshugmyndin var heilsusamleg, hagkvæm og sveigjanleg. Þetta er snjöll skipulagshugmynd eins og tíminn hefur sannað.

Þetta skipulag hefur haldið í 63 ár en nú eru blikur á lofti og kemur þar margt til og er endurskoðun í vinnslu.

Steen Ejler Rasmussen arkitekt(sem var aðalkennari Gunnlaugs Halldórssonar arkitekts á Akademíunni í Kaupmannahöfn)  ásamt Peter Bredsdorff arkitekt leiddu vinnuna varðandi Fingerplanen á sínum tíma. Bredsdorff var aðalráðgjafi Reykjavíkurborgar um 1960 þegar aðalskipulag Reykjavíkur var unnið. Honum tókst ekki jafnvel upp í Reykjavík og í Kaupmannahöfn. Kannski vegna þess að hann hafði ekki Steen Ejler sér við hlið.  Líklegra tel ég að það hafi verið vegna afskipta hérlendra stjórnmálamanna og hagsmunaaðila, þó ég viti það ekki.

Til gamans má geta þess að Fingerplanen er á opinberum lista menningarmálaráðuneytis danska yfir helstu menningarverðmæti þeirra. Á þeim lista eru framúrskarandi verk flestra listgreina, bókmennta, myndlistar, tónlistar og arkitektúrs. Skipulagshugmyndin er sem sagt álitinn meiriháttar hluti menningararfs dönsku þjóðarinnar.

Aðalskipulag Reykjavíkur

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn