Þriðjudagur 7.9.2010 - 14:55 - 14 ummæli

Reykjavík rís í 3D

 

Höfði

Reykjavík er að rísa á þrívíddarmynd  Google Earth. Þegar hafa risið einar 10-15 byggingar. Þess verður væntanlega ekki langt að bíða að menn geta nánast gengið um götur Reykjavíkur eftir skjámyndinni.

Hjálagt eru nokkrar myndir af húsum í Reykjavík sem sýna hvert stefnir í þessu stórkostlega umhverfi sem verið er að skapa.

Og neðst er mynd frá New York sem sýnir hvað við eigum von á.

Forsætis

Háskólinn

New York

P.S.

Í athugasemdarkerfinu hér að neðan upplýsir Jón Pálsson að 3D myndirnar séu gerðar af Páli Heimi Pálssyni sem er sagður einn sá besti í veröldinni í gerð þessarra mynda.

Páll Heimir sjálfur tjáir sig einnig og bendir á slóðir að þessu ævintýri.  Ég mæli með að fólk skoði þessar slóðir sem Páll Heimir bendir okkur á.

Ég bæti við einni mynd úr Árbæjarsafni til fróðleiks. 

Árbæjarsafn

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 5.9.2010 - 17:35 - 9 ummæli

Bob Dylan

Selvprtr

Í gær, laugardaginn 4. september, var opnuð myndlistasýning á Statens Museum for Kunst í Kaupmannahöfn með myndum eftir Bob Dylan. Sýningin samanstendur af 40 akrýlmyndum sem hvergi hafa verið sýndar áður, ásamt einum 8 teikningum.

Þessar myndir eru úr flokki sem listamaðurinn kallar ”The Brazil Series” og eru með auðlæsilegum brasíliskum mótivum sem sýna borgarslum og sveitamótiv.  Þar er einnig að finna trúarlega skýrskotun, stjórnmálamenn, mafíuforingja og léttkæddar konur m.m.

Sagt er að myndlistamaðurinn hafi fengið innblástur frá bandarískum realisma frá byrjun tuttugust aldar og frá evrópskum málurum á borð við Matisse. Dylan hefur látið í ljós aðdáun sína á Paul Cézanne sem kemur fram í myndunum.

Ég skoðaði sýninguna á opnunardaginn og hafði mikla ánægju af. Þetta eru stórar myndir sem greinilega voru málaðar af miklum áhuga og eru margar hverjar vel unnar og áhrifamiklar. Það er samhljómur milli verka Dylan sem ljóðskáld/tónskáld og myndlistarmanns þar sem augljóslega kemur fram á báðum sviðum að hann tekur vel eftir umhverfinu.  

Gagnrýnandi á Berlinske Tidende, Torben Weirup, gaf sýningunni ekki góða dóma og spurði af hverju virt listasafn á borð við SMK væri að sýna þessar myndir?  Weirup svaraði sjálfur og sagði að það væri ekki vegna þess að myndirnar væru góðar heldur vegna þess að þetta væri Bob Dylan.  Weirup taldi þetta ekki góða sýningu og bar verkin saman við hæfileika og afrek Dylans á tónlistarsviðinu. Það er ósanngjarnt vegna þess að Dylan er í raun Picasso tónlistarinnar. Hann er afburðamaður á tónlistarsviðinu. Dylan er dvergur í myndlistinni miðað við frammistöðu í tónlistinni þar sem hann er risi.

Ég er ekki sérfræðingur í myndlist en tel að ef Dylan væri eingöngu mynslistarmaður og væri borin saman við aðra myndlistarmenn samtímans þá stæði hann vel fyrir sínu, er allrar athygli verður og á erindi á SMK. Hinsvegar hefði mér þótt viðeigandi að hann hefði hafið feril sinn á myndlistarsviðinu á svipaðan hátt og á tónlistarsviðinu, í einhverskonar grasrótarumhverfi.

Bob Dylan hefur stundað myndlist síðan snemma á sjöunda áratugnum. Hann gerði teikningar, málaði nokkur plötuumslög eins og fyrir plötu The Band, “Musik from Big Pink”, og sína plötu “Selvportrait” árið 1970.  Þessi iðja var ekki áberandi í byrjun en nú hefur áhugi hans fyrir myndlistinni aukist verulega og framfarir eru eftirtektarverðar.  Það verður spennandi að fylgjast með honum sem myndlistamanni á komandi árum.  Bob Dylan, sem verður sjötugur á næsta ári, hélt sína fyrstu málverkasýningu fyrir aðeins um þrem árum.

Dylan var spurður um tjáninguna í myndunum á sýningunni og svaraði:

“If I could have expressed the same in a song, I would have written a song instead”

Fyrir þann sem þetta skrifar hefur Dylan verið samferðamaður frá því að hann fékk flugfreyju til þess að kaupa fyrstu plötu Dylans í New York eftir að hafa lesið um hana í erlendu blaði í byrjun sjöunda áratugarins. Þetta langa ferðalag og aðdáun á tónlistarmanninum varð til þess að sýningin var sótt. Upplifunin er auðvitað tengd þessu langa sambandi við listamannin.

Sýningin á Statens Museum for Kunst stendur til 30 janúar 2011.

Hér að neðan koma þrjár myndir úr “The Brazil Series” og síðan  nokkrar í viðbót auk mynda úr “The Drawn Blank Series”. Efst er mynd sem Dylan málaði árið 1970 og prýðir umslag plötunnar “Selvportrait”

Favela[1]

 

Bahia[1]ed50ad38e6[1]

44748044twosisters416dylan[1]

bobdylan-2[1]

bobdylan-1[1]

dallas-hotel-room[1]

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 28.8.2010 - 07:40 - 9 ummæli

“The Glass House”

 

Hornutlitlett

Arkitektinn Philip Johnson teiknaði “The Glass House” undir áhrifum Farnsworth House eftir Mies van der Rohe.

Húsið sem arkitektinn teiknaði fyrir sjálfan stendur í Connecticut í Bandaríkjunum. Þetta hús er það fyrsta af mörgum sem hann hefur byggt á landareign sinni sem er alls 47 ekrur að stærð. Hann kláraði húsið árið 1949 eða nákvæmlega 20 árum eftir að Mies byggði sýningarskála þjóðverja fyrir heimsýninguna í Barcelona 1929.

The glass house er með mjög opna grunnmynd sem samanstendur af skáparöð sem skermar af svefnherbergi og sívalningi sem myndar baðherbergi og arinn. Eldhúsið  er frístandandi  bekkur. Annað er það ekki.

Allir útveggir eru gler frá gólfi til lofts. Þetta er eins einfalt og hugsast getur.  Í raun eitt stórt 172 fermetra rými sem uppfyllir allar þarfir eins manns.  Lofthæðin er um 3 metrar.

Philipp Johnson var stjórnarformaður MOMA í New York og þótti viðeigandi að hafa myndlist í húsinu.  En þar sem engir veggir voru eru myndirnar látnar standa á pinnum upp úr gólfinu eða að þær voru látnar hanga úr loftinu.

Þó manni finnist húsið smellpassa inn í hugmyndir Mies van der Rohe um að  “less is more” ,  þá var gamli maðurinn ekki ánægður þegar Philip sýndi honum húsið. Sagt er að hann hafi rokið á dyr og sagt að það vantaði alla hugsun í smáatriðin.

Önnur saga segir frá því þegar hópur arkitekta kom í heimsókn til að skoða húsið og byrjuðu að spyrja arkitektinn einhverra rökstuddra gáfulegra spurninga um húsið,  þá hafi Philipp Johnson svarað og sagt: “Shut up and look around”

Útlitlett

glass-house-interior1[1]

PLANSkropp

 

Grunmynd hússins í öllum sínum minimalisma

Warhole m.m

Góðir gestir í heimsókn á góðri stund: Frá vinstri Andy Warhol, David Whitney, Philip Johnson, Dr. John Dalton og Robert A. M. Stern í the Glass House  1964

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 26.8.2010 - 14:27 - 12 ummæli

Erlendir arkitektar á Íslandi

IMG_6815létt

 Strax eftir að fyrstu Íslendingar með menntun í byggingarlist sneru til heim eftir nám var sá tími liðinn sem erlendir arkitektar teiknuðu hús á Íslandi.

Erlendir aðilar komu ekki nálægt húsahönnun hér á landi eftir það. Síðasta opinbera byggingin sem hönnuð var af erlendum aðilum, með einni undantekningu, var Safnahúsið við Hverfisgötu. Það var fyrir 101 ári síðan.

Undantekningin var Norrænahúsið eftir Alvar Aalto sem opnað var 1968.

Þeir erlendu arkitektar sem hér skildu eftir spor sín voru þeir bestu sem völ var á. T. d. Magdahl sem var arkitekt Safnahússins við Hverfisgötu, nú  Þjóðmenningarhús. Eigtved  hannaði Viðeyjarstofu og Fortling  hannaði Bessastaðastofu svo nokkur dæmi séu tekin.

Ekki verður annað sagt en að íslensku arkitektarnir sem tóku við kyndlinum af hinum erlendu fagmönnum fyrir 100 árum hafi staðið sig vel og nægir þar að nefna Rögnvald Ólafsson, Sigurð Guðmundsson, Gunnlaug Halldórsson, Guðjón Samúelsson, Bárð Ísleifsson og marga fl.

Í upphafi góðærisins brugðust peningamennirnir og aðrir áhrifamenn við og tóku til við að sækja erlenda arkitekta hingað til að hanna hús hér á landi. Árangurinn er umhugsunarverður þegar litið er til gæða húsanna og skipulagsþáttar þeirra

Nægir þar að nefna Tónlistarhúsið við Austurhöfnina, Háskólann í Reykjavík og svörtu skuggalegu húsin í Skuggahverfinu sem til skamms tíma litu út eins og borgarastyrjöld hefði geysað á svæðinu. Viðbyggingin við flugstöðina í Keflavík er undantekning enda var að mér skilst nánast öll vinna við hana unnin af íslendingum eftir að samkeppni lauk

Þessi hegðun peningamanna og niðurstöðurnar eða afleiðingarnar  eru afkvæmi góðærisins og þeirrar veruleikafirringar sem þá sveif yfir íslensku þjóðfélagi.

Í íslenskri arkitektastétt býr mikil auðlind. Þessa auðlind þarf að virkja, næg eru verkefnin.

620_x221020091325314949363[1]

Skuggahverfið. Húsin austast eru eftir arkitektana Hróbjart Hróbjartsson og Sigurð Björgólfsson, þá koma hús eftir Guðmund Gunnlaugsson arkitekt og vestast eru hvítar byggingar eftir Guðna Pálsson og Dagnýju Helgadóttur arkitekta. Á milli þeirra koma dökkleit hús eftir dönsku arkitektana SHL.  Hús dönsku arkitektanna skera sig úr hvað varðar form, hlutföll, stærð, efnisval og liti. Sitt sýnist hverjum.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 25.8.2010 - 09:06 - 6 ummæli

Amtsbókasafnið framhald

Amtsbokasafn_mars2004[1]

Í framhaldi af síðustu færslu hafa bæst við fróðleiksmolar um samkeppni Amtsbókasafnsins á Akureyri, sem er söguleg fyrir margra hluta sakir.

Guðmundur Jósson arkitekt, höfundur viðbyggingarinnar,  hafði samband og sagði að samkeppnin um viðbygginguna hafi verið haldin þegar  postmodernisminn stóð sem hæst skömmu fyrir 1990.  Flestar tillögurnar sem teknar voru til dóms hafi verið undir sterkum áhryfum stefnunnar. Þær voru mjög vandaðar en hlaðnar “postmodernisku sprelli” eins og Guðmundur orðaði það.  En það hafi vantað í þær “dialog” við hús Gunnlaugs Halldórssonar. Eftir samkeppnina lá verkið í dvala i ein 10 ár. Til samanburðar lá samkeppnistillaga Gunnlaugs Halldórssonar og Bárðar Íslefssonar í dvala í 33 ár frá árinu 1935 eins og kom fram í fyrri færslu.

Guðmundi þótti það sérstaklega eftirminnilegt að þegar verkið var ræst að nýju þurfti bara að “dusta rykið” af teikningunum og halda svo áfram. Engin stílbrygði þurfti að endurkoða í takt við framrás tímans og anda hans. Einungis þurfti að minnka húsið og breyta í samræmi við nýja forsögn, en arkitektúrinn þoldi það. Guðmundur þakkar það Gunnlaugi Halldórssyni og þeirri virðingu sem borin var fyrir verki hans.

Eiríkur J. sem ég held að þekki vel til málanna, bætti fróðleik við í athugasemdarkerfi síðustu færslu. Athyglis verð uppryfjun hjá Eiríki.

Varðandi postmodernismann þá var hann mikið niðurlægingartímabil í byggingalistinni á sínum tíma. Kannski ekki hugmyndafræðin að baki stefnunnar heldur hvernig arkitektar víðsvegar um heim fóru með hann.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 22.8.2010 - 14:09 - 12 ummæli

Amtsbókasafnið á Akureyri

safnidlett

Árið 1935 var efnt til samkeppni meðal arkitekta um byggingu Amtsbókasafnsins á Akureyri sem var nánast húsnæðislaust þó það væri orðið meira en 100 ára.  Tilefnið var að þá voru liðin 100 ár frá fæðingu Mattíasar Jochumssonar og vildu menn reisa honum vandaðann minnisvarða með nýju húsi yfir starfssemi safnsins.

Fyrstu verðlaun hlutu þeir Bárður Ísleifsson og Gunnlaugur Halldórson, bráðungir arkitektar, sem síðar áttu eftir að vekja mikla athygli. Gunnlaugur var tvímælalaust einn af sterkustu arkitektum sem Ísland hefur alið. Gunnlaugur hafði sterk höfundareinkenni sem ekki eru algeng þegar horft er á lífsverkið allt. T.a.m. hef ég ekki áttað mig á því hvers vegna Guðjón Samúelsson er jafn hátt skrifaður og raun ber vitni. Ein skýringin er sennilega sú að hann byggði meira en nokkur annar í skjóli embættis síns og Jónasar frá Hriflu.  Höfundareinkenni Guðjóns eru ekki sterk og voru nokkuð flöktandi á hans starfsæfi þó svo að hann hafi átt nokkur afburðaverk.

Ekkert varð úr framkvæmdum í kjölfar samkeppninnar 1935.  Það var ekki fyrr en um 33 árum síðar, árið 1968, að  bygging var vígð eftir að arkitektarir höfðu endurskoðað hugmyndir sínar. Þetta er löng saga um heilindi verkkaupans og hæfileika arkitektanna til þess að skilja stað sinn og stund. 

Árið 2004 var vígð velheppnuð viðbygging við safnið. Hún var byggð samkvæmt fyrstuverðlaunatillögu Guðmundar Jónssonar arkitekts sem sýndi skilning á verki gömlu mannanna. Guðmundur sameinaði þáverandi hús og nýbyggingu í listræna heild án þess að húsið sem fyrir var  missti nokkuð af sérkennum sínum. Ekki veit ég hverjir sátu í dómnefnd, en þeir hafa augljóslega haft skilning á gæðum hússins sem fyrir var. Hér er ástæða til að nefna verkfræðihönnunina sem unnin var á Verkfræðistofu Norðurlands.

800px-Snow_crystallization_in_Akureyri_2005-02-26_16-27-21[1]

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 18.8.2010 - 13:10 - 13 ummæli

“Leyfislausar” smábyggingar.

mynd1

Tomas Tjajkovski á teiknistofunni Sommarnöjen í Stokkhólmi sendi mér myndir af húsum sem þau hafa teiknað. Þetta eru stórgóð smáhýsi staðsett víðsvegar í Svíþjóð. Megin hugmyndin er að byggja smáhýsi í stað þess að byggja við eða byggja stórt í byrjun. Smáhýsin, annexin, geta verið svefnaðstaða með snyrtingu, skrifstofa/vinnustofa, baðhús, útsýnisskálar eða eitthvað þessháttar. Hugsunin er sú að auka húsnæðið þegar þörfin kallar og/eða efnahagur leyfir.

En það er ekki það sem vakti athygli mína, heldur hitt að í Svíþjóð þarf ekki að sækja um byggingarleyfi til yfirvalda fyrir svona smáhýsum. Reglurnar ytra segja að sé bygging undir 15 m2 og er ekki hærri en 3 metrar þurfi ekkert byggingaleyfi. Hönnuðurinn þarf einungis að tryggja og bera ábyrgð á að staðsetningin sé innan skipulagsskilmála og að öll ákvæði byggingareglugerðar sé uppfyllt.

Þegar húsið er tilbúið eru teikningar sendar til yfirvalda, ekki til samþykktar heldur til þess að upplýsingar um bygginguna séu til staðar hjá yfirvöldum og til að geta e.t.v. innheimt lögbundin gjöld, svo sem fasteignaskatta m.m.

Mér datt þetta í hug vegna þess að ég hef undanfarið verið að vinna að viðbyggingu við hús hér á landi. Húsið er á þriðja hundrað fermetrar og viðbyggingin er 5,6 m2 (2,4% stækkun). Málið er búið að þvælast um í kerfinu í meira en 10 mánuði. Fyrst sem fyrirspurn, síðan mál með skráningartöflu og þ.h. Þá var beðið um athugun á burðarvirki. Í framhaldinu var ákveðið að gera deiliskipulagsbreytingu með tilheyrandi auglýsingu og athugasemdartíma.

Viðskiptavinur minn skilur ekkert í þessu og það geri ég ekki heldur þó svo að ég viti að allt er þetta samkvæmt gildandi lögum um skipulags- og byggingamál.

Sú hugsun bankar eðlilega uppá hvort þetta sé ekki óþarflega flókið og þungt ferli, hvort ekki megi einfalda þetta með einhverjum hætti?  Má ekki breyta lögum og reglugerðum til einföldunar? Er ekki rétt að skoða  hvernig þetta getur gengið í Svíþjóð og spyrja af hverju gengur þetta þar en ekki hér?

Slóð að heimasíðu sænsku teiknistofunnar er:

www.sommarnojen.se

 Mynd2

mynd3

mynd5

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 15.8.2010 - 21:51 - 9 ummæli

Háspennu risar

 

sshot-1-jin's[1]

Í ársbyrjun 2008 efndi Landsnet hf, í samstarfi við Arkitektafélag Íslands, til alþjóðlegrar samkeppni um hönnun nýrra háspennumastra.

Trúnaðarmaður var Haraldur Helgason arkitekt. Fagdómarar voru Jes Einar Þorsteinsson og Örn Þór Halldórsson arkitektar.

Alls voru 98 tillögur teknar til dóms. Hvað tillögufjölda varðar er þetta ein af stærstu samkeppnum sem haldnar hafa verið hér á landi. Þrenn verðlaun voru veitt. Þrjár tillögur hlutu sérstaka viðurkenningu og 11 til viðbótar þóttu sérstaklega athyglisverðar.

Ein tillagan var frá Choi + Shine Architects í Bandaríkjunum. Mig langar að kynna hana lítillega hér. Tillagan minnir á risa sem ganga um í landslaginu, konur og karla. Til þess að mæta landslaginu eru risarnir látnir krjúpa eða lyfta höndunum þegar þannig stendur á. Tillagan sem er innblásin af styttum Páskaeyja fékk nýlega verðlaun frá Boston Society of Architects fyrir framúrskarandi “óbyggðan arkitektúr” (unbuilt architecture)

Ég er ekki viss um að það væri góð hugmynd að hafa öll möstur í þessari mynd en það væri gaman að hafa svona mastur á einstaka völdum stöðum. Til dæmis síðustu 5-6 möstrin áður en orkan er afgreidd á inn í álver Rio Tintó Alcan í Straumsvík. Ferðamenn og aðrir hefðu eflaust gaman að því.

Myndirnar eru fengnar af heimasíðu Choi + Shine Architects. Slóðin er : arch@choishine.com

sk-7[1]

 

Pylon-Backdrop---Kjolur-Highlands-ts-2[1]

 

MF-Pylon-Backdrop-4[1]struts---pylon-3-(multi-position)[1]

 

pascoa-fotos[1]

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 13.8.2010 - 08:58 - 4 ummæli

Samkeppni á Eskifirði kærð

justice_hammer_1[1]

Í samkeppni um nýtt hjúkrunarheimili á Eskifirði hafa komið fram efasemdir um hæfi fagdómara í keppninni. Í framhaldinu hefur komið fram kæra og er málið nú á borði Kærunefndar útboðsmála, Framkvæmdasýslu ríkisins og lögmanna málsaðila.

Kærandi, Stúdío Strik, krefst þess að kærunefnd útboðsmála stöðvi þegar í stað samningaferli á gundvelli ofangreindrar samkeppni. Þessa kröfu byggir kærandinn á því að annar fagdómaranna sé vanhæfur vegna náinna tengsla hans við arkitektastofuna Einrúm, sem hlaut fyrstu verðlaun.

Margt er tínt til í kærunni og fylgiskjölum m.a. að dómarinn og verðlaunahafinn hafi unnið náið saman í samkeppnum, þeir séu saman að ljúka hönnun Krikaskóla í Mosfellsbæ um þessar mundir og séu nú að hefja vinnu við hönnun leikskóla í Garðabæ. Kærandi telur að hagsmunir dómarans og verðlaunahafans fari saman. Þeir séu í hagsmunasambandi.

Fyrstuverðlaunahafinn, Einrúm arkitektar, tekur til varna og telur að hér sé ekki um hagsmunatengsl að ræða og að vægi fagdómarans sé ekki mikið í fjölskipaðri dómnefnd (skipuð 5 dómurum) og að auki hafi nafnleynd verið tryggð þannig að dómarinn gat ekki vitað hverjir höfundar tillagna voru.

Þetta er einstök staða sem ekki hefur komið upp áður svo ég viti í samkeppnum á Íslandi

Maður veltir fyrir sér af hverju þetta sé einstakt og hafi ekki komið fyrir áður.

Hugsanlegt er að hrakandi siðferði komi til eða hrikalegt ástand í atvinnumálum arkitekta sem gerir það að verkum að menn verða forhertari. Ástæðan getur líka verið að Ísland er lítið land og víða er tengsl að finna milli manna. Það er auðvitað galli og hluti af ástæðunni. En það er ekki tilefni til slökunar, þvert á móti gefur smæðin sértakt tilefni til þess að herða reglurnar og halda vöku sinni.

Skýringin getur líka verið sú að stjórnunarlegt ferli samkeppna er að breytast. Samkeppnir hafa undanfarin rúm 70 ár verið haldnar í samræmi við samkeppnisreglur Arkitektafélags Íslands. Verklag sem þar hefur mótast  fylgja venjur og góðir siðir. Oftast hefur framkvæmdin gengið vel þegar farið var eftir reglum AÍ.

Samkvæmt hefðinni hefur verkstjórn samkeppna verið í höndum trúnaðarmanns sem er óumdeildur og reynslumikill arkitekt sem sjálfur hefur reynslu af þátttöku í samkeppnum og setu í dómarasæti. Þetta er einn mikilvægasti maður samkeppninnar og gerðar eru miklar kröfur til hans. Í samkeppnisreglum AÍ liggur mikil reynsla og ekki síður  e.k. kultúr og siðfræði. Samkeppnir eru ein af þeim stoðum sem standa undir góðri byggingarlist í landinu og framþróun hennar auk þess að vera einn mikilvægasti þátturinn í nýliðun í stéttinni.

Þannig er þetta ekki lengur.  Yfir 70 ára saga hefur verið rofin með því að setja samkeppnisreglur AÍ til hliðar með allri þeirri reynslu sem þar hefur safnast og þeim góðu hefðum sem þeim hafa fylgt. Þess í stað er farið eftir svokölluðum “Leiðbeiningum um hönnunarsamkeppni” sem einungis liggur fyrir í drögum. Trúnaðarmaður sem keppendur vita lítil deili á er fundinn í embættismannakerfinu eins og hér í Eskifjarðarsamkeppninni. Það er auðvitað ótækt.

Nú stefnir í að þetta mál verði leyst hjá kærunefnd útboðsmála til að byrja með. Það er sama hver niðurstaðan verður, byggingarlistin tapar, samkepppnisformið missir stöðu sína, verkkaupinn tapar.

Var hægt að afstýra þessu? Já ég tel það. Ef samkeppnisreglur AÍ hefðu verið notaðar og virtar með allri sinni sögu og hefðum þá hefði þetta sennilega ekki gerst. Vinningshafinn hefði ekki lagt inn tillögu með samstarfsmanni sínum í dómarasæti. Dómarinn hefði gert grein fyrir tengslum sínum við vinningshafann þegar nafnleynd var rofinn og vikið. Og svo hefði trúnaðarmaðurinn stöðvað atburðarásina áður en til kastanna kom.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 8.8.2010 - 14:04 - 19 ummæli

125-163 arkitektar á bótum

Dubai_byggingarkranar_Photos_jpg_620x1200_q95[1]

 

Í venjulegu árferði hafa arkitektar starfandi á arkitektastofum á Íslandi verið um 330 talsins og farið vaxandi.

Samkvæmt upplýsingum sem mér hefur borist og eiga rætur sínar að rekja til Vinnumálastofnunnar náði tala atvinnulausra arkitekta hámarki í mars 2009 þegar þeir urðu 193 talsins eða tæplega 60% þeira sem voru á almennum markaði. Það sem af er þessu ári hefur talan verið milli 125 og 167  (38-50%).

Þetta segir aðeins hluta sögunnar því fjöldi arkitekta hafa fundið sér störf undan síns menntunarsviðs og aðrir hafa sest á skólabekk eða flutt til útlanda. Ekki er óvarlegt að gera ráð fyrir að þarna sé nálægt 20% stéttarinnar. Til viðbótar þessu vinna flestir þeir arkitekta sem enn eru við sín störf í hægagangi. Hægt er að leiða líkur að einungis fimmtungur af starfsgetu arkitektastéttarinnar sé nýtt.

Þekkingin sem búið var að byggja upp er í hættu og ástandið er hörmulegt.

Það hefur verið viðurkennt að þegar vinnan minnkar hjá arkitektum þá minnki hún skömmu síðar hjá byggingaverkfræðingum og svo í lokin kemur höggið á byggingariðnaðinn og öfugt þegar verkefnum fjölgar hjá arkitektastofunum þá glæðist starfsvettvangur verkfræðinga skömmu síðar og svo verða umsvif byggingariðnaðarins lífleg í kjölfarið.

Manni sýnist þegar horft er yfir íslenskt atvinnulíf að staðan sé lang verst í byggingariðnaðinum. Í raun má kannski halda því fram að það sé hvergi virkilega slæmt nema þar. Það eru auðvitað erfiðleikar víðar, en þeir erfiðleikar stafa frekar af skuldsetningu en skorti á eftirspurn eftir vinnunni/framleiðslunni.

Hver er lausnin?

Finna þarf lausn og hana er að finna á hinum pólitíska vettvangi. Það er verkefni stjórnmálamanna að koma byggingariðnaðinum á hreyfingu. Stjórnmálamenn þurfa að einhenda sér að verkefninu í stað þess að vera uppteknir af mannaráðningum og ýmiskonar þrasi um fortíðina og keisarans skegg.

Það eru margar lausnir sem huga mætti að til þess að koma hreyfingu á byggingariðnaðinn.

En þær kosta flestar eitthvað til skemmri tíma litið.

Hugsanlegt væri til dæmis að lækka gatnagerðargjöld um 70-80% næstu 4 árin og hvetja þannig fólk til þess að hefja framkvæmdir fyrr en annars. Fólk mundi þá hefja smíði bílskúra og garðskála við hús sín eða jafnvel hefja nýbyggingar. Ráðast í viðbyggingar sem hafa verið á dagskrá. Þetta eru allt smáverk fyrir vinnandi hendur. Afslatturin mun síðan skila sér til sveitarfélaganna í fasteignagjöldum og útsvari vinnandi fólks.

Það er rétt að geta þess að þegar talað er um 330 arkitekta starfandi á arkitektastofum þá eru þeir sem vinna hjá ríki eða sveitarfélögum ekki taldir með.  Þar hafa lítið verið um uppsagnir. Nánast ekkert í samanburði við hinn almenna markað.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn