
Í gær, laugardaginn 4. september, var opnuð myndlistasýning á Statens Museum for Kunst í Kaupmannahöfn með myndum eftir Bob Dylan. Sýningin samanstendur af 40 akrýlmyndum sem hvergi hafa verið sýndar áður, ásamt einum 8 teikningum.
Þessar myndir eru úr flokki sem listamaðurinn kallar ”The Brazil Series” og eru með auðlæsilegum brasíliskum mótivum sem sýna borgarslum og sveitamótiv. Þar er einnig að finna trúarlega skýrskotun, stjórnmálamenn, mafíuforingja og léttkæddar konur m.m.
Sagt er að myndlistamaðurinn hafi fengið innblástur frá bandarískum realisma frá byrjun tuttugust aldar og frá evrópskum málurum á borð við Matisse. Dylan hefur látið í ljós aðdáun sína á Paul Cézanne sem kemur fram í myndunum.
Ég skoðaði sýninguna á opnunardaginn og hafði mikla ánægju af. Þetta eru stórar myndir sem greinilega voru málaðar af miklum áhuga og eru margar hverjar vel unnar og áhrifamiklar. Það er samhljómur milli verka Dylan sem ljóðskáld/tónskáld og myndlistarmanns þar sem augljóslega kemur fram á báðum sviðum að hann tekur vel eftir umhverfinu.
Gagnrýnandi á Berlinske Tidende, Torben Weirup, gaf sýningunni ekki góða dóma og spurði af hverju virt listasafn á borð við SMK væri að sýna þessar myndir? Weirup svaraði sjálfur og sagði að það væri ekki vegna þess að myndirnar væru góðar heldur vegna þess að þetta væri Bob Dylan. Weirup taldi þetta ekki góða sýningu og bar verkin saman við hæfileika og afrek Dylans á tónlistarsviðinu. Það er ósanngjarnt vegna þess að Dylan er í raun Picasso tónlistarinnar. Hann er afburðamaður á tónlistarsviðinu. Dylan er dvergur í myndlistinni miðað við frammistöðu í tónlistinni þar sem hann er risi.
Ég er ekki sérfræðingur í myndlist en tel að ef Dylan væri eingöngu mynslistarmaður og væri borin saman við aðra myndlistarmenn samtímans þá stæði hann vel fyrir sínu, er allrar athygli verður og á erindi á SMK. Hinsvegar hefði mér þótt viðeigandi að hann hefði hafið feril sinn á myndlistarsviðinu á svipaðan hátt og á tónlistarsviðinu, í einhverskonar grasrótarumhverfi.
Bob Dylan hefur stundað myndlist síðan snemma á sjöunda áratugnum. Hann gerði teikningar, málaði nokkur plötuumslög eins og fyrir plötu The Band, “Musik from Big Pink”, og sína plötu “Selvportrait” árið 1970. Þessi iðja var ekki áberandi í byrjun en nú hefur áhugi hans fyrir myndlistinni aukist verulega og framfarir eru eftirtektarverðar. Það verður spennandi að fylgjast með honum sem myndlistamanni á komandi árum. Bob Dylan, sem verður sjötugur á næsta ári, hélt sína fyrstu málverkasýningu fyrir aðeins um þrem árum.
Dylan var spurður um tjáninguna í myndunum á sýningunni og svaraði:
“If I could have expressed the same in a song, I would have written a song instead”
Fyrir þann sem þetta skrifar hefur Dylan verið samferðamaður frá því að hann fékk flugfreyju til þess að kaupa fyrstu plötu Dylans í New York eftir að hafa lesið um hana í erlendu blaði í byrjun sjöunda áratugarins. Þetta langa ferðalag og aðdáun á tónlistarmanninum varð til þess að sýningin var sótt. Upplifunin er auðvitað tengd þessu langa sambandi við listamannin.
Sýningin á Statens Museum for Kunst stendur til 30 janúar 2011.
Hér að neðan koma þrjár myndir úr “The Brazil Series” og síðan nokkrar í viðbót auk mynda úr “The Drawn Blank Series”. Efst er mynd sem Dylan málaði árið 1970 og prýðir umslag plötunnar “Selvportrait”
![Favela[1] Favela[1]](http://blog.dv.is/wp-content/uploads/sites/58/2010/09/Favela1.jpg)
![Bahia[1] Bahia[1]](http://blog.dv.is/wp-content/uploads/sites/58/2010/09/Bahia1.jpg)
![ed50ad38e6[1] ed50ad38e6[1]](http://blog.dv.is/wp-content/uploads/sites/58/2010/09/ed50ad38e61.jpg)
![44748044twosisters416dylan[1] 44748044twosisters416dylan[1]](http://blog.dv.is/wp-content/uploads/sites/58/2010/09/44748044twosisters416dylan1.jpg)
![bobdylan-2[1] bobdylan-2[1]](http://blog.dv.is/wp-content/uploads/sites/58/2010/09/bobdylan-21.jpg)
![bobdylan-1[1] bobdylan-1[1]](http://blog.dv.is/wp-content/uploads/sites/58/2010/09/bobdylan-11.jpg)
![dallas-hotel-room[1] dallas-hotel-room[1]](http://blog.dv.is/wp-content/uploads/sites/58/2010/09/dallas-hotel-room1.jpg)