Föstudagur 26.3.2010 - 11:14 - 10 ummæli

Höfuðborgarsvæðið

Ný tenging

Fyrir 10 dögum skrifaði ég færslu sem hét “Vatmsmýrin. Núll lausn?”.

Færslan fjallaði um framtíð Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni.

Á mynd, sem fylgdi færslunni og er endurbirt hér, var teiknuð ný hugmynd um samgönguleið sem tengir saman öll sveitarfélögin sunnan Reykjavíkur, þ.e.a.s. Reykjavík,  Kópavog, Álftanes og Garðabæ/Hafnarfjörð.

Mig langar að gera þessa tengingu að umræðuefni nú.

Leiðin setur hörmungarstaðsetningu Háskólans í Reykjavík í eitthvert hugsanlega ásættanlegt samhengi við höfuðborgarumhverfið auk þess að tryggja öryggi íbúa svæðisins. Þessi tenging er í raun fullkomlega nauðsynleg eins og málum er háttað og mun betri en framlenging Suðurgötu út yfir Skerjafjörð og út á Álftanes, sem hefur verið í umræðunni um langt árabil.

Það komu á þriðja tug athugasemda við umrædda færslu sem voru öll skrifuð af mikilli þekkingu og áhuga þar sem margt mjög athyglisvert kom fram. Þetta voru fræðimenn, fagfólk, listamenn og áhugafólk um skipulags- og umhverfismál.

Ein athugasemdin kom frá  Gesti Ólafssyni arkitekt FAÍ og skipulagsfræðingi, en hann segir:

“Samgöngutenging milli gömlu miðbæja Reykjavíkur og Hafnarfjarðar hefur verið til umræðu annað veifið um áratuga skeið án þess að hún hafi verið könnuð í nokkurri alvöru. Samt er hún tvímælalaust ein þeirra samgönguframkvæmda sem núlifandi kynslóð á höfuðborgarsvæðinu gæti verið stolt af að láta afkomendum sínum í té. Það sem hefur komið í veg fyrir þetta er að hér er um hagsmuni fólks í mörgum sveitarfélögum að ræða og ekkert sveitarfélag eða stjórnmálaflokkur hefur viljað eiga hér frumkvæði. Hugsanlega er þó jarðvegur núna til þess rannsaka kosti og galla þessarar mikilvægu tengingar, t.d. ef við berum gæfu til að endurskoða Svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins í ljósi sjálfbærni og hagkvæmni með amk. annan fótinn á jörðinni – sem löngu er orðið tímabært. En til þess þarf auðvitað kraftaverk sem ekki gerist á hverjum degi.”

Færsluna sem vitnað er í og athugasemdir má lesa hér:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2010/03/16/vatnsmyrin-%e2%80%9cnull-lausn%e2%80%9d/#comments

Almenningskerfi

Nokkrir þeirra sem skrifuðu ummæli bættu við hugmyndina og leggja til að tengingin verði ekki ætluð einkabílum heldur einungis almenningsvögnum, leigubílum, gangandi og hjólandi. Einhverjir vildu að brautin yrði tengd e.k. stoðkerfi almannaflutninga á höfuðborgarsvæðinu öllu. Aðrir vildu að brautin héldi áfram upp á Kjalarnes og jafnvel til Suðurnesja.

Ég leyfði mér að strika þessar hugmyndir inn á kortið til glöggvunnar. Ég er ekki viss um hvort ég skildi þessar hugmyndir rétt en menn taka vonandi viljan fyrir verkið.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 23.3.2010 - 23:32 - 2 ummæli

„Íslandsvinurinn“ Glenn Murcutt

murcutt2_hero[1]

Ástralski arkitektinn Glenn Murcutt (Fæddur á Englandi 1936) er heimsfrægur fyrir sinn einstaka arkitektúr. Hann nálgast verkefni sín með landinu og ekki á móti því.  Húsin tengjast umhverfinu og staðnum á mjög náinn hátt.  Hann aðhyllist það sem hann kallar “enviromental architecture”. Hann talar ekki um stíla í byggingalist  heldur heldur frekar um skilning.  Skilning á umhverfinu og áhrif þess á byggingalistina á þeim stað sem hún á að standa.

Hann hefur ferðast mikið um Norðurlönd og fékk innblástur frá arkitektum á borð við Alvar Aalto og Jörn Utzon.

Hann vinnur einn og notar ekki tölvu. Engan ritara og viðskiptavinir hans þurfa að bíða árum saman eftir að hann taki verk að sér,  ef hann á annað borð hefur á því áhuga.

Murcutt hefur komið nokkru sinnum til Íslands og fékk ég tækifæri til þess að verja nokkrum tíma með honum við slíkt tækifæri. Það sem einkennir hann er einlægur áhugi á arkitektúr og skýr sýn á hlutverk arkitektsins og byggingalistarinnar.

Að neðan eru nokkrar myndir af verkum Murcutt og myndband með viðtali við hann. Viðtalið er bútað í tvo 7-9 mínútna hluta sem eru vel þess virði kynna sér.  Það er mikilvægt að horfa á bútana í réttri röð.

Hann byrjar viðtalið með að segja að þrjú mikilvægustu atriði lífsins séu í fyrsta lagi einfaldleiki og í öðru lagi einfaldleiki og í þriðja lagi einfaldleiki.

Hann endar viðtalið með því að vitna í föður sinn sem sagði; „Gæði næsta viðskiptavinar þíns fer eftir því hversu vel þú skilar því verki sem þú nú vinnur að“.  Það þarf nefnilega ekki bara góðan arkitekt til að skapa gott hús. Það þarf góðan viðskiptavin og góðan verktaka.

fletchpagehouse1[1]

14114_image_5.750x503[1]

hab02_hero[1]

Og svo að lokum viðtölin sem allir áhugamenn og fagfólk ætti að skoða og njóta.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 23.3.2010 - 13:13 - 23 ummæli

Welcome to Iceland

 

Hotel_flugstod_150310[1]

Ég fékk þessar myndir sendar frá kollega mínum.  Þarna er um að ræða tæplega 70 herbergja hótel sem reisa á við anddyri landsins,  flugstöð Leifs Eiríkssonar. Framkvæmdir eru þegar hafnar.

Microsoft Word - Tilkynning vegna byggingu h—tels vi Flugst

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 21.3.2010 - 16:17 - 12 ummæli

Reynslusaga frá Kaupmannahöfn

 

Midtermolen

Fyrir einum 15 árum átti ég samtal við vin minn og skólabróðir, Palle Leif Hansen arkitekt í Kaupmannahöfn. Teiknistofa hans var þá að skipuleggja og teikna lúxusíbúðir við Mitdermolen nálægt miðborginni.  Hann sagðist vera að hanna fyrir markhóp sem væri vel efnum búinn og ætti að minnstakosti tvo bíla og þeir væru BMW eða AUDI og að konurnar klæddust í minnkapelsum. Þarna þyrfti í það minnsta 2,5 bílastæði innandyra á hverja íbúð. Íbúðirnar áttu að kosta tugi miljóna króna.  Þetta áttu að vera íbúðir fyrir tekjuháa yuppies. (young urban professionals(!)

Skipulagsyfirvöld tóku vel í hugmyndina um lúxusíbúðir á þessum stað en vildu ekki leyfa bílastæðin. Þau sögðu að borgin leggði áherslu á almenningssamgöngur og væri að byggja upp kostnaðarsamt METRO kerfi. Borgaryfirvöld vildu ekki að strætó sæti fastur í umferðahnútum vegna einkabíla. Þau vildu ekki fjölga einkabílum í miðborginni, þvert á móti.

Verkkaupi sagðist ekki geta selt íbúðirnar nema að þar væri í það minnsta tvö bifreiðastæði innandyra á hverja  íbúð. Þetta væru lúxusíbúðir fyrir efnafólk sem væri vant góðu.

Lendingin varð helmingi færri stæði en verkkaupinn fór í upphafi fram á  innandyra og húsin voru byggð og íbúðirnar seldust allar þrátt fyrir það.

Þetta er reynslusaga um skipulagsvald sem er með stefnu og víkur ekki frá henni.

Maður veltir fyrir sér hvort ekki mætti skoða þá hugmynd að fella niður kröfur um bifreiðastæði vegna íbúða og atvinnuhúsnæðis innan Hringbrautar í Reykjavík. Hvaða áhrif hefði það á þéttingu byggðar, almenningssamgöngur, þjónustu innan hverfisins og lífið milli húsanna?

Myndin sem fylgir færslunni er af líkani af Midtermolen. Þetta er blanda af atvinnu- og íbúðabyggð. Verk teiknistofunnar má skoða á www.plh.dk

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 19.3.2010 - 14:39 - 8 ummæli

Regionalismi

dzn_Niyang-River-Visitor-Center-by-Standardarchitecture-Zhaoyang-Studio-2[1]

Nútíma stefnur byggingalistarinnar eru margar og misjafnlaga mikilvægar. Ég nefni nokkrar af handahófi:

  • Funktionalismi
  • Brutalismi
  • Postmodernismi
  • Regionalismi
  • Metafysik
  • Minimalismi
  • Dekonstruktivismi
  • New Wave
  • Biomorf arkitektúr
  • Nýrationalismi
  • Internationalismi.

Sjálfsagt eru stefnurnar miklu fleiri og margar þeirra skarast nokkuð og líklega er ekki auðvelt að flokka allar byggingar og finna þeim stað í ákveðinni stefnu. En það er sammerkt með þeim flestum að þær standa á traustum stoðum funktionalismans.

Svo er það þannig að einn flokkar verk í einni stefnunni og annar sama hús í annarri.

Sú stefna sem mér finnst menn hafi ekki hugleitt nægjanlega mikið er regionalismi eða lokalismi sem eru andstæður internationalismans. Ég veit ekki hvernig á að íslenska orðið og nota hér danska orðið regionalisma sem er í raun svæðisbundinn arkitektúr.  Í allri glóbaliseringunni á ég von á að áherslur framtíðarinnar verði tengdar regionalismanum í vaxandi mæli. Og er það vel.

Þegar farið var um Jótland á árum áður þá skiptu húsin um lit þegar farið var um sveitir. Liturinn ákvarðaðist af lit leirsins á svæðinu sem múrsteinninn var brenndur úr.  Sum svæðin voru gul, önnur rauð. Þetta var svæðisbundið byggingarefni. Nú er þetta allt í rugli. Í Aberdeen í Skotlandi eru gömlu húsin byggð úr granitsteini meðan þau eru úr sandsteini eða skífum á Suður-Englandi. Allt eftir því byggingarefni sem fannst á staðnum. Fyrr á öldum voru húsin á Íslandi byggð úr torfi og grjóti sem stutt var með rekaviði.

Þessir tímar eru liðnir hér á landi en þeir sem hugsa um íslenska byggingalist sjá samt viss svæðisbundin einkenni.

Það þarf oft ekki mikið til að byggingalistin geti flokkast undir regionalisma. Ég birti hér myndir af nýrri byggingu í Tíbet sem ég leyfi mér að flokka undir regionalisma þó hún sé mjög nútímaleg og ekki í samræmi við þekktustu byggingar landsins í Lhasa, sem yfirleitt  er ímynd umheimsins á tíbeskri byggingarlist.

Það sem veldur því að ég flokka þessa byggingu undir regionalisma er byggingarefnið. Húsið er múrað upp úr steinum sem liggja þarna á jörðinni og í árfarveginum. Þetta er sama byggingarefni og húsin á svæðinu eru byggð úr. Það er einhver búddisk kyrrð yfir húsinu sem tengir það einnig Tíbet. Grunnmyndin og litavalið er hinsvegar aðflutt.

Húsið sem er um 400 m2 og er ferðamiðstöð sem teiknað er af  Zhaoyang Studio í Beijing.

dzn_Niyang-River-Visitor-Center-by-Standardarchitecture-Zhaoyang-Studio-3[1]

dzn_Niyang-River-Visitor-Center-by-Standardarchitecture-Zhaoyang-Studio-12[1]

dzn_Niyang-River-Visitor-Center-by-Standardarchitecture-Zhaoyang-Studio-13[1]

dzn_Niyang-River-Visitor-Center-by-Standardarchitecture-Zhaoyang-Studio-1[1]

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 18.3.2010 - 16:47 - 13 ummæli

Ove Arup – stjörnuverkfræðingur

OVE ARUPlett

Innsæi og sjálfstæð hugsun þar sem farið er út fyrir ramman mætti vera meira áberandi í vinnulagi verkfræðinga. Verkfræðingar hafa tilhneigingu til þess að halda sig við staðla, verkferla og forrit tölvanna. Þeir horfa margir eingöngu á þröngt sérsvið sitt og átta sig stundum ekki á heildinni. Þeir líta á sig sem  sérfræðinga hver á sínu sviði. Þetta er bæði kostur og galli. Sagt er að þeir viti mikið um fátt meðan arkitektar viti lítið um margt. Flestir verkfræðingar feta troðnar slóðir og gera helst aldrei neitt sem ekki hefur verið gert áður.

Það eru til stjörnulögfræðingar, stjörnuarkitektar og stjörnukokkar en stjörnuverkfræðingar eru ekki áberandi. Til þess að móðga ekki íslenska verkfræðinga held ég mig við erlenda stjörnuverkfræðinga og nefni þrjá. Það eru þeir Gustave Eiffel, Pier Luigi Nervi og Ove Arup. Ég er ekki þar með að segja að ekki séu til frábærir verkfræðingar hér á landi. Það er bara þannig að ef ég nefni þrjá íslenska verkfræðinga sem ég hef sérstakar mætur á, þá er hætta á að ég móðgi þrjátíu sem ég ekki nefni.

Þegar ég las nýverið ævisögu dansk-norska verkfræðingsins Ove Arup (1895-1988) “ Masterbuilder of the Twentieth Century”  þá fór ég að velta fyrir mér af hverju stjörnuverkfræðingar væru fáir og af hverju verk þeirra bæru t.d. ekki höfundarrétt nema að takmörkuðu leyti? Ástæðurnar eru vafalaust margar, en þetta er verðugt  rannsóknarefni.

Ove Arup var sérstakur í hópi verkfræðinga og álitinn einn af færustu verkfræðingum heims og ef marka má bókina. Hann fékk tækifæri til þess að koma að vandasömustu verkefnum síns tíma og tókst að ljúka þeim með sóma. Þar er fyrst að telja Sydney Óperuna,  Pombidou menningarmiðstöðina í París og t.d. Þúsaldarbrúnna í London. Hann kom að hönnun Eyrarsundsbrúarinnar milli Svíþjóðar og Danmerkur  þó hann hafi ekki barið hana augum og margt fleira stórt og smátt.

Hann vann með stjörnuarkitektum á borð við Jörn Utzon, Le Courbusier, Walter Gropius, Renzo Piano og Sir Richard Rodgers svo örfáir séu nefndir.

En af hverju var hann sérstakur. Það veit auðvitað ekki nokkur maður.  En maður veltir fyrir sér hvort það hafi skipt máli að Arup lagði stund á heimspeki við Kaupmannahafnarháskóla áður en hann hóf nám í verkfræðinni. Hann var tilfinningamaður og sagt er frá ástarmálum hans í bókinni. Hann spilaði á harmonikku og píano allt sitt líf um leið og hann var ástríðufullur áhugamaður um myndlist. Þessi áhugamál hans sýna að hann kunni að lesa í fleira en forunnar töflur og staðla, fyrir utan að tölvan var ekki að þvælast fyrir honum.

Íslenskir verkfræðingar haf látið til sín taka í listum. Ég nefni Sigurð Thoroddsen verkfræðing sem málaði og Einar B. Pálsson var virkur í tónlistarlífi borgarinnar um árabil sem dæmi.

Hér að neðan eru myndir af Ove Arup að skemmta gestum, á sjötugsafmæli sínu, með hljóðfæraleik annarsvegar og hinsvegar er mynd tekin á skrifstofu hans í London. Þar má sjá skúlptúra og málverk. Málverkið af konunni með barn sitt er eftir franska málarann Jean Souverbie (1891-1881).

Myndin í upphafi færslunnar er af bókarkápu ævisögu Ove Arup eftir Peter Jones. Þar sést aftan á gamla manninn með Sydney Óperuna í baksýn.

OVE  piano_croplett

Skrifstofa OVE croplett

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 16.3.2010 - 20:04 - 23 ummæli

Vatnsmýrin “Núll lausn”?

 

Loftmynd hofudborgarsvaedi

Reykjavíkurflugvöllur hefur verið á leið úr Vatnsmýrinnni í meira en 30 ár. 

Óvissan um framtíð vallarins hefur gert það að verkum að uppbygging hefur engin verið og fasteignir hafa drabbast niður.  Og á hinn vænginn hefur óvissan leitt af sér margvíslegar skipulagsógöngur sem snerta allt höfuðborgarsvæðið.

Umræðan, öll þessi ár, hefur ekki leitt til niðurstöðu sem sátt er um. Málið er í limbói og á meðan  er allri starfsemi og uppbyggingu á flugvellinum haldið í járnum.

Því hefur verið haldið fram að staðsetning flugvallarins hafi sett hömlur á þróun Reykjavíkur. Því hefur líka verið haldið fram að einmitt staðsetning flugvallarins innan borgarinnar hafi haft mest áhrif á farsælt gengi borgarinnar sem höfuðborgar landsins undanfarin rúm 60 ár.

Þetta er átakamál sem skrifaðar hafa verið um ýtarlegar skýrslur og haldnir tugir funda og ráðstefna. Haldnar voru kosningar um málið.  Stór alþjóðleg samkeppni var haldin til þess að upplýsa hvaða tækifæri væri að finna  í Vatnsmýrinni.  Allt án þess að niðurstaða sem sátt er um hafi náðst.

Í stjórnun er notað hugtakið “Núll lausn” eða “Núll valkostur”. En í því felst að gera ekkert og búa við óbreytt ástand. Oft er það besta lausnin.

Þegar skoðaðar eru höfuðborgir Evrópu og fjarlægð frá miðborg til flugvallar þá sést að þær eru allar með flugvöll innan við 20 km frá borgarmiðju og 50% þeirra með flugvöll í innan við 10 km fjarlægð. Stutt vegalengd frá flugvelli til miðborgar er allstaðar álitinn mikill kostur.

Ef stjórnmálamönnum lánaðist að skoða höfuðborgarsvæðið sem eina heild og taka afstöðu til staðsetningar flugvallarins í stærra samhengi má búast við að viðhorfin breyttust. Fólk mundi skoða samkeppnisstöðu höfuðborgarsvæðisins og tækifæri sem byðust með öðru hugarfari.

Hjálögð er loftmynd sem sýnir staðsetningu flugvallarins á höfuðborgarsvæðinu.  Þar er því haldið fram að Reykjavíkurflugvöllur helgi sér um 100 ha byggingarlands.  Handan Skerjafjarðar er sagt að um 800 ha séu mögulegir til uppbyggingar. 

Inná myndina eru teiknaðar hugsanlegar tengingar milli Nauthólsvíkur, Kársness, Álftarness og þaðan til Hafnarfjarðar.

Skyldur höfuðborgarinnar við landsbyggðina eru miklar og spyrja má hvort 10-15 þúsund manna byggð í Vatnsmýri vegi meira en greið tenging við landsbyggðina og útlönd?  Hvort 10-15 þúsund manna byggð þarna vegi meira en sú samkeppnishæfni borgarinnar við aðrar borgir sem staðsetning flugvallarins skapar?  Hvort byggð í Vatnsmýrinni muni draga úr uppbyggingu í núverandi miðborg Reykjavíkur þegar “þægilegri” byggingatækifæri opnast svo nálægt?  Spyrja má hvort ekki megi leysa skipulagsvanda höfuðborgarsvæðisins á hagkvæmari hátt en að flytja flugvöllinn eða leggja niður?  Er þetta skynsamlegt þegar sennilega 10 sinnum stærra land er innan seilingar sunnan Skerjafjarðar?

Á „núll lausnin“ kannski best við í Vatnsmýri?

Svo er hér örstutt kynning á flugvellinum í Toronto í Kanada 

http://www.torontoport.com/flash/airport_hub.swf

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 12.3.2010 - 14:17 - 8 ummæli

Sítrónupressa Philippe Starck

phillipe

Árni Ólafsson  skrifaði athugasemd við bloggið í gær þar sem hann veltir fyrir sér sívakandi spurningunni um  hvort við þurfum að uppfylla einhverjar kröfur til hýbýla umfram þarfir hellisbúans. Bara ef einhver hönnunarfyrirbrigði eftir stjörnurnar sé að finna í viðkomandi hýbýlum þá sé náð ásættanlegum standard!. Árni nefndi þarna Philippe Starck.

Öll athugasemd Árna er umhugsunarverð.  Ég man eftir því að í þáttunum “Innlit/Útlit”  í sjónvarpinu var oft húsahönnun í fókus.  En ég man ekki eftir því að nokkurn tíma hafi verið fjallað um húsin heldur voru skoðaðir hönnunargripir í hýbýlunum,  efni og hvar varan var keypt og hvað iðnaðarmennirnir hafi verið liprir.

Ég hef oft velt fyrir mér stjörnuarkitektum og skoðað þá með gagnrýnum augum.  Til dæmis hina þekktu sítrónupressu Philippe Starck.

Starck hannaði  sítrónupressu sem vakti mikla athygli á sínum tíma vegna formsins og hugmynavinnu sem að baki lá. Pressan er úr málmi og lítur út eins og geimvera úr sögunni “Innrásin frá Mars” (War of the worlds) Hún virkar ágætlega sem munur til þess að skreyta heimili með,  en er afleit sem sítrónupressa.

Ætlast er til þess að ílát sé sett undir pressuna og þegar sítrónunni er þrýst á hana þá drýpur safinn niður í ílátið. Markmiðin eru góð en árangurinn slæmur þegar notagildið er athugað. Venjuleg billeg sítrónupressa úr IKEA er margfalt betri nytjahlutur.

Þegar pressa á sítrónu í “listaverki” Starcks þá er ekki víst að hún passi við pressuna og er annað hvort of stór eða of lítil. Vökvinn rennur  niður í glasið en það gera sítrónusteinarnir líka ásamt því aldinkjöti sem maður vill etv. ekki hafa í safanum. Þegar glasið er tekið undan halda leifar safans áfram að leka niður á borðið og suppa það út.  Í raun er sítrónupressa Philips Starck ónothæf af þessum sökum.

Þegar þessu er lokið og kemur að þrifum á pressu Starcks, þá passar hún illa inn í uppvottvélina.  Efni pressunnar þolir ekki uppþvottavélina og hún skemmist.

Þá vaknar spurningin hvort nútíma nytjahlutur, sítrónupressa, sem þjónar illa hlutverki sínu og þolir ekki uppþvottavél sé góð hönnun?

IMG_0778létt

Til samanburðar birti ég mynd af pressu frá IKEA. Hún var keypt fyrir einum 30 árum og er búin að fara um það bil 1560 sinnum í uppþvottavélina og vera þar i 90 mínútur í hvert sinn. Það sér ekki á henni og hún á eftir að duga í 30 ár í viðbót. IKEA  pressan passar á allar stærðir sítróna og skilur frá þá hluta sítrónunnar sem maður óskar ekki eftir og er þrifalegri. En hún er ekki beinlínis skart sem stillt er upp til sýnis.

catcher-by-joseph-joseph-1[1]catcher-by-joseph-joseph-2[1]

Til samanburðar eru birtar hér myndir af nýrri pressu eftir  hönnuði Joseph Joseph sem er nýstárleg og manni sýnist hún taki á starfrænum grunvallaratriðum sem skipta máli þegar um nytjahlut er að ræða.

IMG_0781lett

Spurning er hvort  pressa Starcks sé ekki fyrst og fremst skraut á borð við verkjastyttur Bing & Gröndal þar sem hver skreytir sín hýbýli eftir sínum smekk og ekki ætlast til neinna praktískra nota ?

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 10.3.2010 - 14:08 - 7 ummæli

Halldór Laxness

2191113893_7928cd73ae[1]

„Maðurinn finnur það sem hann leitar að, og sá sem trúir á draug finnur draug“, sagði Halldór Laxness í Sjálfstæðu fólki. Það fólk sem trúir því að þörf sé fyrir það verður ómissandi. Arkitektar sem ekki trúa því að þeir fái vinnu fá hana ekki. Sjálfsmynd arkitekta er í rusli. Því þarf að breyta. Markaðir fyrir arkitekta eru nægir. Það þarf aðeins að finna þá og aðlaga þjónustuna kröfum þeirra. Nú er staða stéttarinnar slæm og því er haldið fram að það sé milli 80 og 90% atvinnuleysi meðal arkitekta ef frá eru taldir þeir sem starfa hjá ríki og sveitarfélögum. Tækifæri sem var að finna í LSH glötuðust. Nú er að leita annarsstaðar.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 9.3.2010 - 17:31 - 4 ummæli

Frjálslyndi-Erfið skylda

p272286_488_336-1[1]

Einhver frjálslyndasti og mesti hugsuður í danskri arkitektastétt á síðustu öld, Paul Henningsen, sagði eitt sinn „Að vera frjálslyndur væri ekki réttindi heldur erfið skylda. Frjálslyndi fælist ekki í því að trúa á framfarir, heldur að efast um þær“. Þarna átti hann við að maður ætti að vera móttækilegur fyrir breytingum, en jafnframt að vera gagnrýnin á þær.

Þetta sjónarmið hefur sennilega aldrei verið jafn þýðingarmikið og einmitt nú þegar atburðarrás framfaranna er um það bil að taka völdin frá þeim sem þær eiga að þjóna. Þegar hugsað er til framtíðarstefnu er ávallt hollt að hafa hugleiðingar á borð við þær sem Paul Henningsen tjáir hér í huga.

Paul Henningssen (1894-1967) var þekktur fyrir hönnun lampa og virka þáttöku í umræðu í dönsku þjóðfélagi um áratugaskeið.

Hann teiknaði fyrsta PH lampann árið 1924 og var staðararkitekt Tivoli í Kaupmannahöfn frá 1941.

20080119060745-Poul-Henninsen[1]

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn