Fyrir 10 dögum skrifaði ég færslu sem hét “Vatmsmýrin. Núll lausn?”.
Færslan fjallaði um framtíð Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni.
Á mynd, sem fylgdi færslunni og er endurbirt hér, var teiknuð ný hugmynd um samgönguleið sem tengir saman öll sveitarfélögin sunnan Reykjavíkur, þ.e.a.s. Reykjavík, Kópavog, Álftanes og Garðabæ/Hafnarfjörð.
Mig langar að gera þessa tengingu að umræðuefni nú.
Leiðin setur hörmungarstaðsetningu Háskólans í Reykjavík í eitthvert hugsanlega ásættanlegt samhengi við höfuðborgarumhverfið auk þess að tryggja öryggi íbúa svæðisins. Þessi tenging er í raun fullkomlega nauðsynleg eins og málum er háttað og mun betri en framlenging Suðurgötu út yfir Skerjafjörð og út á Álftanes, sem hefur verið í umræðunni um langt árabil.
Það komu á þriðja tug athugasemda við umrædda færslu sem voru öll skrifuð af mikilli þekkingu og áhuga þar sem margt mjög athyglisvert kom fram. Þetta voru fræðimenn, fagfólk, listamenn og áhugafólk um skipulags- og umhverfismál.
Ein athugasemdin kom frá Gesti Ólafssyni arkitekt FAÍ og skipulagsfræðingi, en hann segir:
“Samgöngutenging milli gömlu miðbæja Reykjavíkur og Hafnarfjarðar hefur verið til umræðu annað veifið um áratuga skeið án þess að hún hafi verið könnuð í nokkurri alvöru. Samt er hún tvímælalaust ein þeirra samgönguframkvæmda sem núlifandi kynslóð á höfuðborgarsvæðinu gæti verið stolt af að láta afkomendum sínum í té. Það sem hefur komið í veg fyrir þetta er að hér er um hagsmuni fólks í mörgum sveitarfélögum að ræða og ekkert sveitarfélag eða stjórnmálaflokkur hefur viljað eiga hér frumkvæði. Hugsanlega er þó jarðvegur núna til þess rannsaka kosti og galla þessarar mikilvægu tengingar, t.d. ef við berum gæfu til að endurskoða Svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins í ljósi sjálfbærni og hagkvæmni með amk. annan fótinn á jörðinni – sem löngu er orðið tímabært. En til þess þarf auðvitað kraftaverk sem ekki gerist á hverjum degi.”
Færsluna sem vitnað er í og athugasemdir má lesa hér:
http://blog.eyjan.is/arkitektur/2010/03/16/vatnsmyrin-%e2%80%9cnull-lausn%e2%80%9d/#comments
Nokkrir þeirra sem skrifuðu ummæli bættu við hugmyndina og leggja til að tengingin verði ekki ætluð einkabílum heldur einungis almenningsvögnum, leigubílum, gangandi og hjólandi. Einhverjir vildu að brautin yrði tengd e.k. stoðkerfi almannaflutninga á höfuðborgarsvæðinu öllu. Aðrir vildu að brautin héldi áfram upp á Kjalarnes og jafnvel til Suðurnesja.
Ég leyfði mér að strika þessar hugmyndir inn á kortið til glöggvunnar. Ég er ekki viss um hvort ég skildi þessar hugmyndir rétt en menn taka vonandi viljan fyrir verkið.