Mánudagur 8.3.2010 - 13:40 - 4 ummæli

BIG byggir ráðhús í Tallin

screenshot017[1]

“Íslandsvinurinn” Bjarke Ingels sem rekur teiknistofuna BIG í Kaupmannahöfn hefur unnið nokkrar samkeppnir undanfarið. Síðan teiknistofa hans vann samkeppni um aðalstöðvar gamla Landsbankans hefur hann unnið keppni um listasafn í Mexico, ráðhúsið í Tallin, háhýsi í Kína og bókasafn í Aserbaitijan .

Það er sammerkt með verkum BIG að þau eru framsækin og löðra í hugmyndaauðgi og funktionalisminn er ráðandi. Verk hans eru nýstárleg, spennandi og byggja á einskonar hugmyndafræði eða verklagi sem notað er til þess að nálgast niðurstöðuna. 

En á þeim er einn galli og hann er sá að verk hans taka lítið tillit til þess umhverfis sem þau eiga að rísa. Þau eru ekki eins og bretinn segir ”site specific”. Bjarke Ingels les ekki staðinn og fangar ekki anda hans. Það er sennilega vegna þess að orkan fer í annað eða hitt að hann kann ekki að meta verk fyrri kynslóða og skilur ekki anda staðanna. 

Ég hef aldrei komið til Tallin en mér er sagt að þetta sé vinalegur lítill bær sem hefur sinn sjarma og sín einkenni.

BIG hættir til við að nálgast lausnirnar með e.k. “hér kem ég” þankagangi  eða “First we take Mannhattan, then we take Berlin” 

Þegar ég gekk í arkitektaskóla voru athuganir á staðnum lykilatriði og forsenda fyrir framhaldinu. Skoðað var bæjarskipulagið, landslagið, arkitektúrinn og félagslega umhverfið. Síðan var reynt að ná tökum á anda staðarins og gerðar tillögur sem styrktu kostina og dró úr göllunum 

Hér á eftir koma nokkrar myndir af vinningstillögu BIG í Tallin og að lokum til uppryfjunar tölvumynd af vinningstillögu BIG að Landsbanka Íslands í miðborg Reykjavíkur. 

big-tallinn-town-hall-7[1]

big-tallinn-town-hall-3[1]

pix116[1]

pix115[1]

Hér að neðan er svo tölvumynd af Landsbanka íslands eins og hann var hugsaður af BIG sem hlaut fyrstu verðlaun í lokaðri samkeppni um bygginguna vorið 2008.

picture-22[1]

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 5.3.2010 - 21:11 - 9 ummæli

DESIGNA arkitektar – kynning

aberdeen

 

DESIGNA er íslenskt arkitektafyritæki sem er til helminga í eigu VA arkitekta og Á Stofunni arkitekta. Fyritækið var stofnað með það markmið að ná fótfestu á breskum arkitektamarkaði. Til að byrja með var DESIGNA stofnað til þess að halda utan um tryggingar og fjármál verkefnanna.

Óhætt er að segja að DESIGNA hafi náð góðum árangri og hafa verið reystar þrjár skólabyggingar í Skotlandi hannaðar af stofunum tveim undir merkjum DESIGNA.

Á undanförnum árum hafði Á stofunnar komist í gegnum tvö forvöl áður en VA arkitektar voru fengnir til samstarfs. Auk þess  hafa stofurnar verið kallaðir  til verka í fjórða sinn, á Hjaltlandseyjum. Forvölin voru í héruðunum Angus, Scottish Border og Aberdeen. Fengu íslensku stofurnar  mjög góða dóma fyrir verk sín á öllum stöðunum og báru loks sigur úr bítum í Aberdeen. DESIGNA var kallað til Hjaltlandseyja vegna skólabyggingar þar og áttu fundi með yfirvöldum. En það náðust ekki samningar.

Hjálagt eru myndir af einni skólabyggingu  sem hönnuð var undir merkjum DESIGNA og opnuð var síðastliðið haust í Aberdeen.  Þetta er Cults Academy sem er um 20 þúsund fermetra framhaldsskóli með fullkominni íþróttaaðstöðu. Skólinn er ætlaður 1150 nemendum. Gerður er góður rómur að byggingunni og hefur verið lofsamlega fjallað um hana í sjónvarpi, dagblöðum og tímaritum.

Þetta er eitt dæmi af mörgum sem sýnir og sannar að íslenskir arkitektar standa erlendum starfsbræðrum sínum erlendis hvergi að baki. Þvert á móti.

Eftir bakslag í efnahagsmálum heimsins og lægð í byggingariðnaði hafa tækifærum DESIGNA erlendis fækkað. En öll él styttir upp um síðir.

DESIGNA er dæmi um íslenskt fyrirtæki í arkitektaþjónustu sem hefur ekki burði til þess að vera ábyrgðaraðili í samkeppni um hönnun nýs Landspítala Háskólasjúkrahúss að mati þeirra sem sömdu forvalsgögnin. DESIGNA  hefur ekki hannað þrjú 500 sjúkrarúma spítala á síðustu 10 árum, eins og verkefnastjórnin óskar helst.

Maður veltir fyrir sér hvað vakir fyrir íslenskum stjórnvöldum og viðhorfi þeirra til atvinnulífs hér á landi þegar kröfur á borð við þessar eru á borð bornar.

New Image4

052d2e72b3[1]

New Image5

 

e325462e2a[1]

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 28.2.2010 - 23:26 - 6 ummæli

Betri nýting á húsnæði og mannafla

 

dzn_THE-PRIESTMANGOODE-RECOVERY-LOUNGE-1[1]

Það er ekki bara hér á landi sem arkitektar eru að velta fyrir sér sjúkrahúsum og hagræðingu þar.

Iðnhönnuðirnir hjá Priestmangood hafa lagt fram hugmyndir um sjúkraaðstöðu sem eiga rætur sinar að rekja til aðstöðu á fyrsta farrými stóru flugfélaganna á löngum flugum.

Hugmyndin er að gera eins og í flugvélunum;  Að lágmarka rýmið sem þarf fyrir starfssemina og hámarka framleiðni starfsmanna. Á sjúkradeild þeirri sem hér er til umfjöllunnar komast fleiri sjúklingar á færri fermetra og þeim er þjónað af færri starfsmönnum. Vinna hönnuðanna á rætur sínar að rekja til áforma um sparnað í breska heilbrigðiskerfinu, NHS.

Myndirnar sem fylgja sýna legudeild fyrir stutta innlögn eða aðstöðu þar sem sjúklingar fá næði til að jafna sig eftir aðgerð.

Nýlega kom út fróðleg skýrsla “The Health manifesto”   þar má kynna sér þessar hugmyndir betur. Þar er talað um að auka svokölluð  „High Street walk-in Centers“ í heilsugæslunni. Það er að færa heilsugæsluna nær notendahópnum, sjúklingunum.

Slóðin er hér.:

http://www.priestmangoode.com/content/uploads/The-Health-Manifesto.pdf

Það verður spennandi að sjá sparnaðarhugmyndirnar í þarfagreiningu vegna fyrirhugaðrar nýbyggingar Lanspítala Háskólasjúkrahúss við Hringbraut, en hún verður opinberuð á næstu vikum.

 

dzn_sq_THE-PRIESTMANGOODE-RECOVERY-LOUNGE-2[1]

Það er vert að hugleiða hvor kosturinn sé betri, að vera einn á stofu þar sem manni leiðist og er hugsanlega hræddur um öryggi sitt eða vera á tveggja manna stofu með einhverjum sem ekka á skap með manni. Þriðji kosturinn gæti verið, þegar þannig stendur á, sá sem hér er kynntur

dzn_THE-PRIESTMANGOODE-RECOVERY-LOUNGE-1[1]

Sjálfsagt má byggja einhverja tegund ferðammannaþjónustu á hugmyndum úr aðstöðu á fyrsta farrými flugfélaganna.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 26.2.2010 - 13:28 - 13 ummæli

Form Follows Function

vitruvius_manuscriptlettlett

Yfirgnæfandi meirihluti nútíma arkitekta eru “funktionalistar”,  hvort sem þeim líkar það betur eða verr.

Þetta segi ég vegna þess að byggingarlist er nytjalist.

Ef arkitektar kynna sér bækurnar ”Kindergarten Chats” eða ”Autobiography of an Idea” eftir Louis Sullivan (1856-1924), þar sem hin fleyga setning “ Form follows Function” kom fyrst fram, átta þeir sig strax á því að þeir eru funktionalistar.

Þeir sem kynna sér hina rúmlega 2000 ára “10 bækur um arkitektúr” eftir Vitruvius (80-70 fK- 15 fK)  eða ”Townscape” eftir Gordon Cullen, (1914-1994), “Experiencing architecture” eftir Steen Eiler Rasmussen, (1898-1990) eða ”Bogen om grimt og smukt” eftir Odd Brochmann (1909-1992) sjá að funktionalisminn er góður og óumflýjanlegur.

Alvar Aalto var funktionalisti,  Gropius, Le Corbusier,  Sigurður Guðmundsson og Gunnlaugur Halldórsson voru allir funktionalistar,  Arne Jacobsen og Gunnar Asplund voru líka í þeirra hópi.  Þeir skiluðu góðum arkitektúr.  Þeir skiluðu af sér nytjalist sem stendur tímans tönn.

Tilefni þessarar færslu er,  að ég var að lesa,  einu sinni enn,  bækur Harðar Ágústssonar um Íslenska byggingararfleifð.  Þar er vitnað í Sigurð Guðmundsson (1885-1958) sem var mikilvirkur arkitekt á fyrri hluta síðustu aldar. Tilvitnunin sem fjallar um “hinn nýja stíl” sýnist mér vera frá því um miðjan fjórða áratug síðustu aldar, fyrir brátt 80 árum.

Sigurður sagði: “…hinn nýi stíll gerir fyrst og fremst þær kröfur að húsin séu svo nothæf sem framast má verða, og að öll gerð þeirra og allt form svari til þess hlutverks sem þeim er ætlað. (….) Ennfremur að hin ytri ásýnd segi sannleikann, en sé ekki dulargerfi til þess að leyna sannleikanum”

Þetta hefur verið grundvallaratriði byggingarlistarinnar um áratugaskeið og því er óskiljanlegt að arkitektar hafi enn þá ímynd meðal almennings að þeir séu sífellt að reisa sér minnisvarða. Jafnvel nánustu samstarfsmenn arkitekta, verkfræðingarnir,  átta sig ekki á þessu og taka sér á hendur að vera ábyrgðarmenn á verkum arkitektanna, sem mestu valda þó um niðurstöðu verksins þegar upp er staðið og tímar líða.

Ég verð mikið var við, að þeir sem tjá sig um funktionalismann kenna honum um flest það sem illa fer í byggingarlistinni.

Menn verða að  átta sig á því að það voru rónarnir sem komu óorði á vínið og það er ekki víninu að kenna að til eru rónar.

Lélegu arkitektarnir og verkfræðingarnir komu óorði á funktionalismann, það er ekki stefnunni að kenna.

P.S. Bækur Harðar Ágústssonar um Íslenska byggingararfleifð (I og II) eru til sölu á bókamarkaði í Perlunni núna á góðum prís.

1213809820_SPLASH[1]

Myndir af Villa Savoye eftir Le Corbusier byggð úr LEGO kubbum og opna úr bók Vitruvíusar, “10 bækur um arkitektúr” sem skrifuð var fyrir Krists burð fylgja færslunn.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 24.2.2010 - 10:58 - 11 ummæli

“Hvað kom upp úr kössunum?”

 3413054_5teymi1[1]

Nú liggur fyrir niðurstaða í forvali um hönnun Landspítala Háskólasjúkrahúss. 

Niðurstaðan sýndi að forvalsgögnin voru ekki í samræmi við verkefnið, markaðinn eða þá þjónustu sem er í boði á þessum vettvangi hér á landi.  Viðhöfð var slæm stjórnsýsla, fagfélög voru hundsuð og þau sýndu skort á festu og karakter, eins og það er kallað í handboltanum.

Á daginn kom að einungis 7 umsóknir bárust sem er rúmlega þriðjungur þeirra sem sóttu um sama verkefni fyrir 6 árum. En þá áraði mjög vel hjá arkitektum og lítil eftirspurn eftir verkum miðað við ástandið nú.

Í fréttatilkynningu LSH frá í fyrradag segir að meira en 700 íslenskir sérfræðingar séu að baki teymanna fimm sem komust í gegnum forvalið. Ef  útlendingarnir eru taldir með hljóta sérfræðingarnir að vera nálægt 1000. Það má skilja þetta svo að forvalsnefndinni þyki þetta svolítið  góður árangur hjá sér þó þetta sé sennilega 950 sérfræðingum umfram þörf á samkeppnisstiginu.

Þóknunin fyrir þátttökuna er alls 75 milljónir eða sem nemur um 75 þúsund krónur á hvern sérfræðing sem gera aftur tæp 20 þúsund á mánuði á sérfræðing þá mánuði sem samkeppnin stendur

En sem betur fer er þetta ekki svona. Sennilega koma ekki nema eitthvað innan við 50 manns að gerð samkeppnistillagnanna svo launin verða eitthvað skárri.

Ég er ekki að gagnrýna kollega mína á stofunum sem sóttu um. Þeir fara að þeim reglum sem þeim eru settar, tilneyddir, og ég vona bara að þeim gangi sem best í framhaldinu.

Það sem ég er að gagnrýna er það augljósa, að forvalsgögnin voru vitlaus og ekki sniðin að neinum raunveruleika. Teymin þurftu á aðstoð 2-4 erlendra fyrirtækja hvert til þess að fullnægja skilyrðum forvalsnefndar og komast að borðinu. Teymin eru samsett af mörgum fyrirtækjum sem gerir allan ákvarðanaferil í tillögugerðinni mjög flókinn. Einstök teymi samanstanda af allt að 12 fyrirtækjum, sem flest eru af stærri gerðinni. 

Arkitektafélagið lagði til að LSH færi í hefðbundið lögformlegt skipulagsferli með öllum þeim kynningum sem því tilheyra. Að því loknu yrðu haldnar samtímis 5-10 samkeppnir um einstaka hluta spítalans og í framhaldi yrði hann boðin út í sömu hlutum. Fyrst til verkfræðinga og annarra sérfræðinga og síðan til framkvæmda til verktaka. Þetta hefði komi af stað öflugri hreyfingu á ráðgjafa- og verktakafyrirtæki á landinu að mati arkitekta þar sem stór fjöldi fyrirtækja kæmi að verki.

Það er auðvitað ljóst að þeir sem komu að málinu voru að gera sitt besta og voru í góðri trú. Þessi útkoma er óhappaverk sem hefði auðveldlega verið hægt að komast hjá með því að leita ráða hjá aðilum sem hafa áratuga reynslu í því að varða slóð samkeppna af þessu tagi.

En það var ekki gert.

 

Lesa má meira um málið hér:

http://www.haskolasjukrahus.is/nyrlandspitali/islenska/fjolmidlatorg/frettir/?cat_id=43782&ew_0_a_id=358195

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 22.2.2010 - 13:59 - 6 ummæli

ARGOS – Kynning

argos-heim[1]

Hinar þrjár sýnilegu víddir byggingalistarinnar skipta miklu máli. En það eru fleiri faldar víddir sem skipta ekki síður máli,  t.d. félagslega víddin, hljómburðurinn, lykt og litir.

Svo er það fjórða víddin, tíminn. Þegar hugsað er til arkitektastofunnar ARGOS kemur tíminn einmitt upp í hugann.

ARGOS, Arkitektastofa Grétars Markússonar og Stefáns Arnar Stefánssonar var stofnuð fyrir bráðum tveimur áratugum en stendur á gömlum grunni. Hún á rætur sínar að rekja til Teiknistofunnar Höfða og síðar Teiknistofu Stefáns Jónssonar.

ARGOS hefur unnið að margvíslegum verkefnum á sviði skipulags og bygginga. Þeir fengu Menningarverðlaun DV 1984 fyrir nýbyggingar og umhverfi Bernhöftstorfunnar í Reykjavík, ásamt Einari E. Sæmundsen landslagsarkitekt. Ásamt Hjörleifi Stefánssyni arkitekt  hönnuðu þeir húsið að Vesturgötu 7 fyrir Reykjavíkurborg og ásamt Teiknistofunni Úti og inni hafa þeir unnið að stækkun Grunnskólans á Sauðárkróki.

Þeir hafa einnig unnið að endurbyggingu fjölmargra húsa víða um land, m.a. Ísafoldarhússins í Aðalstræti í Reykjavík, Eyjólfspakkhúss og Stórapakkhúss í Flatey á Breiðafirði og Roalds Brakka á Siglufirði, svo dæmi séu tekin.

Þeir hafa gert teikningar að tilgátuhúsum um skála og kirkju frá landnámsöld í Brattahlíð á Grænlandi og Eiríksstöðum í Haukadal sem byggð voru árið 2000.

Þeir hafa teiknað viðbyggingar við Minjasafnið á Akureyri, Byggðasafnið í Skógum undir Eyjafjöllum, nýbyggingu Safnahússins á Egilsstöðum og safnahús í  gamla kaupfélagshúsinu í Búðardal, svo eitthvað sé nefnt.

Hjálagt eru nokkrar myndir af verkum ARGOS frá liðnum árum. Þar á meðal eru nýbyggingar á horni Aðalstrætis og Túngötu, sem þeir félagar unnu í samstarfi við Steinar Sigurðsson arkitekt og VA-arkitekta. Þetta verk er með flækjustig sem er meira en nokkurt sem ég þekki. Vafalaust meiri enn nokkur spítalabygging þó stærri sé í fermetrum talið.  Í Aðalstræti  blandast saman samþætting merkra fornminja, borgarskipulags þar sem nýtingarhlutfall er yfir 2 en húsahæð er mest 4 hæðir. Þessu til viðbótar kemur flókin starfsemi í húsunum.

Aðalstrætið eftir breytingar á nr.10 (Ljósmynd Guðmundur Ingólfsson)

New Image2léttFógetastofur við Aðalstræti

Grimstalett

Grímsstaðavör

IMG_7152lett

Pakkhúsin og samkomuhúsið í Flatey á Breiðafirði

New Image6lettBernhöftstorfan

New ImagelettEiríksstaðir. Tilgátuhús

img_8382[1]

Byggingar við Aðalstræti þar sem blandað er saman nýju og gömlu

Blassinina-014lett[1]Byggingar við Aðalstræti

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 19.2.2010 - 14:39 - 20 ummæli

Niðurstaða forvals um LSH.

 

Allt var fyrirséð og það sem menn óttuðust kom á daginn. Íslenskir arkitektar leiða aðeins tvö teymi af sjö í arkitektasamkeppni um LHS. Líkur eru á að erlendir arkitektar séu í öllum teymunum.

Síðastliðinn mánudag var skilað inn umsóknum í forvali um að fá að taka þátt í samkeppni um skipulag og nýbyggingar Landspítala Háskólasjúkrahúss við Hringbraut. Vegna þröngra skilyrða forvalsins sóttu aðeins sjö teymi sérfræðinga um að fá að gera tillögu að sjúkrahúsinu. Ef allt hefði verið með felldu hefðu umsækjendur bara frá Íslandi verið um tuttugu.

Í  forvalinu um sama verkefni árið 2004 bárust alls 18 umsóknir um svipaða vinnu en þá var mikið að gera á arkitektastofunum og eftirspurn eftir verkefnum almennt í lágmarki.

Eins og áður hefur komið fram gerði forvalsnefndin kröfur til teymana sem eru þannig  að engin íslensk arkitektastofa gat fullnægt kröfunum. Það er auðvitað léleg stjórnsýsla. Með því gerir nefndin tilraun til þess að beygja arkitekta undir erlenda aðila eða aðra sem fullnægt geta skilyrðum forvalsins. Arkitektafélagið gagnrýndi forvalsgögnin og sagði að engin íslensk arkitektastofa gæti fullnægt skilmálum útboðsins óstudd. Engin íslensk arkitektastofa gæti orðið ábyrgðaraðili síns teymis í arkitektasamkeppninni.

Tvö teymanna sem sóttu um eru merkt arkitektum og því ber að fagna. Það sýnir útsjónarsemi og vilja þeirra sem að þeim standa til þess að verja heiður stéttarinnar í þessu útboði.

Arkitektateymin tvö eru mynduð af hópum arkitekta sem hafa snúið bökum saman og myndað teymi sem vonandi ná að fullnægja skilyrðum forvalsnefndarinnar. Vonandi tekst öðru hvoru þeirra í framhaldinu að laða fram sigurtillöguna.

Þær arkitektastofur sem að þeim standa hefðu ekki getað komist í gegnum forvalið óstuddar. En með því að slá sig saman eiga þær möguleika á að komast að tillögugerðinni. Þessi tvö teymi verja stöðu stéttarinnar með framgöngu sinni. Þau eiga hvað þetta varðar heiður skilinn.

Þetta eru teymi undir forystu Guðjóns Bjarnasonar arkitekts og teymi sem kallar sig TBL og er myndað af arkitektastofunum TARK, Batteríið arkitektar og Landslag. Ekki veit ég hverjir fylla teymi Guðjóns Bjarnasonar en það mun vera allnokkur hópur íslenskra arkitekta og annarra sérfræðinga.

Hin teymin fimm bera sig öðruvísi að.

Þar hafa arkitektar látið beygja sig og ætla að etja kapp um framúrskarandi arkitektúr undir nafni og á ábyrgð verkfræðifyritækja. Þetta er alger nýlunda bæði hér á landi og erlendis, svo mér sé kunnugt um. Sennilega áttu þessar stofur ekki annarra kosta völ eins og atvinnuástand arkitekta er á landinu þessi hörmungar misserin. Nauðsynlegt er að hafa það í huga þegar um þetta er fjallað. Stofurnar höfðu ekki um marga kosti að velja m.t.t. forvalsgagna og ástandsins á byggingamarkaði.

Í forvalsgögnunum er farið fram á að arkitektar séu í teymunum. Þó það nú væri þegar um arkitektasamkeppni er að ræða! En aðrar kröfur eru eins og margoft hefur komið fram, ekki sniðnar að getu og skipulagi íslenskra arkitektastofa.

Það blasir við að verkfræðingar hafa nýtt sér sterka stöðu sína og innlimað arkitektastofurnar í teymi sín eða opnað þeim leið að verkinu.

Ég var á fundi fyrir stuttu þar sem mættar voru stjórnir Félags sjálfstætt starfandi arkitekta og Arkitektafélags Íslands.

Í léttu spjalli komu fram áhyggjur af slæmri ímynd arkitekta í samfélaginu. Ég er þeirrar skoðunar að ímynd arkitekta í þjóðfélaginu sé spegilmynd þeirrar ímyndar sem þeir hafa á sjálfum sér. Sjálfsmynd arkitekta er að því virðist svo slæm að þeir láta yfir sig ganga að taka þátt í samkeppni, þar sem 75-95% vinnunnar er á þeirra höndum, og að hún verði unnin í nafni og á ábyrgð verkfræðifyrirtækja. Þegar ég segi þetta þá á ég við  að sjálfsmynd stéttarinnar sé léleg þó einstakir arkitektar margir hverjir séu býsna kotrosknir.

Á mánudag fáum við svo að heyra niðurstöðu forvalsins og hvernig teymin eru samsett. Hvaða arkitektastofur hafa sótt um í nafni og á ábyrgð verkfræðinganna, hvaða erlendar arkitektastofur koma að verkinu og hvaða arkitektastofur vilja afsala sér höfundarrétti sínum?

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 18.2.2010 - 08:26 - 13 ummæli

Arkitektúr, “félagsleg list”

 

 portret1_b[1]

“Remember that, above all, Architecture is a social art which has to serve society.

Your work will affect the lives of many human beings for many years to come.Winston Churchill once said: “We shape our buildings; thereafter they shape us.”

Þetta fann ég í bók sem ég fékk gefins frá vini mínum í gær.  Ég læt lesendur um að snara þessu.

Bókin heitir “LETTER TO A YOUNG ARCHITECT” eftir gríska arkitektinn Alexandros N. Tombazis, fræðimann og fyrirlesara, sem fæddur er á Indlandi 1939 og alinn upp þar og á Englandi. Helsta viðfangsefni hans er sólarorka og “bioclimatic architecture”

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 17.2.2010 - 09:17 - 8 ummæli

Arkitektar Hjördís & Dennis -Kynning

innantakalett

Tveir reyndir arkitektar stofnuðu arkitektastofuna, Arkitektar Hjördís & Dennis, fyrir um 15 árum.  Eigendurnir hafa komið að mjög fjölbreyttum verkefnum hér á landi og erlendis, einkum á Bretlandseyjum og í Þýskalandi. Byggingarverkefnin eru fjölbreytileg að stærð og gerð, svo sem íbúðarhús, skólabyggingar, félagsheimili, íþróttahús, sundlaugar, hótel, verslunar- og skrifstofuhús o.fl.. Skipulagsverkefnin eru deiliskipulög fyrir sveitarfélög. Önnur verkefni eru hönnun húsgagna, sýninga og ljósaskilta.

Arkitektar Hjördís & Dennis hafa verið virk í samkeppnisumhverfi arkitekta og unnið til fjölda verðlauna og viðurkenninga. Meðal þeirra verka sem byggð hafa verið eftir samkeppnistillögum þeirra má nefna Sendiherrabústað Íslands í Berlin og Viðbyggingu við Laugarnesskóla.

Hjálagðar myndir eru af Sendiherrabústað Íslands í Berlín. Stofan vann verkið að undangenginni opinni samkeppni árið 2003. Byggingin þykir vel heppnuð listrænt, starfrænt og tæknilega séð.

Teiknistofan sem hefur sýnt frumkvæði og frumleika. Teiknistofan er dæmi um færa arkitekta sem fá ekki tækifæri til þess að leggja inn tillögu að nýu Háskólasjúkrahúsi við Hringbraut  vegna þess að forvalsnefnd setur kröfur í forvalinu sem engin íslensk arkitektastofa getur fullnægt óstudd.

Ég tel mig fylgjast mjög vel með því sem er að gerast í bygginga- og skipulagsmálum bæði hér og erlendis. Undanfarið hefur mér borist mikið af myndum af verkum íslenskra arkitekta og ég verð þess áskynja að þeir skila af sér verkum sem eru með því besta sem sést um þessar mundir.  Þess vegna undrar það mig hvað almenn umræða er óhliðholl íslenskum arkitektum. Ég man að Egill Helgason lét eitt sinn detta útúr sér að hann “treysti ekki íslenskum arkitektum” Það hljóta að hafa verið mismæli í hita og þunga dagsins.

meiri innantakalett

New Imagelett

Nmatkrókurlett

send að götulett

sendiráð3lett

Höfundar sendiherrabústaðarins eru arkitektarnir Hjördís Sigurgísladóttir og Dennis Davíð Jóhannesson. Ljósmyndari er  Werner Huthmacher í Berlin.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 16.2.2010 - 09:34 - 1 ummæli

Studio Granda – Kynning

Hafnarhus

Studio Granda hefur sýnt góðan árangur í samkeppnum frá því teiknistofan var stofnuð fyrir rúmum 20 árum. Tillögur þeirra að skrifstofubyggingu Alþingis og að endurmótun Arnarhóls vöktu verðskuldaða athygli fyrir nýstárlega nálgun á úrlausnarefninu.

Arkitektastofan stimplaði sig inn sem ein fremsta stofa landsins þegar hún vann til fyrstu verðlauna um ráðhús Reykjavíkur.

Þetta var ung og óreynd stofa sem ekki hafði fengið neina byggingu byggða eftir sig  þegar hún vann ráðhússamkeppnina en óx og þroskaðist með vegsemdinni.

Studio Granda er gott dæmi um þann sveigjanleika sem einkennir arkitektastarfsemi. Fjöldi starfsmanna ræðst af verkefnastöðunni. Studio Granda hefur verið með stærstu stofum landsins um tíma og minnkað átakalítið niður í eina minnstu og svo upp aftur. Þetta eðli arkitektastarfsemi þekkja allir sem kynna sér rekstarumhverfi arkitekta.

Eftir að hafa unnið samkeppnina um Ráðhús Reykjavíkur hefur stofan unnið til fjölda verðlauna hér heima og erlendis m.a. samkeppni um dómhús Hæstaréttar Íslands og Listasafn Reykjavíkur. Myndir af Ráðhúsi Reykjavíkur, dómhúsi Hæstaréttar, Listasafni Reykjavíkur og bílageymslu Kringlunni fylgja færlsunni.

Studio Granda er dæmi um íslenskt fyrirtæki í arkitektaþjónustu sem er fullkomlega fær um að skila fullnægjandi tillögu í samkeppni um Landspítala Háskólasjúkrahús.

Að mati þeirra  sem sömdu forvalsgögnin hefur Studio Granda ekki burði til þess að vera ábyrgðaraðili í samkeppni um hönnun nýs Landspítala Háskólasjúkrahúss.  Studio Granda hefur ekki hannað þrjú 500 sjúkrarúma sjúkrahús á síðustu 10 árum og skorað fullt hús stiga, eins og  forvalsgögn gera ráð fyrir.

Haesturettur

Kringlan

Radhus

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn