Mánudagur 25.1.2010 - 15:57 - 4 ummæli

Björn Hallsson – Arkitekt – Kynning

Af einhverjum ástæðum birtust ekki myndir af verkum Björns Hallssonar með síðustu færslu.

Ég ætla að bæta úr því í dag og setja nokkrar myndir af nýlegum verkum Björns og kynna hann lítillega fyrir lesendum. Það er vilji minn að kynna lauslega þá arkitekta, landslagsarkitekta. innanhússarkitekta sem tjá sig hér á bloggi mínu um málefni líðandi stundar í skipulags- og byggingamálum. Björn sendi mér skoðanir sínar á málefnum LSH sem birtar voru i síðustu færslu.

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2010/01/22/bjorn-hallsson-lsh/#comments

Björn Stefán Hallsson nam arkitektúr í City of Leicester Polyteknics, nú Montfort University School of Architecture á Englandi og lauk þaðan prófi 1978. Hann vann stuttan tíma hjá Ólafi Sigurðssyni og Guðmundi Kr. Guðmundssyni arkitektum þar til hann stofnaði eigin teiknistofu sem hann rak til 1991 þegar hann flutti til Bandaríkjanna.

Hér heima vann hann nokkrar samkepppnir sjálfur og í félagi við aðra.

Meðal verka hans má nefna Setbergsskóla í Hafnarfirði, nokkrar framúrskarandi skolpdælustöðvar sem sjá má víða við strandlengjuna, Sundlaug í Árbæ með Jóni Þór Þorvaldssyni arkitekt og fl.

Þau tæp 20 ár sem hann hefur starfað í Bandaríkjunum hefur hann verið umsvifamikill í sínu fagi og unnið til margvíslegra verðlauna svo sem Distinguised Building Award, Award for Excellence in Masonry Design o.fl.

Hér að neðan eru nokkrar myndir af verkum sem Björn Hallsson hefur unnið að undanfarin ár.

Northern Arizona University

 

Northern Arizona University
 

 

 

Foxconn China Headquarters

Foxconn China Headquarters
 

 

 

Temps La Defence í París

 

Temps La Defence í París

North Grand High School í Chicago

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 22.1.2010 - 09:42 - 22 ummæli

Björn Hallsson – LSH

Ég fæ mikinn fjölda sendinga frá lesendum mínum í tengslum við bloggið.

Ég er afskaplega þakklátur fyrir það.

Björn Hallsson, arkitekt, sendi mér eftirfarandi texta frá Kína þar sem hann starfar um þessar mundir.

Björn rak teiknistofu í Chicago um árabil og er tvímælalaust sá íslenski arkitekt sem komið hefur að flestum sjúkrahúsum og byggt flesta fermetra allra íslenskra arkitekta auk þess að vera með gríðarlega reynslu í skipulagsmálum.

Það er fengur að því þegar fólk með þennann bakgrunn tjái sig um málefni líðandi stundar í arkitektúr og skipilagi.

Hér kemur hluti tölvupósts Björns, birtur með hans leyfi.

„Þú vaktir athygli á umhverfislegri stöðu Landspítalans og Þingholtsins fyrir nokkru.

Mér dettur í hug í því sambandi, nú þegar undirbúningur er á lokastigi fyrir enn eina arkitektasamkeppni um Landsspítalann, að taka þurfi málið upp frekar og vekja athygli á því hversu óheppileg þessi framkvæmd er.

Þarna kemur margt til – gerð og styrkur byggðarinnar og framtíð hennar, ásýnd borgarmiðjunnar sem smágerðrar byggðar eða stórbygginga á skjön við umhverfið, áfangaskil í framkvæmd sem aldrei fá endanlega mynd (svo sem Tanngarðurinn er vitni um), umferðarkerfi sem er ófullnægjandi, og svo framvegis, og svo framvegis.

Arkitektar og verkfræðingar eru hér, og ævinlega, í þeirri ankannalegu stöðu að vera þiggjendur um störf frá bæjarfélögum og stofnunum og eiga því erfitt með að vera gagnrýnendur.

Þannig finnst mér staðan vera í þessu máli. Flestir okkar fagmanna, og fólk almennt, virðast sammála um að stofnunin fari best þar sem auðveldara sé að eiga við langtíma uppbyggingu (þ.e.a.s. langtíma annmarka þeirra í áfangaskiptri ásýnd) og þar sem samgöngur eru betri – þ.e.a.s. við stofnbrautir austar í borginni.

Jafnframt ber að skoða hvort núverandi lóð spítalans sé ekki nauðsynleg fyrir íbúðarbyggð, til að styrkja byggð á holtinu og í miðborginni.

Stofnanir, og stjórnmálamenn, sem standa að málinu virðast vera læstar í fyrirliggjandi lausn. Aðila virðist vanta til að opna lásinn og leiða málið í betri farveg.

Mér sýnist að þar geti helst komið til fagfélög, svo sem AÍ og félag verkfræðinga.

Komi félögin fram sameiginlega með ályktun þar sem framkvæmdinni er fagnað en jafnframt vísað til farsælli staðsetningar er hugsanlegt að þessu megi breyta áður en slysið, sem þegar er hafið í ýmsum framkvæmdum svæðisins, verður að stórslysi”.

Myndin, sem fylgir færslunni, er af byggingu Foxconn China Headquarters hönnuð af Birni Hallssyni.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 20.1.2010 - 19:13 - 10 ummæli

Arkitektar-Verkfræðingar-Samfélagsleg ábyrgð

Því hefur verið haldið fram að arkitektar viti eitthvað um allt meðan verkfræðingar viti allt um fátt.

Þetta kom mér í hug á fundi sem mér bauðst að fara á í Boston á mánudaginn var.

Þar átti ég tæpra tveggja tíma samtal við Theodore C. Landsmark, president (rektor) í Boston Architecture Collage (BAC) og kollega míns, Anthony C. Romeo, sem rekur teiknistofu í New York ásamt því að hafa umsjón með bókasöfnum í Queens.

Umræðuefnið var samfélagsleg ábyrgð arkitekta og fl.  Þetta var sérstaklega áhugavert í ljósi þess sem nú er að fara að gerast varðandi uppbyggingu á Landspítalalóðinni. En þar er að fara af stað arkitektasamkeppni um stórfellda uppbyggingu á viðkvæmu svæði án þess að deiliskipulag liggi fyrir.  Núverandi byggingamagn á Landspítalalóðinni er um 53.000 m2 og er fyrirhugað að auka það upp í 149.000m2, í tveim áföngum.

Þeir félagarnir á BAC töldu að arkitektar ættu alltaf að horfa á verkefnin með samfélagslegum gleraugum.

Þeir íslensku arkitektar sem hafa á nefinu samfélagsleg gleraugu spyrja sig nú hvort svæðið og byggðamynstrið sunnan í Þingholtunum þoli allt þetta byggingamagn? Þolir gatnakerfið þetta? Þola íslensk ráðgjafafyritæki þetta og þola verktakasfyritækin þetta. Er verklagið sem valið hefur verið hliðhollt samfélaginu núna á þessum erfiðu tímum? o.fl.

Í forvalsgögnum arkitektasamkeppninnar er farið fram á að í hverju teymi séu verkfræðingar sem sérhæfðir eru í rafkerfum, lögnum og loftræsingu, burðarþoli, brunatækni og smáspennukerfum. Allt sérfræðingar á þröngu sviði sem eru óþarfir í arkitekasamkeppni sem þessari, en nauðsynlegir á síðari stigum.

Sá umsækjandi sem hefur hannað meira en 500 rúma sjúkrahús fær fullt hús stiga. Hafi hann ekki minnst 100 háskólamenntaða sérfræðinga innan sinna vébanda kemst hann ekki í gegnum forvalið. Og ábyrgðaraðilinn þarf að lágmarki 30 háskólamenntaða sérfræðinga. Þessar kröfur útiloka íslenskar arkitektastofur til þess að taka að sér að vera ábyrgðaraðili á verksviði sínu.

Með samfélagslegum gleraugum sér hver maður að þessi leið er ekki fær.

Það læðist að manni sá grunur að forvalsgögnin og verklagið sé unnið af verkfræðingum sem sjá ekki skóginn fyrir trjám. Sjá ekki heildina fyrir smáatriðum eins og smáspennukerfum.

Það vekur athygli að ekki er beðið um sérfræðing í umferðamálum. Það hljóta að vera mistök.

Varðandi arkitektana er þetta ekki svo mikið skilgreint. Þeir eru arkitektar og sjá bara heildina. Þeir taka varla eftir trjánum þegar þeir horfa á skóginn.

Á fyrrgreindum fundi flaug setning á borð við þessa sem ég skrifaði hjá mér og leyfi mér að birta hér:

“Engineers tend to be concerned with physical things in and of themselves. Architects are more directly concerned with the human interface with physical things”.

 Slóðin að BAC er þessi 

http://www.the-bac.edu/

Sjá einnig færslu:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2009/12/11/landspitalinn%e2%80%93arkitektar%e2%80%93verktakar/#comments

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 19.1.2010 - 09:18 - 7 ummæli

Kennisetningar

 

 

 

Menn hafa látið mörg gullkorn frá sér fara um byggingalistina.  Ég ætla að ryfja nokkur upp sem áhugafólk hefur bæði gott og gaman af að hugleiða. Ég veit ekki til þess að þau hafi verið þýdd á íslensku og bið afsökunar á að þetta sé hér á ensku.

 

DA VINCI – “There are three classes of people: those who see. Those who see when they are shown. Those who do not see.”

 

MIES van der ROHE – mótaði sterka stefnu með orðunum “Less is More”

 

ROBERT VENTURI- “Less is a bore” (Hann bað reyndar afsökunar á þessari afbökun)

 

BJARKE INGELS – “Yes is More”

 

KOOLHAAS – “More is more”

 

P. JOHNSON  “I am a Whore”

 

P.JOHNSON sagði líka: “All architects want to live beyond their deaths.”


GROPIUS – “Specialists are people who always repeat the same mistakes.”

 

Svo sagði lífskúnsterinn Storm Pedersen: “Ég geri aldrei sömu mistökin tvisvar vegna þess að það er nóg af nýjum mistökum  á boðstólnum”.


F.L.WRIGHT – “The architect must be a prophet… a prophet in the true sense of the term… if he can’t see at least ten years ahead don’t call him an architect.”

 
KOOLHAAS – “Escape from the architecture ghetto is one of the major drivers and has been from the very beginning”


R.STERN“To be an architect is to possess an individual voice speaking a generally understood language of form.”


LOOS –
það er óhætt að taka undir þessi orð “Be not afraid of being called un-fashionable.”


KOOLHAAS – “The work from S, M, L,  to XL was almost suicidal. It required so much effort that our office almost went bankrupt.”


RUSKIN “No person who is not a great sculptor or painter can be an architect. If he is not a sculptor or painter, he can only be a builder.”


MIES van der ROHE“Architecture starts when you carefully put two bricks together. There it begins.”


LOOS“Supply and demand regulate architectural form.”


Le CORBUSIER – “I prefer drawing to talking. Drawing is faster, and leaves less room for lies.” (þetta var fyrir tölvuvæðingu)

ÓNEFNDUR“I can´t remember when I last saw a building, that looked better in real life then in rendering”.


FOSTER – “Control is the wrong word. The practice is very much about sharing, and, in any creative practice, some individuals, whether partners or directors, are much closer to certain projects than I could ever be.”

 

LOUIS SULLIVAN :  Var langflottastur og sagði  “Form must always follow function”


ROGERS“Form follows profit is the aesthetic principle of our times.”

 

Og að lokum ekki beint úr byggingalistinni….en samt, því sveigjanleg hús endast best.

 

DARWIN- “It is not the strongest of the species that survives, nor the most intelligent. It is the one that is the most adaptable to change”.

 

Svo finnst mér Obama svoldið flotttur með “Yes we can” og þá hugsa ég til þess afls sem er að finna í opinni málefnalegri umræðu.  Með henni einni er hægt að færa hlutina til betri vegar.

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 14.1.2010 - 23:25 - 3 ummæli

Vinnuumhverfi arkitekta

 

Ég hef oft á ferðalögum mínum lagt lykkju á leið mína og skoðað arkitektaskóla. Þeirra á meðal eru tveir skólar í Boston, Harvard og BAC, AA í London, Berkeley í  San Fransisco, skólar í Glasgow, Vín, Kaupmannahöfn.o.fl.  Þegar ég skoða verk nemanna skynja ég samhengi milli aðstæðna þar sem námið fer fram og gæða vinnunnar.

Hvetjandi og óskipulegt umhverfi kallar fram frumlegri og betri arkitektúr hjá nemunum. Þetta er kannski bara vitleysa. En mér finnst það samt.

Spurningin er hvort vinnugæði arkitektanna sé í samhengi við aðstöðuna.

Þetta datt mér í hug þegar ég skoðaði teiknistofu Selgas Cano í Madríd.

Í höfuðborg Spánar hefur teiknistofan reist sér hús fyrir starfsemina. Þetta er “falleg” og nýstárleg bygging sem er að hluta til sökkt niður í jörðina á grænu svæði nálægt borginni.

Ég veit ekki mikið um þetta, en sé að þetta er frumlegt og spennandi án þess að þarna sjáist einhverjir kækir eða tískufyrirbrigði líðandi stundar.

Teiknistofan heldur uppi heimasíðu http://www.selgascano.com sem er frumleg eins og húsnæði teiknistofunnar. Gallinn á heimasíðunni er sá að hún er svo frumleg og að það er vandratað um hana nema kannski fyrir gagntekna tölvunörda innan við fermingu.

Að neðan koma myndir sem segja það sem segja þarf.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 13.1.2010 - 14:19 - 11 ummæli

Hagsmunaaðilar deiliskipuleggja

 

 
Nú sýnist mér að forræði yfir deiliskipulagi Landspítalalóðarinnar sé að færast frá borginni til hagsmunaaðila. Það er að segja að Skipulagsráð kjörinna fulltrúa með sína færustu arkitekta og skipulagsfræðinga hjá borginni eru að afhenda meðferð málsins til verkefnisstjórnar LSH.

Það er ekki góð reynsla af því að afhenda hagsmunaaðilum forræðið í deiliskipulagsvinnu.

Maður veltir fyrir sér ástæðum þess að ekki er farið í hefðbundið skipulagsferli á þessum umdeilda og viðkvæma stað. Ferli með tilheyrandi forsögn, umræðu og kynningu.

Í staðinn fyrir hefðbundið vinnulag velur LSH hópa hönnuða til að leggja fram sínar hugmyndir að skipulaginu og þeim byggingum sem þarna eiga að rísa. Hóparnir munu vinna sínar tillögur eftir forskrift spítalans og með hagsmuni LSH að leiðarljósi.

Svo er ein tillagan dæmd best af fámennri dómnefnd.

Eftir að niðurstaða dómnefndar er undirrituð verður pakkinn opnaður. Öll vopn borgaranna og Skipulagsráðs eru slegin úr höndum þeirra og pakkinn gleyptur umræðulaust í einu lagi að undangengnu smá tuði.

Ég trúi því ekki að allt það duglega hugsjónafólk sem nú situr í Skipulagsráði og allt það færa fagfólk sem vinnur í borgarskipulaginu ætli að láta þetta vinnuferli yfir sig og okkur borgarbúa ganga.

Þetta verklag er komið af stað án þess að nokkur maður sé búinn að átta sig á hverjar afleiðingarnar geta orðið. Hvernig verður t.d. brugðist við þegar deiliskipulagið fer í lögboðið kynningarferli. Deiliskipulag sem unnið er á forsendum spítalans.

Þarna verður ekki einungis um deiliskipulag að ræða heldur líka teikningar af fullunnum frumdrögum af húsunum sjálfum, sem verða um 66 þúsund fermetrar.

Hvernig er hægt að snúa við þegar svo langt er komið í ferlinu.

Verður það ekki áhrifalaus sýndarkynning?

Auðvitað verður niðurstaða samkeppninnar að fara í lögboðið kynningarferli, en verður það marktækt?

Er þetta vinnuferli í anda skipulagslaga?

 

 

 

 

 

Yfirlitsmynd af eldri verðlaunatillögu, endurskoðuð.

Verðlaunatillagan séð að norðan.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 11.1.2010 - 14:09 - 5 ummæli

Óróleiki í Alþingishúsinu

 

Fyrir utan pólitískan óróa í Alþingishúsinu er þar einnig nokkur arkitektóniskur órói.

Ég nefni dæmi.

Ef grannt er skoðað sést að hlið Alþingishússins til norðurs er samhverf og sömuleiðis hliðin til suðurs. En það er eins og suðurhliðin og norðurhliðin séu ekki á sama húsinu. Þegar horft er á norðurhliðina blasir við tveggja hæða hús. Þetta kemur fram í gluggasetningu hússins. Þegar suðurhliðin er skoðuð sér maður að Alþingishúsið er þriggja hæða. Sami munur er á austur og vesturhliðinni. Austurhliðin er þriggja hæða meðan vesturhliðin sýnist tveggja hæða.

Til þass að skýra þetta nánar ber ég saman tvö skyld hús, Safnahúsið við Hverfisgötu (1909) og Alþingishúsið (1881). Þau eru bæði teiknuð af dönskum arkitektum og hafa sömu grundvallarform, hlutföll og þakform. Svo eru þau samhverf.

Safnahúsið byggir á gullna sniðinu, er mjög agað, rólegt og víkur hvergi frá grundvallaratriðum þeim sem lagt var af stað með. Alþingishúsið byggir á því sama en hrekkur úr stílnum á nokkrum stöðum. Það er nokkur óróleiki þar. Arkitekt Safnahússins Johannes Magdahl Nielsen gaf hvergi eftir í þessum málum meðan arkitekt Alþingishússins, Friðrik Meldahl, fór frjálslegar með.

Það væri fróðlegt að vita hverjar hugrenningar arkitektsins voru þegar hann gekk frá teikningunum. Hann hefur sennilega ekki verið rólegur vegna þessa óróleika.

Þetta væri ekki stórmál í dag en hlýtur að hafa valdið hugarangri fyrir 130 árum þegar lögmál byggingarlistarinnar voru allt önnur en í dag og undantekningar illa séðar.

Ef bornar eru saman myndirnar tvær í þessari færslu sést að Alþingishúsið er eins og það sé tvö hús. Annað tveggja hæða og hitt þriggja. Gluggasetning og gluggaform er með tvennum ólíkum hætti. Efnisvalið bindur þetta saman.

Húsið talar tungum tveim eins og sumir þeirra sem innifyrir starfa.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 8.1.2010 - 11:57 - 21 ummæli

Ofvaxin stofnbraut í Reykjavik?

Kollegi minn frá Miðevrópu var hér staddur um jól og áramót. Hann hefur komið 6-8 sinnum til Reykjavíkur og var að velta fyrir sér borgarskipulaginu. Hann skildi ekki að lítil borg með um 120 þúsund íbúum hefði hraðbraut inni í miðri borginni. Og ekki nóg með það heldur væri brautin hlaðin vegasjoppum og einum 6 mislægum gatnamótum.

 

Það furðulegasta við öll þessi mislægu gatnamót, er að ekkert þeirra virkar eins, þó þau séu á aðeins um 7 km kafla. Það er eins og gatnamótin séu í mismunandi löndum, en þau eru nánast öll við sömu götuna.

 

Vinur minn fullyrti að engin borg í Evrópu, af þessari stærðargráðu, hefði svo umfangsmikið gatnakerfi.

 

Og hver er ástæðan?  

 

Svarið heyrði ég á stórgóðum fyrirlestri um skipulagsmál sem haldinn var í Þjóðminjasafninu í gær. Þar kom Gísli Marteinn Baldursson, borgarfræðingur, með tölulegar upplýsingar um bílaeign og bílanotkun Reykvíkinga og bar tölurnar saman við tölur frá ýmsum borgum á norðlægum slóðum sem við öll þekkjum. Þar var Reykjavík í sérflokki og var með mestan bílafjölda á hverja 1000 íbúa. Í Reykjavík eru um 650 bílar á hverja 1000 meðan í Kaupmannahöfn eru þeir tæpir 200, ef ég náði því rétt. Fjöldi bíla á hverja 1000 íbúa er meiri á landsbyggðinni alls staðar þar sem það er skoðað nema á Íslandi. Í Reykjavík eru fleiri bílar á hverja þúsund en á landsbyggðinni.  Ótrúlegt.

 

Hann sýndi líka fram á að rekstur bílsins er annar stærsti útgjaldaliður fjölskyldunnar á eftir húsnæðiskostnaði. Í þriðja sæti er matarkostnaður.

 

Það kom margt fleira fróðlegt fram. Meðal annars að annað hvert atvinnutækifæri í borginni er vestan Kringlumýrarbrautar. Meðan langflest heimili eru austan Kringlumýrarbrautar. Það eru þrjú atvinnutækifæri á hvert heimili í vesturhluta borgarinnar en aðeins eitt í austurhlutanum.  

 

Atvinnutækifærunum er ekki skynsamlega dreift í borginni. Það sama á við um alla þjónustu, skóla og sjúkrahús.

 

Þetta er það sem ræður mestu um fjölda bíla í eigu Reykvíkinga og um gríðarleg umferðarmannvirki.

 

Ástæðuna fyrir þessu gríðarlega gatnakerfi og bífreiðaeign er sem sagt að finna í skipulaginu. Skipulagið kallar á þessa miklu bifreiðaumferð,  ekki íbúafjöldinn.

 

Í yfirskrift þessarar færslu stendur “Ofvaxin stofnbraut í Reykjavik”. Þar er átt við að Miklabrautin sé ofvaxin m.v. íbúafjölda en ekki miðað við þá þörf sem skipulagið kallar á.

 

Gísli Marteinn var lausnamiðaður í máli sínu og taldi að úr þessu þyrfti að bæta og benti á ráð til þess. Þétta þarf byggð og fjölga íbúðum vestan Kringlumýrarbrautar og fjölga atvinnutækifærum austan hennar. Svo einfalt er það.

 

Nú blasir við ágætt tækifæri til þess að jafna stöðuna eitthvað. Það er að flytja Landspítalann inn að Elliðaám og byggja íbúðir á núverandi Landspítalalóð. Manni sýnist borgaryfirvöld hljóti að skoða þetta alvarlega. Sérstaklega í ljósi þess að flugvöllurinn mun væntanlega ekki  fara á næstu 2-3 áratugum.

Gatnamótin við Skeiðarvog eru þannig hönnuð að ætlir þú til hægri og til austurs þá beygir þú til vinstri og ætlir þú til vinstri til vesturs þá beygir þú til hægri. Sumar leiðir eru ljósastýrðar aðrar ekki.

Gatnamótin við Elliðaár. Vandræðalaus slaufa þar sem engin umferðaljós er ð finna.. Slaufurnar eru óreglulegar og óþarflega landfrekar.

 

 

Mislæg gatnamót við Höfðabakka þar sem umferðinni er stýrt með ljósum.

Rennileg mislæg gatnamót þar sem Vestur- og Suðurlandsvegur mætast. Þarna eru engin umferðaljós.

Mislæg gatnamót við Grafarholt eru að hluta ljósastýrð.

Þetta er þriggja hæða mislæg gatnamót í útjaðri Los Angeles. Rætt hefur verið um þriggja hæða mislæg gatnamót þar sem Miklabraut og Kringlumýrarbraut mætast og yrðu það þá sjöundu mislægu gatnamótin á þessari leið. Gatnamótin  í LA eru af annarri stærðargráðu en yrðu við Krinlumýrarbraut, virðast lógisk og ganga vel upp þó óhugnarleg séu.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 6.1.2010 - 06:46 - 10 ummæli

Austurvöllur

 

 

 

 

 

Ég las um helgina viðtal við tvo unga kollega mína, hörkuduglega arkitekta. Þeir héldu því fram að Austurvöllur “væri mjög vel heppnað almenningsrými”. Þeir bættu því við til að rökstyðja skoðun sína, að hlutföll torgsins væru “rétt”(!) en á móti kæmi að “húsin væru hins vegar hvert með sínu lagi”.

 

Það er auðvitað rétt hjá þeim að Austuvöllur er vel heppnað almenningsrými og hefur aðdráttarafl. En það er ekki eingöngu vegna góðra hlutfalla.

 

Það er vegna þess að margir samverkandi þættir gera hann að stað  sem fólk vill leggja leið sína um, hittast og dvelja um stund.

 

Ég nefni nokkra þætti: Austurvöllur snýr rétt gagnvart sól og vindum. Þrjár hliðar vallarins eru baðaðar sól mestan hluta dagsins. Fjórða hliðin er eins og sviðsmynd með sögufrægustu húsum þjóðarinnar, Dómkirkjunni, Alþingishúsinu og fallegum gömlum húsum við Kirkjustræti. Sú götulína er eins og demantur á gullhring,

 

Húsin umhverfis völlinn veita skjól frá ríkjandi vindáttum, austanátt, vestanátt og sértaklega norðanátt. Það er oft bjart og gott veður í norðanátt í Reykjavík og þá skín oft sólin.

 

Sviðsmyndin til suðurs, með  húsunum við Kirkjustræti er lægst og veitir því geislum sólarinnar aðgang að vellinum. Jafnvel í mesta skammdeginu.

 

Þegar fólk situr í sólinni eða fer um völlinn í vetrarnepjunni er sviðsmyndin áreitandi og óumflýjanlega sjarmerandi. Og svo er Ráðhúsið í grenndinni.

 

Austurvöllur er vel staðsettur, nálægt stjórnsýslunni og verslunum í “gamla bænum”, “vieille ville”. Sá sem þar dvelur verður var við höfnina og finnur fyrir annríki flugvallarins.  Á Austurvelli skynjar maður djúpa sögu Reykjavíkur og landsins alls. Fólk finnur að það er statt á sögufrægum stað og nemur anda hans.

 

Svo má ekki gleyma einu veigamesta atriðinu sem er að það er nánast ekki nein bifreiðaumferð á svæðinu. Það eitt hefur meiri áhrif á gæði Austurvallar en margan grunar.

 

Styrkur Austurvallar liggur í öllu þessu og mörgu öðru.

 

Allt þetta gerir það að verkum að á jarðhæð tveggja hliða Austurvallar hafa laðast að veitingahús sem vegfarendur nýta sér og styrkir það staðinn enn frekar.

 

Auðvitað má margt bæta á Austurvelli. Ég nefni þrennt. Í fyrsta lagi þarf að koma fyrir starfsemi í húsin vestan  við völlinn (m.a. gamla Landsímahúsinu).  Þar þarf að koma starfsemi sem nýtist þeim sem þarna koma. Þar gæti verið myndlistarsafn eða verslanir. Í öðru lagi þarf að flytja styttu Jóns Sigurðssonar þannig að hann horfi beint á aðalinngang Alþingis og minni þannig þingmenn á vökult auga sitt og söguna. Svo í þriðja lagi þarf að stýra trjágróðri betur en nú er gert.

 

Ef sams konar almenningsrými væri komið fyrir á Selfossi eða í Breiðholti í “réttum” hlutföllum, án þess að tillit væri tekið til sólar og vinda og ekki væri neina sögu að finna, yrði þetta álitið illa heppnað almenningsrými.

 

Það sem sameinar bestu torg og almenningsrými veraldarinnar er alls ekki hlutföllin. Það er mun flóknara en það.

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 25.12.2009 - 13:18 - 3 ummæli

Grafarvogskirkja

 

Í tilefni jóla ætla ég að fjalla um kirkjubyggingar. Í kirkjubyggingum er oft að finna falda þekkingu (hidden knowledge) eða dulmál ýmiskonar. Grafarvogskirkja er þar engin undantekning og verður fjallað um hluti því tengdu hér í þessari færslu.

Í samkeppni um hönnun Grafarvoskirkju árið 1990 lögðu arkitektarnir áherslu á hugmynd um klassiska þrískipa kirkju, basiliku, sem byggir á öllum helstu hefðum kirkjubygginga liðinna alda. 

Grafarvogskirkja er mikilvæg bygging og þungamiðja Grafarvogshverfis og eitt af kennileitum þess.  Kirkjan er áberandi séð frá Vesturlandsvegi og Gullinbrú og er svipmikil þegar komið er að henni.

 

Þó húsið sé lítið að grunnfleti er það áberandi í byggðinni og sameinar hana vegna forms og efnisvals. Þar falla saman þungt og dökkt form miðskipsins og ljósir og léttir fletir hliðarskipanna. Þessar andstæður þungur og léttur minna á andann og efnið. 

Eins og áður sagði er hér um að ræða þrískipa kirkju þar sem miðskipið er „Via Sacra“, hinn heilagi vegur, sem táknar vegferð mannsins frá vöggu til grafar og áfram til eilífðar. Við enda hins heilaga vegar er hringurinn, sem er söfnuðurinn. Hringurinn er opinn á móti eilífðinni þar sem er altarið; borð Drottins.

Þarna sameinast tveir helstu pólar í kirkjuarkitektúr, vegurinn og hringurinn. Eins og í dómkirkjum miðalda tengjast miðskipinu ótal rými og kapellur sem þjóna þörfum líðandi stundar. 

Miðskipið er steinsteypt og klætt steinum. Steinarnir á veggjum miðskipsins er skírskotun til ritningarinnar þar sem segir „……látið sjálfir uppbyggjast sem lifandi steinar í andlegt hús“  Steinarnir tákna þar mannlífið sem er   „….musteri Guðs“. Þannig eru steinarnir tákn safnaðarins, fólksins.

Þegar inn í kirkjuna er komið blasir við enda miðskipsins stór steindur gluggi, „Kristnitakan“ eftir Leif Breiðfjörð.  Glugginn er um 6 metra breiður og um 12 metrar á hæð. Veggir og gólf eru klædd steinflísum af sömu gerð og notaðar eru utan á byggingunni. Í loftinu er „himinn“, ljósar viðarplötur, sem notaðar eru til þess að stjórna ómtíma hljóðsins í kirkjunni. Í plötunum eru innfeld ljós, með aukinni birtu þegar nær dregur altarinu þar sem lofthæðin er mest.  Ómtíminn er stysstur við innganginn og lengist þegar nær dregur altarinu og er lengstur þar. Birtan er mest og ómtíminn lengstur yfir altarinu.  Þetta er skírskotun til himinsins, birtunnar.

Það er mikið fjallað um hljóm og tónlist í kirkjubyggingum og kirkjulist, en minna um ljósið.  

Ljósið er meginmál  í kirkju- og byggingarlist þó almennt sé ekki sé mikið um það fjallað,   „… í náttmyrkanna landi, ljómar fögur birta“ (jesaja 9.2)

Byggingarlistina er heldur ekki hægt að lesa án ljóss, hvorki huglægt né hlutlægt.

Forkirkja Grafarvogskirkju og „Via Sacra“ er lífæð hússins þar sem hátíðlegt yfirbragð eykst eftir því sem innar dregur og fólk færir sig nær altarinu.

Í kirkjunni er tekinn upp sá siður, sem algengastur var til forna, að staðsetja skírnarfont á leið barnsins til samfélags kristinna manna. Fyrir miðju Via Sacra, gengt kapellu er skírnarfontur staðsettur. Rúmt er um hann og aðstandendur þess sem á að skíra safnast þar saman við athöfnina. Að henni lokinni er haldið með barnið að altarinu í söfnuð kristinna manna.

Ef horft er á grunnmynd kirkjunnar sést að hún líkist fiski, en fiskur er elsta tákn kristinna manna. Fiskur er á grísku „ichþys“. Þegar kristnir sáu stafina, eða mynd af fiski klappaða í stein skildu þeir að í orðinu eða myndinni var að finna skammstöfun fyrir orðin : Jesú Kristur, Guðs sonur, frelsari. Við þetta varð fiskurinn leynilegt felumerki.

Kirkjan er þrískipa, en skipið er eitt af táknum kirkjunnar þar sem sagt er að „…..kirkjan sé skip sem siglir yfir heiminn. Drottinn er við stýrið og hinir kristnu áhöfnin og hreyfiaflið er heilagur andi. Fyrir afli hans siglir skipið í höfn Paradísar og lífsins eilífa. Orð Guðs eru áttavitinn…..“ 

Af grunnmynd Grafarvogskikju má lesa nokkrar helstu tölur sem skipað hafa stórann sess í trúarlegu táknmáli.

Fyrst er að telja miðskipið sem er eitt. Talan einn er móðir allra talna. Guð er einn og einn er tala upphafsins. Hliðarskipin eru tvö, lögmálið og fagnaðarerindið eða Gamla- og nýja testamenti. Skip kirkjunnar eru þrjú; heilög þrenning. Upprisa Jesú var á þriðja degi. Hliðarskipunum er skipt í fjóra hluta; tölu heimsins, höfuðáttirnar, einn, tveir, þrír, fjórir og svo nýtt upphaf. Og guðspjallamennirnir eru fjórir. Af allri grunnmyndinni má  síðan sjá form fisksins sem er elsta tákn kristinna manna eins og nefnt var áður. 

Eftir að vakin er athygli á þessum atriðum eru þau augljós þó þeir sem ekki vita af þeim sjái þau ekki. Við útveggi kirkjunnar eru 24 súlur sem eru fulltrúar pstúlanna. Tólf horfa til austurs, upphafsins þar sem sólin kemur upp og hinar tólf til vesturs þar sem sólin sest. Þá er að finna samtal kirkjunnar og helgimyndar Leifs Breiðfjörð og læt ég lesendum eftir að ráða í það.
Í tilefni jóla ákvað ég að fjalla um kirkjubyggingu. Grafarvogskirkja varð fyrir valinu vegna þess að hana þekki ég vel. Hún er teiknuð af okkur félögunum, Finni Björgvinssyni og undirrituðum. Ég hef ekki áður fjallað um eigin verk í pistlum þessum en geri á því undantekningu í tilefni dagsins og vona að lesendur umberi það.

Gleðileg Jól.

 

 

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn