Föstudagur 18.12.2009 - 14:20 - 9 ummæli

Gamla höfnin-Samkeppni

Nú stendur yfir sýning á tillögum sem komu inn í hugmyndasamkeppni um gömlu höfnina í Reykjavík. Ég fór að skoða hana í hádeginu.  Dómnefndin var þar stödd og varði dóm sinn gagnvart arkitektum og þátttakendum keppninnar.

Dómararnir stóðu sig vel þó viðstaddir hafi ekki verið sammála þeim í öllu.

 

Mér fannst einkenna flestar tillögurnar skort á greiningu. Það er að segja að þátttakendur skilgreindu anda staðarins, kosti og galla Reykjavíkurhafnar ekki nægjanlega vel áður en þeir hófu tillögugerðina.

 

Ég var ekki þáttakandi en hefði viljað að keppendur hefðu unnið að því að styrkja kosti hafnarinnar og draga úr göllum hennar. Gert tilraun til þess að styrkja hafnarstarfsemina og tengja hana borginni. Ekki setja fram tillögu um nýja höfn, heldur bætta höfn.

 

Tillögurnar gengu út á að tengja borgina höfninni. Sumar gengu svo langt í þeirri hugmynd að höfninni var nánast bolað burt. (tillaga nr.6) Höfn er ekki höfn nema þar séu skip og bátar. Höfn er ekki höfn nema þar sé hafnarstarfssemi.

 

Tillaga Björns Ólafs (tillaga nr.9) virtist mér hæfa á margann hátt tilefninu. Hún var lítillát og varfærnisleg. Tók mið af aðstæðum í lítilli borg þar sem hugað var að n.k. þrískiftingu svæðisins, þar sem er hjarta borgarinnar, miðbærinn, ferðamannahöfn og fiskihöfn með sterku baklandi í Örfyrisey.

 

Það var nánast ekkert eftir af hafnarstarfsemi í sumum tillögunum. Í stað hafnarstarfseminnar var komið fyrir náttúrugripasafni, nýsköpunarmiðstöð, sjóminjasafni m.m. Fyrir er tónlistarhús og hótel. Í raun skiluðu sumir þátttakendur ekki tillögu að Reykjavíkurhöfn, heldur einhverju sem mætti kalla “Reykjavík Waterfront”

 

Margar tillögur báru merki “2007” þar sem mikið af ágætum byggingum sem henta hafnarstarfssemi eru látnar víkja fyrir Íbúðahúsum og starfsemi sem ekki þurfa á höfninni að halda.

 

Þegar gámavæðing skipaflutninga hófs urðu til mörg mjög áhugaverð svæði tengdum höfnum gömlu borganna víða um heim. Hafnirnar hafa undanfarna áratugi tekið miklum breytingum. Sums staðar hefur þetta tekist vel annarstaðar illa.

 

Einn staður sem margir Íslendingar þekkja hefur farið illa út úr þessari þróun. Það er gamla höfnin í Kaupmannahöfn. Hún er ekki lengur höfn heldur n.k. kanall eða skipaskurður án skipa. Þar eru hvorki skip né bátar sem heitið getur. Engin hafnarstarfsemi.

 

Það sætir furðu að svona skuli vera komið fyrir Kaupmannahöfn. Þegar ég var á Akademíunni í Kaupmannahöfn voru stöðugar umræður um framtíð hafnarinnar. Þar tóku virkan þátt yfirburðamenn eins og prófessor Halldor Gunnlögsson, Jörn Utzon og margir fleiri.

 

Niðurstaðan er sú sem blasir við, “Copenhagen Waterfront” með Operu, Skuespilhus, og Konungllegu bókasafni. Ekkert þessara hús kallar á staðsetningu við höfn, Ekkert þeirra tekur mið af umhverfinu í sínum arkitektúr. Allt alþjóðlegt, sérkennalaust og leiðinlegt. Eða frekar, ekki eins skemmtilegt og það hefði getað orðið.

 

Hér að neðan eru svo nokkrar myndir af fyrstu verðlaunatillögunni sem ég fékk sendar frá höfundunum, Graeme Massie Architects. Í dómnum segir að um sé að ræða “kraftmikla, myndræna og formfasta tillögu…..með mikinn sveigjanleika til aðlögunar við núverandi byggð”. Mér er það hinsvegar óskiljanlegt að þarna eins og í mörgum öðrum tillögum var gert ráð fyrir að HB-Grandi væri lagður niður á þessum stað. 

 

Þegar skipulagsuppdrátturinn er skoðaður finnst mér tillagan bera frekar keim af inngripi en “mikilli sveigjanlegri aðlögun”  Þetta virkar eins og að fleyg sé stungið inn í borgina miðja frá hafi. 

 

Þetta er fallega framsett tillaga eins og sjá má hér að neðan. Mjög vel gerð grein fyrir sögulegu samhengi eins og Þorvaldur S. Þorvaldsson dómari fór vel yfir á fundinum. Bryggjurnar allar í sterku sambandi við gatnakerfið o. s. frv. Samt hafði ég á tilfinningunni að þarna væru sérfræðingar á ferð sem kunna sitt fag en væru að plata sveitamanninn svolítið. Og það tókst.

En dæmi nú hver fyrir sig.

 

 

 

 

 

Gönguleið að “Hörpu” nýja Tónlistarhúsinu..

 

 

 

 

“Buisness Park Courtyard”

 

 

 

 

 

 

Tillaga er gerð að sundlaug á Ægisgarði í innhöfninni. Þetta minnir á hafnarbaði Bjarke Ingels í Kaupmannahöfn. Þar formaði hann stökkpallinn eins og stefni á skipi. Það gerði hann sennilega af því að öll skipin voru farin úr höfninni og eitthvað þurfti að koma í staðinn. Svona smá söguleg skýrskotun hjá BIG.

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 16.12.2009 - 09:19 - 13 ummæli

Nýstárleg skólabygging

 

Tilkynnt var í síðustu viku að danski arkitektinn og “Íslandsvinurinn” Bjarke Ingels hafi ásamt færeysku arkitektastofunni Fuglark unnið samkeppni um menntasetur skammt fyrir utan Þórshöfn í Færeyjum.

Byggingin er í svokölluðu Marknagili og mun standa í brekku í 100 metra hæð ofan við höfuðstaðinn með útsýni til fjalla og yfir bæinn. Skólinn er ætlaður 1200 nemendum og um 300 kennurum.

Byggingin sem verður 19.200 m2 er sú stærsta sem byggð hefur verið í Færeyjum. Húsið á að rúma menntaskóla, viðskiptaháskóla, tækniháskóla með tilheyrandi íþróttaaðstöðu. Skólarnir eru allir undir einu þaki og eru tengdir saman lóðrétt í nokkurs konar rotundu í miðjunni þar sem er að finna hjarta skólans.

Þessi blöndun er ný fyrir mér. Nokkuð hefur verið um að blanda saman leikskóla og grunnskóla í sömu byggingu með góðum árangri.

En að blanda saman framhaldsskóla og æðri menntastofnunum er vafalaust ekki síður skynsamleg.

Til dæmis er ekki nokkur vafi á því að til að mynda að Menntaskólinn á Akureyri og Háskólinn þar í bæ gætu verið undir sama hatti. Sama á við Menntaskólann á Ísafirði og Háskólasetrið þar. Hugsanlega hefði verið skynsamlegt að staðsetja menntaskóla Borgfirðinga í þyrpingunni við Bifröst.

Er þarna að finna hugsanlega sparnaðarleið á þessum krepputímum?

Arkitektarnir segja að þetta sé einskonar uppeldislegt díagram sem gefið er form í opnu hæðóttu landslagi þar sem innra starf og aðstæður er látið ráða útlitinu m.meiru samkvæmt kennisetningunni “form follows function” sem Louis Sullivan kom með fyrir 100 árum.

Margir hafa fundið sig knúna til þess að hallmæla Funktionalismanum. Það er óþarfi. Af þessum tillögum má lesa að funktionalisminn hefur mörg andlit.
Þess má geta að Bjarki vann samkeppni í Reykjavík um höfuðstöðvar Landsbankans, í bláenda góðærisins.

 

 

 

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 14.12.2009 - 13:52 - 2 ummæli

LSH-„Tæknileg viðskiptahindrun“?

Í athugasemd vegna síðustu færslu minnar kemur fram hugleiðing um hugtakið  “tæknileg viðskiptahindrun”. Þar skrifar starfsmaður verktakafyrirtækis athugasemd sem má skilja sem svo, að hann telji að kröfur útbjóðanda í forvali geti flokkast undir “tæknilega viðskiptahindrun”. Það er að segja ef kröfur í forvali eru þannig,  að fyrirtækjum er haldið frá verkinu af ástæðum sem ekki eru nægjanlega vel rökstuddar.

Í  forvali vegna  samkeppni um LSH fyrir nokkrum árum voru kröfurnar þannig að þau arkitektateymi sem skoruðu hæst þurftu að hafa teiknað meira en 500 sjúkrarúma spítala og átt að minnsta kosti 50 milljónir í eigin fé.  Þessi tvö skilyrði gerðu það að verkum að engin íslensk arkitektastofa gat skorað fullt hús stiga og þær voru í raun útilokaðar.

Spurningin er, hvort ríkið hafi þarna beitt tæknilegri viðskiptahindrun til þess að halda íslenskum arkitektum frá?  Niðurstaða forvalsins varð sú að í öllum sjö teymunum sem valin voru til þátttöku í samkeppninni á sínum tíma voru erlendar arkitektastofur.

Verktakinn, sem áður er vitnað til, telur að ef nýr spítali verði boðinn út í einu lagi sé hugsanlega verið að nota tæknilega viðskiptahindrun til þess að halda litlum og meðalstórum verktakafyrirtækjum frá verkinu.

Hér að neðan er athugasemd verktakans sem er að finna í samhengi við slóðina:

 

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2009/12/11/landspitalinn%e2%80%93arkitektar%e2%80%93verktakar/#comments

 

 

 

 

 

 

 

“Verktaki//12.des.2009 kl 12:09

 

Ég er tæknimaður hjá litlu verktakafyrirtæki. Við höfum yfir að ráða þekkinguog tækjum sem er fullkomlega nægjanlegt til þess að ráða við 10-15 þúsund fermetra byggingu svo sómi væri að.

 

Hinsvegar mundum við ekki ráða við 70 þúsund fermetra byggingu án gagngerrar endurskipulagningar.

 

Þess vegna lýsi ég yfir ánægju með hugmyndir Arkitektafélagsins og vil bæta því við að ég tel að ef verkefnastjórnin býður allt verkið út í einu lagi þá ber að túlka það sem tæknilega viðskiptahindrun gegn smærri verktökum og í þágu stóru verktakanna.

 

Þessi hugmynd arkitektafélagsins ættu allir aðilar byggingaiðnaðarins að sameinast um og gera að ófrávíkjanlegri kröfu.

 

Hugmyndin hefur nánast ekkert annað en kosti til að bera. Að vísu er þarna örlítið meira flækjustig í stjórnun en alls ekki af óþekktri stærðargráðu.

 

Ég bíð spenntur eftir viðbrögðum verkefnastjórnar LSH sem hlýtur að taka hugmyndinni fagnandi”

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 14.12.2009 - 13:31 - Rita ummæli

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 11.12.2009 - 10:36 - 14 ummæli

Landspítalinn-Arkitektar-Verktakar

Nú stendur fyrir dyrum að auglýsa arkitektasamkeppni um nýtt háskólasjúkrahús við Hringbraut. Arkitektafélag Íslands hefur skoðanir á framkvæmdinni og hefur lagt þær fyrir verkefnisstjórn um nýjan Landspítala og eru þær til skoðunar þar.

 

Arkitektafélagið telur að bjóða eigi sjúkrahúsið út í nokkrum áföngum, bæði hönnun og framkvæmd.

 

Hver hluti yrði milli 5.000 og 15.000 fermetrar að stærð. Þátttakendur munu svo hanna einn eða tvo hluta eða jafnvel allt sjúkrahúsið allt eftir því hvað þeir telja sig ráða við.  Samkeppnirnar yrðu  5-8 og færu allar fram á sama tíma.

 

Með því að setja fram þessa hugmynd telur Arkitektafélagið að hagsmunum þeirra sem að málinu koma sé best borgið, þ.e.a.s. Landspítalans, skipulagsins, grenndarsamfélagsins, framkvæmdaraðila, ráðgjafa og flestra annarra.

 

Skoðum þetta aðeins nánar. Hugmyndin gefur öflugum arkitektastofum tækifæri til þess að taka þátt í öllum hlutum spítalans en öðrum og minni stofum í einum eða fleirum eftir áhuga og getu. Niðurstaðan gæti orðið sú að einhver stofan bæri sigur úr býtum í þremur hlutum, aðrar í einum hluta o.s.frv.

 

Landspítalinn hámarkar með þessu starfræn gæði einstakra hluta spítalans. Hann fær hagstæðust boð í framkvæmd hvers hluta, aðkoma aðal- og undirverktaka verður breiðari, heilbrigt samkeppnisumhverfi myndast hjá birgjum o.fl.

 

Þegar tillögurnar koma til dóms verður sú besta af hverjum hluta valin til útfærslu. Ef öll framkvæmdin er boðin út í heild verður jafnbesta tillagan að líkindum fyrir valinu og lélegir hlutar fljóta með.

 

Dómarar yrðu þeir sömu í öllum samkeppnunum að undanskildum einum sérfræðingi í hverjum hluta sem mundi gæta hagsmuna sérfræðinnar og starfrænna sjónarmiða í viðkomandi hluta.

 

Allir hlutarnir yrðu að hönnun lokinni boðnir út til verktaka.  Útboðin yrðu 5-8 eins og í arkitektasamkeppninni.  Niðurstaðan gæti orðið með svipuðum hætti og hjá arkitektunum. Einhver aðalverktaki, með sínum birgjum og undirverktökum, nær hagstæðasta tilboði í  einn hluta og aðrir í tvo eða fleiri.

 

Þessi uppstokkun gefur auk þess aukið svigrúm og sveigjanleika í öllum þáttum verksins hvort sem litið er til reksturs, rekstrarforms, stækkunarmöguleika eða annars.

 

Til þess að þessi leið sé fær er mikilvægt að gert verði deiliskipulag sem er í samræmi við hugmyndina og byggðarmynstrið.  Til þess að friður náist um málið þarf að vinna deiliskipulagið á forsendum umhverfisins og byggðarmynstursins með hagsmuni sjúkrahússins í huga. Við deiliskipulagsvinnuna kemur í ljós hvort lóðin getur borið þá starfsemi sem spítalinn óskar. Geri hún það ekki þarf að taka á því með einhverjum farsælum hætti.

 

Verði farin sú leið farin sem verkefnisstjórnin stefnir að er hætta á að færri aðal- og undirverktakar komist að, færri ráðgjafafyrirtæki og að arkitektúrinn verði stórkallalegri og leiðinlegri.

 

Mikil vinna hefur nú þegar verið lögð í undirbúning sjúkrahússins og yfirgripsmikillar þekkingar á málefnum sjúkrahússins og staðháttum við Hringbraut hefur verið aflað. Allt þetta nýtist að fullu og auðveldar alla þá vinnu sem fyrir liggur vegna þessara hugmynda.

 

 

Rétt er að minna á, að á morgun, laugardaginn 12 desember, verður haldið málþing um spítalann í fyrirlestrasal Íslenskrar erfðagreiningar. Málþingið hefst kl 10.00.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 9.12.2009 - 11:41 - 1 ummæli

Mies van der Rohe

 

Ef velja ætti 10 byggingar sem mest áhrif höfðu á byggingarlist tuttugustu aldarinnar þá yrði framlag Þýskalands á heimssýningunni í Barcelona árið 1929 ein þeirra. Nú eru rétt 80 ár síðan skálinn var reistur.

 

Byggingin var ekki aðeins stefnumótandi heldur þótti hún og þykir enn afburða vel gerð út frá fagurfræðinni einni saman og kollvarpar hún þar með kennisetningum um að fegurðin komi innan frá og sé óaðskiljanleg funksjóninni ásamt því að byggingarlist eigi að endurspegla ríkjandi menningu þess tíma sem hún er byggð á.

 

Byggingin hafði nefnilega engan annan tilgang en að vera hús/skáli og hún var í engu sambandi við ríkjandi menningu þess tíma þegar hún var reist. Hún var langt á undan sinni samtíð og varð mótandi fyrir þróun í byggingarlist nánast allrar heimsbyggðarinnar í hundrað ár.

 

Það læðist að manni sá grunur að kennisetning Mies van der Rohe, “Less is more” hafi orðið til í tengslum við þessa byggingu og í framhaldinu minimalisminn.

 

Í stuttri færslu eins og þessari er ekki hægt að fjalla um bygginguna nema á afar yfirborðslegan hátt.

 

Ég vil þó nefna tvennt. Annars vegar að burðarvirkið er óháð rýmismótuninni. Veggirnir eru ekki berandi nema að litlum hluta til. Berandi krómaðar súlurnar standa til hliðar við veggina sem mynda rýmin. Þetta hefur haft áhrif á alla skýjakljúfa aldarinnar fram á okkar daga.

 

Hitt sem ég vil nefna er hvernig farið er með dagsljósið. Bæði hliðarljós og ofanljós. Þarna eru ekki veggir með götum fyrir glugga eins og tíðkaðist. Heldur eru lokaðir fletir og svo opnir heilir gluggaveggir. Þar sem húsdýpt er mikil og þök ganga langt út fyrir útveggi kemur ofanljós. Deili eru fá og endurtaka sig aftur og aftur.

 

Efnistökin með krómuðum súlum og steinklæðningum sem er flett þannig að skemmtileg spegilmynd kemur í ljós. Hvergi annars staðar í húsinu er symetríu að finna, En symmetría var ein af lykilreglum í byggingarlist öldum saman.

 

Svo má ekki gleyma stólunum sem enn eru í framleiðslu og njóta mikilla vinsælda.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 7.12.2009 - 10:56 - 15 ummæli

“Góðærisarkitektúrinn”.

Það hefur lengi verið vitað að fagurfræði byggingarlistarinnar er nátengd funktion og tilfinningum ýmiss konar, menningu, anda tímans og staðarins.

Nú er maður farinn að hafa áhyggjur af því að „góðærisarkitektúrinn“ verði í tímans rás álitinn sá versti í sögu byggingarlistarinnar á Íslandi.  Bæði hvað varðar skipulag, form, funktion og tæknilegar útfærslur.

Fóru menn offari og flutu ofan á óskum og kröfum líðandi stundar án þess að huga að rótunum og staðháttum hér?

Form og hlutföll voru á skjön við okkar litla samfélag. Sjáið bara Tónlistarhúsið, háhýsin og kringlurnar. Lausnir eru allar meira og minna alþjóðlegar og leiðinlegar.

Höfundareinkenni eru lítil. Það vantaði Ísland í góðærisarkitektúrinn. 

Verðmætum húsum og innréttingum var fargað. Bæði á einkaheimilum, opinberum byggingum og fyrirtækjum. Hugsið bara til innréttinga Sveins Kjarval í Naustinu, Landsmiðjuhússins við Sölvhólsgötu og byggingarinnar í Borgartúni sem þurfti að víkja fyrir Kaupþingi.

Mikið framboð af fjármagni slúmvæddi marga reiti í miðborg Reykjavíkur eins og blasir nú við.

´.
Faðir „funktionalismans“, Louis Sullivan, sagði:  „Form follows function“ og gekk langt í þeim efnum fyrir um 100 árum. Margir aðhylltust hugmyndafræðina og hafa fylgt henni. 

Í góðærinu var þessu snúið við og menn sögðu „Form follows profit“ og gengu allt of langt í þeim efnum. Vonandi eru dagar þessarar stefnu taldir.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 4.12.2009 - 10:38 - 5 ummæli

Einbýlishús án útlits

 

 

 

Ungir japanskir arkitektar sem kalla sig “Suppose Design Office” hafa vakið athygli.

 

Þeir sem hafa komið til Japan og gengið um eldri íbúðahverfi, taka eftir þvi að húsin standa oft á mjög litlum lóðum þar sem útsýni er nánast ekkert.

 

 

Við þessum aðstæðum er brugðist með þvi að hámarka notkun dagsljóss og með því að spila með minimaliskt landslag japanskrar garðlistar. Í því húsi sem hér er lýst er einmitt þetta viðfangsefnið.

 

Vandamálið þarna eru fá gæði lóðarinnar, þrengsli og ekkert útsýni. Þetta er vel hannað hús sem sem vert er að skoða nánar.

 

 

Húsið sem er staðsett í Nagoya hefur sérstakt rými sem nánast er eingöngu ætlað örfáum plöntum, japanskur innigarður. Takið eftir að það er ekkert feimnismál að fara á snyrtinguna. Þess ber þó að geta að þegar hurð snyrtingarinnar er dregin fyrir verður glerið mjólkurlitað.

 

 

Lóðin er mjög mjó tæpra 4 metra breið og um 20 metra löng. Hús standa á lóðamörkum langhliðanna og annarrar stutthliðarinnar. Til þess að bæta upp galla lóðarinnar og nánast algeran skort á útsýni er dagsbirtu leyft að flæða niður eftir útveggjum þar sem hún upplýsir japanska smágarða sem helstu vistarverum hússins tengjast.

 

Rými hússins og “garðar” hafa fengið sömu áferð og efnistök. Athyglisvert er hvernig snyrtingin blasir við frá eldhúsi og borðstofu.

 

 

Steina- og blómabeð tengja saman stigahús borðstofu og blómastofuna.

Hönnuðirnir ungu láta blómagarðinn tengja saman húshlutana og báðar hæðir. Gluggarnir tveir eru án útsýnis. Einungis er um 100 cm að næsta húsvegg.

 

 

Eftir er að hengja myndlistina upp sem kemur á veggi hinna japönsku garða.

 

 

Húsið er eins og áður er getið byggt á mjórri, langri og leiðinlegri lóð sem hefur ekki uppá marga góða kosti að bjóða. En með sérstæðri nálgun hæfileikaríkra arkitekta hefur tekist að skapa skemmtilegt og þroskandi umhverfi sem hverjum manni er sæmandi.

 

 

 

Þetta er aðkomuhliðin. Húsið hefur í raun ekki annað útlit vegna aðstæðna þarna. Athyglisvert er að hönnuðurnir notuðu ekki tækifæri til þess að nota útsýnið frá þessari hlið. Það er sennilega vegna þess að það sem þar var að sjá er ekki aðlaðandi.

 

 

Að neðan fylgja nokkrar myndir og teikningar sem ég fékk sendar frá teiknistofunni og geta lesendur skoðað þær og ljósmyndirnar saman til þess að átta sig betur á húsinu. Það er sjaldgæft að teikningar fylgi með umfjöllun um þetta hús. Skýringuna er kannski einmitt að finna í þeim sjálfum.

 

 

 

Fyrsta hæð er 34,8 fermetrar og önnur hæðin er 41,8 fermetrar.

 

 

 

Ef áhugi er fyrir að skoða verk Suppose Design Office nánar þá er slóðin þessi: www.suppose.jp

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 2.12.2009 - 10:35 - 6 ummæli

Tölvumyndir arkitektanna.

Ég man ekki eftir því að hafa séð byggingu sem lítur betur út í raunveruleikanum en á tölvuteikningu. Arkitektarnir eru farnir að treysta á töfra tölvunnar frekar en færni þeirra með blýantinn eða rýmisgreind viðskiptavinarins og þeirra eigin.

Tölvuteikningarnar sýna byggingarnar oft glóandi í kvöldhúminu þar sem húsin virðast gegnsæ og lifandi. Umhverfis húsin og inni í þeim er fallegt og vel klætt fólk. Allt er eins og í draumi. Jafnvel frægustu arkitektar heims, eða kannski einkum þeir, nota tölvumyndir til þess að ýkja yndislegheitin umfram það sem þeir geta afgreitt í hinu fullbyggða verki.

Oftast gefa tölvumyndirnar fyrirheit um byggingar sem eru mun betri en sá raunveruleiki sem staðið er frammi fyrir þegar framkvæmdum er lokið. Tölvumyndirnar sýna byggingarnar eins og manni dreymir um að þær geti best orðið.

En hvers eigum við að gjalda sem þurfum svo að lifa við óuppfylltan draum og horfa á byggingu sem er ekki næstum jafn glóandi falleg og við sáum á tölvumyndunum?

Til þess að skýra þetta nánar læt ég fylgja hér með slóð að kynningarmyndbandi vegna tónlistarhússins í Reykjavík. Takið eftir því að það virðast engar súlur vera í anddyrinu og engar rúður í gluggunum, fólkið er allt ungt og fallegt. Svo má sjá einhverjar glerkeilur og jafnvel friðarsúli Yoko Ono, sýnist mér. Og alltaf er gott veður eins og maður sé staddur á Bennalong Point í Sidney.

Það verður spennandi að bera raunveruleikann saman við þetta þegar fram líða stundir og húsið verður fullbyggt.

Ef ekki tekst að opna youtube slóðina beint má nota þessa:

http://www.youtube.com/watch?v=9vdY9wvKaxI

Hér að neðan er svo slóð að ágætu erindi sem fjallar um efnið og fróðlegt er fyrir áhugasama arkitekta og þá sem kaupa þjónustuna að hlusta á auk nokkurra tölvumynda:

[audio:http://cdn2.libsyn.com/twls/TWLS014-20051211.mp3?nvb=20090911093919&nva=20090912094919&t=0586fbbb302589ea8e2d8]

http://cdn2.libsyn.com/twls/TWLS014-20051211.mp3?nvb=20090911093919&nva=20090912094919&t=0586fbbb302589ea8e2d8

Hér tölvumynd af vinningstillögu í samkeppni um höfuðstöðvar Glitnis eins og sjófarendur geta notið ásjónunnar.

Ungt og fallegt fólk á gangi í góða veðrinu í Borgartúni. Öllu vel við haldið og engin óhreinindi eða örðu að sjá.

Ef ekki væri fyrir bátana þá hefði maður enga hugmynd um stærðarhlutföll á þessum byggingum eftir Rem Koolhaas í Dubai

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 30.11.2009 - 14:18 - 12 ummæli

Þrautir Hennings Larsen.

Henning Larsen fer mikinn í Reykjavík um þessar mundir og vinnur að byggingu  helstu menningarstofnana landsins, Háskólans í Reykjavík  og Ráðstefnu- og tónlistarhússins við höfnina.

Fyrir helgi kom út bók eftir hann sem heitir „De skal sige tak“ og er þar vitnað til orða  Hr. Mærsk Mc-Kinney Möller til arkitektsins í einu samtali þeirra Hennings Larsen.

Það gekk greinilega á ýmsu í samstarfi þeirra arkitektsins og miljarðamæringsins.

Hr. Möller var á þeirri skoðun að óperubyggingin væri nánast hans einkamál. Hann ætlaði að færa dönsku þjóðinni gjöf  sem hann valdi sjálfur og spurningin væri bara hvort þjóðin vildi þiggja gjöfina sem var uppá eina 60-70 milljarða ísl. króna.

Það féllu þarna orð á borð við „sá sem borgar partýið ræður hvaða veitingar eru í boði“. Þetta lýsir auðvitað virðingarleysi við umhverfið og þá sem þurfa að búa við það inngrip sem byggingar eru.

Samkvæmt Henning Larsen blandaði Hr. Möller sér í allt. Hann var á móti gleri og það mátti ekki nota orðið gler á fundum með honum. Það átti að nota orðasambandið „gegnsætt efni“ (transparent materiale). Hann blandaði sér í hæðir á klósetsetum á snyrtingum og vildi hafa þær þannig að þær  pössuðu fyrir hann sjálfan. Henning Larsen segir, að allir munu taka eftir því að klósettin eru aðeins hærri en venjan er. Hr. Möller vildi ekki að torginu fyrir framan húsið hallaði vegna þess að hann óttaðist að kona hans, sem er í hjólastól, mundi rúlla fram af og í sjóinn. Þessar sögur er að finna í bókinni og margar fleiri.

Hr. Mærsk McKinney Möller var alltaf óánægður, þakkaði aldrei neinum fyrir neitt og gleymdi aldrei neinu.

Lýsing Hennings Larsen á upplifun sinni af opnuninni og sambandi þeirra viðskiptafélaganna er hér lauslega þýdd:

„Þegar operan var búin (frumsýningin) og allir voru á leiðinni heim, stóðum við konan mín á svölum anddyrisins með rauðvínsglas og nutum rýmisins um leið og við horfðum á fjölda uppáklæddra ánægðra gesta niðri á fyrstu hæð. Hr. Möller átti leið framhjá, rétti mér hendina og sagði: „Þetta er flott“. Ég svaraði barnalega :“ Takk sömuleiðis“. Þá svaraði Hr. Möller um hæl eins og til að forðast að ég misskildi eitthvað: „Já sýningin var flott.“

Já, Henning Larsen fékk að heyra það á opnunardaginn.

Auðvitað eru alltaf einhver sjónarmið sem stangast á milli arkitekts og verkkaupa, en þau leysast nánast alltaf farsællega. En það þarf örugglega mikið til þegar 84 ára gamall maðurinn telur sig knúinn til þess að skrifa heila bók um samstarfserfiðleika sína við viðskiptavin sinn, ríkasta mann Danmerkur.

Vonandi gengur þetta betur í byggingunum tveim sem hann vinnur nú að í Reykjavík, Tónlistarhúsinu við höfnina og Háskólann í Reykjavík.

Skipsreder Hr. Mærsk McKinney Möller

Kaupmannahafnaróperan hönnuð á teikinistofu Henning Larsen.

Henning Larsen fyrir nokkrum árum.

Þeir sem vilja kynna sér þetta nánar geta nálgast efnið á eftirfarandi slóðum.

DR:

http://www.dr.dk/Nyheder/Indland/2009/11/26/162540.htm

http://www.bt.dk/danmark/bange-konen-ville-rulle-i-vandet

http://www.bt.dk/danmark/frisk-luft-nej-tak

http://www.bt.dk/danmark/koebte-sig-til-orden

http://www.bt.dk/danmark/maatte-naegte-dronningen-adgang

http://www.bt.dk/danmark/toiletter-med-langt-til-gulvet

Berlingske Tidende og Weekendavisen

http://blog.politiken.dk/lunde/2009/11/29/sadan-leder-m%c3%a6rsk-mc-kinney-m%c3%b8ller/

http://www.weekendavisen.dk/smarticle/view/1

http://kastrup.blogs.berlingske.dk/2009/11/27/henning-larsens-d%25c3%25b8de-murer/

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn