Nú stendur yfir sýning á tillögum sem komu inn í hugmyndasamkeppni um gömlu höfnina í Reykjavík. Ég fór að skoða hana í hádeginu. Dómnefndin var þar stödd og varði dóm sinn gagnvart arkitektum og þátttakendum keppninnar.
Dómararnir stóðu sig vel þó viðstaddir hafi ekki verið sammála þeim í öllu.
Mér fannst einkenna flestar tillögurnar skort á greiningu. Það er að segja að þátttakendur skilgreindu anda staðarins, kosti og galla Reykjavíkurhafnar ekki nægjanlega vel áður en þeir hófu tillögugerðina.
Ég var ekki þáttakandi en hefði viljað að keppendur hefðu unnið að því að styrkja kosti hafnarinnar og draga úr göllum hennar. Gert tilraun til þess að styrkja hafnarstarfsemina og tengja hana borginni. Ekki setja fram tillögu um nýja höfn, heldur bætta höfn.
Tillögurnar gengu út á að tengja borgina höfninni. Sumar gengu svo langt í þeirri hugmynd að höfninni var nánast bolað burt. (tillaga nr.6) Höfn er ekki höfn nema þar séu skip og bátar. Höfn er ekki höfn nema þar sé hafnarstarfssemi.
Tillaga Björns Ólafs (tillaga nr.9) virtist mér hæfa á margann hátt tilefninu. Hún var lítillát og varfærnisleg. Tók mið af aðstæðum í lítilli borg þar sem hugað var að n.k. þrískiftingu svæðisins, þar sem er hjarta borgarinnar, miðbærinn, ferðamannahöfn og fiskihöfn með sterku baklandi í Örfyrisey.
Það var nánast ekkert eftir af hafnarstarfsemi í sumum tillögunum. Í stað hafnarstarfseminnar var komið fyrir náttúrugripasafni, nýsköpunarmiðstöð, sjóminjasafni m.m. Fyrir er tónlistarhús og hótel. Í raun skiluðu sumir þátttakendur ekki tillögu að Reykjavíkurhöfn, heldur einhverju sem mætti kalla “Reykjavík Waterfront”
Margar tillögur báru merki “2007” þar sem mikið af ágætum byggingum sem henta hafnarstarfssemi eru látnar víkja fyrir Íbúðahúsum og starfsemi sem ekki þurfa á höfninni að halda.
Þegar gámavæðing skipaflutninga hófs urðu til mörg mjög áhugaverð svæði tengdum höfnum gömlu borganna víða um heim. Hafnirnar hafa undanfarna áratugi tekið miklum breytingum. Sums staðar hefur þetta tekist vel annarstaðar illa.
Einn staður sem margir Íslendingar þekkja hefur farið illa út úr þessari þróun. Það er gamla höfnin í Kaupmannahöfn. Hún er ekki lengur höfn heldur n.k. kanall eða skipaskurður án skipa. Þar eru hvorki skip né bátar sem heitið getur. Engin hafnarstarfsemi.
Það sætir furðu að svona skuli vera komið fyrir Kaupmannahöfn. Þegar ég var á Akademíunni í Kaupmannahöfn voru stöðugar umræður um framtíð hafnarinnar. Þar tóku virkan þátt yfirburðamenn eins og prófessor Halldor Gunnlögsson, Jörn Utzon og margir fleiri.
Niðurstaðan er sú sem blasir við, “Copenhagen Waterfront” með Operu, Skuespilhus, og Konungllegu bókasafni. Ekkert þessara hús kallar á staðsetningu við höfn, Ekkert þeirra tekur mið af umhverfinu í sínum arkitektúr. Allt alþjóðlegt, sérkennalaust og leiðinlegt. Eða frekar, ekki eins skemmtilegt og það hefði getað orðið.
Hér að neðan eru svo nokkrar myndir af fyrstu verðlaunatillögunni sem ég fékk sendar frá höfundunum, Graeme Massie Architects. Í dómnum segir að um sé að ræða “kraftmikla, myndræna og formfasta tillögu…..með mikinn sveigjanleika til aðlögunar við núverandi byggð”. Mér er það hinsvegar óskiljanlegt að þarna eins og í mörgum öðrum tillögum var gert ráð fyrir að HB-Grandi væri lagður niður á þessum stað.
Þegar skipulagsuppdrátturinn er skoðaður finnst mér tillagan bera frekar keim af inngripi en “mikilli sveigjanlegri aðlögun” Þetta virkar eins og að fleyg sé stungið inn í borgina miðja frá hafi.
Þetta er fallega framsett tillaga eins og sjá má hér að neðan. Mjög vel gerð grein fyrir sögulegu samhengi eins og Þorvaldur S. Þorvaldsson dómari fór vel yfir á fundinum. Bryggjurnar allar í sterku sambandi við gatnakerfið o. s. frv. Samt hafði ég á tilfinningunni að þarna væru sérfræðingar á ferð sem kunna sitt fag en væru að plata sveitamanninn svolítið. Og það tókst.
En dæmi nú hver fyrir sig.
Gönguleið að “Hörpu” nýja Tónlistarhúsinu..
“Buisness Park Courtyard”
Tillaga er gerð að sundlaug á Ægisgarði í innhöfninni. Þetta minnir á hafnarbaði Bjarke Ingels í Kaupmannahöfn. Þar formaði hann stökkpallinn eins og stefni á skipi. Það gerði hann sennilega af því að öll skipin voru farin úr höfninni og eitthvað þurfti að koma í staðinn. Svona smá söguleg skýrskotun hjá BIG.