Laugardagur 02.05.2015 - 08:45 - 2 ummæli

Páll Skúlason um gagnrýni

Af gefnu tilefni langar mig til þess að vitna í bókina „Pælingar“ eftir vin minn Pál Skúlason heimspeking (1945-2015)  þar sem hann veltir fyrir sér spurningunni um hvort hægt sé að kenna gagnrýna hugsun? Hann segir á einum stað:

Frá sjónarhóli vísinda og fræða skiptir svarið við spurningunni sköpum vegna þess að skipuleg þekkingar og skilningsleit er óhugsandi án gagnrýnnar hugsunar.  Ef menn væru ekki sífellt að gagnrýna kenningar, aðferðir og vinnubrögð í vísindum mundu vísindin staðna og smám saman verða úr sögunni.  Framfarir eru undir því komnar að menn efist um gildi ríkjandi kenninga,  reyni að finna á þeim veika bletti.  Þetta virðist raunar vera eitt helsta skilyrðið fyrir framförum á hvaða sviði sem vera skal:  að litið sé gagnrýnum augum á þau vinnubrögð sem tíðkast og reynt að finna önnur betri;  að reynt sé að finna galla á verki  –  hvert sem það er – til að unnt sé að gera betur.

Og síðar skrifar Páll í umræddum  bókarkafla:

Hagnýtt gildi hugmynda og skoðana er svo augljóst að raunar er ástæðulaust að eyða orðum að því.  Þó er eins og margir sjái það ekki og vanræki gersamlega að hirða um skoðanir sínar og hugmyndir, rétt eins og þeir haldi að þær geti gengið sjálfala og þurfi engrar aðhlynningar við.  Því miður er fátt eins fjarri sanni.  Hugsanir eru meðal viðkvæmustu vera í þessum heimi og þær lifa einungis og dafna í þeim sem lætur sér annt um þær.

Í dægurmálaumræðunni þyrfti fólk  að hafa þessi orð Páls Skúlasonar í huga og átta sig á að ef vel er á haldið eru það hugmyndir og hugsanir sem takast á og fleyta okkur áfram, ekki einstaklingar eða hópar.

Fólk þarf líka að átta sig á að gagnrýnendur hugmynda sem maður aðhyllist eru ekki andstæðingar,  heldur samstarfsmenn í leitinni að  þeirri slóð sem heppilegast er að feta.

Blessuð sé minning Páls Skúlasonar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Eysteinn Guðmundsson

    Fólk kann almennt ekki að gagnrýna og getur bara ekki tekið gagnrýni. Þetta þarf að kenna á heimilunum og í skólum frá blautu barnsbeini ef við ælum að vera siðuð. Páll bregst ekki hér frekar en annarsstaðar

  • Sigrún Sigurðard.

    Þetta þyrftu margir stjórnmálamenn og hinir svokkölluðu „álitgjafar“ að hugleiða vel.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn