Mánudagur 08.02.2016 - 08:03 - 12 ummæli

PARIS – La Belle Époque

Avenue-de-lOpera-Morning-Sunshine

La Belle Époque (Fallega tímabilið (!)) í París var tímabilið milli 1870 og 1914. Menn hafa sagt að það hafi náð milli þess að Prússastíðinu lauk og fram undir upphaf fyrri heimstyrjaldarinnar.

Tímabilið einkenndist af mikilli bjartsýni, friði, efnahafslegri velmegun og tæknilegum framförum. Þetta gerði það að verkum að listir hverskonar blómstruðu og næturlíf og skemmtanir urðu með öðrum hætti en áður.

Í myndlistinni blómstruðu menn á borð við Pierre Bonnard,  Paul Gauguin, Henri Matisse, Henri de Toulouse-Lautrec  og Pablo Picasso. Í Tónlistinni vor það Debussi, Stravinski, Ravel og fl. Það var líka brotið blað í bókmenntum þó þetta hafi ekki allt verið franskir listamenn.

Á þessu tímabili var  Opera Garniere og Effelturninn byggður ásamt mörgum helstu kennileitum borgarinnar. Bóhemar urðu til og lostafullur dans og revíur á borð við Can-Can í Mulin Rouges. Og svo auðvitað Folies Bergère sem var stofnað 1869.

Skömmu fyrir upphaf La Belle Epoque hafði Napóleon III falið Georges-Eugene Haussmann að endurskipuleggja París þannig að loft og birta kæmist betur inn í miðborgina og hún yrði heilbrigðari og fallegri.

Borgin var það sem á okkar dögum kallast slömm.

Í þessari  áætlun voru búlevardarnir lagðir. Í upphafi var þessu auðvitað mikið mótmælt og töldu menn (sem er eflaust líka rétt) að bulevardarnir ættu að gegna herðnaðartilgangi þannig að hægt væri að beita fallbyssum í borgarstyrjöld (oft nefnt Kanóniskt skipulag)

Þessi vinna við breytingu á borginni hófst árið 1853 og lauk að mestu um 1870 þó hún hafi haldið áfram allt til 1927.

Samfara þessu varð til byggingalist sem einkennt hefur Parísarborg æ síðan með mansardþökum og Art Nouveau (Jugendstíll) sem sjá má í mörgum byggingum og við inngang Metróstöðvanna.

Nú er París af mörgum álitin höfuðborg hámenningarinnar og ein sú fegursta í veröldinni.

++++++

Efst er samtímamynd mynd af einni af fyrstu breiðgötunum, Avenue de l´Opera sem liggur fra Louvre að Opera Garniere sem Napoleon III lét byggja .  Gríðarlegur fjöldi húsa var rifinn vegna lagningu götunnar.

Að neðan koma svo nokkrar myndir af málverkum eftir Crista Keifer þar sem tulkað er andrúmsloft í borginni fyrir aldamótin 1900.

Kief

 

Christa

Kiefer

Christa Kiefer

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (12)

  • Orri Ólafur Magnússon

    leiðrétting : auðvitað „Kaupmannahafnarháskóla“ ( ! )

  • Orri Ólafur Magnússon

    „Tímabilið einkenndist af mikilli bjartsýni, friði, efnahagslegri velmegun ….“ Við megum, þrátt fyrir alla hrifninguna, aldrei gleyma því að þessi mikla efnahagslega velmegun og tæknilegu framfarir skiluðu sér einungis til örlítils hluta þjóðanna : aðalsins ( sem reyndar réði ferðinni sem fyrrum ) og borgarastéttarinnar. Svona til gamans ; fyrrverandi kennari minn við Kaupmannarhafnarháskóla, Prof. Loshak, sagði listaverk Monets ( efsta myndin ? ) vera dæmigerðan „bourgeois realism“ , m. ö. o. myndirnar endurspegla nákvæmlega áhyggjulaust líf borgarastéttarinnar fjarri öllu streði og erfiði – auðvitað kom sá mikli fjöldi þjónustuliðs og erfiðisvinnufólks sem hélt þessu ( rangláta ) skipulagi gangandi þar hvergi fyrir. Ég mæli með endurminningum Kenneth Clark : „The Other Side of The Wood“ ef menn vilja kynnas því hvernig (afætu-)yfirstéttin hafði það í Brelandi fyrir fyrri heimstyrjöldina .

    • Sæmundur Garðar Halldórsson

      Þetta er allt rétt og satt Orri. En haussmönsku skrautbyggingarnar gera einmitt ráð fyrir skara þjónustufólks. Á jarðhæð er alltaf húsvarðaríbúð (venjulega er „la loge du concièrge“ hægra megin við inngang). Undir súð eru herbergi þjónuststúlkna „les chambres de bonne“. Þær taka upp alla sjöttu og stundum jafnvel sjöundu hæð, þar sem hún er til. Síðustu áratugi hefur mið- og efri miðstétt ekki efni á að hafa þjónustufólk í kringum sig sem auk þess býr á staðnum. Þessi þakherbergi eru því yfirleitt leigð stúdentum, oft fyrir morð fjár. Margar borgaralegar fjölskyldur greiða þó fyrir húshjálp og oft líka barnapössun. Þær konur (langoftast) sem því sinna búa núna annars staðar, væntanlega í fjarlægum úthverfum þar sem verkalýðnum var holað niður.

      Á fasteignamarkaði í París eru haussmönsk hús langdýrust. Best er ef þau eru úr hlöðnum steini „pierre de taille“. Næstbest er „pierre de Paris“, en þá er múrsteinshleðsla innan steinrammans. Steinsteypan er ódýrust.

    • Hilmar Þór

      Svakalega hafði ég gaman af því að lesa þessa athugasemd þína Sæmundur Garðar Halldórsson.

      Þar kom tvennt til.
      Annað var augljós þekking þín á efninu og svo hitt að þú upplýstir mig um hluti sem ég hafði tekið eftir en vissi samt einhvernvegin ómeðvitað.

      Ég vitna orðrétt í þig: “Á jarðhæð er alltaf húsvarðaríbúð (venjulega er „la loge du concièrge“ hægra megin við inngang).”

      Þetta vakti upp minningar mínar frá unglingsárum mínum.

      Þannig var að foreldrar mínir bjuggu í París á árunum 1961-66. Þau bjuggu í íbúð í svona haussmönsku húsi við Rue Chalgrin, sem var hliðargata út frá Avenue Foch. Chalgrin þessi var arkitekt sigurbogans eina og sanna við Etoil torgið. Við innganginn í húsið var “la loge du conierge” einmitt hægra megin.

  • Endurreisn Parísar heppnaðist afar vel, fyrst og fremst vegna þess að endurreisnin átti sér stað fyrir tíma fúnksjónalismans. Á þessum tíma reistu menn hús sem byggðu á mörg þúsund ára þróun byggingarlistar.

    • Hilmar Þór

      Pétur. Þetta er eitthvað sem mér hefur ekki dottið í hug. Enda sennilega óhugsandi. En ef þessar breytingar hefðu átt sér stað 100 árum seinna væri París sennilega með leiðinlegri borgum álfunnar.

  • Það eru góðar pælingar, um hvað gerir borg að borg, hvað aðgreinir notalegt og gott samfélag innann borganna, hvers vegna virkar þessi hluti Parísar svona vel, á meðan alveg eins svæði hinum megin á hnettinum er eins og draugasvæði? hér er tengill á París sem byggð var í kína, þar er að finna þessu fallegu breiðstræti og meira að segja parísarturninn, en hvar er fólkið og borgarstemminginn?

  • Helgi Guðmundsson

    Blómaskeið allra lista. Napóleon III og Haussmann gerðu París að fyrirmyndar borg allra borga. Þegar farið er um Oxford street í London eða Regentstreet eru byggingalistin næstum öll undir Parisiskum innblæstri.

  • Hlöðver Stefán Þorgeirsson

    Það er áhugavert hvernig menn hugsuðu akbrautarhluta gatnanna á þessum tíma. Þeir eru almenningsrými fyrir fjölbreytta samgöngumáta án hinnar miklu aðgreiningar og reglufestu sem einkennir breiðar götur í dag.

  • BORGARUMHVERFI

    Almennt finnst mér borgir ekki fallegar eða eftirsóknarverðar vegna bygginga heldur þrátt fyrir byggingar. Byggingar eru sjaldnast fallegar í sjálfu sér heldur hrífandi eða stórbrotnar vegna stærðar, sögulegs samhengis eða annars mikilfengleika eða vegna þess að þær eru flottari að skárri en aðarar byggingar. Það er rýmið milli bygginganna, almenningsrýmið, ásamt veðurfarinu, samgöngukerfinu og notagildinu fyrir hinar ýmsu athafnir notendanna sem skiptir höfuðmáli.

    Þetta finnst mér gott að hafa í huga og svo hitt, að við erum oftast ferðamenn á faraldsfæti í öðrum borgum en heimaborg okkar, þegar ég reyni að meta hversvegna mér líður betur á einum stað en öðrum. Hvað hefur París td umfram London og öfugt?

  • Eysteinn

    Sennilega var þetta skemmtilegasti tíminn í allri sögu lista og menningar.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn