Fimmtudagur 16.01.2014 - 00:05 - 10 ummæli

Rætt um Hörpu í Hörpu

Harpaplaza-1-lowreslett

Síðdegis í dag verður efnt til málþings um mannlíf og byggingarlist í Reykjavík í tilefni þess að Harpa hlaut Mies van der Rohe verðlaunin í byggingarlist á síðasta ári. Málþingið verður í Norðurljósasal Hörpu og hefst klukkan 15.00 og verður því lokið kl 17.00 vel fyrir handboltaleik HM Ísland – Spánn 🙂

Mies verðlaunin eru ein virtustu byggingarlistaverðlaun heims og þau stærstu sem bygging á Íslandi hefur hlotnast.

Verðlaunin voru afhent 7. júní s.l. í Mies van der Rohe Pavilion í Barcelona og voru það fulltrúar frá Henning Larsen Architects, Batteríinu Arkitektum og Studio Ólafs Elíassonar sem tóku við verðlaununum. Einnig tók Halldór Guðmundsson, forstjóri Hörpu við viðurkenningu til eiganda byggingarinnar.

Alls voru 335 byggingar í 37 Evrópulöndum tilnefndar að það sinni en verðlaunin eru veitt annað hvert ár. Þau verk sem hljóta Mies van der Rohe verðlaunin njóta alþjóðlega athygli og umfjöllun. Síðast hlaut Neues Museum í Berlín eftir David Chipperfield Architects verðlaunin (2011) og þar áður Óperuhúsið í Osló eftir Snöhetta (2009).

Í rökstuðningi dómnefndar verðlaunanna leggur formaðurinn, Wiel Arets, einkum áherslu á þrennt: „þá ákvörðun að ljúka við byggingu Hörpu þrátt fyrir kreppuna, einstaka tengingu byggingarinnar við höfnina og umhverfi Reykjavíkur og einstaka samvinnu við Ólaf Elíasson um glerhjúpinn utan um húsið,“.

Eftirfarandi spurningar verða hafðar að leiðarljósi í umræðunni: Hvernig hefur byggingin nýst þeim mörgu og ólíku notendum hússins út frá hönnunarmiðuðu sjónarhorni? Hvaða þýðingu geta Mies van der Rohe verðulaunin haft fyrir Hörpu, Reykjavík og arkitektúr á Íslandi? Hvernig tölum við um Hörpu og hvaða ímynd hefur byggingin? Hvernig vinnur Harpa með borgarumhverfinu og hvaða hlutverk viljum við að hún spili?

Í kjölfar málþingsins verður boðið til móttöku þar sem sýning Mies stofnunarinnar er uppsett.

Fyrirkomulagið verður þannig að völdum hópi fólks, sérfræðingum og fulltrúum mismunandi hópa sem tengjast Hörpu á einn eða anna hátt, verður boðið til hringborðsumræðna með fundarstjóra sem stýrir umræðunum. Áður en að umræðurnar hefjast verða haldin stutt innlegg frá 3 þeirra sem við borðið sitja. Málþingið verður haldið í Norðurljósum. Fyrirkomulaginu mætti líkja við „Kryddsíldina“ með áhorfendum, en viðburðurinn verður þó ekki útsendur.

Eftirtaldir aðilar taka þátt í hringborðsumræðunum:

Hjálmar Sveinsson borgarfulltrúi og fyrrum útvarpsmaður

Sigurður Einarsson arkitekt hjá Batteríinu

Hilmar Þór Björnsson arkitekt hjá Á stofunni arkitektum.

Ólöf Örvarsdóttir arkitekt og sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar

Arna Kristín Einarsdóttir, framkvæmdarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands

Eyjólfur Pálsson  í Epal

Egill Helgason, sinfóníuunnandi, nágranni Hörpu, menningarrýnir, þáttastjórnandi og bloggari.

******

*) Skrifin að ofan  er stytt útgáfa af texta sem fengin er frá aðstandendum málþingsins.

Hér að neðan er svo pistill um þau verkefni sem voru tilnefnd til verðlaunanna á síðasta ári. Virðing verðlaunanna byggist auðvitað fyrst og fremst á því hvað er tilnefnt og verðlaunað að lokum. Í ár fannst mér þessi merku verðlaun setja nokkuð niður við það að sjá þetta hús fyrir aldraða í Portúgal, sem líkist frekar einhverri tölvuæfingu eða tölvuleik en húsi þar sem fólki er boðið upá að verja æfikvöldinu. Húsið líkist einna helst einhverskonar „mental hospital“ eða líkhús. Ég sem funktionalisti óska engum að þurfa að dvelja þarna eitt augnablik Hvað þá lagður nauðugur inn vegna öldrunar. Kynnast má þessu húsi nánar á eftirfarandi slóð:

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/04/04/hin-eftirsottu-mies-verdlaun-til-islands/

Svo er hér stuttur pistill um eitt af höfuðverkum Ludwig Mies van der Rohe

http://blog.dv.is/arkitektur/2009/12/09/mies-van-der-rohe/

****************

P.S.

Til gamans er hér að neðan ljósmynd af Ólafi Elíassyni sem tekin var í eldhúsi heima hjá mér  í Kaupmannahöfn sennilega um 1970.

Þannig var að við hjónin áttum hús með garði í úthverfi borgarinnar (KBH). Vinum okkar inni í borginni þótti gaman að heimsækja okkur og njóta garðsins. Þeirra á meðal voru foreldrar Ólafs. Ég hef stundum haldið því fram (í gríni) að ég hafi kennt Ólafi að teikna. Enda var það þannig að öll börn elskuðu að fikta í vinnutækjum arkitektanemans  sem voru á þeim árum blýantur blað og einhverjir tússpennar. Því miður fóru öll þessi frumbernskuverk Ólafs í ruslið heima hjá okkur.

Picture1

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

 • Örnólfur Hall

  — Af því að Egill talaði um meira af ‘plebbisma’ þá var það skemmtlega skondið að maður gat fyrir jól farið á Sinfó-tónleika og keypt sér úlpu og jólaskraut í krambúðunum þarna.
  — Annars var matvælamarkaðurinn áhugaverð tilraun !

 • Hafsteinn

  Það leynir sér ekki svipurinn á Ólafi Elíassyni þarna þegar hann var þriggja ára.

 • Örnólfur Hall

  ATHYGLISVERÐUR EGILL HELGASON :

  — Það var athyglisvert það sem Egill sagði að byggingar- og rekstrarkostnaður væri svo dýr að ekki einu sinni væri hægt að ráða hæfan stjórnanda sinfóniuhljómsveitarinnar og Sinfó væri núna lélegri en þegar hún var í Háskólabíói.
  — Einnig spurði hann hvort of mikið snobb væri í kringum allt utanumhald hússins, hvað notkun varðaði hvort ekki þyrfti að fá aðeins meiri „plebbisma“ í þetta, svona tekjulega séð, þetta væri bara hin ískalda staðreynd.
  — Uppástunga um skautasvell á malbikstorgið og pollana er athygisverð.

  PS:— Eftir stutta tölu mína um allt smíðafúskið í Hörpu (t.d. klúðrið í hjúpshornum o.fl. o.fl.) kallaði hann til mín að þetta ætti eftir að koma í ljós síðar.— En get ég gengið með honum um sýnt honum ófögur „grös“ sem nú þegar eru sýnileg og við eldri arkitektar óttumst mjög. Ef vill.

  — Líka má skoða gögn hjá Mannvirkjastofnun, sem er opinber hlutlaus aðili. Ef vill.

  PS:— M.a. var athyglisvert að sjá menn í þakati og veseni í Hörpu fyrir jól.

 • Örnólfur Hall

  — Hilmar stóð sig best og diplómatískur benti hann á Hörpu-kaunin-og kýlin ‘undir rós’, eins og Erró forðum – enda báðir snjallir. — Egill var líka góður í sinni gagnrýni.

 • Pétur Örn Björnsson

  Þetta málþing var mun skárra en ég bjóst við. Mér fannst Egill Helgason bestur, svo þú Hilmar minn. Varst þó full dipló. Aðrir í pallborði horfðu hver frá sínu sjónarhorni og er það svo sem skiljanlegt að hver sé stundum týndur í sjálfum sér. Kannski það sé svona sálfræðilegt eitthvað þegar fólk er upphækkað frá gólfinu þar sem við pöpullinn sátum og máttum ekki mæla.

  Hjálmar fannst mér slakur enda virtist hann … svei mér þá … halda að Ísland væri jafnfjölmennt og Þýskaland og Reykjavík því jafnfjölmenn og Berlín … sem er vægast sagt mikill misskilningur hjá honum.

  • Pétur Örn Björnsson

   Þetta smælki að auki:
   Örsögur forstjórans, hans Halldórs míns blessaða í ávarpsorðum/kynningu skyldi held ég enginn; þær voru einhvern veginn úr tengslum við salinn. Hjálmar greip þó örsögurnar á lofti fegins hendi og mátti þá ekki á milli sjá hvor taldi sig meira skáld. Sorrí drengir … en svona blasti þetta við okkur pöpulnum sem hlustuðum en máttum eigi tungu hræra.

  • Hilmar Þór

   Þakka þér hrósið Pétur Örn. Auðvitað heldur maður aftur af sér vegna þess að hógværðin er farsælli en framhleypni og offors. En Arna Kristín Einarsdóttir tók (sennilega óvart) óbeint undir að húsið snýr öfugt þegar hún sagði frá stjórnandanum sem vildi sleppa æfingunni vegna þess að útsýnið frá aðstöðu starfsmanna varsvo óendanlega fallegt.

  • elín g. gunnlaugsdóttir

   Ég sakna þess ekkert sérlega að það sé ekki „útsýni“ út úr þessari byggingu og að hún snúi „öfugt“ eins og Hilmar benti réttilega á.

   Þvi þegar maður fer inn í þessa byggingu er tilgangur heimsóknarinnar annar en að fara góna á Esjuna og Skarðsheiðina. Bæði er það byggingin sjálf sem maður á að dáðst að, svo og sú menningaratburðir sem draga mann þangað 🙂 Mér finnst bara hressandi að standa úti og finna ískalda norðanáttina næða um mann og dást að fjallasýninni í leiðinni.
   Væri þetta skrifstofurýni eða íverurými þá myndi önnur lögmál og kröfur gilda varðandi útsýni !!!

   Takk annars fyrir frábæran dag í dag!

  • Pétur Örn Björnsson

   Það hefði nú hvorki verið framhleypni né offors Hilmar minn … þar sem þú fékkst að sitja á pallinum að láta ekki sem nánast allar athugasemdir um marga góða pistla þína um Hörpu hefðu verið jákvæðar … þar varst þú einum of dipló gagnvart 6 á palli Hilmar minn, að þér meðtöldum 🙂

   En hógværð er vissulega dyggð eins og Lao Tze sagði en lærisveinn hans Chuang Tze lagði jafnframt áherslu á það að allir ættu að forðast „hyggindin“ og segja „instant“, „impulsive“, meiningu sína … þetta er í anda barnsins sem spyr af hjartans einlægni: „En á maður ekki alltaf að segja satt?“

   En ég er sammála kollega Elínu að það er alltaf mest frískandi að vera utandyra þegar fólk vill virða fyrir sér ýfingar hafsins, flóð og fjöru og fjallasýnina … í þessu tilviki … Snæfellsjökulinn, Akrafjallið, Skarðsheiðina og Esjuna. Galli Hörpu er þó hvað hún skyggir mikið fyrir útsýnið … þeirra sem utandyra standa og nær bænum. Hún er frek í heilum massanum.

 • Sigurgeir

  Þessi hvíta bygging í Portúgal sem tilnefnd var er virkilega hrollvekjandi. Þeir sem hana völdu eða hönnuðu eru ekki í tengslum við manneskjuna í fólkinu sem þarna eiga eftir að þjást. Þetta er frekar refsihæli en ummönnunarbygging.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn