Þriðjudagur 18.05.2010 - 22:33 - 10 ummæli

Reiðhjól

kolelinia_1[1]

Ég tek eftir að nú í vor að algengara er að sjá fólk í borginni gegna erinda sinna á reiðhjóli en undanfarin ár. Reiðhjólið er að verða áberandi samgöngutæki.

Í minni æsku voru reiðhjól leiktæki og ekki með gírum. Brekkurnar og vindurinn ollu miklum erfiðleikum.  Nú er þessu öðruvísi farið. Það eru 10-20 gírar á reiðhjólunum.

Ég sé fólk hjóla á móti miklum vindi áreynslulaust og það hjólar jafnvel sitjandi upp Túngötuna.

Við erum að upplifa endurkomu reiðhjólsins sem samgöngutæki um víða veröld.

Hönnun reiðhjóla hefur tekið stakkaskiptum undanfarin ár og nú er farið að huga að reiðhjólinu í hönnun gatna í Reykjavík. Og ekki bara það heldur eru hönnuðir í hinum stóra heimi að glíma við verkefni sem hafa það að leiðarljósi að greiða götu reiðhjólsins í samgöngukerfinu með margvíslegum og oft nýstárlegum hætti.

Mér var bent á slóð á veraldarvefnum þar sem lögð er fram tillaga að sérstökum reiðhjólaleiðum þar sem hinn hjólandi svífur yfir gatnakerfinu og er laus við núningspunkta þar sem bifreiðar og hjólandi mætast.

Slóðin er:  http://kolelinia.com/en/kolelinia/ 

Þetta er auðvitað á hugmyndastigi, nokkuð framúrstefnulegt og ekki gallalaust, en forvitnilegt. Þarna eru gerðar brautir þar sem hinn hjólandi svífur yfir annarri umferð og er óháð duttlungum og oftast forgangi þeirra sem eru akandi í bifreiðum.

Gaman væri að sjá svona hjólabraut frá Háskólanum í Reykjavík niður í miðbæ. Hugsanlega mætti hengja þetta á ljósastaurana þar sem það er hægt með styrkingum eftir þörfum.

Ég mæli með að áhugasamir skoði slóðina þar sem fjallað er um ýmis öryggisatriði og þ.h..

a_07

a_06

a_04

a_05

kolelinia_15[1]

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

 • Þetta er auðvitað bara skemmtileg heilaleikfimi.
  Allrar athyglu verð.

 • Tek undir með Helga. Nóg pláss í Reykjavík fyrir hefðbundna hjólastíga.

 • Ég held nú að þetta gæti hugsanlega verið sniðugt í mjög þéttum milljónaborgum (new york, london) en hér í reykjavík er þetta óþarfi. Alveg hægt að byggja upp mjög gott hjólreiðastígakerfi án þess að fara út í svona æfingar.

 • Hilmar Þór

  Halldór.
  Ég googlaði „ceative Commons“ sem ég hef ekki heyrt um áður og fannst spennandi.
  Þakka kommentið.

 • Það besta við þetta er að verkefnið allt er undir creative commons höfundarréttinum… sem þýðir að einstaklega auðvelt væri fyrir frumkvöðla hér og þar um heiminn; t.d. í Reykjavík til þess að tileinka sér þá hugmyndavinnu sem þarna hefur verið unnin, ef vilji er fyrir hendi.

 • Árni Ólafsson

  Atlaga að svari við spurningu Sigurðar:
  Þetta er skipulag hinna einföldu (einfeldningslegu ?) lausna – flokkunar og aðgreiningar allra þátta.
  Öll starfsemi flokkuð og aðgreind, umferðin flokkuð og aðgreind (og aðgreind frá byggðinni sem hún þjónar), íbúðarhús flokkuð og aðgreind, fólk flokkað og aðgreint o.s.frv.

  Niðurstaða: Sundruð borg.
  „Ef við sundrum byggðinni sundrum við þjóðinni/fólkinu“ svo vitnað sé í spekinga.

  Hugsanleg leið: Umbreyting núverandi byggðar í samfellda blandaða byggð með eiginleika borgar auk aðgerða til þess að gera umhverfi gangandi og hjólandi vegfarenda og þeirra sem nota almenningssamgöngur þægilegt, fallegt og lokkandi. Breyttir samgönguhættir eru óárennilegir fyrir allan almenning miðað við núverandi umhverfi.

  Raunhæfni: Fjarlægur draumur gagnvart Reykjavík þar sem sundrun borgarinnar hefur verið framfylgt með óvenjulegri hörku og einbeittum brotavilja.
  Og þetta hefur gengið á allt frá gildistöku aðalskipulags Reykjavíkur 1963, sem telja má upphaf hins móderníska bæjarskipulags á Íslandi.

 • Sigurður.

  Allsstaðar á byggðu bóli er fólk að leita leiða til þess að minnka umsvif einkabílsins í samgöngukerfum borganna. Þetta er ein þeirra. Og kannski ekki svo vitlaus á fjölförnum hjólaleiðum þar sem krossa þarf umfangsmikil bílamannvirki. Ef farið er inn á slóðina sem fylgir færslunni má sjá að engin hætta er á að menn detti fyrir bílana

  Allsstaðar er verið að búa í haginn fyrir gangandi, hjólandi, neðanjarðarlestarkerfi, metrókerfi, strætisvagnakerfi, sporvagna og fl.

  Skipulagsyfirvöld eru að takmarka fjölda bifreiðastæða í borgum (nema í Reykjavík) Allt er þetta gert til þess að losna við einkabílinn eða gera hann fyrirferðaminni í umhverfinu.

  Sennilega er samt besta leiðin til að stemma stigu við yfirgangi blikkbeljunnar að tengja betur saman atvinnu og þjónustu við íbúðasvæðin eða staðsetja þau þannig að þau henti almenningsflutningakerfi þannig að einkabíllinn verði ekki forsenda fyrir búsetu í borginni.

  Í raun er óskiljanlegt hvað skipulag borgarinnar og alls höfuðborgarsvæðisins hefur klúðrast undanfarin rúm 20 ár.

  Kann einhver skýringu á því?

 • en er ekki hætta á að maður detti af baki og lendi fyrir bíl?

 • Þorri G.

  Ég man eftir einhverri svipaðri hugmynd sem nemendur í arkitektúr eða vöruhönnun LHÍ sýndu fyrir svona tveim árum. Hún var af svipuðim toga nema þar voru ekki reiðhjól sem notuð voru. Heldur einskonar lyftustólar sem þutu á vírum um allann bæ.

  Þessi hugmynd með víra og teina fyrir reiðhjól er ekki eins óraunhæft eins og sýnist í fyrstu.

 • Guðrún Inga

  Já, best að sleppa þá pilsunum 🙂

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn