Föstudagur 14.03.2014 - 05:26 - 17 ummæli

Reykjavík sem hjólaborg – Breytt ásýnd

 

Víða í heiminum er verið að endurskoða ferðamáta fólks í borgum. T.a.m. er rætt um að Hamborg verði nánast laus við einkabíla eftir 20 ár. Þetta hefur veruleg áhrif á umhverfið og mikið landrými losnar. Ásýnd borgarinnar mun breytast.

Menn eru líka að velta fyrir sér betri tengingu hjólandi og gangandi milli opinna svæða og borgarhluta. Markmiðið er að gera gangandi og hjólandi ferðamáta auðveldari, eftirsóknarverðari og skemmtilegri.

Hjálagðar myndir sýna tvær hugmyndir.

Önnur  sýnir hvernig landrými sem áður var lagt undir stofnbraut í Hamborg gæti verið notað eftir brotthvarf einkabílsins eða honum er stungið ofan í jörðina. Ekki til brasks og bygginga heldur til útivistar og eflingar lýðheilsu.

Hin sýnir hvernig græn svæði eru tengd saman með breiðri grænni brú þannig að vegfarandinn verður vart var við stofnbrautina þegar hann fer yfir hana.

Svona brýr eru farnar að sjást í borgarlandslaginu víða og ekki ólíklegt að þær munu líta dagsins ljós einn daginn hér í Reykjavík sem er að breytast úr bílaborg í vistvæna borg hvað varðar ferðamáta og útivist.

Í framtíðinn væri þá hægt að ferðast um nánast alla borgina án hindrana vegna þungra umferðagatna um grænar brýr þar sem það á við og breiðar borgarbrýr þar sem það á við.

Breyttar áherslur hvað varðar ferðamáta í Reykjavík mun breyta ásýnd hennar þegar til langs tíma er litið. Fyrirhugaður vistvænn samgönguás mun verða lykilatriði í þessari þróun.

Lesa má nánar um áætlanir Hamborgar ef googlað er „Hamburg gets to become a car free city in 20 years“

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (17)

  • Arnór Bogason

    Það er ekkert að því að byggja brýr. Neðri myndin er hinsvegar af svokölluðu „wildlife crossing“, þar sem gert er ráð fyrir umferð dýra yfir brúna án þess að vistsvæði þeirra sé slitið í sundur.

  • Steinarr Kr.

    [Quote Árni] Það væri reyndar hægt að grænka borgina með því að taka helgunarsvæði og miðeyjar stofnbrautanna undir trjárækt.[Unquote]

    Góð hugmynd!

  • Ég efast um að framtíðin verði svona græn eins og þarna er lýst því bílaumhverfið verður áfram fyrirferðarmest hjá okkur þrátt fyrir hlægilegar áhyggjur sjálfskipaðra talsmanna einkabílsins.

    Umhverfið okkar verður samt meira aðlaðandi eftir því sem gangandi og hjólandi fólki fjölgar, a.m.k. fyrir þau okkar sem finnst skemmtilegra að sjá lífandi fólk á ferð frekar en þungann straum og hávaða bílaumferðar.

    Það væri reyndar hægt að grænka borgina með því að taka helgunarsvæði og miðeyjar stofnbrautanna undir trjárækt.

  • Steinarr Kr.

    Í sögulegu samhengi bendi ég mönnum á að skoða ljósmyndir ca. frá aldamótunum 1900. Þá vor komnar borgir, með breiðum götum, þó ekki væru þar bílar.

    Undrast líka þessa umræðu um að það verði annað hvort eða. Líklegast verður framtíðin þannig að allir mögulegir samgöngumátar hafi sitt rými.

  • Einn farlama og gleymdur af búrakrötum

    Ég keyri mina svörtu pöddu út úr borginni
    í hvert sinn sem mér leiðist borgin.

    Geng svo út í móa og verð þar algjörlega
    sjálfbær með mosató sem kodda.

    Og um næturnar mæni ég sem draumkenndur
    dreki, eða sæll og jarmandi sauður, á tunglið.

    Eiginlega vil ég helst vera alltaf út í móa,
    laus við möwe druslur og svarta pöddu.

    • Sigríður

      Ég vil „læka“ þetta ljóð

    • Sigríður

      Ég er svo gömul að ég mam Möve druslurnar

    • Einn farlama og gleymdur af búrakrötum

      Takk kærlega Sigríður. Þetta ljóð er sem af kynjum og víddum
      algjörlega ættað
      og því mér skylt 🙂

  • Heimir H. Karlsson.

    Jens Gíslason:

    Í greininni hér að ofan er talað um: „eftir brotthvarf einkabílsins.“ og birt mynd því tengd.

    Þesvegna hlýt ég að draga þáályktun, að gerinin fjalli um, að láta reiðhjólið koma í stað einkabílsins.

    Ég er mjög sammála þér, að það sé allra hagur að bæta raunhæft val á sem flestum samgöngumátum, þar með talið reiðhjólinu. Með vitrænu samspili hina ýmsu samgöngumáta, þá má draga úr göllum eins, með því að nýta sér kosti annars, notfæra sér samspil hinna ýmsu samgöngumáta. Ef einum samgöngumáta er útrýmt af ákveðnu svæði, þá er um leið verið að takmarka fjölbreytileika og möguleika þess svæðis. Slíkt hefur þegar gerst í stórborgum nútímans. Þetta er spurning um vitrænt samspil, öllum til góðs.

    Gunnar: Ég er ekki að væla yfir veðrinu, ég er að fjalla um staðreyndir, teknar úr mínu eigin lífi sem hjólreiðamaður.
    Ég var hjóreiðamaður allan árins hring í meira en 12 ár, fyrst á Reykjarvíkursvæðinu, síðan á Eyrarbakka Selfossvæðinu, og að lokum afur á Stór-Reykjavíkursvæðinu.
    Ég sætti mig illa við, að ég sé kallaður kuldaskræfa, því ég taldi ekki af mér að hjóla í klukkutíma, í vindkælingu sem var yfir – 20 °á Celsíus, til vinnu á milli Eyrarbakka _Selfoss. En þú ert að tala um íslendinga og kuldaskræfur, strangt til tekið er ég hvorugt. 🙂
    Einu gildir, hver samgöngumátinn er, fólk þarf að búa sig eftir aðstæðum.
    Rafmótor er vissulega sniðug hjálpartæki, en rafhlöður eru flestar níðþungar, og kuldi dregur mjög úr rýmd rafhlöðu.
    Framfarir eru þó miklar og athyglisverðar, á því sviði.

    Einn farlama og gleymdur af búrakrötum: Hér í greininni að ofan er minnst á:…..“betri tengingu hjólandi og gangandi milli opinna svæða og borgarhluta. Markmiðið er að gera gangandi og hjólandi ferðamáta auðveldari, eftirsóknarverðari og skemmtilegri.“
    Þannig koma reiðhjól inní þessa umræðu.
    Hjólreiðar standa mér nær, því vil ég helst, að fjallaða sé um þær á raunhæfan máta. það er besti hvatti til aukinna hjólreiða.
    Og velkominn í hóp hinna farlma og búrókrata-gleymdu.
    Við þyrftum að stofna þrýstihóp, okkur fer fjölgandi….

    Kveðja,

    Heimir H. Karlsson.

  • Einn farlama og gleymdur af búrakrötum

    Um leið og fólk sér gras þá æpir það — skiljanlega — hallelúja.
    En hvað reiðhjól koma því við hef ég ekki græna glóru — skinhelgin
    ein og sér virðist nú málið, sem oftsinnis fyrr.

  • Nagladekk og rafmótorar, þannig er skítlétt að hjóla í þungum snjó 🙂

  • Mjög góður punktur Jens, þetta blogg sem þú vísar á hittir naglann á höfuðið.
    Íslendingar eru mjög fljótir að fara að væla yfir veðrinu þegar kemur að hljólreiðum. Við erum líklega mestu kuldaskræfur í heimi norðan fertugustu breiddargráðu og hér verður varla kalt á veturna. Málið er held ég að við nennum ekki að klæða okkur í útiföt.

  • Jens Gíslason

    Heimir:
    Það dettur engum í hug að reiðhjól komi alfarið í stað vélknúinna ökutækja í þjóðfélaginu. En að auka hlutdeild reiðhjóla í samgöngum á höfuðborgarsvæðinu um nokkur prósentustig á ársgrundvelli myndi bæta umhverfið, spara skattgreiðendum stórfé og auka lífslíkur íbúanna, það er ekki bara raunsæ stefna heldur algjör „no-brainer“ að mínu mati.

    Veðurfar með tilliti til hjólreiða er ekki mikið verra í Reykjavík en Amsterdam, sjá hér:
    http://hjoladu.wordpress.com/2010/02/08/er-ve%C3%B0urfar-i-reykjavik-ohagst%C3%A6tt-hjolrei%C3%B0um/

    Fjöldi daga á ári sem hjólið hentar illa til samgangna er mjög mismunandi eftir aðstæðum hvers og eins. En hjá langflestum er það aðeins lítið brot af árinu og ættu því ekki að hafa mkil áhrif á stefnumótun sveitarfélaga í samgöngumálum.

    kv.
    jens

  • Heimir H. Karlsson.

    Falleg og góð hugmynd, að bæta aðstæður reiðhjólafólks.

    Tvennt finnst mér gleymast.

    Flutningsgeta reiðhjólsins, eða öllu heldur vangeta reiðhjóls með tilliti til þungafutninga.

    Dæmi: Ég bý í Hafnarfirði og versla oft í Bónus þar.
    Hvernig er hugmyndin að koma vörum þangað, t.d. brettavöru án bíls ?
    Ég hef þó nokkra reynslu af hjólreiðum, og hvað flutingsgetu reiðhjóls varðar, þá hef ég átt og notað BOB tengivagn síðan 1997.
    Þekki einnig til hina svonefndu Christani-cykler.

    Veðurfar á Íslandi:
    Ég hjólaði allt árið í ein tólf ár, einnig á veturnar.
    Því miður koma dagar á veturnar, þar sem afar illhjólandi er, en oft er fært á vel útbúnum bíl.
    Reynsla mín sem hjólreiðamans er, að í þéttbýli, eins og á leiðinni Hafnarfjörður-Reykjavík, er mun verra að hjóla að vetri til, vegna snjóa, en á leiðinni Eyrarbakki-Selfoss.
    Snjór safnast og set mun meira fyrir, í þéttbyggðu hæðóttu landslagi, en á alsléttu landi. Auðveldega má sjá mun á landslagi og byggð á áðurnendum hjólaleiðum.

    Mín skoðun er, að því skilvirkari sem samgöngumáti er, því fleiri velji viðkomandi samgöngumáta.

    Erfit er að breyta áður umræddu vanköntum varðandi reiðhjólið, íslensku veðri og takamarkaðri fluutningsgetu.

    Vinsamlegast verum raunsæ í umsögnum okkar um samgöngumáta.

    Kveðja,

    Heimir H. karlsson.

    • Orri Ólafur Magnússon

      Heillandi framtíðarsýn : grasi gróin svæði og trjálundir með hjólreiða- og göngustígum í stað grárra malbiksbrauta með kös af reykspúandi bílum. Út af fyrir sig ekkert við þáð að athuga að taka þessa „útópíu“ með inn í myndina við framtíðarskipulag borgarinnar – ef til vill verður veðurfarið hér norður frá orðið álíka og núna í Mið-Evrópu eftir 100 ár – hver veit ? Hvað sem öðru líður er löngu orðið tímabært að leita annarra lausna á samgöngum bæjarbúa en bensínknúna bíla – ekki síst vegna þess einfaldlega að steinolía verður sífellt dýrari eldsneyti og fyrr en seinna óviðráðanlega dýr fyrir íslenskan meðal – Jón – svo maður tali ekki um sóðaskapinn. Íslendingar eru – enn sem komið er a. m. k. – í þeirri öfundsverðu aðstöðu að geta verið framarlega í þróun & notkun umhverfisvæns eldsneytis vegna fallvatna og jarðhita. Vonum að þjóðin beri gæfu til að taka stefnu í þá áttina – verða frumkvöðlar í umhverfisvænni orkunýtingu – í stað glæfralegrar olíuleitar úti í Ballarhafi .

  • Sigríður Jónsdóttir

    Svona brú þarf yfir Kringlumýrarbraut við Fossvog.
    Strax

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn