Sunnudagur 25.05.2014 - 18:00 - 26 ummæli

Reykjavíkurflugvöllur, sameign þjóðarinnar

 

 

 

Hér skrifar Sigurður Thoroddsen arkitekt og einn reyndasti skipulagsmaður  stéttar sinnar á Íslandi um Reykjavíkurflugvöll.

Hann fjallar hér um lagarammann,  fasteignir og starfsemi á Reykjavíkurflugvelli.  Hann segir að þó borgarstjórn hafi samþykkt að flugvöllurinn skuli hverfa úr Vatnsmýrinni sé vinnsla vegna  lagaumhverfisins sem varðar eignahald og þ.h. ekki hafin.

*********

Að undanförnu hefur nokkuð borið á því að menn telji að tiltekin lönd og svæði, sem eru sameign þjóðarinnar, séu   sveitarfélögum, félagasamtökum eða jafnvel einstaklingum til frjálsrar ráðstöfunar og afnota.

Dæmi af þessum meiði, eru hugmyndir Borgarstjórnar Reykjavíkur um að yfirtaka land Reykjavíkurflugvallar, svæði sem er fullbyggt og í notkun, og bjóða það öðrum til afnota fyrir íbúðarbyggð og stofnanir. Með öðrum orðum, að taka eignir af einum og afhenda öðrum. Til að fyrrgreindar hugmyndir séu framkvæmanlegar þarf að fjarlægja öll mannvirki á flugvallarsvæðinu, þannig að nýir aðilar geti nýtt svæðið.

Hérlendis eru engin dæmi þess að þegar byggt svæði af framangreindri stærðargráðu,  hafi verið tekið með valdboði, enda vart framkvæmalegt vegna kostnaðar.    Landið er að hluta í eigu ríkisins og hvorki liggur fyrir að ríkið vilji láta landið af hendi ásamt þeim mannvirkjum sem þar eru, s.s. flugbrautum og ýmsum byggingum, né heldur þau fyrirtæki og einstaklingar sem eiga fasteignir á flugvellinum.    Þannig að samþykki Alþingis þarf að liggja fyrir vegna lands og mannvirkja í eigu ríkisins og   eignarnám á mannvirkjum sem eru í eigu fyrirtækja og einstaklinga, Hvorugt er í vinnslu, en engu að síður er atlagan að Reykjavíkurflugvelli hafin.

Lagaramminn

Samkvæmt 72. grein Stjórnarskrár Íslands frá 1944 m.s.br. ,   kemur fram að eignarrétturinn er friðhelgur og gildir einu hvort um sé að ræða eignir ríkisins, sveitarfélaga, félagasamtaka eða einstaklinga. Ennfremur eru í 40. gr. stjórnarskrárinnar ákvæði þess efnis, að sala og/eða afnot fasteignaeigna/landsvæða í eigu ríkisins er aðeins heimil að fyrir liggi samþykki Alþingis.

Í 50.gr. skipskipulagslaga nr. 123/ 2010 eru ákvæði um eignarnám, þar sem fram kemur að sveitarstjórnir geti að uppfylltum tilteknum skilyrðum tekið eignarnámi landsvæði, fasteignir eða hluta fasteignar innan sveitarfélags ef nauðsyn ber til vegna áætlaðrar þróunar sveitarfélags samkvæmt samþykktu/staðfestu  aðalskipulagi.

Samkvæmt 51. gr.skipulagslaga nr. 13/2010 um bætur vegna skipulags og yfirtöku eigna og 12. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms kemur fram  efnislega að ef hluti fasteignar er tekin eignarnámi, og að það orsakar að sá hluti fasteignar sem eftir er,   verði  vart nýtanlegur, geti eignarnámsþoli krafist þess að eignarnámið taki til eignarinnar allrar,  og að fullt verð sé greitt fyrir. Miðað við þessi lagaákvæði, orkar það tvímælis að leggja Reykjavíkurflugvöll niður í bútum eða sneiðum,  þannig að hann verði smám saman ónothæfur.

Framangreind ákvæði eiga hinsvegar ekki við, þegar um er að ræða lönd og/eða fasteignir í eigu ríkisins, en í slíkum tilfellum þarf samþykki Alþingis, sbr. 40. grein Stjórnarskrárinnar, en hún er rétthærri en almenn lög. Eða með öðrum orðum, sveitarfélag getur ekki tekið lönd og/eða fasteignir ríkisins eignarnámi.

Fasteignir og starfsemi á Reykjavíkurflugvelli

Heildarstærð flugvallarsvæðisins er 128 hektarar og þar af á ríkið 62 ha og borgin 66 ha. Á svæðinu eru ný endurbyggðar flugbrautir, flugvélaakstursbrautir, flughlöð, akstursvegir, bílastæði og infrastruktur af ýmsum toga. Ennfremur eru þar hús og fasteignir sem tengjast flugstarfseminni, en þar er   engin íbúðarbyggð. Fyrirtækin sem eiga fasteignirnar  eru margvísleg og flest í fullum rekstri, þannig að þurfi þau að víkja, verður um tímabundna eða endanlega rekstrarstöðvun að ræða, sem er bótaskylt.

Á svæðinu er ýmis starfsemi eins og: Flugstjórnarmiðstöð, flugstöð, flugturn, flugskóli, slökkvistöð, Landhelgisgæsla, sjúkraflug, þyrluflug, vélaverkstæði, flugafgreiðslur, hótel, flugskýli, skrifstofur, aðstaða fyrir einkaflugmenn, geymsluhús, eldsneytisgeymslur, sandgeymsla, ratsjár- og tækjahús,

Niðurstaða

Verði ákvörðun tekin um að leggja flugvöllinn niður, tekur við áralangt flókið og kostnaðarsamt ferli eignarnáms, niðurrifs mannvirkja og fasteigna og mjög   hægfara uppbygging. Ástæðan er sú að lóðir á svæðinu verða með þeim dýrustu í landinu, þannig að það verður einungis á færi efnameiri aðila að byggja þar s.s. fjármálastofnana og stærri fyrirtækja. Í þessu sambandi er vert að benda á að dýpi niður á fast er óvíða meira en á þessu svæði.  Venjulegt fólk mun ekki hafa efni á að reisa eða kaupa þar íbúðarhús, þannig að húsnæðisvandinn sem við er að etja, verður ekki leystur þar. Hætt er við að svæðið verði um langt árabil í uppbyggingu, með þeim óþægindum sem fylgja óbyggðum svæðum í og við þéttbýli.

Reykjavík maí 2014 STH

****

Efst í færslunni er mynd þar sem búið er að merkja flugvelli valinna borga í Evrópu inn á kort af Reykjavík. Vegalengd vallanna frá borgarmiðju ræður staðsetningu á myndinni. Myndin er fengin af Facebook og er gerð af Reyni Frey Péturssyni.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (26)

 • Það kostar 111.600 kr fyrir fjögurra manna fjölskyldu að fljúga á morgun til Egilsstaða og til baka daginn eftir. Er þetta grín? Hver er að borga svona tölur?

  Reykjavíkurflugöllur er rekinn með tapi ár eftir ár. Allt í rugli.

  Erlendir ferðamenn eru svo til ekkert að nota innanladsflugið. Af hverju er það?

  Það er glórulaust að íbúar, gestir Miðborgarinnar (vinsælasta svæði landsins), Háskóli Íslands og fl. þurfi að lifa/búa/starfa með flugvélar og hávaðann sem þeim fylgir frá morgni til kvölds.

  Hafa menningar og mannlífsandstæðingar skoðað af hverju hinar Norðurlandaþjóðirnar sem og aðrar borgir í Evrópu hafa sameinað sitt innan og utanlandsflug á undanförnum áratugum?

  Hversu mikil lyftistöng væri lest frá Rvk til Kef fyrir ekki bara Leifsstöð heldur öll suðurnesin?

  Og margt fl.

  Þetta snýst ekki um rómantík og/eða flugklúbba þar sem gaman er að hittast og skála. Reykjavíkurflugvöllur er barn síns tíma og að loka honum fyrir betri hluti 100% rétt ákvörðun fyrir borgarbúa.

 • Halldór Guðmundsson

  Þetta er ótrúleg umræða sem hefur verið um flugvöllinn í Reykjavík og miklar skotgrafir sem fólk er búið að koma sér fyrir í. Þetta stríð um staðsetningu flugvallarins er búið að standa yfir í áratugi og orðið til þess að enga heildræna lausn hefur verið hægt að finna. Flestar byggingar er lúta að rekstri flugstarfseminnar eru úr sér gengnar og ekki verið hægt að finna þeim nýjar staðsetningar og erfitt að fá að halda þeim við vegna skipulagsvandamála, á sama tíma eru flestir hrærðir yfir hinni miklu flugstarfsemi sem er hér á landi og stoltir af öllu því sem þar er að gerast, en grasrót þessarar starfsemi er að finna á Reykjavíkurflugvelli og alls ekki víst að þetta gróskumikla grasrótar- og flugrekstrarstarf væri hér í gangi nema vegna nálægðar flugvallarins við þéttbýlið.
  Bröltið með skipulagsmál á Reykjavíkurflugvelli hafa orðið til þess ekkert almennlegt skipulag er til fyrir flugvöllinn , sem hefur orðið til að byggingar detta niður á hina ýmsu staði eins og t.d. Háskóli Reykjavíkur sem er byggður á einum veðursælasta blett í borginni með hundruði bílastæða, eitt mesta skipulagsslys sem gerst hefur. Hef þá trú að ef flugvöllurinn færi og eftir stæði öll Vatnsmýrin til uppbyggingar þá myndum við klúðra þeirra uppbygging alvarlega. Sú fallega mynd sem að dregin er upp af framtíð Vatnsmýrarinnar myndi enda í svona málum eins og Háskólinn, að það dyttu niður allskyns byggingar allt eftir þörfum þeirra stjórnmálamann sem réðu í hvert skiptið og úr yrði ósamstæð byggð, ekkert í líkingu við það sem væntingar þeirra sem vilja flugvöllinn burtu.
  Flugvöllurinn á að getað þróast áfram í Vatnsmýrinni , það á að vera hægt að vinna þannig að málum að þessi mikilvæga starfsemi verði þarna áfram okkur öllum til góðs. Hann er mikilvægur fyrir Reykjavíkurborg, mikilvægur fyrir landsbyggðina hann er hagkvæmur kostur og það tal um að þetta sé besta leiðin til að þétta byggð er ég ekki sammála. Það eru ýmsir aðrir kostir.

 • Gísli Tryggvason

  Mér sýnist þú Hilmar fyrst og fremst reyna að fremsta megni að finna rök til að viðhalda flugvelli í Vatnsmýri. Ásamt fleirum, þmt arkitektum. Skoðanirnar byggjast á því að þið viljið flugvöllinn, og finnið svo réttlætingu fyrir því. Ekkert að því. En spyrjið fyrst um notagildi. Fyrir hverja á flugvöllur að vera í Vatnsmýri? Og í raun hversu margir innlendir notendur eru það, því gefa má sér að erlendir notendur vildu allt eins hafa innanlandsflugvöll í Keflavík fyrir tengimöguleikana.
  Innanlandsflug. Hinn dæmigerði Íslendingur ferðast ekki innanlands með flugi. Hann gerir það jú þegar hann er í vinnunni en ekki í einkaerindum. Því flugið er alltof dýrt. Vegna ákveðinna neyðartilvika (jarðarfarir oþh) gæti hann farið í flug, en þá aðeins til staða lengst frá Reykjavík. Ætli skipti þá máli hvort flugið er frá KEF eða Vatnsmýri eða Hólmsheiði ? Varla.
  Kennslu- og einkaflug. Það er ekki verjandi að vera með kennsluflug yfir þéttri byggð. Það hljóta allir að sjá. Og þar sem auk vantar fleiri atvinnutækifæri alls staðar á landsbyggðinni, hvers vegna eru ekki flugskólar löngu farnir annað en að vera í Vatnsmýri? Sama með einkaflugið og sérstaklega mjög háværar einkaþotur. Algjörlega óþolandi fyrir íbúa við flugvöllinn að hafa slíkan hávaða yfir sér.
  Sjúkraflug. Kannski að það séu rök að það þurfi að vera í Vatnsmýri nálægt spítala. En það yfirleitt ekki þannig annars staðar. En segjum sem svo að það þurfi að vera þarna v/ neyðaraðstaðna. Þá er ljóst að Vatnsmýrarflugvöllur getur verið miklu minni og án truflana fyrir íbúana.
  En þetta snýst ekkert um það. Þetta snýst um einkaflug og gamla rómantík flugáhugafólks. Að halda þessum flugvelli þarna, alveg sama hvað. Berjast gegn þróuninni vegna gamalla drauma. Svona eins og manni finnst að allir vöruflutningar og skipaferðir væru í gegnum höfnina í miðborg Reykjavíkur. Þannig er það ekki í dag, vegna þeirrar þróunar sem orðið hefur.

  • Hilmar Þór

   Þakka þér innleggið Gísli Tryggvason.

   Ég held að þú ættir að lesa athugasemd Ingvars Tryggvason hér að ofan. Þar er farið inná ýmis mál sem þú nefnir með góðum rökum og tilvitnunum í traustar heimildir.

   Varðandi fullyrðingar um að þessi skrif séu sprottin undan leit að rökum fyrir fyrirfram myndaðri skoðun eða draumum er algerlega úr lausu lofti gripin.

   Ég get uppýst hér og nú að helst mundi ég vilja að flugvöllurinn væri ekki þarna og í staðin væri stórt útivistarsvæði með friðlandi fyrir fugla og þess háttar.

   Þetta er svoldið svipað og að óska þess að maður ætti eittvað sem maður hefur ekki efni á eða þörf fyrir. T.a.m. Ferrari sportbíl.

   Ég tekl að við höfum ekki efni á að leggja flugvöllinn í Vatnsmýri niður og þaðan af síður peninga til þess að byggja nýjan. Mér sýnist líka að Keflavíkurflugvöllur geti ekki komið í stað Reykjavíkurflugvallar ef marka má pistil Ólafs Þórðarsonar í næstu færslu.

   Og ég held að það sé ekki eins mikil þörf fyrir landið og í veðri er látið vaka.

  • Gísli Tryggvason

   Ekkert að þakka Hilmar. Um að gera að ræða þetta mál án upphrópana. Nú ég skoðaði innlegg Ingvars og þá sérstaklega skýrsluna frá 2006 sem hann nefnir. Helstu niðurstöður eru þessar (nefndar í fyrstu línu) :

   „Hlutfallslega flestir flugfarþega eru karlmenn á miðjum aldri (35 – 50 ára) sem eru að fljúga til Reykjavíkur vegna vinnu eða viðskipta og er tæplega helmingur ferða greiddur af einkafyrirtækjum og opinberum aðilum.“

   Það hef ég líka séð þegar ég hef ferðast með FÍ vegna minnar vinnu um landið. Síðan jú þarf fólk oft að skjótast í einkaerindum, og þá sérstaklega þingmenn og sveitarstjórnarmenn.
   En meðan ég skrifa þetta, þá datt mér í hug að tékka á flugi til Akureyrar en FÍ flýgur þangað margar ferðir á dag. Setti næstu helgi, hvítasunnuhelgina. Ódýrasta ferðin kostar tæpar 50 þús kr fyrir tvo. Og þá á eftir að leigja bíl. Bara flugið yrði dýrara en að keyra á mínum jeppa. Bílferðin tæki ca. 4 tíma á móti rúmri einni klst með flugi, þmt tímanum fyrir flug. Eins og sjá má, þá er innanlandsflugið ekki samkeppnisfært. Fyrir utan að FÍ er að flúgja til Grænlands og Færeyja, en það á eðlilega heima í KEF.

   Ég hef heldur ekki neina harða afstöðu með flugi í Vatnsmýri, nema einka- og kennsluflugi. Ég þykist vita eins og þú líka að alls ekki yrði byggður flugvöllur þarna, ef svæðið væri laust. Ekki heldur aðeins íbúðarbyggð. Líklega sambland af ýmsu, ekki ósvipað og Laugardalurinn er. En athugaðu líka að þetta snýst alls ekki bara um Vatnsmýrina. Þetta snýst um svæðið þar sem aðflugslínur eru. Kópavog, miðbæ Reykjavíkur og Fossvog. Vegna flugvallarins er ekki hægt að byggja blokkir (4 hæða) á þessum stöðum, undir aðflugsstefnu. Vatnsmýrarlandið er auk þess það verðmætt að ekki er forsvaranlegt fyrir höfuðborgarsvæði að líta ekki til þess þegar um framtíðarbyggingarland er að ræða. Þeas eftir ca. 10-20 ár.

   Mín skoðun er sú að flugvöllur í Vatnsmýri er barn síns tíma. Innanlandsflugið er ekki eins aðkallandi og var fyrir ca. 50 árum, þegar allir firðir landsins voru með flugvelli. Nú eru aðeins fáeinir flugvellir í almennri notkun (ekki einkaflug). M.a. er frábær flugvöllur í Aðaldal (Þingeyjars.) með góðri flugstöð, en er ekkert notað.

 • Daginn áður en þetta kort var búið til af Reyni Péturssyni, ágætum þyrluflugmanni, birti ég þetta kort mitt af flugvöllum á Austurströnd Norður Ameríku, http://veffari.blogspot.com/2014/05/hva-er-langt-flugvelli-i-helstu.html
  með smá úttekt á fjarlægð flugvalla, það átti reyndar að vera það fyrsta af fjórum svona kortum sem ég gerði.

  Kort #2 með Evrópska flugvelli sem ég birti viku seinna http://veffari.blogspot.com/2014/05/hva-er-langt-flugvelli-i-helstu_11.html
  Benda má á að svona fjarlægðir upp á 40km (loftlínur) eru yfirleitt hluti af lestarkerfi landa sem gera aðkomu auðveldari þó (óþarflega) langt sé að fara.

  Fjarlægðin úr miðbæjarklasa höfuðborgarinnar til Leifsstöðvar er einfaldlega með því mesta sem gerist í heiminum.

  • Ólafur er að bera saman baunir og appelsínur, Við höfum aldrei getað gert eigin flugvöll og því ekki ráðið staðsetningu hans. Við eru smáþjóð á kúpunni og getum ekki rekið flugvelli samhliða góðu vegakerfi. Gott vegakerfi er framtíðin því í raun er stutt í allar áttir með því og flestir geta notað það að vild og þegar þeim hentar.

 • Ég átta mig ekki alveg á röksemdafærslu Sigurðar Thoroddsen varðandi það sem hann kallar „hugmyndir Borgarstjórnar Reykjavíkur um að yfirtaka land Reykjavíkurflugvallar, svæði sem er fullbyggt og í notkun, og bjóða það öðrum til afnota fyrir íbúðarbyggð og stofnanir. Með öðrum orðum, að taka eignir af einum og afhenda öðrum.“

  Það er algengt að land sem tilheyrir öðrum en viðkomandi sveitarfélagi sé lagt undir byggingar að samþykktu skipulagi. Ætli meirihluti Kópavogs sé ekki byggður þannig (ágiskun mín). Í Reykjavík hafa verktakar líka keypt upp lóðir og byggingar til niðurrifs og enduruppbyggingar. Þetta stendur til að gera í ríkum mæli með þéttingu byggðar samkvæmt gildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010 – 2030. Borgin getur þurft að hafa milligöngu í lóðarmálum, eins og hún hefur oft gert, og notað til þess lóðir sem hún á eða tekið land eignarnámi að lögum.

  Hitt held ég sé rétt hjá STH að byggingarlandið í Vatnsmýrinni verður dýrt. Það verður líka að reikna með að húsnæði á þéttingarsvæðum um alla borg verði dýrt ekki bara vegna uppkaupa heldur líka vegna þess að það er dýrara að byggja í hverfum sem þegar eru byggð. Fólk í nágrenni Lýsisreitsins hefur kvartað hástöfum og þetta verður nánast viðvarandi vandamál á Landspítalalóðinni í áratugi.

  Veigamest ástæðan til að flýta sér ekki um of með byggingar í Vatnsmýrinni tengjast þó loftlagsbreytingum. Byggingarlandið er allt á landsvæði sem stendur svo lágt að það kann að verða ónothæft þegar líður fram á öldina nema með mjög viðamiklum viðbótarframkvæmdum til að hækka það eða verja á annan máta.

 • Enn eruð þið að rífast yfir frágengnu máli. Varðandi eignarhaldið hefur alltaf verið haldið fram Rvk eigi 60% og ríkið 40% og við í Rvk erum 33% af mannfjölda hér þannig að við eigum 15% af þessum 40% þannig að RVK á 75% af landi vallarins. Ef við hugum að sífækkandi farþegafjölda og hruni Vestfjarða ( búnir að missa þingmann ) þá má ætla að sá leggur leggist af bráðlega. Þá ber þess að geta að útgerð flugvalla er mjög kostnaðarsöm og í raun okkur ofviða og RVK völlur er dýrastur. Komið er að kosnaðarsömum endurnýjunum og varla stætt á að fara í þær. Hugsum fram í tímann og hugum að því að senn koma hraðfleygari vélar sem munu stytta flugtíma ef þá flug mun ekki leggjast af vegna kostnaðar.

  • Er einhvar að rífast?
   Menn eru að ræða málið og upplýsahvorn annan um það.
   Og er þetta frágengið mál?
   Nei, vegna gríðarlegrar óvissu um eignarhald og margt fleira, þá er þetta fjarri því að vera frágengð.

 • Ingvar Tryggvason

  Hafðu þakkir Hilmar fyrir þennan vandaða og rökfasta pistil.

  Umræðan um Reykjavíkurflugvöll hefur verið eldfim síðustu misseri og kallar gjarnan fram verstu hliðar Íslenskrar þjóðfélagsumræðu. Skoðanakúgun og orðhengilshátt að ógleymdri Ad Hominem aðferðinni.
  Mig langar að rekja nokkrar staðreyndir um þetta eldfima málefni.

  Það er vinsæl upphrópun að innanlandsflugi sé haldið uppi af opinberum starfsmönnum. Þetta var kannað árið 2006 fyrir samgönguráð og í ljós kom að opinberir starfsmenn telja 11% farþega. Flestir svarenda eða 49% fljúga á eigin vegum og 40% á vegum einkafyrirtækis. Á vegum ríkisins fljúga 6% og svo 5% á vegum sveitarfélaga. (mynd 13) Þannig að 89% fargjalda eru greidd af einkaaðilum.
  http://www.vegagerdin.is/vefur2.nsf/Files/2006_konn_far_flug/$file/Far%C3%BEegar%20innanlandsflug%202006_L2_.pdf

  Hagrfæðideild Oxford háskóla rannsakaði árið 2012 efnahagsleg áhrif flugrekstrar á samfélagið. Niðurstöðurnar komu mörgum á óvart. Efnahagslegur ábati af flugrekstri á Íslandi gríðarmikill. Atvinnugreinin skapar alls 20.600 störf og þjóðhagsleg áhrif á verga landsframleiðslu eru kringum 12,9% Það er margfalt hærra hlutfall en í nágranalöndunum. Einnig skiptir máli að framleiðni er mikil í störfum tengdum flugrekstri. Þannig er árleg verðmætasköpun hvers starfsmanns 16 milljónir króna, en það er 74% meira en meðalstarf á Íslandi. Þetta er það sem er að gerast m.a. á Reykjavíkurflugvelli. Það er engum blöðum um það að fletta að flugrekstur er einn af undirstöðu atvinnuvegum þjóðarinnar.
  http://www.innanrikisraduneyti.is/frettir/nr/27962

  Í skýrslu samráðsnefndar samgönguráðuneytisins og Reykjavíkurborgar frá árinu 2007 segir á bls. 23 að innanlandsflug verði ekki flutt til Keflavíkurflugvallar öðruvísi en að varaflugvöllur verði byggður á suðvesturlandi. Það vekur mann óneitanlega til umhugsunar. Hvaða 300.000 manna þjóð getur leyft sér þá ráðstöfun, að rífa stráheilan flugvöll, til þess eins að byggja nýjan á öðrum stað? Milljónaþjóðir hafa leyft sér slíkt. Bankahrunið 2008 ætti að hafa kennt okkur að sníða okkur stakk eftir vexti.
  http://www.innanrikisraduneyti.is/media/rvkflugvollur-skyrslur/Flugvollur_uttekt.pdf

  Í dag fer allur viðskiptaafgangur íslands í vexti. 300 þúsund manna þjóð sem þarf að endurfjármagna 2.700 milljarða, hefur ekki efni á því að rífa stráheilan flugvöll, til þess eins að byggja nýjan á öðrum stað. Þjóðin þarf að einbeita sér að raunverulegri verðmætasköpun, eins og fer fram t.d. á Reykjavíkurflugvelli.
  http://www.vi.is/um-vi/frettir/nr/1672/

  Ég skil mæta vel að fólk sjái ofsjónum yfir því hvað Reykjavíkurflugvöllur tekur mikið pláss. En það er nú oftast eðli samgöngumannvirkja. Reykjavíkurflugvöllur var upphaflega hannaður sem herflugvöllur, þar sem byggingum var dreift um í hernaðarlegum tilgangi. Vegna þeirrar tilvistarkreppu sem hann hefur alla tíð verið er ásýnd og ástand bygginganna eins og raun ber vitni. Þar er fyrst og fremst um að kenna langvarandi óvissu um framtíð vallarins. Þetta er í raun byggðin sem þarf að þétta í Reykjavík, byggðin á Reykjavíkurflugvelli sem er dreifð allt um kring.

  Hovedbanegården í Kaupmannahöfn er frekur á umhverfi sitt. Í löndum Evrópu eru járnbrautir burðarásinn í almenningssamgöngum. Í USA er þessu öfugt farið, burðarásinn er innanlandsflug þó svo að járnbrautir séu víðast hvar til staðar. Innanlandsflug er sannarlega stundað í Danmörku, en burðarás innanlandssamgangna í Danmörku eru járnbrautir og gegnir Hovedbanegården í miðborg Kaupmannahafnar þar lykilhlutverki. Hvernig ætli Reykjavík liti út ef járnbrautir hefðu náð fótfestu á Íslandi?

  Það er sagt að tilgangurinn helgi meðalið. Nú hefur opinber gjaldheimta á Reykjavíkurflugvelli þrefaldast á fjórum árum. Er það vænleg leið til atvinnuuppbyggingar á Íslandi að stjórnsýslan kæfi með gjaldheimtu, starfssemina sem hún á að þjóna?

  Bestu kveðjur

 • Bjarni Kjartansson

  Ríkið á ekki landið sem þeir telja sig eiga, þar sem landið var tekið herskildi og því enn í raun eign afkomenda þeirra sem landið var tekið af á sínum tíma, alveg eins og var með lendur sem Þjóðverjar tóku af öðrum dönskum þegnum á tíma stríðsins. Þessu hefur öllu verið skilað í Danmörku og því ætti það sama að gerast hér, annað væri stílbrot.

  Því er sífur um, að ríkið eigi landið sem Bretar ,,afhentu\“ okkur eftir stríðið, rökleysa og þvaður, enda benti Bjarni Ben heitinn á það og taldi allsekki við hæfi, að ríkið tæki við vellinum.

  • „Læk“
   Á grein Sigurðar og einkum athugasemd Bjarna Kjartanssonar!

 • Hefir engum að þessum flugvallar sinnum dottið ði huga að flytja tjörnina en það að flytja flugvöllinn er álíka gáfulegt. Flugvöllurinn er okkar sál og yndi. Hvert einasta mannsbarn á Íslandi elskar þennan flugvöll. Hann var staður sem foreldrar fóru í sunnudaga göngutúr með börnin og allir fylgdust með flugvélunum. Getur verið að þetta nýja 101 lið sé svo órómantíst að það sjái og finni ekki hvar hjarta borgarinnar er. Er þetta kannski allt hinsegin fólk.

 • stefán benediktsson

  Engar staðreyndir í þessu eru nýjar fréttir en ýmsar fullyrðingar ef til vill aðeins ýktar. Sigurður veit t.d. eins vel og aðrir arkitektar að byggð í mýri er bara úrlausnarefni en ekkert vandamál. Flestar borgir, sumar stórar, sem standa á sjávarbökkum, árbökkum eða árósum, eru byggðar í mýrum, Kringlan okkar og nágrenni er byggð á mýri, Hlíðarnar og Norðurmýrin eru byggðar í mýri. Því miður verður því að benda á það augljósa. Sigurður hefur haft ansi langan tíma til að segja okkur frá þessu öllu eða amk. frá árinu 2000, en velur þetta vor til þess. Kannski er það ekki tilviljun að hann kemur þessu á framfæri þegar Sjálfstæðismenn eru á hröðu undanhaldi í borginni. Sigurður hefur starfað lengi í Sjálfstæðisflokknum.

  • Sæmundur

   Þetta skil ég heldur ekki.

   Er Stefán að segja að málflutningur Sigurðar Toroddsen sé ekki marktækur vegna þess að hann hefur e.t.v. einhverntíma starfað fyrir Sjálfstæðisflokkinn?

   Þetta er samtal sem ég hélt að menn væru hættir að viðhafa.

   Er ekkert að marka það sem Stefán segir vegna þess að hann starfar nú fyrir Samfykinuna og hefur leng gert?

 • Torfi Hjartarson

  Hér er sko ekki töluð vitleysan! Þessi pistill ætti að vera skyldulesning fyrir borgarfulltrúa og embættismenn borgarinnar sem virðast viljalaus verkfæri óreyndra borgarfulltrúa en ekki leiðbeinendur við embættisfærslu. Á þessum dýrustu lóðum borgarinnar ætlar svo meirihlutinn í borgarstjórn að byggja eða skipuleggja ódýrustu leiguíbúðir borgarinnar. Hjálpi mér Kafka!

 • Sæmundur

  Ég skil ekki Þór og Pétur.

  Eða ætla þeir að halda því fram að lóðir í Vatnsmýri verði ódýrari en til dæmis á Völlum í Hafnarfirði?

  Og hinsvegar að flugvöllurinn sé ekki sameign þjóðarinnar!

  Hver á flugvöllinn ef það er ekki þjóðin?
  Ég spyr Pétur um þjóðvegina: Hver á þá?

  Er það ekki þjóðin?

  Og svo í lokin, svo tekð sé upp frumstætt tungutak Péturs: Er ekki allt í lagi hjá þér?

 • Reykjavíkurflugvöllur er sameign þjóðarinnar!

  Er ekki allt í lagi hjá manninum?

  Innanlandsflugvöllur getur hugsanlega talist sameign þjóðar (þó ég sé ekki sammála því) en að ÞESSI tiltekni flugvöllur (eða einhver annar tiltekinn flugvöllur) teljist sameign er hreint út sagt skrítið sjónarmið.

 • Reykjavík mun aldrei fá neitt út úr þessu landi hvort sem er vegna þess að t.d.
  a) ef til sölu landsins kemur fær ríkið 51,5% af söluandvirðinu sem fæst fyrir landið.
  b) ríkið á þarna fullbúinn flugvöll af hverju að láta hann af hendi yfirleitt?
  c) borgin verður þá að nota 48,5% af söluandvirðinu til að: 1) rífa allar byggingar og gera landið klárt til annar notkunar, 2) kosta annan flugvöll í stað þess sem tekin var (samningsstaða borgarinnar er enginn hvað þetta varðar) (sjá b lið).
  d) borginn getur ekki tekið landið eignarnámi þar sem eignarnámsheimild fæst hjá ráðherra sem aldrei mun gefa út heimild til slíks.
  e) kostnaður við götur, lagnakerfi, vatnsvernd á tjörninni, fuglavernd, önnur ný samgöngumannvirki, o.s.fv. mun verða alveg gríðarlegur t.d. vegna þess að þetta er í vestuhluta borgarinnar og allir aðdrættir og förgun á jarðvinnuefni er óheyrilegur fyrir utan það að gatnakerfið þolir ekki þá viðbótaráraun. Og hvað með álag á byggingartíma (td. þungafluttningar)

  Niðurstaðn er sú að allar tekur borgarinnar af því að komast yfir landið og gera það byggingarhæft hverfa aftur í þessa hýt og þess vegna er þetta óskynsamleg meðferð peninga.

  • Sneri þessu víst við borgin á 51,5% og ríkið 48,5% en það breytir ekki stóru myndinni í því sem sagt er hér að ofan…

 • Þór Saari

  Enn ein veikburða áróðurstilraun til að afvegaleiða umræðuna um þennan blessaða flugvöll. Staðreyndin er sú að innanlandsflugið er barn síns tíma og sáralítið notað og það eitt og sér réttlætir fyllilega aðra notkun á þessu landi sem er allt og þýðingarmikið fyrir framtíðarskipulag alls höfuðborgarsvæðisins til þess að örfáir flugdellukarlar fái að ráða ferðinni með það. Það yrði mikill akkur fyrir ríkið að geta losnað við þenna flugvöll og fengið einhverja peninga fyrir landið. Það liggur fyrir að völlurinn fer 2022 þannig að það er nægur tími til stefnu til að vinna að færslu hans og öll umræðan hjá ST um einhvers konar eignarnám er algerlega marklaus. „Venjulegt fólk mun ekki hafa efni á að reisa eða kaupa þar íbúðarhús,“ Hvers konar þvæla er þetta eiginlega, tómar fabúleringar út í gegn.

  • Hilmar Þór

   „Enn ein veikburða áróðurstilraun til að afvegaleiða umræðuna um þennan blessaða flugvöll. ………o.s.frv.“

   Reyndur maður í dægurmálaumræðunni á ekki að afgreiða fólk og sjónarmið þess með þessum yfirborðslega sleggjudómi.

   Hér er málsmetandi maður, ST, sem hefur hugleitt máið, að benda á atriði sem ekki hefur verið vakin atygli á áður.

   Það á að fagna því og svara með að minnstakosti jafn málefnalegu innleggi eða andsvari.

   Fólk er orðið dauðþreitt á skotgrafavinnubrögðum sem tíðkast einkumí sjórnmálum og vil kurteisa og lausnamiðaða umræðu.

   Það vill halda uppbyggjand umræðu áfram. Umræðu sem upplýsir og hjálpar fólki til þess að skilja um hvað er að ræða.

   Og, Þór Saari, 2022 er ekki langt undan í ljósi þess að öll kurl eru enn ekki komin til grafar og margt óljóst eins og dmin sanna.

   Hinsvegar ef öll málin væru leyst og þokkaleg sátt væri um þá leið sem ákveðið er feta þá getur hugsast að 8 ár væri nægur tími. (þó ég efist um það)

   Að lokum; ekki slá með þessum hætti á hendi þeirra sem láta sig málin varða og segja sína skoðun.

  • Jón Vilberg

   Nákvæmlega Þór Sari, hvers konar þvæla er þetta?
   „Staðreyndin er sú að innanlandsflugið er barn síns tíma og sáralítið notað“
   – Hvernig færðu þú það út að innanlandsflugið sé barns síns tíma?
   – og fullyrðing um að það sé sáralítið notað er náttúrulega bara bull.

   „hvers konar þvæla er þetta eiginlega, tómar fabúleringar út í gegn“?
   – merkilegt að tala um fabúleringar m.v. þau rök sem þú kemur með. Greinin byggir a.m.k á einhverjum forsendum,ekki upphrópunum.

 • Hilmar Þór

  Aðalskipulag Reykjavíkur er metnaðarfullt og framsækið.

  Það fetar slóð til betri Reykjavíkurborgar og því ber að fagna.

  Hinsvegar eru nokkur mál vanreifuð í AR-2010-2030 og ekki nægjanlega þroskuð til þess að setja í svo merkilegt skjal sem aðalskipulag er.

  Ég nefni flugöllinn i Vatnsmýri

  Eins og Sigurður bendir á eru allt of margir lausir endar í skipulagsáætluninni til þess að hægt sé að setja í aðalskipulag. Það má ekki gleyma því að Reykjavíkurflugvöllur er hluti af mikilvægum stoðkerfum borgarinnar. Það er ekki góð stjórnsýsla að taka hluta af stoðkerfi borgarinnar og leggja það niður án þess að búið sé að finna hvað kemur í staðinn. Svo eru það praktískir hlutir eins ag lagaumhverfið sem hér er til umræðu.

  Skipulagsmálin hafa gengið að mestu ágætlega í Reykjavík undanfarin ár.

  En á því eru auðvitað undantekningar.

  Ég nefni eina.

  Það er deiliskipulag Landspítalans sem er í mínum augum svakalegt. Byggingin neðst á Frakkastíg og kosningamálið á Landsímareit eru smámál í samanburði við Landspítaladeiliskipulagið.

  Forsendur þess eru að hluta brostnar með nýju Aðalskipualagi Reykjavíkur.

  Deiliskipulag Landspítalans verður að endurskoða sem fyrst og flugvöllurinn verður að vera áfram í Vatnsmýrinni að minnstakosti þar til búið er að leysa samgöngur við höfuðborgina í lofti til framtíðar á öðrum stað eða með öðrum hætti svo sátt sé um.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og sjö? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn