Fimmtudagur 23.02.2012 - 00:12 - 4 ummæli

Samkeppnir fyrr og síðar – Sýning.

 

Næstkomandi laugardag þann 25. febrúar opnar sýning í Norræna Húsinu um arkitektasamkeppnir fyrr og síðar.      

Tilgangur sýningarinnar er að vekja athygli á þeim tækifærum og gagnsemi sem felst í því að bjóða verk út í opinni samkeppni ásamt þeim nýjungum og fjölbreytileika sem þær hafa skilað.

Á sýningunni ber að líta nokkur dæmi um velheppnuð verk sem byggð hafa verið í kjölfar opinna samkeppna hér á landi.

Valin voru þrjú verk frá hverjum áratug frá því Þingvallasamkeppnin 1972 var haldin. Alls tólf verk.  Þeim til viðbótar voru einnig valin verk sem eru árangur minni samkeppna og samkeppna um skipulag. 

Ekki ber að skilja sem svo að hér sé um úrval að ræða heldur úrtak sem gefur sýningargestum hugmynd um þau tækifæri sem í opinni samkeppni felast.  Þetta eru allt glæsilegar tillögur sem hafa leitt af sér byggingar sem eru í úrvalsflokki og flestir þekkja.

Að baki hverrar tillögu í meðal arkitektasamkeppni liggja milli 500 og 600 tíma vinna. Þessa vinnu leggja arkitektarnir flestir fram endurgjaldslaust. Þetta er mikil fórn. Leiða má líkur að því að t.a.m. sú vinna sem liggur að baki 68 samkeppnistillögum um skipulag og hótel við Ingólfstorg, sem nú er í dómi, sé milli 20 og25 mannára vinna sem er nálægt því að vera heil starfsæfi.

Arkitektasamkeppni var fyrst haldin hér á landi árið 1927 fyrir réttum 85 árum. Verkefnið var Hallgrímskirkja í Reykjavík.

Frá þeim tíma  hafa verið haldnar hátt á annað hundrað opnar samkeppnir sem hafa skilað miklum og mörgum gersemum til þjóðarinnar og fært hana fram á við hvað byggingarlist varðar, stuðlað að umræðu og fært okkur tæknilegar og félagslegar framfarir. 

Sýningin verður opnuð á laugardaginn kl 16.00 eins og fyrr segir og eru allir áhugasamir boðnir velkomnir. Fyrir opnun sýningarinnar kl .14.00 verður í sal Norræna Hússins efnt til málþings  sem heitir: “ Byggingarlist og Samfélag“

Færslunni fylgja myndir af tveim sýningarspjöldum sem verða á sýningunni.

Efst er  sýningarspjald sem fjallar um 1. verðlaun í samkeppni um búnað á tjaldstæðum frá árinu 1984 sem arkitektarnir Grétar Markússon og Stefán Örn Stefánsson unnu með Einari E. Sæmundsen landslagsarkitekt og Gunnari St. Ólafssyni verkfræðingi.

Að neðan er 1. verðlaunatillaga ASK arkitekta frá árinu 2008 vegna skipulags miðbæjar Hveragerðis.

Ef tvísmellt er á myndirnar stækka þær og textinn verður læsilegur.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

  • Ég get staðfest að þessar upplýsingar koma fram í bókinni Leiðsögn um íslenska byggingarlist, sem Arkitektafélag Íslands gaf út árið 2000. Þar stendur m.a. um Austurvöll: Árið 1919 var haldin samkeppni um framtíðarskipulag Austurvallar sem þá hafði verið í niðurníðslu í nokkur ár. Samkeppnina vann Sigríður Björnsdóttir og árið 1922 var völlurinn opnaður almenningi. Stytta Thorvaldsens var flutt í Hljómskálagarðinn 1931 en stytta Einars Jónssonar, af Jóni Sigurðssyni forseta, komið fyrir í staðinn. Sex árum síðar fékk völlurinn á sig þá mynd sem hann hefur nú.

  • Hilmar Þór

    Þetta eru áhugaverðar upplýsingar hjá Jóni Guðmundssyni sem ég hef ekki heyrt áður. Ég benti Haraldi Helgasyni mesta sérfræðings þjóðarinnar í samkeppnissögunni á þetta. Hann hafði ekki heyrt þetta áður.

  • Jón Guðmundsson

    Árið 1919 var haldinn hugmyndasamkeppni um skipulag Austurvallar.
    Í dómnefnd sátu Einar Helgason garðyrkjumaður, Knud Zimsen borgarstjóri og Matthías Þórðarson fornminjavörður.
    Samkeppnin var opin öllum og bárust 17 tillögur.
    Þrenn verðlaun voru veitt 250, 150. og 100 krónur.
    Sigríður Björnsdóttir hlaut fyrstu verðlaun og er fyrirkomulag Austurvallar enn í megindráttum skv. tillögu hennar.
    L.M. Blok hlaut önnur verðlaun og George Hejnæs þau þriðju.
    Skipulag Ingólfstorgs er einnig afrakstur samkeppni frá árinu 1993 þar sem konur báru einnig sigur úr býtum.
    Ingólfstorg og Austurvöllur eru þannig afrakstur hönnunarsamkeppna sem konur sigruðu.
    Skondin tilviljun að gamli kvennaskólinn (Sigtún, Nasa) tengi saman þessi tvö meginrými bæjarins.

  • Eggert Guðm.

    Athyglisverð sýnishorn með færslunni. Annað verkið unnið á síðustu öld þar sem lipur hönd með blýant hefur valdið. Hinni er stjórnað með hjálp tölvumúsar!!!!!!!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og sex? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn