Mánudagur 20.02.2012 - 18:43 - 2 ummæli

Þingvellir – Hugmyndasamkeppni 1972

 

.

Í Morgunblaðinu  þann 13. mars 1920 var greint frá  ályktun Alþingis  um friðun og framtíð Þingvalla.

Í Morgunblaðsgreininni segir m.a orðrétt.: “Mál þetta er svo umfangsmikið, að sízt veitir af, að undirbúningur sé þegar hafinn og málið rætt. Og þetta er mál, er varðar alla þjóðina. Ekki væri það að tjóni að sem flestir, er til þekkja, gerðu tillögur um fyrirkomulag Þingvallar og mætti gjarnan efna til samkeppni um það og heita verðlaunum fyrir.”

Þetta var merkileg ályktun Alþingis, og svo virðist sem hér sé fyrst í riti minnst á samkeppni á skipulags- og byggingarsviði hér á landi. Þarna er einnig talað um friðun og framtíð svæðis. Það kemur heldur ekki á óvart að það hafi einmitt verið þjóðgarðurinn á Þingvöllum sem var fyrsta umfjöllunarefnið.

52 árum seinna, árið 1972 var efnt til hugmyndasamkeppni um framtíð, friðun og notkun Þingvallasvæðisins.

Hugmyndasamkeppnin sem boðin var út í tilefni af því að tveim árum seinna, árið 1974, var haldið veglega upp á 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar á Þingvöllum.

Þetta var vönduð samkeppni sem tók á öllum aðalatriðum, er varða þennan helga stað og á fullt erindi til okkar í dag enda eru vandamálin þau sömu og flest enn óleyst.

Keppendur skoðuðu Þingvelli í fortíð, nútíð og framtíð. Fjallað var um söguna, náttúruna, nýtingu og uppbyggingu til framtíðar.

Það er rétt að minna á þessa samkeppni fyrir margra hluta sakir.  Í fyrsta lagi eru Þingvellir í deiglu og umræða um framtíð svæðisins að hefjast enn á ný eins og með ályktun Alþingis fyrir 92 árum.

Í öðru lagi eru úrlausnarefnin eru að mestu þau sömu í dag og fyrr, sagan og náttúran er sú sama.

Það er afarfróðlegt og skemmtilegt að kynna sér þær hugmyndir sem fram komu í samkeppninni.

Í tilefni af því að um þessar mundir eru liðin rétt 40 ár síðan umrædd samkeppni var haldin verður opnuð sýning á verðlaunatillögunum í Norræna Húsinu n.k. laugardag kl. 16.00 og eru allir sem áhuga hafa á Þingvöllum og nágrenni velkomnir á sýninguna.

 

Í Dómnefnd hugmyndasamkeppninnar 1972 sátu:

Eysteinn Jónsson fyrrv. ráðherra formaður, Gunnlaugur Halldórsson arkitekt, Haukur Viktorsson arkitekt, Þór Magnússon fyrrv. þjóðminjavörður, Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur, Valdimar Kristinsson  cand. oecon.

Höfundar verðlaunatillagnanna voru:

1. verðlaun

Bjarki Zophaníasson arkitekt, Ásmundur Jakobsson og Vikar Pétursson.

2. verðlaun

Stefán Örn Stefánsson stud.ark, Stefán Thors stud. ark. og Einar E. Sæmundssen garðarkitekt ásamt teiknistofunni Höfða

3. verðlaun

Einar Þorsteinn Ásgeirsson arkitekt, Ingimundur Sveinsson arkitekt, Jón Eiríksson stud. scient og Jón Stefánsson verkfræðingur.

Efst í færslunni er mynd frá leiðangri Gaimard til Íslands 1834 og sýnir Almannagjá til norðurs.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Jón Karlsson

    Á Þingvöllum þarf að vanda sig. Gaman verður að sjá samkeppnistillögurnar og hvort viðhorf til svæðisins hafi breyst á síðastliðnum 40 árum

  • Skemmtilegt upphaf samkeppnissögunnar. Það verður spennandi að skoða þessar tillögur. Dómnefnd var skipuð sterkum einstaklingum og verðlaunahafar hafa sannað sig á áratugunum sem liðnir eru síðan.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn