Miðvikudagur 16.06.2010 - 10:29 - 13 ummæli

Skipulagsmál nýja meirihlutans

n57343944712_8584[1]

Í samstarfsyfirlýsingu meirihluta Besta flokksins og Samfylkingar í Reykjavík er sérstakur kafli um skipulags- og samgöngumál. Þar kennir margra grasa sem eru áhugaverð fyrir þá sem hugsa um þessi mál.

Áhersla á að aukna samvinnu sveitarfélagana á höfuðborgarsvæðinu í skipulagsmálum vekja athygli mína.

Það hefur verið sýnt fram á það í merkum fræðilegum ritgerðum að allt svæðið frá Borgarnesi, austur að Árborg og suður í Reykjanesbæ er eitt atvinnusvæði þó það sé ekki skilgreint sem slíkt í skipulagi suðvesturhornsins.

Þá er ánægjulegt að sjá að stefnt er að verndun byggðamynsturs í miðborginni og ekki síður verndun strandarinnar.

Hér á eftir eru teknir saman og birtir orðrétt allflestir punktar samstarfsyfirlýsingarinnar sem fjalla um skipulagsmál:

  • Svæðiskipulagsráð eða annar sameiginlegur vettvangur sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins hafi vald til að móta og stýra stefnu á sviði landnotkunar, byggðaþróunar, samgangna- og umhverfismála.

 

  • Reykjavík eigi frumkvæði að því að unnið verði nýtt svæðisskipulag sem nái frá Reykjanesi í vestri, Árborgarsvæðinu í austri og Borgarnesi í norðri, og að til verði sameiginleg sýn á umhverfis-, atvinnu- og húsnæðismál á öllu svæðinu.

 

  • Réttur íbúanna á að vera skýr og öllum skiljanlegur. Þeim á að bjóðast ókeypis mat hlutlausra sérfræðinga á byggingarmagni, hæðum, nýtingarhlutfalli, skuggavarpi og umferðarspám. Málsmeðferð í skipulags- og byggingamálum verði einfölduð og þjónustumiðuð.

 

  • Hugað verði sérstaklega að sameiginlegum borgarrýmum, svo sem Hlemmi, Ingólfstorgi, Lækjartorgi, Óðinstorgi, Vitatorgi, Spönginni, Árbæjartorgi og fleiri.

 

  • Með betra borgarskipulagi, blöndun byggðar, styttingu á vegalengd milli heimila og vinnu, betri almenningssamgöngum og bættri aðstöðu fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur verði dregið úr þörfinni fyrir sífellt stærri og dýrari umferðarmannvirki.

 

  • Færri mislæg gatnamót, fleiri einlæg gatnamót!

 

  • Hjólandi og gangandi njóti forgangs í umferðinni. Götur verði gerðar fallegri. Hjólreiðaáætlun verði unnin fyrir höfuðborgarsvæðið og hrint í framkvæmd í Reykjavík.

 

  • Auka skal ferðatíðni og bæta leiðakerfi strætós. Tryggt verði að strætó gangi alla daga ársins. Strætó fái forgang á stofnleiðum og leiðakerfið taki mið af því að börn komist milli heimila sinna og frístundastarfs.

 

  • Lögð verði áhersla á endurnýjun úr sér genginna iðnaðar- og verslunarsvæða og þéttingu byggðar. Áhersla verði lögð á endurskipulagningu Elliðavogs- og Höfðasvæðis. Skipulagi Mýrargötusvæðisins og Gömlu hafnarinnar verði lokið. Þegar fasteignamarkaður kemst í eðlilegt horf verði hafin uppbygging við Hlemm og á völdum svæðum í Vatnsmýri.

 

  • Við skipulag nýrra hverfa og endurnýjun gamalla hverfa verði stefnt að því að þar ríki félagslegur fjölbreytileiki. Leiguíbúðir verði minnst fimmtungur íbúða á nýjum byggðarsvæðum. Unnið verði að jöfnu aðgengi fyrir alla borgarana, innan húss sem utan.

 

  • Byggðamynstrið í miðborg Reykjavíkur verði verndað. Heildstæð húsverndaráætlun fyrir alla borgina verði hluti af nýju aðalskipulagi Reykjavíkur.

 

  • Gert verði ráð fyrir lestartengingu milli Vatnsmýrar og Keflavíkurflugvallar í nýju aðalskipulagi þar sem unnið verður að því að Vatnsmýrin byggist upp í áföngum.

 

  • Teknar verði upp viðræður um framtíð flugvallarsvæðisins í Vatnsmýri.

 

Svo er að finna allskonar og enn meira allskonar víða í yfirlýsingunni sem varða skipulagsmál.

 

  • Bílaumferð á tilteknum svæðum í miðborginni verði takmörkuð í tilraunaskyni.

 

  • Hálfbyggð skólahverfi verði kláruð. Útþensla borgarinnar verði stöðvuð.

 

  • Eigendur niðurníddra húsa í borginni verði hvattir til að koma þeim í viðunandi horf. Dagsektum verði beitt ef frestir til aðgerða eru ekki virtir.

 

  • Stutt verði við uppbyggingu þekkingar- og heilbrigðistengdra fyrirtækja með samstarfi um beina markaðssetningu á háskólasvæðunum í Vatnsmýrinni í samvinnu við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og Landspítalann. Reykjavíkurborg greiði fyrir skipulagi stúdentaíbúða og annarra innviða sem stuðla að sömu markmiðum.

 

  • Áhersla skal lögð á að vernda ströndina þar sem hún er ósnortin og græna trefilinn umhverfis höfuðborgarsvæðið.

 

  • Stuðlað verði að fjölbreytileika í framboði á húsnæði og félagslegri fjölbreytni í hverfum.

 

Samstarfsyfirlýsingin er skemmtileg lesning þegar á heildina er litið. Málfarið og flokkunin er önnur en maður á að venjast. Hana er hægt að nálgast í heild sinni hér

http://bestiflokkurinn.is/ur-starfi-flokksins/samstarfsyfirlysing-besta-flokksins-og-samfylkingarinnar

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (13)

  • Páll Kári! þú beitir mig háði. Það má hvur maður sjá að það hittir og bítur án sviða, satt að segja hló ég dátt að vel skrifuðum texta.

    Að lokum: Ég tek undir með Páli hve nauðsynleg verkleg kunnátta er hverjum hönnuði, að skynja efnið með líkamanum og undirmeðvitundinni eins og góður smiður fer fingrum um efnið eftir skurð.

    Núverandi formaður skipulagsráðs hefur líka lært handverk.

    Takk

  • Páll Kári

    „Hverjum þykir sinn fugl fagur“ er það fyrsta sem mér dettur í hug eftir að hafa lesið innlegg kristjáns hér að ofan.

    Mér þykir leiðinlegt ef hann er algjörlega niðurbrotinn á líkama og sál. Kannski ætti hann bara að fara að hanna hús í staðinn fyrir að vera að vinna í þessum bransa þar sem hann kemur skjálfandi heim til sín á hverju kvöldi. (hlýtur að vera skelfileg lífreynsla) Hlýtur þó að líða aðeins betur með ljósmyndarana á gluggunum.

    Ég þekki það vel að margir iðnaðarmenn eru hreinlega með „fordóma“ gegn hönnuðum og arkitektum. Ég get svosem skilið þetta sjónarhorn á stundum en alhæfingar eiga sjaldan rétt á sér.

    „Iðnaðarmenn eru dýrir, latir og hroðvirkir“ það er einfaldlega ekki hægt að dæma heila stétt útfrá eigin reynslu og það lýsir frekar manninum sjálfum heldur en nokkru öðru.

    Hinsvegar er ég á því að hönnuðir/arkitektar ættu að fræðast mun meira um verklega þáttinn í námi sínu, jafnvel að hluti verknáms sé „on site“. Held að það myndu að mörgu leyti bæta hönnun þeirra og þekkingu á efnum, staðháttum, verferlum osfr

  • Hilmar Þór

    Kristján.

    Þvi er einmitt þannig háttað með arkitektúr og skipulag að yfirleitt hafa allir nokkuð til málanna að leggja. Spurningin er bara hvaða forsendur liggja að baki. Allir eiga rétt á að tjá sig og skoðanir og sjónarmið eiga auðvitað að takast á í umræðunni. Þessvega eru allar skoðanir vel þegnar hér á þessum stað eins og þín nýjustu innlegg. Hér mega skoðanir takast á.

    En þáttakendur verða að skilja á milli persónunnar og sjónarmiðum hennar. Engin skoðun er sett fram af illkvittni einni og sér. Þá er það ekki skoðun heldur sleggjudómur sé hún ekki rökstudd. Það verður að sýna sjónarmiðum og verkum fólks vissa virðingu og þolinmæði…eða kannski takmarkalausa þolinmæði þó svo að rétt sé að andmæla þegar það á við.

    Ég tek undir með Ólafi Gísla, sem segir að málefnaleg umræða sé betur til þess fallin að árangur náist og að hún skili árangri.

  • Skipulag og umhverfi ytra sem innra eru hjartans mál mitt. Eins og ég sagði er ég löggildur iðnmeistari í fagi sem kemur að lokafrágangi íbúða.

    Þú getur ekki ímyndað þér hvað ég hef þurft að líða sl. 10 ár. Blokk eftir blokk hús eftir hús, vinnandi smáverk, og maður sest í bílinn að loknu verki niðurbrotinn á sál og líkama eftir að hafa þurft horfa uppá; skipulag, arkitektúr, efnisval, yfirborðsmeðferð, hurðir, snerla, stigaganga, inniljós, útiljós, elhús, herbergi, rofa, tengla, aðkomu, bílastæði og stéttar.

    Svo kemur maður kanske dauðdasaður og skjálfandi heim í húsið sitt sem alls ekki er hannað eftir arkitekt eða umhverfi þess og fer inná skipulag.is að vafra og þá, og þá kemur áfallið fyrst.
    Er von að maður grípi til stóryrða. Hverjir hanna þetta?

    Ég gafst upp 2008 niðurbrotinn á sál og líkama byggði eða endurbyggði og hannaði hús mér til sálubótar, fjöldi erlendra arkitekta hefur lokið lofsorði á hönnuninna, tveir íslenskir (sem hjálpuðu við teikningar). Húsið er eitt mest ljósmyndaða hús Reykjavíkur og endalaus þrýstingur um að taka myndir inni. Og það sem er aðalatriðið „fólki“ líkar þetta.

    Þannig er rétt ég á alls ekki heima í umræðu um skipulag eða arkitekúr, en tel mig vel heima í húsbyggingum og umhverfi.

  • Ólafur Gísli Reynisson

    Málefnaleg umræða er betri fyrir okkur öll til lengri tíma litið. Sleggjudómar, neikvæð lýsingaorð og hugsanlega óæskilegar upplýsingar (hvort sem þær eru sannar eða ekki sannar) eru settar fram til að skapa vantraust á því hvað viðkomandi gæti sagt síðar meir. Sá sem slíka árás gerir vonast til að óæskilegu upplýsingarnar muni fá lesendur upp á móti viðkomandi, til að þeir hafni öllum seinni fullyrðingum hans og gagnast umræðunni og samfélaginu ekki neitt.

  • Aðeins að auki.

    Ég er iðnmeistari og mig hefur grunað að frá árinu 2000 hafi farið í gang samsæri íslenskra arkitekta og leifa Rúmennska kommunistaflokksins. Hámarki átti samsærið að ná með hámessu í orþadoxkirkjunni á Mýrargötunni þ. 25 des. 2009 á tuttugustu ártíð þeirra heiðurshjóna Elenu og Niculai Cjasssesku.

    Það sem styrkti grun minn að ég ræddi málið við Magnús Tómasson myndhöggvara og missti hann út úr sér að ámálgað hefði verið við sig að gera líkneskju af þeim hjónum sem standa átti á hringtorginu við Ánanaust. Áttu ásjónur þeirra hjóna að vita að byggingum á Slippa/Mýrargötusvæðinu og Héðinsreit.
    Því miður setti hrunið strik í þessa áætlun. Kanske hinn nýi formaður skipulagsráðs geti gert eitthvað fyrir 25. des. 2015 á aldarfjórðungsártíðinni?

  • Hilmar, vinsamlega.

    Arkitektúr, að mínum dómi, er að skapa umhverfi sem fólki líður vel og vill vera. Arkitektúr er líka að byggja við, byggja annað hús við hliðina á öðru húsi án þess að beita fyrra húsið ofbeldi.
    Spurning1 : Er svartklædda byggingin við eða ofan á Naustinu arkitektúr í þessum skilningi?
    Spurning 2: Hvers vegna morar allt í fólki í borgarhlutum með yndislegum arkitektúr sem akrkitektar hafa hvergi komið nálægt hvað þá skipulagsfræðingar? (ördæmi Assísí).

    Kanske er naustfanturinn og Landspítalakraðakið eimmitt „arkitektúr“ fólksfæla.

  • Hilmar Þór

    Af tilefni V.F. þá langar mig að hæla meirihlutanum fyrir þessa varfærnislegu nálgun í því viðkvæm a máli sem flugvöllurinn er.

    Ég hef enga skoðun á því hvort Reykjavíkurflugvöllur eigi að vera í Vatnsmýrinni eða einhversstaðar annarsstaðar. Ég hef hinsvegar þá skoðun að flugvöllur eigi að vera á höfuðborgarsvæðinu.

    Í samstarfsyfirlýsingunni er talað um aukið samstarf milli sveitarfélaganna sex á svæðinu.

    Sennilega m.a. vegna þess að þau vita að flugsamgöngur við höfuðborgarsvæðið er ekki einkamál Reykvíkinga.

    Það er auðvitað augljóst að vinna þarf að framtíðarlausn flugsamgangna fyrir höfuðborgina og höfuðborgarsvæðið.

    Stjórnmálamenn alls höfuðborgarsvæðisins þurfa að einbeita sér að lausn. Taka þarf umræðuna, finna valkostina og kjósa svo um málið þegar einhver stefna liggur fyrir. Það er rétt að samkeppnin um árið var byggð á brauðfótum eða í skýjaborgum góðærisins.

    Við þurfum að varast slysin með fyrirbyggjandi aðgerðum.

    Svo vil ég af tilefni skrifa kristjáns hér að ofan minna á að hér er rætt um málefni og sleggjudómar um fagstéttir og einstaklinga illa séðir

  • Þetta er áhugaverð yfirferð.

    Eitt sem lesa má milli línana er að Besti og Versti gera ráð fyrir að Keflavíkurflugvöllur taki við af Reykjavíkurflugvelli til langrar framtíðar.

    Þetta sést þegar skrifað er um að byggja “á völdum stöðum í Vatnsmýri” og að efla aðstöðu þekkingar í Vatnsmýri í tengslum vuð Landsspítalann oh háskólana og að “taka upp viðræður um framtíð Vatsmýrarinnar”

    Svo stendur að gera skuli ráð fyrir lest frá Vatsmýri til Keflavíkurflugvallar í aðal- og svæðaskipulagi.

    Þarna sést að það er farið varlega og ákveðin fyrirhyggja uppi á borðum.

    Þessu var öðruvísi farið þegar samkeppnin um Vatsmýrina var haldin árið 2007.

    Hún var haldin af algeru ábyrgðaleysi þar sem flugsamgöngur höfuðborgarinnar voru látin lönd og leið. Í raun var samkeppnin bara sirkus í anda hugmyndaflugs trúða.

    Bara af þessum reginmun sést að Jón Gnarr og sennilega Hjálmar Jónsson hafa haft veruleg áhrif á Dag sem var formaður dómnefndar 2007.

  • Það aðeins eitt sem er verra en arkitekt og það er skipulagsfræðingur, saman eru þeir verri er lofthernaður-mannfall.

    Formaður skipulagsráðs er slíkur skemmdarvargur.

  • Fróðlegt og skemmtilegt væri að fá þá Pál Hjaltason og Hjálmar Sveinsson til þess að halda erindi um stefnuna í skipulagsmálum og svara spurningum.

    Hér er margt skemmtilegra hugmynda þó flestar hafi verið lengi á stefnuskrá flestra meirihluta í borginni.

    Er ekki rétt að sá Besti hafi frumkvæði að því sem allra fyrst?

  • stefán benediktsson

    Ég ek núna mjög meðvitað yfir „einlæg“ gatnamót.

  • Arkitekt skrifar

    „Málsmeðferð í skipulags- og byggingamálum verði einfölduð og þjónustumiðuð“.

    Það er léttir að lesa þetta.

    Málsmeðferð hjá skipulags- og byggingasviði hefur verið tortúr, „arkitortúr myrkrahöfðingjans“.

    Af einhvejum óskiljanlegum ástæðum og án þess að nokkur hafi óskað þess hefur þjónustan og allar afgreiðslur inni í Borgartúni verið þyngri og þyngri með árunum. Nú er botninum náð og nýr meirihluti hefur tekið eftir þessu og ætlar að gera eitthvað í málinu.

    Þökkum það

    Ég tek það fram að þessi vandi er ekki falin í skapgerð þess góða fólks sem þarna vinnur.

    Þetta er einhver kerfisgalli sem ráða þarf bót á.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og sex? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn