Fimmtudagur 04.01.2018 - 13:17 - 18 ummæli

Skipulagsráð 1978-1982 og 2010-2014

Mér eru minnistæðar tvær skipulagsnefndir í Reykjavík sem mér þótti standa sig vel. Sú fyrri var skipulagsnefnd sem var á árunum 1978-1982 undir forystu Sigurðar Harðarsonar arkitekts. Það sem einkenndi störf þeirrar nefndar var áhuginn fyrir að draga úr útþennslu borgarinnar og ná böndum á hana,  þétta byggðina,  draga úr notkun einkabíla, efla almamannasamgöngur og vernda gömul hús og staðaranda sem það hét reyndar ekki þá.

Hin skipulagsnefndin sem sem ég hef haldið mikið uppá var sú sem var undir forystu Páls Hjaltasonar arkitekts á árunum 2010-2014. Sú nefnd vann algert þrekvirki hvað varðar aðalskipulagið AR2010-2030 og ruddi úr vegi einhverju lélegasta aðalskipulagi allra tíma AR2001-2024 þar sem tilraun var gerð til að festa einkabílinn í sessi með ótal flækjum og mislægum mislægum gatnamótum.  Miklubraut í stokk og göng undir Öskjuhlíð og Digranesháls og líka undir Skólavörðuholt. Og með öllum þessum tengingum einkabíla var með þessu skipulagi Landspítalinn festur í sessi við Hringbraut með öllum þessum forsendum sem eru sem betur fer allar horfnar. Þegar maður horfir á AR2001-2024 í dag finnst manni eins og höfundarnir hafi ekki þekkt hugtakið „vistvænn“ eða „sjálfbærni“. Skipulagi var í algerri andstöðu við allar ríkjandi stefnur nánast allstaðar undangengna marga áratugi.

Manni virtist þetta vera stjórnlaust bútasaumsskipulag. Það vantaði hryggarstykkið í AR2001-2024.

Nýtt aðalskipulag, AR2010-2030 tók á útþennslunni og stuðlaði að nauðsynlegri þéttingu byggðar og lagði drög að nýrri Reykjavík sem var línuleg og vistvæn. Fólk og samgöngur var sett í fyrsta sæti, ekki einkabílar. Meginhugmynd sem kom fram í skipulaginu er hugmyndin um samgönguás eftir borginni endilangri. Þarna voru lögð drög að Borgarlínunni sem binda átti borgina saman frá Vesturbugt að Keldum. Þessi hugmynd um að byggja línulega borg opnaði mörg tækifæri sem vísuðu til hagkvæmari, skemmtilegri og vistvænni borg fyrir fólk. Það var einhver stór hugsun þarna sem miklar vonir eru bundnar við og ber að fagna.

Meðfram samgönguásnum myndaðist tækifæri til þess að skapa mjög þéttann og lifandi ás frá miðborginni og austur að Keldum, þróunnarás. Iðandi af mannlífi og með háu þjónustu og almenningssamgöngustigi. Þarna meðfram línunni voru tækifæri til þess að auka nýbyggingaheimildir verulega.  Ég nefni meðfram Laugavegi frá Hlemmi, meðfram Suðurlandsbraut, í Skeifunni með 85.000 fermetra aukningu, Vogabyggð með 400 íbúðum og 40.000 m2 atvinnuhúsnæði, Ártúnsholti þar sem er alls 115 ha þróunarsvæði samkvæmt  AR2010-2030 og svo á hinu mikla Keldnalandi sem er líklega nálægt 90 ha eða 900.000 m2.  Bara Keldur og Ártúnsholt er  talsvert stærra svæði en Vatnsmýrin svo þetta sé sett í samhengi.

AR2010-2030 tók líka á staðarandanum og borgarvernd eins og skipulagsnefndin 1978-1982 gerði. Fjallað var um þetta í síðasta pistli.

Verst þótti mér að ekki var lagt til að byggja stærsta vinnustað landsins, Landspítalann við austurenda Borgarlínunnar og þróunarássins sem þungaviktarpól á móti miðborginni og stuðla þannig að stórum góðum farþegagrunni fyrir Borgarlinuna í báðar áttir. Þarna er möguleiki að tryggja rekstrargrundvöll austur/vesturlínu Borgarlínunnar.

Í Keldnalandi má líklega byggja 1-2 milljónir fermetra atvinnuhúsnæðis sem pól á móti Miðborginni með öllum sínum atvinnutækifærim. Þetta hefði getað orðið e.k. La Defense Reykjavíkur þar sem væri Þjóðarsjúkrahúsið og læknaháskólinn með öllum sínum stoðbyggingum við annan endann og miðborgin við hinn.  Svona landnotkun mundi tryggja rekstur Borgarlínunnar nánast frá fyrsta degi með vagnana fulla í báðar áttir kvölds og morgna. En það sem borgin þarf á að halda eru fleiri atvinnutækifæri austar í borginni og fleiri íbúðatækifæri vestar í borginni til þess að jafna álagið á samgöngukerfinu. Og sem mest ætti að byggjast meðfram Borgarlínunni.

++++

Á árum áður voru nefndirnar sem fjölluðu um skipulags- og byggingamál tvær. Annarsvegar bygginganefnd og hinsvegar skipulagsnefnd. Á árunum 1978-1982 var formaður bygginganefndar Magnús Skúlason arkitekt og formaður skipulagsnefndar Sigurður Harðarson arkitekt. Í skipulagsnefndinni var meirihlutinn arkitektar og voru ekki borgarfulltrúar frekar en formennirnir. Ég held að það hafi verið mistök að sameina þessar tvær nefndir í eitt ráð, Umhverfis- og skipulagsráð.

++++

Efst í færslunni er ljósmynd sem ég tók í haust af Borgarlínunni í Grenoble í Frakklandi. Hún líður nánast mengunar- og hljóðlaust um borgina full af fólki.  Iðagrænt gras er milli teinanna og fólk stígur úr vagninum og hoppar upp á reiðhjól sem ætluð eru borgarbúum, en ekki sérstaklega ferðamönnum. Neðst kemur svo fyrstu drög sem urðu á vegi mínum um legu borgarlínunnar með aðalskiptistöð á eðlilegum stað við Elliðaárósa. Gríðarlega fín hugmynd og raunsæ ef vel er á haldið.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (18)

  • Dennis Davíð Jóhannesson

    Skipulagsleysi versus borgarskipulag.
    Ég las nýlega grein í breska blaðinun Guardian. Þar var staðhæft að vandamál breskra borga nú um stundir væri ekki þétting byggðar heldur skipulagsleysi þeirra. Því til staðfestingar var bent á „West End“ hverfin í Glasgow og Edinborg svo og Pimlico í London sem eru hverfi með þéttri en vel skipulagðri byggð og þykkja eftrisóknarverð að búa í. Niðurstaða greinarinnar er að því miður hafi Borgarskipulag (Urban planning) dottið úr tísku í Bretlandi og skipulagsleysi náð yfirhöndinni. Áhugavert innlegg í umræðuna. Skyldi það sama gilda hér í borg?

  • Steinar Frímannsson

    Hvernig er það. Er það skynsamlegt að þétta byggð þarna úti á nesi þar sem samgöngur verða eingöngu eftir austur – vestur ás? Eru það ekki stór mistök að leggja niður Reykjavíkurflugvöll og byggja á því svæði? Burtséð frá því hvort flugvöllurinn sé mikilvægur eða ekki heldur vegna þess að þá er verið að auka við byggð sem aðeins verður komist í og úr eftir einni leið. Er ekki skynsamlegra þá að leggja upp úr þéttingu byggðar austar?

  • Borgarlínan í AR2010-2030 er snilld með austur vesturlínu og Landspítalann austasr. En þetta COWI bákn sem SSH vinnur aö er “er eins og votur draumur” sem menn þurfa að fara að vakna frá.

  • Ég er á því að það sé vítavert alvöruleysi hvernig staðið er að „skipulagi“ hjá okkur þessa dagana. Mér sýnist líka að ráðuneyti skipulagsmála geri sér afar litla grein fyrir því hvað skipulag sé eða geti verið. Þetta kemur bæði fram í skipulagslögum og reglugerð. Það er dauðans alvara hvernig fólki líðst að leika sér með framtíðarmöguleika barnanna okkar og sameiginlega fjármuni í óraunhæfum og illa grunduðum „skipulagsgrillum“ án þess að nokkur sé faglega ábyrgur. Verst þykir mér þó þegar kollegar okkar, arkitektar og aðrir taka að sér að „fronta“ vitleysur stjórnmálamanna og gefa þeim „faglegt yfirbragð.“ Hvers á íslenskur almenningur eiginlega að gjalda?

  • Saga skipulagsmála í Reykjavík undanfarna áratugi er dapurlegri en tárum taki. Fæstir fagmenn skildu grundvallarhugsunina í Aðalskipulaginu 1962-“83 og einblíndu bara á hugmyndir um stórkallalegar götur í gróinni byggð. Hugmyndir um „United Town Model“ var þeim lokuð bók að ekki sé nú minnst á grundvallaratriði eins og að leysa margvísleg vandamál borgarbúa eins og að geta komið yfir sig húsnæði á viðráðanlegu verði. Pólitískar grillur eins og baráttan gegn bílnum (blikkbeljunni) ódýr formalismi (t.d. Breiðholt 3) og svokölluð „þétting byggðar“ oft úr öllum tengslum við aðliggjandi umhverfi hafa verið allsráðandi og nú síðast léttlestargrillan. Ákaflega lítið fer fyrir verulega aukinni faglegri þekkingu í skipulagsfræðum, borgarhagfræði og samgönguskipulagi svo eitthvað sé nefnt.

    Enginn þar tll bær fagmaður tekur heldur yfirleitt lengur faglega ábyrgð á „skipulaginu“ gagnvart almennigi, sem oft er unnið í einhvers konar „hópefli“ þar sem enginn er ábyrgur. Skipulagsyfirvöld taka líka við húsateikningum sem framkvæmdaraðilar láta vinna, sem fullgildu „skipulagi“ og hrósa happi að borgin þurfi ekki að greiða fyrir þetta verk. Er nema von að Reykvíkingar spyrji hver eiginlega sé ábyrgur og gæti þeirra hagsmuna í þessari mikilvægu vinnu? Hvaða skipulagssérfræðingur ber t.d. faglega ábyrgð á staðarvali Landspítalans við Hringbraut? Ekki bæta heldur 300 síðna doðrantar eins og síðasta Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 mikið úr skák með þokukenndri „framtíðarsýn“ engum kostnaðarsamanburði eða valkostagreiningu: engar tímasetningar framkvæmda og enginn ábyrgur fyrir framkvæmd skipulagsins. Eitt er að búa til skipulagsbók – og allt annað er að fara eftir henni og framkvæma skipulagið.

    Hvernig væri nú að við tækjum okkur tak, þótt ekki væri nema í tilefni 100 ára fullveldis og reyndum að koma þessum málum forsvaranlega inn í 21. öldina?

    • Hilmar Þór

      Ég get tekið undir flest sem þú nefnir Gestur. Ég held því samt fram að AR2010-2030 er miklu betra en AR2001-2024.

      Mér finnst, eins og þér, ganga illa að framfylgja aðalskipulaginu þegar á hólminn er komið og er þar margt að nefna.

      Umfang Borgarlínunnar er líka allt of stórt. Menn eiga að halda sér við austur/vesturlínuna og heimila ekki aukna nýtingu lóðanna fyrr en Borgarlínan er komin í rekstur. Það er ábyrgðaleysi að gefa heimildirnar út áður en staðsetning hennar og stoppistöðvar eru fullkomlega negldar niður.

      Ég er líka sammála þér í því að ábyrgðin er of dreifð. Maður veit ekki við hvern maður er að tala þegar skipulagið er á dagskrá. Hver ber ábyrgð á staðsetningu Landspítalans. Það hefur sýnt sig að ákvörðuninni er líklega aflað fylgi með röngum upplýsingu, eins og sýnt er fram á. Hver ber ábyrgð á því. Ég þekki nöfn nokkurra. Þeir ættu að svara fyrir sig en gera það ekki.

      Svo er það sameining skipulagsnefndar og bygginganefndar. Það var að mínu mati slæm misstök að sameina þetta tvennt.

      En mér finnst AR2010-2030 ekki þokukenndari en skipulög frá fyrri árum.

  • Athyglisvert hvernig síðueigandi minnist sífellu á Keldnaland í tengslum við þéttingu byggðar og borgarlínu, þar sem svæðið er í nákvæmlega 1 km. fjarlægð frá Úlfársárdal þar sem nóg er byggingarland en hverfið talið til marks um þenslustefnu. Keldnaland er útivistarsvæði þar sem er að finna skíðabrekku, aðstöðu íþróttafélagsins í hverfinu, Grafarlæk, göngustíga, skógarlundi og beitartún þeirra húsdýra sem búa í mikilvægu vísindastarfi á Keldum.

    • Hilmar Þór

      Okkur sumum hefur verið álasað fyrir að nefna ekki einhvern tiltekinn stað fyrir spítalann ef hann yrði ekki byggður við Hringbraut.

      En ég hef forðast það vegna þess að ég tel að óháð staðarvalsgreining mundi benda á rétta staðinn. Í þeim samanburði yrði Hringbraut að sjálfsögðu með í því mati.

      En slíkt mat hefur ekki farið fram vegna þess að menn vilja það ekki og hafa máli sínu til stuðnings sagt að þegar sé búið að gera fjölda staðarvalsgreininga sem allar benda á Hringbraut.

      Þessu hafa alþingismenn, ráðherrar og allur almenningur trúað og þar með ég.

      Á daginn hefur komið að þetta er allt vitlaust og jafnvel ósannindi eins og sýnt hefur verið fram á. Greiningarnar sæyna allt annað en haldið hefur verið fram.

      Það er mjög alvarlegt mál þegar embættismenn halda röngum upplýsingum að almenningi, fjölmiðlum, þingi og ráðherrum.

      Ég vel því Keldur sem tilgátu sem á eftir að sanna. Keldur eru næst Suðurlandsvegi og Suðurnesjavegi (Keflavíkurflugvelli) og nær búsetumiðunni en Úlfarsfellsárdalur eða Mosfellsbær.

      Þess vegna valdi ég Keldur .

      Flóknara er það ekki.

      Keldnalandið er svo stórt að allt sem þú nefnir gæti verið Þar áfram þó spítalinni yrði það líka.

  • Kristín G.

    Það vantar vissulega lóðir fyrir ungt fólk sem vill byggja sjálft á félagslegum grunni. Borgin þarf að úthluta lóðum til svoleiðis fólks sem vill bjarga sér.

    Ekki bara selja hæstbjóðenda.

    En hvað er það sem kallað er „tilraunareitur“?

  • Magnús Skúlason

    Verð að blanda mér aðeins í þessa umræðu enda málið mér skylt.

    Við Siggi Harðar, Guðrún Jónsdóttir, Álfheiður Ingadóttir ofl. fundum upp á hugtakinu þétting byggðar sem hefur verið misnotað upp á síðkastið. Okkar hugmynd fólst m.a. í því að byggja á auðum svæðum innan borgarmarka, byggja lágt og þétt í anda Jan Gehl en bókin hans „Livet mellem husene(1972)“var m.a. okkar biblía. Þá skyldu sem flest hús vera 2-3 hæðir og vera með risþaki. Dæmi um þetta er Ártúnsholt og Suðurhlíðar. Við vildum efla Strætó með aukinni ferðatíðni og byggja upphitaðar biðstöðvar. Þið hefðuð bara átt að heyra viðbrögðin við því.

    Guðrún Jónsdóttir arkitekt sem forstöðumaður Þróunarstofnunar eins og Borgarskipulag hét þá setti fram frábæra deiliskipulagstillögu að þéttingu byggðar allt frá Hallgrímskirkju og niður að sjó til norðurs þ.m.t Skuggahverfis. Þar var gert ráð fyrir verndun nánast allra húsanna á svæðinu en á auðum lóðum yrðu byggð ný hús sem tækju mið og mælikvarða af byggðinni sem fyrir var.
    Þarna var m.a. gamla Eimskipafélagsskemman, hús Völundar, Sláturfélagsins, allt ómetanleg byggingararfleifð sem ráðgert væri að fengi nýtt hlutverk eftir föngum.
    Eitt af fyrstu verkum nýs meirihluta 1982 þ.e. Davíðs Oddsonar og Villa góða Villa var að leggja þessa hugmynd til hliðar og skipuleggja háhýsabyggð á Völundarlóð neðst við Klapparstíg og standa fyrir niðurrifi áðurnefndrar byggingararfleifðrar. Guðrún að sjálfsögðu rekin nokkru síðar.
    Hugsanlega voru okkar mistök við tillögur að framtíðar aðalskipulagi að leggja til ný íbúðahverfi kringum Rauðavatn. Morgunblaðið undir áhrifum Davíðs Oddsonar lagði sér staka áherslu á að stórhættta myndi stafa að slíkri byggð á sprungusvæði. Naut hann m.a fulltingis borgarverkfræðings og hans embættis.
    Eigi að síður síður hefur hann blessaður sitið á stærstu sprungu svæðisins síðustu árin en hún er undir Hádegismóunum sjálfum.

    Framhald varð á sorgarsögu Skuggahverfis þegar R-listinn náði völdum og húsin við sjó náðu enn meiri hæðum.

    Þétting byggðar nú er nánast að verða að skammaryrði á okkar gömlu hugsjón þar sem byggt er nú þar sem byggðin hvað þéttust. Byggt er á dýrustu lóðunum, útsýni tekið frá núverandi íbúum með of háum húsum og selt síðan okurverði þeim sem ráð hafa á.

    Hvar er gert ráð fyrir ungu fólki með eðlileg fjárráð?

    Hvar e

    Hvar hafa verið byggðar í búðir fyrir venjulegt fólk síðustu árin? Ungafóklið? Ekkert er nánast í boði nema luxusíbúður á okurverði.

    • Hilmar Þór

      Þakka þér fyrir þessa athugasemd Magnús.

      Hún er mikilvæg.

      Svo minnist ég þéttingarinnar við Austurbrún og Vesturbrún. Mjög vinsællrsr þéttrar lágrar byggðar á Eyðisgranda vestur í bæ sem var frumkvöðlastarfssemi og tilraun í sjálfu sér.

      Voru tilraunareitirnir, t.a.m. í Breiðholti ekki líka gerðir á þessum árum?

      Mikið sakna ég tilraunareita sem byggðir væru á forsendum notendanna en ekki á forsendum arðseminnar.

    • „Hugsanlega voru okkar mistök við tillögur að framtíðar aðalskipulagi að leggja til ný íbúðahverfi kringum Rauðavatn. Morgunblaðið undir áhrifum Davíðs Oddsonar lagði sér staka áherslu á að stórhættta myndi stafa að slíkri byggð á sprungusvæði. Naut hann m.a fulltingis borgarverkfræðings og hans embættis.“

      Það held ég ekki. Þetta var blásið upp í pólitískt moldviðri. Seinna, bæði í Grafarholti og Úlfarsárdal, hafa menn leitað uppi sprungunar og aðlagað skipulag þannig að hús væru ekki yfir sprungu. Sama hefði mátt gera við Rauðavatn.

  • Í skipulagsnefndinni sem starfaði 1978-1982 sátu 4 arketktar því Himar Ólafsson fyrrverandi forstöðumaður Borgarskipulags var líka arkitekt auk fyrrverandi borgarstjóra Birgis Ísleifs Gunarssonar lögfræðingi. Mestan tímann var Guðrún Jónsdóttir arkitekt forstöðumaður Borgarskipulags og á Borgarskipulagi starfaði margt afburðafólk (arkitektar og aðrir) sem hefur haft veruleg áhrif á skipulagsmál í Reykjavík. Þá má geta þess að flestir sem komu að að byggingar- og skipulagsmálum í nefndum borgarinna komu úr þeim geira eða höfðu góða innsýn í hann.

  • Hilmar Þór

    Það má kannski geta þess að ég held að Sigurður Harðarson hafi fyrstur notað orðið „blikkbelja“ um einkabílinn, sem þótti vel viðeigandi á þessum árum!

  • Karl Ó.

    Það er ekkert nýtt undir sólinni.

  • Þórhildur

    Það gerðist ekki mikið eftir fall vinstristjórnarinnar í Reykjavík 1982 í skipulagsmálum annað en það að framboð af lóðum varð meira en nóg. Svo kom aftur vinstri stjórn með R-listanum og þá hélst þennslan áfram og farið var að selja lóðir sem gerði það að verkum að fasteignaverð á öllu höfuðborgarsvæðinu fór upp úr öllu valdi. Nú óttast maður að skipulagsráð sé að missa yfirsýnina. Borgarstjórinn er að undirrita samninga alla daga og tilkynna niðurstöður úr arkitektasamkeppnum. Það á að byggja allstaðar og auka heimildir upp úr öllu valdi og það áður en Borgarlínan er komin í rekstur. Það er ekki einu sinni vitað hvar hún á að fara um! Er ekki rétt að ákveða fyrst hvar línan á að fara um, Hanna hana og hefja uppbyggingu hennar og svo í framhaldinu að deiliskipuleggja þétt að henni? Og eins og Kató gamli sagð segi égi: „Landspítalinn er á röngum stað“!

  • Skemmtilegur samanburður á viðhorfum tveggja skipulagsráða. Það eru 30 ár þarna á milli. Þurfa hugmyndir í skipulagsmálum virkilega að liggja í áratugi þar til menn fara að taka mark á þeim?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn