Fimmtudagur 03.05.2012 - 08:30 - 8 ummæli

Smekkur, stílbrot eða smekkleysa?

Prófessorinn minn, Jörgen Bo (hannaði m.a. Lousiana í Danmörku) sagði okkur nemendum sínum reynslusögu frá höfuðborg Brazilíu.

Sagan er af veitingastað á efstu hæð í háhýsi einu eftir Oscar Niemeyer í höfuðborginni.

Bo sagði frá því er hann gekk inn í nýtískulegt fordyrið og tók lyftuna upp á fimmtugustu hæð í þessu nýmóðins húsi. Þegar hann sté út úr lyftunni fann hann sig í svisnesskum fjallakofa!!

Þetta var einskonar “non place” eða engin staður, sagði prófessorinn. Þó þetta væri á 50 hæð í nýjum skýjakljúfi Oscars Niemeyer í Brasilia, fékk hann á tilfinninguna að hann væri ekki í Suðurameríku vegna þess að innrettingin væri úr svissneskum fjallakofa.

Þetta  var arkitektoniskt ekki Brasilía  en var samt í Brasilíu. Þetta var arkitektóniskt byggt á svissneskri menningararfleifð en var ekki í Sviss. Þetta var „non place“ .  Þetta var ekki „placemaking“ eins og arkitektar hugsa það hugtak.

Allir nemendurnir skildu skilaboðin og hlógu. Oft var vitnað í þessa yfirferð prófessorsins og regionalisminn fékk enn eina styrka stoð til að standa á í hugum nemanna.

Ég nefni þetta vegna þess að maður verður þess sífellt var að byggingar og innréttingar fylgja ekki kúltúr og anda staðanna.  Með glóbaliseringunni verður þetta sífellt meira áberandi.  Sömu húsin eru byggð allstaðar á jarðarkringlunni. Stundum eru þau hugsuð sem vörumerki. Ég nefni McDonalds og innréttingar í Marriott hótelunum. Þessi nálgun stenst auðvitað ekki.  Það vissi Vitruvíus og benti mönnum kyrfilega á fyrir um 2000 árum.

Maður sér nýleg sumarhús í sveit á Íslandi sem er  með svipaða nálgun og bjálkakofinn á fimmtugustu hæð í Brasilíu.  Bara með öðrum formerkjum. Þar er tekið andrúm sem maður þekkir frá straumlínulöguðum heimilum í borginni og það er flutt í annað umhverfi og verður rammi um annan lífsstíl í sveitinni. Sumarhúsin eru í raun eins og með sama andrúm og húsin í borginni, bara minni og á öðrum stað. Þetta andrúm er svo flutt í Íslenska sveitasælu á sama hátt og svisnesska arfleifðin í skýjakljúf í Brasilíu.

Maður sér þetta líka í ákveðinni gerð hótellobbía víða í Evrópu þar sem andrúmið er ekki í samræmi við staðarandan. Oft er ómögulegt að giska sér til hvar í heiminum maður er staddur þegar maður les í þau skilaboð sem arkitektinn sendir ferðamanninum með hönnun sinni.

Hótelin vilja vera nýmóðins og „lúkka“ rétt en ná ekki anda staðarins.  Niðurstaðan verður stundum slepjulegur minimalismi sem er ósköp þreytandi til lengdar.

Reyndar svo þreytandi að maður forðar sér oftast út úr lobbýinu eins fljótt og auðið er til þess að nema anda staðarins utan hótelsins. 

Efst í færslunni er mynd af svipuðum aðstæðum og prófessorinn nefndi. Dæmið er reyndar frá Ohio í Bandaríkjunum. Þarna er útsýnið íktar myndir af Ölpunum og allt sem svissneskast. En eina „nýjungin“ er  að gluggahlerarnir eru að innanverðu!! 

Orð PH koma í hugann:  „Vondur smekkur er ekki til,  það er bara til góður smekkur og hann er vondur“ 

Hér er færsla sem tengist efninu:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2010/10/01/facadismi/

Sjá einnig:

.http://blog.eyjan.is/arkitektur/2010/03/19/regionalismi/

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Sveinn í Felli

    Hef tvisvar komið í svona 2007 úthverfiseinbýlishús-orlofsbústað á reglulega sérstæðum stað, hús sem var í algjörri afneitun á umhverfi sínu eða tilgangi. Til að fylla allt skápaplássið hefði þurft að fara 10 ferðir á skutbíl, en samt eru engir snagar eða aðstaða fyrir regnblaut föt. Og fólk er fram á nótt að slökkva á öllu dótinu sem spilar lög við ólíklegustu tækifæri. Auðvitað sjónvarp í hverju herbergi en gluggum snúið frá útsýni.
    Niðurstaðan var að menn hefðu ruglast á GPS-hnitum.

    Hvað varðar smekkleysur og stílbrot er gaman að lesa \“From Bauhaus to Our House\“ eftir Tom Wolfe; þar er m.a. kafli um uppbyggingu Las Vegas. Þar er haldið fram að lengi vel hafi eina byggingareglugerðin verið aðflugskvaðir flugmálastjórnarinnar (það reyndi í alvörunni á þær).
    En í meginatriðum sýndist honum \“kitch-ið\“ ná alvöru hæðum þegar menntunarstig manna hætti að vera í samhengi við fjárhagslegt bolmagn (aðhald minnkaði á fleiri en einn veg), enda var það mafían sem byggði Las Vegas.
    Kannski eitthvað til í þessu?

  • Fann hann sig í svissneskum fjallakofa?

    Týndi hann sér þá í lyftunni?

    Eða eru sumir hættir að nenna að tala móðurmálið sitt?

  • Einar Jónsson

    Ef fram heldur sem horfir þá töpum við sjálfum okkur (our idendity) og töpum persónuleka okkar sem þjóðar í leitinni að global jafnvægi.

    Vinnum með veröldinni en hermum ekki eftir henni.

    Ef okkur langar til Sviss þá förum við til Sviss en ekki til Brasilíu. Ef okkur langar út á land, þá skulum við fara út á land. En ekki í Garðabæinn,

  • Það má lengi deila um keisarans skegg en mér sýnist að í aukinni glóbaliseringu þurfi arkitektar að gá að sér þegar þeir hanna inn i islenskar aðstæður. Hér er ég ekki að hugsa um jarðskjálfta og veðurfar heldur arkitektúr og staðaranda eins og það er nú kallað.

    Góð dæmi og tímabær hugleiðing hjá málshefjanda.

  • Guðmundur

    Tja, telst Kántrýbær á Skagaströnd „non-place“? Eða er hann kominn alveg hringinn og verður að „placemaking place“ vegna sögu sinnar? Svona svo eitt skemmtilegt dæmi sé tekið:)

  • Hilmar Þór

    Það má nú segja Stefán Pálsson. Skarplega athugað.
    Og Jón Óskars hefur skýra sýn sem hann kemur fram í stuttu máli. Íslenskir sumarbústaðir eiga að vera meira „sveitó“ og minna svona „Garðabær“ !!!

  • Það er samt e-ð kaldhæðnislegt við að furða sig á að herbergi eða hæð í skýjakljúfi í Brasilíuborg sé „non place“ – í ljósi þess að borgin sjálf fellur ágætlega undir þá skilgreiningu…

  • Jón Óskars

    Þetta er smekkur sem kallast víst „kits“ eða eitthvað svoleiðis. Ég er sammála því að það vantar allt svona „sveitó“ í nýju íslensku sumarbustaðina. Þeir eru allir eitthvað svo mikið „Garðabær“

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn