Föstudagur 10.04.2015 - 08:12 - 9 ummæli

Sól í Skugga

Völundur9

Ég hef stundum fjallað um skipulag í Skuggahverfinu og tekið sem dæmi um skipulagsmistök.

Vegna færslunnar „Veruleiki í kjölfar skipulagsferils“ hafa nokkrir haft samband við mig og ég hitt á götu, bæði aðliar sem hafa staðið að uppbyggingunni. Ég varð þess áskynja að þeim nánast sárnaði umfjöllun mín um hverfið. Íbúar á svæðinu sendu mér hjálagðar ljósmyndir og heimiluðu birtingu þeirra.

Ég vil taka það fram að ég vil síst af öllu valda fólki óþægindum eða hugarangri þegar ég fjalla um arkitektúr og skipulag. En það er þannig að ef maður fjallar um þessi mál af heiðarleika og segir það sem manni finnst þá getur  farið svo að umfjöllunin verði neikvæð hvað enstök atriði varða.

En það má ekki draga þá ályktun að allt sé ómögulegt og ekki við bjargandi. Þvert á móti. Því er nefnilega þannig háttað að allir eru að gera sitt besta þó árangurinn verði sjaldnast gallalaus.

En öll hverfin og öll verkin hafa líka sína kosti. Það á vissulega líka við um Skuggahverfið.

Kunningi minn sem ég hitti á götu sagði að í opinberri umræðu um skipulagið í Skuggahverfinu sé sjaldan eða aldrei rætt um konseptið á bak við 101 Skugga og þau arkitektónisku gæði sem óneitanlega má finna þar. Hann nefndi skipulag íbúða, fjölda íbuða pr. hæð, þriggja hliða íbúðir, notkun útskotsglugga til að fanga útsýni, veðurfar við innganga sem var skoðað sérstaklega o.s.frv.

Hann nefndi einnig að niðurrif hafi ekki verið mikið þar sem 101 Skuggi stendur. Sannleikurinn sé sá að engar byggingar hafi verið  rifnar vegna uppbyggingar verkefnisins 101 Skuggi. Stærsti hluti svæðisins (2. og 3. áfangi) sem verkefnið tekur til var geymsluport Eimskips (Lindargata, Vatnsstígur, Skúlagata, Frakkastígur), 1.  áfangi var reistur þar sem Kveldúlfshúsin stóðu áður en þau voru rifin í tengslum við fyrirhugaða hótelbyggingu Eimskipgs 1985, 16 árum áður en verkefnið 101 Skuggi fór af stað.(!)

Þetta breytir samt ekki því mati mínu að þetta hefði í heildina geta verið mun betra. Einn af göllunum sem eru að koma í ljós er húsið sem stendur við Frakkastíginn út í götuna og rýrir mikilvæga sjónlínu. Í fyrsta deiliskipulaginu frá um 1985 voru hæstu byggingarnar á miðjum reitunum og þær lægstu við göturnar sem liggja niður að sjó einmitt vegna sjónlínanna. (Vitastíg, Vatnsstíg, Frakkastíg og Klapparstíg).

En eins og sjá má á myndunum sem fylgja færslunni þá eru mörg góð smáatriði í byggðinni og ber þar sérstaklega að vekja athygli á görðunum milli húsanna sem eru sérstaklega aðlaðandi og mörg sólrík.

Arkitektar hvítu húsanna eru teiknuð af arkitektunum Dagnúju Helgadóttur og Guðna Pálssyni inn í upphaflegt deiliskipulag Skuggahverfisins sen nær frá Kalkofnsvegi austur að Snorrabraut. Landslagsarkitekt var Ragnhildur Skarphéðinsdóttir hjá Hornsteinum. Húsin í 101 Skugga eru teiknuð af Hornsteinum og dönsku arkitektunum Schmidt Hammer & Lassen.

Völundur1

Völundur2

Völundur3

 

Völundur4

Völundur8

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (9)

  • Ólafur Þórðarson

    Það blasir við á þessum myndum að þetta er ekki miðbæjarskipulag sem slíkt. Þetta er ágætt dæmi um „borg í görðum“, sem í flestum útfærslum eru hús ofan á bílastæðum eða hús með gróðurreitum inn á milli, sem tilheyra öllum og engum.
    Þó tré og runnar séu fallegir og þó mörgum kunni að finnast þetta snyrtilegt og sætt og allt það, þá hefur svona skipulag lítið sameiginlegt miðbæjar- eða ríkulegu borgarskipulagi. En mikið sameiginlegt úthverfafyrirkomulagi.
    Þá gildir einu hvort einhverjir reikni svo og svo marga nebba á hektara, því grundvallarreglum miðbæjarskipulags er ekki fylgt.

  • Friðrik Friðriksson

    Flott. Leynist svona inn i þessari svörtu byggð?

  • Halldór Jónsson

    Það er auðvitað ekki alltaf til vinsælda fallið að vera gagnrýnandi.

    En það er nauðsynlegt ef gagn á að vera af gagnrýninni.

    Þessi bloggdúó er til fyrirmyndar!

  • Sigrún Gunnarsdóttir

    Gott að fá svona málefnalega jákvæðni i vikulok.

  • Persónulega finnst mér mesti ókosturinn við þessa byggð að hún er ekki hluti af miðborgarbyggð. Þetta eru fyrst og fremst ríkmannlegar úthverfablokkir í miðborg. Þrátt fyrir að hönnun garðumhverfis milli blokkanna sé ágæt eru fáir (engir?) þar á ferli. Ég hef farið með börnin mín þarna til að leika á ágætis leiksvæðum milli blokkanna en við höfum ekki hitt neinn annan þarna að leik eða við að gera neitt annað. Kannski er eitthvað líf þarna einhverntímann en ég hef allavega ekki séð það. Sennilega fara flestir útúr húsi þarna keyrandi úr bílastæðakjöllurunum. Ég væri sjálfur til í að búa þarna en ég hef ekki ráð á því frekar en annað venjulegt fólk.

    Þannig virka þessar íbúðir ekki til að styrkja umhverfi miðbæjarins nógu vel þó mögulega versli íbúarnir í miðbænum. Það vantar að þau séu hluti af blandaðri byggð. Að mínum dómi hefðu þessi nýju hús þurft að hafa rými á neðstu hæð til verslunar og þjónustu og kannski veitingahús á efstu hæð. Að hafa bílastæða kjallara sem jarðhæð er algert drep. Húsin hefðu líka mátt vera meira í áttina að klassískri miðborgarbyggð og lægri.

    Hugsa hefði þurft Baronstíg, Vitastíg, Frakkastíg, Vatnsstíg og Klapparstíg, sem götur með verslun og þjónustu niður frá Laugaveginum að Skúlagötu. Það er líka furðulegt að tala um sjónlínur niður að sjó og láta síðan hraðbrautina Sæbraut skera sjóinn frá hverfinu og hafa enga almennilega leið yfir götuna. A.m.k. ætti að færa tvenn gatnamótin yfir Sæbrautina að Klapparstíg og Frakkastíg frá þeim stað sem þau eru núna.

    Bryggjuhverfin sem byggð hafa verið eru þessu sama marki brennd. Ríkmannleg og fallega byggð hverfi með flottum húsum en steindauð úthverfi, a.m.k. enn sem komið er.

    • Guðmundur

      Mannfæðin vakti líka athygli mína. Annað sem má benda á að þarna fer stórt svæði undir svæði í einkaeigu sem annars hefði verið hægt að nýta sem almenningssvæði. Þetta er reyndar í takt við þróun í mörgum öðrum vestrænum borgum, þar sem almenningssvæðum fækkar og svæðum í eigu einkaaðila (með tilheyrandi takmörkuðum aðgangi og nýtingu) fjölgar.

    • Helgi Gunnars

      Ég Læka þetta hjá Guðmundi. „Opnu svæðin“ eru víða um heim að einkavæðast hægt og bítandi. Þetta er mikið vandamál víða um lönd.

  • Gaman að fá fram jákvæðar upplifanir af þessu svæði. Líkt og fram kemur hér að ofan þá hefur það sína kosti og galla.

    Persónulega finnst mér oft vanta umræðu um íbúaþéttleikann sem er að myndast í hverfinu. Vissulega hefði verið hægt að ná fram sama þéttleika með öðrum hætti og lágreistari húsum en hann er engu að síður til staðar og það er gríðarlega mikilvægt fyrir mannlífið í miðbænum og þá verslun og þjónustu sem má finna þar.

    Að því sögðu er rétt að lýsa yfir áhyggjum af fréttum sem stundum berast af fjárfestingum fjársterkra aðila í hverfinu sem virðast ekki ætla að búa í íbúðunum sínum heldur nýta þær sem dvalarstaði í nokkrar vikur í senn á ári. Slíkt fyrirkomulag skapar lítið mannlíf og er óheillaþróun að mínu mati.

  • K. Guðmunds

    „Ljósmyndir segja meira en 1000 orð“ eru orð að sönnu.

    Einu sinni var sagt „ljósmyndin lýgur ekki“, en það er fyrir löngu afsannað.

    En hvað um það. Þessar tvær færslur eru frábært dæmi um hvernig hægt er að kynna mál á mismunandi hátt þannig að upplifunin verði gjör ólík.

    Maður er eiginlega „stum“

    Þetta virðist annarsvegar vera ömurlegt umhverfi og hinsvegar alveg ágætt!!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn