Þegar japanski arkitektinn Hironaka Ogawa kom á staðinn þar sem átti að byggja viðbyggingu við hús verkkaupans sá hann tvö glæsileg tré sem þurfti að fella vegna framkvæmdanna. Í stað þess að láta þau hverfa lagði hann til að þau yrðu tekin upp, berkinum fletta af, þau þurrkuð, reykt og notuð aftur í nýbyggingunni. Þetta er það sem sumir vilja kalla sögulega geymd í byggingarlistinni.
Þetta er skemmtileg nálgun sem víða má sjá þó ég hafi ekki séð þetta með þessum hætti áður svo ég muni. Ég hef séð svipað í Stellenbosch í Suður Afriku, Potsdamer Platz í Berlín, í Aðalstræti í Reykjavík og jafnvel heima hjá mér þar sem hliðið að bænum Engihlíð á Grímstaðaholti (Tómasarhaga) er látið standa sem söguleg geymd og minning um það sem áður var.
Varðandi viðbygginguna má auðvitað halda því fram að þetta séu bara tómir stælar hjá arkitektinum enda þvælast þessi tré bara fyrir í önnum dagsins og „funktionin“ er sennilega engin.
Að ofan getur að líta útlit nýbyggingarinnar sem veldur mér vonbrigðum þar sem hin alþjóðlega nútíma fagurfræði hefur tekið völdin. Þessi staðlausa alþjóðlega fagurfræði er auðvitað til leiðinda þegar til lengri tíma er litið og hugsað er til glóbaliseringar fagurfræðinnar.
Þeir sem komið hafa til Japan þekkja þessa glerjuðu svarbláu þaksteina sem eru einkennandi víða þar í landi. Húsin eru líka í vissu mátkerfi sem tekur oft mið af tatami mottunum japönsku. Arkitektarnir hafa getið setið á sér og gefið þessum einkennandi japanska staðaranda grið. Það er mikill léttir því margir arkitektar eru hnepptir í viðjar alþjóðlegrar tísku í byggingarlistinni.
Þessi tvö tré höfðu verið hluti af daglegu lífi fjölskyldunnar í meira en 35 ár og voru henni kær.
Gólfinu var sunkað niður um 70 cm til þess að trén féllu inn í hugmynd grunnmyndarinnar.
Snið
Ísometría sem skýrir uppbygginguna. Ef grunnmyndin og sneiðingin með ljósmyndum eru borin saman sjást margir spennandi og hugvitsamlegir vinklar og smáatriði sem vert er að skoða nánar.
Ljósmynd frá framkvæmdatíma.
Alþjóðleg byggingarlist og fagurfræði rekur upphaf sitt langt aftur. Það er bara þannig. T.a.m. sækja Íslenskir arkitektar menntun sína út um allan heim. Það ætti að skila sér með þeim hætti að fjölbreyttra áhrifa ætti að gæta í íslenskri byggingarlist. Það er nú samt ekkert endilega svo, eða hvað ?
Mér finnst hugmyndin og útfærslan á þessum trjám bara flott og ekkert meiri sýndarmennska en ber og kuldaleg steinsteypa.
Mér finnst sögnin sunka of lítið notuð í ritmáli, góður Hilmar!
„Þessi staðlausa alþjóðlega fagurfræði er auðvitað til leiðinda þegar til lengri tíma er litið….“.
Er þetta rétt?
Þarf maður að óttast þessa sýn?
Burtséð frá staðnum og sögunni þá ætti að setja svona tré í alla skóla og leikskóla landsins og færa þannig náttúruna nær börnunum!
… og háskóla. Þá ætti að vera auðveldara að velja sér grein 🙂
Þarna er ekki arkitektúr á ferðinni heldur innsetning (installation) Trén hafa ekkert með bygginguna að gera, bara staðinn.
Án trjánna væri ekkert í þetta varið.
Dapurlegt að sjá svona sýndarmennsku eftir hafa kynnt sér Louis I. Kahn!
Þarna hittir þú naglann á höfuðið Gunnlaugur.
Eins og þú sérð er höfundur ekki beinlínis uppnuminn af þessari alþjóðlegu nálgun í fagurfræðinni sem á svo mikið upp á pallborðið á jarðarkringlunni.
Ég fór fyrir margt löngu um sveitir Japan og sé ekki að svona arkitektúr eigi erindi þangað.
Sama á við um Skagen í Danmörku þar sem ég rakst á svona hús og spurði mig, hvern andskotann er þetta að gera hér?
Sama má svo segja þegar maður mætir svona nálgun hér á landi og víðast annarsstaðar.
En ég vil taka fram að þegar birtast færslur á borð við þessa eykst lesturinn. Hinum almenna lesanda finnst gaman að þessu og eimitt þegar þetta efni kemur á eftir Kahn er von til þess að brúa bilið milli almennings og arkitektúrs með stóru Ai.
Það má kannski spyrja hvort það séu skapandi arkitektar sem hanna í þessum stíl? hvort þetta sé ekki frekar framleiðsla, iðnaðarvinna en skapandi vinna? Allavega eru þeir ekki að lesa staðinn mikið og sérkenni. Þeir leggja ekki út af staðaranda og kúltúr heldur tísku líðandi stundar á jarðarskorpunni allri.
Er þetta ekki frekar bissniss en list?
Það er augljóst að höfundur er að lauma inn áróðri im „regionalisma“ samanber tatami og þaksteininn m.m.
Þá vaknar spurningin. Er burður í trjánum eða eru trén „fylgihlutir“?