Föstudagur 11.05.2012 - 12:19 - 11 ummæli

Spöngin – Endurskoðun skipulags

 

 “Nýtt skipulag í Spönginni í Grafarvogi”  heitir verkefni sem nemar í Háskólans í Reykjavík  lögðu fram nú í vor.  Verkefnið er til MSc gráðu í áfanga sem heitir “Hagnýt verkefni í bæjarhönnun” undir Tækni- og verkfræðideild skólans.

Þetta er spennandi verkefni og vel unnið.  Þarna er í raun verið að endurskoða tiltölulega nýlegt skiðulag sem verður að skilja sem málefnalega gagnrýni á þær skipulagshugmyndir sem borgin studdist við áratugum saman.

Þarna er tekið á landnotkun, umferðaálagi, umferðaöryggi, gatna- og stígakerfi, þéttingu byggðar, almenningssamgöngum, útivistarsvæðum, veðurfari og annarra þátta sem ættu að vera ráðandi við skipulagsákvarðanir.

Síðan er reynt að ná jafnvægi í hverfinu þannig að viss sjálfbærni náist í atvinnurækifærum og búsetu og að allt verði í göngufæri innan 400-800 metra radius frá miðhverfi Spangarinnar.

Dregið er úr mikilvægi einkabílsins í daglegu lífi íbúanna.

Þetta er gert með því að auka þéttleika byggðarinnar næst spönginni  og fjölga á auðum svæðum íbúðum um tæplega 700  auk að byggja tæplega 30 þúsund fermetra atvinnuhúsnæðis til viðbótar því sem þarna er.

Skýrsla nemanna er vel gerð og fallega myndskreytt. Þar eru tölfræðilegar upplýsingar og greiningar sem fólk hefur gott af að lesa með tilliti til þeirra eigin nærumhverfis hvar á landinu sem er.

Ég er sannfærður um að miklir möguleikar eru á þéttingu flestra hverfa borgarinnar samkvæmt þessu módeli.  Ég hef sjálfur séð að fjölga má íbúðum og atvinnutækifærum verulega í hverfishluta 107 án mikilla inngripa svo annað dæmi sé tekið.

Borgin ætti að einhenda sér í að endurskipuleggja hverfi borgarinnar með skynsömum áherslum og tilliti til meiri þéttingar og sjálfbærni í anda hugmynda nemanna við HR. Það blasa við miklir landvinningar öllum til gagns og gleði í öllum hverfum borgarinnar. Sama á við um deiliskipulög reitanna í miðborginni sem mörg hver dæmdu ágæt gömul hús til niðurrifs og tortímingar menningararfsins. Þau þarf flest að endurskoða með nútíma vinnulagi.

Skýrslu nemanna má finna á eftirfarandi slóð:

http://www.scribd.com/arn%C3%BE%C3%B3rt/d/92758101-N%C3%BDtt-skipulag-i-Sponginni-i-Grafarvogi

Nemendurnir eru Arnþór Tryggvason, Ester Anna Ármannsdóttir og Eva Þrastardóttir. Leiðbeinendur voru: Hrafnkell Proppe og Aldís Ármannsdóttir.

Nemarnir og skólinn geta verði stolt af þessu verkefni sínu sem er tilefni til mikillar og lausnamiðaðrar umræðu um þá hörmungarsögu sem skipulagsmál í borginni hefur gengið í gegnum undanfarna áratugi.

Á myndinni efst í færslunni er hverfið borið saman við miðborg Reykjavíkur. Ef horft er á myndirnar blasir við sú sóun lands sem þarna á sér stað. Þá blasir við ójafnvægi milli atvinnutækifæra og íbúðabyggðar. Í raun sýnist mannni að verkefni nemanna sé hörð málefnaleg gagnrýni á þær skipulagshugmyndir  sem borgin hefur stuðst við í um þriggja áratuga skeið.

Það er ánægjulegt að sjá að leiðbeinendur HR hafa stutt nemendur sína í vinnu við verkefni sem skiptir máli á Íslandi í dag og er tilefni til umhugsunnar og umræðu. Verkefni af þessum toga hafa einnig komið frá Háskólanum á Hvanneyri og HÍ. Ég sakna svipaðrar áræðni frá LHÍ sem mér virðist nokkuð einangraður frá því samfélagi sem hann á að þjóna.

Að neðan koma nokkrar skýringarmyndir. Ég ráðlegg áhugasömum að skoða sjálfa skýrslu nemanna til þess að fá dýpri kynningu á þessu ágæta verkefni.

Ef tvísmellt er á myndirnar verða þær stærri og skýrari.

 

Samkvæmt skýrslu nemanna er nýting reita á svæðinu frá 4 íbúðum á hektara upp í 23 íbúðir á hektara. Meðaltal, gróflega reiknað, er tæpar 14 íbúðir á hektara sem er rúmlega helming minna en eðlilegt má teljast í borgarskipulagi í úthverfum. Sem dæmi má nefna að á svokölluðum BÚR reit við Aflagranda í vesturbæ Reykjvíkur er þéttleikinn rúmlega 60 íbúðir á hektara.  Ég endurtek að samkvæmt skýrslu nemanna eru á einum reitanna  við Spöngina 4 íbúðir á hektara!  Maður á bágt með að trúa því að svonalagað geti gerst en auðvitað er einhver málefnaleg skýring til á þesari landnýtingu á þessum stað. En hún er ekki augljós.

 

Þéttingin á sér stað á opnum svæðum innan byggðarinnar. Eins og þeir vita sem til þekkja  er mjög gott aðgengi að frábæru útivistarsvæðum á jöðrum byggðarinnar meðfram ströndinni og víðar.

 

 

Skapað er þétt borgarumhvefi  með torgum, borgargötum og – strætum.

 

Nemarnir skoðuðu endurhönnun gatna með áherslu á gangandi og hjólandi umferð í „sjálfbærari“ borgarhluta.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (11)

  • Arnþór Tryggvason

    Thanks for your comment Gravestone. I agree with your idea about the city and about universities needing to work more conceptionally to come up with really innovative ways for the city to work better as a whole.
    This schoolproject was about trying to make realistic changes in this area of reykjavik. Looking backwards we should have made the bike lanes between the pedestrian and the parking, like we know from for example copenhagen.
    The separation on the main road in this project here was actually made to better pedestrian safety. there is so much traffic on this road so its better for pedestrians to cross one lane at a time.

  • hilmar Þór

    Þetta sem Graveston bendir á með hjólabraut milli bílstæða og akbrautar þarfnast nánari skýringar.

  • Gravestone

    The basic idea looks to be OK, even if it looks very traditional in the sense of 20th century modernism. And there must come some concept of universities, with innovation and new relations between society and built environment. I believe that we have to think cities more diversified, let us see it like different layers which are iteracting with each other, in this way horizontal and vertical.
    One thing is for sure: no long ways to work, to school, to grocery, and good connection to (a better) public transport system. Mix it up and integrate.
    By the way, the bike-lane between parking and moving traffic is a big problem, and why do main-roades alwas have to be seperated in direction(2 or 4 lanes)?. The pedestrian should be No.1, not the car, turn it upside down!

  • Þorsteinn

    Frábært hjá nemunum. Þeir þurfa endilega kynna þetta í hverfinu

  • Arnþór Tryggvason

    Það er ekki búið að kynna þetta fyrir borginni né hverfasamtökunum.

    Góður punktur hjá Rúnari með hjólastígana.

  • Athyglisvert sjonarmid Gudmundar um ad storfyritaeki a bord vid spitala sjai um einhvern kota leiguhusnaedis. Er gert rad fyrir tvi vid Hringbraut?

    Eg endurtek spurningu Johanns: Er buid ad kynna tetta fyrir borginni eda hverfasamtokum vid Spongina?

  • Guðmundur Guðmundsson

    Verkefni þetta er fróðlegt í samanburði við þensluhverfin frá 2007. Arna Mathiesen lýsir 2007 ástandinu vel þegar hún spyr hvort atburðarásin hafi bara tekið völdin ?

    Umræðan hér á síðunni kveikir von um að einhvers konar vakning sé í gangi í skipulagsmálum.

    þegar talað er um byggðaþéttingu má spyrja með hvernig húsnæði á að þétta viðkomandi byggð.

    Skortur á leiguhúsnæði og ótrygg kjör leigenda er velþekkt Íslenskt fyrirbæri allt frá stríðsárum. Afleiðingin af þessu var Íslenska séreignastefnan, sem kanski má segja að hafi dugað til heimabrúks í einhverja áratugi.

    Íslenski draumurinn,raðhúsið og grillið breyttist síðan í martröð fyrir marga þegar séreignarstefnan snérist upp í andhverfu sína.

    Enn vantar þúsundir, ef ekki tugi þúsunda leiguíbúða á höfuðborgarsvæðið til að ná svipuðu hlutfalli og nágrannalöndin.
    Er ekki eðlilegt að þétta byggð að hluta til með vel hönnuðu leiguhúsnæði svipað og þekkist í Skandinavíu ?

    Hver á þá að byggja/reka þannig húsnæði og hvað má það kosta ? Hvernig húsnæði er hægt að byggja fyrir þann pening ?

    Í verkefninu að ofan er gert ráð fyrir þjónustu og atvinnu í göngufæri frá íbúðum. Má ekki heimfæra sömu hugsun á stóra vinnustaði eins og Spítala, etc ? Væri ekki eðlilegt að stórar stofnanir byggi íbúðir í nágrenni fyrir fólk í grunnstörfum ?
    Gengur annars dæmið upp ef laun eru lág og bensínverð hátt ?

    Skipulagsmál og umræðan í kring um þau eru eins og stórt púsluspil. Þessir bitar ættu að líka að vera hluti af heildarmyndinni.

    Guðmundur Guðmundsson

  • Rúnar Ingi

    Eitt sem ég rek augun í,varðandi staðsetningu á hjólastígnum-
    Sk.reynslu annarra þjóða, þá eru hjólastígar öruggari ef þeir eru staðsettir fyrri innan bílastæða.
    að röðin sé þessi Gangstígur>Hjólastígur>Bifreiðastæði>akvegur.

    http://upload.wikimedia.org/wikipedia/commons/a/a2/Protected_bikelane_1st_Av_jeh.jpg

    http://en.wikipedia.org/wiki/Segregated_cycle_facilities

  • Bý þarna og vil fá svona í hverfið

  • Jón Ólafsson

    það vekur bjartsýni að sjá að ungt fólk í samvinu við háskólana lítur verk fyrri kynslóða gagnrýnum augum í leit að betra og hagkvæmara umhverfi.

    Það er mikið verk að vinna við að taka til í íslensku þjóðfélagi á flestum sviðum. Maður bíður spenntur eftir ámóta frá viðskiptadeildum fl. sérfræðingateymum innan háskólanna.

    Það er greinilega verið að skoða hrun skipulagsmála í HR en hvað með hagfræðina og peningamálin. Eru nemendur háskólanna ekkert að velta fyir sér endurskoðun í þeim efnum?

    Þar hefur líka allt verið í rusli!!

  • Það sem vantar í flest hverfi borgarinnar er eitthvað sem sameinar íbúana.

    Þetta hafa verið skólarnir, Íþróttafélögin og starfssemi kirku og þ.h.

    En verslun og atvinnutækifærum hefur verið komið út úr íbúðahverfunum undanfarin ár illu heilli. Þetta var ef ég skil rétt meðvituð stefna sem hefur kallað á aukna umferð og tvo bíla á hvert heimili með gríðarlegum kosnaði fyrir utan að hverfin bera ekki neinar almenningssamgöngur (Hvað var fólk eiginlega að hugsa???)

    Nemarnir með aðstoð HR sýna hér að tækifæri er til þess að fara af þeirri óheillabraut sem brunað hefur verið eftir í skipulagsmálum borgarinnar undanfarið.

    Ég spyr höfunda hvort þeir hafi kynnt verkefni þetta fyrir skipulagsyfirvöldum eða til dæmis hverfisráði Grafarvogs?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn