Mánudagur 14.05.2012 - 00:11 - 19 ummæli

Harpa eins árs

 

Það er ekki framhjá því litið að tónlistarhúsið Harpa hefur verið mikil lyftistöng fyrir tónlistarlífið í Reykjavík síðan hún opnaði fyrir réttu ári. Þetta á ekki einungis við um Reykjavík heldur um landið allt.

Þessu ber að fagna. Harpa smitar út frá sér í bæjarlífinu og hefur glætt miðborginni lífi. Þetta á sér ekki bara stað vegna tómlistarinnar heldur líka vegna þess að húsið er opið öllum almenningi utan þess tíma sem tónlistarviðburðir eiga sér stað.

Það er vissulega fagnaðarefni að slíkt hús skuli nú standa og sinna blómlegri starfssemi við miðborg Reykjavíkur.

Nú þegar ár er liðið frá opnun er kominn tími til þess að tjá sig um bygginguna í skipulagslegu, arkitektónisku og starfrænu samhengi.

Það sem fyrst vekur athygli er stærð hússins í samanburði við borgina og þær byggingar sem næst standa. Byggingin er yfirþyrmandi hvað öll hlutföll varðar hvort sem litið er til manneskjunnar eða stórbygginganna í grennd. En er það ekki í lagi þegar um er að ræða byggingu sem hafði það markmið frá upphafi að verða eitt helsta kennileiti borgarinnar?

Þegar horft er á þann stað sem byggingin stendur gerir maður sér grein fyrir því að hann gefur einstakt tækifæri sem ekki er víða að finna. Fyrst er að nefna hið ægifagra útsýni til sjávar og fjalla. Fjærst er Snæfellsnes, nær kemur Akrafjall og Skarðsheiði. Svo er það Esjan, fjall reykvíkinga.  Allt er þetta umleikið síbreytilegum sjónum svo maður tali nú ekki um sólarlagið. Næst kemur svo sjálf Reykjavíkurhöfn iðandi af lífi.

Valið var að leggja áherslu á þessi gæði annarsvegar eða beina almenningsrýmunum að þungri umferðagötu og Seðlabankanum. Arkitektarnir hafa talið það síðarnefnda vega þyngra í þessu vali og fyrir því hljóta að vera einhverjar ástæður sem ekki blasa við.

Svo er það nándin við sjálfa höfnina og tengsl við göngustíg sem borgin og sveitarfélögin í nágrenninu hafa verið að leggja meðfram strandlengjunni. Hann er rofinn við Hörpu. Byggingin tengist meira borginni en höfninni. Í reynd er Harpa ekki í miklum tengslum við höfnina, hafið og fjallahringinn annarstaðar en sjónrænt frá  bakrýmum og korridorum.

Mikilvægur þáttur tónleikahalds er félagslegur. Það er að njóta tónlistarinnar í félagi við aðra og svo að hittast óformlega í tengslum við viðburði í almannarýmum. Þetta þarf að gerast á óþvingaðan hátt eins og maður sér víða í sambærilegum húsum erlendis og skynjaði jafnvel í anddyri Háskólabíós.

Þeir sem ég hef talað við eru sammála um að í hléum nær fólk ekki að hittast á eðlilegan óþvingaðan hátt. Allt virðist í einhverri óskipulagðri þvögu og fólk er að pota sér á mjóum svölum og göngum milli sala og glerhjúps.

Svo eru það inngangarnir. Þeir eru ómarkvissir. Maður veit aldrei hvaða hurð maður á að velja ef gengið er inn af torginu. Jafnvel hin verðlaunaða torghönnun visar ekki markvisst að einum aðalinngangi. Sennilega er ástæðan sú að í bílaborginni Reykjavík er ætlast til að gestir komi akandi á einkabíl til staðarins um bílakjallara. Þar er inngangurinn skýr og áberandi. Þegar inn í húsið er stigið úr bílageymslunni minnir andrúmið á uppgang í nútímalegri neðanjarðarjarnbrautarstöð þar sem flæði farþega skiptir meira máli en félagsleg og arkitektónisk upplifun.

Ég get ekki látið hjá líða að nefna vinnuvöndun og frágang byggingarinnar. Þar má víða sjá frágang sem ekki nær þeim gæðum sem ætlast skal til í jafn metnaðarfullu menningarhúsi og hér er á ferðinni.

Hinsvegar er mikið fjallað um bygginguna í tímaritum og á vefmiðlum. Einhvernvegin grunar mig að þeim árangri sé helst þakka almanatenglum og fólki sem hefur lag á að koma verkum á framfæri í fjölmiðlum en hefur jafnvel aldrei barið húsið augum.

En  Harpa stendur þarna og er eins og áður sagði mikil lyftistöng fyrir tónlist og menningarlífið almennt í borginni og hér á landi.

Harpa verður líklega talin arkitektóniskt meistaraverk og hún verður alltaf  „kjúriositet“ sem laðar fólk að sér á svipaðan hátt og t.a.m. Hallgrímskirkja. Það er eithvað ójafnvægi milli byggingarinnar og verks Ólafs Elíassonar sem mér virðist bera bygginguna sjálfa ofurliði.

Svona blasir Harpa við mér en auðvitað sýnist sitt hverjum

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (19)

 • Örnólfur Hall

  Plokkað í slaka HÖRPU-strengi
  (Ekki er allt gull sem glóir)

  Af glóandi HÖRPU“Gulli“
  Undirritaður hefur fylgst jafnt og þétt með Hörpu’smíð‘ frá vordögum 2010 (með kollega Guðm.Kr. o.fl.) og myndað. Nú eru komin um þrjú hundruð mynda af „smíða“-sögunni en í henni kennir margra ‚grasa‘ sem sjaldnast má nefna upp-hátt og forðast er að fjalla um í mörgum fjölmiðlum („tabú“?).

  Þegar slátra varð ónýtum (víða ryðslegnum) fyrri suður-vegg Hörpu (2010) saga niður í búta og kasta á járnhauga kom upp í hugann hugtakið: ”Glópagull” sem fyrr á tímum var sagt við þá sem fundu gyllt dót og töldu gull sem reyndist svo prjál sem mátti fleygja á skranhauga. –
  Það ótrúlega var að haldið var áfram að byggja „gullið“ frá vordögum fram í ágúst 82010) þó vitað væri um“glópana“ í stálinu. Hvers vegna var það nú? Það skilur enginn.

  Ýmislegt fór um hugann þegar stórkarlalega ljósa-‚show-ið‘ fór að flæða og tindra og minnti á ofurljósa ‘show-in‘ í Las Vegas. Dýrðin átti líklega að laga geðið hjá kreppu-hrjáðum og skatt-og skuldpíndum Landanum (líka skuldug-um af Hörpulánunum) og ‚létta‘ þeim skammdegisdrungann.
  Þegar ljósabrellurnar flóðu og tindruðu mátti svo ekki hafa lóðarlýsingu á, á meðan, til að trufla ekki ljósakúnst-ina. Fótgangandi gestir úr suðri, sem höfðu vogað sér í gegn um bílastrauminn komu svo ókátir og fótrakir til Hörpu-leika eftir að hafa álpast út í lóðarpollana í malbikinu.
  Góðlátlegt grín var svo gert af þessu hjá annars orðvör-um og grandvörum starfsmönnum borgarinnar.

  UM 300 MYNDIR SEM SÝNA ÝMISLEGT ANNAÐ EN
  GLANSMYNDIRNAR
  1) Myndir sem sýna alla ryðsöguna í Hörpu: í t.d. norðurvegg, suðurvegg sem var slátrað og svo nýtt ryð í nýjum suðurvegg; yfirmálaða ryð“drauginn“sem dormar þarna áfram og bíður síns tíma, að okkar mati; ryðtauma sem sjást leka niður á steyptan norðurvegg.

  2) Myndir sem sýna víða ófagra (klasturslega) málmsuðu, víða dapurlega smíðina og klaufa- og bagaralegu hornsamsetningarnar í hjúpnum. Yfirborð málmpósta sem er á köflum óslétt með rákum og hnökrum. Og t.d. það sem VM-málmtæknimenn í tímariti sínu (VM) vildu kalla hrákasmíði og merkja“Made in China“(VM/G.R.).

  3) Myndir sem sýna víða ófögur gólf (misfellur í flísum og grámóskulega gólfefnið (flekkótta) á hæðunum.

  4) Myndir: Þýzkur verktaki (á ferð um Ísland) benti undirrituðum á að sumstaðar í sílikónþéttingunni væru hnökrar, misfellur og litlar holur og misbreiðar og misdjúpar fúgur. Þar gæti bleyta átt aðgang inn.

  5) Myndir: Víða má sjá ókræsilegar málmsuður í handriðum. T.d. í aðalstigahandriði. Víða eru móða milli tvöföldu rúðanna í handriðunum. Í hraðanum (hamagangurinn fyrir opnanir og vígslu) sést hafa gleymst að þrífa á milli.

  6) Myndir úti og inni sem sýna svartflekkóttu sjónsteypuna (Sichtbeton) í ýmsum ófríðum myndum t.d. á austurhlið (súlur og suðurflötur).

  7) Stéttin fyrir framan: frágangurinn, steinflísarnar sem fólk hefur verið að hrasa og detta um og skaða sig –brjóta tennur og kjúkur.
  Myndir af aðalstiga og með óöruggum eldri borgurum: Við viljum meina að millipallur eigi að vera í stiganum til öryggis samkv. stigareglum (t.d. Neufert-Bauentwurfslehre-Treppen). Eldra fólk er mjög uggandi við að fara um skáskorinn stigann.

  KOMU MATSMENN FRÁ CTA & ARKITEKTUR MǺSSAN Á
  STAÐINN?
  Sá grunur læðist að okkur að þeir erlendu matsmenn, sem hafa veitt Hörpunni hönnunarverðlaun, hafi ekki séð hana nema á glansljósmyndum eða ofurgafískum tölvumyndum. T.d. hafa þeir líklega ekki séð hana frá Sæbrautinni.
  Kollegi og leiðsögumaður sagði undirrituðum að dönsk ekkjufrú (á Íslandsferð) hefði spurt sig hvaða kassabygging sæist þarna framundan í rigningunni – þetta líktist kjarnorkuveri.

  Í umsögn verðlaunaveitanda um húsið er talað um sem lofsvert: Góð víðfaðma tengsl við borgina og íbúa hennar.
  Ekkert er minnst á hættulega, hraða og breiða umferðar-strauminn sem æðir fram og slítur tengslin og íbúar og gestir þurfa að svamla í gegn til að komast á malbikstorgið framundan.
  Við gagnrýnir kollegar efumst um að matsmenn hafi komið á staðinn og staðið í nepjunni á lóðinni, verðlaunuðu, með steinhnöllunum og steinastéttinni, við húsið, þar sem fólk hefur verið að hrasa og skaða sig (brjóta tennur og kjúkur).

  Líka má spyrja: Skoðuðu matsmenn t.d. óvirðulegu og ótignarlegu innkomuna með fjórum tvöföldu ’verslunar’-rennihurðunum þar sem gestir fara um og stefna beint á missvartan sjónsteypuvegg á móti?
  Gestir fara svo til vinstri eftir gangi og svo til hægri meðfram afgreiðslu og sjá svo söluvaringsbása (eins og á markaði) sitt hvoru megin við svarta ganginn sem stefnir norður með mjóum dimmum þvergöngum.
  Aðalopnunin er svo að greiðasölurýminu í Munnhörpu. Er þetta tignarleg innkoma ?

  BYGGINGIN ER TÁKNRÆN FYRIR TÍÐARANDA SEM VAR…..

  Þetta sagði glöggur kollegi í tölvupósti til undirritaðs: -Byggingin er táknræn fyrir tíðaranda þar sem arkitektúr matreiddur af almannatenglum lifir sjálfstæðu lífi í tímaritum og á heimasíðum, raunveruleiki bygginganna er orðinn aukaatriði.-
  Aðrir gagnrýnir kollegar o.fl. heyrast líka tala um þunglama- og stórkarlalega sköpun án allra djafra, spennandi forma sem tengast borgarmyndinni (borgar-“andanum“).

  KOSTIR ÚTSÝNIS ERU EKKI NÝTTIR VEL FYRIR
  ALMENNINGSRÝMIN
  Sami kollegi benti undirrituðum á að almenningsrými Hörpu færu að mestu á mis við útsýni til hafnar, hafs og fjalla – þessi gæði virðast hafa verið tekið frá fyrir svítur útvalinna. –
  Á þessu impraði líka undirritaður í viðtali á Bylgjunni í fyrra og talaði m.a. um skort á útsýni veitingarýma til hafs og fjalla. Menn hefðu t.d. bara marglita bílaflóðið til að horfa til frá veitingastaðnum á jarðhæðinni.

  TROÐNINGUR OG ÞVAGA ER FRAMAN VIÐ ELDBORGU Í
  HLÉUM
  Kollegi hélt áfram og sagðist sakna anddyrisins í Háskólabíó — rými sem safnaði fólki saman, þar náði maður að hitta og heilsa flestum sem maður þekkti í hléum.—En það vantar á í Hörpu þrátt fyrir yfirdrifin anddyri og gangrými. Allir eru að troðast í þrengslum eftir löngum og mjóum rýmum milli salar og glerhjúps, sem stíflast þar sem þrengst er.
  Að hans mati hefur formhugmynd arkitektanna og verk listamannsins aldrei náð að verða trúverðug heild.

  Af ÖÐRU til UMHUGSUNAR : ‚SMÍÐIN‘ og BRUÐLIÐ o.fl.

  Við vorum tveir kollegar, undirritaður og Haukur V., að skoða svartflekkóttu ófríðu sjónsteypuna (Sichtbeton) í Hörpu og hittum þá og töluðum við eftirlitsmann (28/2) en sá sagði okkur m.a. frá þaklekum í húsinu í snjókomunni miklu í vetur.–Efirlitsmaður sagði að það hefði verið mildi að ekki fór illa.
  Aðspurt embætti Byggingarfulltrúa staðfesti (15/3) svo að þetta væri rétt.–

  BRUÐLIÐ
  Hverjir skyldu svo fá í fangið ofurreikningana sem skattgreiðendur í framtíðinni? Skyldu það vera saklausir eftirkomendur sem eiga í vændum alla útopnuðu´víxlana´ vegna aborgana, ofurvaxta-kostnaðar, fjármagns-kostnaðar, óvænts kostnaðar, viðhaldsins, aukameðlaga (eins og t.d. 750 milljónanna) og svo stóra meðlagsins vegna þessa húss?
  Undirritaður hefur heyrt frá hagfróðum að talan sé nú a.m.k. 32.5 ma. —Talan 27.5-7 ma. hefur verið í um 3ja ára frosti og er ekki trúverðug lengur. – Annar (hagspakur) sagði að 12000 kr. miði á óperuna ætti í raun að kosta 24000 til að hafa allt með felldu. Óperukvöld fyrir söngelskandi hjón ætti eftir því að kosta 48000 kr. en ekki 24000.

  Það er engin furða þó að erfitt sé að gera fasteigamat fyrir Hörpu þegar enginn veit hvað hún kostar í raun. Flækjufélögin voru jú 8.— Hvað t.d. með eldtryggingu á Hörpu í þessu sambandi?
  Í Hörpu (Eldborgarslóð) komu, öllum að óvörum, upp eldar (brunar) á smíðatímanum. Ætla má að Harpa sé enn ótryggð og skattpíndir Hörpuskuldarar eigi þá að borga ef brennur aftur. – (Dónar og leiðindapjakkar sögðu svo að Eldborgin hefði verið skýrð eftir eldunum).

  NB: Fjöldi manns, félög og stofnanir hafa fengið myndir (af Hörpu‘smíð‘og ryðsögu o.fl.) á CD-diskum – hjá undir-rituðum.
  NB: Slóð á grein í tímariti málmtæknimanna VM (bls.14): Tímarit_VM_03-tlb-2011.pdf

 • Pétur Örn Björnsson

  Takk kærlega fyrir svarið Tryggvi. Greinargott og flott:-)

 • Tryggvi Tryggvason

  Sæll Pétur.

  – Með úrvinnsluhönnuðum á ég við verkefnisstjórn verkhönnunar HLT, þ.e. nýtt fólk sem kom inn í málið að lokinni samkeppni. Aðferðafræði verkefnisstjóra verkhönnunar fólst m.a. í því að útiloka íslenska samstarfsaðila frá safaríkustu úrlausnarefnunun og úthluta þeim einungis minni háttar verkhlutum.
  Ég býst við að þetta sé strategía HLT. Í því hlýtur að felast að fyrirbyggja leka á þekkingu út af HLT. Þetta fyrirbæri er stundum kallað að fyrirbyggja „speki-leka“ í vörumerkja- og einkaleyfarétti.
  Með „reynsluboltum“ er átt við fyrstu íslensku arkitektana sem sátu í Dk með teymi verkhönnuða HLT í fyrsta áfanga. Undirritaður var í þeim hópi og lýsir hér eigin reynslu af gremju og undirliggjandi ósætti.

  – Innvígði og innmúraðir?
  Það er hvorki rétt að gera mönnum upp skoðanir né innvígja og innmúra einstaklinga í e.k. Portus/Hörpu hagsmunabandlag og varnarvirki. Þá aðild verða menn að viðurkenna sjálfir. Þangað til verðum við að styðjast við heimildir, þ.e. skráð viðtöl eða netfærslur sem sýna glögglega þöggunarheilkennið, sbr. viðtal/frétt DV þar sem Torfi Hjartarson verkefnisstjóri glerhjúps og bílstæðahúss er tekinn á beinið.:

  http://www.dv.is/frettir/2011/10/27/gagnryni-horpu-orokstuddur-rogur/

  Tilefni viðtalsins hlýtur að vera viðbrögð við gamalli frétt í DV.:

  http://www.dv.is/frettir/2011/8/13/raki-og-ryd-innan-glerhjupi-horpu/

  Ríkharður Kristjánsson, s.k. hönnunarstjóri Hörpu og verkefnisstjóri glerhjúpsins hefur einnig lagt sitt af mörkum til að kveða niður fúsk-drauginn á vef AÍ með andsvörum við mál Örnólfs Hall, sbr.:

  Af RYÐI í HÖRPU-strengjum _ http://ai.is/?p=1431

  Nýtt RYÐ í nýjum HÖRPU-strengjum _ http://ai.is/?p=1773

  Ég tel að dr. Ríkharður og Hjörtur Torfason hljóti að tilnefna sig sjálfa sem „innmúraða og innvígða“ í ljósi ummæla sinna.

  B.kv. TT

 • Pétur Örn Björnsson

  Takk fyrir sérdeilis góða athugasemd Tryggvi. Sér í lagi finnst mér fengur í þessari lýsingu þinni á framgangi hönnunarinnar, þrátt fyrir að íslenskir reynsluboltar eins og Örnólfur Hall og Guðmundur Kr. gagnrýndu óspart, en fengju bara spott frá „innvígðum og innmúruðum“:

  „„Úrvinnsluhönnuðirnir“ reyndust okkur hins vegar skeinuhættir og jafnvel fjandsamlegir þannig að jaðraði við einelti þegar að því kom að íslenskir reynsluboltar reyndu að segja frá veðurofsanum og hlákunni á góu og útmánuðum og því hvernig íslensk veðrátta getur farið með góðar byggingar.

  Örnólfur Hall arkitekt setti fram í ræður og riti rökstudda gagnrýni á byggingaraðferðir sem blasti við öllum á byggingartímanum að ekki stæðust, en hlaut að launum ofsafengna og ósæmandi gagnrýni Hörpumanna. Risaverkefni eins og Harpan eiga það til að eignast sjálfstætt líf, verða e.k. svarthol sem sogar til sín alla skynsemi þeirra sem eru innvígðir og innmúraðir.“

  Nú langar mig að spyrja þig beint út Tryggvi:

  1) Geturðu útskýrt betur, hverjir voru „úrvinnsluhönnuðir“?

  2) Geturðu útskýrt betur, hverjir voru hinir „innvígðu og innmúruðu“?

  Það þætti okkur mörgum fróðlegt, að fá fram, hreint og beint.

 • Tryggvi Tryggvason

  Ég tel viðeigandi hjá Hilmari að líta aftur til tónlistarhússins Hörpunnar nú þegar komin er reynsla á bygginguna og eitt ár er liðið frá vígsluhátíð og þakka framtakið.
  Eitt ár er líklega mátulegur gerjunartími fyrir skoðanir og tilfinningar þeirra sem komu að hönnun og framkvæmd tónlistarhúss við Austurhöfn. Undirritaður (Att Arkitektar) er einn af arkitektum Hörpunnar sem lagði upp í þessa vegferð vorið 2004 eftir að stjórn Austurhafnar TR efndi til samningskaupaferils innan ramma svokallaðrar einkaframkvæmdar (PPP – Public Private Partnership).
  Samstarf við Henning Larsens Tegnestue komst á laggirnar eftir að HLT sneri sér til undirritaðs og gamla Batterísins ehf. um samstarf við staðararkitekta. (Batteríið ehf. varð gjaldþrota haustið 2009. Batteríið arkitektar ehf. eru reistir á rústum Batterísins). Hæfisskilyrði og útboðsskilmálar voru í reynd það strangir að engir aðilar aðrir en stórar erlendar arkitektastofur höfðu möguleika til að komast að samningaborðunum. Aðrir íslenskir arkitektar voru þátttakendur í leiknum á sömu forsendum og við (Att Arkitektar/Batteríið) í fyrrnefndu samningskaupaferli þar sem fjórar samsteypur reyndust hæfar til að skila inn tilboði. Flækjustig samningskaupaferils einkaframkvæmdar reyndist gríðarlega krefjandi og langdregið. Þrjár áfangaafhendingar, hver með einkunnagjöf og samningum tóku samtals 18 mánuði. Við íslensku arkitektarnir höfðum aldrei kynnst öðru eins pappírsbruðli og smásmygli en gátum huggað okkur við að keppnisteymi HLT hafði heldur aldrei reynt annað eins. Þetta tel ég rétt að rifja upp t.d. til að það megi nota reynsluna af þessu samningskaupaferli til að meta hvort svo langdregið og strangt samningsferli skili sér í raun í betri byggingum. Hæfisreglur eru t.d. svo strangar að arkitektar með góða þekkingu á staðháttum séu í raun útilokaðir. Þannig geta ströng hæfisskilyrði unnið á móti tilgangi sínum og útiloki staðgóða og fengna reynslu inn í verkið.
  Gagnrýni Hilmars á fullkominn rétt á sér, sbr. „yfirþyrmandi hlutföll“, „almenningsrýmum beint að umferðargötu“ og að „byggingin tengist meira borginni en höfninni“. Hér verð ég að benda á að byggingin er aðeins fyrsta púslið í stórbrotnum hugmyndum um nýjan bæjarhluta, s.k. Austurhöfn sem fyrrnefndu samningskaupaferli var ætlað að leiða fram. Vissulega getur byggingin talist snúa baki í eitthvað en hún snýr vissulega aðalhlið, inngangi og lífinu innandyra að bæjarhluta sem ekki er risinn og að umferðarmannvirkjum sem liggja fyrir aftan fyrirhugaða byggingu, sem líklega aldrei verður! „Stórbrotnar hugmyndir“ þessar eiga upphaf sitt í samningsútboðinu, útboðsforminu sjálfu og metnaði Reykjavíkurborgar og ríkis, hrist saman í banvæna blöndu við stórmennskubrjálæði stjórnar gamla Landsbankans og útrásarsnillinga Nýsis, en þessi félög héld utan um félagið Portus. Það yrði allt of langt mál að hafa eitthvað eftir af öllum gullkornunum sem við arkitektarnir máttum hlusta á en ég hætti aldrei að verða hissa. Verð meira segja enn stöku sinnum hissa þegar ég hugsa óvart til baka!
  Hilmar gagnrýnir „vinnuvöndun og frágang“ með réttu. Okkur íslensku arkitektunum bendi ég til varnar á fyrrnefnt útboðsform og hættuna á að staðbundin reynsla verði útilokuð. HLT er í samanburði við aðrar arkitektastofu e.k. risafyrirtæki sem ræður yfir gríðarlega hæfum samkeppnisarkitektum, e.k. „brosteymi“ sem okkur var oft mikil hvatning að vinna með. „Úrvinnsluhönnuðirnir“ reyndust okkur hins vegar skeinuhættir og jafnvel fjandsamlegir þannig að jaðraði við einelti þegar að því kom að íslenskir reynsluboltar reyndu að segja frá veðurofsanum og hlákunni á góu og útmánuðum og því hvernig íslensk veðrátta getur farið með góðar byggingar. Örnólfur Hall arkitekt setti fram í ræður og riti rökstudda gagnrýni á byggingaraðferðir sem blasti við öllum á byggingartímanum að ekki stæðust, en hlaut að launum ofsafengna og ósæmandi gagnrýni Hörpumanna. Risaverkefni eins og Harpan eiga það til að eignast sjálfstætt líf, verða e.k. svarthol sem sogar til sín alla skynsemi þeirra sem eru innvígðir og innmúraðir.

  Verk Ólafs Elíassonar er ekki yfir gagnrýni hafið, en upphafleg hugmynd arkitektanna um að fá Ólaf til samstarfs var að frænkurnar mynd- og byggingarlist séu af sömu rót og að út úr því gæti komið fullkominn samruni listanna sem upphefur báðar frænkurnar. Dæmi svo hver fyrir sig hvernig samstarfið við Ólaf tókst. Mín skoðun er að sú lýsingarlausn sem Ólafur valdi sé misheppnuð, a.m.k. þannig að almenningi dettur fyrst í hug biluð jólasería. Rólegri lýsing og meiri birta hefði hæft margbrotnu glerforminu miklu betur.

  „Arkitektóniskt oflof“ er áhugavert nýyrði frá Hilmari. Meistaraverk eru ekki á hverju strái en góð list getur lifað af bæði pantað oflof frá álitsgjöfum og innansveitarillmælgi. Gefum þessu smá tíma enn! Þangað til sitjum við uppi með hljómleikasali með hljómburð í heimsklassa.

 • Ok, ég skil þetta.

  Ég hef ekki komið í óperuhúsið í Sidney. En þegar kem í Hörpu uni ég mér vel í rýminu sem snýr í vestur og norður og horfi yfir höfnina og flóann til fjallanna.

  Þarna hefur mér þótt alveg þokkalega rúmt í kringum mig innan um fjölda manns.

  Reyndar þarf að fara um tiltölulega þröngt ,,sund“ milli hárra veggja til þess að komast í þetta rými.

  Kannski á svona hús ekki heldur að hafa áberandi inngang.

  Það stendur þarna eins og töfrateningur og dregur fólk að sér og opnast þegar það nálgast.

 • Hilmar Þór

  Páll

  Þessi sviðsmynd frá Ástralíu sem ég nefndi var öll innandyra fyrir utan að veðrið getur ekki verið ástæða til þess að útiloka að fólk njóti útsýnis.

  Ég veit ekki hvort þú hefur komið í Hörpu en þar er því þannig háttað að helstu almenningsrýmin snúa til auturs og suðurs meðan útsýnið er stórbrotnast til norðurs og vesturs.

  Svo einfalt er það nú.

  En ég vil taka fram að þegar rætt er um arkitektúr og listir almennt hafa allir svoldið rétt fyrir sér.

 • Það er kaldara á Íslandi en í Ástralíu.

  Anddyri Hörpu þarf að vera í skjóli frá norðanáttinni.

  Og særokinu.

  Af sömu ástæðu er best að prúðbúið fólk með kampavínsglas í hendi njóti heldur fegurðar sólarlagsins úr glerjuðum almenningsrýmum en norpandi undir húsvegg.

  Harpa snýr rétt.

 • Hilmar Þór

  Þú ert ágætur Þorgeir og kemur með valid sjónarmið Þó mér finnist þau ekki vega þungt.

  Þeir sem borga sig inn meiga gjarna njóta þess sem staðsetningin býður uppá.

  Ég fór einusinni á tónleika í operuna í Sydney. Við komum inn í húsið landmegin frá borginni um gríðarlega breiða tröppu sem leiddi mann að húsinu og inngangi. Inngangurinn var áberandi og þegar inn var komið tók ekki á móti manni verslun með gæðavörum eða kaffitería heldur glæsilegt anddyri. Úr anddyrinu var maður leiddur á ofurafslappaðann hátt til sætis án nokkurra krókaleiða. Í hléinu fóru gestir framfyrir salina og nutu útsýnis að höfninni, brúnni og byggðarinnar handan fjarðarins með kampavínsglas í hendi. Yndislegt og afslappað. Rúmt var um fólk og það tók tali saman.

  Harpa hefur ekkert af þessu uppá að bjóða. Þvert á móti tekur hún þessi gæði frá fólki.

  Þeir sem ekki vildu borga sig inn í Sydneyoperuna geta gengið hafnarmegin við Operuhúsið og notið útsýnisins eða sest á kaffiteríuna hafnarmegin og fengið sér einn kaldann eða annað sem þá lystir. Þessum kosti var kastað fyrir róða í Hörpunni.

  Jú Harpa snýr öfug og er oflofuð og þá breytir engu þó manni sé vel til vina við þá sem á tölvumúsinni héldu. Þeir félagar sem að Hörpu stóðu eru miklir sóma menn og eiga ekkert nema gott skilið þó Harpa snúi öfugt.

 • þorgeir jónsson

  ef ég reyni að vera faglegur en þó ekki óhlutdrægur án þess að vera vanhæfur. Harpa átti aldrei að vera útsýnisturn með ekkert borgandi fólki. Þetta átti að verða peningakú og er það nú þegar með fanta góða nýtingu og að sama skapi tekjuflæði. Það er útsýni 360°þar sem grunnmyndin er þannig skipulögð sem „feltorganisation“ eða eins og steinarnir í fjörunni, til aðgreiningar frá hunangsbúarskipulagi nútímans. Hvað er fram og hvað er aftur? Ég hef ekki komið oft þarna, en ég hef getað horft á sólarlagið, farið í sólbað í logni!, horft á esjuna og nágrenni í allri sinni dýrð, úr húsinu, gengið eins og álfur inn í hljómfegurð salanna og það fyrsta sem ég sé eftir tónleika er gamla góða Esjan. Ég get ekki sagt að Harpa snúi öfugt.
  En ég er ekki að gera mér dýra ferð í Hörpu til að endurnýja kynni mín af Esjunni og sólarlaginu, það er málið. Þetta er tónleikahús.

 • af hverju er ekki notid utsynis til solsetursins ur almannarymunum. getur einhver svarad spurningunni?

 • þorgeir jónsson

  Tja…Hilmar: Þetta var nú bara orðaleikur. Batteríið gamla er þarna á góðum útsýnisstað við Arnarhólinn…flóknara er þetta nú ekki.

  Ég held að húsið (Harpa) þoli vel faglega umfjöllun. Hins vegar mun þetta hús standa eitt og sér án nokkurs samanburðar hér á landi og því ólíklegt að fagleg gagnrýni geri lítið meira enn að skapa úlfúð meðal okkar arkitekta. Danir fóru flatt á því að gagnrýna nýbyggingar opinberlega. Traustið á stéttinni fauk út um gluggann. Ég vil taka það fram að ég kom ekkert nálægt hönnun þarna, þó ég hafi unnið í samstarfi við þá ágætu teiknistofu Batteríið um margra ára skeið. Hins vegar þykir mér vænt um félagana og tek upp hanskann fyrir þá þegar tilefni gefst. Í gengum árin hefur mér fundist bera meira á öfund í stéttinni en faglegri gagnrýni sem bætir störf okkar og verk. Við eigum að gagnrýna verkin til að læra, en ekki særa.

 • Einar Jóhannsson

  Þegar landinn tekur upp á því að halda því fram að hann sé með þeim bestu í heiminum í einhverju er rétt að fara að athuga sinn gang. Þá eroftast eitthvað meiriháttar að.

  Harpa er dæmi um þetta. Ef horft er framhjá prjálinu og frumdrögin skoðuð þá er augljóst að hún snýr vitlaust. Hún býður ekki fólk velkomið vegna þess að inngangurinn er ekki „innbjóðandi“ Í raun er þetta ekki gott hús hvað bygginguna varðar. Hinsvegar verður ekki framhjá því litið að hljómburður í Eldborg er glæsilegur. Það má hrósa honum og verki Ólafs Elíassonar en það er óþarfi að hrósa arkitektúrnum enda ástæðulaust.

  Bæti því við að meðan ekki er komin skýring á því af hverju byggingin snýr sér ekki að „vorkvöldi í Reykjavík sem er eins og fjólublár draumur“ þá er hægt að staðhæfa að hún snýr vitlaust.

  Getur ekki einhver sem les þetta ágæta blogg skýrt út af hverju arkitektarnir völdu útsýni að seðlabankanum frekar en að einu alfallegasta kvöldútsýni sem til er hér á landi (N.B. konsertar fara fram á kvöldin)

 • Hilmar Þór

  Þorgeir

  Ekki þekki ég útsýnið frá Batteríinu en ég veit að útsýni er betra en þröngsýni eða skammsýni.

  Ég veit ekki hvað þú átt við þegar þú segir að „útsýnið sé gott frá Batteríinu“. Sennilega áttu vð að Batteríið sé það langt í burtu að þaðan sjáist ekki til hússins.

  Hinsvegar er ég hissa á hvað lítið er fjallað um húsið af óháðum álitsgjöfum. Það sem ég hef lesið kemur að mestu frá aðstandendum hússins með beinum eða óbeinum hætti sýnist mér.

  Eða hvað?

 • Harpa er ávöxtur „góðærisins“ þar sem allir blekktu alla og sparifé almennings gufaði upp. En Harpa gufaði ekki upp. Hún er þarna og fer hvergi. Allavega ekki til Tortóla. Verum ánægð með það.

  En við eigum samt ekki láta þá sleppa sem sögðust ætla að byggja húsið fyrir 9 milljarða en tóku tilboði uppá 12 milljarða frá Portus og Co.

  Og við eigum að refsa þeim sem að lokum skiluðu húsinu og sendu reikning uppá 30 milljarða eða meira til skattgreiðenda.

  Það liggur fyrir að þetta er táknmynd stórmennskuhugsunar af svipuðum toga og píramídarnir í Egyptalandi. Þetta er hinsvegar táknmynd. Munurinn er að Harpa nýtist almenningi til dægrastyttingar og uppbyggingar sem Píramídarnir gerðu ekki.

  En „the bottom line is“ að húsið snýr vitlaust, er of stórt og kostaði allt of mikið.

  Gaman væri að fá vandaða umfjöllun álitsgjafa um arkitektúr hússins svona í tilefni afmælisins.

  Þetta hér hjá Hilmari er ágætt og allt sem fram kemur rétt en ég auglýsi eftir dýpri umfjöllun með teikningum og tæknilegri úttekt. Fjármálin mættu líka vera með ásamt greinargerð um ákvarðanaferlið.

 • þorgeir jónsson

  ….jón…útsýnið er gott frá Batteríinu.

 • Jón Björnsson

  Já Þorgeir, „fjarskaflott“ og snýr öfugt. Hún er minnisvarði um tveggja ára stórveldistíma íslendinga og er frábær sem slík. Framkvæmdastjórnin stóð sig vel og Ólafur stóð sig vel en arkitektarnir komu sennilega ekki á staðinn áður en þeir hönnuðu húsið.

  Til hamingju með afmælið Harpa.

 • þorgeir jónsson

  Ef það lukkast að hafa óperu og tónleikahús í sama sal, þá hafa arkitektar og hljóðtæknifræðingar unnir afrek á heimsmælikvarða. Fyrir mér er Harpa tákn endurreisnarinnnar úr hruninu. Flott úr fjarlægð en ófullgerð.

  Samt….Harpa er einstök og hún er hér. Njótum hennar.

 • Göngustígurinn meðfram strandlengjunni fer framhjá Hörpu út á Granda um vindubrú yfir hafnarmynninu og tengist göngustíg sem liggur út í Gróttu.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og sjö? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn