Miðvikudagur 16.05.2012 - 04:16 - 27 ummæli

Að forðast gagnrýni

Íslensk umræðuhefð er merkileg. Vonandi alveg einstök.

Arna Mathiesen arkitekt skrifaði ágæta grein í Fréttablaðið nýlega þar sem hún á hispurslausan og faglegan hátt velti fyrir sér ábyrgð þeirra sem að skipulagsmálum komu í aðdraganda hrunsins. Það var fjallað um grein hennar hér á þessum vef fyrir nokkru.  Viðbrögðin voru ágæt en ekki í neinu hlutfalli við tilefnið og það sem var til umfjöllunar.  Í mínum huga drap  hún þarna á stórmáli.

Örnu, sem starfar fjarri íslenskum veruleika, mæltist vel í grein sinni og tók á máli sem þarfnast umræðu.

Þetta var drengilega gert hjá Örnu. En ég hef á tilfinningunni að hún skilji ekki umræðuhefð hér á landi frekar en ég. Við höldum að fólk sé að tala saman og leita lausna á vandamálum líðandi stundar með skoðanaskiptunum eins og við þekkjum annarstaðar.  

En svo er ekki. Hér á landi lítur fólk á umræðuna sem átök milli einstaklinga, ekki átök milli hugmynda eða sjónarmiða. Umræðan er heldur ekki lausnamiðuð.

Við íslendingar tölum ekki saman. Við segjum sögur. Oftast sögur af hvorum öðrum og stundum eru sögurnar rætnar. Við tölum  meira um menn en málefni.

Íslendingar  ræða ekki málin, heldur skipa þeir sér í fylkingar, með og á móti. Þeir sem eru þeim ósammála eru strax skilgreindir sem óvinir. Og í framhaldinu hefst skotgrafarhernaður öllum til leiðinda og viðfangsefninu ekki til framdráttar.

Þetta viðhorf okkar íslendinga er ákaflega frumstætt. Fólk hér á landi fer í manninn í stað þess að einbeita sér að boltanum.

Svo móðgast fólk vegna sjónarmiðanna og kastar fæð á hvort annað í stað þess að þróa hugmyndirnar og leita sátta eða finna aðrar nýjar leiðir sem sammælast má um. Það er vart hægt að anda á verk arkitekta, þá fara þeir í fýlu í stað þess að bregðast við með málefnalegri umræðu.

Það er viðurkennt að besta leiðin til farsældar hér á landi er að vera viðhlægjandi áhrifamanna, eða skipa sér í sveit einhvers flokks manna eða helst koma sér í einhverja öfluga klíku.

En það færir samfélagið ekki til betri vegar.

Umræðan á ekki að vera átök milli manna heldur í mesta lagi átök milli hugmynda.

Gagnrýni  sem  oft stafar  af þekkingarleysi, eða skort á upplýsingum, gefur gerendum tækifæri til þess að skýra út verk sín.

Maður bregst ekki við þekkingarleysi með árás á þann sem skortir þekkinguna og vill fá svör, heldur með því að upplýsa hann um málið.

Gagnrýni á akitektúr og skipulagsmál er oft byggð á viðhorfum til efnisins eða jafnvel smekk.

Það má hinsvegar leiða að því rök að skipulagsmál hafi verið vanhugsuð og stefnulaus hér undanfarna áratugi. Þetta er  áberandi og það er jafnvel  hægt  að  halda því fram að mistök hafi átt sér stað eins og dæmin sanna. Það blasir við að skipulagsmál á höfuðborgarsvæðinu hafa verið hin vandræðalegustu í aðdragana hrunsins og lengi áður.

Það þarf að viðurkenna vandann, greina sjúkdóminn og bregðast við honum. Þeir sem verða fyrir gagnrýninni mega ekki vera afundnir eða stinga höfðinu í sandinn eða bregðast við með þvermóðsku. Þeir eiga að svara gagnrýninni á sama vetvangi og hún er sttt fram, viðurkenna mistökin ef svo ber undir og leita lausna. Ekki haga sér eins og rjúpa við staur.

Gagnrýnandi eða málshefjandi í hvaða máli sem er sendir engan niður í skotgrafirnar eins og Arna nefnir í ummælum við nefnda færslu. Þvert á móti. Hann kallar til fólks og vill samtal. Hann leitar viðbragða og lausna.

Sá sem velur skotgrafirnar fer þangað sjálfur af fúsum og frjálsum vilja. Sennilga gerir hann það vegna þess að hann kann ekki að debattera. Telur sig vera í varnarstöðu eða með tapað mál. Honum finnst hann vera á á átakasvæði, í e.k. stríði. Hann sér ekki muninn á manninum og viðfangsefninu. Hann velur að þegja, leiða málið hjá sér eða bara ráðast á einhvern einstakling sem liggur vel við höggi.

Þetta er ömurleg afstaða en algeng.

Ég hef opnað tækifæri fyrir alla sem áhuga hafa á arkitektúr, skipulag og staðarprýði til að tjá sig á þessum vef.  Viðbrögð hafa verið ágæt og vefurinn mikið lesinn. En viðbrögðin komu ekki frá mörgum sem beinlínis hafa komið að arkitektúr og skipulagsmálum. Arkitektar tjá sig helst ekki nema undir nafnleynd.

Af hverju skildi þetta nú vera?

Það má leiða að því líkum að ein ástæða þess aðarkitektar og íslendingar almennt tjá sig ekki opinberlega séu einmitt sú að það eru líkur á að það bitni á þeim persónulega. Þéir óttast eð verða flokkaðir og dregnir í dilka og eru hræddir um að eignast óvini í okkar litla þjóðfélagi vegna skoðanna sinna eða efasemda.

Þetta viðhorf er ástæðan fyrir því hvað margir vilja helst ekki tjá sig öðruvisi en undir nafnleynd ef sá möguleiki gefst.

Ég hef orðið var við fálæti í minn garð frá sumum kollega minna sem ég get einungis fundið eina skýringu á.  Það er þessi vefur og þær umræður sem hér hafa vaknað.

Fleyg setning í lokin sem höfð er eftir grikkjanum Aristotle sem fæddist 384 fyrir Kristsburð:

“Sá sem forðast vill gagnrýni á ekki að gera neitt, ekki að segja neitt og ekki að vera neitt” eins og stendur á stuttermabolnum efst í færslunni.

Aðferðin sem aparnir velja; að heyra ekkert, sjá ekkert og segja ekkert leiðir samfélag þeirra ekki til framfara. Þessi mynd minnir á Ísland fyrir hrun og jafnvel líka Ísland í dag.  Í apasamfélaginu næst enginn árangur eða framfarir, enda eru þetta auðvitað bara apar.

Umfjöllun um grein Örnu Mathiesen er að finna hér:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2012/04/29/skipulagsmal-hver-axlar-abyrgdina/

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (27)

 • Spyr sá sem ekki veit: Er ekki hægt að losa um teppuna? Umræðan má ekki detta niður.

 • Arkitekt spyr

  Er nokkuð ritteppa í gangi? Nú er liðin meira en vika frá siðustu færslu!!!
  Hvað með samkeppnirnar um brýrnar og Vigdísarhús? Á ekkert að ræða þær svo ekki sé talað um hjúkrunarheimilið á Ísafirði?

 • Guðl. Gauti Jónsson

  Þakka þér fyrir Pétur Örn. Ég ruglaðist illilega í ríminu þarna en þú varst fljótur að átta þig á þessu. Takk aftur.

 • Pétur Örn Björnsson

  Tek svo af fullri einurð undir orð Gauta:

  „… það verkefni sem að mínu mati er öflugasta svartholið í dag og sogar svo sannarleg til sín skynsemi innvígðra og innmúraðra: Nýi Landspítalinn við Hringbraut, Barónsstíg og Eiríksgötu. Einkennin eru sláandi.“

  Og þau orð ríma vel við niðurlagsorð frábærs pistils Hilmars:

  „Aðferðin sem aparnir velja; að heyra ekkert, sjá ekkert og segja ekkert leiðir samfélag þeirra ekki til framfara. Þessi mynd minnir á Ísland fyrir hrun og jafnvel líka Ísland í dag. Í apasamfélaginu næst enginn árangur eða framfarir, enda eru þetta auðvitað bara apar.“

 • Pétur Örn Björnsson

  Bara smá ábending; athugasemd Tryggva #15, sem Gauti vísar til, er við þennan pistil:

  http://blog.eyjan.is/arkitektur/2012/05/14/harpa-eins-ars/

 • Guðl. Gauti Jónsson

  Mér finnst pistill Tryggva Tryggvasonar (#15) hér að ofan sérlega athyglisverður ekki síst fyrir þá innsýn sem hann veitir í samskipti verktaka og erlendra stjörnuarkitekta við okkur þessa dauðlegu (sem við erum þrátt fyrir allt flest en þó ekki öll). Tryggvi lýsir ágætlega þessu samskiptamynstri sem ég kannst vel við frá árum áður t.d. í samskiptum AÍ við Borgina og/eða Framkvæmdasýslu ríkisins. Hann forðast líka að taka að sér fórnarlambshlutverkið sem er til fyrirmyndar.

  Tryggvi segir líka: „Risaverkefni eins og Harpan eiga það til að eignast sjálfstætt líf, verða e.k. svarthol sem sogar til sín alla skynsemi þeirra sem eru innvígðir og innmúraðir.” Þetta þekkjum við öll enda nánast einkenni á íslenskri umræðu- og framkvæmdahefð. En þetta á líka við í ekki svo stórum og jafnvel í litlum verkefnum. Þekkja menn ekki Þorláksbúðir um allt land frá öllum tímum?

  Þessi pistill minn hefur víst aldrei fjallað um umræðuefnið sjálft sem er Harpan þó nóg séu um hana að segja. Ætli ég botni hann ekki með því að nefna það verkefni sem að mínu mati er öflugasta svartholið í dag og sogar svo sannarleg til sín skynsemi innvígðra og innmúraðra: Nýi Landspítalinn við Hringbraut, Barónsstíg og Eiríksgötu. Einkennin eru sláandi.

 • Pétur Örn Björnsson

  „Aðstöðuapi“, er þetta þitt framlag til umræðunnar?

  Mér sýnist Þorsteinn taka upp boltann frá Hilmari og leika honum ágætlega.

  En til að koma þér aftur í leikhæft form, hver er afstaða þín til pistils Hilmars?

 • Aðstöðuapi

  Glæsilegt innlegg hjá þér Þorsteinn og prýðilegt dæmi um þá umræðuhefð sem Hilmar er að gagnrýna.

 • Þorsteinn

  Arkitektar eru nú ekki svo heftir að þeir þori ekki að tjá sig. Bara hér við þessa færslu eru einir 8 sem skrifa undir fulli nafni.

  Í færslu hér á undan (um Hörpuna) er gríðrlega gott innslag eftir Tryggva Tryggvason arkitekt. Þar svarar hann mjög málefnalega og leggur til umræðunnar mikilvæga hluti.

  En ég held samt að „aparnir“ í arkitektastétt séu of margir. Til dæmis er aldeilis ótrúlegt að þeir sem hafa verið að vinna að skipulagsmálum skuli ekki þora að skýra út sína aðkomu að verkunum eins og Tryggvi gerir varðandi Hörpuna.

  Er skipulagsfólkið ekki einmitt aðal „aðstöðuaparnir“ eða „klíkuaparnir“.

 • Baldur Ó. Svavarsson

  Ákaflega skemmtilegur, fróðlegur og nausynlegur vettvangur sem þú hefur skapað Hilmar . Margt satt og rétt í þessum nýjasta pistli. Langar að leggja orð í belg varðandi skipulagsmálin.
  Sjálfur henti ég mér í djúpulaugina hér í Garðabænum og gekk gegn gömlum félögum hér innanbæjar ekki síst vegna óánægju með skipulagsmálin . Fór í minnihlutaframboð og endaði í skipulagsnefnd bæjarins (sem var markmiðið). Er þarna eini fagmaðurinn fyrir utan embættismennina. Einn úr minnihlutanum og fjórir frá meirihlutanum. Allt hið ágætasta fólk. Þarna hef ég lært margt um hvernig þessi skipulagsmál ganga fyrir sig – og margt komið á óvart, s.s hvernig umræðan fer fram, ákvarðanir með og án aðkomu nenfdarinnar. Hversu aktívir embættismennirnir eru í nefndarstörfum og ákvaraðantökunni o.fl.
  Mest hefur það þó komið á óvart hversu sjaldan framtíðin er rædd, þ.e. samhengi hlutanna og afleiðing einstakra skipulagákvarðanna m.t.t. langrar framtíðar. Til þess virðist enginn tími því það er svo stutt í framtíðina – aðeins 4 ár.
  Í þessu samhengi er t.a.m. merkilegt og nánast sorglegt til þess að hugsa að í engu hinna nýrri bæjarfélag hérlendis hefur t.d. tekist að skapa lífvænlegan og aðlaðandi miðbæ, miðju- kjarna eða hvað við viljum kalla þennan miklvæga vettvang hvers bæjarskipulags. Þessar miðbæjarómyndir í umhverfis höfuðborgina eru ekki einasta allar með tölu skipulagslega misheppnaðar, heldur einnig útlitslega óaðlaðandi . Allir urðu þeir þó til á tímum arkitekta hérlendis. Í Garðabæ hefur t.d.staðið til að byggja miðbæ í yfir 50 ár – á fjögurra ára fresti . Ný framtíð eftir hverjar kosningar. Hann mun rísa en verða ónýtur sökum fyrri ákvarðana.
  Til þess að ná fram vandaðri heild fyrir höfuðborgarsvæði þarf að nauðsynlega að virkja tvö “ný“ skipulagsstig af mun meiri krafti og ákveðni. Annars vegar er það Svæðisskipulagið og hins vegar gerð s.k. rammaskipulags fyrir stærri svæði (stigið milli aðalskipulags og deiliskipuags). Eitt mikilvægasta verfærið til þess að ná fram vandaðri heild og sýn til lengri framtíðar fyrir stærri hverfi og bæjarhluta. Þetta skipulagsstig er illu heilli ekki enn lögfest sem sérstakt skipulagsstig og er því valkvætt. Þyrti þó nauðsynlega að verða það svo koma megi böndum á skipulagsóreiðuna – bútasauminn og þessa stuttu fjögurra ára framtíð.
  Reykjavíkurborg ríður á vaðið með áætlun um gerð s.k. hversiskipulaga sem er í ætt við umrætt rammaksipulagstig. Það verður spennandi að fylgjast með þeirri vinnu.

 • Fín grein.

 • Guðl. Gauti Jónsson

  Enn ein úrvalsgreinin úr penna Hilmars Þórs. Hilmar skrifar sjálfur á opnskáan en einlægan og málefnalegan hátt sem hefur vakið upp jákvæða og faglega umræðu. Leitt þykir mér að heyra ef hann telur sig verða fyrir óvild eða aðkasti vegna þessa. Vonandi verður það ekki til þess að Hilmar láti deigann síga og greinin bendir hreint ekki til þess.

  Vefsíða Hilmars verður 3ggja ára í haust og hefur tekið á mörgum og fjölbreyttum málum. Ég held hann hafi haft talsverð áhrif þó það sé etv ekki beint í hendi.

 • Jón Guðmundsson

  Ég stend upp fyrir þér Hilmar og tek undir hvert orð í þessum magnaða pistli þínum.

  Dilkadrátturinn og hópsálarheilkennið er eitt af sterkustu einkennum okkar þjóðar. Samræðuhefðin endurspeglast í tungumálinu, okkur skortir í málið nauðsynleg hugtök yfir ótrúlegustu hluti. Í staðinn notum við upphrópunarkennda frasa, málshætti, orðtök, spakmæli eða tilvitnanir í Laxness.

  Við arkitektar erum sjálfir eins og þorskar á þurru landi verandi þeir eldri allir menntaðir erlendis. Þannig hugsum við líklega margir arkitektúr upp á dönsku, aðrir á ensku og margir á þýsku. Fagleg samræðuhefð á ástkæra ilhýra málinu á þannig sérstaklega erfitt uppdráttar í okkar stétt.

  Við erum um 300.000 besserwisserar hér á skerinu, við drögum okkur í dilka og tökum upp retorikk hjarðarinnar.
  Verst af öllu eru ranghugmyndirnar sem við höfum um okkur sjálf. Í Reykjavík, bókmenntaborg UNESCO er fjórði hver unglingsdrengur illa læs. Á óspillta hreina tæra Íslandi á sér stað mesta jarðvegseyðing norðan Sahara ár hvert. Þrátt fyrir endurnýjanlega orku er vistspor íslendinga það stærsta á meðal þjóða heimsins.

  Við heyrum ekkert, sjáum ekkert og skiljum ekkert vegna þess að við látum fara allt of vel um okkur í dilkunum.

 • Pétur Örn Björnsson

  Gleyma kjörnir fulltrúar ábyrgð sinni og skyldum um leið og þeir setjast í valdastólana?

  Eða hugsa þeir aðeins um réttindi sín og hygla já-bræðrunum, sem mala í stíl þeirra?

  Já, og ég þekki marga lækna og hef heyrt frá þeim að nokkrir sem hafi gagnrýnt hafi einnig verið settir út í kuldann.

  Er það efnd loforðanna um „Nýja“ (Sic!) Ísland?

 • Pétur Örn Björnsson

  Mér finnst athugasemd Páls Torfa segja okkur raunsanna, en um leið óhugnanlega sögu og ég spyr mig hver sé þá eiginlega munurinn á hreinræktuðum nómenklatúru stalínisma og samfylktum og samtryggðum bíró-teknó-kratisma? Miðað við þetta er þar einungis stigsmunur en ekki eðlis. Viljum við þannig samfélag þar sem menn þora ekki að gagnrýna vegna ótta um „hefnd“ frá opinberum stjórnsýslustofnum? Að setja fólk markvisst út í kuldann vegna gagnrýni minnir á Gúlag lýsingar:

  „Svarið frá einum þeirra var: \“Þöggun\“. Þegar ég hváði þá sagði hann, að þeir sem gagnrýni fái ekki verkefni (og verkefnin fyrir arkitekta séu ekki svo mörg þessa dagana). M.ö.o. eru þeir sem reyna að stofna til umræðu settir út í kuldann. Og það eru ekki bara arkitektarnir.“

  Hvað segja þeir skipulagsráðsmenn sem mynda meirihlutann, Dagur B. Eggertsson og Páll Hjaltason og bókmenntamaðurinn Hjálmar Sveinsson, um þetta? Finnst þeim þetta bara eðlilegt og sjálfsagt mál?
  Af hverju svara þeir ekki, heldur beita ískaldri þögninni?

 • ps. það má alveg skrá sig með dulnefni í pottinn, en eins og þið vitið, maður er berskjaldaður í svona potti…
  við reiknum með uppbyggilegum umræðum og vonum að enginn kúki í pottinn, því þá verður að henda honum uppúr

 • Mikið af því sem hefur verið sagt á þessum þræði kannast ég við úr viðtölum sem ég hef tekið við arkitekta og skipulagsfólk síðasta árið.

  Arkitektar líta oft á sig sem þann sem er í mesta lagi í aðstöðu til að fegra slæmt ef ekki glatað verkefni…eins konar leiktjaldahönnuð.

  Skipulagsfólkið lítur á sig sem aðila sem er í aðstöðu til að kenna stjórnmálamönnunum. Eins konar kennarar sem þess utan hafa engin ítök, en eiga svo að skrifa undir og færa rök fyrir að niðurstaða sé í samræmi við lög. Svo koma kosningar og nýr „bekkur“ sem hefur lítið eða ekkert vit á skipulagi og ýmis markmið sem ekki endilega samrýmast hagsmunum íbúa.

  Þetta virðist slæm nýting á sérþekkingunni í landinu og það á vettvangi sem er skuldum vafinn fyrir ríki, sveitarfélög og heimili.

  Ég bið um hjálp til að brjóta útúr vítahringnum og bendi á :

  heitipotturinn.freeforums.eu

  spjallsíðu sem reifar leiðir til að gera það.

  Hér þarf samvinnu bæði hinna ungu, sem hafa ferska sýn, og hinna eldri sem vita hvernig kaupin gerast á eyrinni og gætu lumað á hugmyndum um hvaða reglum þyrfti að breyta og hvernið það væri hægt.

  Ég hvet ekki bara hönnuði til að skrá sig og taka þátt í þeirri samræðu, heldur líka íbúa sem geta miðlað því hvar skóinn kreppir og fengið góð ráð.

 • Pétur Örn Björnsson

  Hvernig væri það nú, að arkitektar stæðu saman í stað þess að hlaupa um í klíkunum, „jarmandi stoltir“ … en yfir hverju?
  Að níða niður þá kollega sína, sem þora að gagnrýna?

 • Pétur Örn Björnsson

  Efninu skylt skelli ég hér inn ljóði baráttuskáldsins tyrkneska, Nazim Hikmets inn í þýðingu minni, því sjaldan er gott ljóð of oft kveðið:

  MESTA FURÐUVERKIÐ Á JÖRÐINNI

  Þú ert eins og sporðdreki, bróðir,
  lifir í þínu huglausa myrkri
  eins og sporðdreki.
  Þú ert eins og spörfugl, bróðir,
  alltaf á sífelldu flökti.
  Þú ert eins og skeldýr, bróðir,
  lokaður í skelinni, sjálfum þér sæll.
  Þú ert skelfilegur, bróðir,
  eins og munnur gígsins, útbrunninn.
  Ekki einn,
  ekki fimm,
  því miður, þú ert einn af milljónum.
  Þú ert eins og sauður, bróðir,
  flykkist í hjörðina,
  þegar smalinn hóar ykkur saman
  og hleypur fagnandi, jarmandi stoltur,
  beinustu leið til slátrunar.
  Þú hlýtur að skilja orð mín.
  Þú ert mesta furðuverkið á jörðinni,
  meira að segja furðulegri en fiskurinn
  sem sér ekki hafið fyrir dropunum.
  Kúgun valdhafanna er vegna þín, bróðir.
  Og ef hungrið, sárin og nagandi þreytan
  sækja okkur heim
  og við erum kramdir í spað,
  eins og berin í víni okkar,
  er það vegna þín, bróðir.
  Ég get varla fengið mig til að segja það,
  en mestu sökina – kæri bróðir – átt þú.

 • Pétur Örn Björnsson

  Hárrétt hjá þér Hilmar.

  Þöggunin í þessu samfélagi bendir til þess að allt of margir hafi hag af því að þagga alla gagnrýni niður. Og þeir sem það gera eru okkar verstu bræður og okkar verstu systur, þó þau þykist vera best og voða, voða góð, en eru valdgráðugir hræsnarar, sem níða okkur hin sem bara viljum opna á heilbrigða umræðu.

  Orð eru til alls fyrst; látum ekki þagga niður í okkur sem þorum að gagnrýna helgimyndklastur hinna skinheilögu.

 • Guðjón Erlendsson

  Eitt vandamálið er skrítin pólitík á landinu. Erlendis er ég vanur því að stjórnmálamenn og stjórnendur séu first ogfremst metnir af leiðtogahæfileikum og karisma, en á Íslandi reyna menn að komast áfram á „hugmyndaríki“ sínu. Erlendis fá stjórnendur til sín sérfræðinga til ráðgjafar og taka ákverðanir út frá því sem þeir telja vera bestu tökin (Bretar kalla þetta „White Paper“) en heima þurfa þeir að sýnast eiga „hugmyndina“ sjálfir.
  Það er ekki þar með sagt að Íslenskir stjórnendur séu eitthvað mjög hugmyndaríkir, oft eru þessar hugmyndir fengnar að láni frá öðrum. En Þetta þýðir að stjórnendur telja (rétt eða rangt) að staða sín rísi og falli með þessum hugmyndum sínum, og verja þær með kjafti og klóm sama hve rangar þær hafa sannast. Háskólasjúkrahúsið er eitt slíkt dæmi.
  Skipulaginu hefur nánast frá upphafi verið samansafn af ótengdum hugmyndum, Mislæg Gatnamót hér, Verslunarmiðstöð þar, Bryggjuhverfi þar. Það hafa verið haldin heilu stjórnmálabarátturnar sem byggðu á hvort úthverfi sé uppi á hæð eða niður við fjöru. Ég held að enginn stjórnmálaflokkur á landinu hafi skipulagsráðgjafa í stefnumótun byggðarmála. Né hef ég séð setta fram heilstæða stefnu í skipulagi borgarinnar sem fylgt er eftir. Þetta hefur verið raunin síðan Guðjón Samúelsson gerði fyrsta skipulagsuppdráttinn árið 1924.
  Ég held að það séu fullt af góðu fólki bæði í skipulaginu og pólitíkinni, en allir virðast vera fangar þessara „hugmynda-pólitíkur“. Kennedy fann ekki upp geimflaugar, né fór hann til tunglsins.

 • Björn H. Jóhannesson

  Sígildur texti í Innansveitarkróniku Halldórs Kiljans Laxness er við hæfi sem endranær og hér til stuðnings grein Hilmars:

  “ Því hefur verið haldið fram að íslendingar beygi sig lítt fyrir skynsamlegum rökum ,….., en leysi vandræði sín með því að stunda orðheingilshátt og deila um titlingaskít sem ekki kemur málinu við, en verði skelfingu lostnir og setji hljóða hvenær sem komið er að kjarna máls…..”

  Björn H. Jóhannesson

 • Það er margt til i þessu hjá þér Hilmar, sérstaklega þegar kemur að skipulagsmálum Borgarinnar. Þar virðist mér hagsmunir borgarbúa oft fyrir borð bornir. Þeir sem ráða ferðinni, stjórnmálamennirnir, eru oftar en ekki undir miklum þrýstingi frá einstökum lóðarhöfum og starfsmenn skipulagsins virðast vera í einhvers konar þjónustuhlutverki við þessu öfl. Ég hef gagnrýnt þessi vinnubrögð og fengið bágt fyrir. En hvað með það, það þýðir ekki að láta deigan síga og oft hefur barátta borgarbúa gegn áformum yfirvalda skilað árangri. Ég minnist þess að um 1970 urðu mikil og kröftug mótmæli gegn niðurrifi gamalla húsa og húsaþyrpinga í miðborginni og þá tókst að bjarga mörgum þeirra svo sem Bernhöftstorfunni, Grjótaþorpinu, húsi Thors Jensen o.fl. Á þessum árum var gerð fyrsta húsakönnunin á Íslandi og mörg hús vor friðuð. Rætt var um að skapa manneskjulegt umhverfi þar sem félagslegir þættir fengju meira vægi. Þetta, ásamt auknum kröfum um orkusparnað o.fl, leiddu til gagnrýni á forsendur módernismans í arkitektur og skipulagi. Mér sýnist að við séum aftur á tímamótum, þar sem umhverfismálin eru í brennidepli. Spennandi verður að fylgjast með hvernig menn bregðast við þeim , ekki síst unga fólkið.

 • Herta Kristjánsdóttir

  Sammála hverju orði…

 • Páll Torfi Önundarson

  Þetta er hárrétt. Um daginn birti ég tillögu mína og Magnúsar Skúlasonar arktekts að lausn við nýbyggingu Landspítala í Fréttablaðinu. Okkar tillaga er viðbygging en ekki nýbygging frá grunni. Lausn sem gæti verið í sátt við nágranna, umhverfið og skipulag gömlu borgarinnar.

  Viðbrögðin frá málsvara núverandi áætlana voru ómálefnaleg. Þar var vaðið í manninn en ekki málefnið. Þetta geta menn lesið á netinu eða í Fréttablaðinu.

  Ég hef spurt arkitekta sem rætt hafa við mig og lýst stuðningi við hugmyndir mínar hvers vegna þeir ríði ekki á vaðið og styðji opinberlega nánari rýni á þennan valkost. Svarið frá einum þeirra var: \“Þöggun\“. Þegar ég hváði þá sagði hann, að þeir sem gagnrýni fái ekki verkefni (og verkefnin fyrir arkitekta séu ekki svo mörg þessa dagana). M.ö.o. eru þeir sem reyna að stofna til umræðu settir út í kuldann. Og það eru ekki bara arkitektarnir.

 • Egill Helgason

  Satt og rétt.

 • Satt og rétt. Því miður.

  Takk fyrir að halda úti þessu góða bloggi.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn