Miðvikudagur 20.08.2014 - 08:18 - 14 ummæli

Staðfesta í borgarskipulagi

 2013-06-13 13.29.24

 

Meðal athugasemda sem bárust Reykjavíkurborg, þegar skipulag Vatnsmýrarinnar var þar til umfjöllunar í vetur, var hugleiðing Bolla Héðinssonar hagfræðings sem hann sendi sem umsögn um skipulagstillögurnar. Bolli er áhugamaður um borgarskipulag og byggingalist og tengir gjarnan þessi áhugamál fræðigrein sinni, hagfræðinni.

Hann telur fyrirhugað hverfi í Vatnsmýri boða nýja tíma  og ný tækifæri í Reykja­vík. Þar gefst færi á að byggja hverfi af þeirri tegund sem mest er þörf fyrir í borginni. 

   

Umsögn Bolla tekur á viðfangsefnum sem vert er að gefa gaum og því er hún birt hér.  Sjónarmið hans eiga erindi í skipulagsumræðuna  og vil ég þakka honum sendinguna. Ég mæli með því að fólk lesi þetta og íhugi sjónarmiðin sem þar koma fram.

Myndefnið sem fylgir færslunni er fengið frá höfundi.

 

Staðfesta í borgarskipulagi

 

Með skipulagi Vatnsmýrarinnar hillir loks undir að í Reykjavík verði til stórt heildstætt „mið­borgar­hverfi“ sem færir hana nær því að geta risið undir kröfum um blöndun búsetu og at­vinnu sem borginni er nauðsyn. Aðeins þannig fær hún gegnt hlutverki sínu sem höfuðborg og sem borg sem tryggir Íslendingum lífsgæði sem aðeins er í boði þegar borgir hafa náð ákveð­i­nni stærð.  Þessa tegund fjölbreytileika getur orðið að veruleika í því hverfi sem til stendur að byggja í Vatnsmýri.

Þegar einstakt tækifæri gefst nú til að skapa slíkt hverfi í Reykjavík þarf að vanda til verka og sýna staðfestu í uppbyggingu þess.  Þannig skiptir máli að öll Vatnsmýrin verði skipulögð sem eitt svæði þó svo að einstakir hlutar svæðisins komi inn til byggingar á mismunandi tímum.

Á svæðinu er brýnt að skapa „borgar-anda“ sem aðeins næst með samspili þess…

  • …hvernig göturnar eru lagðar,
  • …þéttleika gatna og
  • …þéttleika bygginga,
  • …hæð húsa og
  • …hlutfallinu milli atvinnuhúsnæðis og íbúða.

Þetta gildir jafnt um svæðið allt, hluta þess sem og einstakar byggingar.

Uppskriftin að skipulagi þeirra borga og borgarhluta í Evrópu sem eftirsóknarverðast þykir að búa í er afar einföld.  Yfirleitt eru þetta hverfi sem byggðust upp eða voru skipulögð á ára­bilinu 1850 – 1930.  Stærstu drættir slíks skipulags eru, að þar er víðast að finna verslanir og þjónustu á jarð­hæðum húsanna, en íbúðir á hæðunum þar fyrir ofan.

Þrátt fyrir áðurgreinda megin­drætti um hvað er að finna í einstökum húsum þá útilokar það alls ekki að þar séu einnig barnaskólar, háskólastofnanir, minni leikhús/samkomuhús o.þ.h. innan um verslanir og veitingahús auk allskyns persónulegrar þjónustu.

2013-10-15 17.03.35

Hér er komið að afar mikilvægum þætti í skipulagi hverfis af því tagi sem fyrir­­hugað er að rísi í Vatnsmýri.

Auk þess sem áður er getið um gæði Vatnsmýrar­hverfisins þá er rétt að ítreka að í því tilliti  er einna mikil­vægast samspil íbúða og þjónustu.  Þ.e. þeir sem kjósa að búa á svæðinu, þeir eru að leita eftir mann­lífi sem tengist þeirri þjónustu sem þar er að finna.  Ekki endilega vegna þess að þeir séu svo miklir notendur þeirrar þjónustu sem þar er í boði heldur að einmitt þar standi hún öllum til boða.  Því skiptir það máli að ekki verði síðar veittar undan­þágur frá skipt­ingu húsnæðisins í þjónustu og íbúða­r­hús­næði. Mikið af þeirri þjónustu fellur sjálf­sagt undir eitthvað sem nefna mætti „ómerki­lega starfsemi“ en samt ein­mitt starf­semi sem er til þess fallin að gera hverfi eftir­sóknarverð að búa í.  Hér má nefna snyrti­stofur og allskyns verslun þar sem er verið að sinna sértækum þörfum og áhugamálum viðskipta­vinanna.

Viðbúið er að þegar húseigandi telur sig ekki fá nægjanlega háa leigu fyrir þjónustuhúsnæði í hans eigu (eða telur sig ekki geta selt þjónustu­hús­næðið við því verði sem hann setur upp) þá mega borgaryfirvöld á hverjum tíma alls ekki verða við beiðnum um að breyta notkun hús­næðis­ins úr þjónustu- í íbúðarhúsnæði. Verði það gefið eftir þá glatast það samspil íbúða og þjón­ustu sem íbúarnir í hverfinu eru að leita eftir og hverfið verður smátt og smátt eins­leitt íbúða­hverfi. Þetta hafa orðið örlög þeirra fáeinu gatna í Reykjvík þar sem var að finna vísi að slíku sam­spili. T.d. Grundar­stígur, Óðins­gata svo fáeinar götur séu nefndar. Hús­eigendurnir hafa ekki talið sig fá nægjan­­lega hátt verð fyrir verslunar­­hús­næði, hvort sem er í útleigu eða sölu, svo því hefur verið breytt í íbúðarhúsnæði.

Hér mega borgaryfirvöld ekki gefa eftir þum­lung.  Vanda­málið er nefnilega ekki að hús­eig­andinn fái ekki nógu háa leigu fyrir hús­næðið, heldur er vanda­málið að hús­eig­andinn er ekki reiðu­búinn að sætta sig við lága leigu fyrir hús­­næðið, fyrir einhverja þá starf­semi sem þar gæti þrifist, væri leigan nægjanlega lág. Hús­eig­andanum verður að vera ljóst frá byrjun að við­komandi hús­næði er ekki ætlað undir íbúðir og að frá þvi verði ekki hvikað.

2013-08-23 17.38.32

Gera verður ráð fyrir að vel sé séð fyrir almennings­samgöngum í Vatns­­­­mýrarskipulaginu og tryggt að strætis­vagnar séu á sérstöku akrein/spori sem geri þeim kleift að hafa forgang í umferðinni.

Í hverfum þeim sunnar í Evrópu sem hér hafa verið skoðuð til samanburðar eru húsin yfirleitt 5-7 hæðir og standa jafnframt þétt við götu, randbyggð. Viðbúið er að það séu full há hús fyrir Vatnsmýrarhverfið m.t.t. skuggavarps.  Rand­byggðin er hins vegar mjög mikilvæg til að tryggja hinn eftirsóknarverða karakter hverfisins en viðbúið er að húsin þurfi að vera lægri í Vatns­mýrar­hverfi.

2013-08-03 13.56.31

Heppileg leið til að sjá bregðast við skuggavarpinu gæti verið að hafa húsin lægri norðan megin hverrar einstakrar götu. T.d.  upp á 4-5 hæðir (í rand­byggð um­hverfis lokaðan inni­garð) á meðan að húsin sunnan megin í slíkri þyrpingu væru 3-4 hæðir.  Aldrei verður þó séð við skugga­varpinu að fullu, frekar en í borgum sunnar í Evrópur, en þetta þó viðleitni til að draga úr því.

IMG_4770

Á hinu vindasama Íslandi hefur byggð hvergi verið hönnuð bein­línis til draga úr áhrifum vinds á byggðina.  Í Vatns­mýrar­­hverfi gefst einstakt tæki­færi til þess.  Nyrst í Vatns­mýrarhverfi, úti við Hring­­­braut, gefst færi á að byggja hús af öðru tagi heldur en sunnar og innar í hverfinu án þess að það hafi áhrif á karakter hverfisins.  Þar gefst tækifæri á að hanna hús m.t.t. vinda­fars þannig að húsaröðin,  eða húsa­raðirnar, næst Hringbraut myndi með einum eða öðrum hætti „skjólvegg“ fyrir norðanátt fyrir hverfið allt. Húsin geta bæði verið allmiklu hærri en húsin almennt í hverfinu og einnig breiðari ef því er að skipta. Hér skiptir mestu máli að hönnun þeirra húsa verði þaul­prófuð áður, með líkanagerð, í þar til gerðum vind­göngum  þannig að þau raun­veru­lega brjóti vind en skapi ekki vind­hviður líkt og reyndin hefur verið með hús í hærri kantinum í Reykjavík og ná­grenni.

Staðsetning húsanna við Hring­braut  leiðir til nokkurs skugga­varps inn á Hringbraut sem kemur ekki að sök þar sem það lendir ekki á íbúða­byggð.

Auk þess sem mögu­lega er hægt að draga úr norðanvindi með þessum út­hugsuðu „vind­­brjótum“ nyrst í hverfinu þá ætti þéttleiki gatna innan hverfis­ins einnig að geta orðið til að draga úr stöðugum vindi og skapa aukna mögu­leika á meiri umferð gangandi veg­far­enda árið um kring.

IMG_4789

Annar kostur við hærri hús nyrst í hverfinu, auk veður­farslegs tillits,  er að þar gefst færi á að bæta verulega í íbúa­fjölda hverfisins án þess að karakter þess breytist að öðru leyti.  Á svæðinu nyrst gæti þéttleiki byggðarinnar verið til muna meiri vegna hærri húsa en þeir íbúar sæktu eftir sem áður inn i hverfið til suðurs eftir atvinnu og þjónustu.

Hverfið í Vatnsmýri boðar nýja tíma í Reykja­vík. Þar gefst færi á að byggja hverfi af þeirri tegund sem mest er þörf fyrir í borginni.  Borgin og nágrannasveitarfélög sjá nú þegar fyrir byggð fyrir sérbýli auk fjölbýlishúsa sem byggð eru við rúmar aðstæður með túnflötum og opnum svæðum.  Vaxandi eftirspurn hefur verið eftir hverfi af því tagi sem hér að framan er lýst og þessvegna sérstaklega ánægjulegt að borgin geti brugðist við þeirri eftirspurn með jafn myndarlegum hætti og Vatnsmýrarhverfið býður upp á.

 

Hér eru slóðir að færslum sem tengujast Vatnsmýrinni.:

Vatnsmýrarsamkeppnin-Upprifjun

Ef slegið er inn orðið Vatnsmýri í leitarboxinu til hliðar koma upp fjöldi pistla um málefni Vatnsmýrarinnar.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (14)

  • Sigurður Ingi Jónsson

    Pistillinn er góður, innan þess ramma sem hann setur sér. Ég tel hugsanavillu að tengja þessar vangaveltur Vatnsmýrinni. Það er ljóst að, eins og staðan er í dag, að Vatnsmýrin mun ekki losna undir heildstæða byggð næstu áratugina. Skipulagssamkeppni sem haldin var um svæðið var í besta falli samkvæmisleikur, en áður en til hennar var blásið átti að liggja fyrir hvort hægt væri að flytja flugstarfsemi annað. Það liggur ekki fyrir enn. Ýmislegt fleira mætti tína til. Eftir stendur nauðsyn þess að skoða skipulag með heildstæðum hætti og á raunhæfum forsendum. Hilmar Þór bendir á Hæga breytilega átt. Ég hristi hausinn eftir kynninguna sem ég sat. Kynnt voru fjögur hverfi sem ekki horfðu út fyrir nafla sinn og sérstaklega í tilfelli Skeifunnar var horft algerlega framhjá þeirri þjónustu sem þar er veitt fólki af mjög stjóru búsetusvæði.

  • Orri Ólafur Magnússon

    Er það ekki rétt til getið hjá mér að ljósmyndirnar sýni götur í Muenchen ? Mér er reyndar ekki alveg ljóst, hvernig þær tengjast framtíðararskipulegi Reykjavíkur – flugvallarsvæðis . Ég er sömu skoðunar Jón Gunnarsson – ekki vinnandi vegur að þjappa „100 ára byggingasögu“ saman á örfáum árum – minnir glæfralega á þessa misheppnuðu „sögulegu“ borg sem Disney-samsteypan lét reisa einhvers staðar í óbyggðum USA

  • Árni Ólafsson

    Í grein Bolla koma fram áhugaverðir og mikilvægir punktar um borgarbyggðina og hvernig stuðlað verði að því að ná eftirsóknarverðum eiginleikum borgarumhverfisins. Þessi sjónarmið eiga við alls staðar í borginni – og ekkert sérstaklega við Vatnsmýrina.

    Með vísan í sjónarmið Hilmars hér fyrir ofan gæti borgin stuðlað að því að móta borgarumhverfi með miðborgareiginleika með uppbyggingu og endurnýjun byggðar eftir samgönguásnum endilöngum – frá Kvosinni að Keldnaholti. Þá yrði smám saman til samfelld, fjölbreytt og þétt borgarbyggð með miðborgardráttum í grennd við öll núverandi úthverfi Reykjavíkur. Ásinn yrði línubær sem hnýtti saman þá sundruðu bílaborg sem við búum við í dag.

    Áherslan á Vatnsmýrardrauminn gæti skilið austurborgina eftir óbætta hjá garði með sína úthverfaeiginleika (sem vissulega hafa sína góðu kosti en einnig alvarlega galla), aukið á efnalega og félagslega sundrung og viðhaldið bílaborginni.

    • Hilmar Þór

      Hárrétt hjá þér Árni og vel orðað.

      Þetta er akkúrat sem ég hugsaði við lestur greinar Bolla. Að þessi sjónarmið eiga líka við um eldri hverfin. Guðbjörg fer lika inn á þetta hér að ofan.

      Ég ásamt öðrum vann síðastliðinn vetur að hverfaskipulagi þar sem samgönguásinn og færsla nærþjónustu inn í íbúðahverfin voru veigamikil atriði.

      Varðandi samgönguásinn sem menn (líka (kannski einkum) kollegar okkar) hafa ekki áttað sig á hann er eitt mikilvægasta einstaka atriði í aðalskipulaginu 2010-2030. Ég tók eftir að kollegar okkar í Betri Borgarbrag áttuðu sig ekki á samgönguásnum og heldur ekki þáttakendur í samkeppni í Suðarvogi og Hæg breytyileg átt var heldur ekki að velta þessu fyrir mikið fyrir sér.

      Það er í raun rosalegt áfall fyrir þá trú sem ég hafði á þeirri hugmynd að binda borgina saman í línulega borg.

      Það þarf að snerpa á samgöngúasnum sem er meiriháttar hagsmunamál fyrir alla borgarbúa og landsbyggðina alla ef því er að skipta.

    • Hilmar Þór

      Ég geymdi einu enn sem varðar samgönguás AR 2010-2030 og það er deiliskipulagið við Austurhöfn sem var á dagskrá í vor. Það er unnið af flinkum arkitektum. En þar var ekki að sjá að gerðar hafi verið sérstakar ráðstafanir vegna samgönguássins sem þar á að fara þar um.

      Mér sýnist skipulagsráð þurfi að skoða þetta sérstaklega og það er ástæða til þess að hafa áhyggjur af þessu.

    • Helgi B. Thóroddsen

      Þar sem minnst var á Betri borgarbrag (BBB) í innleggi Hilmars er tækifæri á að minna á rannsóknarverkefnið sem fjallar um þéttbýlisskipulag og byggt umhverfi, út frá sjálfbærum og hagrænum sjónarmiðum með áherslu á höfuðborgarsvæðið.
      Skýrslurnar má sjá á vefsvæðinu: http://www.bbb.is.

      Þar sem minnst er á samgönguás kemur mikið af efni BBB beint og óbeint að sambærilegum hugmyndum.
      Í skýrslunni Sjálfbærni á höfuðborgarsvæðinu, http://issuu.com/betri_borgarbragur/docs/sja__lfb__rni_a___ho__fu__borgarsv_ eru settar fram hugmyndir um sjálfbærnikjarna um allt höfuðborgarsvæðið sem eru samtengdir með öflugum almenningssamgöngum.
      Í skýrslunni Suðulandsbraut-Vesturgata, http://issuu.com/betri_borgarbragur/docs/sudurlandsbraut-vesturgata er greining og samantekt á umhverfi samgönguássins.

    • Hilmar Þór

      Þakka þér ábendinguna Helgi.

      Þetta er vissulega góð vinna sem unnin var af BBB og þið sem að stóðuð eigið hrós skilið.

      Það sem ég er að velta fyrir mér er að áform um samgönguásinn fær ekki þann stuðning sem ég átti von á. Mér finnst jafnvel eins og hann hafi stundum gleymst (Austurhöfn) Þessi fjögur dæmi sem ég nefndi gefa ekki tilefni til bjartsýni.

      Þ.e.a.s. deilskipulag við Austurhöfn, Vinna BBB og Hægrar breytilegrar áttar og svo samkeppnistillögur við Súðarvog. Í þessum tilfellum finnst mér samgönguásinn ekki fá þá athygli sem hann á skilið.

      BBB fjallar vissulega um samgönguás á fyrri stigum en þegar grannt er skoðað þá blasir við að teymið slakar á í nýustu skýrslu sinni frá þessu ári, „Upp sprettur borg“ en þar hallar verulega á samgönguás aðalskipulagsins.

      Þó hugmyndin sé reyfuð á fyrri stigum. m.a. í skýrslunni um Vesturgötu sem þú bendir á þá, er skýrslan frá í ár ekki i fullu samræmi við eldri skýrslur BBB.

      T.a.m. er aðeins ein almenningsflutningsakrein sýnd við samgönguásinn en tvær eftir Miklubraut. Svo sýnir yfirlitsmyndin á síðu 85 annan almenningsflutningsstruktúr sem gengur á skjön við fyrirhugaðan samgönguás AR-2010-2030 sem er ekki einusinni teiknaður inn.

      Auðvitað kann að vera að ég misskilji þetta eitthvað og bið ég um að vera leiðréttur ef svo er.

      En þessi vetvangur er öllum opin og tek ég með ánægju við efni frá ykkur sé þess óskað.

    • Helgi B. Thóroddsen

      Skýrslan Vesturgata-Suðurlandsbraut er fyrst og fremst greining á núverandi ástandi.

    • Hilmar Þór

      Ef við komandi skýrsla „Vesturgata-Suðurlandsbraut“ er greining á núverandi ástandi og skýrslan „Upp Sprettur Borg“ endanleg niðurstaða sýnist mér enn meiri ástæða til þess að hafa áhyggjur af samgönguás aðalskipulagsins.

  • Steinarr Kr.

    Ég er flugvallarvinur, en finnst greinin athyglisverð og er mikið til sammála.

    Verði þessar hugmyndir að veruleika er líklegt að hönnuðir dagsins í dag missi tvö helstu tískutólin úr sínum verkfærakistum. Sveigðar götur og hringtorg. Feginn yrði ég.

  • Jón Gunnarsson

    Á öllum myndunum sem fylgja greininni má sjá að dæmin eru ekki byggð í einum áfanga. Þarna standa hús hlið við hlið sem byggð eru með 100 ára millibili. Það segir sína sögu og gerir göturnar safaríkari. Spurningin er hvort þessum anda sé yfirleitt hægt að ná í einni framkvæmd á kannski 10-15 árum? Hvaða stíll verður ráðandi? Í dæmunum eru stílbrot sem hafa komið og farið á heilli öld eða meira! En meginmálið er staðfestan sem borgina skortir. Dæmi: svörtu húsin í Skugganum.

  • Gildandi skipulag dregur úr uppbyggingingu „hverfa brostinna vona“ og stefnir að því ,að þétta eldri og vaxin hverfi:sem sagt skipulag í samræði við umræðuna allstaðar í Evrópu.
    Flugvöllurinn á að hverfa „í áföngum“ og vissulega á að stefna að því,að á svæðinu myndist sviðaður borgarstrúktúr og allstaður er „vinsæll og eftirsóttur“ í dag: þ.e. í anda Camillo Sitte og uppbyggingu borga Evrópu frá miðri 19. fram á miðja 20.öld.
    Pistill Bolla bendir á ,að „borgarvöld mega ekki gefa eftir“,til að heilsteypt og lifandi hverfi verði þarna til í framtíð.
    Af hryggilegum dæmum um „að gefið var eftir“ er meir en nóg til, eins og frábært skipulag af „Postamer Platz“ í Berlin (Hilmer/Sattler 1991!) sýnur okkur í dag.

  • Guðbjörg

    Mér skilst að í aðalskipulaginu sé stefnt að því að nærþjónustan verði inni í hverfunum og að ekki verði lengur leyft að breyta verslunarhúsnæði í íbúðir.

    Þetta er þrusugóð og tímabær umsögn hjá Bolla

  • Hilmar Þór

    Kollegar mínir hafa haft við mig samband í morgun og spurt hvort ég hafi skipt um skoðun og vilji nú flugvöllinn burt. Þeir segja pistilinn að ofan benda til þess.

    Ég árétta það sem ég hef margoft sagt áður að ég vil ekki að flugvöllurinn fari fyrr en ásættanleg niðurstaða er fengin um flugsamgöngur við höfuðborgina.

    Að henni fenginni er sjálfsagt að byggja í Vatnsmýrinni hafi menn efni á því.

    Hinsvegar tel ég ekki líkur á því að flugvallarmálið leysist á aðalskipulagstímabilinu 2010-2030 og því eigi skipulagsáætlanir ekki að taka mið af því að flugvöllurinn verði lagður niður enn sem komið er
    .
    Sjálfsagt er að halda uppi umræðu um málið og velta upp hugmyndum.
    Grein Bolla tekur á mjög mikilvægum þáttum í þeirri umræðu.

    Þetta er skrifuð og athyglisverð grein um skipulag þar sem tekið er á mikilvægum málum og svo er hún skrifuð af hagfræðingi.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn