Þriðjudagur 31.05.2011 - 12:28 - 10 ummæli

STEINAR OG STERKIR LITIR

Í formála bókarinnar STEINAR OG STERKIR LITIR (Skálholtsútgáfan 1965) talar Björn Th. Björnsson um hinar „þöglu listir“. Þar á hann við að myndlist og skúlptúr tali hljóðlaust til augans.  Hinsvegar talar tónlist, leiklist og ritlist til eyrans.   Ég velti fyrir mér hvar Björn hefði flokkað byggingarlistina. Ætli hún sé ekki hlóðlátust allra lista.  Því er nefnilega þannig háttað að byggingalistin gefur ekki frá sér hljóð þó hún kunni að endurvarpa því. Menn tala ekki einusinni um arkitektúr hér á landi. Það er sífellt verið að fjalla um myndlist í prent- og ljósvakamiðlum og því er hún ekki algerlega þögul. Menn ræða myndlist meðan byggingalistin situr hjá garði og fær nánast enga umfjöllun. Það er varla talað um byggingarlist hér á landi.

Ástæðan er meðal annars sú að fræðin hafa verið flutt hingað frá svo mörgum löndum og mörgum málsvæðum með menntun arkitekta að sameiginlegt tungumál um greinina hefur aldrei orðið til. Arkitektarnir tala sitt hvort tungumálið og hver hefur sín viðmið frá sínu skólalandi. Þetta hefur haft áhryf á umræðuna.

Þegar stofnað var til arkitektúrnáms hér á landi í Listaháskóla Íslands var von til þess að breyting yrði á. Vonast var til þess að arkitektasamfélagið og þeir sem fjalla um byggingarlist færu að tala sama tungumálið, íslensku.

Nú hefur verið kennd byggingarlist hér á landi til BA prófs í 10 ár án þess að merkjanleg aukning á umræðu um byggingalist og skipulagsmál hafi átt sér stað. Ég hef rökstuddan grun um að eitthvert enskudekur sé á ferðinni í arkitektúrdeild LHÍ. Því til stuðnings nefni ég að nemar skólans kynntu verkefni sitt á ensku í ráðhúsi Reykjavíkur fyrir nokkru!

En meðan  umfjöllun um byggingarlist er í skötulíki verður maður  að meta það svo að byggingalist sé hljóðlátust allra listgreina.

Ég er búinn að skrifa sérsniðna vefsíðu um arkitektúr, skipulag og staðarprýði í bráðum tvö ár. Viðtökurnar hafa verið framar vonum og hafa skrifin hér ítrekað orðið tilefni umfjöllunar í  prentmiðlum, ljósvakamiðlum og á örum vefsíðum.

Það sem veldur mér vonbrigðum er viðhorf fólks til umfjöllunarinnar. Þegar eitthvað fær hrós þá er það talin málefnaleg umfjöllun og á hinn bóginn þegar einhverju er hallmælt er umræðan talin ómálefnaleg. 

Þó ég fái mjög mikinn stuðning frá kollegum mínum þá eru einstakir farnir að kasta fæð á mig vegna skrifanna. Það er auðvitað óþarfi vegna þess að tækifæri er til að gera athugasemdir og leiðrétta  strax ef eitthvað er ónákvæmt  eða rangt í færslunum.(Ég nota tækifærið og þakka öllum þeim sem hafa tjáð sig í athugasemdarkerfinu og með því gefið arkitektúr rödd. Athugasemdirnar eru nú orðnar hartnær þrem þúsundum)

Einn afgerandi kostur vefmiðla  er einmitt að þeir eru gagnvirkir. Sá sem leggur út og segir skoðun sína býður uppá andmæli, eða viðbætur í athugasemdarkerfinu. Að þessu leiti standa vefmiðlar langt framar öllum öðrum miðlum. Vefmiðill getur sérhæft sig jafnvel mjög þröngt þannig að hann nær til fámenns hóps lesenda með sérhæft áhugasvið.

Vefmiðill er  hraðvirkur og nær á örskotsstund yfir alla heimsbyggðina. Og þegar mikið liggur við er hægt að koma skilaboðum eða fréttum til allra sem áhuga hafa á nokkrum mínútum. Á vefmiðli er hægt að birta ljósmyndir og teikningar, talað mál og kvikmyndir. Þetta er ekki hægt í prentmiðlum.

Gallinn við vefmiðla er að þeir njóta ekki mikillar virðingar. Menn bölsótast út í vefmiðla og telja þá óáreiðanlega og ómerkilega. Ástæðan fyrir því er sú að það er talsvert til af sóðabloggi. En það er líka mikið til af sóðablaðamennsku og sóða blaðaútgáfu. En maður útskúfar ekki blaðaútgáfu þó til sé sóðablaðamennska. Það sem maður gerir er að velja. Maður les ekki hvaða vefsíðu sem er frekar en hvaða prentmiðil sem er.

Hjálagt eru myndir af málverkum eftir Tryggva Ólafsson myndlistarmann. Ég endurtek hugmynd um að koma fyrir myndlist í tónlistarhúsi allra íslendinga, Hörpu.


Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

  • Hilmar Þór

    Það má skilja á færslunni að það sé komin þreyta í mig varðandi bloggið. Það er ekki tilfellið. Mér finnst þetta mjög skemmtilegt og hef ekki mikið fyrir þessu.

    Þetta er fljótvirkt og gagnvirkt. Þessi færsla var svona uppgjör en ekki endir.

    Ég ætla hinsvegar að hægja á mér í sumar, fækka færslunum og koma svo aftur í haust með svona 3 færslur í viku eins og hingaðtil.

    Af nægu er að taka og efni er til fyrir margar færslur á dag ef því væri að skipta.

    Þetta er algert tómstundagaman hjá mér. Ég skrifa oft 3-4 færslur í rikk og birti þegar hentar. Oftast á ég 5-10 færslur á lager. Það er vegna þess að þegar maður byrjar fær maður loft undir vængina og lætur gamminn geysa. En að sjálfsögðu birti ég ekki allar mínar hugsanir eða öll mín skrif.

    Ég þakka ykkur stuðninginn.

  • Hilmar Gunnars

    Ég les alltaf bloggið frá þér og er massa ánægður með það !

    Þú átt heiður skilinn, rödd arkitekta er ekki til á Íslandi ef ekki væri fyrir bloggið þitt. Ég sjálfur ætla mér að blogga og mun án efa vísa í færslurnar þínar. Umfjöllun þín er líka góð heimild til að sækja í um síðir.

    Ef einhver er ósammála, þá getur sá hinn sami sett inn athugasemdir, eins og þú bendir á. Ef ekki, segi ég eins og Bubbi;

    „það er auðvelt að vera kommúnisti, örmum pabba hjá.“

  • Hef aðeins þetta að segja að sinni; innlegg þitt í umræðu um byggingarlist á Íslandi er gríðarlega mikilvægt.
    Umræðan sem hér fer fram gæti verið upphafið að gagnrýnni, sanngjarnri og faglegri umræðu um arkitektúr á Íslandi og er þá til mikils unnið.

  • Tek undir með öðrum dyggum lesendum: Haltu þessu endilega áfram.

  • Árni Ólafsson

    Móðurmálið er lykillinn að eigin hugsun. Hugtakanotkun og málvenjur ólíkra tungumála móta umræðuna á hverjum stað – hvernig hlutirnir eru sagðir – og hafa þannig ákveðin áhrif á hugsunina. Þess vegna voru vonirnar um jákvæð áhrif arkitektamenntunar innanlands á umræðu um umhverfi og byggingarlist miklar. Og vonbrigðin talsverð – og sérstkalega ömurlegt að heyra að nemendur fái ekki að orða hugsanir sínar um byggingarlistina á móðurmálinu þegar þeir kynna verkefni sín.
    Þótt arkitektúr sé eða geti vissulega verið alþjóðlegur er hann fyrst og fremst staðbundin lausn á praktískum og hversdagslegum viðfangsefnum. Þess vegna er mikilvægt að mennta arkitekta innanlands og þróa íslenskt tungutak fagsins – eins og við erum vonandi að gera hér á bogginu hans Hilmars. Í þessu þarf ekki og á ekki að felast nein einangrunarstefna – heldur einbeiting að viðfangsefninu.

  • Þó ég sé bara nóboddí í júniversinu, þá les ég alltaf blogg Hilmars og það geri ég mér til hressingar, eins og sumir fá sér malt til fegrunar og styrkingar.

    Eða með orðum grasalæknisins í auglýsingunni:
    „Það er ekki vafi að það gerir gott.“

  • Ég tek undir með Stefáni, ég hef lesið færslurnar þínar frá upphafi og alltaf haft gagn og gaman af, þó svo að ég sé ekki alltaf sammála öllu sem þú skrifar um, eins hafa færslurnar þínar yfirleitt verið uppspretta skemmtilegra og gagnlegra umræðna í vinnunni minni. Þú átt heiður skilinn fyrir þetta framlag þitt.

  • stefán benediktsson

    Ekki, ekki gefast upp Hilmar. Plís. Þetta blogg þitt er mörgum ómetanlegt þótt þeir séu ekki að tjá sig allir. Seinast í morgun var ég að ræða við kollega okkar um hvað maður hlakkaði mikið til að sjá frá þér nýja færslu. Ég er ekki góður arkitekt en get samt haft skoðun á því hvað er góður arkitektúr á sama hátt og að ég get haft skoðun á því hvort kona er góð eða ekki þótt ég sé ekki kona. Eitt gleggsta merki um listamannstaug arkitekta er hvað þeir eiga yfirleitt, þar á ég ekki við þig, erfitt með að tala vel um verk starfsbræðra sinna. Þetta er eðlilegt og afsakanlegt. Til að standa við sannfæringu þína þarftu að sannfæra sjálfan þig og átt því oft erfitt með að meta sannfæringu annarra að verðleikum.

  • Hilmar Þór

    Ég rakst á þetta rétt í þessu:

    http://www.harpa.is/um-horpu/fyrir-fjolmidla/frettir/nr/936

    Reglulega áhugavert og nauðsynlegt að fá myndlist í Hörpu.

    Nú þarf bara Listasafn Íslands líka að taka þátt í ævintýrinu.

  • Það er meira fjallað um sólpalla og detoxmeðferðir en byggingarlist í blöðum hér á landi. Ekkert er kennt um þetta grundvallarmál í grunnskólum. Hvenær hefur sjónvarp allra landsmanna til dæmis fjallað um arkitektúr sem meginþema sjónvarpsþáttar? Aldrei. Ætli þarna sé ekki helst við arkitektana sjálfa að sakast. Þeir kveða sér aldrei hljóðs, hvorki til að hrósa eða lasta nema að arkitektinn sem í hlut á sé horfinn til feðranna. Og þá er honum alltaf slegnir gullhamrar, enda talar maður ekki illa um látna menn.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og sex? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn