Miðvikudagur 12.11.2014 - 12:12 - 22 ummæli

Strætóskýli SVR – 1980.

 

 

BB-skýli-Módelmynd

 

Fyrir rétt tæpum 34 árum, í desember 1980, voru kynnt úrslit í opinni samkeppni um ný strætisvagnaskýli fyrir Srætisvagna Reykjavíkur,  SVR, eins og það hét þá.

Í febrúar 1982 þegar nokkur skýli höfðu verið byggð hlutu þau Menningarverðlaun DV fyrir byggingalist.

Höfundur skýlanna er Birna Björnsdóttir húsgagna- og innanhússarkitekt sem starfað hefur alla sína starfsæfi í Kaupmannahöfn.

Hún var einn af fjórum eigendum einnar stærstu og virtustu landslagsarkitektastofu þar  landi, GHB landskab, sem unnið hefur tugi samkeppna og hannað um áratugi fyrir einstaklinga, öll helstu fyritæki Danmerkur og sveitarfélög og sjálfa konungsfjölskylduna.

Birna hefur, ein og og síðar með stofu sinni, tekið þátt í samkeppnum og unnið fjölmargar.

Hún hefur þrisvar tekið þátt í samkeppnum hér á landi og unnið til verðlauna í öll skiptin. Fyrst voru það strætóskýlin sem hér er fjallað um. Síðan vann hún stóra tveggja þrepa samkeppni um endurmótun Arnarhóls, sem ekki var framkvæmd nema að hluta, og svo var það samkeppni Reykjavíkurborgar um götugögn.

Það hefur verið sagt að góður arkitektúr og gott skipulag fari aldrei úr tísku. Þetta er alveg rétt. Góð hönnun er dæmd til að vera klassísk. Við þekkjum það öll. Við vitum líka að það sem verður voða mikið í tísku fer alveg óskaplega mikið úr tísku áður en maður veit af.

Stræðisvagnaskýli Birnu hafa hlotið tvenn æðstu verðlaun byggingalistarinnar hér á landi,:  Fyrstu verðlaun í opinni samkeppni og síðar mennigarverðlaun DV í byggingalist. Skýlin eru þeirrar gerðar að þau fara aldrei úr tísku þó þau endurspegli auðvitað anda þess tíma sem þau voru hönnuð.

Þetta segi ég nú vegna þess að Reykjavíkurborg er að velta fyrir sér að hefja byggingu skýlanna að nýju, nú 34 árum eftir að þau hlutu fyrstu verðlaun í arkitektasamkeppni og 32 árum eftir að þau hlutu menningarverðlaun DV.

Þetta er ánægjulegt og sjaldgæft þegar hverskonar hönnun á í hlut.

++++

Til marks um tíðarandann árin kringum 1980 er gaman að lesa greinargerð Birnu með samkeppnistillögunni.  Þar sést að Birna er samfélagslega meðvituð eins og einkenndi ungt fólk á þeim árum og hlýfði engum. Heldur ekki meðlimum dómnefndar, stjórnmálamönnum eða strætóbílstjórum.  Dómnefn hefur greinilega haft þroska til þess að láta gagnrýnina ekki bitna á höfindinum og verki hans.

Ég birti hér stuttan kafla úr alllangri greinargerðinni sem bera öll merki meðvitundar um ástand samfélagsins eins og það var þegar þetta er skrifað (og er að mestu enn).:

„Í minnkanndi hagvexti er nauðsynlegt að gera veg almenningsvagna meiri en nú er. Færri og færri krónur verða afgangs til að fórna á altari blikkbeljunnar.  Þar sem stjórnmálamenn fara „að vilja fólksins“ verður fólk að vilja ferðast með almenningavögnum áður en stjórnmálamenn fást til þess að veita fé til betri almenningsvagnaþjónustu.  Til þess að almenningsvagnakosturinn geti talist álitlegur fyrir neytandann fram yfir einkabílinn þurfa eftirfarandi umbætur að eiga sér stað:

1.

Vagnarnir þurfa að minnka um helming og ferðum að fjölga um helming eða meir.

2.

Á fjölförnum götum þarf að útbúa sérstakar almenningsvagnaleiðir þannig aðalmenningsvagnar verði jafnfljótir eða fljótari en einkabíllinn.

3.

Aka þarf vögnunum betur þannig að farþegar þurfi ekki aðhalda sér með báðum höndum, heldur geti lesið blöð og bækur á ferðum sínum á leið til vinnu sinnar.

4.

Fargjöld með almenningsvögnum verði í lágmarki, jafnvel ókeypis af tilliti til þjóðhagslegrar hagkvæmni þjónustunnar.

5,

Almenningsvagnabiðskýlin verði upphituð, vellýst og fráhrindandi fyrir skemmdarvarga.“

Gaman væri að sjá meira af svona greinargerðum með samkeppnum. Hlaðnar lausnamiðaðri gagnrýni þar sem samfélagsleg ábyrgð höfundarins er áberandi og hiklaus.

Sú menningarslepja sem einkennir nánast allar gerinargerðir nú á dögum er óttalega „kljén“ eins og þekktur menningargagnrýnandi orðaði það einu sinni.

++++

Efst er ljósmynd af líkani samkeppnistillögunnar í mkv 1:20. Tölvumyndir nútímans koma nú í stað svona líkana en segja miklu minna vegna þess að þær taha hugmyndaflugið frá áhorfandanum.  Að neðan koma svo nokkrar gamlar ljósmyndir og teikningar af skýlinu.

Heimasíða fyrrum teiknistofu Birnu, sem er reglulega gaman að skoða, má finna á þessari slóð:

http://www.ghb-landskab.dk/

 

 

BB-SVR-skýli-teikn

 

BB-SVR-skýli-persp

 

BB-SVR-mynd-4aa

BB-SVR-mynd-5

SVR skýli samkeppnisteikningar 004 BB-SVR-sneiding

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (22)

  • Gunnar Torfason

    Sæll Hilmar,
    ég held að það hafi eitthvað fallið niður í umfjölluninni um strætisvagna-skýlin.
    Ég sendi þér póst um það á stofuna.
    Það var mjög gott að rifja upp þessa sögu og hún á auðvitað ekki að gleymast.

    Bestu kveðjur,
    Gunnar.

  • Magdalena Sigurðardóttir

    Frábær skýli í alla staði og eitthvað svo yndislega reykvískt. Það hefur eiginlega fylgt minni kynslóð öll uppvaxtarárin…hver hefur ekki kysst, rifist, sungið eða drukkið smá í svona skýli? 😉

  • Þess má einnig geta að hin virtu menningarverðlaun DV fyrir arkitektúr hlaut hin frábæra og klassíska bygging Hlemmur og eiga þessi strætóskýli sannarlega skilið að tróna á sama stalli og sú þjóðarskömm.

    Þetta er ömurleg skýli og glötuð hönnun. Þau eru í alla staði ómannvænleg.

    • Steinarr Kr.

      VTIG, þorirðu ekki að koma fram undir nafni?

    • Hilmar Þór

      Mikið er ég sammála þér Steinarr Kr.

      VTIG er óttalega lítill í sér að koma með svona sleggjudóm og lýsa óánægju sinni með umfjöllunarefnið með þessum hætti án þess að rökstyðja hana á nokkurn hátt og auk þess undir nafnleynd.

      En við hin vitum að dómnefnd í opinni samkeppni þótti þetta gott skýli. Sama átti við um dómnefndina varðandi menningarverðlaun DV í byggingalist og um þúsundir sem notað hafa skýlin. Sama á við um þá sem hyggjast framleiða skýlin að nýju.

      Varðandi Hlemm, sem teiknaður var af Gunnari Hanssyni, þá er hann ágætt hús fyrir margra hluta sakir, og kannski tímamótaverk, þó svo að mannlífið þar hafi á undanförnum árum verið með öðrum hætti en menn vonuðust eftir.

      Það hefur verið í takti við mannlíf á mörgum járnbrautarstöðvum í Evrópu á undanförnum áratugum og á sér félagslegarorsakir..

      En það er ekki húsinu að kenna.

      Og að lokum bið ég alla sem tjá sig hér um að skrifa undir fullu nafni,

      Sérstaklega þá sem ekki kunna sér hóf í ummælum og gefa óhamingju sinni eða reiði út í allt og alla útrás hér á þessum vef.

      Þeir hljóta að geta fundið annan vetvang til þess að svala óhamingju sinni ea gefa henni útrás.

      En málefnaleg gagnrýni er alltaf velkomin.

  • Steinarr Kr.

    Ánægjulegt að Birna, hönnuðurinn taki þátt í umræðunni, takk fyrir það.

    Dönsku skýlin sem nú eru víða eru með hertu gleiri, þannig að vonandi verður það svo í nýju „gömlu“ skýlunum, en plastið verður því miður matt með tímanum.

    Hlyntur því að hafa séríslensk skýli.

  • „Almenningsvagnabiðskýlin verði upphituð, vellýst og fráhrindandi fyrir skemmdarvarga.“

    …og þessi skýli uppfylla engar af þessum kröfum. Þau veita lítið skjól, ég man ekki eftir virkri upphitun í neinu þeirra síðan ég var ég barn, og skemmdarvargar gerðu sér það að leik að brjóta ljósin og bræða „herta glerið“, sem í flestum tilfellum er úr plasti.

    Var einhverntíma hert gler í þessum skýlum? Hvað varð um upphitunina? Voru hálflokuðu skýlin, sömu gerðar, byggð um leið, eða voru það upphaflega opin skýli sem var síðan breytt?

    • Hilmar Þór

      Tinna!

      Þú mátt ekki rugla saman kröfum og markmiðum. Markmiðin, sem vitnað er í, gengu öll upp og gerð var grein fyrir þeim í samkeppnistillögunni.

      Í tllögunni voru þau bæði upplýst, upphituð og stóðust skemmdarvarga betur en fyrri skýli.

      Skemmdarvargar skemma allt sem þeir geta skemmt eða vilja skemma. En þessi skýli stóðust árasirnar betur en flest þau sem fyrir voru og veittu auk þess jafngott eða betra skjól en fyrri skýli.

      Ég held að fyrsta skýlið sem er á myndunum hafi verið með hertu samlímdu gleri.

      Svo er ekki ólíklegt að menn hafi slakað eitthvað á einhversstaðar rúðurnar minnkaðar og notað plast.

      Varðandi upphitunina þá veit ég það ekki. Kannski getur einhver svarað því betur en ég.

    • Birna Björnsdóttir

      Tinna

      Upphitun i loftinu var ekki sett í nein skýli, vegna kostnaðar, en snjóbræðsla var vist lögð i nokkur þeirra.

      Eftir nokkur ár með opin skýli var beðið um að fá skýli sem að hluta til voru lokuð að framan. Þau voru sem sagt fremleidd þannig, lokuninni var ekki bætt við skýlin seinna svo ég viti til.

      Herta glerið var mjög dýrt, þess vegna var sett plast og rúðurnar minkaðar sem gerði það að verkum að kostnaður vegna skemmdaverka á rúðum minnkaði.

      Ég man eftir því að þegar þessi skýli voru sett upp sagði SVR að mun minni skemmdarverk væru unnin á þessi skýli miðað við þau skýli sem fyrir voru og þeir töldu að lýsingin í skýlunum ættu stóran þátt í því. Á þeim tíma var lýsing í skýlum nýjung og þad var sett lýsing upp í sum gömlu gráu skýlin vegna þess að fólk fann mikið öryggi í að bíða eftir strætó í upplýstu skýli.

    • Takk fyrir svörin. Af þeim skýlum sem hafa verið reist hér eru þessi, að viðbættum framveggjum, einna skjólbest. Með upphitun (og hertu gleri í stað plastsins), yrðu þau verulega þægileg og falleg. Opnu skýlin eru ívið grunn til að veita fleiri en einum skjól gegn hliðarvindi, hefur mér fundist.

  • Dear Hilmar,
    cause it fits to the topic…., an amazing project in Krumbach (A) for busstops.

    Find it under „BUS:STOP English“
    http://www.kulturkrumbach.at/

    and pictures under:
    „DER BAU“ and then in the pull down under „Die fertigen BUS:STOPS“

    Greetings from the Bus.Stop here in Vienna.

    • Hilmar Þór

      Takk fyrir þetta Norbert.

      Gaman að skoða þessi skýli sem þú bendir á. Mæli með þeim.

      Möguleikarnir eru margir.

  • Steinarr Kr.

    Ég stóð í módelinu á undan áðan á leiðinni heim. herskipagráu járnflykki sem er álíka huggulegt og drullusvaðið hinum megin við götuna sem manni er gert að stíga í til að komast út úr vagninum þar.

    Annars gott hjá Strætó að endurnýta hönnun sem þeir eiga í staðinn fyrir að splæsa í nýja. Man þó ekki eftir upphituninni, var það aldrei virkt?

    • Birna Björnsdóttir

      Nei Steinarr, því miður hefur ekkert skýli fengið upphitunina í loftinu. Að mig minnir vegna mikils kostnaðar.

    • Þorlákur Jóhannsson

      Skýlin voru með óbrjótanlegt plast (Margard) í upphafi.En vegna kostnaðar var farið spara og fengið ódýrt plast.Hitinn var aldrei settur í skýlin, líka vegna kostnaðar.
      Ég er nokkuð kunnugur skýlunum alveg frá upphafi og framleiddi þau í mörg ár.

  • Glæsileg hönnun og klassísk.

  • Guðrún Þorsteinsdóttir

    Mér hefur alltaf fundist gaman að sjá muninn á póstkössunum í Danmörku og í London. Þeir hafa hver sitt einkenni. Sama á við um strætó í London og i Kaupmannahöfn. Í London eru þeir tveggja hæða og rauðir. Í Kaupmannahöfn eru þeir einnar hæðar og gulir.

    Af hverju eru strætóarnir gulir í Reykjavík?

    Af hverju hafa íslenskustrætóarnir og strætóskýlin ekki sín einkenni. T.d. þætti mér gaman ef þau væru mosagrænir eða lime litaðir eins og ávöxturinn sem maður notar í G&T?

    Við eigum að bæta við okkur sérkennum í Reykjavík.

    Málum skýlin og strætóana læmgræn!

  • Skemtileg upprifjun, og frábær hönnun, þarft samt að lesa einusinni yfir og leiðrétta textann aðeins…!-)

    • Hilmar Þór

      Æ, Haukur.

      Eru einhverjar villur í þessu hjá mér?. Ég er svo sem ekki hissa á því. Ég hamra þetta inn oftast í einni bunu. Engin réttritunarforrit eða neitt svoleiðis.

      Les einusinni yfir og sendi. Þetta blogg er mér gert til skemmtunnar og tíminn sem fer í þetta er í lágmarki. Les oftast einu sinni yfir og læt það svo flakka.Læt ekki málfarið eða ritvinnsluna þvælast fyrir mér.

      Efinð er aðalatriðið, ekki málfarið.

      En svona í framhjáhlaupi þá er ég almennt uppteknari af því hvað er sagt en hvernig það er sagt eða hver segir það.

      En endilega sendu mér prívat póst á hilmar@stofunni.is ef þú hefur eitthvað við málfarið að athuga.

      Ég yrði þákklátur fyrir það og hefði bæði af því gagn og gaman.

      Kkv

      Hilmar Þór

    • Sennilega eru það málfarskomplexar og málfarslegur rétttrúnaður sem heftir okkar ágætu þjóð í að tjá sig opinberlega. Menn tala varla á fundum vegna þess að þeir óttast að málfarið sé ekki kórrétt.

      Varðandi Hauk. Það eru 2- 3 villur í hans stutta texta.

      Shit happens.

      En menn eiga að vanda sig, en ekki hætta við að tjá sig vegna þess að þeir vita ekki hvernig þeir eiga að segja hlutina!

  • Hilmar Thor Bjarnason

    Biðskýlið við safn Ásmundar Sveinssonar var skemmtileg vistarvera meðan beðið var eftir vagninum.

  • Sigrún Gunnarsdóttir

    Mér fannst þessi skýli alltaf svo skemmtileg og á rómantíska minningu í skýlinu við Landspítalann sem er á myndinni. Því varð ég að skrifa eitthvað af þessu tilefni.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn