Fimmtudagur 15.06.2017 - 10:44 - 20 ummæli

Stúdentagarðar – Aðhald Minjastofnunnar

 

Það er ánægjulegt að verða vitni að því að Minjastofnun Íslands veitir aðhald að eigin frumkvæði þegar stofnuninni þykir ástæða til.

Í Morgunblaðinu í morgun kemur fram að Minja­stofn­un Íslands tel­ur að fyr­ir­huguð upp­bygg­ing nýrra stúd­enta­í­búða á lóð Gamla Garðs á Hring­braut 29 feli í sér veru­leg og nei­kvæð um­hverf­isáhrif þar sem list­rænt mik­il­vægri skipu­lags­heild verði raskað með óaft­ur­kræf­um hætti.

„Það eru mjög fá dæmi um það í skipu­lags­sögu Reykja­vík­ur að svona stórt stofn­ana­svæði hafi frá upp­hafi verið mótað með ákveðna list­ræna heild­ar­sýn í huga og alla tíð síðan hafi menn virt þá grunnþætti. Þannig hafa menn ekki raskað skeif­unni fyr­ir fram­an Há­skóla Íslands né sér­kenn­um svæðis­ins í kring,“ seg­ir Pét­ur H. Ármanns­son, sviðstjóri um­hverf­is- og skipu­lags­sviðs Minja­stofn­un­ar, í Morg­un­blaðinu í dag.

Í áliti Minja­stofn­un­ar sem sent hef­ur verið Reykja­vík­ur­borg seg­ir að með fyr­ir­hugaðri upp­bygg­ingu aust­an við Gamla Garð muni fram­hlið húss­ins hverfa að mestu á bak við ný­bygg­ing­ar. Við það rask­ist mik­il­væg og ein­stæð skipu­lags­heild í borg­ar­mynd Reykja­vík­ur. Þegar fyrstuverðlauna tillaga í nýafstaðinni samkeppni um húsið er skoðuð getur maður ekki veraið annað en sammála áliti Minjastofnunnar.

Í áliti Minjastofnunar segir einnig:  „Þjóðminjasafnið og Gamli Garður eru verk sama höfundar og kallast á. Þjóðminjasafnshúsið er hannað eins og bakgrunnur við Gamla Garð og saman mynda þau tilkomumikinn jaðar háskólasvæðisins við þá merku breiðgötu sem Hringbrautin er en hún er líka einstök í skipulagssögu Reykjavíkur. Hún er fyrsta og eina breiðgatan sem hefur verið skipulögð og mótuð með merkum byggingum í kringum gamla bæinn.“

Stúdentagarðurinn við Hringbraut, Gamli Garður, er fyrsta byggingin sem reis á lóð Háskóla Íslands á Melunum á árunum 1933-34 en það var Sigurður Guðmundsson arkitekt (1885-1958) sem teiknaði húsið. Sigurður, sem var heiðursfélagi Arkitektafélags Íslands, teiknaði líka þjóðminjasafnið eins og áður er getið, Austurbæjarskólann, Elliheimilið Grund, Hafnarhúsið, Fossvogskirkju (ásamt Eiríki Einarssyni) og margt fleira.

Það eru nokkur atriði sem einkenna samspil húsanna í þessu umhverfi. Þar er fyrst að telja stigaturnana í húsunum tveim, Gamla Garði og Þjóðminjasafninu. Þessi trurnar kallast á og eru sterkustu einkenni götumyndarinnar ásamt valmaþökunum. Stgagangurinn sunnan í Gamla Garði skiptir líka máli ásamt útveggjagerðinni í húsunum í kring sem eru fletir með gluggaopum í stað gluggabanda eða gluggum sem spanna frá gólfi til lofts eins,  og mikið er „tekið“ nútildags.

Vinningstillagan er unnin af afar færu arkitektateymi sem treystandi er til þess að aðlaga hugmynd sína að þeim veruleika sem blasir við. Það verður spennandi að fylgjast með frekari úrvinnslu teymisins  í framhaldi af áliti Minjastofnunnar. Það er rétt að minna á að í dómnefndarálitisem dagsett er 27.mars 2017  stóð “ Dómnefnd þykir mikilvægt að unnið verði frekar með ásýnd byggingarinnar við frekari vinnslu í deiliskipulagsferli svo yfirbragð byggingarinnar samræmist betur aðliggjandi byggð“. Af þessu má skilja að það hafi legið fyrir frá dómsdegi að endurskoða ætti tillöguna.

++++

Efst er mynd af „tilkomumiklum jaðri háskólasvæðisins“ þar sem í orðsins fyllstu merkinu er tveggja turna tal.  Inngangur í gamla Garð er um þennan turn sem mætti nota áfram sem aðaltengingu milli húsanna og meginstoð fyrir lóðrett flæði í byggingunum, bæði gömlu og nýju. Af einhverjum ástæðum, sem ég átta mig ekki á, var inngangi í Þjóðminjasafninu breytt þannig að gengið er inn að aftan. Aðalstigahúsið er í turninum sem sést á myndinni eins og höfundurinn Sigurður Guðmundsson gekk frá byggingunni.

Myndin að ofan lýsir vel aðstæðum á staðnum og hvernig nýbyggingin fellur að eldri húsum. Vert er að benda á að tölvuteikningin að ofan er frá sjónarhorni sem enginn hefur aðgang að og dregur úr helsta galla tillögunnar.

 

Á afstöðumyndinni má álygta að byggingamagn sé meira en lóðin og umhverfið þolir. Það eru efasemdir um byggingahlutann sem er þvert á suðurgafl Gamla Garðs. Ef húsin væru örlítið grynnri og nokkuð minni, ásýnd endurhugsuð með valmaþaki yrði miklum árangri náð.

Landmótun umhverfis húsin er sérlega vel heppnuð sýnist mér. Hinsvegar er viss óvissa varðandi skilgreiningu verksins. Er þett viðbygging eða er þetta nýbygging. Ef þetta er viðbygging verður að gera miklu meiri kröfur um aðlögun að Gamla Garði og nýta núverandi stigahús betur í öllu samhenginu. Gefa því stekari stöðu í heildinni. Manni sýnist þverbyggingin við enda Gamlagarðs vera viðbygging sem ætti þá að gangast undir forsendur gamla hússins meðan húsið austan við (neðst) virðist vera nýbygging sem ætti að gefa eitthvað meira frelsi þó það sé fjarri því að vera takmarkalaust.

 

Öll aðstaða stúdenta í þessum byggingum er til mikillar fyrirmyndar.

 

Að ofan er umrædd grein úr Morgunblaðinu í morgun sem var tilefni þessara skrifa.

+++

Sigurvegarar og höfundar tillögunnar eru: Ydda arkitektar EHF og DLD-Dagný land Design EHF.

Í dómnefnd sátu

Haukur Agnarsson formaður

Ebba Þóra Hvannberg prófessor

Eydís Bl-öndal frá stúdentaráði

Guðrún Ingvarsdóttir arkitekt

Páll Gunnlaugsson arkitekt

Perla Dís Kristinsdóttir arkitekt

og

Sigurður Hallgrímsson arkitekt.

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (20)

 • Ég er alfarið á móti þessari byggingu. Sorlegt að ekki megi vera túnræfill hvergi nútildags, leyfa núverandi byggingu að njóta sín… Hvað er næst: „reisa byggingu á túninu beint fyrir framan innganginn í Hí!

 • Óskar Guðlaugsson

  Ég get ekki að því gert – það er bara tilfinning og skoðun – en mér þykja þessar gömlu byggingar hvorki fallegar né merkilegar. Það er bara skoðun og einhver myndi eflaust segja að það sé ómerkileg og ómenntuð skoðun.

  En þessar athugasemdir Minjastofnunar byggja líka bara á skoðun og fagurfræðilegu mati.

  Hin „merkilega“ listræna heild bygginganna aðalbyggingar Háskólans er ekki merkilegra en svo að þar er allt steindautt dag og nótt. Mannlífið á svæðinu er aðallega háskólafólk að bíða eftir strætó eða á gangi milli Hringbrautar og Háskólatorgs. Hin „tilkomumikla“ og gríðarmerkilega bogagrasflöt fyrir framan aðalbygginguna er alltaf mannlaus. En hún er rammheilög, ó Guð það skyldi enginn leggja til að breyta þessu svæði.

  Fyrir mér sem ungum manni er skipulagið á þessu svæði ekkert nema flottræfilsháttur fortíðarinnar. Fyrri hluta 20. aldar var Íslendingum í mun að sýna fyrir erlendum gestum að þeir væru ekki bara bændur í torfkofum. Það var nóg pláss og gilti að búa til eitthvað stórt og flott, svona séð frá fjarska a.m.k.

 • Hafsteinn

  Það vekur athygli að þarna var fjölskipuð dómnefnd. Venjulega eru þrír en hér voru sjö! Voru allir sammála um niðurstöðun? Allir sjö? Ég bara spyr!

 • Friðjón Guðjohnsen

  Minjastofnun Íslands er hér komin langt út fyrir hlutverk sitt. Samkvæmt lögum hefur stofnunin það hlutverk að stuðla að verndun menningararfsins og tryggja að honum verði skilað óspilltum til komandi kynslóða. Í frétt Morgunblaðsins segir að stofnunin telji að fyr­ir­huguð upp­bygg­ing nýrra stúd­enta­í­búða á lóð Gamla Garðs á Hring­braut 29 feli í sér veru­leg og nei­kvæð um­hverf­isáhrif þar sem list­rænt mik­il­vægri skipu­lags­heild verði raskað með óaft­ur­kræf­um hætti.

  Hér er stofnunin ekki að tjá sig um verndun menningararfsins eða gera ráðstafanir til verndunar hans, heldur að leggjast gegn uppbyggingu á listrænum forsendum. Vísað er til „umhverfisáhrifa“ sem er engan vegin atriði sem fellur undir hlutverk stofnunarinnar. Það er einfaldlega ekki hlutverk þessarar ríkisstofnunar að tjá skoðanir á slíkum listrænum atriðum eða umhverfisáhrifum fyrirhugaðra framkvæmda, burtséð frá því hvort slík listræn atriði flokkist undir persónuleg áhuga- eða baráttumál starfsmanna stofnunarinnar.

 • Jú Stefán 1/350000 er skoðun en þetta er ekki svoleiðis. Það má vel ræða fagurfræði og komast að niðurstöðu. Sérstaklega þegar arkitektúr og skipulag er annarsvegar. Það gera dómnefndir í samkeppnim iðulega.

 • stefán benediktsson

  Smá leiðrétting……Byggingarnar norðanmegin eru sundurleit börn síns tíma, Átti auðvitað að vera………… Byggingarnar sunnanmegin eru sundurleit börn síns tíma,

 • stefán benediktsson

  Álit Minjastofnunar fjallar um framlagða tillögu. Minjastofnun hefur engar skyldur til að stinga upp á öðrum lausnum.
  Það er skiljanleg niðurstaða að Nýbyggingin megi ekki skyggja á Gamla Garð að því marki að skyldleikinn við Þjóðminjasafnið glatist.
  Það gæti náðst með að stytta N-S vænginn nægilega til að sambærileg aðaleinkenni bygginganna verði sýnileg.
  Garður sjálfur skyggir á Safnið að hluta og því eðlilegast að nota þá sjónskerðingarlínu sem viðmið.
  Suðurhluti hússins er erfiðari þar sem samanburður milli bygginga sunnan Skeifunnar og norðan er erfiður. Byggingarnar norðanmegin eru sundurleit börn síns tíma, en enn hefur enginn gert þá kröfu að byggingar sunnan Skeifunnar taki annað tillit til Aðalbyggingarinnar en að yfirgnæfa hana ekki, hvað þá að þær spegli Þjóðminjasafnið með einhverjum hætti. Þótt ég hafi skoðun á hvað mér finnst ljótt eða fallegt þá er það bara 1/350000 skoðun og jafnvel minni hluti ef erlendir gestir eru meðtaldir. Minjastofnun hefur lýðræðislegt umboð til álitsgjafar. Ríkara umboð en einstaklingar, nema að þeir myndi faglega ábyrga hópa til að vinna málstað brautargengi.

 • Rífum bara Gamla Garð og nýtum lóðina betur en nú er gert. Húsið er ekki friðað og eigandinn getur vel látið gera það – fjölmörg dæmi um slíkt m.a. í Reykjavík þegar ekki nást samningar við eiganda „höfundarréttar“.

  Einfalt og fljótlegt…

  • Árni Ólafsson

   Það er ekki hægt að rökræða við fólk sem heitir Lausnin 🙂

  • Hilmar Þór

   Sammála þér Árni með fyrirvara um að viðkomandi sé lausnamiðaður eða lausnamiðuð!

  • Nú þetta er lausnin á vandanum – þá getum við í leiðinni rifið Stapa sem er viðbygging við Gamla Garð og þá er aldeilis komið gott pláss til að vinna með. Einnig er þessi grasbleðill ónothæfur vegna umferðarhávaða þannig að nýtingin er enginn nema fyrir Gæsirnar til að gera þarfir sýnar á.

   Þetta leysir vandan með að ekki megi skyggja á Gamla Garð. Byggja bara glæ-nýja garð í staðinn.

 • Árni Ólafsson

  Ég vil helst ekki vera ómálefnalegur en get ekki stillt mig um að vera á mörkunum:
  Út frá fuglaperspektífinu á mynd 2 sýnist mér vinningstillagan vera ódýr öpun á útlitstísku í arkitektúr síðast liðinna 15-20 ára með hliðruðum óreglulegum gluggaröðum. Einfalt ráð til þess að komast fram hjá samanburði við alvöru byggingarlist. Þessi tíska gefur skít í umhverfið. Eitt besta/versta dæmið um það þar sem þessi tíska er notuð án tillits til umhverfisins eru blokkirnar á Bifröst í Borgarfirði. Þetta getur hins vegar verið mjög fínt á Völlunum í Hafnarfirði og e.t.v. talist góð byggingarlist þar.
  Ef þetta verður byggt við Hringbrautina verður það væntanlega rifið á undan Gamla garði.

 • Hafsteinn

  Takk fyrir niðurstöður dómnefndar. Þær auka skilning manns á aðgerðum Minjastofnunnar.

  Eflaust er þetta flóknara fyrir fagmennina en mig að dæma þetta. Í mínum augum er þetta einfalt enda styðst ég við eina megináherslu dómnefndar sem er sakvæmt dómnefndinni: „að byggingin falli vel að umhverfi sínu og skyggi sem minnst á aðliggjandi byggingar, þ.m.t. Gamla Garð og aðalbyggingu Háskóla Íslands“.

  Ég fletti í gegnum tillögurnar í bæklingnum og mín niðurstaða er sú að tillaga 32630 standi framar fyrstu verðlaunum hvað aðlögun að umhverfinu varðar. Enda segir í dómsúrskurði „Tillagan heldur í heiðri hönnun gamla Garðs og undirstrikar hann sem eitt af kennileitum háskólsasvæðisins“.

  Þetta eru stor orð sem ættu að nægja. Ekkert þessu líkt á við 1. verðlaun.

  Svo er það tillaga 72592 sem stendur líka framar en fyrsta verðlaun. Hún tekur mið af Gamla Garði enda segir í dómnefndarálitinu: „Eftirtektarvert er hvernig unnið er með þakformi sem eru í samhljómi við þök Gamla Garðs“.

  Þetta er líka betri umsögn en fyrsta verðlaun með tilliti til þess að meginviðfangsefnið er „að byggingin falli vel að umhverfi sínu og skyggi sem minnst á aðliggjandi byggingar, þ.m.t. Gamla Garð og aðalbyggingu Háskóla Íslands“.

 • Hilmar Þór

  Dómnefndarálitið er að finna á þessari slóð.

  Gjörið svo vel v.f. og aðrir:

  http://ai.is/wp-content/uploads/2017/04/domnefndaralit.pdf

 • Þetta er ömurlegur arkitektúr svona þaklausir gámar raðað saman eins og leikskólabörn væru að verki. Þessi gámastíll ríður við einteiming forljótt og með lek þök. Hafa menn ekkert lært af þessari lekavitleysu.

 • Eitt er víst að þeir ágætu arkitektar sem unnu keppnina gerðu þetta á sína ábyrgð og í sínu umboði. Hinsvegar vann dómnefndin í umboði allrar þjóðarinnar nánast. Ábyrgð hennar er mikil og nánast takmarkalaus. Ef einhverjum líkar ekki niðurstaðam er við dómnefndina að sakast en ekki keppendur. Gaman væri að sjá aðrar tillögur.

 • Álit minjastofnunnar er rétt og afar miklvægt fyrir ákvarðanir um uppbyggingu á svæðinu.Ef byggt verður fyrir framan Gamla Garð þarf að taka mið af byggingu Sigurðar Guðmundssonar í hlutföllum nýbygginga,þakgerð og allri áferð til að mynda samhljóm og heild á staðnum .Verðlaunatillagan býður ekki upp á neitt í þá átt.

 • Hilmar Thor Bjarnason

  Vonandi verður þessi tillaga ekki að veruleika, en nú spyr sá sem ekki veit … er virkilega ekki hægt að byggja stúdentagarða við suðurenda háskólasvæðisins. Eða er það svæði nú þegar fullnýtt?

  • Hilmar Þór

   Líklega má bæta við einhverjum stúdentaíbúðum við á suðurhluta háskólasvæðisins, nafni, en hafa ber í huga að þar eru nú þegar sennilega milli 600 og 700 stúdentaíbúðir í allmörgum byggingum.

 • Sigrún Gunnarsdóttir

  Helst vildi ég að nýtt útlit verði bara eins og Gamli Garður. Það ætti ekki að vera flókið.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn