Föstudagur 27.11.2009 - 09:54 - 18 ummæli

Svona á að byggja í 101

Þegar hugmyndir um uppbyggingu lóðanna á horni Túngötu og Aðalstrætis voru kynntar spunnust nokkrar umræður um þá nálgun og þá lausn sem þar var fundin.

Mönnum þótti að þarna væri um hallærislegt afturhvarf til fortíðar að ræða.

Um þetta var fjallað í blöðum, útvarpi og sjónvarpi. Yfirleitt töluðu menn máli nútíma arkitektúrs og vildu að allar framkvæmdir endurspegluðu það menningarstig og tíðaranda á þeim tíma sem húsin eru byggð, hvar svo sem þau standa. Þetta er auðvitað rétt að hluta. Meginatriðið er þó það að það skiftir lykilmáli hvar husin standa og í hvaða samhengi.

Menn höfðu einkum það við þessi hús að athuga að þau voru hönnuð í anda löngu liðins tíma.

Haldinn var eftirminnilegur fundur um málið í Arkitektafélaginu þar sem höfundarnir Grétar Markússon og Stefán Örn Stefánsson vörðu verk sitt.

Þetta var á margan hátt sérkennileg umræða vegna þess að á sama tíma átti sér stað uppbygging í einu úthverfa borgarinnar, Bryggjuhverfinu við Grafarvog þar sem þess var krafist í skipulagsskilmálum að húsin bæru keim af „anda“ Reykjavíkur fyrir um100 árum þar sem nú er póstnúmer 101.

Enginn gerði athugasemd við það.

Á sama tíma og þetta var í undirbúningi var verið að rífa heildstætt hverfi norðan Lindargötu þar sem áttu að rísa framandi hús sem hönnuð voru af erlendum arkitektum án þess að menn væru sérstaklega að ræða það eða hafa áhyggjur af því. Þarna standa nú hús sem eru ekki í neinu samhengi við umhverfið og anda Reykjavíkur. Og enginn segir neitt og enginn virðist hafa skoðun á þessu.

Nú þegar frá er liðið og hugsað er til baka, þá er ég þakklátur þeim sem stóðust gagnrýnina og byggðu hús í anda Reykjavíkur við elstu götu bæjarins í stað þess að fá þarna hús á borð við nýju húsin í Skuggahverfinu.

Ég er þess fullviss að eftir 100 ár, árið 2109, standa húsin við Aðalstræti enn og verða talin mikil borgarprýði meðan háværar umræður verða um hvort ekki eigi að rífa háhýsin við Skúlagötu, ef ekki verður þá löngu búið að því.  Það er líka athyglisvert að nýtingarhlutfall á lóðunum við Aðalstræti er hærra en í Skuggahverfi þar sem hús eru tæpar tuttugu hæðir. Nýtingarhlutfall segir okkur hversu mikið er byggt miðað við stærð lóðarinnar.

Ég held að hugmynd, sem nefnd var í opnu húsi í Hagaskóla s.l. þriðjudag, um hverfaskipulag ætti þarna vel við og ætti að nota við endurskoðun skipulagsins innan Hringbrautar. Þá yrði meginmarkmiðið að endurskapa og styrkja anda Reykjavíkur, hugsanlega með svipuðum þankagangi og var í Aðalstræti.

Ég er á þeirri skoðun að svona eigi að byggja í 101, innan gömlu Hringbrautar. Þar eiga eldri húsin að móta þau nýju.  Það á að vera innilegt samtal milli nýrra og eldri húsa í þessum elsta hluta borgarinnar. Svo geta húsbyggjendur og arkitektar þeirra fengið nánast takmarkalaus tækifæri til þess að sýna frumlegheit sín utan þessa svæðis.

 

Rúmmynd sem sýnir húsaþyrpinguna ofanfra úrsuðaustri.

Lárétt lína og mismunandi efnistök draga úr hæð hússins. Litir og þakefni húsanna tveggja, nýbyggingarinnar og Hjálpræðishersins kallast á.

Húsið til vistri er að stofni til frá um 1760 meðan byggingin til hægri er endurgerð á gafli Fjalarkattarins sem var rifinn fyrir mistök.

Húsin taka mið af umhverfinu hér sést upp í grjótaþorpið þar sem er að finna heillega manneskjulega byggð.

Turnar Hjálpræðishersins og nýbyggingarinnar heilsast kankvíslega. Þarna var áður húsið Uppsalir en á því var einnig turn. Þetta er gott dæmi um hvernig farið er fyrir horn í borgarmyndinni.

Nýbyggingin er til vinstri og hún er tengd þeirri eldri til hægri um glersund.

Byggingar í Skuggahverfi sem hannaðar eru af erlendum arkitektum. Vandséð er tenging byggingalistarinnar við Reykjavík eða Ísland. Þessi hús gætu eins verið í Shangai eða úthverfum Vínarborgar. Þessar byggingar voru hannaðar á sama tíma og húsin á horni Túngötu og Aðalstrætis. Þarna er nýtingarhlutfallið lægra en í Aðalstræti. Húsin eru enn í byggingu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (18)

  • Hér eru að hluta sömu arekitektar og teiknuðu hornið Lækjargata/Austurstræti. Svipuð lausn en samt öðruvísi.

  • Það verður ekki annað sagt en hér er vel að verki staðið. Þessir heiðursmenn eiga þakkir skildar fyrir að stuðla að björgun miðbæjarins.

  • Örnólfur Hall

    -Af niðurifi Fjalakattarins-
    —Vegna þess að niðurif Fjalakattarins bar á góma hér í dálkum er rétt að það komi fram að á sínum tíma var Hannes Kr. Davíðsson (1916-1995) arkitekt og teiknistofa hans fengin til að gera úttekt á ástandi Fjalakattarins sem var orðinn mjög illa farinn eftir að hafa verið í niðurníðslu um langa tíð.
    Hannes og hans menn komust að því að mikill fúi og skemmdir voru komnar í allt tréverk ( burðarvirki og klæðningar) og að húsið væri orðið hættulegt þess vegna. Það var því ill nauðsyn að rífa það.
    Hannes var mikill áhugamaður um varðveislu gamalla húsa og barðist hart gegn því að Thor Jenssens-húsið yrði rifið fyrir Seðlabankabyggingu sem var ráðgerð á staðnum.
    Undirritaður efast ekki um að það hefði verið honum, eins og fleirum, fagnaðarefni að sjá Fjalaköttinn endurbyggðan.

  • Það er sorglegt hvað arkítektar í dag virðast flestir vera úr takt við flest allan almenning eins og dæmið hér frá Aðalstræti og Jakriborg sýnir sem arkíktektar hafa keppst við að mótmæla. Því miður virðist vera að flestallir arkítektar spóli fastir í drullupytti fúnkis-stefnunnar, sem hefur leitt fagurfræðilega hörmung yfir Reykjavík síðan um 1950.

    Auðvitað á að gera meira af þessu í 101 Reykjavík. Ég myndi t.d. vilja sjá Hótel Ísland á horni Aðalstrætis og Austurstrætis endurbyggt í staðinn fyrir hið grámyglulega og dauða Ingólfstorg. Eins myndi ég vilja sjá Hótel Heklu/Thomsens magasín endurbyggt við enda Lækjartorgs í stað hryllilega „Strætóhússins“. Byggja ætti eins og hægt er svipuðum stíl og aðliggjandi gömul byggð á flestum dauðum bílaplönum kvosarinnar og grafa bílastæðin í stað niður.

    Eins ætti að „laga“ og endurbyggja í sama stíl seinni tíma viðbyggingar, eins og hörmungina á hlið hins annars fallega Landsbankahúss, hækkunina á Héraðsdómshúsinu, og laga húsin sitt hvoru megin við gamla apótekshúsið til samræmis, svo ekki sé talað um að annaðhvort fjarlægja eða stórbreyta hinni vægast sagt stórljótu Morgunblaðshöll.

    Gallin við nútímaarkítektúr er að hann er annaðhvort stórkarlalegir kassar sneyddir öllum sérkennum eða þá tilraunamennska sem tekst mjög sjaldan vel upp. Gallinn líka við nútímalegan arkítektúr er að hann er karakterlaus og nýbyggingar eins og í Skuggahverfinu gætu rétt eins verið í Shanghai eins og sagt var hér að ofan. Gamall stíll er nær að mynda sérstæðan stíl sem fyllir hverja borg fyrir sig karakter og sérstæðri stemmningu sem allir flykkjast að, hvort sem er íbúar, fyrirtæki eða túristar.

  • Nafnlaus Arkitekt

    Ef farið er um borgir sem sluppu tiltölulega vel í heimsstyrjöldinni síðari, eins og Kaupmannahöfn eða París þá virðist manni eins og ekkert hafi verið byggt þar í 100 ár. Það er auðvitað ekki rétt. Það hafa verið rifin hús og byggð ný. En þau eru í það miklu og góðu samhengi við anda staðarins að menn taka ekki eftir þeim. Hús hafa verið rifin að mestu og t.d. bara útveggir látnir standa. Af hverju er það gert og hver er í raun munurinn á því og að endurreisa nýja útveggi í gömlum stíl? Hann er sáralítill. Báðar aðferðirnar eiga fullkominn rétt á sér.

    Þegar ferðamenn heimsækja borgir Evrópu sækja þeir einkum í eldri hluta borganna. Af hverju skildi það vera? Er á því einhver söguleg skýring? Eða er það vegna þess að gömlu hlutar borganna hafa manneskjulegan skala og manneskjulegar byggingaaðferðir. Húsin eru handverk? Er ástæðan ekki sú að þar er að finna söguleg handgerð hús sem eru í menningarlegu sambandi við anda staðarins og ferðamanninn?

    Horfið svo á borgir sem fóru illa út úr stríðinu og nýhyggjan fékk að ráða ferðinni. Horfið á Frankfurt eða Berlin. Berlín er eins og varanleg heimssýning þar sem arkitektar og skjólstæðingar þeirra eru að keppast við um athyglina. Samræmi er nánast ekkert og þegar frá líður og byggingarlistartískan hefur breyst verður Berlín álitin ljót borg samanborið við t.d. Kaupmannahöfn og París sem nefndar voru í upphafi.

    Og að lokum finnst mér það mætti festa í sessi þessi hugtök; Skuggahverfisnálgun og Aðalstrætisnálgun vegna þess að þarna eru ágætir öfgar sem bera má saman.

    Ég vona að menn snúi bakinu við Skuggahverfisnálguninni og velji hina sem byggir á anda, hlutföllum og formfræði Reykjavíkur í stað þess að láta “stjörnuarkitekta” plata sveitamanninn.

  • Algerlega sammála síðasta ræðumanni. Það er alveg rétt að margar nýbyggingar í Reykjavík eru til háborinnar skammar og stendur skuggahverfið þar uppúr. En þau nýju hús sem eru ekki að passa eru líka í allt of stórum skala og í engu samræmi við það sem fyrir var.

    Nýjar byggingar á Laugarveginum hafa orðið til vegna þess að borgin tók uppá að leyfa sameiningu lóða, þar hefst í raun vitleysan. Ef að skipulagsyfirvöld myndu setja strangari kröfur á nýjar byggingar, þá væri vel hægt að hanna nýjar byggingar í núgildandi stíl.

  • Ég set stórt spurningamerki við að fara að byggja mikið í þessum gamla norska stíl í Reykjavík. Það er einkennileg nálgun að spyrja hvort við eigum að fara „Aðalstrætisnálgun eða Skuggahverfisnálgun“

    Það er ágætis mál að viðhalda merkilegum húsum og jafnvel endurbyggja þau en að fara í uppbyggingu á slíkum húsum tel ég vera mistök.

    Rétt er að halda sig við „skala“ og byggja í samræmi við byggingar í nágrenni. En það má alveg byggja í réttu samhengi við miðbæinn og borgina í nútímalegum stíl.

    Í Amsterdam sem dæmi hefur víða verið komið fyrir mjög svo skemmtilegum nýtísku byggingum mitt á milli aldargamalla húsa. Þetta eru vönduð hús og að sumu leiti perlur í annars fallegri borg.

    Þetta er eitthvað sem mér finnst við ættum að líta á þegar við höldum áfram uppbyggingu Reykjavíkur. Þétta byggðina, byggja í samræmi við núverandi byggð en fyrir alla muni höldum okkur í nútímanum og byggjum samkv nýjustu straumum í arkitektur og hönnun.

  • Þetta er mjög áhugaverð umræða.

    Þetta er klassíska spurningin um að vera eða vera ekki stoltur af séreinkennum gömlu Reykjavíkur?

    Ef við erum stolt af þeim eigum við auðvitað að styrkja þau.

    Ef ekki eigum við að fara Skuggahverfisleiðina.

    Hvað segja arkitektar um þetta og hvað segja stjórnmálamenn og hvort vilja kjósendur frekar.

    Aðalstrætisnálgun eða Skuggahverfisnálgun?

    Ég er ekki í vafa og vil fara að dæmi Aðalstrætis.

    Sefán Benediktsson er í skipulagsráði og hefur tjáð sig og bendir á hugsanlega leið hér að ofan.

  • Borgaryfirvöld eru alveg stanslaust gagnrýnd en það er mjög lítið um að þeim sé strokið og klappað á kollinn þegar þau gangast fyrir einhverju sem er virkilega uppörvandi. Eins og þessu Aðalstrætisdæmi. Eða uppbyggingunni í kringum Grófina sem er nátengt mál og vel að verki staðið.

    Það var beinlínis tragískt þegar gamli Fjalarkötturinn við Aðalstræti var rifinn. Ekki einasta var húsið gamalt (og hefði átt að njóta verndar bara þessvegna) heldur var þetta mjög furðulegt völundarhús bygginga og viðbygginga. Alveg snilldarinnar sýnidæmi um aðstæður hér áður fyrr, þegar byggingarefni var dýrt en vinnuafl kostaði lítið. Í byrjun 20. aldar héldu menn dauðahaldi í hverja einustu spýtu; það var ekki verið að rífa og byggja nýtt, menn voru í því að halda í það sem fyrir var og það þýddi að það var alltaf verið klína utan á hús allskyns viðbyggingum og bíslögum til að svara nýjum þörfum og nýjum kröfum. Gömlu timburhúsin voru í rauninni nokkuð heppileg til slíks.

    Og svo fyrir utan þetta: Fjalakötturinn var — að ég held — fyrsta húsið í Evrópu sem var sérstaklega byggt sem kvikmyndahús. A.m.k. var það hið eina slíka enn uppistandandi. Þannig að húsið hafði í raun sögulegt gildi sem náði langt út fyrir landsteinana. Væri ekki gaman ef við ættum þetta stóra og skringilega hús í dag?

    Hvernig í ósköpunum stóð á því að þetta hús var ekki varðveitt?

    Fjalakötturinn var rústaður og jafnaður við jörð í borgarstjóratíð Davíðs Oddssonar.

    Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að Davíð Oddson hafi aldrei verið fulltrúi sinnar kynslóðar heldur kynslóðarinnar á undan. Gamalt vín í nýjum belgi. Orðheppnin, húmorinn og hárlubbinn, þessi ytri ummerki eru það sem sem hefur alltaf villt um fyrir mönnum. Blindað þá fyrir þeirri staðreynd hvað maðurinn er steinrunninn og takmarkaður í hugsun.

    Eftir borgarstjóratíð Davíð hófst smávegis framþróun. Ef mig misminnir ekki tók Markús Örn við honum.

    Markús Örn var með dáldið flippaðar og skemmtilegar hugmyndir um einmitt Aðalstræti. Kjarninn í þeim hugmyndum var varðveisla og uppbygging hins gamla í hjarta borgarinnar og um leið viss upphafning sögunnar.

    En til allrar guðs lifandi lukku er allt þetta fyrir bí. Það hafa orðið raunveruleg kynslóðaskipti þegar kemur að stjórn borgarinnar. Flokkslínur eru ekki allsráðandi lengur– ekki allsráðandi — þegar kemur að t.d. gömlum húsum eða götumyndum og verndunarsjónarmiðum.

    Og reykvíkingar eru heldur ekki jafnmiklir sauðir og þeir voru fyrir 30 eða 40 árum.

  • Svakalega er ég sammála þér Hilmar Þór.

  • stefán benediktsson

    Gætu arkitektar/arkitektafélagið ekki farið í þann leiðangur að gera tillögur að því hvar/hvernig byggja má innan Hring- og Snorrabrautar. Mér finnst við sem fagmenn eiga að hafa skoðun á þessu málefni, mjög ákveðna skoðun. Þessar tillögur gætu verið vísir að eins konar samningi okkar við Reykvíkinga um það sem við erum reiðubúnir til að nota sem viðmið í störfum okkar á þessu svæði. Sem einstaklingar stöndum við og föllum með verkum okkar. Við verðum að sýna að við séum hópur siðmenntaðra fagmanna.

  • Brynjólfur Þór Guðmundsson

    (vantaði aftan á)

    stóru draumunum og tilraununum til að uppgötva alltaf eitthvað nýtt.

  • Brynjólfur Þór Guðmundsson

    Þessi andstaða við að byggja í takt við það sem fyrir er í umhverfinu er sorgleg. Vissir kaflar Laugavegarins eru gott dæmi um það. Ég held ég hafi vaknað til meðvitundar um þessi mál þegar teiknuð var hugmynd að útisundlaug við hlið Sundhallarinnar. Man ekki hver teiknaði en held að Bolli í 17 hafi átt frumkvæði að því. Teikningin var fín og kallaðist vel á við Sundhöllina, í sama anda en ögn frábrugðin. Þá brást ekki að all nokkrir arkitektar komu fram og gagnrýndu það metnaðarleysi að hanna ekki útisundlaugina í nútímastíl frekar en að elta það sem fyrir var. Einhverra hluta vegna rifjast alltaf nokkur hús upp fyrir mér þegar ég heyri svona rök, hús eins og Moggahöllin, Landsbankinn á Laugavegi og nokkur önnur í miðbænum.

    Tökum tillit til sögunnar, tökum tillit til umhverfisins. Og hættum

  • Árni Ólafsson

    „Erlendir arkitektar” þurfa ekki endilega að vera blórabögglar hér. Mér sýnast innlendir kollegar vel ráða við okkar eigin axarsköft.
    Og spurning hvort gera megi hvað sem er utan 101? Tek nærtækt dæmi um nútímaborgarskipulag (sláið inn eftirfarandi slóð):
    http://www.teikna.is/Ymislegt/IMG_1667-br.jpg
    Í sjálfu sér gæti hvert hús verið þokkalegt svona út af fyrir sig – en þessi samsteypa er algjör steypa!
    Það skiptir alls staðar máli hvernig bæjarrýmin eru mótuð – og með hverju. Ekki bara í 101. Arkitektúr og bæjarskipulag snýst um að móta menningarlega og nothæfa umgjörð um hið daglega líf. Er það þetta sem við viljum?

    Skemmtilega klípusögu stéttarinnar er einnig að finna í Jakriborg á Skáni:
    http://en.wikipedia.org/wiki/Jakriborg
    sem allir eru ánægðir með – aðrir en arkitektarnir. Minnir e.t.v. á umræðuna um Túngötu/Aðalstræti.

  • Bjarki Gunnar Halldórsson

    Það sem hefur heppnast vel varðandi uppbyggingu við Túngötu og Aðalstræti eru stærðarhlutföllin í byggingunum, þ.e. nýju byggingarnar drotna ekki yfir því sem fyrir er heldur varðveita stærðarhlutföll umhverfisins.

    En það er alveg hægt að hanna byggingar með nútímalegri blæ sem ná að sameina hið nýja og gamla. Gott dæmi um slíka byggingu er viðbyggingin við Alþingishúsið.

    Þessi verkefni þar sem hið nýja mætir hinu gamla eru þau erfiðustu sem til eru. En það er alveg hægt að sameina þetta tvennt á fallegan hátt.

    Læt fylgja með linka inn á teiknistofur sem hafa staðið sig vel í því samhengi.
    http://www.archlro.de/
    http://www.exn.dk/Default.aspx

  • Hún er alltaf mjög fyndin tengibyggingin í Kirkjustrætinu, s.s. milli gömlu húsanna tveggja sem hýsa skrifstofur Alþingis.

    Þetta smáhýsi er ekki annað en forstofa/stigagangur en alveg rokna arkitektúrískt „statement“.

  • kúlulánakrækir

    Og þetta viðurstyggilega fyrirbrigði við höfnina.

  • Árið 2007 fór ég í pakkaferð til Króatíu og við fórum í nokkrar dagsferðir til að skoða landið aðeins. Ég man eftir einni borg sem við komum til, á ægifögrum stað í halla niður að hafi. Þar var fullt af ægilega ljótum, háum, niðurníddum blokkum og við sögðum næstum í kór: Aha, Kópavogur og Skúlagata eftir nokkur ár!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og sex? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn