Miðvikudagur 25.11.2009 - 10:23 - 18 ummæli

Vesturbærinn á dagskrá

 

 

 

Ég var á fundi í Hagaskóla í gærkvöldi þar sem Skipulagsráð boðaði til opins húss í mínu hverfi  „Þar sem íbúar Vesturbæjar geta sett fram hugmyndir sínar um hvað betur megi fara í skipulagsmálum í hverfinu. Þetta er næst síðasta opna húsið af alls tíu sem Skipulags- og byggingarsvið Reykjavíkur efnir til í öllum hverfum borgarinnar í tilefni af endurskoðun aðalskipulags Reykjavíkur”, eins og sagði í fundarboði.

 

Eftir stutta framsögu voru þeim Vesturbæingum sem þarna mættu boðið að setjast við þemaborð sem hétu: samgöngur, íþróttir, hjartansmál, kjarninn o.fl. og svo fluttu menn sig milli borða eftir svona 20 mínútna setu og umræður.

 

Þetta var afskaplega vel heppnað og augljóslega var þarna kominn saman stór hópur fólks sem var annt um hverfið sitt og hafði áhuga á skipulagsmálum.

 

Það er skemmst frá því að segja að Vesturbæingar mættu undirbúnir og hugmyndirnar flugu milli manna. Sérstakur ritari var við hvert borð sem skráði niður það sem fram kom.

 

Ég settist við tvö borð þar sem fjallað var annarsvegar um samgöngur og hinsvegar kjarnann.

 

Í samgönguhópnum komu fram hugmyndir á borð við að mjókka akbraut Hofsvallagötunnar um svona 4 metra og nota landrýmið fyrir gangandi, hjólandi og gróður. Taka framhjáhlaup við gatnamót Hofsvallagötu og Ægisíðu af. Þetta tvennt átti m.a. að stuðla að því að menn notuðu ekki Hofsvallagötu sem tengibraut á leið sinni út á Seltjarnarnes.

 

Það komu einnig fram hugmyndir um að Hofsvallagata, Birkimelur og Suðurgata yrðu aðalleiðirnar inn í vesturbæ sunnan Hringbrautar en hlutverk þeirra sem tengibrautir yrðu nánast lagðar af. Suðurgatan yrði gerð að vistgötu á kafla til þess að tengja háskólasvæðið betur saman og auka öryggi stúdenta.

 

Í hinum hópnum sem nefndist “Kjarninn” voru áherslurnar aðrar. Þar vildu menn að verslunin yrði færð utan úr Örfirisey inn í íbúðahverfin. Matvöruverlun kæmi í verslunarhúsnæði við Dunhaga ásamt áfengisverslun m.m. Hverfisverslun kæmi við Hjarðarhaga þar sem 10/11 er nú.

 

Fólkið vildi að bensínstöðvum yrði fækkað. Stöðin við Ægisíðu þótti barn síns tíma og ætti að víkja. Sama ætti við um stöðina við Birkimel. Bensínstöðvar eiga ekki að vera í íbúðahverfum sagði einhver.

 

Svo var mikil samstaða um að sameina lóðir Hagaskóla, Neskirkju og Melaskóla í eina lóð. Það muni auka sveigjanleika og öryggi til mundi auk þess sem allt yrði manneskjulegra. Hagatorgið yrði þá ekki hringur heldur hálfhringur.

 

Þetta er bara örlítill útdráttur af því sem ég upplifði þarna. Auðvitað var fjallað um Vesturbæ norðan Hringbrautar og tengingar þar á milli og margt, margt fleira, sem ekki er tækifæri til að gera grein fyrir hér.

 

Þessi fundur var upplifun fyrir fólk sem hefur fylgst með skipulagsmálum undanfarna áratugi vegna þess að áður var eins og aðalskipulagið kæmi frá Guði. Það var órannsakanlegt og ekki til umræðu. Borgarbúar fengu tækifæri til þess að mótmæla nánast orðnum hlut þegar skipulagið var auglýst.

 

Nú eru borgarbúar kallaðir til í upphafi vinnunnar.  Vinnuferlið hefur verið gert gagnsætt og borgarbúum boðin þáttaka í mótun skipulagsins þegar á frumstigi. Tilfinningin gagnvart skipulagsyfirvöldum breytist úr tortryggni í traust við þetta verklag.

 

Þau Ólöf Örvarsdóttir og Júlíus Vífill Ingvarsson reifuðu hugmynd um millileik milli aðalskipulags og deiliskipulags, sem þau kölluðu hverfaskipulag. Vonandi verður þeim að ósk sinni og við fáum að sjá vinnu við hverfaskipulag borgarinnar fara af stað.

 

 

Einhver hópur óskaði eftir grenndarverslun í hverfinu og svo naut hugmyndin um sameiningu skóla- og kirkjulóðar fylgis.

 

Bensínstöðin við Ægissíðu var fundinn þessi staður vegna þess að á þeim árum var þetta nánast þjóðvegur sem lá út á Seltjarnarnes og var kallaður Nesvegur. Nú er þetta íbúðabyggð.

Fólk talaði um að fá matvöruverslunina aftur inn í íbúðahverfin.  Nú er mesti hluti matvöruverslunnar Vesturbæjar á hafnar og iðnaðarsvæði.  Gamla skipulagið gerir ráð fyrir stórum matvörubúðum við Dunhaga og Hjarðarhaga. Fólk vill geta gengið fallegar götur til  innkaupa þar sem þeir hitta sína næstu nágranna.

………….

 

Fyrsta myndin er tekin uppúr 1960 um um það bil sem verslunarkjarni við Dunhaga var opnaður. Þar var skósmiður, fiskbúð, KRON og fl.  Göturnar ómalbikaðar og sprautubíllinn fór um tvisvar á dag þegar vel viðraði. Takið eftir að þarna er enginn trjágróður.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (18)

  • Örnólfur Hall

    -Af niðurifi Fjalakattarins-
    Vegna þess að niðurif Fjalakattarins bar á góma hér í dálkum er rétt að það komi fram að á sínum tíma var Hannes Kr. Davíðsson (1916-1995) arkitekt og teiknistofa hans fengin til að gera úttekt á ástandi Fjalakattarins sem var orðinn mjög illa farinn eftir að hafa verið í niðurníðslu um langa tíð.
    Hannes og hans menn komust að því að mikll fúi og skemmdir voru komnar í allt tréverk ( burðarvirki og klæðningar) og að húsið væri orðið hættulegt þess vegna. Það var því ill nauðsyn að rífa það.
    Hannes var mikill áhugamaður um varðveislu gamalla húsa og barðist, á sínum tíma, hart gegn því að Thor Jenssens-húsið yrði rifið fyrir Seðlabankabyggingu sem var ráðgerð á staðnum.
    Undirritaður efast ekki um að það hefði verið honum, eins og fleirum, fagnaðarefni að sjá Fjalaköttinn endurbyggðan.

  • Mér finnst spennandi þessi hugmynd um sameiginlegu lóðina fyrir Mela- og Hagaskóla o.s.frv. og þá rifjaðist upp gömul hugmynd mín: Að lífga upp á þetta ótrúlega stóra og tómlega hringtorg, Hagatorg, með því að setja þar upp skautasvell (eins og t.d. á Kóngsins Nýjatorgi í Kaupmannahöfn), gæti jafnvel verið línuskautabraut á sumrin. Í miðjunni mætti svo setja upp sæta söluskúra í desember með jóladóti, heitu kakói o.s.frv. Mundi þetta ekki passa vel við „hálfhringinn“? Ég sendi hugmyndina til borgarinnar fyrir nokkrum árum – þá var hugmyndavika – og fékk vélrænt þakkarsvar. Svo hitti ég einu sinni Árna Þór Sigurðsson þegar hann var í borgarstjórn (skipulagsnefnd) og viðraði þetta við hann. Hann svaraði mér ekki, sagði ekki orð. Þannig var nú það.

  • Ásmundur

    Leggja niður SN flugbraut strax.
    Hliðra AV flugbraut um 500-800 m út í Skerjafjörð
    Gera stofnbraut frá Hringbraut yfir í enda Kársnes, út í Kópavog inn eftir honum og tengja við Reykjavíkurveg og Reykjanesbraut.

  • Ég var að kíkja á kort af flugvellinum, ef Einarsnesið yrði framlengt beint áfram undir NS brautina myndi það lenda á nýja hringtorginu fyrir framan HR. Það væri einnig hægt að stækka Skerjafjarðarhverfið um 50% að flugbrautinni.

  • Guðmundur

    Tek undir með Jónasi, það er líka stutt síðan að dauðaslys varð á þessu horni.

  • Ég bý í á Hringbraut við þjóðarbókhlöðuna og hraði bíla og hjóla frá JL húsinu að háskólanum er stundum óhugnalegur.

    Gönguljósin við Björnsbakarí virka þannig að bílar virðast gefa allt í botn þegar þeir sjá að einhver er að ýta á takkann(vegna þess að rautt kemur strax) og margir keyra yfir á eldrauðu nánast við hverja ýtingu á hnappinn.

    Er ekki einhver leið til að minnka hraðann þarna án þess að fara út í mjög dýra framkvæmd?

  • Erna Valdís

    Önnur akstursleið úr Skerjafirði, við suðurenda norður-suður flugbrautar? Meðfram einni bestu og friðsælustu gönguleið höfuðborgarinnar?

  • Karl Jóhann

    Benda má á áhugaverða umfjöllun um skipulag Vesturbæjarins hér:
    http://hugsandi.is/articles/lifid-ad-husabaki-umhverfi-husasunda-i-vesturbae-reykjavikur-fyrri-hluti/
    og hér:
    http://hugsandi.is/articles/lifid-ad-husabaki-umhverfi-husasunda-i-vesturbae-reykjavikur-seinni-hluti/

    Þá er og gott að hafa í huga börnin í allri vinnu sem þessari en í því sambandi er eftirfarandi grein framúrskarandi:
    http://hugsandi.is/articles/hugleiding-um-tharfir-barna-fyrir-natturutengingu/

  • Arkitet Anonymus

    ‘Eg held að maður eigi að ganga út frá því að flugvöllurinn verði áfram næstu svona 30-40 árin.

    Að því sögðu þarf að tryggja samgöngur frá Skerjafirði þannig að ef lokast vegurinn fyrir enda brautarinnar sé til önnur leið útúr hverfinu. Sú leið yrði undir suðurenda norður-suðurbreutarinnar í átt að HR.

    Þarna skapaðist líka tenging fyrir HR til vesturs þannig að hann hefði ekki bara eina aðkomu.

    Þar að auki myndaðist þarna nauðsynleg tenging HR við Hí og vesturbæinn auk þess sem hagkvæm strætisvagnaleið verður til.

    Fín umræða hér á þessum vef og greinilegt framhald af téðum fundi í gær.

  • Það þarf að styrkja göngu og hjólreiðaleiðir frá íþróttasvæði KR alla leið í Hagana og til þess hluta hverfisins sem er norðan Hringbrautar.
    Þetta þyrfti að gera með einskonar megingöngu/hjólaleiðum sem nær utanum vesturbæjinn og tengir hann saman.

    KR aðstaðan er of langt í burtu frá Högum og Skerjafirði til þess að um göngufæri sé að ræða. En það er hægt að lagfæra með betur útfærðu stígakerfi. Gera leiðina göngu og hjólavæna.

    Þessi vinna ætti að heyra undir þetta bráðsnjalla hverfaskipulag sem þarna var nefnt.

    Hjóla/göngustígakerfið þyrfti að tengja saman verslanir banka og skóla á aðlaðandi og öruggann hátt.

  • Afsakið klúðrið þarna í upphafi hjá mér – ætti að skiljast samt.

  • Sammála Viggu og Kolbeini og frábær hugmynd að styrkja kjarnann/hjartað í Vestubænum í kringum Hagatorgið. og því að BRÁÐvantar Vesturbæjarkaffihús, þó það svo auðvitað ekkert sem nein yfirvöld geta komið til leiðar. En það er þetta með verslunina inn í hverfin – það er gott og blessað og dásamleg sýn en raunhæf? Varla er hægt að stýra því með handafli frekar en að einhver setji á fót kaffihús? Eins þetta með að ganga ‘fallegar götur til innkaupa’ – ég sé fyrir mér bílakraðak á la Melabúðin þar sem bakkandi bílar, beygjandi bílar og gangandi vegfarendur eru í einni afar varhugaverðri kös. Það er þetta með lífsstílinn … kjósum við hann eða kýs hann okkur? … þarf að skapa honum rétt umhverfi eða skapar hann sér rétt umhverfi?
    Dásamlegt værti nú líka ef hægt væri að tengja betur á milli norðurs og suðurs yfir (eða undir) Hringbrautina, eins og þarf að gera í Hlíðunum. – Þetta vildi ég allt sagt hafa á þessum góða fundi.

  • Blokkin til vinstri (í mínum uppvexti var húsið kallað blokk) er að mínu mati eitt fallegasta fjölbýlishús í Reykjavík. Verð að játa samt að ég veit ekki hver arkitektinn er.

    Þarna átti Kristbjörg Kjeld heima í kvikmyndinni 79 af stöðinni. Mér finnst alltaf skondin senan þar sem þetta smarta hús blasir við með forarsvaðið hrikalegt fyrir utan.

    Og Kristbjörg tiplandi yfir það á háum hælum út í leigubíl.

  • Sigurður Jónsson

    Var þessi fundur auglýstur? Hvenær var hann?
    Vill koma með ábendingu um að það þyrfti að koma upp lýsingu á göngustíginn frá Hofsvallagötu og út að þar sem strætó stoppar út á Skjeljanes í Skerjafirði.

  • Guðmundur

    Þetta er til fyrirmyndar, en því miður komst ég ekki heldur á fundinn vegna vinnu.

    Eitt sem ég myndi gjarnan vilja sjá gerast, er að efla Bræðraborgarstíginn og gera hann að svona „alternative“ verslunargötu (kannski í anda Skólavörðustígs). Það er vísir að þessu, tvö bókaforlög og svo þessi skrýtna og skemmtilega postulínsbúð á horni Vesturgötu. Þarna var líka lítil vídeóleiga, en því miður er hún farin. Og í Iðunnarhúsinu á auðvitað að vera kaffihús.

  • Steinarr Kr.

    Takk fyrir áhugaverðar upplýsingar, ég er íbúi í þessu hverfi, en þessi fundur fór alveg framhjá mér.

    Það er margt sem má gera í þessu hverfi, næstum allt nema að þétta byggð með meiri byggingum.

  • Ég var ekki á fundinum.

    En vil koma á framfæri hugmynd um að virkja græna svæðið við Sundlaug Vesturbæjar.

    Annaðhvort tengja það lauginni sem vatnsgarði fyrir alla aldurshópa eða gera það að listigarði.

    Svo á auðvitað að byggja innilaug yfir bílastæðið við Hofsvallagötu.

    Þetta er stórt vannýtt svæði

  • Mig langar að koma með smá-ábendingu. Ég er á hjóli,og vil meina að nú sé kominn timi fyrir umferðarljós úti í Örfirisey. Það er á þeim stað, þar ser hringtorgið er. Við eigum líka svolítinn rétt, gangandi og hjólandi, ekki satt ?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn