Sunnudagur 23.01.2011 - 20:27 - 8 ummæli

Teiknað með hjartanu

Þegar skáldsaga er lesin þarf lesandinn að vera gagnvirkur ef hann ætlar að njóta lestursins að fullu. Það er að segja að hann þarf að leggja nokkuð til skáldsögunnar. Hann þarf að fylla upp í þær eyður sem rithöfundurinn skilur eftir. Lesandinn þarf að gera myndir í huganum af persónunum og umhverfinu sem sagan gerist í.  Hver lesandi skapar sínar myndir.  Þannig vinnur hver lesandi úr texta ritöfundarins.  Það má segja að rithöfundurinn og lesandinn vinni saman að verkinu.  Rithöfundurinn leggur út og lesandinn fullkomnr verkið í huga sér.  Hver á sinn hátt.  Rithöfundurinn lætur lesendanum eftir að fylla út í þá skissu sem hann færir honum. Rithöfundurinn skrifar með hjartanu í samstarfi við lesandann.

Þetta er svipað með uppdrætti arkitekta.  Sá sem les uppdrættina: afstöðumynd, grunnmyndir, sneiðingar og útlit myndar í huganum rými og mannlíf  viðkomandi byggingar.  Sá sem les teikninguna fyllir upp í þau göt sem ekki er gerð grein fyrir á uppdráttunum.  En til þess að lesandinn geti það þarf hann að vera læs,  læs á teikningar.

Fyrir þá sem ekki eru læsir á teikningar hjálpar að gera líkan eða þrívíðar teikningar.  Þríviðar teikningar ganga mis langt.  Sumar sýna aðalatriðin og leiða lesandan langleiðina, en lætur honum eftir að ljúka myndinni, rétt eins og rithöfundurinn sem skrifar skáldsögu.  Þarna er lesandinn gagnvirkur eins og þegar hann les skáldsögu.

Aðrar teikningar ljúka verkinu og eru þannig að það þarf sérfræðing til að sjá hvort þær sýni hugsun eða veruleika. Þarna eru á ferðinni tölvumyndir sem  eru nánast eins og ljósmyndir.  Þegar þannig er unnið er tekið frá lesandanum tækifærið til þess að ímynda sér það sem á vantar og fylla í skörðin.

Gallinn er sá að tölvumyndirnar sýna oftast fallegri mynd af verðandi veruleika en ljósmyndin.  Allavega hef ég aldrei séð byggingu sem er í fallegri á ljósmynd að framkvæmd lokinni en í “renderingu” akitektanna fyrir framkvæmd.

Tölvumyndir eru ofmetnar, og oft beinlínis blekkjandi.  Allir geta lært að gera þrívíðar tölvumyndir og þar þarf enga rýmisgreind til.  Rýmisgreindin vegna gerð þrívíðra tölvumynda er gerfigreind sem er að finna í forritum tölvanna.   Hinsvegar getur enginn gert þrívíða frí hendisteikningu án rýmisgreindar.  Sá sem ekki hefur til að bera rýmisgreind getur ekki orðið góður arkitekt.

Hjálagðar eru nokkrar fríhendisteikningar sem ég fann á netinu á heimasíðu arkitektastofunnar ARGOS.  Þetta eru teikningar þar sem lesandi teikninganna er leiddur hálfa leiðina, en láta honum eftir að fylla í það sem á vantar, rétt eins og höfundur skáldsögunnar.  Þetta eru einstaklega látlausar og fallegar fríhendisteikningar sem gera samt kröfu til lesandans.  Lesandinn þarf að vera gagnvirkur og bæta við þær með hugmyndaflugi sínu til þess að fullkomna myndina á svipaðan hátt og þegar hann les skáldsögu.  Hann þarf ekki að vera fluglæs á teikningar eins og sá sem kann að lesa byggingarnar út frá afstöðumynd, grunnmyndum, sneiðingum og útlitum.

Arkitektar þurfa að hvíla tölvurnar og teikna meira með hendinni og hjartanu eins og dæmin frá ARGOS sýna.

Efst er tillaga að hóteli við bryggjuna á Siglufirði, og endurbygging Sunnubrakkans sem þar stóð, með veitingastaða bryggju og bryggjusvæði. Tillagan var unnin fyrir heimamann


Pakkhúsin og Samkomuhúsið í Flatey séð frá sjónum.

Tillaga að Franska spítalanum á Fáskrúðsfirði með Læknishúsi, Kapellu og Sjúkraskýli að ógleymdu Líkhúsinu. Tillagan var fyrir skömmu samþykkt í byggingarnefnd Fjarðabyggðar.

Tillaga að Árbæjarsafni í Viðey, og má þekkja m.a. gömlu kaþólsku kirkjuna og fleiri hús af safninu.

Endurbyggingu Þórshamars á Seyðisfirði.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Stefán Snævarr

    stórfróðlegt, merkilegar íhuganir. Sumir líkja hugmyndum um framtíðarskipulag við science fiction sögur.

  • Hilmar Þór

    Það er von að Linealis sé spurn því þarna er tilefni til. Ég er í miklum vafa um þríviðar ofur tölvuteikningar og tek frjálslegri teikningar framyfir þær. En ég get upplýst að í samkeppnistillögunni sem Linealis getur um var engin þrívíð tölvumynd lögð fram. Þess má geta að slíkt er mjög óvenjulegt. Þær myndir sem sýndar eru í Morgunblaðinu, í sjónvarpunu og á skjali sem Linealis vitar til voru gerðar mun seinna. Þær voru gerðar samtímis verkteikningum til þess að auðvelda leikmönnum að átta sig á verkinu. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að þær gangi of langt og síðan þær voru gerðar hefur vafi minn um réttlæti svona uppdrátta færst í aukanna.

  • Höfundur bloggsins hefur dregið taum fríhendisteikninga í nokkrum færslna sinna og telur tölvumyndir ganga of langt og jafnvel vera ósannar og blekkja fólk. Svo bregður því við að í Mogganum í morgun og í sjónvarpsfréttum RÚV eru sýndar tölvumyndir frá honum af þeirri gerð sem hann einmitt gagnrýnir. Þetta er teikningar af verðlaunatillögu vegna gufubaðs á Laugarvatni frá því 2003 sem teiknistofa hans vann fyrsta sæti. Það er sem sagt er í orði er ekki alltaf í boði á borði 🙂

    Hér má sjá renderingar verðlaunatillögunnar frá Á stofunni arkitektum/studiostrik:

    http://fontana.is/myndir.html

    Annars eru hugmyndir um „dogmasamkeppir“ fyllilega þess virði að skoða nánar.

  • Hilmar Þór

    Þakka Pétri Blöndal Magnússyni fyrir athugasemdina. Úr þessu hefur verið bætt og skýringar hafa verið skrifaðar við teikningarnar.

  • stefán benediktsson

    Af því að þú talaðir um pappamódel í tengslum við Meier, en ég er þér algerlega sammála í þeim efnum, vil ég fullyrða að áþreifanleg módel séu enn miklu betri leið fyrir fólk til að nálgast byggingarlist en tölvugrafík. Okkur vantar til dæmis módel í 1:500 af Reykjavík, ég meina allri Reykjavík ekki bara miðbænum og það á að vera í ráðhúsinu en íslandslíkanið í stjórnarráðinu. En af því að það er ekki pláss þar þá fundu Margét og Steve því stað að mig minnir undir Lækjartorgi, undir gleri sem er fínn staður.

  • Pétur Blöndal Magnason

    Fallegar teikningar. Það væri gaman að vita hvaða verkefni þetta er og hvar húsin eru.

  • stefán benediktsson

    Var að snudda svolítið kringum nafna þrjú síðustu ár og hreifst þá einmitt af þessum samskiptamáta þeirra félaga við viðskiptavini sem er til hreinnar fyrirmyndar. Þessar teikningar segja þér líka mikið um umhyggju þeirra fyrir verkinu.

  • Árni Ólafsson

    Skemmtilegar myndir og lýsandi.
    Reyndar eru þrjár þeirra góð dæmi um aðferð sem er mun fljólegri en öll tölvutækni. Þetta eru s.k. ísómetríur þar sem grunnmynd eða afstöðumynd er notðuð sem grunnur og byggingarnar reistar upp í réttum mælikvarða. Listin felst síðan í framsetningunni.

    Helsti kostur blýantsins er sá að ekki þarf að hanna eða ákveða hvert smáatriði áður en sett er fram rýmisteikning eða fjarvíddarmynd (perspektíva) eins og þegar tölvan er notuð. Tölvunni hættir til (þ.e. notanda hennar) að taka smáatriðin fram fyrir heildarhugmyndina og stela tíma frá aðalatriðunum.

    Einna erfiðast er að fanga rýmið á milli bygginganna. Þar reynir á „rýmisgreindina“. Sama á reyndar við um uppbyggingu og skipulag bæjanna – það er auðveldara að hanna fallega byggingu en fallegt útirými (götu/torg/garð).

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn