Miðvikudagur 24.09.2014 - 18:23 - 25 ummæli

Þingholtin fyrir 1940

 

375+

Að ofan er frábær ljósmynd eftir Vigfús Sigurgeirsson ljósmyndara sem sonur hans Gunnar Vigfússon ljósmyndari sendi síðunni nýverið.

Myndin er sennilega tekin stuttu fyrir seinni heimstyrjöldina.

Hún sýnir byggingar eftir framúrskarandi íslenska byggingameista og arkitekta sem teiknuðu hús í bænum á þessum tíma. Þar er fyrsta að telja þá Gunnlaug Halldórsson og Sigurð Guðmundsson. Þarna eru auðvitað líka byggingar eftir Guðjón Samúelsson og fl.

Ég leyni því ekki að ég hef alla tíð verið mikill aðdáandi Gunnlaugs og fundist hann standa hinum snillingunum tveim framar. Það er einkum vegna þess hversu leitandi hann var og hve höfundareinkennin voru sterk. Verkamannabústaðirnir við Hringbraut, Búnaðarbankinn við Austurstræti, Háskólabíó o.m.fl. Mörg ólík verk sem standa á grunni nytjastefnunnar og bera höfundi sínum sterk vitni.

++++

Fyrir einum 35 árum spurði ég Gunnlaug hvort  hann gæti gefið ungum arkitekt einhver ráð sem gætu hjálpað honum við að fóta sig í íslensku umhverfi.

Hann svaraði um hæl „Ungi maðurinn þarf að koma sér upp verndara“

„Verndara?“ Spyr ég.

„Já einhvern áhrifamann eða afl sem gætir hans og sér um að útvega honum verkefni þannig að hann geti einbeitt sér að sínu fagi“ svarað Gunnlaugur Halldórsson arkitekt.

Þó Gunnlaugur hafi ekki sagt það beint þá áttaði ég mig á að þarna var hann líklega að hugsa til íslensks klíkusamfélags og sérstaklega sambands þeirra Jónasar frá Hriflu og Guðjóns Samúelssonar. Guðjón fékk beint og óbeint mörg verk í gegnum Jónas. Hann fékk jafnvel fleiri verkefni en hann gat valdið frá þeim sem höfðu samböndin meðan aðrir arkitektar höfð lítið og stundum ekkert að gera. Guðjón var auðvitað afburða arkitekt en við meigum ekki gleyma því að hann fékk fleiri tækifæri en nokkur annr arkitekt hefur nokkurntíma fengið.

++++

Það sem gerir ljósmyndina  að ofan alveg einstaka er annars vegar að hún sýnir hverfið nánast í heild sinni og ekki síður að húsin sem nú eru hulin trjágróðri sjást á myndinni. Þarna er auðvitað engin Hallgrímskirkja en Hljómskálinn, fyrsta sérhannaða tónlistarhús íslendinga, er á sínumn stað.

Ef smell er tvisvar þá á hún að stækka.

 

Hér er hægt að finna fleiri slóða að gömlum ljósmyndum Vigfúsar Sigurgeirssonar af húsum og götum í Reykjavík á fyrrihluta síðustu aldar. Afskaplega forvitnilegt:

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/05/09/fleiri-gamlar-myndir-fra-reykjavik/

http://blog.dv.is/arkitektur/wp-admin/post.php?post=6896&action=edit

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/05/06/gamlar-myndir-ur-landakotsturni-fra-um-1930/

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/01/04/kennarabustadir-vid-egilsgotu/

 

Ég var að átta mig á því að i gær var þessi vefsíða búin að vera gangandi í fimm ár.

Upphaflega tók ég þetta að mér til reynslu til þriggja mánaða og ætlaði að  meta stöðuna að þeim liðnum. Þetta hefur verið óskaplega skemmtilegt allan tímann. Lestur er umfram væntingar og í síðuna hefur verið vitað í dagblöðum og á ljósvakamiðlum og auðvitað á öðrum vefsíðum. Skrifin hafa að mestu gengið út á að setja á netið efni sem vakti athygli mína, samtöl sem ég hef átt hér á teiknistofunni og við þá sem ég hef mætt á förnum vegi.

Allt ósköp óhátíðlegt.

Dægurmál skipulagsmála hafa einnig flotið með.

Ég hef líka oft sett fram algeng sjónarmið án þess að vera þeim sérstaklega sammála sjálfur.

Hér hafa líka birst allmikið af aðsendum pistlum og  pistlar eftir menn sem ekki hafa viljað láta nafn síns getið af einhverjum ástæðum. Allt í þágu umræðunnar um arkitektúr, skipulag og staðarprýði sem verið hefur í skötulíki hérlendis.

Ég hef að mestu verið ánægður með athugasemdir þar sem lesendur hafa sagt skoðuun sína. Af þeim tæplega 6600 athugasemdumsem komið hafa, hef ég aðeins þurft að hafna 11, sem einkenndust allar af einhverri heift út í einstaklinga og hinsvegar vegna ósæmilegs málfars.

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (25)

  • Ásgeir Valur Sigurðsson

    Í svari mínu lofa ég sem sagt gömlu húsin í Þingholtunum og lasta stóru glerhýsin sem mörgum finnst að þurfi að víkja en orðalag mitt er að öllum líkindum klaufalegt og biðst ég innilega velvirðingar á því…..

  • Ásgeir Valur Sigurðsson

    Engu líkara er en að borgaryfirvöld hafi látið fjarlægja eins mikið af upplýsingum um Þingholtin af leitarvélum alnetsins eins og hægt er í stjórnartíð Reykjavíkurlistans. Einna verst er ástandið með Einholt og Þverholt en þar er verið að byggja gamaldags hús sem eru í engu samræmi við útlit og hönnun þessa nútímalegu bygginga. En eftir lok síðari heimsstyrjaldar fannst Bandamönnum Þjóðverjar ekki hafa staðið sig nógu vel í að valda nógu mikillri eyðileggingu og reyndu því að eyðileggja eins mikið af afganginum af höfuðborgum Evrópu, Bandaríkjanna og Rússlands og þeir mögulega gátu. Þeir vildu ´afmá fortíðina´og afmáun fortíðarinnar varð að tískufyrirbrigði sem hafði skelfilegar hörmungar í för með sér sem hefur tekist að yfirstíga í sumum tilfellum, svo sem með aukinni varðveislu og endurnýjun hverfa í stórum borgum víða á Vesturlöndum eins og t.a.m. Þingholtin í Reykjavík og mörg falleg, gömul hverfi í Osló og Kaupmannahöfn sem gaman er að bera saman við okkar hverfi.
    Enda voru húsin sem voru byggð á þessum tíma hugsuð út frá fjölbreytni á meðan stóru skuggahýsin í dag svo sem hin úreldu, gamaldags skuggabýli rétt hjá Hverfisgötu eiga engann veginn heima í Reykjavík. Sjálf þykja húsin falleg og miður að svo mörg þeirra séu horfin og það er kominn tími til að hin horfnu hús sem hafa verið rifin verði byggð aftur á upprunalegu reitunum. Niðurstaðan sem draga má af lærdómi gömlu húsanna sem voru byggð víðs vegar um Evrópu og í Reykjavík frá því upp úr síðari heimsstyrjöld í takt við þau sem finna mátti þar fyrir voru í raun byggð í byggingarstíl sem var á undan sinni samtíð og það er gott að vita að allt í kringum okkur sé verið að vernda ímynd gamallra götuhverfa og byggja nýrri hverfi í útjaðrinum eða jafnvel annars staðar heldur en í miðri borginni.
    En hugmyndina að baki stóru, svörtu skuggaglerbýlunum og hótelunum má vel skilja því þar eru menn að hugsa um að þjónusta ferðamenn með eins vandaðri þjónustu og hægt er að veita og hafði lengi þótt flott að búa í slíkum húsum þar til í ljós kom að stóru, svört glerhýsi sýkjast mun fyrr enhin vel stæðu, gömlu hús sem hafa verið rifin til að láta þau víkja fyrir framkvæmdum. Strax og menn áttuðu sig á þessu kom hagkvæmni þess í ljós að endurbyggja þekkt gömul hús hér á landi. Lík ég nú klaufalega samdri grein minni um þessa frábæru og skemmtilegu umfjöllun í þessari fallegu og merkilegu grein um hvernig gömlu Þingholtin urðu til.

  • Kærar þakkir fyrir skrifin.

    Þessi mynd er ekki síður góð heimild um annann þátt skipulagsmála og það er lagnakerfið.
    Á myndinni sjást engar loftlínur, hvorki sími né rafmagn og í forgrunni er verið að grafa niður rafstreng frá ASEA.

    Miklar deilur eru framundan um lagningu loftlína á Norðurlandi og Sprengisandi og í því samhengi er áhugavert hvað Reykvíkingar hafa verið framarlega í jarðstrengjalögnum.

    • Gunnar Gunnarsson

      Athyglisvert. Þetta er til eftirbreytni. Ef eitthvað var, þá var minna til af peningum rétt fyrir stríð en nú.

    • Hilmar Þór

      Þessu hafði ég ekki tekið eftir.
      Þeir sem hafa komið til Bandaríkjanna svo maður tali nú ekki Japan þekkja allar þessar snúrur sem hanga á staurum úr um allg….hörmung að sjá.
      Hver í stjórnkerfinu ætli hafi barist fyrir jatðlögnum innan borgarmarkanna á þessum tíma?

  • Dennis Davíð

    Til hamingju með árin 5 Hilmar. Vel af sér vikið.
    Varðandi klíkusamfélagið sem þú nefnir, þá eru góðu fréttirnar þær, að með inngöngu Íslands á Evrópska Efnahagssvæðið (EES), þarf nú að setja öll stærri opinber verkefni í samkeppni eða einhvers konar samanburð. Ekki er lengur heimilt að útdeila verkefnum til vina og vandamanna eða mismuna mönnum á annan hátt, allir eiga að sitja við sama borð. Hins vegar sýnist mér að á einkamarkaði gildi önnur lögmál sem ekki eru öllum stofum hagstæð, sérstaklega þeim minni. Það mætti alveg ræða það.

    • Hilmar Þór

      Takk Dennis.

      Já klíkusamfélagið er ekki eins sterkt og fyrir EES.

      Hinsvegar finna menn alltaf leiðir framhjá reglunum. Menn einkavæða eða setja af stað einkaframkvæmt m.a. til þess að sniða framhjá opinberum reglum að því er virðist og setja kröfur til þattakenda sem enginn getur fullnægt os.frv.

      Klíkan sinnir sínum hér eftir sem hingað til virðist mér. Hún er bara ekki alveg eins sýnileg og áður.

      En þetta hefur verið á brattann að sækja fyrir Gunnlaug, Sigurð og fl á tímum Guðjóns Samúelssonar.

  • Tilvalin mynd á 5 ára afmæli síðunnar og þakkir til þín,Hilmar, fyrir mikla vinnu og ídealisma.
    Sjarminn sem geislar af myndinni er fyrst og fremst að þakka þeirri samræmd sem einkennir byggðina: fyrstu „funkismeistararnir“ hafa aðlagað sig að staðaranda í efni og hlutföllum.
    Eftir stríð komu byltingarnar í efni,hlutföllum,fjárhag og hugsunum.
    Fyrir mörgum árum rannsakaði ég borgmenningu Toscana í spegli nútímans. Niðurstaða þeirra rannsókna:samfelld þróun er heilladrýgri en byltingar!

  • Sólveig H Georgsdóttir

    Til hamingju með árin fimm. Mér finnst oft afskaplega gaman að lesa þessa síðu og óska henni langra lífdaga. Þegar ég sé þessa mynd af trjálausum Þingholtunum rifjast upp fyrir mér að einu sinni fyrir allmörgum árum var ég í rútu á leið frá Þjóðminjasafninu til Listasafns Einars Jónssonar með 11 ára börnum úr barnaskóla bandaríska hersins á Keflavíkurflugvelli. Þegar við nálguðumst Þingholtin ætlaði allt um koll að keyra, börnin hrópuðu hvert ofan í annað: „Look, there are trees! There are trees!“ Mér rann til rifja hvað þessi veslings börn bjuggu í ömurlegu umhverfi þar sem engum datt í hug að reyna að gróðursetja tré og runna eða gera umhverfið hlýlegt.

    • Hilmar Þór

      Þakka þér hlý orð í garð bloggsins og skemmtilega reynslusögu.

  • Ég þekki ekki sögu hvítu húsanna sem Sturlubræður byggðu, held ég. Ég hefði gaman að vita hverjir byggðu húsin við Sóleyjargötuna. Fúnkishúsin tvö sem eru í byggingu voru byggð af Thorsurum held ég.

    Til hamingju með árin tvö Hilmar og takk fyrir. Síðan þín er algjör gimsteinn.

    • Hilmar Þór

      Takk fyrir þetta Gauti og þáttöku þína í umræðunni.

  • Hlöðver Stefán Þorgeirsson

    Hægra megin á myndinni eru stór hvít hús sem minna á kastala, þau eru ofan Laufásvegar á milli Bragagötu og Njarðargötu. Í dag er leikskóli í öðru húsinu.

    Þessi hús hafa vakið athygli mína. Þekkir einhver sögu þeirra?

  • Þórður

    Í blogginu er þetta sagt um Gunnlaug Halldórsson: „…og fundist hann standa hinum snillingunum tveim framar“.

    Er hægt að fá smá rökstuðning fyrir því á hvaða hátt Gunnlaugur hafi staðið Guðjóni framar!

    • Hilmar Þór

      Þórður.

      Það er þannig með arkitektúr að sitt sýnist hverjum og skoðanir eins þurfa ekki að vera betri en skoðanir annars. Ég byggi mitt dálæti á Gunnlaugi á mínum reynsluheimi og minni þekkingu.

      Gunnlaugur fylgdi hinum svokallaða skandinavíska funktionalisma sem er afskaplega fíngerður og rökéttur þó að hann hafi vissa þolinmæði gagnvart estetikkinni.

      Þetta eru arkitektar á borð við Aalto frá Finnlandi, Asplund frá Svíþjóð og Jacobsen frá Danmörku.

      Gunnlaugur var af sama toga. Þeir voru allir fuktionalistar með sterk persónuleg höfundaeinkenni. Allt snillingar.

      Guðjón Samuelsson er af annarri gerð eftir því sem mér sýnist.

      Þú þarft ekki annað en að skoða bólkina um verk Guðjóns “Íslensk bygging” sem er auðvitað eftir Jónas frá Hriflu. Þar sést hvað Guðjón hefur verið óöruggur. Verkin eru afskaplega misjöfn að gæðum og stíl. Þarna er fjallað um afburðaverk og önnur sem minni persónu þóknast ekki af margvíslegum ástæðum. Ef skoðaðar eru þrjár kirkjur sem Guðjón teiknaði og allir þekkja og standa í Reykjavík blasir þetta við. Það er Kristskirkja, Hallgrímskirkja og Laugarneskirkja. Þær eru svo ólíkar að formi og arkitektóniskum gæðum að maður á ekki gott með að sjá að þær séu eftir sama arkitektinn. Laugarneskirkja er sýnu best.

      Guðjón hefur sótt innblástur víða að. Það er eins og hann hafi ekki altaf byrjað á auðu blaði. Mér sýnist sum verka hans vera með áhrifum frá hinum hollenska Dudoc (Hilversum) önnur eru e.k. Potemkin-tjöld eins og Héraðsskólinn í Reykholti. En sá skóli hefur tvær framhliðar (mjög staðarlegar og fallegar) en á þeim eru svo bakhliðar sem Guðjóni hefur ekki þótt ástæðu til að velta mikið fyrir sér. En það er oft talað um að hús hafi ekki bara fjórar hliðar heldur fimm. Sú fimmta er sú hlið sem mætir himninum.

      Þetta skýrir kannski eitthvað þá skoðun mína að Gunnlaugur hafi staðið Guðjóni framar.

      Svo má ekki gleyma því að Guðjón fékk margfalt fleiri tækifæri en Gunnlaugur, enda hafði hann „verndara“, sem Gunnlaugur hafði ekki.

  • Hilmar Thor Bjarnason

    Þessi skrif þín eru sennilega það ánægjulegasta sem netið býður upp á. Stór orð að vísu, en vangaveltur þínar hafa oft á tíðum orðið að vangaveltum mínum um samspil manns og umhverfis. Þetta eru aðalsmerki góðra skrifa.

    • Hilmar Þór

      Takk fyrir þetta nafni. Stóru orðin eru einungis sett fram til að ögra smávegis í von um viðbrögð eða andsvör.

  • Hlynur Þór Magnússon

    Snilldarsíða, Hilmar. Hafðu bestu þakkir og haltu áfram sem allra lengst!

  • Halldóra Árnadóttir

    Ekki gleyma að veðurfarið hefur breyst með tilkomu trjágróðursins. Sagan af Gunnlaugi er umhugsunar verð.

  • Ég þakka fyrir skemmtilegt blogg í 5 ár. Vonandi er þessu ekkert að ljúka og við fáum 5 ár í viðbót..

  • Steinarr Kr.

    Tráleysið er athyglisvert. Mikið ofboðslega hefur gróður mikil áhrif á ásýnd borgarinar.

  • Guðrún Jónsdóttir

    „Þó Gunnlaugur hafi ekki sagt það beint þá áttaði ég mig á að þarna var hann líklega að hugsa til íslensks klíkusamfélags og sérstaklega sambands þeirra Jónasar frá Hriflu og Guðjóns Samúelssonar“.

    Þetta klikusamfélag ræður enn ríkjum hér og er ekkert að lagast. Voru þeir kannski báðir framsóknarmenn. Jónas og Guðjón? Hefur einhver kynnt sér pólitík arkitektsins?

  • Hlöðver Stefán Þorgeirsson

    Þetta er ógrúlega fallegt hverfi. Ég nýt þess að virða það fyrir mér þegar ég sit í strætó á leið suður Suðurgötuna, eða þegar ég sit í matsalnum á Háskólatorgi. Ég fer líka oft þangað á hjóli og hjóla um göturnar og skoða húsin og göturnar. Mér finnst Þingholtin ásamt Gamla Vesturbænum mun skemmtilegri og fegurri en Kvosin. Hugsum okkur ef hún hefði fengið að þróast á sama hátt, og væri ekki eins sundurlaus og hún er í dag.

    Einnig hefur umræðan hér um umfang nýs Landspítala vakið mig til umhugsunar. Byggingar Landspítalans skara nú þegar upp úr byggðinni í Þingholtunum og brjóta það upp hversu fallega hún lagar sig að landslaginu.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn