Föstudagur 17.02.2012 - 22:56 - 11 ummæli

Þingvellir- Kárastaðastígur 1. verðlaun

 

Nýlega var haldin opin samkeppni um Kárastaðastíg sem liggur um Almannagjá á Þingvöllum. Samkeppnin var haldin í samvinnu við Arkitektafélag Íslands.

Hér er kynnt tillaga sem hlaut fyrstu verðlaun í samkeppninni sem unnin var af arkitektastofunni Studio Granda.

 Stígurinn liggur í gegnum Almannagjá og yfir sprungu sem kom skyndilega í ljós fyrir nokkrum misserum og þurfti að brúa.

Þetta er afskaplega vel unnin tillaga þar sem markmiðið er að náttúran njóti sín og maðurinn haldi sér til hlés. Tillögunni fylgdi greinargerð sem lýsir vel þeim hugmyndum sem að baki liggja. Þar er tekið á atkitektóniskri nálgun og tæknilegum útfærslum á máli sem öllum er skiljanlegt, án orðagjalfurs sem oft einnkenna slíkan texta. Ég leyfi mér að birta greinargerðina í heild orðrétt:

„Göngubrúin er upphaf gönguleiðarinnar um þinghelgina, þar sem enn má sjá sögulegar minjar og einstakar náttúrumyndanir. Mannvirkið er eins látlaust og mögulegt er enda annað vart við hæfi á þessum stað. Best væri að það væri ósýnilegt, en markmiðið er að það hverfi í landslagið, svo náttúran og sagan fái notið sín.  

Framkvæmdin er  einföld og hægt er þar sem tíminn er naumur og áhersla er lögð á að auðvelt verði að jarlægja mannvirkið án þess að nokkur ummerki sjáist.

Göngubrúin tekur við af sveigðum norðurenda útsýnispalls á Hakinu. Stór steinn lokar bilinu á milli handriða brúar og framlengds gangstígs frá útsýnispöllum og girðir fyrir gjánna sem þar er. Annar stærri steinn er við hinn enda brúarinnar, sem lokar fyrir sprungusvæðið þeim megin.

Steinarnir eru eins og verðir á sitt hvorum enda og á þeim mættu vera upplýsingaskildir t.d. um Grím geitskó á öðrum steininum og Úlfljót á hinum, eða segja frá málsvörn Eyjólfs Bölverkssonar í Brennumáli Flosa þórðarsonar sem sagt er aðhafi átt sér staðá Hakinu, af nógu er aðtaka.

Brúin sveigir lítillega og lagar sig að sprungunni svo hreyfingin er varla greinanleg. Hún liggur yfir grynnsta hluta sprungusvæðis, en til hliðar við dýpstu sprungurnar svo sjá má niður í myrkustu hyldýpi. Óreglulegur botn sprungunnar gerir það mögulegt að koma fyrir undirstöðum á vel völdum toppum með hæfilegu millibili. Langbitar unnir úr rekaviði sitja á undirstöðum og á þeim hvílir brúargólfið sem sagað er úr sitkagreni frá Skógræktinni í Skorradal. Horfið var frá Því aðgeragólfið gagnsætt, þar sem að skuggamyndun yrði alltaf of mikil til að sprungan nyti sín í gegnum gólfið og ekki er forsvaranlegt að lýsa upp sprunguna undir brúnni. Gangbreidd brúargólfs er 3m, svo hópar geti auðveldlega mæst. Yfirborðið er látið veðrast. Handrið er gert úr ryðguðum efnispípum í 1,6m fresti sem boltaðar eru í gegnum brúargólfið. Á milli þeirra er strengt net, ofiðúr basalttrefjum, en það er níðsterkt og þolgott efni í dökkum lit, gert úr sama efni og bergið í kring. Ryðliturinn og dökkt basaltið samlagast umhverfinu og hverfa í það. Efnisval miðar við að mannvirkið batni með aldrinum. Eftir að brúnni sleppir tekur gamli malarstígurinn við, endurbættur og mjórri, með grjóthleðsluköntum þar sem stígurinn teygir sig upp aðbrúarendanum.

Framtíðarbrú yfir Öxará, við Drekkingarhyl, gæti verið með sama gólfi og handriði og göngubrúin, en burðarkerfiðþyrfti að vera öflugra og yrði gert úr ryðbrúnum prófílum.

Tillagan snýst um lágmarks rask í gjánni og hefur það sjónarmið að maðurinn skuli halda sig til hlés á þessum helga stað“.

Það er  mikilvægt að kunna að draga sig til hlés og vera meðvitaður um hvenær lítillæti er dyggð. Það hefur tekist hér.   Studíó Granda hefur náð tökum á lítillætinu og laðað fram lausn sem lofar góðu.

Til þess að skýra þetta nánar minni ég á aðra tillögugerð sem unnin var á sama svæði. Þar kemur arkitektúrinn (arkitektinn) í fyrsta sæti, maðurinn í öðru og náttúran og sögustaðurinn rekur lestina í goggunarröðinni og hafnar í þriðja sæti.

Slóðin er hér:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2010/10/12/thingvellir-stadarvitund/

Teiknistofan Studio Granda hefur verið áberandi í samkeppnisumhverfinu undanfarna áratugi og unnið til nokkurra verðlauna. Fjallað hefur verið um stofuna allnokkru sinnum á þessum vef.

Hægt er að skoða allar tillögurnar í samkeppninni á þessari slóð:

http://www.thingvellir.is/frettasafn/nr/565

M.a. á þessari slóð:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2010/02/16/studio-granda-kynning/

Það er rétt að vekja athygli á því að n.k. laugardag opnar sýning í Norræna Húsinu sem fjallar um arkitektasamkeppnir síðastliðin 40 ár með útgangspunkti í hugmyndasamkeppni um Þingvelli árið 1972. Samkeppni sú var haldin í aðdraganda  1100 ára afmælis Íslandsbyggðar árið 1974.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (11)

  • Hugsa að þurfi talsverðar festingar í bergveggina til að þetta virki, þar að auki sem mér sýnist eftir að hafa komið þarna talsvert rask hafa átt sér stað í sjálfri sprungunni. Þessi brú held ég sé rugl. Best væri að moka möl ofan í sprunguna og labba eins og áður. verndarsjónarmiðinn leiða hér til þess að þetta verður enn meira manngert svæði en fyrir var. Og ekki verður betur séð en að þessar tröppur eða brú geti orðið flughál á vetrum og þá þarf eilíft að sanda eða salta og moka osfrv.

  • Hvaða arkitaktarí er þetta! Best og réttast er að sturta bara grús i nýju sprunguna og hafa þetta sem líkast því sem var. Það var upplifun að heyra berkmálið frá klettunum af skohljóðinu í mölinni þegar gengið var niður gjána. Nú verður hljóðið verður eins og gengið sé á sumarbústaðapalli.

  • Þorbergur

    Gler eða hvað sem tíðarandinn kallar á skiptir litlu. Hilmar Gunn vekur athygli á stöðunni og valinu. Í minum huga á að vera þarna malarstígur eins og við þekkjum frá æsku.

  • Hilmar Gunnars

    Ég hefði veðjað á gegnsæi í brúargólfinu. Hugsanlega dökk grátt, gróft gatastál sem gæfi gott grip. Jafnvel ryðgað stál eins og þau velja í handlistana. Rökin gegn skuggavarpi af gegnsæu gólfi ofan í gjánna finnst mér veik. Hljómar fyrir mér eins og það hefði verið meira spennandi en þessi massífa viðarbrú sem hvaða bóndi sem er, hefði getað slegið upp yfir helgi. Skuggavarp af burðarvirkinu, ofan í misgengi landslagsins, gæti einmitt hjálpað til við skilning á því sem fyrir augum ber.

    Hvaða tilgangi þjónar arkitektúr ?

  • Torfi Stefán

    Lítur ágætlega út en vil svara því til að Kárastaðastígur hefur ekki verið leiðin niður á þennan stað fyrr en eftir skjálftan 1789. Áður lá leiðin líklegast meðfram vatninu. Kárastaðastígur niður í Almannagjá var að hluta til opnaður um 1835 en myndi segja almennilega eftir 1890. En þetta eru sögulegar staðreyndir um leiðina en koma arkitektúrnum í sjálfu sér neitt við.

  • Verð nú að segja að þetta lítur nú ekkert sérstaklega spennandi út, en vissulega á þetta að vera sem látlausast. Ágætis punktur hjá Sigurði hér að ofan.

    En mig langar að taka upp eina umræðu hér á nýjan leik þó að ekki sé nú verið að ræða þetta mál.
    (kannski Hilmar bloggi um þetta bara enn einu sinni )

    Erum við að fara að horfa uppá það að þetta deiliskipulag vegna Landspítalans verði bera keyrt í gegn hvað sem tautar og raular. Það virðist ekki skipta nokkur einasta máli hvort það koma fram mjög sterk rök gegn staðsetningu spítalans á þessum stað, þetta ferlíki skal byggt, það er búið að ákveða það, punktur !! Hver eða hverjir eru það sem vilja ekki hlusta á nein rök í þessu máli ? Hvaða gríðar sterku hagsmunir eða öfl liggja hér að baki ? Hver ákvað þetta eiginlega ?

    Það hafa komið ótal rök gegn þessu á undanförnu ári, bæði frá starfsfólki, nágrönnum, hinum og þessum sérfræðingum, skipulagsfræðingum og arkitketum. En nei….þetta skal byggt !

    Við vitum öll að það þarf að byggja nýtt sjúkrahús og er það bara hið besta mál en hversvegna í ósköpunum er það ekki byggt þá frekar við borgarspítalann sem liggur mun betur gagnvart umferð og nær hjarta höfuðborgarsvæðisins. Þessi tengls við Háskólann halda engu vatni og 90% af starfsfólki spítalans munu koma akandi til vinnu frá austri með tilheyrandi vandamálum.

    http://www.pressan.is/Frettir/LesaFrett/ibuasamtok-ekki-anaegd-med-deiliskipulag-lod-landsspitala.-storslys-vilja-sumir-meina

  • Sigurður Sunnanvindur

    Hafið þið velt því fyrir ykkur hvernig stígur með svona sléttu yfirborði og í þetta miklum halla verður hálkuvarinn?
    Eða hvort mögulegt sé að nota vélar, sem stundum þurfa að vara á á keðjum, til snjóhreinsunar?

    Á þessum stað fær undirlagið minnsta athygli ef það er úr möl, hellulagt með náttúrulegu auðkleyfnu andesíti eða hreinlega hellulagt. Brúin á að vera eins minimalistísk og frekast er unnt, -dókkgratt stál kemur þar til greina.

    Timburstígarnir eru góðir til að leggja leiðir yfir óraskað hraun en eiga ekki erindi ofaná gamlan gráan þjóðveg þar sem hefur verið gata frá því Alþingi var kallað saman 930.

  • Eiríkur Jónsson

    Væri hægt að fá að sjá meira agteikningum og deilum. Annars flott og gefandi blogg

  • stefán benediktsson

    Mér datt í hug japönsk hæka. Þetta er verk sem kemst næst því að gera ekki neitt. Þetta er verk sem ætla má að muni eldast inn í umhverfið og hógværð þess mun auðvelda fólki að einbeita sér að náttúrunni og sögunni og rekstur mannvirkisins mun ekki verða dýr.
    Ég byggi þessa skoðun mína, sem arkitekt, á reynslu minni af að gera náttúruunnendum kleift að njóta náttúrunnar með sem þægilegustum hætti án þess að skemma hana.

  • EiríkurJ

    Tekið af heimasíðu Þingvallanefndar:

    Þær tillögur sem hljóta verðlaun eru:

    1. verðlaun, tillaga merkt 2, nr. 10203.
    Höfundar; arkitektar: Studio Grandi, verkfræðingar: Efla

    Sem sagt, höfundarnir eru tveir . . .

  • Gvendur Boga

    Arkitektur á mannamáli

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn