Mánudagur 29.11.2010 - 11:48 - 11 ummæli

Þórshöfn í Færeyjum

Guðmundur skrifar athugasemd við síðustu færslu mína og bendir á Þórshöfn í Færeyjum og segir að við ættum að taka hana okkur til fyrirmyndar.  

Hann segir “….höfnin þar er enn skemmtileg, veitingastaðir og hótel allt um kring, en höfnin þó full af bátum og skipum og líf á hafnarbakkanum, stundum markaðir og uppákomur. Þar er smábátalægi innst í höfninni og stór skip utar”.

Ég hef aldrei til Færeyja komið en skoðaði skipulagið og svæðið á netinu og sé að þarna er lifandi höfn eins og Guðmundur bendir á. Þarna eru dráttarbrautir alveg i miðbænum. Gott lægi fyrir stór og smá skip.

Höfnin í Þórshöfn hefur greinilega mikið aðdráttarafl sem byggist fyrst og fremst á hafnarstarfseminni sjálfri.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (11)

  • Ég held að almennt þurfi íslendingar að fara að endurmeta og styrkja tengsl sín við höfnina, fjöruna og hafið. Það er tækifæri til að gera það m.a. við Reykjavíkurhöfn og passa þá að halda skalanum niðri, eins og einkennir einmitt höfnina í Þórshöfn. Það þrífst ekkert mannlíf í stórkallalegu köldu umhverfi eins og sumar tillögurnar sem síðuhöfundur gaf svo góða yfirsýn yfir í síðurstu færslu um framtíð Reykjavíkurhafnar. Reynum að hemja okkur 0g vera skynsöm, mér finnst arkitektar oft falla í þá gryfju að gera stórar og „kúl“ byggingar sem bera oft meiri einkenni skúlptúra og minnismerkja en borgarbygginga sem mynda heild með umhverfi sínu. Ég vil líka vara við sjónásum sem hafa verið vinsælir og geta verið frábærir á meðan þeir vísa ekki beint upp í norðanáttina sem er helsti óvinur Kvosarinnar og Reykjavíkurhafnar.
    Varðandi það sem ég myntist á fyrst að íslendingar ættu að styrkja samband sitt við fjöruna vil ég benda á smá pistil sem ég skrifaði á bloggsíðunni minni http://samson.blog.is/blog/samson/
    kveðja

  • Það er ýmislegt sem hindrar okkur í að fara Þórshafnarleiðina. Í fyrsta lagi er erfitt að tengja höfnina við miðbæinn meira en nú er vegna Mýrargötu og húsanna við Tryggvagötu. Reyndar er merkilegt hvað skipulagið miðast við að aðskilja ströndina og byggðina með akbrautum og athafnasvæðum (sbr. Sæbrautina og Sundahöfnina). Auk þess er höfnin hér opin í norður sem dregur eitthvað úr aðdráttaraflinu, en í Þórshöfn snýr hún í norðaustur og Eysturoy skýlir fyrir norðanáttinni. Ef vel er haldið á spöðum getur skipulag svæðisins í kringum tónlistarhúsið eitthvað bætt þarna úr, og orðinn er til vísir að lífi á höfninni í kringum gömlu verbúðirnar, þannig að þetta er ekki óvinnandi vegur.

  • Þessi hafnarsyrpa leiðir mann að vandamáli Reykjavíkurhafnar sem er ógnvekjandi og að lausninni sem er sennilega að finna í Þórshafnarleiðinni.

    Árni Ólafsson greinir þetta vel þegar hann skrifar “Þegar gengið er frá höfninni í Þórshöfn upp í gegn um bæinn og út í sveit, þ.e. í gegn um öll „tímabelti” bæjarins, breytist fátt annað en stærð glugganna á íbúðarhúsunum – og reyndar einnig stærð lóðanna. Arkitektúrinn er nánast sá sami.”

    Þarna er nálgun Færeyinga vel lýst.

    Má ekki líta á efnahagsástandið sem gullið tækifæri til þess að koma böndum á skipulagið. Endurskoða allar fyrri ákvarðanir og byrja á auðu blaði. Er ekki enn tækifæri til að bjarga Reykjavíkurhöfn

  • Árni Ólafsson

    Næst á eftir Róm, þar sem nema má grunndvallaratriði byggingarlistarinnar, ættu allir íslenskir arkitektar að fara til Færeyja og temja sér auðmýkt gagnvart umhverfinu og virðingu fyrir menningararfinum.

    Sameiginlegur rætur þjóðanna við Norðuratlantshafið birtast hvað skýrast í byggingarhefðum Færeyinga á meðan við höfum fram á síðasta dag tekið til og „snyrt” umhverfi okkar með því að afmá gömlu torfbyggingarnar af yfirborði jarðar. Og vorum langt komin með timburhúsin áður en við áttuðum okkur.

    Þórshöfn er álíka fjölmennur bær og Akureyri en mjög ólíkur. Skipulag flokkunar og aðgreiningar (nútíma borgarskipulag) er þar ekki jafn mótandi dráttur í bæjarmyndinni og hér. Hins vegar má sjá í jaðrinum nokkur “2007” hverfi eða þyrpingar í uppbyggingu, aðgreind og afskorin og ekki hluta af hinni samfelldu byggð. Einnig er það eftirtektarvert að fúnksjónalisminn er ekki áberandi sem byggingarstíll í Færeyjum, varla sýnilegur. Á uppbyggingarárum okkar varð fúnksjónalisminn, alþýðufúnkis og allskyns tilbrigði við módernisma allsráðandi – bæði hjá fagmönnum og almenningi. Uppgangstímar okkar eru því mótaðir með nútímabyggingarlist án nokkurra tengsla við menningararfinn. Þegar gengið er frá höfninni í Þórshöfn upp í gegn um bæinn og út í sveit, þ.e. í gegn um öll „tímabelti” bæjarins, breytist fátt annað en stærð glugganna á íbúðarhúsunum – og reyndar einnig stærð lóðanna. Arkitektúrinn er nánast sá sami. Hótel Hafnina, sem sést á einni myndinni hér að ofan, er eitt af örfáum Reykvískum „minnum” sem sjást í bænum (les: brunagafl).

    Og höfnin – Norræna leggst að í miðbænum og gnæfir yfir byggðina. Ferjur til annarra eyja, smábátar og fiskiskip liggja við hafnarbakkann nánast í miðbænum. Og miðbærinn nær að hafnarbakkanum. Tinganes er einstakt. Færeyjar eru ferðarinnar virði.

  • Má ég benda á að það er og hefur alltaf verið til fólk sem „kann þetta“ hér á landi á alla síðustu öld frá Rögnvaldi húsameistara og næstliðin 120 eftir það.
    Sérstaklega, þó of seint sé, vil ég benda stefáni benidiktssyni á þá staðreynd.

  • Hrafnkell

    Ég kom þarna með Norrænu sumarið 2008 og get vottað að Þórshöfn er fallegur staður með mikinn staðaranda. Við gætum lært mikið af frændum okkar Færeyingum ekki sýst hvernig flétta má höfn og miðbæ/borg. Ætli þeir séu ekki svo blessunarlega heppnir að vera lausir við umferðarverkfræðinga við skipulag borgarinnar. Þeir hafa hins vegar fengið næg verkefni utan bæjarmarkanna.

  • Sveinbjörn Sigurðsson

    Færeyingar hafa skilning á arfinum og sögunni. Þeir hugsa vel um það sem þeir eiga hvort sem það eru einstök hús eða hafnir. Guðmundur á þakkir fyrir að nefna höfnina í Þórshöfn og draga hana inn í þessa umræðu. Við íslendingar leitum stundum langt yfir skammt og alltaf yfir lækinn. Harpa á rætur sínar að rekja til Sydney með viðkomu í Kaupmannahöfn. Kaupmannahöfn er dauð höfn, Þórshöfn er lifandi meðan Reykjavíkurhöfn er komin á líknardeild.

  • stefán benediktsson

    Hvort það er íslensk minimáttarkennd veit ég ekki, en mér finnst færeyingum takast allt vel í skipulagi og byggingum. Höfnin, Tinganesið, norræna húsið, hótelið í brekkunni sem alltaf er að skipta um nafn. ‘ibúðarbyggð, eiginlega sama hvar litið er, svarttjörguð hús og rauðar áfellur. Nánast sígrænt umhverfi er auðvitað öfundsverður rammi. Ég mæli með Færeyjaferð, sama hvernig veðrið er.

  • Þetta er hræðilegt að sjá, réttast væri að brenna bæinn og fleiri bæi í Færeyjum. Þarna eru sko verkefni fyrir formann skipulagsráðs og íslenska byggingakverktaka.

  • Guðmundur

    Án þess að vita það fyrir víst finnst mér líklegt að ástæðan sé að hluta til plássleysi. Það er þéttbyggt þarna í kringum höfnina, þar er líka elsta byggðin sem Færeyingar vilja ekki hrófla við.

  • Þorsteinn G.

    Af hverju var Norræna húsinu í Færeyjum ekki valinn staður við höfnina?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og sex? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn