Sunnudagur 02.09.2012 - 16:01 - 21 ummæli

Þórsmörk

 

Það var stórkostleg upplifun eftir að hafa gengið frá Emstrum 15-17 km leið um auðnir og sanda, vaðið jökulár að koma svo í Þórsmörk þar sem allsráðandi íslenska ilmandi og kræklótt birkið tók á móti manni.  Í fjarska til suðurs voru jöklarnir og öll náttúran í einhverju óskiljanlegu náttúrulegu jafnvægi þrátt fyrir andstæðurnar.

Þetta er dásamleg upplifun sem engin ætti að láta fram hjá sér fara.

Svo þegar kom í Húsadal blasti við ljósastaur sem hannaður er til þess að standa á gangstéttarbrún í þéttbýlinu.

Þetta var antiklimax sem skemmti upplifunina.

Svo þegar nær dró tjaldstæðinu kom annað stílbrot.

Gróðursett hafði verið skjólbelti umhverfis tjáldstæðið. Og sú planta sem umsjónarmenn þessarrar náttúriperlu höfðu valið sýndist mér vera ösp (víðir!). Og ekki bara það heldur alaskaösp sem á uppruna sinn í allt annarri heimsálfu. Öspin á víða rétt á sér en ekki hér.

Það væri svo sem ekki ástæða til þess að gera mikið mál útaf þessu ef einhverjir leikmenn stjórnuðu þarna og bæru af vanþekkingu eða smekkleysi ábyrgð á götuljósastaurum og öspum í Þórsmörk. En svo er ekki.

Mér er hugsað til Björns Th. Björnssonar sem lengi mótmælti furulundinum á Þingvöllum. Fólk áttiu að hlusta á hann. Hann hafði lög að mæla.

Í raun skil ég ekki af hverju ekki er sett í skilmála sumarbústaðalanda ákvæði um hvaða trjátegundir megi gróðursetja.

T.a.m finnst mér að umhverfis Þingvallavatn ætti einungis að leyfa birki og víðiplöntur og í Flatey á Breiðafirði ætti að banna trjágróður.

En kannski er þetta bara tóm vitleysa í mér.

 

Hvað eru götuljósastaurar og aspir að gera í Þórsmörk?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (21)

  • Kári Geir

    Vel mælt VTIG.

    Og já, greinahöfundur, kannski þetta með trjáplönturnar sé bara tóm vitleysa í þér, þótt auðvitað sé eðlilegt að hugsa hlutina til enda þegar trjágróður er skipulagður eða ræktaður skógur.

  • Jeminn, ímyndið ykkur ef við færum að rekast á villt jarðarber útí annars óspilltri íslenskri náttúru!

    Það er aðkomujurt sem en innflutt af manninum!

    .. …

    Sumum finnst aspir ljótar, gott og vel.. og að finnast þær ekki viðeigandi af einhverjum persónulegum ástæðum á ákveðnu svæði: fínt.

    En til hvaða kennda mannsins er verið að höfða með tilvísun í uppruna plöntunnar, sbr. „ekki bara það heldur alaskaösp sem á uppruna sinn í allt annarri heimsálfu“?

    Sé skjól af þessum öspum, eins og ætlunin var væntanlega, þá er það hið besta mál – sér í lagi vegna þess að aspir eru ekki illgresi sem mun smitast út um allt, það má vel nota það skjól sem aspirnar gefa til að gefa öðrum fagurfræðilega ‘heppilegri’ gróðri færi á að vaxa og dafna.

    Aspirnar lifa ekki að eilífu, og því erfitt að hneykslast.

  • Má til með að benda ykkur á þessa grein sem fellur að umræðunum.

    http://www.skog.is/images/stories/frettir/2010/greinag-framandi.pdf

    Mbk.

    • Hilmar Þór

      Þakka Davið fyrir að benda á þessa grein. Eftir að hafa skimað hana mæli ég með henni.

      En aðalatriðið, eins og fyrr hefur komið fram, er að við þurfum að hugsa okkur vel um áður en við breytum einkennum staðanna Hvort heldur er með nýbyggingum eða gróðursetningu.

  • Hilmar Þór

    Guðjón.

    Það sem einmitt gerir tilveruna skemmtilega er m.a. það að við erum ekki sammála umhlutina.

    En þú mátt ekki rugla þjóðerniskennd við óskina um að viðhalda einkennum staðanna. Það er alveg tvennt ólikt. Hitt er rétt hjá þér að það er alltaf hætta á að innfluttu tegundirnar ógni þeim „staðbundnu“.

    Aðalatriðið er að við þurfum að hugsa okkur vel um áður en við breytum einkennum staðanna.

    • Guðjón Erlendsson

      Ég met þetta útfrá fílósófískri stöðu.
      Ein póllinn í verndunar umræðu er sjónarmiðið, þar sem „hið gamla“ eða „hið upprunalega“ er talið verðmætt og eigi að vernda umfram það sem er nýtt. Flestir sem fylgja þessari stefnu vilja vernda það sem þeir telja merkilegt og fallegt. Hörðustu meðmælendur þessarar stefnu eru á móti allri breytingu, og virja vernda allt. Þeir eru kallaðir „Banana“ erlendis (Build Absolutely Nothing Anywhere Near Anything (or Anyone)). Þetta á við bæði um byggð og óbyggð svæði.
      Það er hægt að rökræða um það sem er fallegt. Enda er það byggt á „subjectivity“ en ekki „objectivity“. (Ég afsaka en Íslenska orðabókin í höfðinu á mér er orðin frekar veik). Það er hægt að eyða löngum kafla í þá umræðu, svo ég sleppi því hér.

      Fílósófíska staðan sem ég tek í málinu er einfaldlega sú að allt í heiminum breytist. Ekkert er til að eilífu. Ef þú verndar hús, eða trjálund, hve lengi villtu vernda það? 100 ár, 1000 ár, 10.000 ár? Þeim lengur sem þú stefnir á, þeim vonlausara er þessi hugmynd. Eftir 5 billjónir ára mun sólin éta plánetuna Jörð. Er það dagsetningin?
      Þetta leiðir að næstu spurningu. Fyrir hvern ert þú að vernda þetta? Börnin, barnabörnin, 10 ætliði? Hvað veist þú um vilja eða lífssýn næstu kynslóða? Niðurstaðan hlýtur að vera að þú ert að vernda þetta fyrir þig og engann annan. En einstaklingar og samfélagið hafa fleiri þarfir en gömul rými. Það er satt að ný rými sem mannskeppnan hefur sett sig niður á eru oftast frekar ljót og ómanneskjuleg (með undandetningum). Provence í Fraklandi var ekki full af vínekrum og hólaþorpun fyrir 3000 árum. París hafði engin breyðstræðti fyrir 200 árum. Það sem þeir staðir sem fólk telur manneskjulega og aðlaðandi hafa sameiginlegt er að þeir hafa þróast yfir langan tíma, og þróast enn. Það er tíminn sem gerir þá aðlaðandi. Íbúar byggja, gróðursetja, rífa niður og grafa upp. Í þessari endalausu breytingu, þá heldur fólk í það sem það telur verðmætt fyrir samfélagið. Oft hverfa hlutir sem víð í dag sem túristar teljum verðmæta. En umhverfið ætti ekki að vera stjórnað af væntingum túrista.
      Við erum núna á leið inni langvarandi breytingar á veðráttu. Þessi umhverfisáhrif munu breyta náttúruni í kringum okkur. Náttúra Íslands verður ekki eins og hún er nú eftir 1000 ár. Það eru reyndar sannanir fyrir því að hugmyndir okkar um náttúru Íslands fyrir 1000 árum síðan eru ekki réttar.
      Það þarf þess vegna rökræna hugsjón í þessum málum. Það er ekki nóg að gera umhverfið að safni þess gamla, og drepa þar með alla þróun. En á sama tíma þarf auðvita að halda í það sem uppfyllir þarfir samfélagsins, oft gegn vilja og gróða einstaklinga. Það er umræða sem vert er að hafa.

  • Guðmundur Guðmundsson

    Því miður er sjaldgæft að menn „Lesi í landið “ áður en framkvæmdir hefjast.

    Þetta á bæði við um byggingu sumarhúsa og gróðursetningu.

    Full þörf er á umræðu um þessi mál.

  • Guðjón Erlendsson

    Ég er ekki sammála þessu félagi.

    Mér finnst þjóðerniskennd í gróðursetningu álíka leiðinleg og önnur þjóðerniskennd. Annað kemur til ef að staðbundin tegund er í hættu vegna innfluttrar tegundar, þar snýst þetta um að vernda eitthvað annað er þjóðernissýn. Ekki gleyma því að líkt og mannfólkið, þá er allt lífríki á Íslandi innflutt.

    Ljósastaurinn er mjög avant-garde svona eins og „brunnurinn“ eftir Duchamp http://en.wikipedia.org/wiki/Fountain_%28Duchamp%29 Þó svo það hafi ekki verið ætlunin. En stundum eru slys meiri menning er það sem er áætlað sem menning.

    • Hilmar Þór

      Ég var ekki búinn að átta mig á nýju kommentakerfi. Því endurtek ég ummæli við athugasemd Guðjóns.Guðjón.

      Það sem einmitt gerir tilveruna skemmtilega er m.a. það að við erum ekki sammála umhlutina.

      En þú mátt ekki rugla þjóðerniskennd við óskina um að viðhalda einkennum staðanna. Það er alveg tvennt ólikt. Hitt er rétt hjá þér að það er alltaf hætta á að innfluttu tegundirnar ógni þeim „staðbundnu“.

      Aðalatriðið er að við þurfum að hugsa okkur vel um áður en við breytum einkennum staðanna.

  • Þessi umræða um „framandi tegundir“ er alveg makalaus. Með ykkar rökum ætti að setja reglur um að ekki mætti nota „framandi byggingarefni“ í íslenskri náttúru.
    Mbk.

    • Þetta er aldeilis makalaus rösemdarfærsla hjá þér Davíð.

      Þú hefðir eins geta sagt að hvítir menn mættu ekki vera í Afríku og svartir í Evrópu. Furulundurinn á Þingvöllum, aspirnar, grenið í Grafningnum, aspirnar(alaskavíðirinn) í Þórsmörk er ekkert annað en mengun á íslenskri náttúru sem hætt er á að breiði úr sér og nái yfirhöndinni.

      Það gera byggingarefnin ekki. Þau eldast og fúna og tærast og hverfa að lokum.

      Hverslags bull er þetta í þér Davíð.

      Flott og tímabær færsla.

    • Sæll Jens.

      Það sem ég á við er að landið mengast ekkert við það að nýjar tegundir nemi hér land. Slíkt er óhjákvæmilegt og mun gerast aftur sama hvort maðurinn komi nálægt því ferli eða ekki. Allar þær tegundir sem vaxa hér núna hafa vaxið hér áður á jarðsögulegum tíma eins og steingervingar vitna til um t.d. á Vestfjörðum. Þannig að já það er augljóst að þessi mannanna verk geta fúið og horfið eins og annað. Annars má benda þér á að skógar á Íslandi þekja um 1.3 % af flatarmáli landsins og eru birkiskógar/kjarr þar yfirburðarstærð.

      Mbk.

  • Páll J.

    Virðist vera víðir já af myndinni.

    En ég hef aldrei skilið þessa asparumræðu. Það þarf að vera mjög lélegt aspartré sem ekki er meira heillandi en meðalbirki. Maður þarf oft að bíta í vörina á sér þegar verið er að pota niður birki sem einhverju skrauttré.

  • Sæll Hilmar
    Þarfar pælingar um gróðurval í íslensku trjálendi.
    Sýnist reyndar af myndunum að dæma að hér sé um að ræða alaskavíði, án þess að það breyti öllu varðandi umræðuefnið. Félagi okkar, Oddur Hermannsson getur e.t.v. frætt okkur meir um aðstæður í Þórsmörk, en ég held að hann hafi eitthvað verið að skipuleggja þar að undanförnu.

    Annars er ekki alveg rétt að aldrei séu settir skilmálar um gróðurval í t.d. frístundahúsasvæðum. Við hjá Landhönnun setjum einmitt alltaf slíka skilmála í okkar frístundahúsaskipulög. Hvort eftir því sé svo farið, og eftir því fylgst, er svo allt annað mál 😉

  • Þorbergur

    Ég hef tekið eftir þessu og nefndi aspirnar lauslega og léttilega við starfsfólk á tjaldstæðinu í fyrrasumar. Þeim fannst þetta ekkert til að hafa áhyggjur af. Mér er spurn. Er það FI sem sér um þetta og hefur stjórnað plöntuninni?

    Suðurhluti Þingvallavatns með Grafningi er að verða ónýtur sem náttúra vegna takmarkalausri plöntun framandi trjáa.

  • Þetta er víða að gerast en enginn þorir að taka á þessum vanda. Sumarhúsaeigendur eru víða að skemma landið okkar. Aspirnar eru verstar.

  • No, Hilmar, you are absolutely right regarding the vegeatation. But soemhow I like the streetlight, because of its abstract surprising moment.

    • Hilmar Þór

      You are partly right Norbert, but I’m not sure wether I like to suffer such unexpected surprice at this location. Thinking about the streetlight. Looking forward to meet you in september.

  • Góð ábending, Hilmar.
    Það sama er í gangi í Mývatnssveit. Búið er að gróðursetja lerki þar í stór svæði, sem mun hafa talsverð áhrif á ásýnd landsins.

  • stefán benediktsson

    Ótrúlegt hugsunarleysi.

  • Var einhver að tala um að íslendingar kunni að umgangast náttúruna?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn