„Þegar ég málaði stærsta verkið hér á sýningunni var ég að hugsa um lýðræðið á Ísland. Hvort hér væri yfirleitt nokkuð lýðræði. Þess vegna málaði ég tvo apa sem eitthvað eru að ráðskast með þetta og þar með held ég að ég hafi sagt allt sem ég hef að segja um þá mynd“
Þetta sagði Magnús Kjartansson um mynd sína „Lýðræði götunnar/Jungle democracy“ frá árinu 1989. Ljósmyndin efst í færslunni er af þessu verki sem er í eigu Listasafns Íslands
Síðastliðinn föstudags var opnuð yfirlitssýning á verkum Magnúsar sem lést 57 ára gamall árið 2006. Þetta er ein alfallegasta yfirlitssýning sem ég hef nokkurntíma sótt. Sýningin spannar verk Magnúsar frá því hann var ungur nemandi í MR þar til hann hætti að mála.
Ég var svo heppinn að kynnast Magnúsi ágætlega. Við þekktumst frá frumbernsku þar sem foreldrar okkar voru miklir vinir. Feður okkar stunduðu flugnám í Þýskalandi fyrir heimstryrjöldina síðari. Leiðir okkar Magnúsar lágu svo aftur saman á Akademíunni í Kaupmannahöfn á árunum uppúr 1970.
Magnús var einstakur maður eins og allir vita sem til hans þekktu og skoða myndlist hans. Hann var vel gefinn, næmur, skemmtilegur, gáskafullur og tilfinningaríkur. Hann var síleitandi eins og allir sjá sem skoða þessa merkilegu sýningu og þróun myndlistarinnar. Manni fannst stundum þegar hann skipti um stíl, sneri við blaðinu, að hann væri að feta ranga slóð. En eftir smá skoðun og ef maður leyfði myndunum að tala til sín sá maður að listamaðurinn vissi hvert hann hélt.
Það má enginn láta þessa sýningu fram hjá sér fara. Það ríkir skemmtilegt og uppörfandi andrúm í sýningarsölunum sem gesturinn getur ekki látið hjá líða að taka með sér heim. Þetta eru pólitísk verk, trúarleg og svo eru þarna nánast fjölskyldumyndir og samfélagslegar pælingar. Allar mjög persónulegar.
Þetta er órtæmandi brunnur fyrir þá sem kunna að njóta og kunna að sjá.
Væntanleg er bók sem gefin er út af tilefni sýningarinnar.
Tvær myndanna með færslunni tók ég á farsíma minn í dag. Síðan kemur samsett mynd af listamanninum og einu verka hans sem ég fann á netinu og neðst er einnig mynd sem ég fann á netinu.
Sjá einnig þessa sóð: http://blog.dv.is/arkitektur/2013/05/24/myndlist-magnus-kjartansson/
Það er reyndar ekki rétt að listamenn hæli ekki hver öðrum, það gerum við iðulega, alla vegana þeir sem ég þekki…… það er fátt ánægjulegra en þegar kollega gengur vel, og við sem kunnum að gleðjast yfir því höfum að undanförnu sérstaklega glaðst yfir velgengni Ragnars Kjartanssonar, Egils Snæbjörnssonar, Kristínar Gunnlaugsdóttur, Ólafar Nordal og fleiri eðallistamanna……og núna á föstudagkvöldið gátum við glaðst yfir því að sjá yfirlitssýningu á verkum Magnúsar Kjartanssonar, sem eins og hér segir að ofan, var frábærlega skemmtilegur maður en númer eitt frábær listamaður sem mikill sjónarsviptir er að……
Auðvitað tala arkitektar vel um verk hvors annars þegar þannig stendur á.
Ég kannast ekki við þð sem kollegi minn N.N. segir.
Hinsvegar tjá arkitektar sig almennt lítið sem ekkert á opinberum vetvangi um skipulag og arkitektúr. Það er virkilegt áhyggjuefni. Jafnvel amælisvert.
Ég hef sagt það áður að borgarlandslagið og meðferð á náttúru landsins væru öðruvísi ef arkitektar hefðu kjark til þess að segja sína skoðun með málefnalegum og rökstuddum hætti.
Og þá skoðun þarf að segja undir fullu nafni. Ekki að baki einhverrar No Name grímu.
Ég þakka þér Harpa fyrir nnlegg þitt í umræðuna sem er hárrétt.
Magnús var frábær listamaður.
Fallega skrifað.
Ég spyr höfund hvort hann gæti skrifað svona fallega um kollega sinn….bara einhvern?
Ég er sjálfur arkitekt og tryggur lesenda síðunnar. En ég sakna þess að arkitektar hæli hver öðrum rækilega.
Ég veit reyndar að myndlistarmenn hæla heldur ekki hver öðrum.:(