Að mínu mati er arkitektastofan Vandkunsten albesta arkitektastofa norðurlandanna þegar kemur að íbúðahúsahönnun og skipualagi á íbúðahverfum. Svo ég tali skýrt þá þekki ég enga betri á jarðarkringlunni þegar kemur að skipulagi og íbúðahúsahönnun.
Yfirburðir stofunnar eru algerir þegar kemur að félagslegum þáttum, samgöngum, sjálfbærni og vistvænni hönnun. Þeir félagar sjá öll sín verki í stóru samhengi. Þeir horfa á skipulagið nánast utan úr geymnum og breyta svo sjónarhorninu þar til þeir horfa á hurðarhúninn.
Mig minnir að það hafi verið 1972 sem stofan var stofnuð í framhaldi af vinningstillögu þeirra í stórri samkeppni um þétta lága byggð í Danmörku. Tillagan sýndi hugmyndir um breytta og nýja Danmörku þar sem tekið var á öllum málum. Staðsetningu atvinnutækifæra og byggðar, vegakerfi og sjálbærum landshlutum. Tillagan var nokkuð pólitísk en því var sýnd mikil þolinmæði enda var e.k. menningarbylting í stúdentaumhverfinu í miklum blóma á þeim árum. En höfundar voru flestir nemendur og kennarar á Akademiunni. Einn var ágætur kunningi minn.
Vandkunsten sýndi Reykjavíkurborg mikinn heiður þegar stofan bauð fram krafta sína í forvali vegna samkeppni um skipulag í Úlfarsárdal. Boðinu var hafnað í forvalsnefndinni af óskiljanlegum og óútskýrðum ástæðum. Því hefur verið haldið fram að forvalsnefndin hafi ekki haft burði til að líta út fyrir vina- og frændgarðinn og hafnað þessu góða boði þess vegna.
Þessir döpru tímar eru nú vonandi liðnir.
Vegna þess að byggðin í Úlfarsárdal er nú til umræðu og að samkvæmt AR 2010-2030 hefur verið ákveðið að stöðva uppbyggingu á svæðinu tel ég tilefni til þess að rifja þetta upp og birta nokkrar myndir af verkum Vandkunsten.
Engin veit hvaða hugmyndir Vandkunsten hefðu lagt fram í samkeppninni. Og enginn veit hvort þeir hefðu unnið til sigurs. En ég tel fyrir minn hlut að miklar líkur væru á að þarna væri nú blómlegt eftirsóknarverð íbúðabyggð ef borgin hefði borið gæfu til þess að taka þessu góða boði.
Sennilega hefði verið brotið blað í húsahönnun og skipulagi hér á landi hefði Vandkunsten tekist vel upp í samkeppninni.
Þessi heimóttaskapur borgarinnar á sínum tíma er þyngri en tárum taki.
Hjálagðar ljósmyndir sýna vissulega byggingar frekar en skipuag en ef heimasíðan er skoðuð má sjá að skipulagshugmyndir Vandkunsten eru einstakar og staðarvitund mikil. Húsahönnun þeirra er einkar manneskjuleg og handverkið áþreifanlegt og skiljanlegt. Þarna fer saman hugur og hönd.
Neðsta myndin sýnir hluta vinningstillögu þeirra félaga frá 1972
Njótið myndanna og skoðið heimasíðu Vandkunsten.
Hér er slóð að heimasíðu Vandkunsten.
http://www.vandkunsten.com/dk/Projekter
Vissulega snotur hús sumhver.
Reyndar eru þessir klúðurslegu kassar með flötu þökunum ekki það versta við Úlfarsárdalinn og önnur ný hverfi, heldur er aðalvandinn þar hvers illa hefur gengið að fella vinnustaði, verslu og þjónustu að nýjum hverfum.
Eftir standa hálftómar útsölubúðir sem íbúarnir keyra framhjá áhugalausir á leið í vinnu í miðbæinn.
Þyrfti rótæka lausn eins og að flytja flugvöllinn á Hólmsheiðina og byggja nýjan Spítala í Keldnalandinu til að draga atvinnuásinn nær þeim stöðum sem íbúarnir búa.
„Reyndar eru þessir klúðurslegu kassar með flötu þökunum ekki það versta við Úlfarsárdalinn og önnur ný hverfi, heldur er aðalvandinn þar hvers illa hefur gengið að fella vinnustaði, verslu og þjónustu að nýjum hverfum.“
Hluti af svarinu getur verið sá að það er ekki nóg að skipuleggja ákveðinn byggingarkjarna fyrir verslun og aðra starfsemi, slíkt virkar sjaldnast eins og til er ætlast. Eðlilegast væri ef þjónustan næði að spretta upp þar sem hennar er þörf, þ.e. með samspili framboðs og eftirspurnar, sem næst auðvitað ekki nema á tiltölulega löngum tíma. Þá þyrfti auðvitað að hanna hverfið (a.m.k. ákveðna hluta þess) þannig að húsin geti haft margvíslegt notagildi og hægt sé að breyta húsnæði í atvinnuhúsnæði (og öfugt) með litlum tilkostnaði (að þessu leyti er Bryggjuhverfið ágætlega hugsað, og þó ekki hafi náðst að festast þar mikil starfsemi þá getur það breyst á næstu, tja, 50 árum). Þetta er einn gallinn við skipulagsstefnu nútímans, þarfir fólks eru skipulagðar fyrirfram og lítið svigrúm gefið fyrir ólíkar og fjölbreyttar þarfir og fólki gefinn lítill kostur á því að móta umhverfi sitt og hverfi. Það hentar auðvitað borgar- og skipulagsyfirvöldum betur og auðveldar alla yfirsýn, en hentar síður fólkinu, sér í lagi ef stefnt er á blómlega byggð (þetta helst einnig í hendur við séreignastefnuna sem hefur verið við lýði, í dag eru hús og íbúðir eins og hver önnur neytendavara sem ætlast er til að sé glæný og fullbúin við afhendingu, í stað þess að áður fyrr tók fólk sér oft góðan tíma í að koma sér upp þaki yfir höfuðið)
Ég get alveg tekið undir að það hafi verið mikil mistök að taka ekki boði Vandkunsten og ég get líka tekið undir að miklar líkur eru á að þeir hefðu skilað flottri lausn. En ég get ekki tekið undir að „miklar líkur væru á að þarna væri nú blómlegt eftirsóknarverð íbúðabyggð ef borgin hefði borið gæfu til þess að taka þessu góða boði.“
Þótt Vandkunsten geri góða hluti hefðu þeir orðið að sætta sig við borgarstjórnarskiptin 2006 en ný borgarstjórn breytti fyrirliggjandi skipulagi, til verri vegar og enn síður hefði Vandkunsten forðað okkur frá hruninu sem setti alla framvindu skipulagsins úr skorðum.
En enn og aftur hvet ég arkitektafélagið til að taka upp samræður við Rvík um faglega þáttöku í því húsnæðisátaki, sem er framundan. Samkeppni um skipulag, samkeppni um byggingar, samkeppni um íbúðir. Arkitektúr er rammpólitískur en góðar lausnir ná oft að lifa pólitíkina af. Það er takmarkið.
Ég vil taka undir hugmynd Stefáns Benediktssonar um að Arkitektafélagið taki frumkvæði um faglega þáttöku í því húsnæðisátaki sem framundan er. Ég sakna þess líka að opinberir aðilar leggi fé í e.k. tilraunareiti sem hugsanlega gætu fleytt okkur eitthvað áfram í þróuninni til betri lausna ´æi húsnæðismálum.
Varðandi framkomu borgarinnar þegar hún hafnaði Vandkúnsten þá skapraunar það manni auðvitað. Það skapraunar manni að hún skuli hafa hafnað tvímælalaust hæfasta umsækjandanum án þess að gera grein fyrir höfnuninni.
Ég veit líka að Vandkúnsten hefði ekkert ráðið við hrunið eða borgarstjórnarskipti en hitt tel ég nokkuð víst og það er að stofan hefði haft veruleg áhrif á alla umræðu um skipulagsmál hér á landi og opnað nýja glugga þaðan sem fólk upplifði nýja möguleika og ný tækifæri í skipulagi og húsagerð. Það er líka trú mín að aðkoma þeirra að þessum málum hefði styrkt stöðu borgarinnar í samkeppninni um íbua. Ég tel t.a.m. aðp Vellir í Hafnarfirði og svæði í Kópavogi og jafnvel á Suðurnesjum hefðu hugsanlega liðið fyrir framsæknar og vistvænar hugmyndir Vandkunsten +í Úlfarsárdal. Ef þeim hefði tekist vel til hefði svæðið sennilega verið fullbyggt fyrir hrun.
En þetta eru auðvitað bara spádómar sem ekki hafa mikið vægi.
The bottom line is: Borgin varð sér til skammar þegar þeir höfnuðu langbesta umsækjandanum, Vandkunsten, og yfir það fennir aldrei í mínum huga.
Ekki bera nú þessar myndir stofunni fagurt merki. Fádæma ljót og allt of skadinavísk.
Sammála, allt virðist þurfa mikið viðhald.
Ótrúlega flinkir arkitektar sem við misstum af.
Maður gæti grátið.
En hefur þetta breyst?
Vandkunsten er óumdeild og allir þekkja heilindi og frumkvæði hennar. Hún er og var og hefur alltaf verið brautryðjandi.
Og í lokin smá hrós.
Þetta er flott skörp ádeila, en of seint fram komin.