Þriðjudagur 21.08.2018 - 15:30 - 4 ummæli

„Ull“ í skipulagsumræðunni

Kynningarferli í skipulagsmálum er mikilvægara tæki en margan grunar, ef rétt er á haldið.

Lögformelgt kynningarferli er til þess ætlað að laða fram það besta sem mönnum dettur í hug og ekki síður að koma í veg fyrir hugsanleg mistök í skipulaginu. Þetta er lýðræðislegt tæki til þess að virkja borgaranna í skipulagsumræðunni. Þetta er samtal milli borgaranna og stjórnsýslunnar eða á að vera það.

Kynningarferlið er einnig mikilvægt til þess að almennur borgari geti vakið athygli á hagsmunaárekstrum.

Þarna eru hafðir í huga einkahagsmunir og ekki síður almannahagsmunir.

Þetta er líka nauðsynlegt ferli vegna þess að betur sjá augu en auga og hugsanlegt er að þeir sem véla um þessi mál innan stjórnkerfisins yfirsjáist eitthvað í skipulaginu.

En þetta ferli getur verið tafsamt.

Það vekur oft athygli hvað almenningur notar þetta athugasemda ferli lítið. Líklega er það vegna þess að þetta er lítið og illa auglýst og það er mikil vinna að setja sig inn í þessi mál. Aðalástæðan er samt líklega sú að það er lítið og oftast ekkert tillit tekið til athugasemdanna þegar þær berast og þær eru ekki metnar að verðleikum.

Maður gæti haldið að kerfið líti á þá sem gera athugasemdir sem andstæðinga sína, sem þeir eru auðvitað ekki. Þeir eru þvert á móti samstarfsmenn líkt og rýnar sem yfirfara ýmis verk manna sem álitin eru fullgerð og í lagi. Rýnarnir finna oftast eitthvað sem betur má fara og er það þá skilyrðislaust lagfært.

+++

Ég hef þrisvar gert athugasemdir við deiliskipulagsáætlanir. Öll í Reykjavílk og allar vörðuðu þær almannahagsmuni en ekki einkahagsmuni mína.

Þetta var mikil vinna. Ég þurfti að lúslesa deiliskipulagsuppdættina og skilmálana. Bera skipulagið saman við aðalskipulag og þær stefnur,  reglugerðir og lög sem varðaði málin.

Fyrsta sinn varðaði það deiliskipulag vegna Nýs Landspítala þar sem ég gerði athugasemd ásamt einum 816 öðrum. Athugasemd mín varðaði samgöngur, borgarlandslagið og að ég taldi deiliskipulagið ekki falla að Menningarstefnu hins opinbera um mannvirkjagerð frá 2007.

Ekki var mér þakkað fyrir framlag mitt og ekki var tekið tillit til athugasemdanna 817 í framhaldinu.

Í annað sinn varðaði athugasemd mín Hafnartorg þar sem ég taldi massana og fótspor bygginganna of stór og vísaði aftur í menningarstefnuna og skilgreiningar deiliskipulags Kvosarinnar frá 1986 á staðarandanum þar sem áhersla var lögð á að nýbyggingar fléttuðust eðlilega inn í borgarvefinn. Þá vakti ég athygli á að í deiliskipulaginu var ekki gert ráð fyrir Borgarlínunni þarna sem þó var komin inn í aðalskipulagið.

Seinna kom í ljós að það var eins og stjórnsýslan hefði enga hugmynd um að hafnargarðarnir tveir frá 1913 og 1928 væru þarna undir eða gamla steinbryggjan í Pósthússtræti. En þá mátti auðvitað flétta inn í skipulagið.

Ekki var mér þakkað innleggið og ekki var tekið neitt tillit til athugasemdanna.

Í þriðja sinn sem ég gerði athugasemd við auglýst deiliskipulag var hún af arkitektóniskum og sögulegum toga. Það varðaði nýbyggingu austan við Gamla Garð að Hringbraut 29. Við þetta deiliskipulag gerðu einnig einir 7 fyrrverandi formenn Arkitektafélagsins, fyrrverandi ráðherra og þingmaður ásamt mörgum fleirum athugasemd.

Þó athugasemdarfresturinn hafi runnið út 17. ágúst á síðasta ári eða fyrir meira en ári síðan hefur ekkert heyrst frá þeim sem tóku á móti athugasemdunum þó eftir hafi verið leitað. Þetta er aldeilis ótrúleg stjórnsýsla. Þessi seinagangur og hroki gerir það að verkum að fólk, að minnstakosti ég, hættir að nota það tækifæri sem í kynningarferlinu ætti að felast.

+++

Maður finnur að kerfið lítur á samfélagslega ábyrga borgara, sem leggja mikið á sig til þess að færa málin til betri vergar, sem óvini sína. Kerfið þakkar ekki fyrir sig heldur svarar athugasemdunum nánast út í hött og/eða þaggar málin eins og dæmið um Hringbraut sýnir.

Afleiðingin verður sú að fólk hættir að taka þátt og leggja eitthvað til málanna. Gefst upp fyrir óvandaðri stjórnsýslunni.  Nennir þessu ekki. Kannski er það, ómeðvitað, einmitt tilgangurinn.

Samkvæmt fréttum er „ull“ orðið tjáningarform í stjórnsýslu borgarinnar. Það að svara ekki athugasemd, sem óskað hefur verið eftir,  í heilt ár er auðvitað óþolandi og varla hægt að túlka öðruvísi en sem „ull“ þó það sé með öðrum hætti en notað er í borgarráði. Með því að svara ekki er ullað  framan í almenna samfélagslega þenkjandi borgara sem leggja mikið á sig til þess að gera góða borg betri.

Ekki ætla ég að gera meira úr þessu heldur bara „ulla“ á móti þó ég geri mér grein fyrir að það gerir ekkert gagn. Þessi bloggfærsla er því mitt „ull“ í málinu.

+++

Myndin efst í færslunni er mynd af frægasta ulli veraldar og var kennnimerki ofurhljómsveitarinnar The Rolling Stones um áratugaskeið.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

  • Þórður Gíslason

    Það mætti líka benda á svæði sem er kallað Vesturbugt.
    Þar sannast aumingjaskapur hjá þessum svokallaða meirihluta .
    Svæði sem byrjað var að plana árið 2003, sem gera 15 ár í dag.
    Svo kom loksins frétt í fjölmiðlum 18 apríl í fyrra um að framkvæmdir ættu að hefjast innan 15 mánaðar, tími sem leið í sumar- en hvað gerist. Nákvæmlea ekkert.
    Svona vinna þeir hjá borgini.
    Lygi,lygi…………….

  • Jón Björnsson

    Það þarf að breyta þessu í bréf til skipulagsráðs og semda til þeirra. Þau þurfa öll að
    lesa þetta. Koma svo Hilmar!

  • Guttormur

    Fín greining og sönn.

  • Það er með ólíkindum hvað þetta er allt á afturfótunum hjá borginni. Það vanntar alla menningu í samtalið
    milli borgarfulltrúa og þar af leiðandi líka milli borgarinnar og borgaranna. Við þurfum nýjar kosningar sem fyrst.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn